Lýðræðisumbætur og gagnsæi

Nýliðnir atburðir undirstrika mikilvægi þess að stjórnsýslan þjóni almenningi. Fela þarf embætti Umboðsmanns Alþingis að gera umbótaáætlun fyrir stjórnsýsluna og ráðast í kjölfarið í nauðsynlegar úrbætur. Efla þarf löggjafarhlutverk Alþingis, efla ráðuneytin og tryggja að stjórnsýslan sé gagnsæ og þjóni fólkinu.

Áhersla á mannréttindi í löggjöf

Tryggjum félagsleg, efnahagsleg og menningarleg mannréttindi, í samræmi við áherslur í nýrri stjórnarskrá, ekki síður en hin hefðbundnu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi og yfirförum alla löggjöf með hliðsjón af þeim. Þar er til dæmis átt við réttinn til menntunar, atvinnu og heilbrigðisþjónustu. Ekki síður er mikilvægt að innleiða svokölluð sameiginleg mannréttindi sem fela í sér réttinn til þróunar, friðar og heilsusamlegs umhverfis.

Ný stjórnarskrá

Ljúkum þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klárum nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs.

Öflugir fjölmiðlar

Stöndum vörð um sterka og sjálfstæða fjölmiðla. Lækkum virðisaukaskatt á fjölmiðla með það að markmiði að bæta rekstrarforsendur þeirra. Tryggjum faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og breiða aðkomu í stjórn þess. Setjum á laggirnar sjóð fyrir rannsóknablaðamennsku.