Stjórn fiskveiða og jöfnuður í Færeyjum – Færeyskir ráðherrar heimsækja VG 

Sjávarútvegsráðherra, fjármálaráðherra og innanríkis- og velferðarráðherra Færeyja úr Þjóðveldisflokknum heimsækja VG á Íslandi alla næstu helgina. Rætt verður um stefnu og markmið færeysku ríkisstjórnarinar sem er að tryggja að arðurinn af auðlindunum komi öllu samfélaginu að gagni.

Færeysku ráðherrarnir, Högni Höydal, sjávarútvegsráðherra, Kristína Háfoss, fjármálaráðherra og Sirið Stenberg, innanríkis- og velferðarráðherra, fara yfir þessi meginmarkmið færeysku ríkisstjórnarinnar á ráðstefnu í Norræna húsinu á laugardaginn, 10. september, frá klukkan eitt til fimm. Henni lýkur með pallborði þar sem ráðherrarnir þrír og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG sitja fyrir svörum. Jóhann Hauksson, fréttamaður stýrir umræðunum.

Högni Höydal, sjávarútvegsráðherra og formaður Þjóðveldisflokksins, systurflokks VG, heldur svo til Akureyrar á sunnudeginum 11. september og kynnir fiskveiðistjórnun á umræðufundi málstofu auðlindadeildar og lögfræðitorgs Háskólans á Akureyri. Fundurinn þar ber heitið „Stjórn fiskveiða í Færeyjum og uppboðsleiðin „uppboðsroyndirnar““.


Háskólinn á Akureyri

Stjórn fiskveiða í Færeyjum og útboðsleiðin
Sameiginlegur umræðufundur málstofu auðlindadeildar og lögfræðitorgs

Hvenær: Sunnudaginn 11. september kl. 14.00
Hvar: í stofu M102 (við aðalinngang HA) Sólborg v/Norðurslóð
Fyrirlesari: Högni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja

Sjávarútvegur er burðarstoð í færeysku efnahagslífi og hafa Færeyingar því líkt og við Íslendingar reynt ýmsar leiðir til að hámarka afrakstur sjávarauðlinda sinna. Nú síðast var gerð tilraun með að bjóða út hluta af aflaheimildunum og hefur það vakið talsverða athygli hér á landi. Á þessum fyrirlestri mun Högni fara yfir hvernig útboðs aflaheimilda var útfærð. Högni Höydal er formaður Þjóðveldisflokksins í Færeyjum og sjávarútvegsráðherra Færeyja.