Posts

VG krefst rannsóknar á skattaundanskotum

Þingflokkur VG hefur lagt fram þingsályktunartillögu um hafin skuli rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattaundanskotum á vegum Alþingis.

Fjöldi og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum, og eru í skattaskjólum sem skilgreind hafa verið af Efnahags – og framfarastofnuninni, OECD, og íslenskum stjórnvöldum verði rannsökuð og í því skyni skipi forseti Alþingis rannsóknarnefnd. Fleiri tillögur er að finna í þingsályktunartillögunni sem var dreift í gær á þinginu, meðal annars að fjármálaráðherra skipi rannsóknarhóp sem fari yfir og meti skattaundanskot og aðra ólögmæta starfsemi og að skattrannsóknarstjóri skili skýrslu um störf og niðurstöður rannsóknarhópsins til forseta Alþingis.

Hér má sjá þingsályktunartillöguna sem dreift var á þinginu í gær;

http://www.althingi.is/altext/145/s/1152.html

Þingfréttir 9.-13. nóvember

– Ný náttúruverndarlög, fjáraukinn og sérstök umræða um RÚV-

Merkustu tíðindi vikunnar á þinginu er án efa lagasetning nýrra náttúruverndarlaga á fimmtudaginn. Til upprifjunar eru núgildandi lög um náttúruvernd frá 1999 en um sumarið 2009 hófst vinna við Hvítbók um náttúruvernd á Íslandi en afrakstur þeirra vinnu varð að stjórnarfrumvarpi um ný lög um náttúruvernd sem lagt var fram í nóvember 2012,  rætt í þingsal og vísað til umhverfis-og samgöngunefndar í janúar 2013 og samþykkt á þingi í mars sama ár. Eftir stjórnarskiptin 2013 var lengi vel raunhæft að lögin yrðu einfaldlega felld úr gildi og afturkölluð en með miklu samráði við stjórnarandstöðu var því afstýrt en farið í nýja lagasmíð sem byggði á fyrri vinnu  við náttúruverndarlögin frá 2013.  Afrakstur þeirrar vinnu varð svo að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013,
með síðari breytingum (varúðarregla, almannaréttur,
sérstök vernd, framandi teg­undir o.fl.) og lagt fram á þingi nú í lok september.

Það er óhætt að fullyrða að Svandís Svavarsdóttir hafi borið hitann og þungann í vinnu samhents minnihluta  umhverfisnefndar við meðferð frumvarpsins nú. Þar kom reynsla og staðfesta Svandísar sér vel. Hún sagði meðal annars við atkvæðagreiðslu laganna ;

Hér erum við að horfa á gríðarlega mikilvæga niðurstöðu. Við erum að horfa á betri náttúruverndarlög en samkvæmt núgildandi rétti. Við erum að horfa á verulega réttarbót fyrir íslenska náttúru. “ sagði Svandís en notaði líka tækifærið að minna á næsta stóra verkefni í náttúruvernd sem væri vilji þjóðarinnar til að stofna miðhálendisþjóðgarð. Sömuleiðis áréttaði Svandís að hér væri ekki um sátt um náttúruvernd að ræða, heldur um sögulega málamiðlun.

Svaraleysi, fjáraukinn, makrílveiðar og aðgerðir gegn ofbeldi á fötluðum konum

Annars hófst vikan á því að mennta – og menningarmálaráðherra bað um frest til að svara heilum 11 skriflegum fyrirspurnum sem honum hafa borist. Þar af er um að ræða 4 fyrirspurnir frá þingmönnum VG.

Fyrsta umræða fjáraukalaga fór fram á mánudaginn. Bjarkey sagði í ræðu sinni að frumvarpið þjóni ekki tilgangi sínum og gagnrýndi m.a. að áhrifa nýgerðra kjarasamninga hafi ekki verið metinn inn í frumvarpið nema að hluta til.

Aðrir þingmenn VG sem tóku til máls í fjáraukalagaumræðunni voru Ögmundur, sem reifaði ágreining stjórnarþingmanna um samfélagsbanka og tillögu ríkisstjórnarinnar um sölu á 30% hlut ríkisins í Landsbankanum. Lárus Ástmar og Steingrímur tóku líka til máls en sá síðastnefndi gagnrýndi niðurskurð í fjárfestingum hins opinbera í innviðum samfélagsins á borð við framkvæmdir í vegamálum, í fjarskiptum, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu sem og lækkun veiðigjalda síðustu 2 ára um heila 8,7 milljarða.

Steingrímur birti svo grein í Fréttablaðinu á föstudag um þessa heildarlækkun veiðigjalda sem nú er komin fram.

Í óundirbúnum fyrirspurnum á þriðjudag spurði Lárus Ástmar sjávarútvegsráðherra um breytingar á fyrirkomulagi makrílveiða smábáta og hvort ráðherra ætlaði sér að breyta því þar sem hún þýddi að margir smábátasjómenn fengu litla sem enga úthlutun og stóðu veiðar ekki undir tilkostnaði.

Steinunn Þóra, spurði Eygló Harðardóttur líka í óundirbúnum um hvernig hún hyggist beita sér fyrir aukinni fræðslu starfsfólk til að þekkja og koma auga á ofbeldi gegn fötluðu fólki þar sem fatlað fólk dvelur eða kemur saman og hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir fjármögnun fræðslu um ofbeldi gegn fötluðum.

 

Landbúnaðarháskólar og sérstök umræða um RÚV

Í óundirbúnum fyrirspurnum á fimmtudaginn spurði Lárus Ástmar menntamálaráðherra um framtíðarrekstur landbúnaðarháskólanna að Hólum í Hjaltadal og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Sagði Lárus hljóðið í íbúum þessa svæða vera afar þungt.

Sérstök umræða var svo um RÚV-skýrslu seinasta þingdag vikunnar að beiðni Svandísar. Í ræðu sinni minntist hún á þá sögulegu staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil haft horn í síðu Ríkisútvarpsins og viljað hlut almannaútvarps sem minnstan. Vildi Svandís eiga orðastað við mennta-og menningamálaráðherra um stöðu í nánustu framtíð.

Ráðherra svaraði því meðal annars til að RÚV skýrslan væri  ágætur grunnur ásamt öðrum upplýsingum sem hafa komið fram um rekstur Ríkisútvarpsins. Ekki útlistaði hann nánar stefnu sína í málefnum RÚV frekar heldur ræða ætti hana í framtíðinni.

„Vilji er allt sem þarf“

Þingfréttir 12.-16. október

Nýliðin þingvika var sérstæð með nokkru. Dagskrá þingsins breyttist með stuttum fyrirvara og varla nein mál frá ríkisstjórninni á dagskrá.

Sérstök umræða var í þinginu á þriðjudag um dýravelferð. Þar tók Svandís til máls og minnti á lögin um dýravelferð sem tóku gildi 2013 og anda þeirra. Hún hvatti svínakjötsframleiðendur sem fara vel með dýr og vilja vanda til verka, að krefjast þess að það sé upplýst hverjir búskussarnir séu.

Í ræðu sinni á miðvikudag undir liðnum störf þingsins, dró Lilja Rafney saman  átökin um verkefnastjórn rammaáætlunar sem áttu sér stað fyrir skemmstu í atvinnuveganefnd í boði nefndarformannsins Jóns Gunnarssonar. Í þeirri snerru stóð Lilja vaktina í aðför Jóns að verkefnastjórninni.

Hún skrifaði blaðagrein um málið sem birtist í vikunni bæði á huni.is  og í Kvennablaðinu.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður í Norðvesturkjördæmi,fór upp í óundirbúnar fyrispurnir á þriðjudag og vakti máls á nauðsyn sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Ingibjörg óskaði eftir svörum menntamálaráðherra um hvort hann hyggist beita sér fyrir þeirri þjónustu. Ráðherra var loðin í svörum enda ekki við öðru að búast úr þeirri átt.

Í störfum þingsins á miðvikudag vakti Katrín athygli á þeirri niðurlægingu sem fjöldi ungra stúlkna varð fyrir í tengslum við hernámið þegar sett voru neyðarlög í landinu til að koma böndum yfir samskipti þeirra til við erlenda hermenn. Í kjölfarið voru margar stúlkur og ungar konur færðar nauðugar frá heimilum sínum, sendar í sveit eða á hælið að Kleppsjárnreykjum eins og fram kemur í nýrri heimildamynd. Katrín tilkynnti að hún ætlar sér að leggja fram skriflega fyrirspurn til innanríkisráðherra í tengslum við þetta mál þar sem m.a. þáttur stjórnvalda verði rannsakaður.

Eins og alþjóð veit þá mótmæltu bæði lögreglumenn, SLFÍ og SFR á Austurvelli á fimmtudag vegna óánægju með gang kjaraviðræðna við ríkið og  verkfallsréttarleysi. Deilurnar bætast við þau illindi, óróa og verkföll sem einkennt hafa vinnumarkaðinn allt þetta kjörtímabil.

Katrín beindi orðum sínum að innanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum þennan dag vegna þessa og spurði hvernig ráðherra geti beitt sér fyrir því að leysa þennan hnút.

Þegar Ólöf Nordal fór undan í flæmingi, benti Katrín á að vilji sé allt sem þurfi og spurði ráðherra hvort hún styddi kröfu lögreglumanna um endurheimtingu verkfallsréttar. Ólöf svaraði því til að það gerði hún ekki.
Þau svör ráðherrans vöktu mikla athygli.

Áður en áframhaldandi umræða um frumvarp Vilhjálms Árnasonar um sölu á áfengi í búðum hófst á fimmtudag, kvað Ögmundur sér hljóðs og bað forseta þingsins um skýringu á því hvers vegna Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra,  tæki ekkert þátt í umræðunni um þetta frumvarp.

Krafðist Ögmundur þess að umræðan hæfist ekki nema ráðherrann væri í þingsal. Vísaði Ögmundur í stefnu ráðherrans um áfengis-og vímvarnir sem birtar voru á vef ráðuneytis hans 24. janúar sl. Niðurstaðan varð sú að umræðunni var frestað fram yfir hádegi en hélt svo áfram og varði í 7 klukkustundir með þáttöku allra þingmanna VG.

Fyrir áhugafólk um umræðuna er hægt að horfa á hana hér.

Umræðan tekur ögn skemmri tíma en að horfa á allar kvikmyndirnar um Hringadróttinssögu í beit.

Ef þið hafið misst af þingmönnum VG í fjölmiðlum þessa vikuna, má benda m.a. á að Svandís ræddi fréttir vikunnar og mál Illuga Gunnarssonar í Morgunútvarpinu á Rás2 í gærmorgun, föstudag.

Þess má geta að hún hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til ráðherrans um förina til Kína.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður, var líka einn gesta íVikulokunum á Rás 1 í morgun, laugardag.

Dvöl Ingibjargar á þingi er lokið í bili en hún skilur eftirskriflega fyrirspurn um umdæmissjúkrahús á Austurlandi og getur vel við unað eftir góðar 2 vikur á þingi. Þökkum henni kærlega fyrir  !

Njótið helgarinnar kæru félagar !
Rósa Björk Brynjólfdóttir, framkv.stýra þingflokks.

Þingfréttir 21.-25. september 2015

Þingfréttir – leikskólamálin, útgerðarrisar í mjólkuriðnaði, flóttamenn og…Jón

Nýliðin þingvika var fjörug og okkar fólk stóð sig vel á þingvaktinni nú sem endranær. Hér ef brot af því helsta:

  • Mikið fjaðrafok varð á þinginu á fimmtudag þegar Lilja Rafney óskaði eftir umræðu um vinnubrögð í umhverfis – og atvinnuveganefnd hvar Jón Gunnarsson ræður ríkjum. Lilja gagnrýndi ákvörðun Jóns að boða 10 aðila úr orkugeiranum á nefndarfund til að ræða vinnubrögð verkefnisstjórnar rammaáætlunar en engum fulltrúum náttúruverndarsamtaka, líkt og Lilja hafði óskað eftir. Sköpuðust heitar umræður um vinnubrögð Jóns og vantraust hans á umhverfisráðherra sem nýverið lýsti yfir ánægju með verkefnisstjórn rammaáætlunar.
  • Fyrri umræða um þingsályktunartillögu Svandísar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs var á fimmtudag. Málefni leikskólanna hafa verið baráttumál VG frá stofnun enda mikið réttlætismál. Markmið tillögu Svandísar nú er að halda áfram vinnu við útfærslu til að tryggja börnum leikskóladvöl að loknu fæðingarorlofi og lagt til að skipaður verði starfshópur sem útfæri lengingu fæðingarorlofs í 18 mánuði og hvernig sveitarfélög geti tekið við öllum ársgömlum börnum í gjaldfrjálsan leikskóla. Lesa má greinargerð tillögunnar hér.
  • Katrín spurði forsætisráðherra hver staðan væri á byggingu Hús íslenska fræða eða Holu íslenskra fræða eins og sorglegur húsgrunnurinn við HÍ er því miður oft nefndur í daglegu tali. Tilefnið var forsíðufrétt á Fréttablaðinu þar sem fullyrt væri að fyrir lægi tillaga frá forsætisráðherra um að Hús íslenskra fræða eigi nú að vera byggt sem viðbygging við húsnæði Alþingis og á Þingvöllum.
  • Steingrímur mælti með frumvarpi þingflokks VG um byggingarsjóð Landspítalans. Hann verði stofnaður til að fjármagna nýbyggingar og endurnýjun húsakosts Landspítala. Til þess myndu tekjur af auðlegðarskatti sem endurvakin er í frumvarpinu renna til sjóðsins.
  • Sérstök umræða var um málefni flóttamanna var á mánudag. Katrín óskaði m.a. eftir sýn forsætisráðherra á Dyflinnarreglugerðina og kallaði eftir umræðum um hvað stjórnmálafólk getur gert til að bregðast við aukinni kynþáttahyggju sem hugsanlega sprettur nú upp í kjölfar gríðarmikilla þjóðflutninga.
  • Umræðum um forsendur fjárlagafrumvarpsins héldu áfram í vikunni. Bjarkey vakti m.a athygli á því hve vanfjármögnuð við erum inn í framtíðina samkvæmt frumvarpinu og hve innviðir samfélags okkar eru illa fjármagnaðir.
  • Lilja Rafney hóf sérstaka umræðu um samþjöppun í mjólkuframleiðslu hvar hún vakti athygli á tvöföldun mjólkurkvótans á milli ára þegar fjárfestum og útgerðarrisum er hleypt inn í mjólkurbúskap á kostnað nýliðunar og smærri og millistórra kúabúa. Er eðlilegt að niðurgreiða mjólkurframleiðslu til svo stórra rekstraraðila í greininni ? Spyr Lilja

Til viðbótar við þetta yfirlit – sem er ekki tæmandi – voru Ögmundur og Steinunn Þóra áberandi í fjölmiðlum í lok vikunnar. Innanríkisráðherra svaraði loks fyrirspurn Steinunnar Þóru og Andrésar Inga, varaþingmanns, um þjónustu presta og mismunun á grundvelli kynhneigðar. Í svari ráðherra segir að sem opinberir starfsmenn megi prestar ekki mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar sinnar. Þar hefur ráðherra greinilega snúist hugur frá árinu 2009-2010. Steinunn var á forsíðu Fréttablaðsins vegna þessa og í viðtali. Þau Andrés Ingi og Steinunn skrifa grein um málið í Fréttablaðið í dag, laugardag.

Ögmundur var í Íslandi í dag á Stöð 2 á fimmtudag að ræða viðskiptaþvinganir á stjórnvöld Ísraelríki og sniðgöngu á ríki sem brjóta mannréttindi. Setti hann þau mál í sögulegt samhengi eins og sjá má hér í nokkrum klippum

Ögmundur var líka í viðtali við Ríkisútvarpið vegna kröfu Indefence um að innihald stöðuleikaskilyrða við afnám hafta verði uppi á borðum og gagnsæ og tók hann undir þá kröfu.

Einnig má vekja athygli á blaðagrein Katrínar um frumvarp VG um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem er útvíkkun á einu helsta baráttumáli VG í áratugi sem er stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Eins og kunnugt er mælti Katrín fyrir frumvarpinu í síðustu viku en til að rifja málið upp er hollt að renna í gegnum blaðagreinina sem birtist bæði í Fréttablaðinu og á vg.is.

Í flutningsræðu sinni vísaði hún m.a í skýra kröfu umhverfisverndarsinna á baráttufundi í vor og umsögn Landverndar. Ræðuna má lesa hér.

Nú halda þingmenn okkar út í kjördæmi sín í kjördæmaviku sem er framundan. Óskum þeim góðra fundahalda!

Kær kveðja, Rósa Björk, framkv.st. þingflokks. rosabjorg@althingi.is

Til hamingju með dag íslenskrar náttúru

Forseti!

Ég vil óska þingheimi og þjóðinni allri til hamingju með Dag íslenskrar náttúru en á slíkum degi er tilefni til að fagna náttúru Íslands og því sem hún gefur okkur á degi hverjum, ár hvert og árið um kring.

Fiskur – orka – jarðhiti – vatn – loft – norðurljós – myrkur – gróður – fuglalíf – selir – hvalir – fossar og fjöll – landslag og einstök víðerni.

Samfélagið er drifið áfram af afurðum náttúrunnar, en arðinum þarf að skipta réttlátar, deila honum út á meðal fólksins, í sameiginlega sjóði þar sem allir njóta góðs af, þar sem enginn hirðir ótæpilegan gróða, þar sem samfélagið í heild, framtíðin og börnin njóta góðs af.

Öll nýting verður að vera með sjálfbærum hætti. Við eigum að skila náttúrinni jafngóðri eða betri til komandi kynslóða. Réttur okkar til nýtingar er takmarkaður við slíka nálgun.

En hver er staðan og skilningurinn á stöðu íslenskrar náttúru nú um stundir, hér á Alþingi og í stjórnarmeirihlutanum?

Náttúruminjasafn íslands sem á að vera höfuðsafn fær 25 milljónir í framlag á fjárlögum og býr við skilnings- og metnaðarleysi stjórnvalda. Þetta þarf að laga.

Rammaáætlun tókst að verja með miklu harðfylgi á síðasta þingi en friðlýsingar á grundvelli hennar fara ekki fram og engin áform sjást í nýju fjárlagafrumvarpi um að gera betur í friðlýsingarmálum. Þetta þarf líka að laga.

Frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra til náttúruverndarlaga felur í sér óburðuga vernd sérstakra náttúrufyrirbæra og varúðarreglan er allt of veik í frumvarpinu. Þetta þarf að laga svo bragur verði á.

Náttúra Íslands er einstök á heimsvísu. Hér má finna fjölbreytt náttúrufyrirbæri hlið við hlið, einstakar jarðminjar og fágæti við hvert fótmál, víðáttur, jöklar og sandar. Við verðum að átta okkur á því hversu einstök náttúran er og að hún vernduð er grundvöllur heillar atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar.

Íslensk náttúra og allt sem að henni lýtur þarf að skipa ríkari sess í allri ákvarðanatöku og umræðu. Við þurfum að skilja hana, rannsaka hana, virða hana – hagsmunir hennar eru hagsmunir komandi kynslóða og um þá ber okkur að standa vörð.

Núverandi stjórnvöld þurfa að gera betur, svo miklu betur. Sameinumst um hagsmuni íslenskrar náttúru.

Til hamingju með daginn.

Ósk um fund í utanríkismálanefnd

Rétt í þessu óskaði Katrín Jakobsdóttir eftir því að utanríkismálanefnd ræddi TISA-viðræðurnar sbr. eftirfarandi: ,,Sæl veriði, ég vil óska eftir því að utanríkismálanefnd fái utanríkisráðuneytið á fund um TISA viðræðurnar og vinnulag ráðuneytisis í kringum þær í ljósi þess að heilbrigðisráðherra vissi hvorki um tillögur tengdar viðskiptum með heilbrigðisþjónustu né afstöðu Íslands í því máli.”

Þingsályktunartillaga um Landsiðaráð lögð fram

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur ásamt samflokksfólki og þingmönnum annarra stjórnarandstöðuflokka lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stofnun Landsiðaráðs.

Ástæða þess að tillagan var mótuð og lögð fram eru ábendingar um að þörf sé fyrir sjálfstæðan og óháðan vettvang í íslensku samfélagi sem fjallar um siðfræði á breiðum grundvelli, veitir stjórnvöldum og almenningi leiðbeiningar í þeim efnum og stuðlar að umræðu um siðfræði. Bent er á siðaráð í Þýskalandi og Danmörku sem dæmi um slíkan vettvang sem gegnir mikilvægu hlutverki í þessum samfélögum.

Full ástæða er til að ætla að þörf sé fyrir Landsiðaráð á Íslandi, m.a. voru ábendingar um það í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008 að siðferði hefði víða verið ábótavant í aðdraganda bankahrunsins og mætti rekja ófarirnar til þess að einhverjum hluta. Lögð er áhersla á það í þingsályktunartillögunni að Landsiðaráð verði fjölskipaður og óháður faglegur siðfræðivettvangur sem geti að eigin frumkvæði tekið siðfræðileg álitamál til umfjöllunar og gefið um þau álit sitt.

Valdið til fólksins

Þinghaldi fyrir jól er nú nýlokið, með samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár og annarra fjárlagatengdra mála. Margt má segja um forgangsröðun fjárlaganna, þar sem skattar eru hækkaðir á mat og menningu, skorið er niður hjá Ríkisútvarpinu og aðgangur að framhaldsskólum takmarkaður þannig að 25 ára og eldri eru útilokaðir frá námi. Þá er aukinn kostnaður lagður á herðar sjúklinga, t.d. með aukinni greiðsluþátttöku í sérhæfðum lyfjum. Á sama tíma er byrðum létt af tekjuhærri hópum, t.d. með afnámi auðlegðarskatts. Meðal annars vegna þessara mála hefur myndast gjá milli þings og þjóðar á undanförnum mánuðum, eins og fram kemur í skoðanakönnunum á fylgi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Rökræða í stað árása

Raunar held ég að sú gjá skýrist einnig af því hvernig forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað til þeirra sem eru ósammála þeim síðan þeir tóku við völdum. Fyrir nokkru greip forsætisráðherra til þess bellibragðs að saka stjórnarandstöðuna fyrirfram um að koma til með að segja ósatt í þinginu. Það gefur auga leið að slíkur málflutningur bætir ekki umræðuhefðina á Alþingi. Sömuleiðis er það áhyggjuefni að formaður fjárlaganefndar og þingflokksformaður Framsóknarflokksins skuli leynt og ljóst tengja niðurskurð á framlögum til RÚV við meinta ósanngjarna umfjöllun um flokkinn sinn.
Verst af öllu er þó hvernig ríkisstjórnin hefur talað til þjóðarinnar sjálfrar. Þeir sem gagnrýna ríkisstjórnina eru sagðir taka þátt í „loftárásum“ eða byggja skoðanir sínar á „misskilningi“. Í stað rökræðu um forgangsröðun og grunngildi samfélags okkar er fólki ítrekað stillt upp í lið – „við“ og „hinir“ – þar sem öll gagnrýni er gerð tortryggileg og þeim sem hafa aðra skoðun gerðar upp annarlegar hvatir.

Lýðræði á tímamótum

Framferði ríkisstjórnarinnar í þessum efnum veldur ekki aðeins eðlilegri gremju meðal þjóðarinnar heldur grefur það undan lýðræðinu. Það er forsenda lýðræðislegrar ákvarðanatöku að upplýsingar séu fyrir hendi og almenningur geti tekið þátt í opinberri umræðu án þess að vera átalið af valdafólki. Lýðræði þarf líka á því að halda að til séu óháðir fjölmiðlar sem miðla upplýsingum til fólksins með aðgengilegum hætti. Í fámennu samfélagi hefur almannaútvarpið þar feykimikilvægu hlutverki að gegna og því sérstakt áhyggjuefni að framlög þess séu skert.
En til framtíðar eigum við líka að huga að annars konar lýðræðisumbótum. Mikilvægt er að efla þjóðþingið gagnvart framkvæmdavaldinu og styrkja þannig fulltrúalýðræðið. Samhliða því er líka brýnt að setja sem fyrst ákvæði í stjórnarskrá um að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu Þannig hefði til dæmis mátt knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lækkun veiðigjalda en 35 þúsund Íslendingar skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja þeim lögum samþykktar. Því miður voru lögin hins vegar samþykkt, og það þó að skoðanakannanir hafi sýnt að 70% þjóðarinnar væru þeim andsnúin.

Þátttökulýðræði

Þó að mikilvægt sé að setja skýr ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur er einnig rétt að huga að því að lýðræði snýst ekki einungis um atkvæðagreiðslur. Okkur hættir til að hugsa um lýðræði sem eitthvað sem gerist í kjörklefanum en í reynd snýst það að sjálfsögðu um að almenningur – „lýðurinn“ – taki þátt í að móta samfélag sitt. Undanfarin ár hafa ýmsar athyglisverðar tilraunir verið gerðar til að auka þátttöku almennings í opinberri stefnumótun og þar með styrkja stoðir lýðræðisins.
Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu. Lýðræðistilraunir af þessu hafa verið settar af stað í ótal löndum, þar á meðal í Danmörku, Bandaríkjunum, Brasilíu og Japan. Reyndar höfum við Íslendingar einnig verið framarlega á þessu sviði, því sú vinna sem fram fór í tíð síðustu ríkisstjórnar við gerð nýrrar stjórnarskrár – með þjóðfundi, stjórnlagaráði og þjóðaratkvæðagreiðslu – hefur vakið athygli erlendis. Við þurfum að halda áfram á þessa leið á næstu árum og styrkja þannig stoðir lýðræðisins. Þannig getum við tekið betri og lýðræðislegar ákvarðanir.
Að lokum óska ég landsmönnum öllum gleðilegra jóla og friðar yfir hátíðirnar, með von um að við sjáum frekari lýðræðisumbætur á komandi ári.

Katrín Jakobsdóttir

Ráðherra verji frekar störf Fiskistofu sem þegar eru á landsbyggðinni

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók til máls á Alþingi í dag til að ræða flutning á störfum Fiskistofu.

Lilja Rafney benti á að starfsemi á starfsstöð Fiskistofu á Ísafirði hefur legið niðri frá áramótum og annað starfið þar auglýst laust til umsóknar. „Starfið er að vísu ekki hjá Fiskistofu og því síður á Ísafirði heldur er það hjá Matvælastofnun á Selfossi,“ sagði Lilja Rafney og bætti við að sjávarútvegsráðherra hafi verið búinn að lýsa því yfir að starfsstöðin á Ísafirði yrði að fá önnur verkefni ef önnur hyrfi. „Ekkert bólar á þeim verkefnum enn.“

„Hæstvirtur ráðherra telur rétt að flytja Fiskistofu með manni og mús til Akureyrar,“ og benti á að Umboðsmaður Alþingis hefur ákveðið að taka málið til skoðunar. „Á hvaða vegferð er hæstivirtur ráðherra? Ef hann vill landsbyggðinni svona vel og vill halda utan um starfsemi Fiskistofu úti á landi, af hverju ver hann þá ekki þau störf sem eru til staðar úti á landi?“ spurði Lilja Rafney og bætti svo við að ráðherra kysi í staðinn að „ryðjast áfram með eitthvað sem ekki er víst að sé lagagrundvöllur fyrir eins og flutning Fiskistofu til Akureyrar.“