Hafið bláa hafið… Áherslur og tillögur Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum

-samþykktar af landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í mars 2009

Inngangur

Rit það sem hér birtist er afurð af starfi sjávarhóps Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem hóf störf í ársbyrjun 2008 og hefur hist öðru hvoru síðan. Hópurinn hefur fengið á sinn fund marga sérfróða aðila úr stjórnkerfi og rannsóknastofnunum til að ræða og fræða um stöðu mála á einstökum sviðum sjávarútvegsmála og þátta sem þeim tengjast. Undir vor 2008 fjallaði hópurinn á nokkrum fundum um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem þá var í brennidepli umræðunnar og skilaði tillögum um viðbrögð til stjórnar flokksins. Er hægt að nálgast greinargerð VG um málið rafrænt, sbr. tilvísun á vefslóð aftast í þessari skýrslu.

Efnið sem hér fer á eftir er í senn fróðleikur um alþjóðlega stöðu sjávarútvegsmála og málefni hafsins svo og ábendingar og tillögur um stefnumið VG í málaflokknum. Byggja þær á fyrri samþykktum flokksins, m.a. í umdeildum málum eins og stjórn fiskveiða, og til viðbótar eru settar fram nýjar áherslur, sem ekki síst tengjast sjálfbærri stefnu og vistfræðinálgun í málaflokknum.

Miklar og skyndilegar breytingar til hins verra hafa orðið í íslenskum þjóðarbúskap eftir að starfshópurinn hóf sína vinnu fyrir rösku ári. Þær leggjast af miklum þunga á almenning og íslenskt atvinnulíf, þar á meðal á sjávarútveginn vegna mikilla skulda í greininni. Við það bætist versnandi efnahagsástand í umheiminum og á helstu markaðssvæðum Íslendinga. Starfshópurinn hefði kosið að geta greint þetta ástand betur en unnt var á skömmum tíma. Hins vegar er ástæða til þess einmitt nú að undirstrika mikilvægi sjávarútvegsins sem helstu uppsprettu gjaldeyrisöflunar og sem hreyfiafls í íslenskum þjóðarbúskap.

Starfshópurinn lagði þessa vinnu sína fram til kynningar og umræðu á landsfundi flokksins 20.–22. mars 2009 þar sem um hana var fjallað og hún samþykkt.sem áfangi í stefnumörkun VG í málefnum hafs og sjávarútvegs.

Efnisyfirlit

Inngangur

1. Yfirlit um stöðu fiskveiða á heimsvísu

2. Ísland og svæðasamvinna á Norðaustur-Atlantshafi

 • Rannsóknir og ráðgjöf
 • Alþjóðasamningar
 • Sérstaða íslenskra hafsvæða
 • Loftslagsbreytingar, mengun og aðrar ógnir

3. Sjálfbær nýting – vistvænar veiðar

 • Efling hafrannsókna og samvinna við sjómenn
 • Hafsbotnsrannsóknir og kortlagning Íslandsmiða
 • Vistkerfisstjórnun og lagaumhverfi
 • Hagrænar rannsóknir og fiskvernd
 • Aðgerðir gegn brottkasti
 • Sjávarspendýr
 • Orkusparnaður í sjávarútvegi
 • Siðræn viðhorf

4. Stjórn fiskveiða

 • Réttlát skipting
 • Jafnræði og þjóðareign
 • Innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda
 • Aðrar leiðir til skoðunar
 • Ráðstöfun aflaheimilda við gjaldþrot handhafa
 • Atvinnuréttindi sjómanna og byggða

5. Sóknarfæri í íslenskum sjávarútvegi

 • Þróun fiskvinnslu
 • Umhverfisvottun sjávarafurða
 • Rannsóknir og fræðsla
 • Smábátaútgerð og nýting grunnmiða
 • Veiðar utan landhelginnar
 • Fiskeldi

Ítarefni

 • Fyrri rit Vinstri grænna um sjávarútvegsmál og málefni hafsins
 • Helstu alþjóðasamþykktir tengdar hafinu og fiskveiðum
 • Nokkrar stjórnskipaðar nefndir um sjávarútvegsmál, orkusparnað og loftslag
 • Fróðleikur um fiskeldi

1. Yfirlit um stöðu fiskveiða á heimsvísu

Fiskveiði- og fiskeldisdeild FAO, Matvæla- og landbúnaðardeildar Sameinuðu þjóðanna, er sú stofnun sem safnar upplýsingum um stöðu sjávarútvegsmála á heimsvísu. Nýjasta yfirlitsskýrsla stofnunarinnar er frá árinu 2007 og tekur til ársins 2004 með tilvísun til áranna á undan og að hluta til bráðabirgðamats á stöðunni árið 2005. Heildarfiskafli til manneldis úr sjó frá veiðum og eldi nam á árinu 2004 106 milljón tonnum eða 16,6 kg (lífþyngd) á hvern íbúa jarðar og var sá mesti hingað til. Af þessum afla komu 57% frá veiðum (86 m/t.) en 43% (18 m/t.) úr eldi. Fiskmeti er talið hafa nægt 2,6 milljörðum manna a.m.k. 20% af þörf þeirra fyrir eggjahvítu. Þess utan er fiskafli til annarra nota sem nam 35 milljón tonnum. Heildarafli af fiskveiðum í sjó hefur sveiflast nokkuð milli ára, einkum vegna mikils breytileika á ansjósuafla við Suður-Ameríku. Kína leggur til langmestan afla, 47,5 milljón tonn 2004, þar af tæp 17 milljón tonn úr veiði en hitt úr eldi.

Þróun afla frá ólíkum hafsvæðum hefur verið breytileg, aukist hægt og sígandi á Indlandshafi austanverðu og vestantil á Kyrrahafi, sveiflast nokkuð á norðvestanverðu Kyrrahafi og Norðvestur-Atlantshafi en á báðum síðarnefndu svæðunum er ströng veiðistjórnun. Aftur á móti hefur afli á norðaustanverðu Atlantshafi minnkað upp á síðkastið og í fyrsta skipti síðan árið 1991 fallið niður fyrir 10 milljón tonn. Einnig á Suðvestur-Atlantshafi hefur afli minnkað og náð lægstu stöðu frá 1984 að telja, einkum vegna samdráttar í veiði á smokkfiski. Mestur stöðugleiki hefur reynst vera í afla úr Miðjarðarhafi og Svartahafi. Veiði ferskvatnsfiska sem nam 9,4 milljónum tonna árið 2004, að langmestu leyti í Afríku og Asíu, hefur aukist hægt og sígandi frá því um 1950.

Hlutur Íslands í heimsafla (veiði) árið 2005. Heimild: Statistics Iceland: http://www.fisheries.is/economy/global-comparison/


 
Fiskeldi hefur vaxið hraðar en aðrir þættir eða um 8,8% árlega frá 1970 að telja, en kann nú að hafa náð hámarki á heildina litið. Á því sviði hefur Kína lagt til nærri 70% að magni til (yfir 50% að verðgildi) á heimsvísu, þar af er um 40% vatnakarfi. Frá árinu 2000 hefur vöxtur verið mestur í eldi krabbadýra og sjávarfiska.

Fjöldi sjómanna og þeirra sem starfa að fiskeldi hefur vaxið umfram fólksfjölgun síðustu þrjá áratugi, og voru alls um 41 milljón manns árið 2004, meirihlutinn í þróunarlöndum og flestir í Asíu. Vöxtur fiskeldis hefur skipt mestu í fjölgun starfa.

Fiskiskip af öllum stærðum voru talin vera um 4 milljónir árið 2004, þar af 1,3 milljónir þilfarsskipa og 2,7 milljónir báta án þilfars, þar af 2/3 án véla en knúðir seglum og árum. Ekki færri en 86% þilfarsskipa eru skráð í Asíu en tæp 8% í Evrópu.

Ástand fiskistofna. Síðustu 10-15 árin hefur hlutfall ofveiddra og eyddra fiskistofna staðið í stað eftir að hafa aukist á 8. og 9. áratug 20. aldar. FAO telur að af mældum stofnum sé um fjórðungur vannýttur eða hæfilega nýttur, en á sama tíma sé um helmingur fiskistofna fullnýttur og ekki hægt að sækja meira í þá á sjálfbæran hátt. Ástandið virðist alvarlegast í fiskveiðum sem eingöngu eru stundaðar á úthöfunum, sérstaklega að því er varðar farstofna (e. straddling stocks) og farhákarla (e. highly migratory oceanic sharks). Þetta staðfestir fyrri athuganir sem benda til að veiði úr villtum stofnum í heimshöfunum hafi líklega þegar náð hámarki. FAO hvetur til varkárni og markvissrar fiskveiðistjórnunar til að byggja upp eydda stofna og draga úr hnignun þeirra sem þegar eru ofnýttir eða þola ekki meiri veiði.

Fiskveiðistjórnun. Í stjórnun fiskveiða gegna svæðisbundin samtök (e. Regional Fisheries Management Organizations, skammstafað RFMOs) lykilhlutverki við að koma á alþjóðlegri samvinnu til verndunar og viðhalds fiskistofna. Slík samtök eru að mati FAO eina raunhæfa nálgunin til að hafa stjórn á nýtingu fiskistofna, hvort sem um er að ræða farstofna eða stofna sem nýttir eru sameiginlega á einstökum svæðum og innan efnahagslögsögu ríkja. Meginatriði til að ná fram bættri fiskveiðistjórnun er að styrkja slík samtök. Sum þessara samtaka hafa þó ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt og verið gagnrýnd en mörg þeirra hafa stigið skref til að innleiða vistkerfisnálgun (e. ecosystem approach) í fiskveiðum og ætla sér einnig að taka upp varúðarnálgun (e. precautionary approach).

Alþjóðaviðskipti með fiskafurðir. Á síðustu árum hafa málefni sem snerta alþjóðaviðskipti með fiskafurðir verið ofarlega á dagskrá. Þar er um að ræða merkingar (e. labelling) og skráð framleiðsluferli, vistmerkingar (e. ecolabelling), upplýsingar um ólöglegar veiðar og niðurgreiðslur. Sumir þessir þættir eru á dagskrá Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Hugsanlega verður niðurstaða um samningaviðræður um niðurgreiðslur á þeim vettvangi því háð hvernig ákveðin tæknileg atriði verða skilgreind og afgreidd og einnig hversu langt WTO-meðlimir vilja ganga í að hafa afskipti, ekki aðeins af viðskiptum heldur einnig af umhverfis- og þróunarmálum.

Afli og tegundir. Sveiflur hafa verið í einstökum tegundum sjávardýra undanfarinn áratug, þó hvergi í líkingu við ansjósustofninn. Loðna var í 4. sæti á lista yfir mest veiddar tegundir árið 2002 en féll út af listanum árið 2004. Í stað hennar var þá komin gulugga túnfiskur (e. yellowfin tuna). Haftúnfiskur (e. oceanic tuna) hefur haldist stöðugur í afla frá 2002 að telja en heildarafli djúpsjávartegunda óx um 20% milli áranna 2002-2004. Hlutur úthafsafla (e. oceanic catches) í heildarveiði fór yfir 12% árin 2003 og 2004. Árið 2004 nam rækjuafli 3,6 milljón tonnum og afli kolkrabba 3,8 og hafði þá vaxið verulega áratuginn á undan, rækjuafli um 47% og afli kolkrabba um 28%. Rækja er hins vegar oft ekki greind til tegunda og það sama á raunar við um 37% af heildarafla í heiminum, þar af eru um 10% af afla algjörlega óskilgreind (e. not identified).

2. Ísland og svæðasamvinna í NA-Atlantshafi

Rannsóknir og ráðgjöf

Hafrannsóknastofnunin er lögum samkvæmt opinber rannsóknastofnun sem ætlað er að afla alhliða þekkingar um hafið umhverfis Ísland og lífríki þess, lífsskilyrði og ólífræna þætti, þar á meðal um jarðfræði landgrunnsins. Hún annast jafnfram vísindalega ráðgjöf um nýtingu nytjastofna, eldi sjávarlífvera og tilraunir með veiðarfæri og veiðibúnað. Á vegum Hafrannsóknastofnunar eru starfrækt útibú í Ólafsvík, á Ísafirði, Akureyri, Höfn, í Vestmannaeyjum og Grindavík.

Háskólar og sjávarrannsóknir. Við Háskóla Íslands og við Háskólann á Akureyri fara fram haf- og sjávarútvegsrannsóknir á ýmsum sviðum og hafa verið að styrkjast. Háskóli Íslands starfrækir fimm rannsókna- og fræðasetur í samvinnu við sveitarfélög og fleiri aðila á landsbyggðinni og eru á verkefnaskrá þeirra m.a. náttúrurannsóknir.

Sérstakar stofnanir á hafrannsóknasviði eru nýlega tilkomnar á nokkrum stöðum, m.a. í Ólafsvík..

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður árið 1998. Að honum standa Hafrannsókastofnunin, Matís, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri. Á hans vegum er boðið upp á sex mánaða starfstengt nám hérlendis auk námsskeiðahalds í samstarfslöndum víða um heim.

Fjölþjóðasamtök á sjávarútvegssviði. Hafrannsóknastofnunin tekur þátt í starfsemi nokkurra fjölþjóðasamtaka á sviði haf- og fiskifræði og þar eftirtalin mikilvægust:

1. Alþjóðahafrannsóknaráðið (e. International Council for the Exploration of the Sea, skammstafað ICES) er þar langsamlega mikilvægast. Sem fjölþjóðastofnun með þátttöku 20 ríkja samræmir það og hvetur til hafrannsókna á Norður-Atlantshafi. Öll ríki við norðanvert Atlantshaf og Eystrasalt eiga aðild að ráðinu. Hvert aðildarríki tilnefnir tvo fulltrúa í ráðið (e. ICES Council). Nokkur ríki hafa þar áheyrnaraðild svo og tvö frjáls félagasamtök: Worldwide Fund for Nature (WWF) og Birdlife International. Alþjóðahafrannsóknaráðinu tengjast ekki færri en 1600 vísindamenn frá 200 rannsóknastofnunum sem tengdar eru með sérstakri samþykkt, „The ICES Convention“. Á vegum ráðsins starfar sérstök ráðgjafanefnd (e. Advisory Committee). Vísindamenn sem tengjast ráðinu vinna að þekkingaröflun og mynda sérfræðinefndir sem veita ópólitíska ráðgjöf til ríkisstjórna og annarra aðila hafa stjórnunarhlutverk á svæðinu.


Stofnar sem að Íslendingar eiga hlutdeild í og eru teknir fyrir innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins:

A. Deilistofnar. Stofnar sem eru utan lögsögu (á alþjóðlegu hafsvæði) a.m.k. að einhverjum hluta.

 • Úthafskarfi (Irmingerhaf) – ekkert samkomulag um skiptingu, engin aflaregla.[1]
 • Norsk-íslensk síld – samkomulag um skiptingu, aflamark skv. aflareglu.
 • Kolmunni – samkomulag um skiptingu, aflamark skv. aflareglu.
 • Makríll – samkomulag um skiptingu, aflamark skv. aflareglu, en Ísland þar ekki með.  Íslendingar hófu að veiða makríl innan sinnar lögsögu 2007 og hafa ítrekað reynt að fá aðild að viðræðum um nýtingu makríls en hingað til ekki verið hleypt að samningaborði, utan nýlega sem áheyrnaraðilum.

B. Strandstofnar. Stofnar sem ná til fleiri en einnar lögsögu en eru ekki á alþjóðlegu hafsvæði.

 • Grálúða (Austur-Grænland, Ísland, Færeyjar) – ekkert samkomulag um skiptingu, engin aflaregla.
 • Loðna (Austur-Grænland, Ísland, Jan Mayen) – samkomulag um skiptingu, aflaregla.
 • Gullkarfi (Austur-Grænland, Ísland, Færeyjar) – ekkert samkomulag um skiptingu, engin aflaregla.
 • Blálanga (Austur-Grænland, Ísland) – ekkert samkomulag um skiptingu, engin aflaregla.
 • Keila (Austur-Grænland, Ísland) – ekkert samkomulag um skiptingu, engin aflaregla.

Rétt er að nefna að í sumum strandstofnum hefur veiði innan grænlenskrar lögsögu verið mjög lítil undanfarna áratugi.

C. Íslenskir stofnar.

 • Langa – engin aflaregla.
 • Íslensk síld. Óformleg aflaregla var til, hefur hins vegar ekki verið fylgt sum síðari árin.
 • Ufsi – engin aflaregla
 • Ýsa – engin aflaregla
 • Þorskur. Formleg aflaregla 1995-2007, með ýmsum breytingum. Engin aflaregla nú.


2. Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin
(North East Atlantic Fisheries Commission, skammstafað NEAFC) með þátttöku ríkja við austanvert Atlantshaf o.fl. Nefndin hefur yfirumsjón með stjórn og nýtingu fiskistofna á svæðum utan lögsögu ríkja (úthafssvæðum) á Norðaustur-Atlantshafi (e. NEAFC Regulatory Areas), þ.e. síldarsmugurnar tvær og stórt svæði í Atlantshafi (gul á meðfylgjandi uppdrætti). Þessu til viðbótar er nefndin að stíga fyrstu skref í að flokka hafsvæðin í þekkt veiðisvæði og svæði sem ekki hafa verið nýtt til þessa og móta ákveðnar umgengisreglur vegna veiða á síðarnefndu svæðunum. Nefndin fær vísindaráðgjöf fyrst og fremst frá ICES.

 

Kort af NEAFC svæðinu. Heimild: NEAFC. Sjá http://www.neafc.org/page/273. Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NAFO) starfar með svipuðu móti fyrir vestanvert Atlantshaf.

Einnig ber að nefna 4. Alþjóðhvalveiðiráðið (IWC), 5. Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðið (NAMMCO) og 6. Alþjóða-túnfiskverndarráðið (ICCAT). Þar fyrir utan á Hafró hlut að samstarfsverkefnum á vegum Evrópusambandsins (ESB) og nýtur styrkja frá rannsóknaáætlunum þess.

Þátttaka Íslands í vinnufundum ofangreindra stofnana og aðila tengist einkum vinnu að mati á ástandi nytjastofna svo og rannsóknum og ráðgjöf á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar.

 

Alþjóðasamningar (sbr. yfirlit í viðauka)

Fara þarf yfir alla alþjóðasamninga og skuldbindingar sem Íslendingar eru aðilar að í þeim tilgangi að tryggja að uppfylltar verði þær kröfur sem lúta að umgengni Íslands við lífríki og náttúru, s.s Ríó-yfirlýsinguna, CITES-samninginn, Bernar-samninginn og áætlunina um sjálfbær Norðurlönd. Mengunarbótareglan úr Ríó-yfirlýsingunni leggur auk þess auknar skyldur á herðar þeirra er stunda matvælaframleiðslu, þ.m.t. útgerð og fiskvinnslu. Í fiskvinnslunni fer umtalsvert magn til spillis af nýtanlegu þurrefni og með nýrri hreinsitækni væri mögulegt að nýta slíkt umhverfinu til hagsbóta t.d. með framleiðslu lífrænna áburðarefna.

 

Sérstaða íslenskra hafsvæða

Hafsvæðin við Íslands sem ganga undir ýmsum nöfnum (Grænlandshaf milli Íslands og Grænlands í vestur frá landi; Íslandshaf milli Íslands og Grænlands í norður frá landi; Noregshaf milli Íslands og Noregs í austur frá landi; Atlantshaf suður af Íslandi) og einkennast af því að landið liggur á mótum kaldsjávar norðan við land og hlýsjávar sem berst sunnan að með Golfstraumnum og réttsælis umhverfis land í mismiklum styrkleika eftir tímabilum og árstíðum. Þessu fylgir breytilegt hita- og seltustig og þannig misjöfn og fjölbreytt skilyrði fyrir sjávarlífverur. Skýra þau þá miklu framleiðni og tegundafjölda sem er að finna á Íslandsmiðum. Rannsóknir á þessum hafsvæðum hófust að marki eftir síðari heimsstyrkjöldina frá varðskipum og fiskiskipum og síðar sérsmíðuðum hafrannsóknaskipum. Þótt margt hafi áunnist í þekkingaröflun varðandi íslensk hafsvæði vantar enn mikið á að nægilega skýr mynd hafi fengist af vistkerfum þeirra og afar brýnt að efla grunnrannsóknir varðandi helstu umhverfisþætti. Óvíða er að finna jafn skýr tengsl milli grunnrannsókna og hagnýtrar uppskeru af rannsóknum eins og á hafsvæðum hér við land og skýr heildarmynd umhverfisþátta er forsenda þess að unnt sé að stjórna nýtingu á sjálfbæran hátt.

 

Loftslagsbreytingar, mengun og aðrar ógnir

Umhverfisbreytingar. Rannsóknir síðustu árin á hafsvæðum við Ísland, m.a. á útbreiðslu sjógerða og innflæði Atlantssjávar og millisjávar af atlantískum uppruna sunnan að, benda til áhrifa loftslagsbreytinga sem hafa að líkindum haft áhrif á framboð næringarefna, gróðurs og átu. Geta slíkar umhverfisbreytingar m.a. skýrt sveiflur í stærð, hegðun og útbreiðslu fiskistofna eins og loðnu og kolmunna, svo og göngu ýsu norður af landinu og makríls inn á íslensk hafsvæði.[2] Hlýnun loftslags og bráðnun heimsskautaíss og jökla getur haft í för með sér miklar og afdrifaríkar breytingar í hafinu við Ísland og því afar brýnt að fá sem gleggsta mynd af ríkjandi ástandi og að síðan sé fylgst náið með framvindu. Staðhæft hefur verið að eins og horfir um loftslagsbreytingar á norðurslóðum megi búast við tilfærslu á umhverfisaðstæðum í hafinu vegna hlýnunar sem svari til um 40 km til norðurs á hverjum áratug þessa öldina. Inn í þetta samhengi grípur styrkur Golfstraumsins og þær aðstæður sem hafa áhrif á hann. Sumir vísindamenn telja að á Norðaustur-Atlantshafi kunni þetta að snúast við vegna þess að dregið gæti úr styrk Golfstraumsins.

Mengun í sjó við Ísland hefur hingað til ekki þótt vera mikið áhyggjuefni ef frá er talin loftborin mengun af þrávirkum lífrænum efnum sem safnast upp í fæðukeðjunni, ekki síst á norðurslóðum (fuglar og spendýr). Þó gætir víða mengunar frá landstöðvum við þéttbýlisstaði hérlendis en unnið er að því að draga úr henni í samræmi við alþjóðlega framkvæmdaáætlun (Global Programme of Action for the Protection of the Marine Environment from Land-Based Activities – GPA) frá árinu 1995 sem löguð hefur verið að íslenskum aðstæðum. Uppsöfnun næringarefna samhliða hlýnun sjávar getur við vissar aðstæður ýtt undir þörungablóma og leitt til súrefnisskorts eins og alþekkt er t.d. í Eystrasalti. Um verndun sjávarumhverfis í Norður-Atlantshafi gildir OSPAR–sáttmálinn (Convention for the Protection of the Marine Environment of the North-East Atlantic – OSPAR Convention)  (http://www.ospar.org/) sem 15 ríki að Íslandi meðtöldu eru aðilar að.

Efnaflutningur jökulvatna í formi aurburðar til sjávar hérlendis hefur verið hluti af náttúrulegum aðstæðum í sjó við Ísland, m.a. á hrygningarstöðvum nytjafiska svo sem á Selvogsbanka. Með miðlunarlónum í þágu virkjana í jökulám (Þjórsá-Tungná, Jökulsá á Dal) hefur verið dregið úr slíkum aurburði sem sest til í manngerðum lónum. Þetta kann að hafa neikvæð áhrif á lífríki sjávar og er þörf á rannsóknum þar að lútandi. Fyrir liggur að kalsíumflæði sem fylgir aurburði jökulvatna bindur koltvísýring í hafinu í umtalsverðum mæli og dregur þannig úr gróðurhúsaáhrifum. Minni aurburður til hafs hefur gagnstæð áhrif og ýtir því undir hlýnun andrúmslofts. Nú standa yfir rannsóknir hérlendis þar að lútandi

Hætta af olíumengun vegna flutninga á sjó, slysa og óhappa er hér sem annars staðar. Þessi hætta fer vaxandi vegna tíðari ferða stórra fragtskipa, oft undir hentifánum, sem m.a. flytja hráefni til stóriðjuvera. Reynt hefur verið að bregðast við henni með því að setja reglur um breyttar siglingaleiðir slíkra skipa fjær ströndum landsins. Með hlýnun og bráðnun hafíss í norðurhöfum er búist við að umferð flutningaskipa aukist til muna í grennd við Ísland og hætta þá meiri á mengunarslysum. MARPOL-sáttmálinn (International Convention for the Prevention of Pollution from Ships) er mikilvægasti alþjóðasamningurinn sem varðar varnir gegn mengun frá skipum og skipaumferð, ekki síst vegna olíu. Hugmyndir um olíuhreinsunarstöð hérlendis og olíuvinnslu norðaustur af landinu auka enn, ef til framkvæmda kæmu, á mengunarhættu á íslenskum hafsvæðum og um hana þarf að fjalla af raunsæi á frumstigi slíkra áforma.

Mengun sjávar af völdum geislavirks úrgangs frá kjarnorkuendurvinnslustöðvum á Bretlandseyjum hefur lengi verið áhyggjuefni hérlendis og losun slíks úrgangs í hafið hefur ítrekað verið mótmælt af íslenskum stjórnvöldum. Nýlega framkomnar tillögur breskra stjórnvalda um mikla uppbyggingu kjarnorkuvera kalla á árvekni af Íslands hálfu í samvinnu við önnur hlutaðeigandi ríki, ekki síst Noreg. Síðast en ekki síst er brýnt, eins og margoft hefur verið lagt til á Alþingi frá árinu 1987 að telja, að friðlýsa Ísland og íslenska efnahagslögsögu og lofthelgi gegn umferð kjarnorkuknúinna farartækja og tækja sem flytja kjarnorkuvopn.

3. Sjálfbær nýting – vistvænar veiðar

Á síðustu árum hefur orðið mikil hugarfarsbreyting víða um heim á viðhorfum til hafsins og sjávarauðlinda. Í stað þess að einblína á einstakar tegundir og nýtingu þeirra hafa vistkerfi og fjölstofnasamhengi fangað athygli vísindamanna og tekið að setja mark sitt á nýtingu og veiðistjórnun og hugmyndir um verndun og friðun hafsvæða.

Líta þarf á verndun og nýtingu lífrænna auðlinda hafsins í heildstæðu samhengi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og því þarf að stórefla rannsóknir á sjávarvistkerfum, nytjastofnum og áhrifum veiða og ólíkra veiðiaðferða. Setja ber verndun náttúrufars og lífríkis hvarvetna í forgang og framfylgja varúðar- og vistkerfisnálgun í fiskveiðum. Jafnframt þarf að treysta byggð og atvinnu sem víðast og skapa sem mest verðmæti úr sjávarauðlindunum innanlands.

Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þarf að verða ráðandi í sjávarútvegsstefnu Íslendinga. Tryggja verður að fiskveiðar umhverfis landið séu sjálfbærar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Stórefla þarf hafrannsóknir til að tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu Íslandsmiða til lengri tíma litið. Loks felast tækifæri í orkusparnaði og til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að stuðla að breytingum á fiskveiðiflotanum og á vissum sviðum vinnslu í landi.

Efling hafrannsókna og samvinna við sjómenn

Nauðsynlegt er að stórefla vistfræðilegar rannsóknir og fræðilegar grunnrannsóknir almennt á lífríki sjávar og áhrifum veiða og veiðiaðferða til að hægt sé að meta núverandi ástand og til að marka framtíðarstefnu um verndun og nýtingu auðlindarinnar. Slíkar rannsóknir geta m.a. skorið úr um stofnbreytileika innan tegunda og auðveldað ákvarðanir um staðbundna nýtingu og veiðistjórnun. Á grundvelli þeirra er hægt að taka rökstuddar ákvarðanir um tímabundna eða varanlega friðlýsingu einstakra svæða sem þýðingu hafa vegna tegundafjölbreytni og til að treysta uppvöxt fiskistofna. Efla þarf einnig möguleika rannsóknarstofnana til að rannsaka og meta áhrif mismunandi veiðarfæra, rannsaka áhrif ólíkra veiðarfæra á hafsbotninn og bera saman árangur mismunandi fiskverndaraðgerða.

Treysta þarf samvinnu innlendra rannsóknastofnana og háskólanna, einnig við alþjóðlegar stofnanir og frjáls félagasamtök. Til að nýta krafta sjómanna og útgerðaraðila í hafrannsóknum er rétt að efla þá gagnasöfnun og rannsóknarverkefni sem þeir geta verið þátttakendur í, sbr. greinargerð með tillögu þingmanna VG Sjómenn græða hafið (147. mál á 135. löggjafarþingi 2007–2008). Með slíkri samvinnu má nýta þekkingu og reynslu sjómanna betur en hingað til, draga úr kostnaði við upplýsingaöflun, auka magn og gæði mælinga og glæða gagnkvæman skilning. Meðal þeirra verkefna sem nefna má í þessu samhengi er skráning á yfirborðs- og botnhita sjávar á veiðistöðum, söfnun sýna úr sjó og lífsýna úr sjávardýrum, þróun veiðarfæra og veiðitækni o.fl. Með þessu móti yrði sótt í vannýttan sjóð reynslu og þekkingar sem orðið hefur til hjá þeim sem stunda fiskveiðar og vinnslu og tengja betur saman en hingað til fræðimennsku og reynslu og þekkingu sjómanna. Gott dæmi um þetta er samstarf sjómanna og útgerða annars vegar og Hafrannsóknastofnunarinnar hins vegar við mat á stærð loðnustofnsins.

Hafsbotnsrannsóknir og kortlagning Íslandsmiða

Samkvæmt lögum nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins er íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær. Er um að ræða jafnt lífrænar sem ólífrænar auðlindir aðrar en lifandi verur og er hagnýting háð tímabundnum leyfum stjórnvalda.

Hraða ber kortlagningu hafsbotnsins á Íslandsmiðum og greiningu á búsvæðum sem honum tengjast. Góð og aðgengileg þekking á hafsbotninum er grunnur að vistrænni nálgun við stjórn fiskveiða og verndun og friðlýsingu einstakra svæða.

Vistkerfisstjórnun og lagaumhverfi

Eitt höfuðmarkmið vistkerfisstjórnunar ætti að vera verndun fiskistofnanna þannig að nýting þeirra sé fullkomlega sjálfbær. Nauðsynlegt er að ákvarðanir um hámarksafla séu byggðar á bestu fáanlegum rannsóknum og að í ljósi óvissu eða ónákvæmni í stofnmati sé varúðarreglan höfð að leiðarljósi við slíkar ákvarðanir. Þær mega heldur ekki ganga gegn alþjóðlegum samþykktum um sjálfbæra nýtingu. Setja þarf hið fyrsta rammalöggjöf sem tryggi að efni alþjóðlegra samþykkta sé lagað að fiskveiðistjórnunarkerfinu og lögfestar aflareglur sem viðmiðanir um langtímanýtingu. Samhliða því fari fram heildarendurskoðun á lögum og reglum á sjávarútvegssviði í ljósi vistfræðilegrar nálgunar við stjórn fiskveiða.

Hagrænar rannsóknir og fiskvernd

Efla þarf hagrænar rannsóknir á fjárfestingum í sjávarútvegi, m.a. til að stuðla að hagkvæmri samsetningu flotans með tilliti til sóknar og áhrifa á lífríkið svo og til að nýta skynsamlega viðkomandi stofna. Einnig er tímabært að hefja sérstaka endurskoðun á öðrum þáttum fiskverndar, svo sem reglum um notkun veiðarfæra, landhelgislínur sem vernda grunnslóðina, og varanlega og tímabundna friðun svæða.

Stór svæði á Íslandsmiðum eru nú þegar lokuð fyrir togveiðum, m.a. loka 12 mílna lögsögumörkin fyrir norðan og norðaustan land fyrir togveiðum nær landi, þar sem hins vegar eru heimilaðar rækjuveiðar og veiðar í dragnót. Halda ber slíkum svæðum lokuðum í það minnsta á meðan heildarendurskoðun varðandi svæðafriðun á Íslandsmiðum hefur ekki farið fram.

Aðgerðir gegn brottkasti

Mælingar sem gerðar hafa verið á brottkasti frá árinu 2001 benda til að það hafi verið umtalsvert á þorski og ýsu, breytilegt eftir veiðarfærum og árum og meira í ýsu en í þorski. Miðað við tímabilið 2001-2006 var árlegt brottkast þorsks 1,9 milljónir fiska eða 2,88% landaðra þorska eða 2084 tonn á ári á umræddu árabili. Í ýsu voru samsvarandi tölur 4,12%, 4,3 milljónir fiska eða 2744 tonn. Hjá ufsa og gullkarfa hefur brottkast ekki mælst svo nokkru nemi.[3] Virðist samkvæmt þessu sem minna sé um brottkast en oft er haldið fram í umræðum, en þó full ástæða til að vinna gegn því. Efla ber rannsóknir til að afla nákvæmari gagna um brottkast. Meta ber hvort ekki sé rétt að skylda útgerðir til að hafa eftirlitsmenn á hluta flotans eins og víða er tíðkað erlendis eða koma á hreyfanlegu veiðieftirliti Landhelgisgæslu og Fiskistofu frá sérstökum eftirlitsbátum, svipað og tíðkað hefur verið í Noregi. Slíkir eftirlitsaðilar gætu, hvor aðferðin sem upp yrði tekin, aflað margháttaðra annarra upplýsinga sem nýst gætu m.a. við mat á stofnstærð og meðafla á fiski og öðrum sjávardýrum sem ekki eru nýttar og engar skráningar eru um.

Fleiri aðferðir hafa verið til umræðu eins og að heimila að landa undirmálsfiski utan kvóta en á því eru þó ýmsir annmarkar. Kanna þyrfti sérstaklega meðafla við grásleppuveiðar og hvernig með skuli fara. Athuga mætti að beita sóknartakmörkunum í auknum mæli við stjórn veiða smábáta og strandveiðiflotans til að tryggja betri árangur í aðgerðum gegn brottkasti fisks. Sé fiski eftir sem áður hent þrátt fyrir aukið eftirlit og tilmæli ættu að gilda um það mjög hörð viðurlög.

Sjávarspendýr

Í stefnumörkun VG frá 2007 í ritinu Græn framtíð segir um langtímamarkmið varðandi sjávarspendýr: „Veiðar sjávarspendýra séu háðar sjálfbærni, alþjóðasamningum og víðtæku mati á heildarhagsmunum þjóðarbúsins.“ Um markmið næstu ára segir þar: „Að forsendur selveiða sér við land verði endurmetnar og selarannsóknir og vöktun selastofna verði á verksviði Hafrannsóknastofnunar. – Að engar hvalveiðar verði heimilaðar á meðan fram fer víðtækt mat á sjálfbærni slíkra veiða. Meta þarf hagrænar forsendur veiðanna og áhrif þeirra á ímynd lands og þjóðar. Gæta þarf dýraverndarsjónarmiða og alþjóðlegra skuldbindinga.“ – Um leiðir að þessum markmiðum segir síðan: „Um leið og Íslendingar áskilja sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum verði forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands. – Selarannsóknir og vöktun selastofna verði felldar undir verksvið Hafrannsóknastofnunar og öllum afskiptum hringormanefndar verði hætt. Selveiðar sem hlunnindabúskapur verði áfram heimilaðar undir eðlilegu eftirliti og í samræmi við almenn dýraverndunarsjónarmið.”

VG gagnrýnir harðlega þá ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að heimila á síðustu dögum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde veiðar á hrefnu og langreyði. Þar var um forkastanlega málsmeðferð að ræða sem stangast á við eðlilega stjórnsýslu og varpar skugga á orðstír Íslands. VG leggur áherslu á ofangreinda stefnumótun flokksins varðandi sjávarspendýr og mun fylgja henni eftir við þá víðtæku endurskoðun þessara mála sem nú hefur verið ákveðin.

Orkusparnaður í sjávarútvegi

Brýnt er vinna markvissara en hingað til að orkusparnaði og minnkun á losun gróðurhúsalofts frá fiskveiðum. Ef frá eru talin bílar og faratæki eyða fiskiskip og sjávarútvegurinn mestri orku af öllum meginflokkum eldsneytiskaupenda. Fiskiskip eyða til dæmis meira en fimm sinnum meira af jarðefnaeldsneyti en almennur iðnaður hérlendis og frá sjávarútvegi kemur um fjórðungur af losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis ef marka má nýjustu tölur. Löngu er tímabært að gerð verði sérstök áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi með það að markmiði að hún dragist til lengri tíma litið saman um að minnsta kosti helming miðað við árið 1990.

Meðal atriða sem beina þarf sjónum að við veiðar eru:

 • Samsetning fiskiskipaflotans með tilliti til eldsneytisnotkunar og losunar gróðurhúsalofts á aflaeiningu.
 • Skattlagning á eldsneyti til að hvetja til vistvænna veiða.
 • Ný og hagkvæmari veiðarfæri með tilliti til orkunotkunar og annarra þátta.
 • Nýting eldsneytistegunda sem skila sem bestum heildarárangri (svartolía, lífdísel).
 • Þróun nýrra og vistvænni orkugjafa, m.a. kanna hagkvæmni vetnis með tilliti til tækniþróunar. í aflvélum, nýtingu vindorku við vissar aðstæður (seglabúnaður) og svo framvegis.
Tegund veiða Olía [kg] á fiskafla [kg]
Smábátar (undir 10 tonn) 0,120-0,150
Vélbátar (yfir 10 tonn) 0,200
Ísfisktogarar 0,356
Vinnsluskip 0,432
Loðnu-/síldarskip 0,034
Kolmunni 0,078

Tafla yfir orkunotkun við mismunandi veiðar frá 2006.

Fiskiðnaður. Mörg tækifæri eru til orkusparnaðar í fiskvinnslu í landi. Í fiskimjölsframleiðslu er mikil olía brennd til að framleiða gufu sem svo er notuð til hitunar í vinnsluferlinu. Olíunotkun í fiskimjölsframleiðslu var valdur að 3,3% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi árið 2006. Notkun jarðvarma í fiskiðnaði er útbreidd þegar kemur að þurrkun þorskhausa en einnig mætti nýta jarðgufu við fiskimjölsframleiðslu og þannig draga til muna úr bæði eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda í fiskvinnslu. Á svæðum þar sem ekki er kostur á jarðvarma verði notað rafmagn í stað olíu. Bera þarf saman áhrif fiskvinnslu í landi og á hafi úti með tilliti til orkunotkunar og losunar gróðurhúsalofts.

Rannsaka þarf og skrá hráefnisflutning sjávarfangs á vegum landsins með það að markmiði að draga úr slíkum flutningi og flytja sjávarfang sjóleiðis í meira mæli en nú tíðkast. Eins og staðan er nú er engin útflutningshöfn á norðanverðu landinu frá Reykjavík austur til Eskifjarðar. Landflutningar af þessum sökum eru ekki aðeins orkufrekir og mengandi heldur valda slíkir þungaflutningar einnig sliti á vegakerfinu.

Siðræn viðhorf

Í ritinu Græn framtíð sem Vinstri græn gáfu út 2007 er að finna kafla um náttúrusiðfræði (s. 46–48). Þar er gerð grein fyrir mismunandi sýn siðfræðinga til náttúrunnar, þ.e. eftir því hvort þeir aðhyllast mannhverfa, lífhverfa eða visthverfa afstöðu til náttúrunnar. Tveimur síðarnefndu hópunum er það sameiginlegt að vera í andstöðu við hugmyndina um algjöra sérstöðu mannsins í heiminum. Líta þeir svo á að sú mannhverfa sýn sem ríkt hefur á Vesturlöndum a.m.k. frá tímum iðnbyltingarinnar sé undirrót helstu umhverfisvandamála samtímans.

Á vettvangi FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna) voru sjálfbærni og ábyrgð í fiskimálum ítrekað til umræðu 1991–1995 og lauk henni með samþykkt á siðareglum. Mynda þær ramma fyrir viðleitni einstakra þjóða og alþjóðasamstarf við að tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda ferskvatns og sjávar í sátt við umhverfið. Reglur þessar eru þannig valfrjálsar. Í aðdraganda ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg 2002 um sjálfbæra þróun voru ítrekaðar skuldbindingar þjóða heims til að stunda fiskveiðar með ábyrgum og sjálfbærum hætti.

Árið 2007 gáfu sjávarútvegsráðuneytið, Hafrannsóknastofnunin, Fiskistofa og Fiskifélag Íslands út yfirlýsingu um ábyrgar fiskveiðar á Íslandsmiðum. Er hún einkum ætluð þeim sem kaupa íslenskar sjávarafurðir og vilja kynna sér ástand fiskistofna og veiðar á Íslandsmiðum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur brýnt að treysta í sessi siðræn viðhorf í umgengni við hafið og auðlindir sjávar út frá þeirri sýn að maðurinn sé hluti af náttúrunni og verði að umgangast hana af ábyrgð og með sjálfbærni að leiðarljósi.

4. Breytt fiskveiðistjórn

Harðar deilur hafa staðið um stjórn fiskveiða í meira en tvo áratugi. Þrátt fyrir ákvæði laga um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar hafa aflaheimildir verið markaðsvæddar, með þær farið sem ígildi einkaeignarréttar og þær safnast á æ færri hendur. Framhjá því verður heldur ekki litið að markmið núverandi laga um stjórn fiskveiða hafa ekki náðst og þróunin sumpart orðið í þveröfuga átt. Störfum í sjávarútvegi hefur fækkað og þau flust frá sjávarbyggðum andstætt markmiðinu um að tryggja atvinnu og efla byggð í landinu. Þótt ýmsir nytjastofnar séu í viðunandi ástandi stendur þorskstofninn, mikilvægasti nytjastofn landsmanna, enn höllum fæti. Sumarið 2007 ráðlagði Hafrannsóknastofnun lækkun aflareglu og breytt veiðihlutfall af viðmiðunarstofni úr 25% í 20% í samræmi við tillögur stjórnskipaðrar nefndar sjávarútvegsráðherra frá í apríl 2004. Fól þetta í sér þriðjungsniðurskurð þorskveiðiheimilda í 130 þúsund tonn. Þessi ákvörðun fékk þó ekki að standa lengi því að á síðasta ári jók þáverandi sjávarútvegsráðherra við aflaheimildir í þorski í 160 þúsund tonn í bága við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar. Er þannig í reynd engin aflaregla lengur í gildi í fyrsta sinn frá árinu 1995. Gengur það gegn alþjóðlegum samþykktum þar sem lögð er áhersla á að taka upp aflareglu um langtíma nýtingu sem flestra fiskistofna. Þegar um er að ræða mjög blandaðan afla, þ.e. veiðar fleiri en einnar tegundar á sömu veiðislóð (t.d. þorskur og ýsa) þyrfti við ákvörðun aflamarks fyrir viðkomandi tegundir að taka mið af ástandi þeirrar tegundar eða fiskistofns sem lakast stendur. Sú hagræðing sem fiskveiðistjórnarlögin áttu að stuðla að hefur reynst afar sársaukafull og tvíbent, m.a. vegna hárrar verðlagningar á aflaheimildum, með tilheyrandi skuldasöfnun og erfiðleikum í fiskveiðum og vinnslu. Á þessu þarf að taka af mun meiri festu en hingað til.

Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs sem framundan er. Þótt íslenskur sjávarútvegur glími nú við erfiðleika vegna mikilla skulda og versnandi efnahagsástands á sínum helstu markaðssvæðum er ljóst að möguleikar Íslendinga til gjaldeyrisöflunar og verðmætasköpunar liggja að stórum hluta í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn mun að öllum líkindum enn á ný reynast það hreyfiafl sem knýr íslenskt hagkerfi áfram þegar mest á reynir.

            Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lengi talið mikilvægt að ráðist verði í úrbætur á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi til að ná fram réttlátara aðgengi að nytjastofnum á Íslandsmiðum en nú er. Varanlegasta breytingin, og sú sem beinast liggur við að innleiða, er að hefja endurráðstöfun aflaheimilda og eftir atvikum að koma á annars konar afnotarétti, að undangenginni innköllun aflaheimilda um leið og gætt sé jafnræðis. Fyrir utan þá meginleið sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur talað fyrir, og nefnist hér innköllun og endurráðstöfun, er flokkurinn tilbúinn að skoða aðrar leiðir til innköllunar fiskveiðikvótans verði það til að flýta fyrir nauðsynlegum umbótum á fiskveiðistjórnarkerfinu.

 

Jafnræði og þjóðareign

Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði tekinn af allur vafi um að fiskistofnanir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Á úthlutun aflaheimilda ber að líta sem tímabundinn afnotarétt og mynda þær undir engum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum. Ennfremur er rétt, til að bregðast formlega við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að kveða í lögum á um að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og veittu aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.

Innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda

Megintilaga. Nærtækasta leiðin til að tryggja réttlátari skiptingu fiskiauðlindarinnar er að undirbúa og hefja innköllun og endurráðstöfun heildaraflaheimilda stig af stigi, eins og lagt er til í sjávarútvegsstefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá árinu 2003. Þar er gert ráð fyrir að 5% aflaheimilda verði innkallaðar árlega. Til þess hins vegar að auðvelda útgerðaraðilum aðlögun að breyttum aðstæðum verði þeim fyrstu 6 árin gert mögulegt að halda eftir 3% af þeim 5% sem árlega eru innkallaðar á því tímabili Þessum 3% aflaheimilda héldi útgerðin sem einskonar „biðkvóta“ og greiddi fyrir hann með sérstökum afnotasamningi við ríkið til sex ára. Að sex árum liðnum bættust þessi 3% aflaheimilda ár frá ári við þær 5%-heimildir sem innkallaðar eru árlega.

Þrískipting innkallaðra heimilda.

1. Þriðjungi aflaheimilda verði endurráðstafað á hverju ári á opinberum leigumarkaði þannig að útgerðir á hverjum tíma eigi kost á að leigja þær til allt að sex ára í senn samkvæmt skýrum og gagnsæjum leikreglum. Fiskvinnslum sem stunda frumvinnslu sjávarafurða gefist einnig kostur á að bjóða í aflaheimildir í hlutfalli við raunverulega vinnslu á þeirra vegum undangengin ár samkvæmt nánari reglum. Leigutekjum vegna þessara aflaheimilda skal skipt milli ríkis og sveitarfélaga eftir nánari reglum sem settar verði.

2. Annar þriðjungur árlega innkallaðra aflaheimilda gangi til sveitarfélaga og verði þannig bundinn við sjávarbyggðir umhverfis landið. Við skiptingu aflaheimilda milli sveitarfélaga verði byggt á vægi sjávarútvegs, veiða og vinnslu í atvinnulífi viðkomandi sjávarbyggða og hlutfallslegu umfangi innan greinarinnar að meðaltali síðastliðin tuttugu ár. Um þessa skiptingu verði settar nánari reglur að viðhöfðu víðtæku samráði þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Hlutaðeigandi sveitarfélög ráðstafa þessum þriðjungi aflaheimildanna fyrir hönd þeirra sjávarbyggða sem þeim tilheyra. Óheimilt verði að framselja byggðatengdar aflaheimildir varanlega frá viðkomandi sveitarfélagi. Kjósi sveitarfélögin að innheimta leigugjald fyrir aflaheimildirnar renna tekjurnar til viðkomandi sveitarfélags.

3. Síðasti þriðjungur árlega innkallaðra aflaheimilda verði boðinn þeim handhöfum veiðiréttarins sem innkallað er frá til endurleigu gegn hóflegu kostnaðargjaldi á grundvelli sérstaks afnotasamnings til sex ára í senn. Samningnum fylgi sú kvöð að heimildirnar verði aðeins nýttar af viðkomandi aðila. Ráðstöfun þessa hluta aflaheimilda verði tekin til endurskoðunar áður en 20 ára innköllunartímabilinu lýkur.

Aðrar leiðir til skoðunar

Þótt innköllun og endurráðstöfun aflaheimila eins og að ofan greinir sé megintillaga Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er flokkurinn engu að síður reiðubúinn til að skoða aðrar leiðir til réttlátari skiptingar, geti það orðið til að flýta fyrir breytingum í rétta átt og útilokar engar þeirra fyrirfram.

Bann við sölu aflaheimilda milli útgerða. Athuguð verði hið fyrsta áhrif þess að banna varanlegt framsal aflaheimilda milli útgerða en eftir sem áður verði heimiluð jöfn skipti á tegundum reiknað í þorskígildum.

Sértæk leið, sem komin er úr smiðju VG og hægt væri að hefjast handa við nú þegar, felst í því að hluti (t.d. 5%) þeirra aflaheimilda sem leigðar eru á hverju fiskveiðiári gangi til ríkisins þegar til endurúthlutunar kemur. Með því mætti jafnframt reisa skorður við leiguviðskiptum sem leitt hafa til þess að litlar útgerðir verða í sífellt meira mæli illa settir leiguliðar. Með endurráðstöfun innleystra heimilda gæti skapast aukið öryggi og festa í viðkomandi sjávarbyggðum og það gæti bætt stöðu lítilla útgerða, samhliða því að gera nýliðun mögulega í greininni. Slíkar aflaheimildir gætu myndað sérstakar byggðatengdar og óframseljanlegar heimildir sjávarbyggðanna, þar á meðal á stöðum sem fyrst og fremst hafa byggt á sjávarútvegi.

Áfangaleið. Í öðru lagi má hugsa sér að aflaheimildir héldust óbreyttar fyrir vissan lágmarksafla en þegar og ef unnt reyndist að auka hann umfram þau mörk yrði þeim heimildum úthlutað að hluta eða að öllu leyti á nýjum grunni. Til dæmis mætti miða við að aflaheimildum upp að meðaltalsafla síðastliðin 3-5 ár yrði úthlutað með óbreyttum hætti en ef úthlutað væri umfram það yrði þeim heimildum ráðstafað að hluta eða öllu leyti á nýjum grunni. Yrði þessi leið farin þyrfti að gæta þess að ekki væri litið svo á að lágmarksaflaheimildirnar myndi eignarrétt enda beinist gagnrýni mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna einmitt að slíku.

Íhlutunar- og neyðarréttur. Til greina kemur að sett verði í lög ákvæði um að ríkið geti stöðvað eða gengið inn í viðskipti með aflaheimildir sem beita mætti þegar útlit er fyrir að sjávarbyggðir, sem alfarið eða að stærstum hluta byggja á sjávarútvegi, væru í þann veginn að missa heimildirnar frá sér þannig að það bryti augljóslega í bága við fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaganna. Þar yrði um sértæka byggða- og jafnræðisráðstöfun að ræða sem einkum væri ætluð sjávarbyggðum á einangruðum atvinnusvæðum og styðja þyrfti ótvíræðum rökum í hvert skipti. Veiðiheimildum sem þannig færðust á hendur ríkisins gegn greiðslu bóta og/eða með yfirtöku skulda yrði að sjálfsögðu endurúthlutað þannig að samræmdist niðurstöðu mannréttindanefndar Sþ og yrðu þær óframseljanlegur byggðatengdur grunnréttur viðkomandi sjávarbyggða.

 

Ráðstöfun aflaheimilda sem ríkið fær í hendur

Frá því að framsal aflaheimilda var heimilað með lögum hafa átt sér stað stórfelld viðskipti með þær og þó sérstaklega eftir einkavæðingu bankanna á árunum 2001 til 2002. Aðkoma einkabankanna og takmarkalítil lán þeirra með veði í aflaheimildum til handhafa þeirra hafa haft í för með sér að söluverð á aflaheimildum hefur hækkað langt umfram raunverulegt verðmæti þeirra. Lán með veði í aflaheimildum hafa ýmist verið nýtt til kaupa á aflaheimildum eða beint eða óbeint til viðskipta sem ekki tengjast rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, til að mynda til hlutabréfakaupa í bönkum og öðrum fyrirtækjum. Er nú svo komið að sjávarútvegsfyrirtæki og sjávarútvegurinn í heild eru afar skuldsett og ljóst að mörg fyrirtæki sem fengið hafa aflaheimildir til afnota standa mjög illa fjárhagslega af framangreindum sökum. Umdeildir gjaldeyrisskiptasamningar hafa gert illt verra. Einnig liggur fyrir að viðskipti með aflaheimildir og yfirveðsetning þeirra hefur átt þátt í aðdraganda efnahagshrunsins og leitt til stórfelldra fjármagnsflutninga frá Íslandi.

Í áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna segir orðrétt um viðskipti með aflaheimildir og fleira:

Úthlutaða kvóta sem upphaflegir handhafar nota ekki lengur má selja eða leigja á markaðsverði í stað þess að þeir gangi aftur til stjórnvalda til úthlutunar til nýrra handhafa í samræmi við sanngjarnar og réttlátar leikreglur. Aðildarríkið hefur ekki sýnt fram á að þessi sérstaka skipan og útfærsluform kvótakerfisins samræmist kröfunni um sanngirni. Þótt  Nefndin þurfi ekki að fjalla um samhæfi kvótakerfa fyrir nýtingu takmarkaðra auðlinda við Samninginn sem slíkan, þá ályktar Nefndin, í sérstökum aðstæðum fyrirliggjandi máls, séu forréttindin í mynd varanlegs eignarréttar, sem veitt voru upphaflegum handhöfum kvótans til óhagræðis fyrir höfundana, ekki byggð á sanngjörnum forsendum.

Nefndin kemst að þeirri ótviræðu niðurstöðu að kvótakerfið standist ekki jafnræðisreglu samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og feli í sér mismunun. Tillögur VG sem reifaðar eru í þessari stefnuyfirlýsingu byggja á þeirri grunnhugsun og að lagt sé til grundvallar að fiskimiðin við Íslands séu sameign íslensku þjóðarinnar sem geti ekki myndað varanlegan eignarrétt handhafa aflaheimilda.

Í ljósi alvarlegrar skuldsetningar íslensks sjávarútvegs má ljóst vera að aflaheimildir kunni að ganga til baka til ríkisins, vörsluaðila auðlinda þjóðarinnar og eiganda ríkisbankanna sem yfirtekið hafa skuldir sjávarútvegsins, og hljóta að koma til endurúthlutunar. Ef í slíkum tilvikum koma upp aðstæður sem gætu haft í för með sér stórfellda röskun á stöðu viðkomandi svæðis vegna brottflutnings aflaheimilda leggur VG þunga áherslu á að ríkið grípi inn í og fari svo sem við getur átt eftir þeim reglum sem mælt er fyrir í stefnuyfirlýsingu þessari. Æskilegt er að slíkar aflaheimildir myndi sérstakar byggðatengdar og óframseljanlegar heimildir sjávarbyggðanna, þar á meðal á minni stöðum sem fyrst og fremst hafa byggt á sjávarútvegi. Er brýnt að ofangreind skilyrði verði sett sjóðum og/eða fyrirtækjum sem kunna að fá til nýtingar aflaheimildir fyrirtæka í sjávarútvegi sem hætta rekstri. Einnig þarf að huga að aðkomu viðkomandi sveitarfélaga og rétti þeirra til að hafa áhrif á meðferð umræddra aflaheimilda, sbr. umfjöllun hér að framan. Sambærileg eða svipuð skilyrði og takmarkanir um meðferð aflaheimilda, svo sem um framsal og veðsetningu þeirra, er einnig rétt að setja fyrirtækjum sem ríkið kann að koma til bjargar til að tryggja fjárhagslegan rekstrargrundvöll þeirra. Umfram allt verður að fara eftir þeirri meginhugsun sem álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna byggir á og tryggja að markmiðum 1. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða verði náð.

 

Atvinnuréttindi sjómanna

Sums staðar erlendis hafa verið skilgreind einhvers konar atvinnuréttindi sjómanna eða fiskimanna eins og vel þekkt er hérlendis úr öðrum atvinnugreinum. Rétt er að skoða hvort þróa megi slíkt fyrirkomulag til að treysta atvinnuréttindi sjómanna. Ef tengja ætti þau með einhverjum hætti aðgangi að sjávarauðlindum, t.d. með smábátaveiðum, þyrfti það að sjálfsögðu að lúta settum takmörkunum innan heildaraflamarks og að uppfylltum öryggisskilyrðum.

5. Sóknarfæri í íslenskum sjávarútvegi

Öflugur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki í uppbyggingu efnahags- og atvinnulífsins á næstu árum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að víða séu sóknarfæri til að stuðla að atvinnusköpun, auka gjaldeyristekjur og efla efnahagslífið. Umræður um sjávarútvegsmál hafa því miður lengi verið fastar í deilum um kvótakerfið sjálft á kostnað þess að rætt hafi verið um sóknarfæri greinarinnar til framtíðar. Leita þarf nýrra leiða til að efla atvinnu- og verðmætasköpun í sjávarútvegi og fiskvinnslu, m.a. til að auka fullvinnslu fisks, bæta stöðu á mörkuðum með uppruna- og umhverfisvottun sjávarafurða, gera átak í rannsóknum og fræðslu um sjávarútvegsmál og auka nýtingu annarra tegunda en botnfisktegunda. Eins verður að gera auknar kröfur til vinnsluskipa um að til staðar sé búnaður til heildarnýtingu aflans, s.s. hausa, mjöls og annarra hliðarafurða.

Þróun fiskvinnslu

Sóknartækifæri sjávarútvegsins liggja ekki síst í fiskvinnslu og því er mikilvægt er að styðja við og efla hérlenda fiskvinnslu. Því meira sem unnið er af fiski hér á landi, þeim mun meiri atvinna skapast í byggðum landsins og heildarverðmæti eykst fyrir þjóðarbúið. Því er æskilegt að fullvinna fisk hérlendis í stórauknum mæli, án þess þó að útiloka ferskfiskútflutning þegar það er skynsamlegra af markaðsaðstæðum. Eðlilegast er að móta fullvinnslustefnu í nánu samráði við alla hagsmunaaðila með það að leiðarljósi að hámarka verðmæta- og atvinnusköpun.

Umhverfisvottun sjávarafurða

Tímabær vitundarvakning innlendra og erlendra neytenda um ofveiði og umhverfisspjöll af völdum fiskveiða felur í sér  tækifæri til markaðssetningar fyrir íslenskan sjávarútveg. Með ábyrgri umgengni við nytjastofna sjávar undanfarin ár hefur íslenskum sjávarútvegi tekist að móta sér sérstöðu meðal fiskútflytjenda. Enn vantar þó talsvert upp á að greinargóðum upplýsingum um uppruna íslenskra sjávarafurða og íslenska nýtingarstefnu sé komið á framfæri við neytendur með beinum hætti. Íslendingar hafa unnið gott starf innan FAO við að þróa umhverfismerkingar sem haft geta gildi og styrkt stöðu íslenskra sjávarafurða í ýmsum markaðssvæðum.[4] Halda þarf áfram vinnu við upprunavottun sem staðfesti traustan og lögmætan uppruna viðkomandi afurða. Með því ættu íslenskar sjávarafurðir að verða metnar að verðleikum sem einhverjar þær heilnæmustu og umhverfisvænstu sem völ er á.

Rannsóknir og fræðsla

Þótt Íslendingar standi að mörgu leyti framarlega hvað varðar sjávarrannsóknir þarf að auka þær til mikilla muna frá því sem nú er, enda fjöldi nærtækra verkefna sem ekki hefur verið unnt að sinna sem skyldi sökum fjárskorts.

Mjög er ábótavænt fræðslu og menntun tengdum sjávarútvegi og um hafið og gildi sjávarútvegsins fyrir þjóðina, m.a. á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Efla þarf endurmenntun, starfsfræðslu og þjálfun þeirra sem vinna innan sjávarútvegsins. Mjög stingur í auga munurinn á fræðslu tengdri landbúnaði annars vegar og sjávarútvegi hins vegar, þar sem mjög hallar á síðarnefndu greinina.

Á háskólastigi er rétt að styðja við frekari uppbygginu rannsókna- og fræðslumiðstöðva á sjávarútvegssviði og stefna að því að Íslendingar verði leiðandi í slíkum rannsóknum í framtíðinni. Hafrannsóknir þarf að stórefla til að auka þekkingu og skilning á vistfræði innan efnahagslögsögunnar svo varast megi ofnýtingu og lágmarka það tjón sem veiðar geta valdið, einnig á tegundum sem nú eru ekki nýttar en eru hluti af fæðukeðju sjávardýra. Slíkar rannsóknir og fræðsla myndu ekki aðeins skila skilvirkari og sjálfbærari sjávarútvegi, heldur einnig mörgum nýjum tækifærum til atvinnu- og verðmætasköpunar.

 

Smábátaútgerð og nýting grunnmiða

Á árinu 2008 var fjöldi smábáta á veiðum hérlendis alls 715 talsins, þar af voru krókaaflamarksbátar 15 brúttótonn eða minni alls 611 og heildarafli þeirra hérlendis var 61.343 tonn, þar af 46% þorskur og um þriðjungur ýsa. Aflamarksbátar að hámarki 10 brúttórúmlestir voru 104 og öfluðu alls 3.719 tonna, þar af helmingur þorskur en grásleppa skilaði um fimmtungi af aflaverðmæti þeirra. Smábátum hefur fækkað mikið síðustu ár, t.d. um 180 frá árinu 2005, við það að aflaheimildir hafa flust milli báta. Árið 2004 nam olíukostnaður smábáta 2,8% af aflaverðmæti en ísfiskstogara 16,3%. Olíukostnaður smábáta er þó mjög misjafn en samkvæmt könnun Landssambands smábátaeigenda á árinu 2008 reyndist hann vera á bilinu 3-10% af aflaverðmæti.[5]

Margt mælir með útgerð smábáta, svo sem vistvæn veiðarfæri, tiltölulega lágur eldsneytiskostnaður á aflaeiningu, lítil fjárfesting miðað við störf og sú staðreynd að oft eru það fjölskyldur sem að útgerðinni starfa. Athygli vekur að upp á síðkastið hefur veiðst ámóta mikið af þorski á línu og í botnvörpu. Einnig liggur fyrir að miðað við stærð og aldurssamsetningu fisks er lítill munur á því hvað veiðist í einstakar tegundir veiðarfæra, nema í netaveiði hefur aflast stærri fiskur.

Smábátar eru vel fallnir til að nýta grunnmið og staðbundnar tegundir eins og grásleppu og ígulker. Veiðar innfjarðarækju hafa einnig þýðingu en eru stundaðar af sérhæfðum og stærri bátum. Með auknum kröfum neytenda um ferskleika, umhverfisvernd og fjölbreytni í fæðuvali skapast hagræn tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg með því að efla á ný smábátaútgerð.

Veiðar utan landhelginnar

Eins og fram er komið er samstarf milli ríkja á vegum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og með þátttöku ICES um nýtingu fiskistofna á svæðum utan lögsögu ríkja (úthafssvæðum) við norðaustanvert Atlantshaf. Veiðar íslenskra fiskiskipa á slíkum svæðum hafa færst í aukana á undanförnum árum. Slíkt er jákvætt þegar um sjálfbærar veiðar er að ræða. Vinna við skiptingu á sameiginlegum stofnun og flökkustofnum er í gangi og hefur sumpart verið lokið með samkomulagi. Rétt er að íslensk stjórnvöld leiti eftir frekara samstarfi í þessum efnum, ekki síst við nágrannaríki eins og Grænland, Færeyjar og Noreg.

Fiskeldi

Eins og fram kemur í 1. kafla um stöðu fiskveiða á heimsvísu hefur mikill vöxtur verið í fiskeldi víða um heim á síðustu áratugum. Árið 2005 lagði fiskeldi til 43% af heimsafla en veiðar 57%.

Þróun fiskeldis. Hérlendis hefur þróun fiskeldis gengið fremur hægt fyrir sig og framleiðsla verið lítil. Framan af einskorðaðist hún við ferskvatnsfiska, þ.e. lax- og silungseldi. Áhugi á laxeldi jókst upp úr 1980 og í framhaldinu voru byggðar fjölmargar laxeldisstöðvar en rekstur þeirra gekk almennt illa. Fylgdi stöðnun í kjölfarið og mikið fall í framleiðslu. Bleikjueldi fór hins vegar vaxandi og tífaldaðist framleiðslan á 10. áratugnum og hefur meira en fjórfaldast síðan (sjá töflu). Frá árinu 2000 hefur verið hlutfallslega mest aukning í eldi sjávardýra (þorskur, lúða, sandhverfa, sæeyra, kræklingur o.fl.). Eldi ferskvatnsfiska er áfram mikilvægur þáttur, einkum bleikjueldi.

Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hérlendis eru nú leiðandi í þróun fiskeldis í samvinnu við stjórnvöld sem leitast hafa við að bæta laga- og starfsumhverfis greinarinnar.

Taflan hér fyrir neðan sýnir þróun á magni eldisfisks á árunum 1999-2008. Heimild: Landsamband fiskeldisstöðva http://www.lfh.is/hagtolur-eldid.htm.

Eldið – Slátrun á eldisfiski í tonnum, heill óslægður fiskur (e. round fish)

Áætlun

 2008

 2007 2006  2005 2004 2003 2002 2001 2000 1999
Lax (Atlandic Salmon) 375 1158 6895 6094 6020 3700 1471 2645 3370 3003
Bleikja (Arctic Charr) 3650 2145 1426 977 1336 1670 1540 1320 1364 850
Regnbogi (Rainbow Trout) 5 10 10 50 142 180 248 105 95 70
Lúða (Halibut) 30 31 141 129 123 95 120 93 30 13
Sandhverfa (Turbot) 108 70 47 115 62 32 9 3 0 0
Þorskur (Cod) 1500 1467 1412 1050 595 445 205 70 11 0
Samtals Total  5.668  4.881 9.931  8.415 8.278 6.153 3.620 4.279 4.905 3.959

Þorskeldi. Upp úr 1990 hófust tilraunir með þorskeldi sem síðan hefur verið fram haldið. Fiskeldishópur AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi (AVS er skammstöfun á Aukið verðmæti sjávarfangs) hefur unnið að stefnumótun á þessu sviði og gaf út skýrslu um stöðu og framtíðaráform í nóvember 2007. Þar kemur m.a. fram að til þess að Íslendingar haldi hlutdeild sinni á þorskmörkuðum sé brýnt að efla þorskeldi. Brýnt sé því að kanna hvort eldi á þorski geti orðið arðbær atvinnugrein hérlendis. Telur hópurinn að þorskur henti betur til eldis hér á landi en margar aðrar eldistegundir þar eð kjörhitastig þorsks er tiltölulega lágt. Mörgum spurningum er þó ósvarað, t.a.m. um klak og seiðaeldi, kynbætur, umhverfismál og eldistækni.

AVS-rannsóknasjóðurinn hafði árið 2008 til ráðstöfunar 335 milljónir króna og af þeirri upphæð skyldu 25 milljónir renna til kynbóta í þorskeldi. Á árinu bárust nær 150 umsóknir um afar fjölbreytt verkefnasvið, margar þeirra byggð á samstarfi fyrirtækja og háskóla.

Afstaða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. VG telur brýnt að búa sem best að rannsóknum og þróun í fiskeldi hérlendis og mun styðja við alla sjálfbæra viðleitni í þeim efnum, bæði á sviði ferskvatnseldis og sjávareldis.

Ítarefni

Fyrri rit Vinstri grænna um sjávarútvegsmál og málefni hafsins

„Haf, strönd og hafsbotn“, kafli í Grænni framtíð, riti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um sjálfbæra þróun, útg. 2007. Sjá heimasíðu VG: http://www.vg.is/stefna/greanframtid/

„Sjávarútvegur á sjálfbærum grunni“, ályktun stjórnar 2007. Sjá heimasíðu VG: http://www.vg.is/stefna/sjavarutvegur/

„Breytt fiskveiðistjórn. Tillögur og greinargerð VG vegna álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna“, útg. maí 2008. Sjá heimasíðu VG: http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3389

Helstu alþjóðasamþykktir tengdar hafinu og fiskveiðum

Alþjóðasamningar um málefni hafsins:

Samningur um Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES)

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS)

Samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. des. 1982 um verndun deilistofna og víðförulla fiskistofna og stjórnun veiða úr þeim (Úthafsveiðisamningurinn)

Samningur um hlýðni fiskiskipa við alþjóðleg verndunar- og stjórnunarúrræði á úthafinu

Samningur um stjórnun fiskveiða á Norðaustur–Atlantshafi (NEAFC)

Samningur um stjórnun fiskveiða á Norðvestur–Atlantshafi (NAFO)

Samningur um verndun Atlantshafstúnfisks (ICCAT)

Samningur um stjórnun hvalveiða (IWC)

Samningur um rannsóknir, verndun og veiðistjórnun sjávarspendýra í Norður–Atlantshafi

(NAMMCO)

Samningur um verndun Norðaustur–Atlantshafsins (OSPAR)

Samningur um að koma í veg fyrir mengun hafs og stranda frá skipum og skipaumferð (MARPOL)

Samningur um verndun lax í Norður–Atlantshafi (NASCO)

Samningur um líffræðilega fjölbreytni (CBD)

Samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu

(CITES)

Nokkrar stjórnskipaðar nefndir um sjávarútvegsmál, orkusparnað og loftslag

Stjórn Fiskræktarsjóðs

Ráðgjafanefnd Hafrannsóknastofnunarinnar

Stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar

Stjórn Matís ohf.

Stjórn Veiðimálastofnunar

Fisksjúkdómanefnd

Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar

Stjórn AVS–rannsóknarsjóðs

Úrskurðarnefnd sjómanna og útgerðarmanna

Úrskurðarnefnd vegna álagningar gjalds af ólöglegum sjávarafla

Loftslagsnefnd sjávarútvegsins

Gróðurhúsalosunarnefnd Umhverfisstofnunar

Orkuspárnefnd

Eldsneytishópur Orkuspárnefndar

Fróðleikur um fiskeldi

Heimasíða AVS–rannsóknarsjóðsins: www.avs.is

Skjöl um stefnumótun í fiskeldi: http://www.fiskeldi.is/utgafa.html

Stefnumótun fyrir bleikjueldi: http://www.fiskeldi.is/pdf/stefn-bleikja.pdf

Stefnumótun fyrir kræklingarækt: http://www.fiskeldi.is/pdf/Skyrslur/Skyrsla_kraklingarnefndar_juli_2008.pdf

Stefnumótun fyrir þorskeldi: http://www.fiskeldi.is/pdf/stefntor2008-2010.pdf

Stefnumótun fyrir ýmsar tegundir (orðin úrelt að hluta): http://www.fiskeldi.is/pdf/Skyrslur/valteg.pdf

Skýrsla um þorskeldi: http://www.fiskeldi.is/thorrad/radstefnurit.html

Skýrsla um bleikjueldi: http://www.sjavarutvegur.is/pdf/Sjavarutvegurinn/2-6.pdf


[1] Aflaregla (e. harvest control rule). Langtíma nýtingarstefna sem mælir fyrir um það hlutfall sem heimilt er að nýta úr veiðistofni.

[2] Skýrsla um starfsemi Hafrannsóknastofnunar árið 2007, s. 9 og 13.

[3] Skýrsla um starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar 2007, Mat á brottkasti þorsks og ýsu, s.  16-17.

[4] FAO: Guidelines for the ecolabelling og fish and fishery products from marine capture fisheries. Róm 2005.

[5] Landssamband smábátaeigenda. Bæklingur 2008.