Menntun undirstaða menningar

Tryggja þarf undirstöðumenntun á sviði menningar og lista; tónlistarmenntun um land allt og breyta lögum þannig að ríkið beri ábyrgð á framhaldsstigi í tónlistarnámi. Efla þarf Listaháskóla Íslands og rannsóknir á sviði lista og menningar. Síðast en ekki síst þarf að leggja mikla áherslu á skapandi skólastarf á öllum skólastigum, efla skólabókasöfn og að jafna aðgengi allra barna að menningu og listum. Gera þarf áætlun um hagvísa menningar og skapandi greina.

Aðgengi að menningu

Styðja þarf við almenna þátttöku í menningu og skapandi starfi um land allt. Aðgengi að menningarviðburðum þarf að bæta, m.a. með stórátaki í koma menningararfinum á stafrænt form og því að menningarstofnanir sinni landinu öllu. Fella þarf niður virðisaukaskatt af bókum. Tryggja þarf aðgengi að ólíkri menningu í fjölmenningarsamfélagi. Táknmál þarf að styðja í hvívetna og skýra réttinn til táknmálstúlkunar í lögum.

Faglegir sjóðir og stofnanir

Styrkja þarf sjálfsprottna menningu í gegnum launasjóði og verkefnasjóði þar sem fjármunum er úthlutað með faglegum hætti samhliða styrkingu stofnana.

Öflug höfuðsöfn

Styrkja þarf stöðu Listasafns Íslands og byggja þarf Náttúruminjasafn sem sómi er að. Efla þarf Ríkisútvarpið og tryggja þessari stærstu menningarstofnun landsins vinnufrið og sjálfstæði.

Menning og ferðaþjónusta

Menning og listir eru mikilvægt aðdráttarafl fyrir stærstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustuna. Huga þarf að þessu í stefnumótun fyrir ferðaþjónustu.

Íslensk tunga

Brýnt er að styðja við íslenska tungu með myndarlegum hætti. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á stöðu tungunnar í stafrænum heimi með því að styðja við tungutækni, þróun og nýsköpun á því sviði. Gera þarf 10 ára áætlun um stuðning við íslenskt mál, þýðingar, tvítyngi, textun sem og aðrar rannsóknir og kennslu íslenskunnar á öllum skólastigum.

Það á að styðja betur við bókaútgáfu í landinu. Það verður m.a. gert með því að afnema virðisaukaskatt á bókum en einnig með því að styðja betur við almenna styrktarsjóði á þessu sviði. Skoða þarf sérstaklega stöðu skólabókasafna þannig að þar verði tryggt metnaðarfullt framboð nýrra barnabóka.

Höfundarréttur

Tryggja þarf að listamenn fái greitt fyrir vinnu sína og að réttindi þeirra sem skapa hugverk séu tryggð.