Svandís spyr um rammaáætlun

Svandis Svavarsdottir_1Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur lagt fram fyrirspurn til umhverfis-og auðlindaráðherra er varðar endurskoðun starfsreglna verkefnisstjórnar um rammaáætlun.

  1. Hefur verið lagt á það lögfræðilegt mat hvort auglýst drög að breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar eigi sér nægilega stoð í lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, eða hvort þær kunni á einhvern hátt að ganga í berhögg við lögin?
  2.  Hver er lagastoð þeirrar reglu sem lögð er til í 2. mgr. 8. gr. í drögunum, þ.e. að verkefnisstjórn skuli taka virkjunarkost til nýrrar umfjöllunar hafi hann tekið breytingum? Er breytingin lögð til svo að endurmeta skuli Norðlingaölduveitu sem flokkuð var í verndarflokk, sbr. 6. gr. laganna, í verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var af Alþingi í janúar 2013?
  3.  Átti Landsvirkjun, Suðurorka eða aðrir hagsmunaaðilar einhverja aðkomu að gerð þeirra breytingartillagna sem birtar eru í drögunum?
  4.  Hver telur ráðherra að sé verndarstaða svæðis sem sett hefur verið í verndarflokk ef friðlýsingu er ekki lokið? Telur ráðherra að endurmeta skuli slíka virkjunarkosti, sbr. 2. mgr. 8. gr. draga að breyttum starfsreglum verkefnisstjórnarinnar?
  5.  Hvert er tilefni þess að sérstaklega er vikið að hæfi fulltrúa í verkefnisstjórn og faghópum, sbr. breytingu í d-lið 5. gr., og af hverju eru gerðar strangari kröfur til þess að fulltrúar í verkefnisstjórn víki sæti við afgreiðslu mála en almennt mundi leiða af hæfisreglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eða almennum hæfisviðmiðum sem gilda í stjórnsýslurétti þar sem gildissviði hæfisreglna stjórnsýslulaga sleppir, sérstaklega í ljósi þess að fulltrúar í verkefnisstjórn taka ekki stjórnvaldsákvarðanir?

Skriflegt svar óskast.
Greinargerð.

Samkvæmt 8. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun skipar ráðherra sex manna verkefnisstjórn um rammaáætlun til fjögurra ára í senn er vera skal ráðherra til ráðgjafar við undirbúning að gerð tillagna að áætluninni. Til fyllingar reglum laganna um störf verkefnisstjórnar skal ráðherra setja henni starfsreglur, sbr. 6. mgr. 10. gr. laganna. Samkvæmt því er starfsreglum verkefnisstjórnar ekki ætlað að setja ný viðmið eða nýjar efnisreglur um það með hvaða hætti stjórnin skuli starfa heldur aðeins að tryggja samræmi og vandaða stjórnsýslu.