Sumarferð Vinstri grænna

Kæru félagar.

Senn líður að sumarferðinni okkar. Eins og fram hefur komið, verður henni heitið á Snæfellsnesið að þessu sinni. Á vg.is hefur verið hægt að nálgast allar upplýsingar um ferðina en nú bætum við við nokkrum mikilvægum upplýsingum.

LAGT VERÐUR AF STAÐ FRÁ KJARVALSSTÖÐUM, LAUGARDAGINN 16. ÁGÚST KL. 09.00!

Stefnan tekin á Borgarnes, hvar félagar í Borgarbyggð munu taka á móti okkur í Ljómalind, sveitamarkaði sem er við afleggjarann út á Snæfellsnes. Þar fáum við morgunkaffi og hægt verður að skoða þann dásamlega varning sem Borgfirðingar bjóða upp á.
Þá liggur leið í Stykkishólm þar sem Lárus Ástmar mun leiða okkur í létta göngu um Hólminn og við svo gæða okkur á gómsætri sjávarréttarsúpu á veitingastaðnum Plássinu.
Eftir súpuna liggur leið okkar í Bjarnarhöfn, þar sem félögum gefst kostur á að skoða Hákarlasafnið og gæða sér á því lostæti sem hákarlinn er.
Félagi Ingi Hans tekur svo á móti okkur í Grundarfirði og segir sögu eða tvær stuttar, þar bjóðum við upp á kaffi og pönnukökur.
Loks er ferðinni heitið á Djúpalónssand þar sem fram fer almenn aflraunakeppni fyrir þá sem vilja. Steintök voru mikið stunduð og gefum við aflraunafólk í VG ekki eftir í þeim efnum. Amlóðinn er ekki nema 23 kg og Hálfdrættingur 49 kg. Sá félagi sem fer í Hálfsterkan ( 140kg) hlýtur að sjálfsögðu verðlaun fyrir vikið.

Ef tími gefst til og veður gott þá er stefnt að því að ganga frá Hellnum yfir á Arnarstapa. Leiðin er 2,5 km og ljúf gönguleið í alla staði.

Ferðin endar í Langaholti, þar sem við höldum veislu. Við bjóðum upp á grillað lambalæri, með heimagerðu karteflusalati og sósu. Desertinn kemur svo á óvart.
Ferðalangar taka með sín eigin drykkjarföng, þó verður gert ráð fyrir gosi handa þeim sem ekki drekka áfengt.
Í Langaholti munum við reisa samkvæmistjald, þar sem veislan fer fram.

Ferðin kostar 5000 kr. á mann, 2500 kr. fyrir börn undir 16 ára. Innifalið í verði: Rúta, hádegisverður, Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn, rútusnarl og kvöldverður.

Hver og einn greiðir sína gistingu, verðið á hótelgistingu, með afslætti og morgunmat er eftirfarandi;
16.740 kr fyrir eins manns herbergi
22.320 kr fyrir tveggja manna herbergi
29.760 kr fyrir þriggja manna herbergi
Og verð á tjaldsvæðið er 1000 kr per pers (14 ára og eldri) .

AÐ lokum ítrekum við óskir um að fá upplýsingar um þau ykkar sem ekki borða lambakjöt, til að geta gert viðeigandi ráðstafanir.

Enn eru laus pláss í ferðina, skráið ykkur sem allra fyrst og ekki hika við að hafa samband við Lísu (8999225) eða Daníel (7700218) ef eitthvað er óskýrt.