Stóra myndin

Kjöraðstæður er undarlegt orð. Sumum verður meira að segja tíðrætt um kjörþyngd og segja í því samhengi að greinarhöfundur sé ýmist of mjór eða ekki nægilega feitur. Hvað í því felst nákvæmlega er ekki fyllilega ljóst. Oft á tíðum þarf að ígrunda mál mjög vel til að glöggva sig til fulls á aðstæðum.
Í síðustu alþingiskosningum leit ákveðin niðurstaða dagsins ljós sem var vonum framar fyrir suma og undir væntingum fyrir aðra. Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði gerðum okkar tilteknar vonir, enda gaf þróun mála í aðdraganda kosninga fullt tilefni til þess. Jákvæðni og bjartsýni eru góð leiðarljós – ekki stoðar að vera neikvæður eða svartsýnn. Í kjölfar umræddrar niðurstöðu reið á að bregðast við af einbeitingu í kjölfar kosninga og gera það tímanlega. Greinarhöfundur fékk ekki það sem hann vildi upp úr kjörkössunum, en kom sjálfum sér á óvart og lagði tilteknar hugsanir frá sér og gerði því sem skiptir öllu máli fyrir okkur í Vinstri grænum, þeim mun hærra undir höfði.

Staðreyndin er sú að okkar hreyfing leiddi ekki tiltekna stjórnmálaflokka til valda við myndun nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, við greiddum ekki götuna að valdastólum fyrir aðila úr öðrum flokkum og við fórnuðum í engu okkar góðu stefnumálum. Rétt er að halda því til haga um ókomna tíð. Það sem við hinsvegar gerðum og getum verið afar stolt af, var að taka frumkvæði og forystu, í því skyni að verða leiðandi í stjórn landsins byggt á niðurstöðum kosninganna. Það tókst með eftirtektarverðri frammistöðu formannsins okkar, sem er orðin forsætisráðherra landsins, og Svandísar Svavarsdóttur í heilbrigðisráðuneyti, málaflokki sem okkar hreyfingu er sérstaklega annt um. Að auki höfum við á að skipa mjög hæfum  ráðherra fyrir umhverfið. Við munum njóta góðs af aðkomu Guðmundar að umhverfismálum, greinarhöfundur er sannfærður  um það. Byggt á því munum við geta einbeitt okkur að því að fylgja eftir stefnumálum okkar hreyfingar á yfirstandandi kjörtímabili. Er umrætt kjöraðstæður? Spyrjum okkur sjálf þeirrar spurningar og reynum um leið að einblína fram á við á það sem skiptir mestu máli, og látum vera um stund að líta til hliðar þar sem við getum lagt frá okkur það sem hefur minna vægi í þessu samhengi, til að mynda hvernig forystufólk annarra stjórnmálaflokka kýs að haga sínum málum. Svar greinarhöfundar við spurningunni um kjöraðstæður er klárlega já. Umrætt forystufólk okkar, sem hefur tekið að sér krefjandi verkefni á óeigingjarnan og fórnfúsan hátt, á skilið allan okkar stuðning vegna þess að þau eru fyrir okkur og við félagarnir í Vinstri hreyfingunni grænu framboði erum fyrir þau. Það mun verða látið reyna á samstöðu okkar á komandi misserum, meira en fyrr og með ágengari hætti en áður. Það skiptir höfuðmáli að við fylkjum okkur að baki framúrskarandi forystu og ráðherrum Vinstri grænna sem hafa náð eftirtektarverðum árangri, og veitum þeim þannig nauðsynlegan styrk og úthald í býsna flóknu verkefni sem er framundan.
Greinarhöfundur er þess fullviss að okkur félögunum mun þá reynast auðvelt að líta um öxl þegar frá líður og svara fyrrgreindri spurningu játandi. Og þegar svo háttar til um stöðu okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, eins og að framan er lýst, ber að vega og meta alla kosti, hverja einustu ráðstöfun og áskorun, gaumgæfilega út frá þeirri mikilvægu stöðu sem við erum nú í við að leiða stjórn landsins. Verum minnug þess að ef árangur á að nást í okkar stefnumálum, eins og stefnt er að með einbeittum hætti, þá þarf að gera málamiðlanir. Að öðrum kosti verður ekki sú framvinda sem við öll viljum sjá. Þetta er stóra myndin að mati greinarhöfundar. Stöndum saman. Til hamingju kæru félagar.

Gunnar Árnason