Húsnæði fyrir alla

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill tryggja öllum þjóðfélagsþegnum öruggt og boðlegt húsnæði óháð efnahag og félagslegum aðstæðum. Öruggir búsetukostir skulu standa öllum til boða. Stuðla ber að einföldu og skilvirku húsnæðiskerfi þar sem nægjanlegt framboð er af búsetukostum í bæði leigu- og eignarhúsnæði. Vinstri græn vilja taka löggjöf um húsnæðismál til gagngerrar endurskoðunar þannig að hún taki mið af þörfum landsmanna, en snúist ekki eingöngu um veðlán á alltof háum verðtryggðum vöxtum eins og verið hefur um áratugaskeið. Húsnæðisstefna stjórnvalda þarf að taka mið af því hvernig við viljum búa í framtíðinni, um búsetuformið sjálft og félagslegan fjölbreytileika, innviði borga, bæja og íbúðarhverfa, lífssýn og væntinga um lífshamingju. Vinstri græn vilja jafnframt gefa þeim heimilum í landinu sem það kjósa kost á að flytja mikið veðsettar íbúðir yfir í íbúasamvinnufélög eða fasteignaleigufélög gegn búseturétti.

Fjölbreyttari valkostir

Vinstri græn vilja auka hlutfall leiguhúsnæðis á húsnæðismarkaði með því að stuðla að bættri löggjöf fyrir fasteignaleigufélög og leigjendur og gera leiguíbúðir að raunhæfum og góðum búsetukosti. Sérstaklega ber að líta til íbúasamvinnufélaga þar sem íbúar verða rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði. Vinstri græn vilja jafnframt styrkja sjálfseign íbúða með því að taka upp húsnæðisvísitölu þar sem áhættu er dreift á milli lántakenda og lánveitenda. Húsnæðisvístala myndi draga úr þörf lántakenda til húsnæðisframlaga. Vinstri græn vilja ennfremur að stjórnvöld hverju sinni styðji við búsetukosti landsmanna með því að tryggja aðgang að lánsfé á sanngjörnum kjörum og með stuðningi í formi húsnæðisframlaga. Þá er lagt til að núverandi húsnæðisbótakerfi verði breytt og tekin verði upp húsnæðisframlög, í stað vaxta- og húsaleigubóta, sem taka mið af stærð fjölskyldu, húsnæði og efnahag hvort sem viðkomandi umsækjandi eða fjölskylda býr í eigin íbúð eða leiguhúsnæði.

Samráð við sveitarfélög

Vinstri græn vilja að stjórnvöld hafi gott samráð við sveitarfélögin í landinu til að tryggja öllum fjölbreytta valkosti í mismunandi búsetuformi og góða og skilvirka nærþjónustu.

Sveitarfélögin kappkosti að bjóða fjölbreytta valkosti í gerð og stærð íbúðarhúsnæðis við skipulag og uppbyggingu nýrra hverfa og við endurnýjun eldri hverfa. Jafnframt er lögð áhersla á að sveitarfélögin geri raunhæfar spár um þörf á uppbyggingu á hverjum stað og að höfuðborgarsvæðið geri sameiginlega spá um þörf fyrir nýbyggingar eða endurnýjun fram í tímann. Sveitarfélögin á landsbyggðinni geri sömuleiðis spár um þörf fyrir nýbyggingar og endurnýjun fram í tímann. Þar sem sérstök þörf verður fyrir nýbyggingar komi til skattívilnana sem taki mið af húsnæðisvísitölu landshlutans. Jafnframt vilja Vinstri græn að þegar verði sett á stofn óháð húsnæðis- og búseturáðgjöf, sem heldur utan um lykilupplýsingar á húsnæðismarkaði og gerir spár um uppbyggingar- og endurnýjunarþörf á húsnæði fyrir húsnæðismarkaðinn í heild sinni. Hlutverk Íbúðalánasjóðs verði skilgreint betur og félagslegt hlutverk hans styrkt.

Vistvænt húsnæði

Vinstri græn leggja áherslu á að nýtt íbúðarhúsnæði verði vistvænt, sjálfbært og í hóflegri stærð. Tillit verði tekið til umhverfissjónarmiða við skipulag nýrra íbúðarhverfa hvað varðar, landnýtingu, almenningssamgöngur, sorphirðu, þjónustu og annað sem stuðlað getur að sjálfbærni samfélagsins. Fullt tillit verði tekið til þess að orkunotkun verði sem minnst við byggingu og rekstur íbúðarhúsnæðis og að lögun þess og skipulag sé með þeim hætti að þau markmið náist. Stuðla ber að því að efnisnotkun verði í samræmi við þessi markmið og að hægt verði að endurnýta eða farga byggingarefni síðar án þess að spilla umhverfinu. Þá leggja Vinstri græn áherslu á að tekið verði tillit til umhverfisþátta, veðurfars og staðbundinnar þekkingar, sögu og menningar. Að íbúðarhúsnæði framtíðarinnar verði góður vitnisburður um byggingarlist hverju sinni. Hugmyndafræði vistskipulags verði aðlöguð að íslenskum aðstæðum.

Endurnýjað húsnæði

Vinstri græn vilja að skipulega verði farið í það að endurnýja eldra íbúðarhúsnæði og aðlaga það að þörfum samtímans hverju sinni án þess að ganga á menningararf í byggðamynstri og í byggingarlist. Endurnýjun eldra íbúðarhúsnæðis verði örvað með sérstöku átaki og aðgerðum eins og t.d. með endurgreiðslu á virðisaukaskatti og lánsfé. Lögð verði áhersla á að bæta húsakost landsmanna, styrkja íbúðahverfi og nærþjónustu og nýta betur þá samfélagslegu innviði sem þegar eru til staðar. Þá verði aðgengi fyrir alla tryggt.

Orðskýringar:

Húsnæðisframlag. Lagt er til að notað verði orðið húsnæðisframlag í húsnæðisstefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í stað þess að nota orð eins og húsnæðisbætur. Húsnæðisframlag hefur jákvæðari merkingu og skírskotar til einhvers sem er lagt til með þeim sem kaupir eða leigir íbúð. Hann er ekki að fá bætur fyrir eitthvað heldur framlag. Orðið bætur hefur neikvæðari merkingu og sá sem býr í íbúð hefur ekki endilega orðið fyrir skaða eða missi. Í dönsku er notað orðið boligsikring og í sænsku er það orðið bostadsbidrag. Bæði skýrskota til framlags eða til að tryggja einhverjum eitthvað í stað skaðabóta.

Húsnæðisvísitala. Lagt er til að tekin verði upp húsnæðisvísitala sem tekur mið af þróun fasteignaverðs og dreifir áhættu af lántöku á milli lánardrottna og skuldunauta. Jafnframt því verði veðhlutfall lækkað og lánstími styttur á eignaríbúðum. Húsnæðisvísitala gildi fyrir ákvörðun á verði húsaleigu.

Íbúasamvinnufélög. Íbúasamvinnufélög eru húsnæðisfélög þar sem íbúar verða rétthafar í félögunum og reksturinn í þágu íbúa en ekki markaðsafla. Eina arðsemiskrafan á reksturinn snýr að því að hægt sé að sinna rekstri og viðhaldi húsnæðis, borga af lánum og stuðla að uppbyggingu félagsins. Allar ákvarðanir eru teknar á íbúafundum og er reglan sú að hver rétthafi fari með eitt atkvæði. Til eru margvíslegar útfærslur á slíkum félögum bæði þar sem íbúar kaupa búseturétt þar sem lagt er til stofnfé og síðan borguð leiga eða leigurétt þar sem íbúar leggja fram tryggingu gegn rýmri réttindum leigjenda.