Svo einfalt verður það

Ræða Björns Vals Gíslasonar við upphaf flokksráðsfundar um helgina.

Ágætu flokksráðsfulltrúar og aðrir gestir!
Ég býð ykkur velkomin til fundar flokksráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem ég veit að á eftir að vera okkur gagnlegur. Mest er þó um vert að við gerum þetta á góðum flokksráðsfundi og lítum á þennan fund sem upphaf kosningabaráttu Vinstri grænna vegna Alþingiskosninga sem haldnar verða í síðasta lagi vorið 2017. Vonandi þó fyrr. Það er afar mikilvægt að frá þessum fundi komi skýr pólitískur tónn um að við, Vinstrihreyfingin grænt framboð, munum hér eftir sem hingað til gera uppbyggingu velferðarkerfisins að forgangsmáli við næstu kosningar. Það gerðum við fyrir kosningarnar 2013 og lögðum þá fram skýra stefnu um fjármögnun á uppbyggingu heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfisins og rekstur á innviðum samfélagsins. Þegar sú stefna er skoðuð í dag kemur í ljós, sem við reyndar vissum, að hún stóð fyllilega fyrir sínu og gerir enn og farið hefði betur á því að hrinda henni í framkvæmd en snúa öllu á hvolf, líkt og hægriflokkarnir ákváðu að gera. Það er líka mikilvægt að mínu viti að við í Vinstri grænum bjóðum þeim sem það vilja, stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum, til samstarfs við okkur um þessi meginverkefni að loknum kosningum. Enginn flokkur er betur til þess fallinn að leiða slíkt starf en Vinstri græn og enginn flokkur býr svo vel að hafa í forystu sinni stjórnmálamann sem er betur treystandi í þeim tilgangi og Vinstrihreyfingin grænt framboð.
Við skulum því vera djörf og ákveðin í framgöngu okkar, setja hjartans mál okkar og samfélagsins alls í algjöran forgang og spyrja aðra þess hvort þeir vilji koma með. Það kemur þá í ljós hverjir vilja fylgja okkur í þeim málum og hverjir ekki.
Svo einfalt verður það.