Þak yfir höfuðið

Tryggja þarf húsnæðislán fyrir alla tekjuhópa þannig að þeir sem vilji eignast eigið húsnæði eigi þess kost. Jafnframt þarf að tvöfalda stofnframlög til uppbyggingar leiguhúsnæðis þannig að raunverulegir valkostir verði í boði fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði. Húsnæðisbætur þarf að hækka og samræma fyrir eigendur og leigjendur. Markmiðið er að húsnæðiskostnaður fari ekki yfir fjórðung af ráðstöfunartekjum. Mikilvægt er að styðja við uppbyggingu húsnæðis á félagslegum forsendum í samvinnu við verkalýðsfélög og sveitarfélög. Lögfesta á heimildir til sveitarfélaga til að setja ákveðið þak á hækkun leigu til að tryggja öryggi á leigumarkaði.

Mannsæmandi kjör fyrir alla

Umtalsverð hækkun lægstu launa á að vera forgangsverkefni í kjarasamningagerð næstu ára og hækkun bóta elli- og örorkulífeyris á að fylgja slíkum hækkunum. Einfalda þarf bótakerfið, lífeyrisþegum til hagsbóta. Frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara verði hækkað í 100 þúsund krónur til að hvetja eldra fólk til atvinnuþátttöku. Horfið verði frá krónu á móti krónu skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót öryrkja og tekið upp sanngjarnt frítekjumark.

Tökum á móti fleirum

Ísland á að taka á móti fleira flóttafólki og styrkja stöðu innflytjenda, m.a. með meiri íslenskukennslu, þeim að kostnaðarlausu, sem og móðurmálskennslu fyrir börn sem hafa íslensku sem annað mál. Brýnt er að tryggja að innflytjendum og erlendu verkafólki sé ekki mismunað í launum eða á nokkurn annan hátt.

Fæðingarorlof og leikskóli

Hlúa þarf að barnafjölskyldum, lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækka greiðsluþakið sem og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Leikskólar verði lögbundið verkefni sveitarfélaga og gjaldfrjálsir í áföngum.

Stytting vinnuvikunnar 

Vinstri græn vilja stytta vinnuvikuna. Rannsóknir sýna að stytting vinnuvikunnar eykur bæði framleiðni og lífsgæði. Með því að stytta vinnuvikuna gerum við samfélagið fjölskylduvænna þar sem meiri tími gefst til samveru með fjölskyldunni.

Aukið lýðræði

Meira vald til þeirra sem nota velferðarþjónustuna. Vinna að því að notendur, aðstandendur og fagfólk komi skipulega að ákvörðunum um þróun og mótun þjónustunnar. Ekkert um okkur án okkar.

Fjölbreytt húsnæðisúrræði

Leggja áherslu á að bæta húsnæðismál fólks með geðraskanir og þeirra sem glíma við fíkn.

Víma og refsing

Tryggja þarf fíklum viðunandi meðferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og

heilbrigðiskerfis. Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna.

Notendastýrð persónuleg aðstoð

Notendastýrð persónuleg aðstoð þarf að verða raunverulegt val fyrir þá sem það kjósa og tími til kominn að festa það verkefni í sessi með lögum. Vinna þarf áfram að notendasamráði og valdeflingu notenda velferðarþjónustunnar.