Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill efla samfélagsþjónustu og velferðarkerfi og tryggja að fjárhagsleg staða fólks skerði aldrei möguleika þess til að njóta opinberrar þjónustu og félagslegs öryggis. Meginstoðir velferðarkerfisins eiga að heyra beint undir ríki og sveitarfélög. Efla þarf umræðu um siðferðisleg gildi í stjórnmálum og opinberu lífi. Auðvelda þarf aðgang að upplýsingum en jafnframt tryggja persónuvernd sem aldrei má fórna á altari tækniþróunar og viðskipta.

Leggja verður allt kapp á að bæta aðstöðu fjölskyldunnar og auka möguleika fólks með ung börn til samveru. Þannig má treysta bönd fjölskyldunnar, vinna gegn upplausn heimila og sókn ungmenna í fíkniefni. Draga verður úr tekjutengingu og jaðaráhrifum í skattkerfinu og almannatryggingum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill styrkja stöðu launafólks til að beita samtakamætti sínu í þágu kjara- og réttindabaráttu og til að hafa meiri áhrif á þróun samfélagsins en það hefur nú.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill beita sér fyrir því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og nýti umvherfisvæna tækni. Sérstaka áherslu ber að leggja á stuðning við fjölbreytta nýsköpun, vöxt og viðgang lítilla og meðlastórra fyrirtækja. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Koma verður í veg fyrir óhóflega gróðasöfnun í skjóli einokunar eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja og skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf í fjölbreyttu og þróuðu atvinnulífi en varast ber að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti.

Úr málefnahandbók:

Næg og fjölbreytt atvinna, öflug velferðarþjónusta, fjölbreytt menningarlíf og lífvænlegt umhverfi eru grundvöllur hverrar byggðar og forsenda farsællar byggðaþróunar.

Fjölbreytni er mikilvægasta viðmiðið í atvinnustefnu á Íslandi. Reynsla seinustu ára sýnir að smá og meðalstór fyrirtæki hafa mesta vaxtarmöguleika. Með því að styðja við bak þeirra má auka útflutningstekjur þjóðarinnar og stuðla að hagvexti án þess að gengið sé á höfuðstól náttúrunnar.

Sjálfbær atvinnustefna

Í sjálfbærri atvinnustefnu eiga umhverfisvernd og atvinnuuppbygging að fara saman. Til þess þarf aukinn skilning á þeim miklu tækifærum sem felast í metnaðarfullri umhverfisvernd. Sumir líta á umhverfisvernd sem dragbít á þróttmikið atvinnulíf en hún er í raun uppspretta æskilegrar atvinnuþróunar.

Hreinleiki lands og sjávar eru undirstaða framleiðslu og sölu á hollum neysluvörum. Við alla framleiðslu þarf að leggja áherslu á hrein framleiðslukerfi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Brýnt er að íslenskar framleiðsluvörur standi undir ímynd hollustu og hreinleika. Nauðsynlegt er að ryðja braut nýjum starfsgreinum á sviði umhverfisfræða.

Koma þarf á umhverfisstefnu og grænu bókhaldi í stofnunum og fyrirtækjum. Mikilvægt er að birta græna þjóðhagsreikninga og endurskoða skattkerfið þannig að taka megi í áföngum upp græna skatta. Innkaupsverð vöru á að endurspegla þann umhverfiskostnað sem framleiðsla, notkun og förgun hafa í för með sér.

Stuðla ber markvisst að aukinni endurnýtingu úrgangs. Flokka þarf í auknum mæli sorp frá heimilum og atvinnustarfsemi og bæta skil til móttökustöðva, ekki síst á efnum sem brotna hægt niður í náttúrunni. Nauðsynlegt er að endurskipuleggja fráveitukerfi landsmanna með áherslu á vistvæn hreinsiferli og endurnýta ætti sem mest af lífrænum úrgangi til jarðgerðar og framleiðslu á áburði og auka verðmætasköpun úr öðrum endurunnum úrgangi.

Sjálfbær orkustefna

Orka er undirstaða nútímalífs, í atvinnuvegum, samgöngum, afþreyingu og heimilishaldi. Sjálfbær orkustefna er einn mikilvægasti hlekkur sjálfbærrar þróunar og Íslendingar ættu að vera flestum þjóðum betur settir í þessum efnum til framtíðar litið. Það er þó háð því að endurnýjanlegar orkulindir hérlendis séu ekki til langframa bundnar í þungaiðnaði og tillit sé tekið til umhverfisverndar við hagnýtingu þeirra.

Mikil tækifæri felast í skynsamlegri nýtingu orkulinda landsins í þágu vistvænnar þróunar atvinnulífs og í góðri sátt við umhverfið. Ef illa er á málum haldið geta virkjanir hins vegar haft mikil og skaðleg áhrif á náttúru og umhverfi. Áframhaldandi  orkusala til mengandi stóriðju skerðir möguleika landsmanna til sjálfbærrar þróunar og þrengir um leið svigrúm til að vernda náttúru og umhverfi. Taka verður ríkulegt tillit til umhverfisins í áætlunum um orkunýtingu og slá á frest ákvörðunum um stóriðju­framkvæmdir á meðan unnið er að heildaráætlun um verndun og nýtingu.

Unnt á að verða að framleiða vetni eða aðra vistvæna orkugjafa með endurnýjanlegum orkulindum og leysa um leið innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi stig af stigi og lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt þarf að draga úr orkusóun á sem flestum sviðum.

Þörf er átaks í rannsóknum á vistvænum orkugjöfum á borð við vindorku, sólarorku og virkjun sjávarfalla. Huga ætti í auknum mæli að smærri vatnsaflsvirkjunum sem ekki hafa teljandi umhverfisáhrif en gætu verið búbót í dreifbýli.

Sjávarútvegur

Auðlindir sjávar eiga að vera raunveruleg sameign þjóðarinnar. Forsendur farsællar sjávarútvegsstefnu til frambúðar eru vistvænar fiskveiðar og vernd uppvaxtarsvæða nytjafiska. Tryggja þarf sjálfbæra nýtingu vistkerfa á hafsbotni og friða mikilvæg svæði fyrir botnlægum og hreyfanlegum veiðarfærum. Ekki er síður mikilvægt að laga sjávarútveginn að markmiðum sjálfbærrar þróunar en kröfum um efnahagslega hagkvæmni.

Framtíð sjávarútvegsins er m.a. kominn undir notkun vistvænna veiðarfæra og umhverfisvænna vinnsluaðferða. Draga verður markvisst úr orkunotkun skipaflotans á aflaeiningu og hvetja til varkárni í umgengni við auðlindina og allt lífríki sjávar. Stefna þarf að því að fullvinna afla, hætta brottkasti sjávarfangs og auka nýtingu alls lífræns úrgangs sem til fellur í sjávarútvegi jafnt á sjó og landi.

Eftir nærri tveggja áratuga fiskveiðistjórn á grundvelli kvótakerfisins er ekki sýnilegt að náðst hafi sá megintilgangur kerfisins að fiskistofnarnir byggist upp og skili hámarksafrakstri. Í mörgum tilvikum er ástand stofnanna nú svipað eða jafnvel verra en fyrir daga kvótakerfisins. Þá hefur kvótakerfið hamlað nýliðun og kynslóðaskiptum í atvinnugreininni og unnið gegn vistvænum veiðum. Í núverandi kerfi er byggðarlögunum ekki tryggður neinn réttur og því hefur framsal veiðiheimilda sums staðar leitt til þess að kvóti hefur horfið á brott og miklir staðbundnir erfiðleikar skapast í atvinnumálum. Auðæfi sem ættu að vera sameign þjóðarinnar og nýtast í þágu hennar allrar hafa safnast til örfárra manna og fyrirtækja sem hafa framtíð heilla byggðarlaga í hendi sér.

Brýnt er að bregðast við óheillaáhrifum af gildandi kvótakerfi og gerbreyta stjórnkerfi fiskveiða með fyrningu veiðiréttar sem komi til framkvæmda í áföngum (sjá nánar sérrit Um sjávarútvegsmál). Þannig verði unnið kerfisbundið að sjálfbærri þróun greinarinnar.

Markmiðin eru að tryggja í verki sameign þjóðarinnar á fiskistofnunum og réttláta skiptingu afrakstursins. Ætíð verði höfð að leiðarljósi sjálfbær og ábyrg nýting lífrænna auðlinda hafsins, þar sem byggt er á heildarsýn, þekkingu og rannsóknum. Auka þarf rannsóknir á sjávarvistkerfum, nytjastofnum og áhrifum veiða og veiðiaðferða.  Við veiðar og nýtingu auðlinda hafsins þarf að vernda sjávarbotninn. Örugg veiðistjórnun tryggir eðlilegan viðgang fiskistofna. Nýting allra nytjastofna skal ákvörðuð að undangengnum rannsóknum og sérstaklega fylgst með veiðum úr tegundum sem ekki lúta almennum reglum um veiðistjórnun. Efla þarf innlendar rannsóknir og alþjóðlegt rannsóknarsamstarf og þar með vísindalegan grundvöll fiskveiðistjórnunar. Lífrænar auðlindir hafsins á að nýta til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og treysta búsetu við sjávarsíðuna, m.a. með því að byggðatengja nýtingarréttindi á grunnslóð.

Landbúnaður

Blómleg byggð í sveitum landsins er dýrmætur hluti þjóðlífsins. Íslenskur landbúnaður á að byggja á vistvænu framleiðsluferli sem er lagað að auðlindum og æskilegu byggðamynstri. Brýnt er að marka framtíðarstefnu um gróðurvernd, landgræðslu og skógrækt. Rannsóknir á vistkerfum landsins ber að efla og hraða skráningu búsvæðagerða og gerð náttúruverndaráætlunar. Koma þarf á virkri beitarstjórnun í öllum landshlutum til að hindra ofbeit.

Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd, styrkir búsetu með fjölbreyttari atvinnu og eykur möguleika á nýsköpun og fjölgun starfa. Íslenskur landbúnaður þarf að þróast í góðri sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun og því ætti að forðast samþjöppun í landbúnaði og verksmiðjubúskap. Setja þarf ákveðin framleiðslumarkmið. Draga þarf markvisst úr eiturefnanotkun í landbúnaði enda verða lífrænar afurðir sífellt eftirsóttari og skapa áhugaverð sóknarfæri á komandi árum

Opinberir aðilar eiga að leggja lið og styðja við sóknarfæri í markaðssetningu og útflutningi á lífrænum landbúnaðarafurðum. Ótakmarkaður innflutningur á niðurgreiddum landbúnaðarvörum gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir innlendan landbúnað, bændur og afkomu þeirra og einnig þær þúsundir launamanna sem eiga afkomu sína undir þjónustu við landbúnaðinn eða vinna úr framleiðsluvörum hans. Fæðu- og afkomuöryggi þjóðarinnar byggist m.a. á því að hún sé sem mest sjálfri sér nóg í framleiðslu landbúnaðarafurða. Sporna þarf gegn vaxandi fákeppni í smásöluverslun og að hún færist í hendur svo fárra og stórra aðila að þeir nái kverkataki á birgjum og framleiðendum, þ.m.t. afurðasölu bænda, enda skerðir það hag neytenda ekki síður en framleiðenda.

Gera þarf greinarmun á þeim opinbera stuðningi sem miðar að því að lækka vöruverð til neytenda og þeim sem miðar að því að viðhalda byggð. Verja þarf sérstöku fjármagni til nýsköpunar í atvinnulífi landsbyggðarinnar þannig að tekið sé mið af staðháttum og aðstæðum þess fólks sem þar vill búa. Miklir möguleikar liggja í ýmsum nýjum búgreinum, fiskeldi og loðdýrarækt, orkuframleiðslu í smáum stíl, ferðaþjónustu, handverksiðnaði, hlunnindanýtingu o.fl.

Kannanir sýna að bændur eru í hópi tekjulægstu stétta. Afar brýnt er að bæta kjör fólks í sveitum landsins. Leggja ber til grundvallar sem almenna viðmiðun að bústærð miðist við fjölskyldubú og gefi sambærilega afkomu og gerist í öðrum atvinnugreinum. Taka þarf fyrirkomulag núverandi framleiðslustýringar og stuðnings við hefðbundna búvöruframleiðslu til gagngerrar endurskoðunar. Fyrirkomulag framleiðslustjórnunar má ekki hindra nýliðun og kynslóðaskipti.

Mikilvægt er að hefðbundinn íslenskur landbúnaður verði héðan af sem hingað til byggður sem mest á íslenskum búfjárkynjum. Vera þarf á verði gagnvart notkun vaxtarhvetjandi hormóna og efna, svo og lyfjanotkun í landbúnaði. Mikla varúð ber að sýna við rannsóknir á sviði líftækni, við framleiðslu erfðabreyttra lífvera og markaðsfærslu á afurðum þeirra. Sama máli gegnir um erfðatækni hjá mönnum og söfnun, dreifingu og hagnýtingu erfðaupplýsinga. Tryggja ber að vörur sem innihalda afurðir erfðabreyttra lífvera séu skýrt auðkenndar þannig að neytendur eigi auðvelt með að velja og hafna. Koma þarf á fót lífsiðfræðiráði til að fjalla um siðfræðileg álitaefni sem tengjast erfðabreytingum á lífverum og rannsóknum á erfðaefni manna. Slíkt ráð þarf að hafa sem besta yfirsýn, veita stjórnvöldum ráðgjöf og miðla fræðslu til almennings.

Ferðaþjónusta

Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein hér á landi, enda hefur fjöldi erlendra ferðamanna margfaldast á síðustu árum. Náttúra Íslands og sérstætt landslag, ekki síst óbyggð víðernin, laða öðru fremur ferðamenn hingað til lands. Það er því mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna að viðhalda óspilltri náttúru og varðveita þannig auðlindina. Skylda Íslendinga er að vera fyrirmynd í verndun náttúru og umhverfis.

Ferðaþjónustuna verður að skipuleggja og reka í anda sjálfbærrar þróunar. Aðeins þannig er mögulegt að gera ferðaþjónustu að blómlegri atvinnugrein til frambúðar án þess að náttúra og umhverfi hljóti skaða af. Í grænni ferðamennsku er byggt á samstarfi við heimamenn á hverjum stað og visthæfum umgengnisháttum. Sérstaka rækt þarf að leggja við heilsutengda ferðaþjónustu, sem grundvölluð er á hreinu lofti og heilnæmu vatni.

Menningartengd ferðaþjónusta er í örum vexti og eru þar óteljandi sóknarfæri. Mikilvægt er að leggja rækt við þessa grein ferðaþjónustunnar sem gefur mikla möguleika víða um land. Með því er unnt að létta á ferðamannaþunga á vinsælum en viðkvæmum stöðum á hálendinu, auka ferðaþjónustu á láglendi og nýta eyðibyggðir, dali og annes, jafnframt því að skapa atvinnu heima í héraði. Með auknum rannsóknum í ferðaþjónustu er hægt að tryggja æskilega þróun, dreifa álaginu á fleiri staði og koma í veg fyrir landspjöll. Fjölga þarf störfum í  tengslum við leiðsögn og fræðslu, m.a. í þjóðgörðum og á öðrum friðlýstum svæðum.

Iðnaður og þjónusta

Við uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á iðnaður að skipa mikilvægt hlutverk, ekki síst ýmiss konar smáiðnaður og handverksiðnaður, auk starfa í verslun, hátækni og hugbúnaðargreinum og hvers konar þjónustu. Hlúa ber að litlum og meðalstórum einingum og vera á varðbergi gagnvart samþjöppun og fákeppni.

Í iðnaði og þjónustu er mikilvægast að hlúa að sem flestum vaxtarsprotum sem horft geta til framfara og fjölbreytni. Yfirgnæfandi meirihluti nýrra starfa verður til í nýjum fyrirtækjum eða smáum og meðalstórum fyrirtækjum í vexti, ekki síst á sviði margháttaðrar þjónustu. Fjölþætt menntun, þekking og rannsóknir skapa þar undirstöðuna. Núverandi áhersla á uppbyggingu fárra risastórra og óheyrilega kostnaðarsamra fyrirtækja er röng og leiðir til einhæfni. Sú stóriðjustefna sem nú er fylgt bindur gríðarlegt orkumagn í fáeinum stórverksmiðjum sem fá niðurgreidda orku frá vatnsaflsvirkjunum á sama tíma og lítið sem ekkert tillit er tekið til umhverfiskostnaðar. Nýsköpun í iðnaði þarf að miðast við skynsamlega nýtingu á orkulindum landsins. Leggja verður mat á þær orkulindir sem til greina kemur að nýta í fyrirsjáanlegri framtíð með tilliti til umhverfisáhrifa, heildarorkumagns, líklegs framleiðslukostnaðar og byggðaþróunar. Við verðlagningu raforku verði tekið fullt tillit til allra kostnaðarþátta, þ.á m. fórnarkostnaðar vegna virkjana og annarra orkumannvirkja.

Í iðnaði ber að leggja áherslu á hrein framleiðsluferli, rannsóknir á visthæfum efnum sem geta komið í stað skaðlegra efna, minni umbúðanotkun og fullvinnslu úr innlendum hráefnum. Styðja á sérstaklega við verkefni sem miða að hreinni framleiðslutækni og uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfa og huga sérstaklega að hönnunariðnaði og nýsköpun sem byggist á sjálfbærri nýtingu auðlinda. Gífurlegir möguleikar eru fólgnir í endurnýtingu úrgangs. Til þess þarf stórátak í flokkun sorps og annars úrgangs, bæði frá heimilum og fyrirtækjum. Endurvinnsla er hluti af náttúruvernd og er atvinnuskapandi þrátt fyrir kostnaðinn. Ný hreinsitækni gefur m.a. möguleika til framleiðslu á lífrænum áburði og eldsneyti úr lífrænum úrgangi.

Aldrei má missa sjónar á því að starfsumhverfi og vinnuaðstæður séu mannsæmandi og þarf í því sambandi sérstaklega að skoða afleysingavinnu og helgarvinnu skólafólks og réttindi þess. Efla þarf iðnmenntun, starfsfræðslu, endurmenntun og símenntun, hlúa að handverki, smáiðnaði og framleiðsluiðnaði, en íslenskt atvinnulíf hefur lengi goldið fyrir einhæfni að þessu leyti.

Mikilvægt er að hlúa að þeim iðnaði sem fyrir er í landinu, þar á meðal steinullariðnaði, byggingariðnaði, sementsframleiðslu, skipasmíði o.s.frv. Um leið ber að hvetja til hvers konar nýsköpunar sem kallar á tiltölulega litla fjárfestingu sem hefur mikla vaxtarmöguleika.

Jafnvægi í byggð landsins

Vandi íslensks atvinnulífs er ekki að tækifæri skorti. Fyrir landsbyggðina skiptir mestu að eytt sé þeim aðstöðumun sem er öllu atvinnu- og mannlífi þar mótdrægur. Lélegar samgöngur, mikill flutningskostnaður, lakari fjarskipti, dýrari orka, erfiðleikar við að sækja sérhæfða þjónustu, vandkvæði á lánafyrirgreiðslu og jafnvel venjulegri bankaþjónustu ásamt ómarkvissri og máttlausri byggðastefnu eru ljón á vegi nýsköpunar í atvinnu- og byggðamálum á landsbyggðinni. Enn hefur samfélagið t.d. ekki brugðist við þeirri staðreynd að konur eru ekki síður fyrirvinnur fjölskyldna en karlar. Mikilvægt er þess vegna að reynt sé að skapa sem fjölbreytilegust atvinnutækifæri á landsbyggðinni.

Ýmsar nágrannaþjóðir hafa sýnt að með réttu hugarfari er hægt að hafa mikil áhrif til góðs í byggðaþróun, þótt aðstæður séu erfiðar. Mörg tækifæri felast í vistvænum fiskveiðum, fjölbreyttri ferðaþjónustu, varðveislu menningarminja, hágæða matvælaframleiðslu og matvælaiðnaði, vatnsútflutningi, lyfja- og heilsuvöruiðnaði, vistvænum orkubúskap, hugvits- og þekkingargreinum, listiðnaði og handverki, iðnaði og þjónustu og margs konar virðisaukandi starfsemi tengdri undirstöðugreinum eins og landbúnaði og sjávarútvegi.

Grundvallaratriði í byggðastefnu er að aðstaða fólks sé sem jöfnust óháð búsetu. Leiðir að því marki eru m.a. þær, að horfið verði með öllu frá áformum um einkavæðingu á helstu stoðkerfum velferðarþjónustunnar, svo sem póst- og símaþjónustu, og árlegur arður hennar sé nýttur skipulega til að efla fjarskipti og grunnnet hinna dreifðu byggða. Gera þarf átak í vegamálum og þá einkum að hraða framkvæmdum í þeim landshlutum sem búa við lakasta tengingu við meginþjóðvegakerfi landsins. Jafna þarf aðstöðu landsmanna til fjarvinnslu og fjárhagslegan aðstöðumun til náms á öllum skólastigum.

Forgangsverkefni næstu ára er að efla innviði samfélagsins á landinu öllu. Gera þarf stórátak í að manna stöður í heilbrigðis- og félagsþjónustunni. Til að treysta byggð í sveitum og bæta lífskjör þarf hið opinbera að styðja félagsþjónustu í afskekktum byggðum. Mikilvægt er að fámennum sveitarfélögum sé gert kleift að axla lögbundin verkefni sín. Jafna þarf orkukostnað og í því sambandi efla rannsóknir og leit að heitu vatni með stuðningi ríkisins á hinum svokölluðu köldu svæðum. Grípa verður til aðgerða til að draga úr þeim framfærslukostnaði sem hátt vöruverð í fámennum byggðarlögum veldur, t.d. með flutningsstyrkjum og sérstökum stuðningi við verslun í strjálbýli.

Rækja þarf undirstöðuþætti opinberrar þjónustu með skipulegum hætti úti um land. Sinna þarf fræðslustarfi á öllum skólastigum í landsfjórðungunum og gera átak til að lyfta hvers konar menningarstarfi og bjarga frá glötun menningartengdum minjum, m.a. í dreifbýli. Stofnun fylkja sem millistigs í stjórnsýslunni gæti auðveldað slíka verkaskiptingu til muna og orðið lyftistöng til eflingar mannlífi utan höfuðborgarsvæðisins.