Posts

„Hér vantar meiri vinstripólitík“

Á þeim mínútum sem ég hef til ráðstöfunar langar mig fyrst og fremst að segja að það þarf meiri pólitík í þennan sal. Meiri vinstri pólitík.

Ef verkefni stjórnarandstöðu væri einvörðungu að streitast gegn ríkjandi stjórnvöldum þá höfum við náttúrlega óska ríkisstjón. Á fyrsta degi lækkaði hún veiðgjöldin, á öðrum degi slátraði hún auðlegðarskattinum og tók samhliða að daðra við einkavæðingu og síðan kom þetta allt, koll af kolli, á færibandi.

En þetta er að sjálfsögðu engin óskastaða og upp í hugann kemur viðtal við ritstjóra breska ádeilu-tímaritsins Private Eye eftir nýafstaðnar kosningar Bretlandi einhvern tímann í kringum 1970 en þá hafði Íhaldsflokkurinn unnið mikinn sigur. Ritstjórinn kvað niðurstöður kosniganna vera himnasendingu fyrir tímarit sitt, nú yrði úr nógu að moða, en bætti því svo við að sem þjóðfélagsþegn væri hann að sjálfsögðu miður mín.

Auðvitað vildum við helst að inn í þennan þingsal væru aðeins borin mál sem við öll teldum vera þjóðþrifamál og sanngirnismál; mál sem við værum sátt við sem þjóðfélagsþegnar. Og vissulega á þetta við um mörg verkefni Alþingis. Ég hef sagt í gamni og kannski líka alvöru að ef úr heilaforriti sérhvers þingmanns væri tekin vitneskjan um hvaða flokki hann eða hún tilheyrði þá yrði margt auðleystara enda létu menn þá eigin dómgreind og kannski líka sanngirni oftar ráða. Flokksböndin geta nefnilega verið hamlandi.

En lífið er ekki alveg svo einfalt hér utandyra og þannig getur það heldur varla átt að vera í þessum sal. Í samfélaginu, ekki bara hér, heldur í heiminum öllum, er tekist á um hagsmuni. Hópar, stéttir og ríki takst á, og sumir vilja orða það svo að neysluhyggja mannsins takist á við hagsmuni móður jarðar.

Þessi hagsmunabarátta er háð undir pólitískum merkimiðum, peningafrjálshyggju, félagshyggju, þ.e. hægri stefnu og vinstri stefnu. Þetta er ekki úrelt skipting einsog sumir þeirra halda fram sem telja að stjórnmál eigi bara að snúast um spjall yfir kaffibolla.
Vissulega eru málefnalegar samræður nauðsynlegar – og þess vegna yfir kaffibolla – en kjósendur verða að fá að vita hver eru raunveruleg áform stjórnmálasamtaka. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þannig í kosningum iðulega fengið stuðning margra þeirra sem vilja ekki markaðsvæðingu heilbriðgiskerfisns því flokkurinn hefur vísvitandi talað óskýrt um þetta óvinsæla málefni fyrir kosningar.

Vilja stjórnmálamenn selja alla bankana eða vilja þeir samfélagsbanka og er alvara þar á bakvið, hvað með kvótakerfið varla verður gefist upp við að breyta því kerfi, og hvað með heilbrigðiskerfið. Þar takast raunverulegir hagsmunir á.

Það er í alvöru byrjað að dæla út arðgreiðslum í heilbrigðiskerfinu. Við borgum þetta allt að sjálfsögðu, annað hvort sem skattgreiðendur eða sem sjúklingar. Sum okkar munu geta borgað, önnur ekki. Og þannig verður það: Kerfi sem mismunar. Vilja menn markaðshyggju í heilbrigðiskerfinu eða vilja menn félagshyggju, vilja menn hægri eða vilja menn vinstri?

Ágætur maður skrifaði mér eftir að ég birti pistil í helgarblaði Morgunblaðsins nú um helgina um tollasamningana sem opna fyrir stóraukinn innflutning á kjötvöru. Ég vísaði þar á yfirlýsingar verkalýðsfélagsins Framsýnar, sem varar við afleiðingum fyrir íslenskan matvælaiðnað. Bréfritari sagði að ég yrði að gá að því að Framsýn væru hagsmunatengd samtök.

Það er að sjálfsögðu rétt. Störf eru hagsmunir og það eru líka hagsmunir að verja þá auðlind sem sjúkdómafríir bústofnar og heilnæm innlend matvælafrmaleiðsla er. Og einhvers staðar inn í þennan hagsmunaslag koma stóru verslunarkeðjurnar, þær sömu og vilja láta þennan þingsal banna með lögum að aðrir en einkaaðilar fái að selja áfengi í verslunum sínum. Og halda menn að það séu ekki hagsmunir einhverra að draga úr byggingakröfum, aðgengi og sólarljósi, fyrir fátækan leigumarkað?

Auðvitað koma hagsmunir þarna alls staðar við sögu. Pólitík er nefnilega að uppistöðu til hagsmunabarátta – annað eru viðfangsefni fagfólks. Um leið og við vísum pólitískri baráttu úr þessum sal þá eigum við ekki lengur erindi hingað.

Og ég spyr, vill fólk vera í samkrulli með Donald Trump sem gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna eða Hillary Clinton sem er harðlínuhaukur í utanríkismálum? Þetta eru næstu leiðtogar í NATÓ, hernaðarbandalaginu sem Alþingi samþykkti nýlega, illu heilli, að verði áfram hornsteinn íslenskrar öryggisstefnu. Ég fullyrði að NATÓ er hættulegra öryggi Íslands en nokkru sinni en samt hótar núverandi ríkisstjón því að binda okkur enn fastari böndum þessu bandalagi. Þetta eitt nægir mér til að vilja nýja ríkisstjórn að afloknum kosningum.

Auðvitað fagna ég því alltaf þegar samstaða næst í þessum sal um málefni sem við ættum að geta sameinast um. Við þurfum að vera sameinuð í baráttunni fyrir Ísland og viðkvæma og fágæta náttúru þess. Hér þekkjum við öll hvað við er átt og er þar vissulega ágreiningur um sitthvað.
En nú spyr ég í lokin: Eigum við ekki að sameinast um að tryggja sameiginlegt eignarhald okkar á Jökulsárlóni og Grímsstöðm á Fjöllum og verða þaning við áskorðunum fólks úr öllum stjórnamálaflokkum, öllum starfsstéttum og öllum aldurshópum? Þessi áskorun er raunveruleg, hún er til svört á hvítu. Það er okkar að verða við henni.

Gleðilegt sumar!

Það þarf ríkisstjórn sem tryggir að allir á Íslandi sitji við sama borð og njóti sömu tækifæra

Ræða Katrínar flutt í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi, eldhúsdegi, 30. maí 2016

Herra forseti, góðir Íslendingar,

Í ár eru tveir áratugir síðan ég ásamt 170 samstúdentum mínum úr Menntaskólanum við Sund gekk út í vorið, fullviss um að framtíðin væri okkar. Bjartsýnin skín út úr stúdentsmyndinni þó að auðvitað hafi örlög okkar orðið með mismunandi hætti og lífið farið mismunandi höndum um fólk. En trúin á framtíðina var svo sannarlega til staðar.
Nýstúdentar nú tuttugu árum síðar lesa hins vegar í fréttum að kjör ungs fólks hafi versnað, bæði samanborið við kjör ungs fólks fyrir áratug og samanborið við kjör annarra hópa í samtímanum. Og það er umhugsunarefni því að í þessu fólki býr framtíðin og það er um framtíðina sem við þurfum að tala hér í kvöld.

Saga Íslands á tuttugustu öldinni er um margt saga mikilla sigra. Samfélag og atvinnulíf byggðust upp á ótrúlega skömmum tíma. Á þessu ári fögnum við hundrað ára afmæli Alþýðusambands Íslands og minnumst um leið þeirra sigra sem íslensk verkalýðshreyfing hefur unnið.

Almannatryggingar.
Stytting vinnutímans.
Samningsréttur.
Svo eitthvað sé nefnt.

Á sama tíma vannst mikið í uppbyggingu velferðarsamfélagsins, heilsugæslu og menntakerfis, konur fengu kosningarétt, komið var á fæðingarorlofi og svo mætti lengi telja.

Ekkert af þessu vannst án baráttu fólks sem vildi vinna fyrir almannaheill. Og alltaf voru nógir til að andmæla umbótunum. Alltaf voru nógir sem engar breytingar vildu. Líf okkar sem nú lifum og störfum á Íslandi er markað af baráttu þeirra kynslóða sem gengu á undan. Við eigum þeim margt að þakka.

Og samfélagið stendur aldrei kyrrt, það er í eilífri þróun. Eftir hraðskreiðar breytingar í upphafi þessarar aldar, einkavæðingu bankanna, einföldun regluverks og uppbyggingu fjármálakerfis sem flestum Íslendingum var eins og hulinn heimur kom hrun 2008 þegar Pótemkíntjöldum gervivelmegunar var svipt frá á einni viku.
Nú átta árum síðar, eftir mikið starf margra, ekki síst almennings sem tók á sig auknar byrðar og erfiðleika, eru bjartari horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar en lengi hefur verið. Það er gott og við Íslendingar getum bæði þakkað okkur sjálfum en líka forsjóninni sem færði okkur bæði makríl og ferðamenn þegar neyðin var mest sem hefur hjálpað okkur upp úr öldudalnum.

Og af hverju eru þá ekki allir glaðir og reifir?

Svarið við því er einfalt því bjartari tímar í efnahagsmálum duga ekki til ef meginþorri almennings í landinu fær ekki að njóta þessara bjartari tíma og reynir á eigin skinni rangláta skiptingu auðs, ranglátt kerfi sem meðhöndlar ekki alla jafnt.

Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa rifjað upp fyrir okkur með áþreifanlegum hætti að fjármálakerfið sem byggt var upp fyrir hrun af nýfrjálshyggjuöflunum, núverandi stjórnarflokkum, lifði hrunið af. Hér á landi er fámennur hópur, þeirra á meðal ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, sem tók þátt í því að nýta sér aflandsfélög í skattaskjólum til að geyma sína peninga. Þessi félög lúta ekki sömu reglum og við setjum okkar eigin viðskiptalífi og samþykkjum hér á Alþingi Íslendinga.

Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa sýnt okkur með áþreifanlegum hætti misskiptinguna í samfélaginu, hvernig sumir hafa fjármagn sem þeir geta nýtt sér til að spila á öðrum leikvelli en okkur hinum er ætlaður. Panamaskjölin hafa afhjúpað að á Íslandi búa tvær þjóðir.

Bjartari tímar í efnahagsmálum duga ekki til ef við þorum ekki að ráðast að rótum þessarar misskiptingar.

Alls staðar í heiminum er fólk að vakna til vitundar um að það er ekki eðlilegt að ríkasta eina prósentið í heiminum eigi meira en hin 99 prósentin. Hér á Íslandi er fólk að vakna til vitundar um það að það er ekki eðlilegt að ríkustu tíu prósentin eigi nærri þrjá fjórðu alls auðs hér á landi.

Því að þessi misskipting byggist ekki á dugnaði og verðleikum hinna ríkustu heldur þeirri staðreynd að á Vesturlöndum hefur verið reist kerfi sem hyglir hinum auðugustu og kemur niður á millitekju- og lágtekjuhópum. Það hefur verið gert með skattbreytingum, auknum gjöldum fyrir grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun, einkarekstri og einkavæðingu almannaþjónustu og breytingum á fjármálakerfinu, breytingum sem oft nást í gegn með þrýstingi fámennra en auðugra hagsmunahópa. Það er þetta kerfi sem skapar misskiptingu á kostnað almannahagsmuna.

Og það er þetta kerfi sem skapar misvægi milli heimshluta, ágenga nýtingu auðlinda, loftslagsvanda og stríðsátök þannig að sumir heimshlutar eru mun viðkvæmari fyrir átökum og áföllum en aðrir. Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að ekki hafa verið fleiri á flótta frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að meira að segja á okkar ríka landi telja um 48% heimila sig eiga í erfiðleikum með að ná endum saman.

Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að meira að segja á okkar ríka landi eru um 6.100 börn sem líða efnislegan skort.

Þessu kerfi getum við breytt ef við viljum og þorum.

En til þess þarf nýja ríkisstjórn sem viðurkennir þá staðreynd að auðlindir okkar eru sameign okkar allra og það er eðlilegt að þeir sem fá leyfi til að nýta þær greiði eðlilegt gjald fyrir þau afnot.
Það þarf ríkisstjórn sem viðurkennir að skattkerfið á að nýta til að jafna kjörin, bæði tekjur af vinnu og fjármagni.
Það þarf ríkisstjórn sem leggur ekki auknar skattbyrðar á lágtekjufólk með því að hækka virðisaukaskatt á matvæli heldur kortleggur hvar fjármagnið er að finna og skattleggur það – fremur en að seilast í vasa launþega á Íslandi.

Og um leið og við jöfnum kjörin þá jöfnum við líka aðstæður fólks því þessar tekjur geta skipt sköpum í okkar sameiginlegu verkefni; nýjan Landspítala, gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, háskóla og rannsóknir, framhaldsskóla fyrir alla, örorkubætur sem uppfylla framfærsluviðmið og mannsæmandi ellilífeyri þannig að fólk geti lifað góðu lífi af sínum tekjum og tekið þátt í vinnumarkaðnum og samfélaginu eins lengi og hugur þess stendur til, samfélaginu og því sjálfu til hagsbóta.

Það þarf ríkisstjórn sem nýtir uppgang og góðæri til uppbyggingar fyrir almannahagsmuni.

Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að niðurskurðarstefnan sem ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar byggist á veldur meiri skaða en ávinningi. Það þarf öfluga grunnþjónustu og aukinn jöfnuð til að tryggja velsæld almennings og almenna hagsæld, Fyrir því eru ekki einungis réttlætisrök heldur líka efnahagsleg rök.

Það þarf ríkisstjórn sem endurskoðar fjármálakerfið, aðskilur fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi og tryggir umhverfi fyrir samfélagsbanka sem hafa önnur markmið en eingöngu gróða fyrir hluthafa, til dæmis umhverfissjónarmið, byggðasjónarmið og kynjasjónarmið.

Það þarf ríkisstjórn sem vill byggja upp háskólastarfsemi og rannsóknir, tryggir öllum menntun við hæfi og gjaldfrjálst opinbert heilbrigðiskerfi þannig að tekjulágt fólk þurfi ekki að fresta því að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórn sem tryggir öllum framfærslu sem stendur undir góðu lífi á Íslandi, sem vinnur að því að uppræta skort og fátækt í samfélaginu.

Það þarf ríkisstjórn sem leggur áherslu á að útrýma mansali og nútíma þrælahaldi, er reiðubúin að berjast gegn kynbundnum launamun hvar sem hann birtist og grípur til raunverulegra aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi með fjármagni og þekkingu.

Það þarf ríkisstjórn sem tryggir aukin völd almennings og horfist í augu við kröfuna um aukna þátttöku almennings í öllum ákvörðunum. Ríkisstjórn sem kemur endurskoðun stjórnarskrárinnar í höfn þannig að hún verði sannanlega stjórnarskrá fólksins.

Það þarf ríkisstjórn sem tryggir að allir á Íslandi sitji við sama borð og njóti sömu tækifæra, og vinnur um leið með alþjóðasamfélaginu að auknum jöfnuði í heiminum öllum og tekst á við alþjóðlegar áskoranir með því að ganga á undan með góðu fordæmi.
Góðir Íslendingar.

Líf kynslóðanna sem á undan okkur komu er saga okkar sem nú lifum. Líf okkar mun verða saga þeirra barna sem nú koma í heiminn. Og þau munu líta um öxl.

Tókst að vernda miðhálendið fyrir komandi kynslóðir? Tókst að tryggja gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu? Var ákveðið að styrkja menntun og rannsóknir fyrir framtíðina? Voru öryrkjum tryggð mannsæmandi kjör eða fannst samfélaginu í lagi að þeir rétt skrimtu? Opnuðum við faðminn fyrir fólki á flótta eða reistum við ósýnilegar girðingar og vísuðum burt fólki sem var tilbúið til að leggja allt í það að byggja hér upp líf sitt í sátt við samfélagið? Var byggt upp samfélag eftir efnahagshrunið þar sem öllum var tryggt að lifa með reisn? Eða var rekin niðurskurðarstefna til að tryggja að hinir auðugustu héldu sem mestu af sínum fjármunum? Var byggt upp samfélag þar sem lýðræðið var aukið til að tryggja að raddir sem flestra hefðu áhrif? Eða var barist gegn öllum kerfisbreytingum til að tryggja að sem fæstir réðu sem mestu? Var fjármálakerfið endurskoðað í þágu samfélags og atvinnulífs? Var gripið til róttækra aðgerða gegn loftslagsbreytingum fyrir komandi kynslóðir? Var unnið að jafnrétti kynjanna þannig að kynið skipti ekki lengur máli fyrir launaumslagið? Var byggt upp auðmannasamfélag eða jafnaðarsamfélag?

Kæru landsmenn. Það er okkar að ákveða hver saga þessara barna verður. Hver saga unga fólksins verður sem nú þarf að taka ákvörðun um það hvort það sætti sig við versnandi kjör þrátt fyrir allt tal um bjartari tíma. Þar er valið skýrt. Saman eigum við að byggja upp heilbrigt samfélag, grænt samfélag, gott samfélag, jafnaðarsamfélag. Um það munu næstu kosningar snúast.

Eldhúsdagsumræður – Lilja Rafney

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það þing sem nú lýkur störfum hefur einkennst af átökum um hvernig samfélag við viljum að sé á Íslandi. Viljum við í kjölfar kreppu að hér rísi samfélag jöfnuðar eða mun þjóðin verða leidd af hægri öflunum aftur inn í misskiptingu og ójöfnuð sem átti stóran þátt í því að hér féll spilaborgin árið 2008?

Á Íslandi búum við í landi allsnægta en samt eru ýmsar brotalamir og ójöfnuður sem okkur ber að uppræta. Við erum ríkt samfélag með gnótt af auðlindum bæði til lands og sjávar og allar forsendur eru til þess að hér ríki jöfnuður í lífskjörum meðal íbúa landsins og til að sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi hafi jöfn tækifæri á að nýta hæfileika sína sem best í þjóðfélaginu.

Veruleikinn er annar fyrir allt of stóran hóp, því miður. Á Íslandi búa allt of mörg börn við fátækt. Aukin fátækt meðal barna er sár og er þjóðfélagslegt mein. Fátæktin er mun líklegri hjá börnum einstæðra foreldra, atvinnulausra, lágtekjufólks og hjá börnum innflytjenda. Slík þróun getur haft langtímaafleiðingar fyrir börnin. Hætt er við að þau börn sem foreldrar geta ekki veitt eðlileg lífsgæði verði ekki þess umkomin að nýta hæfileika sína sem skyldi í framtíðinni. Við sem samfélag verðum að bæta stöðu þeirra sem minnst mega sín. Fátækt má ekki líðast meðal þjóðar sem er svo rík en misskiptingin endurspeglast í því að 70% eigna þjóðarinnar er í eigu 10% landsmanna.

Sú ríkisstjórn sem lækkar skatta á þá efnamestu og fellur frá þrepaskiptu skattkerfi, lækkar veiðigjöld á útgerðina og hækkar svo matarskattinn á almenning í landinu stuðlar ekki að jöfnuði í samfélaginu. Sú ríkisstjórn sem leggur til að bankabónusar verði aftur teknir upp í fjármálakerfinu, að aukin gjaldtaka verði í heilbrigðiskerfinu, að atvinnuleysisbótatímabilið verði stytt og aðgangur að framhaldsskólakerfinu verði takmarkaður stuðlar ekki að jöfnuði í samfélaginu. Sú ríkisstjórn sem ætlar að halda áfram að afhenda fáum útvöldum náttúruauðlindir landsins á silfurfati eins og makrílinn stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem ætlar að hunsa allar leikreglur með skammtímagróða að veganesti og nýta dýrmætar náttúruperlur landsins sem skiptimynt fyrir stóriðjuuppbyggingu stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem notar yfir 80 milljarða í skuldaniðurfærslu þar sem þeir tekjuhæstu fengu 1.5 milljarð í niðurfellingu og 1.250 heimili sem greiddu auðlegðarskatt fengu lækkun sinna lána — sú aðgerð stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem sker niður fjármuni til velferðarkerfisins, samgöngumála, menntamála og til landshlutaverkefna, eins og sóknaráætlunar, stuðlar ekki að jöfnuði í landinu.

Ójöfnuður er líka milli landshluta hvað varðar aðgang að ýmiss konar þjónustu, menntun, heilbrigðisþjónustu, samgöngum, háhraðatengingu, orkuverði og vöruverði, svo eitthvað sé nefnt. Gert er ráð fyrir því í áætlun að íbúum hér á höfuðborgarsvæðinu fjölgi á næstu 25 árum um 70 þús. manns. Það eru tæp 90% af þeirri mannfjölgun sem Hagstofan spáir fyrir um á landinu öllu næstu 25 árin. Þessar spár ættu að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni, ekki bara okkur landsbyggðarfólki heldur einnig öllum þeim sem vilja sjá byggðina í kringum landið hafa möguleika á því að vaxa og dafna.

Það getur ekki verið góð þróun fyrir litla og fámenna þjóð að hér þróist borgríki með tilheyrandi kostnaði fyrir höfuðborgarsvæðið. Stjórnvöld verða að bregðast við með öllum ráðum svo við stöndum ekki frammi fyrir hnignun byggðanna vítt og breitt um landið bæði til sjávar og sveita. Landsbyggðin hefur ýmis tækifæri, bæði varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu og nýsköpun er víða í gangi, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði og ýmiss konar frumkvöðlastarfsemi er víða um land sem styðja á við. En það er ekki hægt að afgreiða fækkun fólks á landsbyggðinni með því að segja að hún sé eitthvert náttúrulögmál. Fullt af ungu og menntuðu fólki vill setjast að utan höfuðborgarsvæðisins og það fólk sem býr utan þess vill vera þar áfram ef þjónustustig er álíka og á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að ríkisvaldið hafi verið sofandi gagnvart íbúaþróun á landsbyggðinni á síðustu áratugum og hafi sífellt komið með einhverjar smáskammtalækningar þegar áföllin hafa dunið yfir. Stór hluti af vanda veikra byggða á landsbyggðinni er tilkominn vegna ákvarðana stjórnvalda, eins og hið alræmda kvótakerfi sem hefur hyglað þeim stóru og sterku.

Ég hóf ræðu mína á að ræða ójöfnuð og hann er víða að finna bæði á meðal fólks og á milli landsvæða. Rannsóknir virtra fræðimanna hafa sýnt fram á að ójöfnuður innan samfélaga leiðir til hnignandi hagvaxtar og hnignandi efnahagslífs. Vinstri græn eru flokkur sem vill auka jöfnuð í samfélaginu, láta náttúruna njóta vafans, efla velferðarkerfið og byggja upp innviði landsins. Við höfum sýnt það með störfum okkar í vetur að við látum ekki ólýðræðisleg vinnubrögð yfir okkur ganga og munum ekki átakalaust láta þessa ríkisstjórn vinna skemmdarverk á velferðarkerfinu eða öðrum þeim stoðum sem jöfnuður mun byggjast á. — Góðar stundir.

Eldhúsdagsumræður – Andrés Ingi

Herra forseti, góðir áhorfendur,

Mikilvægasta hlutverk okkar sem sitjum hér á þingi – mikilvægasta hlutverk allra þeirra sem stunda stjórnmál – er að hlusta. Og það nægir ekki að verða bara við kröfunni um að hlusta á fjögurra ára fresti, þegar kosningabaráttan kallar á.

En það er erfitt að hlusta þegar það eina sem heyrist utan frá er þögn.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur ótrúleg orka leyst úr læðingi á Íslandi. Þessi orka snýst öll um að úthýsa þögninni, varpa ljósi á samfélagsmein, hrópa á réttlátara og betra samfélag.

Hér á ég við kvennabyltinguna sem gegnir ýmsum nöfnum. Samfélagsbylgju sem tók að rísa á samfélagsmiðlum undir yfirskrift #FreeTheNipple og hefur síðan tekið á sig ýmsar myndir. Byltingu sem er að mestu borin uppi af ungum konum.

Þótt sá sem hér stendur sé búsettur alla leið suður á meginlandi Evrópu leyndi krafturinn í #FreeTheNipple sér ekki þegar sú bylgja reis.
Mér brá. Ég hafði ekki áður áttað mig á því hvað hrelliklám, ein útgáfa af rafrænu ofbeldi, er stór hluti af lífi ungra kvenna. Hversu margar höfðu upplifað það á eigin skinni og hversu margar hafa búið í stöðugum ótta við að viðkvæmum myndum af þeim væri deilt með hverjum sem er, hvenær sem er, hvar sem er. Án þeirra samþykkis.

Mér brá, af því að þótt ég vissi af vandanum hafði ég ekki áttað mig á því hversu útbreidur og hversu alvarlegur vandi hrelliklám væri.

En ég fylltist á sama tíma mikilli von og gríðarlegu stolti þegar ég sá þúsundir ungra kvenna standa saman gegn óværunni, fastar fyrir og óhræddar.

Forseti,
Við megum öll vera stolt af þeim.

#FreeTheNipple-bylgjunni fylgdu margar aðrar sjálfsprottnar byltingar gegn þögninni.

Sú nýjasta er mögulega sú sterkasta. Þá voru konur hvattar til að deila reynslu sinni af ofbeldi í hópi annarra kvenna á Facebook. Umræðan barst okkur körlunum síðan þegar sögur og myndir tóku að birtast á samfélagsmiðlum. Þolendur ofbeldis merktu sig appelsínugulum andlitum. Gul andlit urðu táknmynd allra hinna, sem þekkja þolendur ofbeldis.

Appelsínugulu andlitin voru ótrúlega mörg. Svo mörg, að mér leið helst eins og náttúruhamfarir hefðu orðið.

Í náttúruhamförum hefðu viðbrögðin ekki staðið á sér. Þá skipuleggja stjórnvöld fjöldahjálparmiðstöðvar, þau bretta upp ermarnar og taka til óspilltra málanna. Þau laga það sem lagað verður.

En hver voru viðbrögðin þegar þagnarmúrinn brast?

Þau voru lítil. Að minnsta kosti ekki í neinu samræmi við umfang vandans.
Góðir landsmenn,

Öll þekkjum við þolendur ofbeldis og öll þekkjum við gerendur. Að því leytinu verða viðbrögðin við kvennabyltingunni alltaf önnur en við náttúruhamförum. Okkur nægir nefnilega ekki að fá almannavarnir til að opna fjöldahjálparmiðstöð og semja aðgerðaráætlun fyrir þolendur ofbeldis, eins og eftir stóran jarðskjálfta.

Þótt yfirskrift nýjustu bylgjunnar hafi verið #þöggun og #konurtala, þá væru það til lengdar litið algjörlega ófullnægjandi viðbrögð að láta okkur nægja að hjálpa þolendum ofbeldis að opna sig um reynsluna.

Það þarf nefnilega hina hliðina, sem er líklega erfiðasti hlutinn, að horfast í augu við gerendurna.

Þegar Íslendingar upplifa stór áföll bregðast þeir við. Við erum svo lánsöm að hafa byggt innviði til að takast á við flest það sem náttúran lætur okkur finna fyrir.
Sjaldan er spurt um verðmiða þegar þarf að byggja upp eftir jarðskjálfta eða jökulhlaup, en af hverju er sálfræðiþjónusta steytt úr hnefa til þolenda kynferðisofbeldis?

Í þeirri umræðu sem kemur reglulega upp um að rafbyssuvæða lögregluna virðist kostnaður aldrei vera sami þröskuldurinn og þegar ræddar eru leiðir til að stórefla kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Hverju sætir?

Við höfum varið milljörðum til að verjast snjóflóðum, en hvaða upphæðum hefur verið varið til að fræða lögregluþjóna og dómara um eðli og meðferð kynferðisbrotamála? Hvers vegna gengur ekki hraðar að fjölga kvenkyns dómurum? Hvar eru forvarnarsjóðirnir og forvarnarátökin sem ættu að vera stöðugt í gangi? Hvar eru rannsóknirnar á umfangi og þjóðhagslegum áhrifum ofbeldis, rannsóknirnar á því hvers vegna svo mikill fjöldi kvenna í okkar góða samfélagi hefur orðið fyrir nauðgun, kynferðisofbeldi eða áreitni?

Nú þurfum við öll að hlusta; ríkisstjórnin, þingið og þjóðin. Og við þurfum að bregðast við. Mæta kröfum byltingarinnar. Stelpurnar okkar – og strákarnir – eiga það skilið!

Og þið öll þarna úti: Takk fyrir byltinguna!

Ræða Bjarkeyjar Gunnarsdóttur á eldhúsdegi

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Eitt meginmarkmið síðustu ríkisstjórnar var að minnka skuldsetningu þjóðarinnar og gera ríkisfjármálin sjálfbær. Ekki er um það deilt að töluverður árangur náðist hvað þetta varðar á síðasta kjörtímabili og er hann vissulega markverður með tilliti til þeirra aðstæðna sem þá ríktu. En eftir að sitjandi ríkisstjórn tók við hefur ekki gengið á öðru en ráðstöfunum sem rýra hag ríkissjóðs í bráð og lengd og margt af því sem tekið hefur verið til bragðs vekur furðu. Það þarf því engan að undra þótt maður velti því fyrir sér að loknu fyrsta starfsári þessarar ríkisstjórnar á hvað hún leggur áherslu og ekki úr vegi að fara stuttlega yfir vegferð hennar og helstu athafnir til að glöggva sig á því.

Fyrsta verkið var að fjölga ráðherrum og skipta stjórnsýslunni upp aftur sem kostar um 46 millj. króna á ári. Valdastólarnir freistuðu þarna meira heldur en sparnaður í þágu almennings.

Það hefur líka legið fyrir frá upphafi að við erum að fást við ríkisstjórn hinna efnameiri í samfélaginu og birtist það skýrt og greinilega í þeim aðgerðum sem hún stendur fyrir.

Á sumarþingi síðasta ár var línan lögð þegar veiðigjöldin voru lækkuð og bætir ríkisstjórnin í þá aðgerð nú á vordögum með enn frekari lækkun þessara gjalda. Við vinnslu fjárlagafrumvarpsins í vetur var áherslan lögð á að lækka tekjuskatt á hærri tekjur, fallið frá hærri virðisaukaskatti á ferðamenn, ákveðið að framlengja ekki auðlegðarskatt og hækka gjöld á sjúklinga með margvíslegum hætti. Allt var þetta á sömu bókina lært. Hinum efnameiri er hlíft en byrðir þeirra sem minna hafa eru þyngdar.

Sóknaráætlanir landshluta, menningarsamningar, brothættar byggðir allt eru þetta verkefni sem fyrri ríkisstjórn lagði mikla áherslu á en hægri stjórnin skar hraustlega niður. Þessar athafnir lýsa áherslum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum í verki. Í sömu andrá og niðurskurðarhnífnum er beitt á mikilvæg samfélagsverkefni talar svo þessi sama ríkisstjórn um að standa vörð um heimilin.

Fjarvera forystumanna ríkisstjórnarinnar undanfarna daga er æpandi á sama tíma og fjallað hefur verið um lagafrumvörpin sem leiddu af kosningaloforðum ríkisstjórnarforkólfanna og forsætisráðherra sagði vera á heimsmælikvarða þegar hann sló sem mest um sig með orðavaðlinum og í boði hrægamma. En hver er hin raunveruleg staða? Í hverju var heimsmetið sett? Útgreiðslu úr ríkissjóði?

Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar færa okkur heim sanninn um það hvað liggur að baki heimsmetinu. Niðurgreiðslu skulda til handa efnamiklu fólki sem er ekki í neinum greiðsluvanda ber einna hæst. 230 fjölskyldur, sem eiga að meðaltali 177 milljónir í hreinni eign, fá góðfúslega afhenta peninga úr ríkissjóði.

Stórir hópar verða útundan og fá ekkert nema bláþráðóttan spunann. Þeirra hlutskipti á að vera að bíða og þrauka í veikri von um að kannski komi einhvertímann að þeim.

Fjármálastofnanir fá sitt að fullu þar sem greiðslujöfnunarreikningar verða það fyrsta sem ríkisstjórnin greiðir sem þýðir að fyrsta 20 mia útgreiðslan leysir engan greiðsluvanda hjá fólki og heimsmetið góða reynist vera í spunalist en ekki stjórnlist.

Það kemur ekki á óvart, að áhersla hægri stjórnarinnar skuli vera á að gera vel við þá sem vel eru aflögufærir, efnameira fólkið í samfélaginu. Við höfum séð ráðherrana kikna í hnjánum gagnvart útgerðinni sem streitist á móti því að greiða sanngjarnt gjald fyrir sameiginlega sjávarauðlind okkar. Þeir kunna að hlusta þegar útgerðarmenn hvísla. Og mörgum litlu byggðunum blæðir.

Nei, það kemur ekki á óvart að sjá hvernig ríkisstjórnarflokkarnir vinna né hverjum þeim hygla. Þetta eru nú einu sinni sömu flokkarnir og streittust gegn því á síðasta kjörtímabili að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá og þeir eru enn við sama heygarðshornið í þeim efnum þrátt fyrir eindregna niðurstöðu um annað úr þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar almenningur hrópar, þá heyra þeir ekkert.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa opinberað það mjög vel á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar fyrir hvað þeir standa.

Góðir landsmenn

Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að hér starfar ríkisstjórn sem stjórnast af mætti peninganna og stjórnar með hagsmuni peningaaflanna í fyrirrúmi. Það er því ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því að þjóðarskútan stefni í sömu átt og haldið var þegar hún steytti að endingu á skerjum hrunsins.

Við Vinstri græn munum halda áfram að brjóta niður múra sérhagsmunagæslustefnunnar. Við fórum ekki fram með óábyrg yfirboð og gylliboð í kosningabaráttu okkar eins og ríkisstjórnarflokkarnir. Við þurfum ekki að éta neitt ofan í okkur, ekki snúa okkur út úr neinum klemmum með undanbrögðum og ólíkindalátum. Leiðarljós okkar Vinstri grænna, hér eftir sem hingað til, er að leggja áherslu á og beita okkur fyrir jöfnuði í hinu stóra samhengi samfélagsins. Því í samfélagi þar sem jöfnuður ríkir og tækifæri bjóðast líður fólki vel. Góðar stundir.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á eldhúsdegi

Virðulegi forseti, góðir landsmenn,

„Réttlæti er höfuðkostur á stofnunum samfélags, eins og sannleikurinn er á kenningum. Það er sama hversu fögur og nýtileg kenning er: ef hún er ósönn verður að breyta henni eða hafna. Eins er um stjórnarskrár og stofnanir. Það er sama hversu haganlega þeim er fyrir komið, og hversu gagnlegar þær eru: ef þær eru ranglátar verður að breyta þeim eða bylta.“

Þetta sagði hinn áhrifamikli stjórnmálaheimspekingur John Rawls í kenningu sinni um réttlæti. Við þingmenn veltum ef til vill ekki réttlæti og ranglæti fyrir okkur í daglegu tali hér á þinginu en þó efast ég ekki um að þeir sem halda út á veg stjórnmálanna geri það einmitt af því að þeir vilja veg réttlætisins sem mestan. En er það alltaf réttlæti sem ræður för hér á Alþingi? Er það ævinlega réttlæti sem ræður för þegar stofnanir samfélagsins eru að störfum? Er réttlæti ávallt haft að leiðarljósi þegar lög eru sett, fjármunum er úthlutað, ákvarðanir eru teknar?

Að þessu hljótum við að spyrja okkur þegar við tökum ákvarðanir ríkisstjórnarinnar þennan fyrsta vetur til skoðunar á eldhúsdegi og setjum í samhengi við þær pólitísku áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á 21. öldinni.

Var það réttlætið sem réð för þegar ákveðið var að lækka veiðigjöld á útgerðina um átta og hálfan milljarð á ársgrundvelli? Var það réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að lækka gjöld á áfengi og tóbak en hækka komugjöld á heilsugæslu? Var það réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að hækka álögur á námsmenn í háskólum sem runnu beint til þess að niðurgreiða niðurskurð á háskólana? Er það réttlæti sem ræður för þegar ríkisstjórnin ákveður að framlengja ekki auðlegðarskatt sem lagður var á stóreignafólk þessa lands þegar reisa þurfti samfélagið við eftir efnahagshrun? Er það réttlæti sem ræður för þegar við tökum á móti hælisleitendum og innflytjendum og sendum suma til baka og stíum þar jafnvel í sundur fjölskyldum? Eru þetta réttlátar aðgerðir sem skila réttlátara samfélagi? Nei –ríkisstjórnin hefur ekki staðist réttlætisprófið.

En nú kynni einhver að svara því til að réttlæti sé aðeins ein breyta. Þegar komi til dæmis að því hvernig eigi að fjármagna samfélagið og um hvað það samfélag eigi að snúast séu margir aðrir þættir sem þurfi að taka tillit til, tæknileg úrlausnarefni sem lúti ekki endilega réttlætisrökum heldur skynsemis- eða hagkvæmnisrökum. En er það svo? Nei, þar er svar mitt aftur nei. Það er ekki tæknileg spurning hvernig við ákveðum að fjármagna samfélagið heldur siðferðileg og pólitísk. Hvernig leitað er til ólíkra hópa samfélagsins þegar kemur að fjármögnun þess og þá þarf að velta því upp hvort rétt sé að leita þá aftur til tekjulægri hópanna – sem ekki fengu neina skattalækkun hjá þessari ríkisstjórn – eða leggja fremur byrðar á breiðu bökin; stórútgerðir sem fá að nýta sameiginlegar auðlindir okkar og greiddu sér út tugmilljarða í arð til að halda upp á það þegar ríkisstjórnin lækkaði veiðigjöldin hið fyrra sinni, eða þau heimili í landinu sem eiga mestar eignirnar. Er það ekki fremur réttlátt að deila byrðunum þannig að við sem deilum kjörum hér á þessari eyju gerum það í raun; byggjum saman upp samfélag?

Og dæmin eru því miður fleiri en svo að ég geti rætt þau öll hér. Eða er það réttlát hugmyndafræði sem býr að baki skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar – leifunum af því heimsmetsloforði sem Framsóknarflokkurinn var kjörinn út á fyrir rúmu ári? Er það réttlátt að í svokallaðri „almennri aðgerð“ fyrir heimilin í landinu sé þriðjungur heimila; þ.e. fjölskyldur á leigumarkaði; fólkið sem aldrei hefur verið haft með þegar talað er um „heimilin“, undanskilinn? Er það réttlátt að sama stóreignafólk og horfir fram á að fá létt af sér auðlegðarskatti fái líka niðurfelld verðtryggð íbúðalán sem eykur auð þeirra enn frekar? Fram hefur komið að 230 íslenskar fjölskyldur sem eiga rétt á lækkun húsnæðislána eiga að meðaltali 177 milljónir í hreinni eign. Heildareignir þeirra umfram skuldir eru rúmir 44 milljarðar króna. Er það réttlátt að styrkja það sama fólk til að greiða fyrir húsnæði sitt á sama tíma og ungt fólk sér ekki fram á að geta nokkurn tíma komið sér eigin þaki yfir höfuðið? Nei, ég fæ ekki séð hvernig það eigi að vera réttlátt.

Góðir landsmenn

Réttlæti er mikilvægt í sjálfu sér en það er líka mikilvægt samfélagslegt markmið til að búa öllum sem best samfélag. Það er ranglátt ef aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu eða menntun ræðst af efnahag svo dæmi sé tekið. Þar af leiðir að jöfnuður, efnahagslegur og samfélagslegur, hlýtur að vera eitt einkenni réttláts samfélags.

Við Vinstri græn höfum lagt á það áherslu að forgangsraða fjármunum í að styrkja innviðina. Þar teljum við val ríkisstjórnarinnar – að dreifa umtalsverðum fjármunum í að fella niður skuldir óháð tekjum og eignastöðu fólks en hækka á sama tíma komugjöld á heilsugæslustöðvar og gjöld á stúdenta – ekki vera þann kost sem skilar mestum jöfnuði eða réttlátastri niðurstöðu. Við teljum líka skynsamlegra að styrkja innviðina, reisa nýjan Landspítala; styrkja menntakerfið, bæta kjör, hefja niðurgreiðslu skulda til framtíðar. Við teljum líka eðlilegt að styðja við þá sem verst fóru út úr hruninu hvað varðar verðtryggð íbúðalán. Það hefur verið sýnt fram á það að það er sá hópur sem tók íbúðalán á árunum 2005 til 2008, einkum þeir sem keyptu fyrstu eign á þessum tíma. Það væri eðlilegt að skoða slíkar aðgerðir með réttlætissjónarmið að leiðarljósi. Á sama tíma þarf að styðja betur við leigumarkaðinn en þar glittir nú í hugmyndir af hálfu stjórnvalda sem mér finnst jákvætt skref og fagna því að þar hefur að einhverju leyti verið tekið undir hugmyndir sem við Vinstri-græn höfum talað fyrir lengi.

Réttlátt samfélag er fyrir alla. Ef við viljum slíkt samfélag hlýtur það að vera kappsmál okkar allra að tryggja jöfnuð sem er ekki aðeins réttlætismál heldur líka einkenni skynsamlegs samfélags en um allan heim hafa menn áhyggjur af vaxandi ójöfnuði, hann er nú talinn helsta ógn við frið og stöðugleika í heiminum. Rannsóknir sýna að ójöfnuður er ógn við samfélagslega samheldni – og þau lönd þar sem mestur jöfnuður hefur ríkt í sögulegu samhengi eru þau sem hefur vegnað best á öðrum sviðum, efnahagslega og félagslega, þ.e. Norðurlönd.

Til að tryggja jöfnuð er hægt að beita ýmsum úrræðum. Þar er skattlagning á fjármagn mjög mikilvæg – til þess að hún beri árangur þarf að tryggja aukið gagnsæi. Þar verður æ ríkari krafa um aukna alþjóðlega samvinnu, til að tryggja að stjórnvöld hafi nauðsynlegt aðgengi að réttum upplýsingum þannig að unnt sé að skattleggja fjármagnið með réttlátum hætti. Þess vegna vakna hjá mér spurningar þegar kemur fram í fréttum að íslenskum stjórnvöldum standi til boða að kaupa í samstarfi við önnur ríki upplýsingar um fjármagn sem Íslendingar komu fyrir í skattaskjólum fyrir hrun. Hví hafa íslensk stjórnvöld ekki gripið það tækifæri – eins og gert hefur verið t.d. í Þýskalandi og fleiri ríkjum – er ekki þörf á slíkum upplýsingum ef við ætlum að tryggja réttláta skattbyrði en láta ekki auðmönnum það eftir að ákvarða sína eigin skattprósentu?

Menntun er líka gríðarlega mikilvæg til að tryggja jöfnuð og það er brýnt viðfangsefni að tryggja aðgengi allra til dæmis að framhalds- og háskólamenntun til þess að jafna tækifærin.

Og réttlátt samfélag snýst ekki aðeins um jöfnuð þeirra sem hér búa nú um stundir. Það snýst líka um jöfnuð kynslóðanna; að við búum þannig í haginn fyrir komandi kynslóðir að þær njóti sömu tækifæra og við sem hér erum nú. Því miður sést ekki enn á verkum þessarar ríkisstjórnar að hún skilji að umhverfismálin eru eitt stærsta viðfangsefni samtímans. Þar skiptir máli að Ísland taki ábyrga afstöðu og setji sér raunhæf markmið um hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég vonast til að allir flokkar geti náð saman um að við breytum stjórnarskrá okkar á þann veg að við setjum þar inn meginreglur umhverfisréttar, að við tryggjum fjölbreytni lands og lífs og skilgreinum auðlindanýtingu þannig að hún miðist við hagsmuni komandi kynslóða.

Nú í vor ganga landsmenn enn og aftur til kosninga; að þessu sinni í sveitarstjórnum. Þar eru viðfangsefnin þau sömu í raun og hér á þinginu. Þar skiptir máli að auka jöfnuð og það er hægt að gera með því að létta gjöldum af fólki – til að mynda af grunnþjónustu við barnafjölskyldur sem er eitt af höfuðatriðum í málflutningi okkar Vinstri grænna fyrir þessar kosningar en þannig stuðlum við í senn að jöfnum rétti allra barna auk þess sem við bætum verulega hag barnafjölskyldna. Þar skiptir líka máli að sveitarfélögin taki hraustlega á umhverfismálum og setji sér í senn markmið til að draga úr loftslagsbreytingum og viðbragðsáætlanir um hvernig megi bregðast við þeim.

Góðir landsmenn

Í allri stjórnmálaumræðu er mikilvægt að réttlætissjónarmið séu höfð að leiðarljósi; að kjörnir fulltrúar geti tekið sem bestar og réttlátastar ákvarðanir í þágu allra landsmanna. Margir telja að nýir tímar kalli á ný pólitísk hugtök; orðin hægri og vinstri séu orðin merkingarlaus í hugum almennings sem sé þreyttur á svokölluðum hefðbundnum stjórnmálum. Miðað við áskoranir nýrrar aldar tel ég að réttlæti, jöfnuður og sjálfbærni hafi aldrei verið mikilvægari markmið; einmitt til að tryggja samfélag fyrir alla; og það tel ég vera hlutverk og skyldu okkar vinstrimanna í samtímanum. Í mínum huga er réttlæti ekki pólitísk klisja sem dó á síðustu öld. Réttlæti er eina leiðin til að lifa af á nýrri öld.