Styrkjum fjölmiðlaumhverfið

Enn og aftur er tekist á um eignarhald og ítök í íslenskum fjölmiðlum. Lög eru sniðgengin þegar fjölmiðlanefnd er ekki einu sinni upplýst um breytingar á eignarhaldi, en gagnsætt eignarhald er forsenda þess að almenningur geti metið trúverðugleika fjölmiðla. Fjárfestar tilkynna að þeir vilji láta reka þennan eða hinn og virðist sama um ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla. Þetta er alls ekki nýtt, en nú er það grímulaust.

Aðgerðir stjórnvalda veikja fjölmiðlaumhverfið

Staða almannaútvarpsins vekur líka áhyggjur. Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að setja að nýju pólitíska stjórn yfir Ríkisútvarpið og hverfa þannig til fortíðar. Næsta verk var að skerða rekstrargrunn Ríkisútvarpsins, með því að taka hluta nefskattsins (útvarpsgjaldsins) sem almenningur í landinu leggur til Ríkisútvarpsins og taka þá fjármuni til annarra nota, þó að það sé þvert á allt sem sagt er um gagnsæi. Og þótt slík skerðing á tekjustofnum almannafjölmiðla sé óheimil í löndunum sem við berum okkur saman við, (nema sama gildi um allar aðrar grunnstoðir þjóðfélagsins) þar sem skerðing gengur gegn grundvallarrétti almennings,

Það kæmi ekki á óvart ef kjörorð ríkisstjórnarinnar væri Aftur til fortíðar; á öllum sviðum vilja ráðandi öfl hverfa aftur til fyrirhrunsáranna. Skorið er niður hjá fjölmiðlanefnd sem ætlað er að hafa eftirlit með fjölmiðlamarkaði og ýmsir þingmenn stjórnarflokkanna hafa beinlínis sagst vilja þessa mikilvægu nefnd feiga. Þegar tryggt hafði verið með lögum að Ríkisútvarpið fengi útvarpsgaldið heilt og óskipt var þeim lögum breytt. Aðgerðir stjórnvalda hafa því markvisst veikt innlent fjölmiðlaumhverfi.

Fjölmiðlar mikilvægir lýðræðinu

Í lýðræðissamfélagi gegna fjölmiðlar því mikilvæga hlutverki að veita aðhald, hvort sem er hinu þríeina rikisvaldi eða stórfyrirtækjum. Einmitt þess vegna hafa fjölmiðlar átt undir högg að sækja í hinum vestræna heimi þar sem ekki síst stórfyrirtæki hafa herjað á fjölmiðla og einstaka blaðamenn, krafist lögbanns, farið í mál og reynt að þagga niður óþægilega umfjöllun.

Því miður er útlitið ekki nógu bjart. Í Evrópu hefur blaða- og fréttamönnum farið ört fækkandi (en almannatenglum fer fjölgandi). Margir fjölmiðlar heyja baráttu upp á líf og dauða og fjórða valdið stendur því veikt. Það er lýðræðinu skeinuhætt því lýðræðið þrífst illa án öflugrar upplýsingagjafar og rannsóknablaðamennsku. Þar munar engu um fréttir af golfmótum stjórnmálaflokka, umfjöllun um hvað frægur sagði við frægan á barnum eða annað efni sem iðulega birtist undir fyrirsögninni „Mest lesið“. Það er ekki nóg að framleiða eitthvert efni til að rækja hið lýðræðislega hlutverk, það þarf að sinna þessu aðhaldi með ríkjandi valdhöfum í viðskiptalífinu og stjórnmálunum.

Horfið aftur til fortíðar

Hvað er til ráða? Öflugt almannaútvarp getur verið lykilþáttur í heilbrigðu fjölmiðlaumhverfi — almannaútvarp með traustan og gagnsæjan rekstrargrunn til lengri tíma og faglega stjórn. Einnig þarf eðlilegt lagaumhverfi þar sem upplýst er um eigarhald fjölmiðla (eins og nú er gert ráð fyrir í lögum) og stjórnvöld sem tryggja að því hlutverki sé sinnt. Og best væri að stefna að því að almannaútvarp þyrfti ekki að treysta á auglýsingatekjur sem sömuleiðis gæfi öðrum miðlum meira rými á þeim markaði. Einkareknir fjölmiðlar eiga ekki að líta á almannaútvarpið sem ógn við tilveru sína heldur sem forsendu öflugs og heilbrigðs fjölmiðlaumhverfis.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis voru ýmsar ábendingar settar fram um fjölmiðlaumhverfið og þar hafa stjórnvöld hlutverki að gegna. Meðal annars til að bregðast við skýrslunni réðst síðasta ríkisstjórn í ýmsar umbætur til að tryggja eðlilegt fjölmiðlaumhverfi og treysta þannig grunnstoðir lýðræðisins. Sú ríkisstjórn sem nú situr sneri því miður af þeirri braut en hún getur enn snúið af villu síns vegar. Það þarf að tryggja eðlilegt fjölmiðlaumhverfi; Ríkisútvarpið verður að fá nefskattinn óskertan, strax á fjárlögum þessa hausts, og endurskoða þarf stjórnarfyrirkomulagið að nýju. Eignarhald einkarekinna fjölmiðla verður að vera öllum ljóst og fjölmiðlanefnd þarf að hafa burði til að sinna hlutverki sínu.

Katrín Jakobsdóttir