Hvernig skóla viljum við?

Menntun er forsenda framfara og nýsköpunar. Framtíð Íslendinga í sátt við umhverfið byggir á þekkingarauði þjóðarinnar. Þann auð ber að ávaxta með öflugu menntakerfi fyrir alla á öllum skólastigum.

Skólinn er sameign – Skólakerfið á að vera sameign okkar allra – þar á ekki að innheimta gjöld og það á ekki að vera í einkaeign heldur að vera rekið fyrir fjármuni úr sameiginlegum sjóðum.

Grunngildi – Þrjú grunngildi skipta höfuðmáli í öllu skólastarfi: Sjálfbærni, jafnrétti og lýðræði. Þetta á við allt frá leikskólum upp í háskóla.

Lifandi samfélag – Skólakerfið á að vera lifandi samfélag skólafólks, nemendanna sjálfra og fjölskyldna þeirra. Innan þess verður að mæta þörfum nemendanna í samræmi við þarfir og þroska hvers og eins. Tryggja ber þátttöku nemenda í mótun skólastarfs á öllum stigum.

Fjölbreyttur skóli í fjölmenningarsamfélagi – Virðing fyrir menningu og sérstöðu annarra byggist á þekkingu og virðingu fyrir eigin gildum. Því ber að kynna íslenska menningu sem og menningu annarra þjóða á öllum skólastigum.

Jafngild tækifæri – Skóli án aðgreiningar – Tryggja ber að allir nemendur eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að stunda nám þar sem hæfileikar þeirra njóta sín best. Skólar þurfa að geta mætt þörfum hvers og eins og aflað þekkingar og kunnáttu á ólíkum sviðum.  Slíkt verður einungis kleift með öflugu opinberu skólakerfi frá leikskóla og upp í háskóla

Faglegt frelsi – Innan opinbers skólakerfis verður að ríkja faglegt frelsi til að fagfólk hafi svigrúm til að móta blómlegt og skapandi skólastarf. Skólum ber að tryggja frelsi til að velja milli viðurkenndra skólastefna. Fjölbreytnin verður að vera í fyrirrúmi og stefnu verður að móta á lýðræðislegan hátt .

Tómstundastarf –  Margvíslegt tómstundastarf er öllum nauðsynlegt til þroska og heilbrigðis. Slík ástundun þarf að njóta viðurkenningar þegar lagt er mat á nám einstaklinga. Gera þarf öllum börnum kleift að stunda slíkar tómstundir óháð efnahag.

Móðurmál fyrir alla – Leggja þarf sérstaka rækt við menntun innflytjenda og barna þeirra og tryggja þeim góða íslenskukennslu. Þá þarf einnig að tryggja þeim kennslu í eigin móðurmáli en auk þess leita leiða til að styðja erlenda foreldra í að viðhalda móðurmáli barna sinna. Viðurkenna þarf táknmál sem móðurmál heyrnarlausra og tryggja kennslu í því.

Annað tækifæri – Allir eiga að eiga skilyrðislausan rétt á öðru tækifæri til að ljúka skólanámi hafi þeir áður fallið brott úr námi. Slík tækifæri þurfa að vera aðgengileg sem víðast um landið.

Vönduð kennaramenntun – Styrkja þarf og lengja kennaramenntun á Íslandi svo að hún verði sambærileg við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þá er brýnt að styrkja framhaldsnám og rannsóknir sem og endurmenntun kennara.

Góð kjör – Uppeldi og menntun barna eru mikilvæg störf í nútímasamfélagi og kjör kennara á öllum skólastigum eiga að vera til samræmis við það.

Barnapólitík – Til hvers?

Samfélag fyrir börn – Samfélag samtímans er búið til af fullorðnum og að mestu leyti hannað fyrir fullorðna. Það þarf vilja og kjark til að breyta samfélaginu í þá veru að það verði sniðið meir  að þörfum barna. Það er nauðsynlegt að skapa samfélag þar sem hlustað er á börn og þarfir þeirra virtar. Það þarf að gefa börnum og foreldrum aukin tækifæri til að vera saman.  Slík nálgun er sjálfsögð en ekki bara til hátíðabrigða.

Bernskan hefur sjálfstætt gildi – Börn eru ekki bara fullorðnir framtíðarinnar. Æskan og unglingsárin hafa sjálfstætt gildi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill setja börnin í brennidepil. Sérhvert barn er einstakt og á rétt á því að vera meðhöndlað með virðingu af stofnunum samfélagsins. Öll börn eiga á rétt á umönnun, kærleika og skilningi.

Börn eiga að hafa áhrif – Börn og unglingar þurfa að eiga kost á bestu mögulegu skilyrðum til vaxtar og þroska. Þeirra rödd þarf að heyrast þegar verið er að ráða ráðum í samfélaginu og
stofnunum þess. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur það algjöra nauðsyn að horft sé á málefni barna á heildstæðan hátt, hvort sem um er að ræða skólamál, fjölskyldumál, félagsleg mál eða aðbúnað barna. Forsenda þess að börn geti lært og þroskast er að þau hafi áhrif á umhverfi sitt og taki þátt í því. Hæfileikinn til að velja og axla ábyrgð eru lykilatriði í barnæskunni.

Öll börn í öndvegi – Börnin okkar eiga að búa við bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði sama hvernig þau eru úr garði gerð.  Börn sem líða fyrir fátækt, fötlun, og hvers kyns mismunun þurfa á því að halda að á þau sé hlustað og þau njóti skilnings. Í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði eru öll börn sett í öndvegi, veik og sterk, því þau eru framtíð Íslands.

Leikskólanám er grundvöllur alls skólastarfs

Gjaldfrjáls leikskóli – Leikskólastigið var formlega viðurkennt sem fyrsta skólastigið 1994 og sérstök Aðalnámskrá var sett um leikskólastigið 1999. Eðlilegt er í framhaldinu að leikskólastigið verði gjaldfrjálst þannig að öll börn njóti sama aðgengis að leikskólanámi. Leikskólinn á að verða hluti af menntakerfinu eins og grunnskólinn og eðlilegt er að leikskólar séu fyrst og fremst reknir af opinberum aðilum. Því ber að viðhafa sömu reglur um gjaldtöku í leik- og grunnskólum og leggja niður skólagjöld í leikskóla í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Fjölskyldustefna – Leikskólanám barna er mikilvægt til að foreldrar geti náð jafnvægi milli heimilis og vinnu. Miklu skiptir að leikskólinn sé einsetinn. Ókeypis leikskóli getur einnig létt vinnuálagi á foreldra enda munar þá umtalsvert um leikskólagjöldin.

Börn innflytjenda – Gjaldfrjáls leikskóli eflir íslenskukunnáttu barna innflytjenda og styrkir félagslega aðlögun þeirra. Jafnframt verður að efla stöðu móðurmálsins í leikskólanum og styðja við menningarlega sjálfsmynd þessara barna.

Barnið í brennidepli – Hugmyndafræði leikskólans á að vera barnvæn og þroski barnsins í brennidepli. Til að ná því markmiði er grundvallaratriði að fjölga menntuðum leikskólakennurum á skólunum. Eðlilegt er að áfram verði byggt á þeirri hugmynd að börn læri í gegnum leik í uppgötvunarnámi. Námsvið leikskólans hafa verið tilgreind sem hreyfing, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúra og umhverfi, menning og samfélag. Tilgangurinn er að börnin takist á þroskandi hátt við daglegt líf og umhverfi en einnig að þau séu undirbúin undir hefðbundið grunnskólanám. Miklu skiptir að hlúa að hugmyndafræði leikskólastigsins og efla hana enn frekar.

Fjölbreytni – Fjölbreytni á að vera lykilorð í öllu leikskólastarfi og hver leikskóli á að hafa svigrúm til að móta eigin leikskólamenningu. Jafnframt er mikilvægt að íslenskir leikskólar bjóði öllum börnum jafngild tækifæri. Mikilvægt er að skólarnir njóti faglegs sjálfstæðis til að fagfólk á hverjum stað fái notið sín sem best.

Meiri tengsl – Mikilvægt er að auka samfellu í skólastarfi. Auka má tengsl leikskóla og grunnskóla með því að beita kennslu- og hugmyndafræði leikskólastigsins í fyrstu bekkjum í grunnskólans.  Þar er átt við nálgun, forgangsröð og starfsaðferðir leikskólastigsins eins og að læra í gegnum leik.

Grunnskólastigið er mótunarskeið einstaklingsins

Sjálfstætt æviskeið – Börn verja stórum hluta ævi sinnar í grunnskóla og skólaár og skóladagar eru orðin fleiri og lengri en áður var. Þess vegna er mikilvægt að hugmyndafræði grunnskóla grundvallist á þeirri hugsun að skólinn sé hluti af lífinu en ekki bara undirbúningur fyrir lífið. Bernskan er sjálfstætt æviskeið.

Þekkingarleit – Hlutverk grunnskóla í íslensku nútímasamfélagi er að hlúa að alhliða þroska barna, veita  innihaldsríka og góða menntun og efla færni þeirra við að tileinka sér þekkingu. Góð menntun nýtist þeim sem þegnum í lýðræðissamfélagi.

Ákveðin grunngildi – Leggja skal ákveðin gildi til grundvallar í grunnskólum; þ.e.

  • virðing fyrir fólki
  • virðing fyrir náttúru
  • lýðræðisleg vinnubrögð
  • jafnrétti
  • sjálfbærni

Mikilvægt er að samþætta þessi grundvallargildi í öllu skólastarfi og starfa í skólanum  samkvæmt því sem þar er kennt.

Jafngild tækifæri – Hlutverk grunnskóla er að veita öllum börnum jafngild tækifæri til náms. Hvert barn er einstakt og miklu skiptir að í skólanum sé laðaður fram styrkur þess. Það sem þykir óþekkt við fyrstu sýn getur reynst auðlind ef farnar eru aðrar leiðir. Ekkert mismunar jafnmikið og sama kennsla fyrir öll börn.

Réttindaskrá barna – Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur til að í stað hinnar hefðbundnu aðalnámskrár grunnskóla komi rammanámskrá sem kallist réttindaskrá barna. Börn eiga rétt á að tileinka sér ákveðna þekkingu og þjálfun í tilteknum grunnfögum sem skilgreindur verður í Réttindaskrá barna. Kennarar og skólafólk hafi síðan frjálsar hendur við að móta skólastarf og meta hvernig hægt sé að laða fram það besta í hverju barni í samráði við börn, foreldra og forráðamenn.

Mat á árangri – Núverandi fyrirkomulag samræmdra prófa hefur of stýrandi áhrif á allt skólastarf og njörvar það niður á kostnað frumkvæðis og fjölbreytni. Mikilvægt er að skólastarf sé metið út frá breiðum forsendum. Þar má nefna sjálfsmat skóla; ytra mat fræðsluyfirvalda og mat skóla á framförum nemenda. Meta þarf nám í bóklegum greinum, verklegum greinum og listgreinum, umgjörð skólastarfsins, menntun kennara, sérverkefni og áherslur viðkomandi skóla og umhyggju fyrir nemendum. Eðlilegt er hins vegar að hægt sé að leggja fyrir stöðluð próf (undir nafnleynd) hvenær sem er á námsferli nemenda, til að meta stöðu þeirra, framfarir og fleira í tilteknum greinum sem og stöðu skólanna í samanburði við aðra.

Fjölbreytni – Mikilvægt er að skólar fái svigrúm til að þróa eigin stíl, stefnu og menningu. Um leið er mikilvægt að á Íslandi verði rekið skólakerfi sem býður upp á jafngild tækifæri fyrir öll börn. Eðlilegt er að fagfólk skóla fái svigrúm til að móta stefnu síns skóla í samráði við nemendur, foreldra og forráðamenn.

Börn innflytjenda – Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt og það á líka við um innflytjendur og börn þeirra, skólum ber að tryggja öllum móðurmálskennslu og leita leiða til að styðja erlenda foreldra í að kenna börnum sínum eigið móðurmál. Leggja ber áherslu á íslenskukennslu aðfluttra barna.

Nemendalýðræði – Nemendur eiga mestra hagsmuna að gæta af góðu skólastarfi og því er eðlilegt að leggja höfuðáherslu á hlutverk þeirra sem þátttakenda í skólastarfi og mótun þess. Til að hægt sé að tryggja lýðræðislega þátttöku nemenda í skólastarfi er nauðsynlegt að ala nemendur upp í lýðræðislegum vinnubrögðum og upplýsa þá um réttindi þeirra og skyldur.

Þátttaka foreldra – Skólar skulu vera undir stjórn faglegra aðila sem leiða skólastarfið en jafnframt þurfa nemendur og foreldrar/forráðamenn að geta haft áhrif á það. Mikilvægt er að upplýsingar gangi greiðlega milli skóla og foreldra til að tryggja farsælt samstarf.

Skýrar leikreglur – Miðað við þá hugmyndafræði að skólinn sé fullgildur hluti lífsins — ekki bara undirbúningur fyrir eitthvert annað óskilgreint líf — er mikilvægt að innan skóla gildi skýrar leikreglur, rétt eins og í samfélaginu sjálfu, og tekið sé á því þegar leikreglur eru brotnar, t.d. með einelti, vímuefnaneyslu og öðru slíku.

Tengsl við samfélagið – Miklu skiptir að skólasamfélagið sé í góðum tengslum við samfélagið, hvort sem um er að ræða fagleg tengsl við grenndarsamfélagið eða félagsleg tengsl við nærumhverfi barnsins.

Tengsl skólastiga – Mörk skólastiga þurfa að vera sveigjanleg og sama má segja um lengd grunnskólanáms – það á að geta staðið í níu, tíu eða ellefu ár efir því hvað hentar hverjum og einum. Nýta má starfsaðferðir leikskóla (leikinn) í grunnskólum og að sama skapi má nýta framhaldsskólaáfanga á efstu stigum grunnskóla. Stefna ber að markvissari aðlögun barna sem eru að hefja nám í grunnskóla. Mikilvægt er að börn njóti bernskunnar og þau fái að vera börn eins lengi og hægt er.

Framhaldsskólastigið á að vera skapandi og fjölbreytt

Fjölbreytt framboð – Meira en 90 % hvers árgangs halda áfram námi að loknum grunnskóla. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tryggja að framhaldsskólanám standi öllum til boða sem það vilja. Til að svo megi verða þarf hver einstaklingur að eiga kost á námi við sitt hæfi á sínum hraða. Slíkt verður best tryggt með fjölbreyttu framboði ólíkra námsleiða. Rétt er að leggja af samræmd stúdentspróf.  Ekki ber að stytta nám til stúdentprófs með því að fækka einingum  né valkostum. Slika skerðingu ber að forðast.

Breið undirstaða – Hlutverk framhaldsskóla er að veita nemendum haldbæra og breiða þekkingu sem getur verið undirstaða undir margháttað háskólanám. Eðlilegt er að nemendur hefji sérhæfingu sína í framhaldsskóla með því að gefa þeim kost á ólíkum og fjölbreyttum valgreinum sem geta vakið áhuga þeirra á framtíðarnámi. Því er mikilvægt að fjölbreytni sé tryggð, hvort sem um er að ræða nám í forngrísku, heimspeki, sérhæfðri stærðfræði, myndlist eða pípulögnum.

Mat á námi – Nauðsynlegt er að í boði séu fjölbreyttar starfsnámsbrautir, s.s. iðnnámsbrautir, auk bóklegra námsbrauta og listnáms. Gera þarf þessum leiðum jafn hátt undir höfði. Einnig þarf að tryggja að óformlegt nám njóti viðurkenningar og sé formlega metið. Leita þarf leiða til að taka upp formlega vottun og viðurkenningu á óformlegu námi. Með óformlegu námi er átt við reynslu og nám er verður til utan formlega skólakerfisins og sem skapast t.d af þátttöku í atvinnulífinu, skipulögðu félagsstarfi, íþrótta- og listiðkun o.fl.

Nýtt stúdentspróf – Stúdentspróf ætti ekki að vera bundið við bóknámsbrautir, heldur ber að tryggja að við 18 – 20 ára aldur ættu allir framhaldsskólanemar að geta lokið einhvers konar réttindaprófi, sem gæti heitið stúdentspróf burtséð frá því af hvaða námsbraut prófið er tekið.

Nám sem næst heimabyggð – Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að ungt fólk af landsbyggðinni geti tekið sem mest af grunnnámi sem næst sinni heimabyggð og get valið um bók- starfs- og listnámsbrautir. Á sama tíma þarf þó að tryggja skýlausan rétt nemenda til að njóta kennslu réttindakennara með fag- og kennslufræðimenntun.

Sveigjanlegt skólastarf – Nemendur geti hafið framhaldsskólanám á mismunandi aldri og lokið því á mislöngum tíma. Nemendur geti stundað nám í einstökum greinum með mismunandi námshraða. Þeir geti lokið stúdentsprófi með mismörgum einingum enda hafa þeir ólík náms- og starfsáform að loknum framhaldsskóla.

Tengsl við atvinnulíf – Tengsl starfsnáms, s.s. samningsbundins iðnnáms, við atvinnulífið eru mikilvæg en þar verða þarfir nemenda að vera í fyrirrúmi. Nauðsynlegt er að finna leiðir til að starfsgreinaráðin virki sem skyldi, eða finna ella nýjar aðferðir við að styrkja verk- og starfsnámsbrautir.

Stuttar starfsnámsbrautir – Bjóða þarf upp á stuttar starfsnámsbrautir sem gefa skilgreind réttindi til ákveðinna starfa. Þó verður að gæta þess að nemendur af slíkum brautum eigi alltaf möguleika á áframhaldandi námi kjósi þeir það.

Tengsl við grenndarsamfélag – Við uppbyggingu bók- starfs- og listnámsbrauta þarf að huga að tengslum við atvinnulíf, sögu, menningu og náttúrufar viðkomandi byggðarlags.

Framhaldsskóli fyrir alla – Vandað og fjölbreytt framhaldsskólanám á að standa öllum til boða óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Því á ekki að taka skólagjöld fyrir framhaldsskólanám. Ennfremur eiga nemendur að hafa aðgang að námsbókum og öðrum námsgögnum sér að kostnaðarlausu. Aðgengi allra að  framhaldsskólabyggingum þarf að vera tryggt. Námsaðastaða fyrir nemendur með sérstakar menntunarþarfir verði bætt  og hún boðin í sem flestum framhaldsskólum.

Fjölmenningarlegur framhaldsskóli – Leggja þarf sérstaka áherslu á að bæta aðstöðu innflytjenda til þess að stunda nám á framhaldsskólastigi. Í því skyni þarf að auka íslenskukennslu sem sniðin er að þörfum þeirra, sem læra íslensku sem annað eða þriðja tungumál, auka kennslu um íslenska menningu, gildi og viðmið, bjóða eftir því sem hægt er kennslu í móðurmáli innflytjenda og tryggja greiðan aðgang að náms- og starfsráðgjöf.

Rekstur framhaldsskóla – Vinstrihreyfingin – grænt framboð lítur svo á að einkavæðing í skólakerfinu sé ávísun á mismunum þar sem sumir njóta forgangs í krafti skólagjalda. Slíkt samrýmist ekki hugsjóninni um jafnrétti til náms. Nauðsynlegt er hins vegar að skólar eigi skapandi samstarf við atvinnulífið þó að rekstur framhaldsskóla eigi ekki að liggja í höndum þess.

Alþjóðlegt samstarf – Opna verður fyrir frekari möguleika á samstarfi við erlenda skóla og örva möguleika á nemendaskiptum.

Skapandi skóli – Í fjölbreyttum framhaldsskólum ætti brottfall að vera í lágmarki. Til að lágmarka brottfall er nauðsynlegt að standa vörð um félagslegt umhverfi í skólasamfélaginu og þjálfa félagsfærni nemenda. Til að mæta þeim nemendum sem finna ekki neitt við sitt hæfi í núverandi tilboðum er nauðsynlegt að leita nýrra leiða, t.d. með því að efla skapandi samstarf við tónlistarskóla, aðra sérhæfða skóla á sviði lista, íþróttafélög og fleiri slíka aðila.

Háskóli fyrir alla á nýrri öld

Háskóli fyrir alla – Vinstrihreyfingin grænt framboð vill efla háskólanám og stuðla að því að það verði opið öllum. Efling háskólamenntunar leiðir til betra mannlífs og lýðræðislegra samfélags. Aukin háskólamenntun helstí hendur við aukinn hagvöxt og vinnur gegn stéttamun. En ef háskólinn á að vera fyrir alla verður hann einnig að breytast og þróast áfram. Nám á háskólastigi á að vera fjölbreytt, bæði verklegt og bóklegt. Menntun á ekki að vera forréttindi fárra og er þar háskólamenntun ekki undanskilin. Þetta markmið krefst nýrrar hugsunar og nýrra leiða í háskólanámi. Líkt og gildir um annað nám, þá á það að vera samfélagsskylda að stuðla að því að sem flestir njóti háskólamenntunar.

Samfélagslegur ávinningur – Aukin menntun stuðlar að betra mannlífi og betra samfélagi og helst einnig í hendur við hagvöxt. Ljóst er að stjórnvöld geta ávaxtað mannauðinn með því að hvetja fólk til að sækja sér menntun og búa skólastarfi gott umhverfi. Hins vegar er efnahagslegur ávinningur einstaklinga af háskólanámi oft lítill. Þetta er þó mismunandi eftir því hvaða fög námsmaður leggur stund á, en almennt má segja að ávinningur samfélagsins sé jafnan meiri en ávinningur einstaklingsins.

Engin skólagjöld – Í ljósi hins samfélagslega ávinnings af háskólanámi er augljóst að það kemur samfélaginu til góða að sem flestir leggi stund á háskólanám. Ekki á að koma í veg fyrir eða hindra háskólanám einstaklinga með gjaldtöku af neinu tagi.

Valfrelsi stúdenta –Tryggja ber námsmönnum jafna möguleika á skólavist óháð efnahag námsmanns, vali á námsbraut eða  rekstrarformi skóla.  Fjármuni hins opinbera ber að nýta til að tryggja sem fjölbreyttasta möguleika

Rannsóknir og framhaldsnám – Framhaldsnám á háskólastigi felur í sér mikinn samfélagslegan ávinning og því á það að vera skylda samfélagsins að halda uppi öflugu framhaldsnámi og rannsóknum á háskólastigi.

Starfsnám á háskólastigi – Það er ávinningur samfélags og atvinnulífs að tryggja öflugt starfs- og verknám á háskólastigi. Hið opinbera á að greiða fyrir slíku námi í samvinnu við fyrirtæki, stéttarfélög og aðra hagsmunaðila. Eðlilegt er að hagsmunaaðilar sem efla vilja háskólanám í eigin þágu, taki þátt í kostnaði við það í samvinnu við hið opinbera. Ekki er eðlilegt að velta kostnaði af slíku námi yfir á einstaklinga, enda gagnast nám þeirra atvinnurekendum framtíðarinnar.

Símenntun á háskólastigi – Háskólamenntun á ekki að vera bundin við tiltekið aldursskeið, frekar en við tilteknar þjóðfélagsstéttir. Ástæða er til að efla það endurmenntunarstarf sem þegar er unnið við Háskóla Íslands og fleiri skóla á háskólastigi. Oft taka fyrirtæki og stéttarfélög þátt í að fjármagna þátttöku starfsmanna og félaga í slíku námi en stefna ber að því að einstaklingar búi ekki við aðstöðumun í þessu efni. Ekki er óeðlilegt að hið opinbera komi að því að styrkja slíkt nám, líkt og annað háskólanám. Stuðla ber að því að slíkt nám öðlist sambærilega viðurkenningu við annað háskólanám.

Háskólanám um land allt – Stuðla verður að uppbyggingu fræðasetra og námsvera um land allt þannig að landsmenn allir geti átt kost á því að stunda fjarnám á háskólastigi. Miklu skiptir að slíkt fjarnám sé félagslega uppbyggt en ekki velt yfir á hvern einstakling sem stundi það í sínu horni.

Að læra allt lífið

Löggjöf um fullorðinsfræðslu – Sem stendur er engin löggjöf um fullorðinsfræðslu í landinu. Nauðsynlegt er að bæta úr því og fá fram skýra stefnu stjórnvalda. Tryggja þarf rétt einstaklinga til fullorðinsfræðslu óháð efnahag og öðrum aðstæðum.

Fullorðinsfræðsla er margþætt – Fullorðinsfræðslu má skipta í þrennt:

  • Í fyrsta lagi eru það tækifæri fyrir fullorðna til að ljúka grunn- eða framhaldsskólanámi.
  • Í öðru lagi er það endurmenntun þegar fólk viðheldur þeirri menntun og færni sem þegar hefur verið aflað.
  • Í þriðja lagi er það svo símenntun (lifelong learning) en þá er átt við að í nútímaþjóðfélagi sé eðlilegt og mikilvægt að líta svo á að menntun taki aldrei enda og fólk fari á námskeið og sæki sér endurmenntun eða viðbótarmenntun í samfélagi þar sem mikilvægi símenntunar er viðurkennt.

Af þessum sökum eru ólík sjónarmið sem þarf að huga að þegar rætt er um fullorðinsfræðslu.

Annað tækifæri til náms – Fólk sem ekki hefur lokið grunn- eða framhaldsskólanámi þarf að eiga raunverulegan möguleika á því að geta lokið því á fullorðinsárum. Því þarf að tryggja góðan aðgang að slíkri menntun og tryggja jafngild tækifæri fyrir alla þar sem hið opinbera ber kostnaðinn.  Ekki er eðlilegt að velta kostnaði við þennan þátt fullorðinsfræðslu yfir á einstaklinga.

Læsi fullorðinna – Mikilvægt er að komið verði til móts við fullorðið fólk með lestrarörðugleika og tryggja þarf  raunhæfar námsleiðir um land allt fyrir þetta fólk því að kostnaðarlausu.

Menntun kennara – Til að hægt sé að vinna markvisst að uppbyggingu frambærilegrar fullorðinsfræðslu þarf að tryggja menntun kennara á þessu sviði.

Mat á óformlegu námi – Nauðsynlegt er að taka upp mat á óformlegu námi til að unnt sé að meta færni einstaklinga. Rétt er að meta óformlegt nám/námskeið sem viðkomandi einstaklingur hefur stundað bæði í tengslum við vinnu og í frítíma (símenntun) til styttingar á formlegu námi í grunn- og framhaldssskóla. Þetta getur auðveldað mörgum þeim sem vilja reyna að nýta sér annað tækifæri til náms og ljúka grunn- eða framhaldsskólanámi.

Atvinnurekendur og starfsmenn – Mikilvægt er að komið verði til móts við þarfir einstakra starfsmanna og atvinnurekenda til að tryggja fjölbreytt framboð á starfstengdu námi á vinnustað og endur- og símenntun. Svo að vel takist til er nauðsynlegt að atvinnurekendur og starfsmenn vinni saman að því að meta þarfir starfsmanna fyrir menntun.

Nám í heimabyggð – Tryggja þarf rekstrargrundvöll símenntunarmiðstöðva. Símenntunarmiðstöðvar landsbyggðarinnar eru oft eini aðgengilegi fræðsluaðilinn í dreifðum byggðum landsins og því þarf að styrkja stoðir þeirra þannig að nám í heimabyggð fyrir fullorðna verði raunverulegur og aðgengilegur kostur í fullorðinsfræðslu og hvers konar endur- og símenntun.  Einnig þarf að tryggja framboð á náms-og starfsráðgjöf hjá sömu aðilum þannig að hægt verði að bjóða upp á slíka þjónustu, m.a. í samstarfi við atvinnurekendur.