Posts

Afleiðingar nýfrjálshyggjuvæðingar háskóla á Íslandi

Nýlega komu fréttir af því að Háskóli Íslands hefði færst upp í 222. sæti á alþjóðlegum samanburðarlista háskóla í heiminum (The Times Higher Education World University Rankings). Rektor Háskóla Íslands fagnaði þessu sérstaklega og sagði: „Niðurstaðan er mikil viðurkenning fyrir alla þá sem starfa hér?…“ Færslan frá sætum 251 til 275 þótti fréttnæm og sérstakt fagnaðarefni. Sambærilegan metnað má finna í háskólum um víða veröld. Í háskólanum í Bresku-Kólumbíu lýsti nýráðinn rektor því yfir að hann ætlaði sér að skólinn yrði meðal tíu efstu í heiminum á slíkum samanburðarlista. Stjórnvöld í Danmörku settu sér nýlega það markmið að hafa í það minnsta einn háskóla í landinu á meðal tíu bestu í heiminum.

Líkt og orð rektors bera með sér byggja samanburðarlistarnir á mælingum á frammistöðu starfsfólks skólanna, nokkuð sem hér á landi er kallað vinnumatskerfi og allir opinberir háskólar hafa sammælst um. Greinar sem háskólakennarar birta, fyrirlestrar sem þeir halda, bækur sem eru skrifaðar og önnur „framleiðsla“ þeirra er þannig talin til stiga. Þetta vinnumatskerfi við íslenska háskóla á sér hliðstæðu í háskólum Norður-Evrópu og víðar.

Vinnumatskerfið íslenska á rætur í kjarasamningum kennara við ríkið en er nú að verða birtingarmynd samkeppnisvæðingar háskóla. Þessi samkeppnisvæðing er ein þriggja meiriháttar breytinga sem eru að eiga sér stað í háskólum í Norður-Evrópu í það minnsta. Hinar snúa að ójöfnuði og breyttum skilningi á háskólafólki. Forsenda samkeppni er ójöfnuður og þannig verður nú að skilgreina einn háskóla sem verri og annan sem betri, byggt á samræmdu mati þeirra í millum. Sama gildir um starfsfólk háskólanna. Það er svo lagt á sömu mælistiku og verður ekki fólk í öllum sínum fjölbreytileika, heldur mannauður sem annaðhvort leggur til markmiða kerfisins eða ekki. Mælanlegur mannauður háskóla keppir þannig á alþjóðlegu markaðstorgi háskóla á heimsvísu.

Þessi samkeppnisvæðing er birtingarmynd tiltekinnar rökvísi sem kennd er við nýfrjálshyggju í seinni tíð. Vinnumatskerfið er að verða grunnur að markaði þar sem háskólar keppa og á sama tíma er kerfið tækið til að skilja markaðinn. Afleiðingar þessa eru hins vegar mun víðtækari en bara einhver stigakeppni milli háskóla.

Kvíði meðal starfsfólks
Hinum mælanlega mannauði háskóla er ráðstafað til að mæta markmiðum þess kerfis sem myndar skilyrði markaðarins. Þannig leggur vinnumatskerfið grunn að samkeppni milli starfsfólks háskóla, þar sem þeim er hyglað sem þjóna markmiðum kerfisins en aðrir standa stöðugt verr að vígi. Markmið um birtingar í tilteknum ritum, markmið um fé úr samkeppnissjóðum og markmið um stöðu skóla í samanburði við aðra stýra vinnu háskólafólks í sífellt meiri mæli, en ofan í kaupið bætist að þessi markmið reynast stöðugt færanleg. Það er þegar fleiri ná að mæta markinu er það fært hærra eða lengra. Almennt þýðir þetta vaxandi kvíða meðal starfsfólks. Kvíða sem birtist sérstaklega hjá þeim sem yngri eru í kerfinu og eru að reyna að skapa sér starfsvettvang.

Það sem meira er, þá skapar þessi samkeppnisvæðing starfsmenningu sem snýst um stundarhag. Markmiðin eru mæld árlega og háskólafólk leitar eftir farvegi fyrir sem flest stig til að leggja til eigin stigastöðu og síns háskóla. Þar sem sú mæling þarf að vera alþjóðleg tapast t.d. þekking sem snýr að íslensku samfélagi eða henni er ævinlega speglað í viðmiðum annarra þjóða, þó umfram allt enskum. Þekking sem þannig hefur alþjóðlegt skiptagildi grefur því undan háskóla sem samfélagi þekkingarsköpunar. Umhyggja fyrir nemendum og samstarfsfólki, gæði vinnuumhverfis og annað sem snýr að því að rækta gott samfélag innan veggja háskóla er ekki metið og þeim hampað helst sem hugsa um eigin frama. Háskólinn, sem grundvöllur þekkingarsamfélags framtíðar, er því að verða þekkingarverksmiðja sem grefur undan gæðum þekkingarsköpunar. Hér á landi höfum við enn færi á að sporna við þessari þróun.

Höfundar eru landfræðingar. Þessi grein er samantekt lengri greinar í þemahefti Canadian Geographer, 60(2) um siðferði umhyggju í háskólum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu

,

Björt framtíð

Það skiptir máli hvernig við tölum um hlutina, hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur og hvaða orð við notum til að lýsa þeirri framtíð. Í dag eru við lýði orð og hugmyndir sem setja framtíð okkar í mjög svo fyrirfram mótaðan búning. Einstaklingshyggjan er efst á blaði og sú hugmynd að einstaklingurinn sé sjálfstæður gerandi, algerlega við stjórn eigin hugmynda og gerða og þær ráðist nánast aðeins af mati á eigin hagsmunum, hagsmunum sem yfirleitt eru peningalegs eðlis. Frelsi hverfist um þessa hugmynd og þetta frelsi hefur skilgreindan leikvöll, markaðinn sem er orðin alltumlykjandi og er að verða grundvöllur allra samskipta okkar. Hvert sem við komum, hvað sem við gerum ráða auglýsingar og almannatenglar upplýsingagjöf, kennarar og læknar eru orðnir þjónustuveitendur og við veljum eins og neytendur í búð.

Markaðurinn er hinsvegar ekki vettvangur frelsis. Það er skilyrt frelsi sem snýst um auðsköpun, framlegð, hagvöxt og störf. Þetta eru ráðandi stef í samfélaginu og ef ekki er hægt að þýða það sem þú segir yfir á eitthvert þeirra er fljótt hætt að hlusta. Hagvöxtur er álitin náttúrulögmál en hvernig sá vöxtur kemur ólíkum hópum til góða er ekki rætt. Hagvexti er nefninlega mjög misskipt. Hvernig krafan um hagvöxt og framlegð er að fara með umhverfi okkar og hvort hagvöxturinn og gróðinn eru að skila einhverri raunverulegri lífsfyllingu eða hamingju falla einnig í skuggann. Hvernig væri að snúa þessu við. Ræða lífsfyllingu, hamingju, heill umhverfis og náttúru og skiptingu þess auðs sem við búum yfir og ræða svo tilhvers hagvöxtur og framlegð ættu að vera?

Atvinna og störf eru annar flötur markaðar og hinnar sjálfgefnu kröfu um hagvöxt og framlegð. En hvað er vinna? Er það kvöð sem við neyðumst til að leysa að jafnaði átta tíma á dag til að geta keypt okkur hamingju? Hvað með alla þá vinnu sem ekki er borguð, sem viðheldur samfélagi okkar, s.s. þegar afi og amma passa eða þegar við tökum til heima. Hvernig væri að snúa hugmyndum okkar um vinnu við? Hætta að horfa á hana sem fjáröflunarleið til að kaupa dót og horfa á vinnu sem uppsprettu lífsfyllingar og hamingju, merkingar og tilgangs. Þá gæti fleira farið að teljast til starfa í okkar samfélagi og það mun hafa raunverulegar afleiðingar fyrir t.d. jafnrétti kynjanna þar sem t.d. umönnum og þrif teljast ekki vinna og eru oft kvennastörf.

Markaðurinn snýst líka um fjárfestingu og kostnað. Fjárfesting er góð, kostnaður slæmur. Þegar einkaaðili byggir skólahús er það fjárfesting til eflingar hagvaxtar en að reka það með skattfé er kostnaður, sem leggur til hallareksturs hins opinbera (þarna er líka áhugaverð kynjavídd en skólastörf oftast kvennastörf). Hvernig væri að snúa þessu við og horfa á rekstur skóla og velferðarþjónustu sem hagvöxt framtíðar, hætta að líta á steypu sem fjárfestingu og horfa frekar til þess sem hún á að hýsa.

Markaðinn, þarf að hugsa útfrá tengslum allra þeirra ólíku einstaklinga sem mynda hann sem heild. Þar hafa ýmsir mikilla hagsmuna að gæta af því að telja okkur trú um að um að markaðurinn sé náttúrulögmál og núverandi skipting auðs mótuð framtakssemi einstaklinga á markaði. Það er gert með orðfæri sem skilgreinir sambönd okkar og hlutverk hverju sinni. Sambönd sem gera okkur meðvirk í viðhaldi kerfisins ef við hugsum ekki vandlega um samhengi orðanna og merkingar þeirra. Að tala um lífsfyllingu, hamingju, gleði og skemmtun án þess að horfa til þess sem mótar skilning okkar á þeim hugmyndum í dag er ekki ávísun á þá björtu framtíð sem margir vilja kenna sig við. Það að andæfa og taka meðvitaða afstöðu gegn þeim hugmyndum og orðum sem skilgreina líf okkar í dag með allri þeirri misskiptingu og sóun sem þeim fylgja er það hinsvegar. Þar duga ekki stubbaknús eða hamingjusöngvar, heldur aðeins raunveruleg þétt og öflug varðstaða um þær hugmyndir sem geta viðhaldið bjartri framtíð allra og fara gegn raunverulegum hagsmunum og völdum í samfélaginu í dag.

Edward Huijbens skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

,

Bæjarmyndin til framtíðar – græna Akureyri

Í stefnuskrá vinstrihreyfingarinnar græns framboðs (VG) á Akureyri er lögð fram skýr sýn á þróun Akureyrar til framtíðar í þágu fjölbreyttra samgöngumáta, þar sem fólki er gert kleift að komast sinna ferða gangandi, hjólandi, með barnavagna eða í hjólastól. Til þess að svo megi verða þarf byggðin að vera þétt. Þjónusta, vinnustaðir og skólar þurfa að vera í hjarta hverfanna og skipulögð þannig að fjölbreytt aðgengi sé að þeim, ekki bara fyrir bíla.

Byggðin á Akureyri er byrjuð að bera þess merki að hún dreifist um of. Nýtt Hagahverfi er nýjasta birtingarmynd þess. Á þessari útþenslu viljum við hægja og þess í stað hefja uppbyggingu á skipulögðum reitum miðbæjarins og Drottningarbrautarreits og hefja af krafti skipulag og uppbyggingu byggðar á Oddeyrinni. Til langrar framtíðar er sýn okkar sú að starfsemi vöruflutninga og stærri hafnsækin starfsemi verði á Dysnesi, eins og lýst er í svæðisskipulagi og Oddeyrartangi verði hafnarhverfi. Skipulag nýrra hverfa á að okkar viti að byggja á hugmyndafræði miðbæjarskipulags sem nú er verið að samþykkja, þar sem íbúðir blandast smærri verslun og þjónustu í grænu og gönguvænu umhverfi og húsamyndir hafa yfirbragð eldri húsa, sem Akureyri er þekkt fyrir.

Þétting byggðar og uppbygging fjölbreyttra samgöngumöguleika er undirstaða grænnar Akureyrar. Í fyrsta lagi að gera fólki frekar kleift að fara gangandi eða hjólandi minnkar hávaða, dregur úr mengun af völdum útblásturs og svifryks og stækkar græn svæði, þar sem minna fer undir malbik. Akureyri er í okkar huga eitt stórt grænt svæði. Þau eiga ekki að vera aðskilin götum og byggingum á sérmerktum reitum, heldust blandast byggð og fjölbreyttum samgönguleiðum. Í öðru lagi stuðlar þétting byggðar að hagkvæmni í uppbyggingu innviða og bættri nýtingu þeirra. Vatnsveita, fráveita og rafmagn þarf að leiða um skemmri veg og dreifi- og dælustöðvar verða færri og öflugri. Þetta dregur úr sóun og tapi á þessum verðmætu auðlindum sem heitt og kalt vatn og rafmagn eru. Það að þétta byggð gerir uppbygginu fráveitu hagkvæmari, en uppbygging hennar og öflugra hreinsimannvirkja teljum við í VG forgangsmál og höfum talað fyrir í nú rúm 12 ár. Í þriðja lagi viljum við í VG gera fólki kleift að ganga og hjóla þar sem það stuðlar að bættri lýðheilsu þar sem það eykur möguleika fólks á að hreyfa sig. Heilsa og umhverfisvernd þættast þannig saman við skipulag byggðar á Akureyri og því viljum við í VG hafa þessa þætti í forgrunni þegar skipulagsmál eru rædd á Akureyri.

Í huga okkar í VG er bæjarmynd Akureyrar til framtíðar þétt byggð með hlýlegu yfirbragði. Þar á fólk að getað notið vandaðrar hönnunar, gangandi, hjólandi eða á hægri bílferð umlukið gróðri í grænum skrúða vors og sumars, hvítum kjólum vetrar eða litadýrð haustsins.

Edward Huijbens skipar 2. sætið á framboðslista VG á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Greinin birtist fyrst í Akureyri Vikublað

Redding án framtíðarsýnar

Virðulegi forseti. Ég vil í ræðu minni nú ræða nokkra þætti frumvarps til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sem koma mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, a.m.k. nokkur atriði þar í.

Fyrst vil ég hins vegar taka fyrir umræðu sem borið hefur nokkuð á hér í dag og í gær um hver lofaði hverju, hvar, hvenær og hvernig. Það leikur enginn vafi á því að í aðdraganda síðustu kosninga voru byggðar upp miklar væntingar hjá kjósendum um að nú væru sóknarfæri til að raungera leið Framsóknarflokks um allt að 20% niðurfellingu húsnæðisskulda sem hæstvirtur forsætisráðherra og flokksmenn hans höfðu talað fyrir frá 2009. Þetta átti að vera mögulegt vegna þess svigrúms sem skapaðist við uppgjör þrotabús bankanna. Þá er auðvitað gaman að geta þess í framhjáhlaupi að Framsókn sat reyndar hjá við atkvæðagreiðslu um það frumvarp sem skapaði forsendur þessa svigrúms sem um er rætt, en það var frumvarp um að læsa inni krónueignir bankanna og var samþykkt 2011.

Burt séð frá því og að öllu gamni slepptu varð þessi umræða til þess að væntingar sköpuðust og engin viðleitni var í þá átt að slá á þær væntingar nema síður væri. Á grunni þessara hugmynda fóru ýmsir að reikna um hvaða stærðir væri mögulega að ræða þegar svo djúpt er tekið í árinni. Tölur á bilinu 240–300 milljarðar fóru að heyrast í umræðunni og þegar þær voru bornar undir núverandi forsætisráðherra var ekkert gert til að slá á þær eða dempa þær stærðir sem höfðu komist á kreik — nema síður væri. Sjálfur skrifar hæstvirtur forsætisráðherra grein á heimasíðu sína í lok apríl 2013, rétt fyrir kosningar, þar sem hann gerir að umtalsefni sem fyrr svigrúmið sem skapast muni við uppgjör bankanna, segir að það skuli nota að hluta „til að rétta hlut íslenskra heimila“ eins og segir orðrétt í greininni. Í næstu efnisgrein vitnar hæstvirtur forsætisráðherra svo til talsmanns snjóhengjan.is sem talar um að þetta svigrúm geti numið 800 milljörðum. Efni greinar forsætisráðherra korteri fyrir kosningar 2013 var um svigrúm sem skapast við uppgjör bankanna sem nota skuli að hluta til heimila — og það svigrúm er 800 milljarðar.

Fyrst er að nefna að 5 þús. heimili með verðtryggð fasteignalán fá ekki leiðréttingu og það sem kemur til frádráttar leiðréttingarfjárhæðinni. Lista yfir þau atriði sem koma til frádráttar er að finna í 8. gr. frumvarpsins. Þar er um að ræða niðurfellingu veðkrafna vegna aðgerða um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna frá 2009, það er númer eitt. Í öðru lagi er um að ræða niðurfellingu fasteignaveðkrafna sem mælt er fyrir um í samningi um sértæka skuldaaðlögun frá 2009 og verklagsreglum frá 2010. Þar er í þriðja lagi talað um lækkun skulda samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 2011, það er svokölluð 110%-leið. Í fjórða lagi er niðurfelling fasteignaveðkrafna í kjölfar greiðsluaðlögunar einstaklinga frá 2010, í fimmta lagi niðurfelling fasteignaveðkrafna vegna einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, í sjötta lagi sérstök vaxtaniðurgreiðsla frá 2010 og svokallaðar sérstakar vaxtabætur koma einnig til frádráttar og í síðasta lagi ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur frá 2013.

Allt þetta kemur til frádráttar þeim leiðréttingum sem stendur til að bjóða upp á. Með öðrum orðum, ef einhver hefur fengið einhverja aðstoð vegna vanda dregst það frá því sem nú er í boði og það eru allt í allt fjárhæðir sem þegar hafa verið greiddar út og nema heildarumfangi leiðréttingar nú og rúmlega það.

Hvað þetta þýðir hins vegar gagnvart því hver fær hvað er ekkert skýrt í frumvarpinu og ekki heldur í skýringum með því. Þessi áhrif eru óreiknuð. Það er með öðrum orðum ekki búið að taka inn í hvernig frádrátturinn mun leika fjölskyldurnar, þ.e. hver fær hvað og hvernig, þannig að í raun eru þær myndir sem eru dregnar upp af áhrifum af þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar örugglega rangar, að hve miklu leyti vitum við ekki og hvernig þær koma til með að breytast vitum við ekki heldur. Ég hef illan bifur á þessu og lúmskan grun um að þær verði skekktar í átt til hærri tekjuhópa og eignameiri þegar búið verður að taka tillit til þessa frádráttar sem á eftir að reikna inn.

Hvað varðar þá sem fá niðurfellt samkvæmt frumvarpinu er sýnt samkvæmt myndum og fyrirliggjandi gögnum hvaða fjöldi heimila fær hve mikla niðurfellingu. Þar má sjá að um 60% fá á bilinu 20 þús. kr. til 1,5 millj. kr. niðurfellt, þ.e. rúmlega 50 þús. heimili. Restin fær meira, allt að 4 milljónum. Hvað varðar upphæðina er ljóst að þeir fá mest sem hæstar árstekjur hafa þó að þeir séu í 4. sæti er kemur að hlutdeild í heildarpakkanum.

Því hefur verið fleygt fram hér, m.a. af hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni í umræðu í gærkvöld, að þessi hópur, þ.e. þeir tekjuhæstu, hjón eða einstaklingar með 12 milljónir eða yfir í árstekjur, sé ekki hátekjufólk, hjón með 500 þúsund hvort í mánaðartekjur eru ekki hátekjufólk. Það má svo sem vera en ég mundi hins vegar ekki gera ráð fyrir að þessi hjón væru í tiltakanlegum greiðsluvanda vegna húsnæðislána og miðað við þróun launavísitölu og eignamyndunar á markaði mega aðstæður vera afar sérstakar ef þetta fólk á í vandræðum með eigið fé eða að hlutfall afborgana af ráðstöfunartekjum hafi tekið einhverjum stökkbreytingum. Með öðrum orðum er þetta fólk ekki í greiðsluvanda.

Það er þetta sem mér finnst skrýtið við frumvarpið. Af hverju má ekki miða þessar aðgerðir betur? Það er flóknara og sennilega verður til sælkeraflatbaka sem erfitt er að panta með einhvers konar appi en er það ekki eðlilegra, svo ekki sé minnst á réttlátara?

Það er líka áhugavert að sjá hve stór hlutdeild niðurfærslu fer til fólks sem í dag er eldra en fimmtugt. Það eru um 40% og endurspeglast líka að einhverju marki í hlutdeild niðurfærslu skipt eftir eftirstöðvum skulda. Það má segja að hluti þessarar niðurfærslu fari til að hjálpa fólki yfir síðasta hjallann við að borga upp húsnæðisskuldir sínar, fólki sem á uppkomin eða næstum uppkomin börn, er ráðsett í vinnu og tekjum og er að verða komið með sitt á þurrt ef vel hefur gengið í lífi þess. Aftur spyr ég: Mátti ekki miða aðgerðirnar eitthvað betur? Hér er hópur sem vissi að hverju hann gekk með töku verðtryggðra fasteignalána, hópur sem man vel eftir óðaverðbólgu níunda áratugarins og því að vinna tvöfalda og þrefalda vinnu til að standa í skilum og borða hafragraut í nærri öll mál eins og sumir úr þessum hópi hafa lýst. Þeir eru búnir, þeir eru komnir með allt á þurrt. Þurfa þeir hjálp? Nei. En þeir fá hana samt.

Verst með gögnin er að það er ómögulegt að rýna í áhrif á landshlutana. Það þarf að skoða og það hefur verið gert og það þarf að leggja það fram samhliða þessu frumvarpi í vinnu nefndarinnar. Ég mundi vilja fá það líka fram. Það er ekki gert í frumvarpinu en það er ákaflega mikilvægt.

Að lokum vil ég fjalla aðeins um það að þeir fá sem ekki þurfa. Þá kemur svarið að fólki sé í sjálfsvald sett að sækja um þetta. Þeir sem telja sig ekki þurfa geta vel sleppt því að sækja um skuldaleiðréttinguna. En þá er aldeilis verk að vinna, þá þarf að fara að tala um þetta frumvarp út frá heildarhagsmunum samfélagsins en ekki heildarhagsmunum einstakra heimila. Það þarf að gera heimilum ljóst að það er hagur okkar sem samfélags að þessi aðferð gagnist helst þeim sem á þurfa að halda og því sé það siðferðisleg skylda þeirra sem ekki telja sig þurfa að taka ekki niðurfærsluna. Vandinn er hins vegar sá að þetta frumvarp er ekkert hugsað þannig. Það miðar að heimilum sem eru orðin óljóst skilgreind grunneining og það er hvers og eins að huga að sínum hag og leiðrétta sinn forsendubrest, sem aftur er heldur ekkert sérlega vel skilgreindur.

Þegar bumbur einstaklingshyggjunnar eru barðar af slíku offorsi er ákaflega ólíklegt að hægt sé að ná fram einhverri samstöðustemningu um að við öll hjálpumst nú að með þetta frumvarp að vopni. Það er aftur barnaskapur og einfeldningsháttur, held ég fram. Staða málsins er einfaldlega þannig að þetta frumvarp mun koma til góða fjölda fólks sem þarf enga sérstaka hjálp. Í sumum tilfellum er jafnvel um að ræða gjöf til fólks sem þegar hefur hagnast á fasteignaviðskiptum sínum þegar allt er talið. Þetta svíður mér, þetta finnst mér rangt og þetta finnst mér vond nýting á fé sem klárlega mætti ráðstafa í svelt skóla- og heilbrigðiskerfi eða til niðurgreiðslu opinberra skulda, sem allt væru sannarlega almennar aðgerðir.

Þetta frumvarp er redding, það á að redda málunum núna, redding án framtíðarsýnar, redding án skilgreinds vanda, redding sem er til skamms tíma. Við skulum athuga vandlega hvað liggur til grundvallar þessum fullyrðingum mínum að um reddingu til skamms tíma sé að ræða þegar við lesum hér samantektina úr frumvarpinu:

„Efnahagsleg áhrif aðgerða til lækkunar skulda heimilanna eru um margt mjög óljós og óvissan mikil, annars vegar vegna þess að aðgerðin er af áður óþekktri stærðargráðu, sem þau líkön sem matið byggist á hafa ekki reynslu af, og hins vegar vegna þess að óvissa er almennt mikil í hagkerfinu, m.a. um umfang ónýttrar framleiðslugetu hagkerfisins.“

Margt bendir til þess að þetta verði þensluaukandi, margt bendir til þess að sú þensla verði byggð á einkaneyslu sem byggir á innflutningi sem mun kalla á vaxtahækkanir og verðbólgu sem mun þá éta upp leiðréttingu höfuðstólsins á jafnvel innan við þremur árum. Því hefur verið fleygt fram í ræðupúltinu.

Þetta frumvarp er í raun ekki lagt fram af ábyrgð, en það er einmitt ábyrgð, agi og ráðdeild í ríkisfjármálum sem þarf nú með ríkissjóð skuldsettan upp á þúsundir milljarða.

Ég legg til að þetta frumvarp verði vandað í nefnd og það verði sniðið betur þannig að við látum ekki peninga í hendur fólks sem ekki þarf heldur að þessu verði miðað betur til þeirra sem þurfa á því að halda í greiðsluvanda. Í rauninni er ekkert til sem heitir skuldavandi, skuldir verða ekki vandamál fyrr en við hættum að geta greitt þær.

Þetta er stytt útgáfa af ræðu Edwards Huijbens, ræðuna í heild sinni má lesa hér.

Gegn markaðsvæðingu einkalífsins

Edward H. Huijbens þingmaður Vinstri grænna vakti athygli Alþingis í dag á nýlegum dómi dómstóls Evrópusambandsins sem ógilti Evrópulöggjöf sem skyldar símafyrirtæki til að safna og geyma gögn um net- og símnotkun fólks í allt að tvö ár. Dómurinn taldi tilskipunina brjóta gegn grundvallarreglum um að vernda skuli einkalíf fólks og persónuleg gögn þess. Edward hvatti þingið til þess að skoða dóminn vandlega og til þess að vinna gegn markaðsvæðingu einkalífsins.

Lög á sama grunni í gildi hér á landi

„Í þessu samhengi vil ég benda á að slík lög gilda hér á landi. Fjarskiptalög setja þá skyldu á fjarskiptafyrirtæki að geyma  upplýsingar í sex mánuði, þó reyndar hvíli engin skylda á þeim að geyma innihald slíkra upplýsinga heldur ákveðin fjarskiptagögn, svo sem hvert smáskilaboð séu send og tímasetningar þeirra,“ sagði Edward og bætti við: „Hinsvegar er það svo, líkt og Vodafone lekinn sýnir, að freisting eða ófagmennska, leiðir til þess að mun meira er geymt af gögnum en lögin ætla. Það er gengið smáum skrefum á friðhelgi einkalífsins og nú er svo komið, og dæmin sanna, að við erum komin á hættulegt stig.“

Edward rifjaði upp að Í vinnslu nú er tillaga til þingsályktunar um gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum frá stjórnskipunnar og eftirlitsnefnd. Sáttmálinn kveði á um upplýst samþykki fyrir söfnun stafrænna upplýsinga, afturköllun samþykkis, hvaða gögnum megi safna, hver geymi þau og hvar og hvaða upplýsingar séu unnar úr þeim auk eyðingar þeirra.

Snúið verði af braut markaðsvæðingar einkalífsins „Vil ég hvetja þingið í störfum sínum til að skoða vandlega þennan dóm Evrópudómstólsins og hafa til hliðsjónar við gerð sáttmálans og snúa hratt og örugglega af braut „markaðsvæðingar einkalífsins“ og valdi fyrirtækja yfir ökkur gegnum geymslu upplýsinga,“ sagði Edward að lokum.

Eru hvalveiðar mannúðlegar?

Edward Huijbens þingmaður Vinstri grænna spurði Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eftirlit með hvalveiðiaðferðum á Alþingi á mánudag. Vísaði Edward til fréttar Fréttablaðsins þess efnis að þrír fjórðu Íslendinga teldi mikilvægt að hvalveiðar færu fram á mannúðlegan hátt.

Engar upplýsingar um velferðarþátt hvalveiða

Edward sagði að fram hafi komið á Alþingi að engar upplýsingar eru til um með hvaða hætti hvalveiðar við Ísland eru stundaðar með tilliti til dýravelferðar. „Íslenskur almenningur hefur því engar upplýsingar til þess að mynda sér skoðun á og taka afstöðu til þess hvort veiðarnar sé framkvæmdar á mannúðlegan hátt eða ekki,“ sagði Edward.

Sigurður Ingi sagðist vonast til þess að norskir aðilar kæmu hingað til lands í sumar til þess að taka út hvalveiðarnar. „Ég veit ekki annað en að svo verði og það hefur staðið til í nokkuð langan tíma. Menn hafa verið að reyna að tryggja fjármagn til þess að það geti orðið. Það þarf auðvitað að kaupa þessa sérfræðinga að,“ sagði hann.

Almenningur fái að fylgjast með

Í framhaldinu ítrekaði Edward mikilvægi þess að almenningur fengi upplýsingar um hvalveiðar og spurði: „Verða þessar upplýsingar aðilanna birtar opinberlega svo almenningur geti kynnt sér þær og í framhaldinu lagt mat á hvort aðferðirnar séu mannúðlegar eða ekki? Telur ráðherra kannski eðlilegt að fjölmiðlum verði boðið í þessar ferðir þar sem úttektaraðilar verða til staðar til að upplýsa almenning betur um hvernig hvalveiðarnar fara fram?“

Sigurður Ingi sagði þær upplýsingar sem koma fram í sumar verði án efa gerðar aðgengilegar en svaraði því hins vegar ekki hvort hann teldi eðlilegt að fjölmiðlum yrði boðið með.

Umdeilt hversu mannúðlegar veiðarnar eru

Edward sagði að þótt eflaust mætti deila um hversu mannúðleg dráp á hvölum eru þá væri um að ræða spendýr með flókið taugakerfi. „Sem finna sársauka á líkum skala og við. Þetta eru alla vega mjög flóknar lífverur taugalífeðlisfræðilega séð sem kveljast vafalítið nokkuð,“ sagði hann og bætti við: „Miðað við þær aðferðir sem ég hef séð og þar sem ég vann nú í sláturhúsi Kaupfélagsins í gamla daga þá er það nú ekki sambærilegt að slátra nauti eða svíni eða hval. Þetta eru nokkuð aðrar aðferðir og má búast við nokkuð meiri sársauka.“

Sigurður Ingi var ósammála þessu og sagði: „Þessar veiðar okkar eru gerðar eins mannúðlega og hægt er og mér finnst mjög gott að það skuli vera mjög ríkur vilji hjá Íslendingum og að það skuli vera skoðun þeirra að hvalir skuli veiddir á eins mannúðlegan hátt og hægt er eins og aðrar skepnur sem við aflífum til þess að búa til mat fyrir mannkynið.“