Stefna VG í málefnum norðurslóða

samþykkt á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 2013

Undirstöður stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í málefnum norðurslóða er sjálfbær þróun, náttúruvernd, félagslegt réttlæti, kvenfrelsi, herleysi, menningarlegur fjölbreytileiki og alþjóðleg samvinna.

Græn framtíð á norðurslóðum

Vinstrihreyfingin – grænt framboð setur heilbrigt umhverfi, fjölbreytt lífríki og framsækna náttúruvernd í öndvegi þegar kemur að framtíðarstefnu fyrir norðurslóðir. Höfuðverkefni allra þeirra sem vinna að málefnum norðurslóða hlýtur að vera eitt: að stemma stigu við loftlagsbreytingum af mannavöldum. Loftlagsbreytingar ógna ekki aðeins lífríki og lífsháttum á norðurslóðum heldur eru þær afdrifaríkasta áskorun mannkyns alls til framtíðar. Brennsla jarðefnaeldsneytis hefur sérlega alvarleg áhrif á norðurslóðum enda valda sótagnir frá slíkri mengun örri bráðnun íss og jökla. Bráðnun jökla og freðmýra á norðurslóðum er mun örari en jafnvel svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Róttækar og afgerandi aðgerðir nú þegar eru eina ábyrga leiðin fram á við í þeim efnum, hvort heldur er í umhverfislegu tilliti, samfélagslegu eða efnahagslegu.

Í þágu langtímahagsmuna komandi kynslóða geldur Vinstrihreyfingin – grænt framboð varhug við áformum um vinnslu gass og olíu á norðurslóðum. Jarðefnaeldsneyti er sá þáttur sem veldur mestu álagi á lofthjúp jarðar og því felst ákveðin þversögn í því að Ísland taki þátt í að auka á þann vanda á sama tíma og Ísland hefur lagt á það áherslu að skipa sér í fremstu röð þeirra ríkja sem vilja berjast gegn loftslagsvánni. Komi til vinnslu olíu og gass á norðurslóðum þarf að byggja allar ákvarðanir á varúðarreglunni og gera sérstaklega ríkulegar umhverfiskröfur, þar sem um er að ræða afar mikla hagsmuni bæði að því er varðar auðlindir hafs og efnahag þjóðar Til að geta byggt upp sjálfbær samfélög framtíðarinnar er nauðsynlegt að leggja umsvifalaust alla áherslu á þróun annarra orkugjafa og orkusparnað. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill stuðla að samkomulagi norðurslóðaríkja um öfluga samfélagslega uppbyggingu á endurnýjanlegum orkugjöfum og orkusparnaði sem haldist í hendur við minnkandi vægi jarðefnaeldsneytis. Það er á ábyrgð núlifandi kynslóða að tryggja að komandi kynslóðir hafi ráðrúm til að ákvarða sjálfar eigin örlög. Til að svo megi verða þarf afgerandi og framsýna umhverfisstefnu fyrir norðurslóðir í heild sinni.

Margvíslegar aðrar ógnir en loftlagsbreytingar steðja að náttúru, lífríki og landslagi norðurslóða sem takast verður á við með ábyrgum hætti. Efnamengun, þrávirk lífræn efni, þungmálmar og losun geislavirkra úrgangsefna er áframhaldandi alvarlegt viðfangsefni á norðurslóðum. Kalt loftslag gerir það að verkum að mengandi efnasambönd brotna mun hægar niður á norðurslóðum en annars staðar og hlaðast upp í fæðukeðjunni. Það er því sjálfsögð krafa allra þeirra sem byggja norðurslóðir að gera stórauknar kröfur til mengunarvarna og setja sjálfbæra þróun í skilyrðislausan forgang.

Huga verður sérstaklega að verndun sjávar á norðurslóðum og tryggja að nýting lífrænna auðlinda sé með sjálfbærum hætti. Brýnt er að gera samræmda áætlun um vernd lífríkis hafsins og með hvaða hætti koma megi í veg fyrir stórfelld umhverfisslys, ofveiði og óafturkræfan ágang. Tryggja þarf fyrirbyggjandi aðgerðir gegn mengun sjávar í stað þess að einblína eingöngu á viðbrögð eftir að slys eða ofveiði hafa átt sér stað. Ráðast verður meir að rótum vandans en einkennum hans. Hraða verður sérstakri verndaráætlun norðurslóða og tryggja líffræðilega fjölbreytni tegunda, búsvæða og vistkerfa sem og lítt snortið landslag og skipuleggja samræmdar aðgerðir til þess að koma á fót og fjölga friðlýstum svæðum á norðurslóð. Treysta þarf til langframa víðtækt vöktunar- og viðbragðskerfi á norðurslóðum sem samhæfir aðgerðir til náttúruverndar og endurheimtar vistkerfa.

Ísland er vel fallið til rannsókna á breyttu loftslagi og áhrifum þess á náttúru norðurslóða og lífríki sjávar. Með samstilltu átaki gæti í framtíðinni byggst hér upp miðstöð alþjóðlegra rannsókna á áhrifum loftlagsbreytinga á norðurslóðum sem mundi efla enn frekar alþjóðlegt vísindasamstarf, menntun og framþróun á þessu mikilvæga sviði.

Félagslegt réttlæti, kvenfrelsi og mannréttindi á norðurslóðum

Búseta hefur verið á norðurslóðum um þúsundir ára. Þar hafa byggst upp einstakir menningarheimar, lífshættir, tungumál og hefðir þar sem fólk hefur tekist á við gríðarlegar áskoranir á harðbýlasta svæði veraldar og skilað ómetanlegri þekkingu og visku kynslóða á milli. Áhrifa eyðileggjandi nýlendustefnu, arðráns og kerfisbundins niðurbrots á menningu frumbyggja sér víða stað en nú á tímum eru loftlagsbreytingar jafnframt dagleg ógn við hefðbundna lífshætti. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur þunga áherslu á rétt frumbyggja til eigin lands og alhliða viðurkenningar á sjálfstæðum rétti þeirra til blómstrandi menningar á eigin forsendum, lífshátta og sjálfstjórnar.

Rannsóknir hafa sýnt að verðmæti og fjármagn streymir iðulega frá jaðarsvæðum til borga og þéttbýlla svæða eða jafnvel suður á bóginn og út fyrir landsteinana. Það er úrslitaatriði fyrir samfélög norðursins til framtíðar að heimamenn fái sjálfir að njóta auðlinda norðursins með sjálfbærum hætti og að arður haldist heima fyrir á afskekktari slóðum til uppbyggingar innviða og tækifæra fyrir yngri kynslóðir. Ásókn fjölþjóðlegra stórfyrirtækja í auðlindir norðurslóða ágerist af miklu þunga. Hættan er sú að arður sé tekinn frá heimaslóðum beint úr landi og eftir standi til lengri tíma sár í samfélagi jafnt sem náttúru. Nýting auðlinda verður að vera sjálfbær og á forsendum íbúa norðurslóða en ekki hlekkur í gróðavél fjölþjóðlegra stórsamsteypa sem skapa arð fyrir fámennan hóp eigenda sinna og hluthafa fjarri uppsprettu auðsins.

Grundvallarstoð allrar nálgunar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á félagsleg málefni heima og heiman er að tryggja fullt kvenfrelsi þvert á landamæri og þvert á menningarheima. Þetta á við jafnt um norðurslóðir sem önnur svæði heims enda mikilvægasta mannréttindamál sem heimsbyggðin stendur sameiginlega frammi fyrir. Reynslan sýnir og að eftir því sem kvenfrelsismálum er gert hærra undir höfði í allri stefnumótun þeim mun meiri líkur eru á að jafnrétti annarra þeirra sem líða þurfa fyrir mismunun nái fram að ganga. Kvenfrelsismál og mannréttindi öllum til handa haldast í hendur. Það er Íslands að að ganga fram fyrir skjöldu í þessum efnum og tala fyrir því að kvenfrelsi og jafnrétti sé skrifað inn í alla samfélagslega stefnumótun á norðurslóðum. Brýnt er að setja í forgang samræmt áhlaup norðurslóðaríkja gegn kynbundnu ofbeldi og misnotkun. Í þeim efnum ber Íslandi að ganga fram með góðu fordæmi í verki heima fyrir jafnt sem með öflugum málflutningi á alþjóðavettvangi.

Samræmdra aðgerða er þörf til að treysta betur aðgang íbúa norðursins að heilbrigðis- og velferðarþjónustu jafnt í afskekktum þorpum sem og á þéttbýlli svæðum. Með nútímatækni og áherslu á lýðheilsu og forvarnir, öflugri mennta- og atvinnutækifæri samhliða efldum mengunarvörnum má byggja upp almenna heilsu bæði einstaklinga og samfélaga. Til að slíkt megi verða þarf að tryggja að arðrán sögunnar sé ekki endurtekið og útstreymi verðmæta burt frá heimabyggð sé lokið. Tryggja þarf í stefnumótun stjórnvalda að stuðst sé við þróunarvísa sem varðveita og styrkja menningarleg sérkenni norðurslóða á nýrri öld.

Einboðið er að Ísland leggi sérstaka rækt við sína nánustu nágranna, Færeyjar og Grænland. Engar þjóðir í heiminum líta jafn mikið til Íslands eins og þessar grannþjóðir okkar – eða reynast Íslendingum jafn vel þegar á reynir – og rétt er að efla enn frekar tengsl landanna á öllum sviðum. Ísland getur gegnt sérlega uppbyggilegu hlutverki í vestnorrænu samstarfi, ekki síst á sviði mannréttinda, og alhliða samstarf þessara ríkja er öllum til góðs.

Menntun, menning og vísindi á norðurslóðum

Ómetanleg verðmæti felast í menningarlegri fjölbreytni norðurslóða og standa verður sameiginlegan vörð um þá arfleifð. Ísland ætti ekki síst að beita sér fyrir eflingu ólíkra tungumála á norðurslóðum en fjöldi tungumála er við það að deyja út á þessu svæði. Íslendingar geta gert gagn og miðlað af reynslu þegar kemur að varðveislu tungumála og menningararfleifðar á norðurslóðum og eiga að vera einbeitt rödd í þeim efnum á vettvangi Norðurskautsráðsins. Efla þarf mennta- og menningarsamstarf á norðurslóðum og tryggja reglulegt samráð mennta- og menningarmálaráðherra norðurslóðaríkja og talsmanna frumbyggja.

Merkilegt vísinda- og fræðasamstarf hefur byggst upp á norðurslóðum og rækta þarf slíkt samstarf með markvissum hætti. Mikilvægt er að Ísland tali ævinlega máli óhefts og frjáls upplýsingaflæðis og öflugrar fjölþjóðlegrar rannsóknasamvinnu en slíkt hefur afgerandi þýðingu fyrir framþróun mennta, menningar og vísinda á norðurslóðum. Rannsóknir á samfélögum norðurslóða, sögu, menningu, viðhorfum og þróun eru ekki einungis dýrmætt framlag í sjálfu sér heldur byggir slíkt sterkari grunn undir ákvarðanir stjórnmálanna til framtíðar.

Þverþjóðleg samvinna er nauðsynleg til að efla aðgang íbúa norðursins að menntun og tækifærum framtíðarinnar. Í þeim efnum verður Ísland að standa vörð um Háskóla norðurslóða sem er einstakt tengslanet á annað hundrað háskóla og stofnana á norðurslóðum og veitir ekki síst fámennari og afskekktari byggðum aðgang að stærri heimi. Treysta verður í sessi skiptinemaverkefni Háskóla norðurslóða þar sem nemar á norðurslóðum fá tækifæri til að kynnast öðrum menningarheimum norðursins.

Ýmis jákvæði tækifæri lúta að uppbygginga fjarskipta og háhraðaljósleiðara um norðurslóðir en óvíða er slíkt jafn kærkomið og í afskekktum byggðum norðursins. Með öflugri fjarskiptatækni er hægt að tengja saman kennara og nemendur á mismunandi stöðum og veita einangruðu þorpi eða einmana tungumáli aðgang að víðri veröld. Slíkt verður að byggja upp af metnaði. Öflugri nettenging Íslands til austurs og vesturs og samtenging neta á norðurslóðum gæti haft mikla þýðingu fyrir íbúa norðurslóða, ekki síst ungu kynslóðina, og opnað þeim möguleika til betra lífs.

Friður og öryggi á norðurslóðum

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar öllum vígbúnaði og hlutverki herafla á norðurslóðum. Ísland á að vera eindreginn talsmaður þess að allt samstarf á norðurslóðum sé á samfélagslegum grunni. Stuðla verður að því að viðbragðsgeta við slysum og öðrum þeim ógnum sem herja á norðurslóðum færist frá herjum norðurslóðaríkja og yfir á borgaralegar stofnanir. Helstu ógnir á norðurslóðum eru enda ekki af hernaðarlegum toga. Öryggi verður aðeins tryggt með því að beina sjónum sameiginlega að hinum raunverulegu ógnum sem að steðja – svo sem loftlagsbreytingum, mengun og arðráni auðlinda, niðurbroti á heilsu og menningu, kynbundnu ofbeldi og mannréttindabrotum, fátækt, misskiptingu og atvinnuleysi.

Áhugi alþjóðasamfélagsins á norðurslóðum hefur aukist gríðarlega á stuttum tíma. Þann áhuga má fyrst og fremst rekja til þess að margir eygja gróðavon við að ná sem fyrst í auðlindir norðursins, auðlindir sem verður auðveldara að nálgast vegna bráðnunar íss og jökla. Vítahringurinn nærist þannig á sjálfum sér – loftlagsbreytingar sem orsakast af brennslu jarðefnaeldsneytis ýta undir enn frekari brennslu. Fjölþjóðafyrirtæki jafnt sem einstök ríki keppast um að treysta ítök sín á norðurslóðum og festa í sessi yfirráð sín yfir auðlindum. Aðdráttarafl ísbreiðunnar hefur auk þess farið mjög vaxandi í augum ferðamanna en bylting hefur orðið í skráðum ferðum skemmtiferðaskipa á norðurslóðum. Skipin eru jafnan afar illa búin til íssiglinga og ekkert má út af bregða til að af verði slys sem margfalt erfiðara er að eiga við en á suðrænni slóðum. Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna gefur lagalega umgjörð um málefni hafsins en herða þarf til muna reglur um siglingar í Norður-Íshafi. Nokkuð hefur áunnist við að skipuleggja sameiginleg viðbrögð við slysum en efla verður forvarnir og aðgerðir til að koma í veg fyrir slys. Í þeim efnum er nauðsynlegt að lögbinda reglur um siglingar og stórauka eftirlit með þeim. Mikilvægt er að tryggja að Alþjóðasiglingamálastofnunin setji skyldubundnar reglur um öryggi og búnað skipa á hafíssvæðum samhliða því að tryggja að nauðsynleg viðbragðsgeta og búnaður sé til staðar þvert á landamæri norðurslóðaríkja. Í þeim anda er vel við hæfi að Ísland bjóði fram krafta sína sem miðstöð björgunar og viðbragða við slysum á norðurslóðum og efli uppbyggingu alþjóðlegs öryggis- og viðbragðsnets á norðurslóðum.

Ýmsir gera sér vonir um mikil tækifæri fyrir Ísland er varðar umskipunarhafnir á siglingaleiðum norðursins, aukið hlutverk í flugsamgöngum norður á bóginn og aukna þjónustu annars konar sem hægt væri að bjóða upp á af hálfu Íslands. Úrslitaatriði er að allar slíkar hugmyndir séu skoðaðar á breiðum samfélagslegum grunni með langtímahagsmuni í huga en ekki skammtímagróða. Það á að vera sérstaða Íslands að sýna öðrum fremur framsýna og ábyrga afstöðu í umhverfismálum og gæta þess í verki að leiðarljós sjálfbærrar þróunar séu í hvívetna höfð að leiðarljósi.

Framsækin stjórnsýsla á norðurslóðum

Norðurskautsráðið er að ýmsu leyti einstakur alþjóðlegur samvinnuvettvangur sem hefur möguleika á að verða fyrirmynd að nýrri og framsækinni alþjóðlegri stjórnsýslu þvert á landamæri. Ráðið nær til alls norðurskautssvæðisins með aðild Bandaríkjanna, Danmerkur (Grænlands), Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar. Það sem gerir ráðið m.a. sérstakt er virkur aðgangur og þátttaka frumbyggja sem sitja við sama borð og fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkja og taka þátt í vinnuhópum þess. Slík formleg aðild ólíkra samtaka frumbyggja er einstök fyrir svæðasamtök af þessu tagi. Sú staðreynd að ráðið var upphaflega stofnað um náttúruvernd á norðurslóðum að frumkvæði þingmanna landanna er einnig sérstætt á alþjóðavísu og hið öfluga og virta vísindastarf sem fram fer innan ráðsins og nálægð vísindanna við stjórnmálin er enn einn styrkur þess. Þessa þræði í starfi Norðurskautsráðsins verður að efla enn frekar og treysta verður í sessi lykilhlutverk Norðurskautsráðsins í öllu samstarfi á norðurslóðum.

Tryggja þarf aðstöðu frumbyggja til þátttöku og virku aðgengi að starfi ráðsins og vinnuhópum þess. Sömuleiðis þarf að efla hið framsækna vísindastarf sem fram fer innan ráðsins og rækta enn betur tengsl við stjórnmálin og stefnumótun. Formennska í Norðurskautsráðinu skiptist á milli aðildarríkja á tveggja ára fresti en nauðsynlegt er að sameiginleg stefnumótun sé mörkuð til mun lengri tíma og að aukin samfella sé tryggð. Ráðið ætti að styrkja enn frekar með innra samkomulagi aðildarríkja og frumbyggja um bindandi áhrif ákvarðana ráðsins og gera áætlun um öll þau svið þar sem bindandi samkomulags er þörf. Nokkur tímamót urðu í starfi ráðsins þegar bindandi samkomulag allra aðila náðist um leit og björgun á norðurslóðum sem og um varnir gegn olíuvá á norðurhöfum. Leggja þarf línurnar fyrir fleiri slíka lagalega bindandi samninga á ólíkum sviðum umhverfis og mannlífs á norðurslóðum. Þá þarf að vekja betur athygli á málefnum norðurslóða á alþjóðavettvangi og því merka starfi sem unnið er innan Norðurskautsráðsins.

Áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu er mikið í brennidepli enda eru æ fleiri ríki og ríkjasambönd sem sækja um slíka áheyrn. Íslandi ber að vera rödd þess að starf Norðurskautsráðsins sé í hvívetna opið og lýðræðislegt. Fagna ber þeim sem vilja hljóta virka áheyrn að ráðinu enda eru viðfangsefni ráðsins hnattræn í eðli sínu. Þá er og nauðsynlegt að samhæfa betur vinnu og aðgerðir ólíkra samtaka og stofnana sem starfa að norðurslóðamálum. Þannig mætti forðast tvíverknað með því að tengja Barentsráðið inn í Norðurskautsráðið með formlegum hætti og tryggja að vinnu sem unnin er innan Norðurlandaráðs og lýtur að norðurslóðamálum sé jafnframt beint til Norðurskautsráðsins.

Margvíslegt starf að norðurslóðamálum fer fram hér innan lands sem þarf að hlúa að til frambúðar. Treysta ber Akureyri sem miðstöð norðurslóðarannsókna hérlendis og tryggja áframhaldandi starfsemi vinnuhópa ráðsins, CAFF og PAME, á Akureyri. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólinn á Akureyri leika ásamt áðurnefndum vinnuhópum lykilhlutverk við að byggja upp öfluga norðurslóðamiðstöð á Akureyri. Leggja þarf sérstaka rækt við samspil umhverfis og mannlífs á norðurslóðum og styrkja félagslegar rannsóknir og tengingar þeirra við stefnumótun. Á þeim sviðum á Ísland að sækjast eftir að vera leiðandi rödd innan Norðurskautsráðsins.