Styðjum baráttu launafólks

Samþykkt á flokksráðsfundi í febrúar sl. – Styðjum baráttu launafólks!

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs styður framkomnar launakröfur verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst réttlátar kröfur um hækkun lægstu taxta, og leggur áherslu á að í góðu samfélagi verður fólk að geta lifað af dagvinnulaunum sínum. Nýjar kannanir ASÍ hafa sýnt að lægstu laun á Íslandi eru um 30% lægri en laun í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Lágmarkslaun dagvinnu á Íslandi duga einfaldlega ekki fyrir brýnustu þörfum.

Tekjuskipting hefur jafnast lítillega á síðustu árum en sá árangur er í hættu. Rannsóknir sýna að æ færri einstaklingar í samfélaginu sitja að auði og afrakstri þjóðarinnar og misskipting fer hraðvaxandi. Það er ekki fátækt íslensks samfélags sem veldur of lágum launum og sárri fátækt þúsunda landsmanna heldur misskipting auðsins. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar miða allar að því að auka þessa misskiptingu, m.a. með afnámi auðlegðarskatts, hækkun matarskatts og boðuðum aðgerðum um að afnema þrepaskipt skattkerfi.

Láglaunastefnan er grundvallarþáttur í bágum kjörum almennings. Í komandi kjarasamningum verður tekist á um hana og stefnir í hörð átök. En ýmislegt fleira kemur til, svo sem ófremdarástand á húsnæðismarkaði, aukin kostnaðarþátttaka í heilbrigðis- og menntakerfinu og stytting atvinnuleysisbótatímabilsins og ófullnægjandi lífeyrir. Úrbætur í þeim efnum eru brýnar en eiga þó ekki að verða skiptimynt í kjarasamningum.