Steinunn Þóra er nýr þingmaður VG

Steinunn Þóra Árnadóttir tekur sæti á Alþingi þegar það verður kallað saman í september. Steinunn Þóra var í þriðja sæti á lista hreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu alþingiskosningar.

Steinunn Þóra fæddist í Neskaupstað árið 1977. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1996, BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og MA-gráðu í fötlunarfræði árið 2013 frá sama skóla. Hún er gift Stefáni Pálssyni sagnfræðingi og eiga þau tvö börn.

Steinunn hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir MS-félag Íslands og Öryrkjabandalagið, þar á meðal setið í framkvæmdastjórn bandalagsins sem gjaldkeri 2005- 06. Fulltrúi í stjórn Brynju, hússjóðs ÖBÍ frá 2008.

Steinunn Þóra átti sæti á framboðslistum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs við Alþingiskosningarnar 2007 og 2009 og tók sæti á þingi sem varaþingmaður frá janúar til mars 2008.