Posts

Velferðin er ekki til sölu!

Af skrifum Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, borgarfulltrúa og fulltrúa sjálfstæðisflokks í Velferðaráði í Morgunblaðið á dögunum, ásamt viðtali við hana í Fréttablaðinu í dag má glöggt sjá að stefna sjálfstæðismanna snýst um það að einkavæða velferðarkerfið og bjóða betri þjónustu til þeirra sem hafa efni á að borga.

Langflestir íslendingar (yfir 90%) eru þeirrar skoðunar að greiða skuli fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustu úr sameiginlegum sjóðum. Í einhverjum tilfellum má velferðarþjónusta vera á hendi styrktar- og eða góðgerðarfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þeir sem fá opinbert fé til að veita slíka þjónustu eiga eðlilega að gera grein fyrir hverri krónu og tryggja verður að opinbert fé fari ekki í arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja.

Það á að vera metnaður okkar allra að tryggja það að ríki og sveitarfélög veiti öllum öfluga heilbrigðis- og velferðarþjónustu, óháð efnahag. Framtíðarsýn sem byggist á því að sumir geti borgað aukalega fyrir betri þjónustu er sýn sem ég deili ekki. Það er skrýtið að líta á það sem forgangsverkefni að veita fé í arðgreiðslna til gróðardrifinna fyrirtækja á markaði, í stað þess að forgangsraða sama fé í þjónustuna sjálfa. Það nýtist nefnilega öllum, líka þeim fátæku. Um þessi áform hef ég aðeins eitt að segja. Velferðin er ekki til sölu.

Elín Oddný Sigurðardóttir er fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu – fyrir hvern?

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur verið sérstakt áhugamál hægrimanna um langt skeið, að minnsta kosti frá tímum Margrétar Thatcher og annarra forgöngumanna nýfrjálshyggjunnar. Það kom því ekki sérstaklega á óvart að sjá að í yfirlýsingu milli ríkisstjórnarinnar og Læknafélags Íslands vegna nýfenginna kjarasamninga hafði verið laumað inn setningu um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem nú þegar er einkarekið að nokkru leyti. Einkavæðingin kallast reyndar „fjölbreytt rekstrarform“ í þessari yfirlýsingu en það er sama hugtak og iðulega er notað þegar kynna á einkavæðinguna til leiks undir rós. En til hvers og fyrir hvern er verið að leggja til aukna einkavæðingu í heilbriðgiskerfinu? Hver ætli hagnist á því?

Dýrara fyrir skattgreiðendur
Undanfarnir áratugir hafa veitt okkur mikla reynslu af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem ýmislegt fróðlegt hefur komið í ljós. Við vitum til dæmis að Bandaríkin eru með langdýrasta heilbrigðiskerfi í heimi, en þar er kerfið í heild sinni einkavætt eins og kunnugt er. Kostaðurinn skýrist að miklu leyti af því að óhemju miklum fjármunum er varið í yfirbyggingu á sjúkrahúsum og sjúkratryggingarfélögum, auk þess sem tvíverknaður er mikill og hagkvæmni lítil. Svipaða sögu er að segja af einkavæðingu sem ráðist hefur verið í í öðrum löndum: einkavædd heilbrigðisþjónusta er almennt séð dýrari, þótt einstaka sjúkrahús sem sinni fyrst og fremst heilbrigðustu sjúklingunum geti að sjálfsögðu verið ódýrari en sum opinber sjúkrahús. Það er því ljóst að enginn ávinningur er af einkavæðingu fyrir íslenska skattgreiðendur – þvert á móti bendir flest til þess að einkavætt heilbrigðiskerfi sé dýrara en opinbert.

Verri þjónusta fyrir sjúklinga
Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu þjónar heldur ekki markmiðum um bætta þjónustu fyrir sjúklinga – notendur þjónustunnar. Í þeim löndum þar sem opinber heilbrigðisþjónusta hefur verið einkavædd er gengur aðferðafræðin iðulega út á að einkavæða „hagkvæmustu“ einingarnar og skilja hið opinbera eftir með erfiðustu og viðkvæmustu þjónustuna. Í einkavæddu þjónustunni er svo allt gert til þess að draga úr kostnaði og fara framhjá þeim reglum og viðmiðum sem hið opinbera setur um hvaða þjónustu beri að veita og með hvaða hætti. Á það hefur margoft verið bent að engin leið er til að skilgreina nákvæmlega í samningum hins opinbera við einkafyrirtæki hvernig þjónustu veri að veita og því koma reglulega upp hneykslismál þar sem hinar einkavæddu stofnanir hafa með einum eða öðrum hætti komist upp með að veita miklu verri þjónustu en sú sem veitt var af hinu opinbera áður.

Meiri ójöfnuður hjá starfsfólki
Því er stundum haldið fram að laun séu hærri í einkavæddum heilbrigðiskerfum en opinberum. Í þessari fullyrðingu er ákveðið sannleikskorn að því leyti að laun stjórnenda og allskonar millistjórnenda – sem iðulega fjölgar við einkavæðingu – eru miklum mun hærri í einkavæddum heilbrigðisstofnunum en opinberum. Hinir fjölmörgu stjórnendur í einkavæddum heilbrigðiskerfum keyra iðulega um á rándýrum sportbílum og lúxusjeppum, sem fjármagnaðir eru með skattfé eða gjöldum á sjúklinga. Almennt starfsfólk – hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ræstitæknar, og svo framvegis – þurfa hins vegar jafnan að sætta sig við talsvert lægri laun og – sem oft gleymist – skerðingar á réttindum og starfsöryggi.

… en eigendur græða
Af ofansögðu er ljóst að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er hvorki til hagsbóta fyrir skattgreiðendur, sjúklinga né almennt starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Hverjir eru það þá sem eru að þrýsta á um aukna einkavæðingu? Einn er sá hópur sem augljóslega telur sig geta hagnast á einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, en það eru væntanlegir eigendur. Eðli málsins samkvæmt gera eigendur sér vonir um að geta tekið hagnað út úr þeim heilbrigðisstofnunum sem þeir myndu eignast við einkavæðingu, og raunar eru víða til svimandi tölur um hagnað einkavæddra heilbrigðisstofnana og ótrúlegar arðgreiðslur til eigenda. Mörg dæmi hafa litið dagsins ljós, t.d. frá Svíþjóð, þar sem opinbert fé sem varið hefur verið til einkavæddra heilbrigðisstofnana hefur að stórum hluta farið í arðgreiðslur til eigenda. Stóru spurningarnar sem við Íslendingar þurfum að svara eru því þessar: Er rétt að heilbrigðiskerfið sé leið til að græða — sé leið til að hagnast? Er verjandi að gera sjúkdóma og veikindi að féþúfu?

Fyrir öll börn

Í apríl síðastliðnum kom út skýrsla Barnaheilla um fátækt barna í Evrópu. Þar kom meðal annars fram að 16% allra barna á Íslandi búa við fátæktarmörk. Þessi börn fara á mis við margt það sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Þessi börn forðast að mæta í afmæli því þau hafa ekki efni á afmælisgjöfum, þau halda ekki eigin afmæli, stunda ekkert eða takmarkað frístundastarf. Stórir hlutar samfélagsins eru þeim lokaðir.
Samfélag sem vill stæra sig af því að allir hafi jöfn tækifæri þarf að huga að því hvernig börn sem alast upp við lítil efni geta tekið þátt á öllum sviðum samfélagsins. Það er meðal annars þess vegna sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á gjaldfrjálsa grunnþjónustu við börn. Þar teljum við með gjaldfrjálsan leikskóla, gjaldfrjálsar skólamáltíðir og gjaldfrjáls frístundaheimili; því að við teljum að þetta sé besta leiðin til að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri.

Nú kynni einhver að benda á að ódýrari leið sé að gefa hinum tekjulágu afslátt; tekjutengja gjöldin fyrir grunnþjónustuna og koma þannig til móts við efnaminni fjölskyldur. Á því er hins vegar mikill munur að byggja samfélag þar sem efnaminna fólk getur sótt sér sérstaka fátækrastyrki eða bjóða einfaldlega upp á sömu grunnþjónustu fyrir alla óháð tekjum. Síðarnefnda hugmyndafræðin hefur verið undirstaða félagshyggju. Þannig voru grunnskólar byggðir upp á Norðurlöndum; sem almannagæði sem ættu að standa öllum til boða óháð stétt og stöðu. Tilgangurinn? Hver annar en að mennta fólk til hagsbóta fyrir samfélagið en líka til að skapa hverjum og einum tækifæri til að bæta líf sitt, þroskast og komast til manns.

Langt er um liðið síðan grunnskólamenntun varð almannagæði og margt hefur breyst. Til að mynda er leikskólinn nú viðurkenndur sem fyrsta skólastigið á Íslandi og langflest börn njóta þar frábærs starfs. Rannsóknir benda til þess að leikskóladvöl styðji mjög við börn í námi á síðari stigum og ekki síst þess vegna skiptir máli að við gerum leikskólann gjaldfrjálsan, tryggjum þátttöku allra og viðurkennum í raun leikskólastigið sem fyrsta skólastigið. Þar með er ekki sagt að mikilvægt sé að bæta kjör leikskólakennara; það er svo sannarlega brýnt verkefni. Gjaldfrjáls leikskóli útilokar það ekki, ekki frekar en nokkrum dettur í hug að hefja gjaldheimtu fyrir grunnskólamenntun til að bæta kjör grunnskólakennara,

Stór skref hafa verið stigin í almennu frístundastarfi barna; æ fleiri börn taka þátt í skipulögðu frístundastarfi sem verður stöðugt faglegra og metnaðarfyllra með aukinni háskólamenntun á þessu sviði og auknum rannsóknum. Það er mikilvægt að öll börn eigi þar jöfn tækifæri í raun. Síðast en ekki síst vil ég nefna skólamáltíðirnar sem til að mynda finnsk stjórnvöld tóku á sínum tíma ákvörðun um að hafa gjaldfrjálsar og tengja það við örvandi skólaumhverfi sem hefur skilað finnskum skólum miklum árangri.

Skóli er samfélag. Þar er nám barna miðlægt og það skiptir miklu að við búum vel að okkar kennurum með bættum kjörum og góðri menntun. Þar hafa ýmis skref verið stigin á undanförnum árum en betur má ef duga skal. Það er brýnt verkefni að bæta kjör kennara en getur ekki komið í veg fyrir að við stefnum að gjaldfrjálsri grunnþjónustu til að veita öllum börnum jöfn tækifæri og vinna með markvissum hætti gegn þeim vágesti sem fátækt barna er. Íslenskt samfélag á mikinn auð. Við eigum að nýta þann auð til að búa börnunum okkar sem besta og áhyggjuminnsta bernsku. Það skiptir margar fjölskyldur miklu máli að spara sér þau hundruð þúsunda sem á ári hverju renna í gjöld fyrir grunnþjónustu við börn. Grunnþjónustu sem á að vera fyrir öll börn.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst í DV

Fyrir almannahag

Þegar þingi lauk skriðu ýmsir ráðherrar ríkisstjórnarinnar út í birtuna með stórar yfirlýsingar um fyrirætlanir sínar. Heilbrigðisráðherra mætti í fréttir korteri eftir að stjórnarmeirihlutinn samþykkti að dreifa 80 milljörðum af opinberu fé í skuldaleiðréttingar og tilkynnti að selja yrði ríkiseignir til að byggja nýjan Landspítala. Hann minntist ekki einu orði á að á sínum tíma hefði Síminn verið seldur úr almannaeign, meðal annars til að byggja nýjan spítala. Almenningur í landinu man hins vegar vel eftir því og spyr: Hversu oft á að selja nýjar og nýjar almannaeignir til að byggja sama spítalann?

Næstur á svið var fjármálaráðherra sem viðraði áhuga sinn á því að selja hlut í Landsvirkjun; fyrirtæki sem í senn er gríðarmikilvægt fyrir þjóðarhag og mun líklega skila þjóðarbúinu talsverðum arði á næstu árum en heldur þar að auki utan um nýtingu sameiginlegra orkuauðlinda þjóðarinnar sem er mjög mikilvægt að lúti lýðræðislegri stjórn enda um hápólitískar ákvarðanir að ræða. Sem betur fer er að minnsta kosti einn ráðherra ósammála fjármálaráðherranum enda virðist hugmyndin fyrst og fremst sprottin úr pólitísku málsháttasafni Sjálfstæðisflokksins.

Þó að ráðherrarnir tali eins og þeim hafi dottið eitthvað firnasnjallt og óvænt í hug er einkavæðing á almannaeigum ekki ný af nálinni og almenningur fékk að kynnast afleiðingunum af síðasta einkavæðingarflippi í hruninu. Einkavæðingin hefur þó ekki verið bundin við ríkið því ýmis sveitarfélög hafa gengið mjög langt í að einkavæða almannaeigur, oftast undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, og mörgum er enn í fersku minni REI-ævintýrið sem snerist um einkavæðingu á hluta Orkuveitu Reykjavíkur og fulltrúar allra annarra flokka en Vinstri-grænna virtust reiðubúnir að samþykkja.

Ég treysti á það að íslenskur almenningur mótmæli kröftuglega frekari einkavæðingu almannaeigna á viðkvæmum tímum þar sem máli skiptir að verja sameignina og komast saman í gegnum eftirhreytur efnahagshrunsins. Einkavæðing dregur úr áhrifum almennings á grunnþjónustu, getur veikt stöðu ríkisins og eykur ójöfnuð. Því skiptir máli að hafa öfluga fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum sem standa vörð um það sem við eigum sameiginlega. Því skiptir miklu að fulltrúar Vinstri-grænna fái sem víðast brautargengi í kosningunum á laugardaginn kemur.

,

Í þágu almannahagsmuna gegn einkavæðingu

Endurteknar yfirlýsingar ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem boðuð er einkavæðing eða aukinn einkarekstur í velferðar- og almannaþjónustu gefa tilefni til að vera á varðbergi. Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson hefur nýlega talað fyrir því að selja hlut í Landsvirkjun. Heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson hefur ítrekað boðað aukinn einkarekstur í heilsugæslu og að almannaeigur verði seldar til að fjármagna byggingu nýs Landspítala. Einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað í sömu átt.

Sagan sýnir að ekki hefur verið hægt að treysta á Framsóknarflokkinn í þessum efnum þrátt fyrir góð orð einstakra ráðherra eða þingmanna. Saman stóðu núverandi stjórnarflokkar að einhverri óvönduðustu einkavæðingu sögunnar fyrir um áratug, þegar Síminn og bankarnir voru seldir, með hörmulegum afleiðingum bæði fyrir fjarskiptakerfið, fjármálamarkaðinn og þjóðarbúið. Meintur gróði af þessari einkavæðingu átti meðal annars að fjármagna byggingu nýs spítala þá en úr því varð ekkert fremur en öðrum fyrirætlunum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð og frambjóðendur flokksins til sveitarstjórna taka afdráttarlausa afstöðu í þessum efnum nú sem áður enda sýnir sagan að afstaða okkar hefur stundum skipt lykilmáli og nægir þar að nefna REI-málið þar sem einkavæða átti hluta Orkuveitu Reykjavíkur.

Okkar stefna er skýr; við höfnum alfarið einkavæðingu almannaþjónustunnar og við erum andvíg því að unnt sé að hagnast á henni. Þar sem félagasamtök, sjálfseignarstofnanir eða einkaaðilar koma að því að reka eða veita tiltekna velferðar- og almannaþjónustu er eðlilegt að það sé ekki gert í gróðaskyni og ekki sé hægt að greiða sér arð út úr rekstrinum.

Grundvallarspurningar af þessu tagi þarf að ræða í aðdraganda kosninga, ekki síður þegar kosið er til sveitarstjórna en Alþingis því sveitarfélögin bera ábyrgð á stórum hluta velferðarþjónustunnar og eiga mörg mikilvægustu orku-, veitu- og innviðafyrirtæki landsins. Lágmarkskrafa er að flokkar og framboð tali skýrt um sín áform. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur skýra stefnu í þessum efnum; almannahagsmunir þurfa að ráða för og því höfnum við einkavæðingu á almannaeigum og almannaþjónustu.

Undirskrift 1Undirskrift 2

Byrjað að stela?

Það sem ég hef óttast mest af hálfu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að hún steli af þjóðinni eignum hennar. Sporin hræða. Skyldu menn almennt gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir allt bölmóðstalið á sínum tíma, báru ríkisbankarnir sig alla tíð bærilega og voru fullkomlega sjálfbærir. Í byrjun tíunda áratugarins kom að vísu tímabundið framlag úr ríkissjóði til Landsbankans, en það var að fullu greitt til baka. Óþarfi er að fjölyrða um hvað einkavæddir bankarnir kostuðu síðan þjóðina. Menn stigu einkavæðingar- og söluskrefin ætíð lævíslega. Þannig átti aðeins að hlutafélagavæða Landsímann á sínum tíma – „alls ekki selja“.

Sömu sögu er að segja af sölu bankanna. Nú er Landsbankinn aftur kominn í eigu ríkissjóðs og byrjaður að pumpa milljarðatugum inn í sameiginlega sjóði landsmanna í formi arðs. Þá vitum við að þess er skammt að bíða að reynt verður að hafa þessa eign af okkur. Sanniði til! Reyndar er það orðið mest aðkallandi verkefni samtímans að umturna fjármálakerfinu – þar með talið Landsbankanum – þannig að það vinnur í þágu almennings en ekki gegn.

Rangir hagsmunir

Og auðvitað mun verða reynt að verða við kröfu gráðugra fjárfesta sem vilja eignast Landsvirkjun. Samkvæmt rannsókn fjárfesta á fýsileika þess að leggja raforkukapal til Evrópu gæti hann gefið Landsvirkjun fjörutíu milljarða í arð á ári, það er að segja ef við yrðum nógu dugleg að eyðileggja náttúruperlur okkar fyrir orkusölu til soltins Evrópumarkaðs. Fjárfestingin yrði að vísu fimm hundruð milljarðar – en það myndu langtímafjárfestar ekki setja fyrir sig.

Og auðvitað verður þetta svona nema almenningur stoppi stjórnvöld. Bjarni Benediktsson fjármálaráðaherra er nú búinn að lýsa því yfir að hann vilji selja Landsvirkjun. Bara pínulítið – og til góðra fjárfesta – lífeyrissjóðanna. Allt samkvæmt gömlu formúlunni að fara hægt að þjóðinni. Og lífeyrissjóðirnir, skyldu þeir vera reiðubúnir að láta hafa sig í skítverkið? Vonandi ekki sá sem ég greiði til.

Reynslan erlendis af fjárfestingum lífeyrissjóða í stoðkerfum samfélagsins er alla vega. Eitt er þó sammerkt með þeim. Enginn munur er á lífeyrissjóðum sem fjárfestum og öðrum að því leyti að þeir vilja hámarksarð af eign sinni ekki síður en aðrir og eru reiðubúnir að selja og braska ekkert síður en aðrir. Arður Íslendinga af Landsvirkjun á að liggja í lágu orkuverði. Með sölu Landsvirkjunar yrðu múraðir inn rangir hagsmunir; hagsmunir sem lægju í því að virkja sem mest og selja orkuna sem hæst.

,

Höfnun markaðsvæðingu skólakerfisins

Fyrir skömmu hélt Margrét Pála, stofnandi og fræðslustjóri Hjallastefnunnar, erindi á ársfundi Samtaka atvinnulífsins. Þar kallaði hún eftir aðstoð atvinnulífsins við „bjarga‟ börnunum okkar frá eyðileggingarmætti skólakerfisins með því að „ráðast sem víðast‟ að því og byggja upp nýtt kerfi í samvinnu við hana. Það má því öllum ljóst vera að hér boðar Margrét Pála að eina lausnin við úreltu og einsleitu skólakerfi sé einkavæðing þess.

Fjölmargir hafa tekið undir þetta sjónarmið og talað fyrir nauðsyn þess að innleiða svokallað fjölbreytt rekstrarfyrirkomulag til að svara auknum kröfum um nýjar áherslur í skólastarfi og meiri hagkvæmni í rekstri. Því hafa æ fleiri sveitarfélög kosið að fara þá leið að útvista hluta af skólastarfi sínu til einkaaðila. Markaðsvæðing skólakerfisins hér á landi er því hafin af fullri alvöru.

Sams konar þróun hefur átt sér stað í fleiri löndum og er því tilvalið að líta til þeirrar reynslu sem þar er komin. Berglind Rós Magnúsdóttir hefur rannsakað áhrif markaðsvæðingar á breskt og bandarískt skólakerfi. Hún hefur bent á að óheft markaðsvæðing í skólakerfum skapi til lengri tíma meiri menningar- og stéttarmun milli skóla. Þar sem markaðslögmál ráða för í skól­um verður meiri eft­ir­spurn eft­ir nemendum sem þykja góðir fyrir ímynd skólans. Þannig er meiri eftirspurn eftir börn­um foreldra sem hafa komið sér vel fyr­ir í sam­fé­lag­inu og minni eft­ir­spurn eft­ir þeim sem standa þar höllum fæti.

Um 20 ár eru síðan Svíar veittu aukið svigrúm til einkareksturs innan skólakerfisins. Reynsla þeirra sýnir sömuleiðis að stéttarmunur milli skóla hefur aukist við breytt rekstrarfyrirkomulag og niðurstöður úr alþjóðlegum samanburðarmælingum hafa sýnt að hið aukna frjálsræði innan kerfisins hefur síður en svo verið til þess fallið að bæta námsárangur nemenda.

Við í Vinstri grænum lítum svo á að uppbyggilegt og metnaðarfullt starf í almenningsskólum sé hornsteinn félagslegs réttlætis og jöfnuðar í samfélaginu. Tryggja þarf að allir nemendur eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að stunda nám þar sem komið er til móts við þarfir hvers og eins. Það er okkar trú að slíkt verði einungis kleift með öflugu opinberu skólakerfi. Fagfólk skóla hefur í dag svigrúm til að þróa eigin stíl, stefnu og menningu. Svigrúm er því nú þegar til staðar fyrir fjölbreytileika á borð við Hjallastefnuna sem spratt einmitt fram innan opinbera kerfisins og í raun eru engin rök fyrir því að þeirri stefnu sé ekki hægt að framfylgja innan þess.

Skólakerfið á að vera sameign okkar allra. Það á ekki að vera í einkaeign heldur að vera rekið fyrir fjármuni úr sameiginlegum sjóðum. Þess vegna hafnar Vinstri hreyfingin grænt framboð allri markaðsvæðingu skólakerfisins.

Hildur Friðriksdóttir skipar þriðja sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

Pistillinn birtist fyrst á Vísir.is

Allir til í einkavæðingu?

Hugmynd Bjarna Benediktssonar um sölu á hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna hefur vakið athygli. Hugmyndin er í fullu samræmi við stefnu Sjálfstæðismanna sem vilja koma sem allra flestum samfélagslegum verkefnum í hendur einkaaðila.

Fyrsta skref í átt að einkavæðingu

Allt tal um að lífeyrissjóðirnir séu jú í eigu almennings og Landsvirkjun verði þannig áfram í eigu almennings er augljós fyrirsláttur. Lífeyrissjóðirnir hafa fyrst og fremst það markmið að ávaxta fjármuni sjóðsfélaga og þeim ber að selja hlutinn áfram ef hentugur kaupandi finnst. Auk þess skortir mjög á lýðræðislegt aðhald almennings gagnvart lífeyrissjóðunum. Að selja hlut til lífeyrissjóðanna er hreint og klár fyrsta skref í átt að einkavæðingu og það er beinlínis óforskammað að halda öðru fram. En Sjálfstæðisflokkurinn er eins og hann er og honum verður víst seint breytt.

Besti flokkur og Samfylking sammála Bjarna

Verra er að hann er ekki einn og raunar hafa aðrir flokkar gengið enn lengra en Sjálfstæðisflokkurinn. Á kjörtímabilinu hóf meirihluti Besta flokks og Samfylkingar beinlínis viðræður við lífeyrissjóðina um aðkomu þeirra að stofnun sérstaks félags sem sæi um uppbyggingu Hverahlíðarvirkjunar í stað Orkuveitu Reykjavíkur.

Meirihlutinn kallaði það auðvitað ekki einkavæðingu frekar en Bjarni, og ekki heldur sölu, heldur verkefnisfjármögnun. En auðvitað var þar allt á sömu bókina lagt, lífeyrissjóðirnir hefðu eignast hlut í því sem annars hefði tilheyrt Orkuveitu Reykjavíkur með sömu áhættu og afleiðingum og þær hugmyndir sem Bjarni kynnir nú.

Ein á móti

Tillagan um viðræður við lífeyrissjóðina var samþykkt með 14 atkvæðum gegn einu í borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru allir sammála um að selja lífeyrissjóðunum hluta af Orkuveitu Reykjavíkur. Og það var hvorki í fyrsta né eina skiptið sem Vinstri græn hafa staðið vaktina gegn einkavæðingu almannaþjónustunnar. Í tíð núverandi meirihluta hefur Gagnaveita Reykjavíkur verið sett í söluferli og hlutur Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja seldur til einkaaðila. Atkvæði voru greidd á sama hátt í öllum þessum málum.

Almannaeign og lýðræðislegt aðhald

Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur eru fyrirtæki sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki enda leggja þau grunn að lífsskilyrðum á landinu. Slík fyrirtæki eiga að vera alfarið og undantekningarlaust í eigu almennings og lúta skýru lýðræðislegu aðhaldi. Vinstri græn munu hér eftir sem hingað til standa með almannaþjónustunni, ein flokka.

Sóley Tómasdóttir skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík

Greinin birtist fyrst á Vísir.is

Ræða Svandísar Svavarsdóttur á eldhúsdegi

Virðulegi forseti

Í lok þessa fyrsta heila þingvetrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er rétt að huga að uppskerunni. Fyrir liggur að þjóðin er farin að átta sig á því hvers konar vandræðaástand er að teiknast upp. Framsóknarflokkurinn hefur misst annan hvorn kjósanda frá sér frá kosningum, slíkur er trúverðugleikinn og Sjálfstæðisflokkurinn er að festast í sessi sem flokkur með innan við fjórðungs fylgi en einhverjum hefði nú brugðið við slíkar tölur á síðustu öld. Ekkert hefur gengið upp, nema kannski eitt, – að hygla útgerðinni. Að rétta útgerðinni í landinu hátt í 20 milljarða á þremur árum, á sama tíma og peningar eru ekki til fyrir grunnþjónustuna, heilbrigðiskerfið og menntakerfið og skapandi greinar og rannsóknir og nýsköpun mega bíða. Á sama tíma og náttúran verður óvarin í sumar fyrir ágangi ferðamanna og menningarsamningar eru enn í uppnámi eru til peningar fyrir þessa aðila sem standa svo nærri stjórnarflokkunum.

Listinn yfir vandræðaganginn er langur. „Með allt niðrum sig“ er jafnvel orðalag sem nú á vel við. Heimsmetið sem verið er að vinna að þessa dagana í gegnum þingið felur í sér fáheyrt ábyrgðarleysi fordæmalausar útgreiðslur úr ríkissjóði og líka til þeirra sem ekkert þurfa á því að halda og heilu hóparnir sitja eftir. Hola íslenskra fræða gapir og minnir á forgangsröðun og áherslur ríkisstjórnar sem enn lætur sig dreyma um álver og virkjanir, ágengar totur virkjanafyrirtækja og stórkallalausnir gamalla tíma. Sóknaráætlanir úti um land liggja óbættar hjá garði, fjárfestingaráætlanir fyrri ríkisstjórnar blásnar af og sms-styrkveitingar forætisráðherra taka við. Aftur til fortíðar, þeirrar fortíðar þar sem handahóf, frændhygli og klíkustjórnun réði ríkjum. „Kjóstu mig og ég borga þér síðar.“ Kunnugleg stef sem voru gagnrýnd í rannsóknarskýrslu alþingis en ungir stjórnmálamenn taka nú upp og hreiðra um sig í anda úreltra hugmynda um völd og áhrif.

Vinnudeilur loga um allt samfélag, verkföll og vinnustöðvanir. Ljóst er að ríkisstjórnin ræður engan veginn við að halda ró í samfélaginu og ber fulla ábyrgð á þeim óróleika. Greinilegt er að ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum er ekki treyst; það sést í skoðanakönnunum sem birtast þessa dagana en rétt um þriðjungur þjóðarinnar styður nú ríkisstjórnina. Það sést líka í vaxandi átökum á vinnumarkaði sem nú er líkt við þann óróleika sem ríkti áður en tókst að koma á þjóðarsátt fyrir fjórðungi aldar. Það logar allt samfélagið í átökum. Ríkisstjórnin kemur nú ítrekað með frumvarp inn í þingið um að stöðva vinnudeilur.

Virðulegur forseti, góðir landsmenn

Blikur eru á lofti í heilbrigðismálunum. Einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar er handan við hornið. Ráðherrann slær úr og í, gefur þinginu engin svör um áformin en talar skýrt á fundum um kunnuglega drauma hægri manna um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar þar sem borgað er fyrir þjónustuna, sífellt meira, og mest þeir sem mest hafa og þá fyrir betri þjónustu, eða hvað? Einhver hagnast svo á öllu saman og mest af fjármagninu kemur áfram úr ríkissjóði. Sveltur Landspítali sem enn hefur ekki öðlast þá framtíðarsýn sem honum ber er verkfæri til að þrýsta á einkavæðingu og slíkar lausnir. Allt kunnugleg stef úr pólitík hægri aflanna á Íslandi. Pólitík sem verður að hafna og forða landinu frá.

Utanríkismálin er kapítuli út af fyrir sig þar sem Framsóknarflokkurinn er í raun niðurlægður. Kosningasvikin reyndust ráðherrum Sjálfstæðisflokksins of stór biti að kyngja enda voru þeir afhjúpaðir hver á fætur öðrum með eftirminnilegum hætti nú í vetur. Loforð þeirra fyrir kosningar voru dregin fram og borin saman við bráðatillögu utanríkisráðherra um slit á viðræðum við ESB. Fáránleg staða málsins bæði innan lands og utan er eftirtektarverð og engan veginn búið að bíta úr nálinni með áhrifin á Sjálfstæðisflokkinn. Formaður Heimssýnar og jafnframt einn af háttvirtum leiðtogum Framsóknar hlýtur að láta til sín taka í næstu skrefum. Annað kæmi á óvart.

Samskipti forsætisráðherra við þingið hafa verið með ólíkindum. Í stærstu málum ríkisstjórnarinnar hefur hann varla látið sjá sig, ekki í ESB-umræðunni og ekki í skuldamálunum sem þó eru hans stærstu mál og heimsmet í kosningaloforðum ef marka má hans eigin orð. En nei, hann þarf ekki að tjá sína afstöðu eða skoðanir í samtali við þingið heldur lokar sig af. Aðrir mega sjá um umræðuna. Formaður rökhyggjuflokksins forðast umræðuna. Leggur ekki í umræðuna þegar á reynir.

Það hefur verið stefna þingflokks VG á þessu þingi að stuðla að samstöðu stjórnarandstöðuflokkanna bæði í málefnum og baráttuaðferðum. Það hefur ekki alltaf tekist og við höfum ekki alltaf verið ánægð með allt sem aðrir flokkar í stjórnarandstöðu hafa gert eða látið frá sér fara. En samstaða hefur verið grunnlínan. Þessi leið hefur skilað árangri – í samvinnu við þjóðina og jafnvel einstaka þingmenn í stjórnarflokkunum. Þessi lína hefur skilað þeim árangri að komið var í veg fyrir að náttúruverndarlögin voru afnumin í heild, sjúklingaskattur afnuminn og desemberuppbót fyrir atvinnulausa var komið á. Þetta eru dæmi um raunverulegan árangur.

Sögulegt fylgistap ríkisstjórnarinnar frá kosningum gefur skýr skilaboð um afstöðu þjóðarinnar. Þjóðin telur nóg komið og nú er lag. Nú er tækifæri í kosningum til sveitarstjórna til að gefa ríkisstjórninni verðuga ráðningu. Skýrasta krafan um aðra stefnu er stuðningur við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Mikilvægt er að kjósendur nýti það tækifæri vel og af einurð og láti ríkisstjórnina heyra það! Notum tækifærið!