Stjórnarandstöðuflokkarnir lýsa yfir verulegum vonbrigðum með leið ríkisstjórnarinnar

Formenn og talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna kynntu á blaðamannafundi í dag sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar vegna breytinga á lögum um almannatryggingar.

 

Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Björt framtíð og Píratar lýsa yfir verulegum vonbrigðum með þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið til að hækka greiðslur almannatrygginga. Hún tryggir ekki að greiðslur almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna og verði 300.000 krónur. Aðeins hluti aldraðra og öryrkja fær hækkanirnar. Eldri borgarar og öryrkjar í sambúð eru skildir eftir og tekjuskerðingar aukast hjá ákveðnum hópum. Um það verður engin sátt.

 

Ríkisstjórnin ætlar sér að ná fram sparnaði með því að hækka þá sem búa með öðrum hlutfallslega minna og ná síðan 280.000 kr. markinu fyrir þá sem búa einir með því að auka skerðingar. Þannig er í raun verið að innleiða sambúðarskatt á lífeyrisþega og auka skerðingarhlutföllin hjá þeim sem búa einir. Þessi munur mun síðan aukast enn meira árið 2018. Þetta er ósanngjörn leið sem grefur undan trausti og samstöðu um gott almannatryggingakerfi.

 

Stjórnarandstöðuflokkarnir leggja til réttlátari og eðlilegri leið til að hækka greiðslur almannatrygginga. Varðandi kjör eldri borgara, þá leggur stjórnarandstaðan til réttlátari leið og hækkar ellilífeyri um 13,4%. Þá fær eldri borgari sem býr með öðrum 241.300 kr. á mánuði eða um 13.400 kr. meira á mánuði miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar. Varðandi kjör öryrkja, þá leggur stjórnarandstaðan til réttlátari leið og hækkar lífeyri öryrkja um 13,4%. Þá fær öryrki sem býr með öðrum 241.300 kr. á mánuði eða um 13.400 kr. meira á mánuði miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar.

Hér má lesa nánar tillögur stjórnarandstöðuflokkanna