Heilbrigðiskerfi fyrir almenning

Félagslegur rekstur heilbrigðisþjónustunnar er grundvallaratriði. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í velferðarþjónustunni. Arðgreiðslur úr heilbrigðisþjónustu eru óásættanlegar, grunnþjónusta og rekstur sjúkrahúsa er ekki gróðavegur.

Aukin framlög til heilbrigðisþjónustu

Auka þarf framlög ríkisins til heilbrigðisþjónustu þannig að þau verði sambærileg við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Brýnt er að stjórnvöld geri skýra grein fyrir því með hvaða hætti á að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna til framtíðar.

Nýr Landspítali

Setja þarf kraft í að ljúka við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og efla um leið sjúkraflutninga og sjúkraflug um land allt.

Stemmum stigu við gjaldtöku

Stefnt skal að því að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls og draga markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á kjörtímabilinu. Byrjað verði á að lækka kostnað vegna barna, öryrkja og aldraðra og þjónustu göngudeilda sjúkrahúsanna. Hindrum að hér festist í sessi tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustunni.

Öflugri heilsugæsla

Styrkja þarf heilsugæsluna, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, þannig að hún verði alltaf fyrsti viðkomustaðurinn. Komið verði á fót þverfaglegu geðheilsuteymum í heilsugæslunni sem tryggi nærþjónustu og snemmtækt inngrip og heilsugæslan fái einnig skýrt forvarnar- og lýðheilsuhlutverk.

Geðheilbrigðismál

Stórátaks er þörf í geðheilbrigðismálum. Hluti af því er að efla rekstur Landspítalans þannig að unnt sé að tryggja viðunandi þjónustu á bráðageðdeild og barna- og unglingageðdeild. Sálfræðiþjónusta verði hluti af almenna heilbrigðiskerfinu þannig að tryggt verði að enginn þurfi að neita sér um slíka þjónustu sökum kostnaðar.

Sálin, tennurnar og aðbúnaður aldraðra

Forgangsverkefni er að sálfræðiþjónusta verði hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. Sama gildi um tannlækningar, sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum og sjá til þess að aldraðir fái lifað með reisn.

Þverfaglegt samstarf og rétturinn til þjónustu

Þróa þarf þverfaglegt samstarf í heilbrigðis- og velferðarþjónustu, það eykur gæði, öryggi og einfaldar aðlögun að þörfum notenda. Skilgreina þarf rétt sjúklinga til þjónustu og setja viðmið og reglur um hámark biðtíma.