Posts

Sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar um breytingar á fjárlögum

Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar standa sameiginlega að breytingartillögum við fjárlög ársins 2016.

Tillögurnar sýna að mögulegt er að leggja aðrar áherslur við stjórn landsins og nýta bætta afkomu ríkissjóðs á sanngjarnari hátt. Áhersla er á bætt kjör almennings og þeirra sem lægstar tekjur hafa, á heilbrigðisþjónustu, menningu og menntamál og á fjárfestingar í umhverfi og innviðum samfélagsins um allt land. Þannig verði unnið gegn ójöfnuði á Íslandi og tryggt að aukin hagsæld skiptist á réttlátan hátt.

Í tillögunum fer stærstur hluti fjármuna til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki afturvirkt og með sama hætti og lægstu laun á samningstíma kjarasamninga, sem miða við 300 þúsund króna mánaðarlaun, og að Landspítalinn fái fjármuni til að standa undir nauðsynlegri starfsemi.

Barnafjölskyldum verði mætt með hækkun á þaki fæðingarorlofs upp í 500 þúsund og barnabætur hækki með hækkun á skerðingarviðmiðum.

Gert er ráð fyrir hækkun til háskóla og fjármunum til að aflétta fjöldatakmörkunum í framhaldsskólum og styrkja rekstur þeirra. Eins er gert ráð fyrir framlögum til að taka til varna fyrir íslenskt mál.

Áhersla er lögð á fjárfestingar í innviðum og sóknaráætlun landshluta. Sérstakt átak er lagt til í viðhald og nýframkvæmdir í vegagerð, enda þörfin afar brýn.

Til að mæta skuldbindingum Íslands vegna loftslagsvandans er gert ráð fyrir auknum fjármunum til fjárfestinga í græna hagkerfinu og til Loftslagssjóðs.

Að auki eru gerðar tillögur um ýmis brýn réttlætismál: Aukin framlög til móttöku flóttamanna, til aukins stuðnings við innflytjendur, til fangelsismála, til baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, til geðheilbrigðismála og til frumkvæðisathugana Umboðsmanns Alþingis.

 

Full fjármögnun

Allar þessar tillögur eru fjármagnaðar með auknum tekjum, hærri veiðigjöldum, arði af bönkum, orkuskatti á stóriðju og bættu skatteftirliti.

Þar fyrir utan má minna á að á yfirstandandi kjörtímabili hefur stjórnarmeirihlutinn tekið fjölmargar ákvarðanir um lækkun tekna sem nemur tugum milljarða. Þar má nefna lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts, lækkun á tekjuskatti betur stæðra, afnám sykurskatts, auk þess að heykjast á alvöru gjaldtöku af ferðamönnum. Breytingar á þessum ákvörðunum í heild eða hluta myndu geta skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum.

Tillögur stjórnarandstöðunnar des 2015  
Útgjöld mkr
Landspítali viðhald  1.400
Landspítali magnaukning  1.040
Landspítali kjarasamningar  400
Sjúkrahúsið á Akureyri  100
Geðfatlaðir þjónusta, húsnæði  33
Háskólar almennt  400
Framhaldsskólar almennt  400
Hækkun örorku og ellilífeyris  5.305
Samgöngur nýframkvæmdir  700
Viðhald vega  700
Sóknaráætlun landshluta  400
Fæðingarorlof hækkun  1.700
Barnabætur  2.400
Umboðsmaður Alþingis  15
Fangelsismálastofnun  80
Kynbundið ofbeldi  200
Útlendingamál  200
Stafræn íslenska  170
Loftslagssjóður  200
Græna hagkerfið  70
Menningarmál  40
Ríkisskattstjóri  58
Samtals:  16.011    
Tekjur  mkr
Orkuskattur  2.000
Skatteftirlit  4.000
Arður af bönkum  8.000
Veiðigjöld  3.000
Samtals  17.000    

Sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlagafrumvarpinu

Fyrir aðra umræðu fjárlaga hefur stjórnarandstaðan sameinast um eftirfarandi breytingartillögur á fjárlagafrumvarpinu. Tillögurnar miða að því að sníða helstu vankantana af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og breytingartillögum stjórnarmeirihlutans og eru fjármagnaðar að fullu.

Í þessum tillögum er ekki gert ráð fyrir að teknar séu til baka ýmsar ákvarðanir stjórnarmeirihlutans um útgjöld og tekjur, svo sem fokdýr skuldaniðurfærsla, lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts og nú síðast lækkun sykurskatts sem samtals nema nærri 50 milljörðum króna á ári. Breytingar á þeim ákvörðunum í heild eða hluta getur þannig skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum.

Velferðarmál

Greiðslur sjúklinga hækki ekki

Stjórnarmeirihlutinn mun að óbreyttu hækka greiðslur almennings fyrir heilbrigðisþjónustu um 1.900 milljónir á ári. Lagt er til að þessar hækkanir verði allar dregnar til baka.

Sókn í velferðarmálum

Framlög til viðhalds bygginga Landspítala og til að vinna á biðlistum vegna verkfalls og sérstakt framlag til BUGL. Aukin framlög til lífeyrisþega.

 

Mennta- og menningarmál

Framhaldsskólinn verði opinn fyrir alla

Stjórnarmeirihlutinn mun að óbreyttu loka aðgangi fólks yfir 25 ára aldri að framhaldsskólum. Þessi aðgangstakmörkun er dregin til baka í tillögunum.

Sátt um RÚV og íslenska menningu

Útvarpsgjald verði óbreytt og renni óskert til RÚV í samræmi við tillögu stjórnar RÚV. Aukin framlög í verkefnasjóði skapandi greina og bókasafnssjóð rithöfunda. Framlag til Landssambands æskulýðsfélaga og framlag til að fylgja eftir þingsályktun um stafræna íslensku.

Háskólar fái úrlausn

Opinberir háskólar fái stuðning til að efla samstarf og samvinnu og Listaháskólinn húsnæðisframlag

 

Atvinnumál og innviðir samfélagsins

Stöndum vörð um réttindi á vinnumarkaði

Fallið verði frá styttingu bótatíma atvinnuleitenda úr þremur í 2 ½ ár og aukið fé verði veitt í þjónustu við atvinnuleitendur. Ríkið greiði áfram umsamin framlög til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða.

Uppbygging innviða

Stóraukin framlög í sóknaráætlun, nýframkvæmdir í vegamálum, hafnamálum og í framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Framlög verði veitt á ný veitt í Græna hagkerfið.

 

Ýmis réttlætis- og mannréttindamál

Hætt verði við að fella niður framlag til ríkissaksóknara og lögreglu vegna þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis. Aukið framlag til Útlendingastofnunar til að vinna á biðlistum og stytta málshraða við meðferð hælisumsókna. Framlag til þingsályktunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi (IMMI).

 

Fjármögnun tillagnanna

Á móti auknum útgjöldum er gert ráð fyrir auknum tekjum vegna hækkun veiðigjalda til samræmis við fyrri áform og efldra skattrannsókna, m.a. með tafarlausum kaupum á upplýsingum úr skattaskjólum og auknu framlagi til skattrannsóknarstjóra.

 

Sækja PDF

Í sýnd og reynd

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að vandað sé til verka í fjárlagavinnu hvers árs, enda ákvarða fjárlögin í raun meginstefnu stjórnvalda í öllum helstu málaflokkum. Fjárlögin hljóta að eiga að byggjast á vandaðri stefnumótun og löggjöf Alþingis í ólíkum málaflokkum. Því miður hefur skort talsvert upp á þetta í fjárlagavinnu þessa árs.

Munur á sýnd og reynd

Í ýmsum veigamiklum málum liggur fyrir yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar en henni er því miður ekki fylgt eftir með fjárveitingum á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Sama má segja um gildandi löggjöf þar sem fjárveitingar fylgja ekki lögbundnum skyldum. Ekki er greitt með fimm hundruð nemendaígildum í Háskóla Íslands á næsta ári þó að engin stefna hafi verið mörkuð um annað en að skólinn eigi að taka á móti öllum sem uppfylla inntökuskilyrði. Landspítala-Háskólasjúkrahúsi er gert að henda út verkefnum því að sjúkrahúsið fær ekki nægilegt fé til að sinna öllu því sem honum er ætlað að sinna. Ríkisútvarpið fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín og getur því ekki sinnt því hlutverki sem því er markað á nýlegri löggjöf frá 2013.

Þá má nefna að ríkisstjórnin starfar eftir svokallaðri aðgerðaáætlun um loftslagsmál, sem er mikilvægt tæki til að takast á við eitt mikilvægasta úrlausnarefni okkar samtíðar. Í áætluninni er meðal annars kveðið á um að efla skuli almenningssamgöngur en samt eru þær skornar niður í fjárlagafrumvarpinu. Í þróunarsamvinnuáætlun sem samþykkt var á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum nema einu en samkvæmt henni áttu framlög Íslands að nema 0,35% af VÞT árið 2015, en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta hlutfalli lækki og verði aðeins 0,22%. Þetta er ekki heldur í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem sagt er að lögð verði áhersla á þróunarsamvinnu í utanríkismálum.

Innviðir grotna niður

Það er líka sérstakt áhyggjuefni hvernig fjárlagafrumvarpið grefur undan áætlun um uppbyggingu innviða samfélagsins sem almenn samstaða hefur verið um. Síðastliðið vor var lögð fram á Alþingi samgönguáætlun til fjögurra ára en hún er skorin niður um rúma þrjá milljarða króna í fjárlagafrumvarpinu. Fram hefur komið í fréttum að af þessum sökum telji vegamálastjóri að engin ný stór verkefni verði boðin út í vegagerð á næsta ári. Enn alvarlegra er að ekkert bólar á fjármunum til að byggja nýjan Landspítala, en þingsályktun þess efnis var samþykkt á Alþingi síðastliðið vor með öllum greiddum atkvæðum. Eins og flestir vita þolir endurnýjun húsnæðis LSH enga bið.

Matarskattsleikrit

Að lokum verður að nefna matarskattsleikritið sem almenningur fær núna að fylgjast með og minnir einmitt á einhvers konar sýndarveruleika. Í fjárlagafrumvarpinu sem dreift var í upphafi vetrar er kveðið á um að virðisaukaskattur á mat og menningu verði hækkaður úr 7% í 11%. Í glærukynningu fjármálaráðuneytisins um sama efni var síðari talan hins vegar sögð vera 12% í stað 11%. Gefin var út yfirlýsing í framhaldinu þar sem glærusýningin var sögð gilda en ekki þær upplýsingar sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Nú í gær bárust hins vegar þær fregnir að virðisaukaskatturinn yrði eftir allt hækkaður í 11% en ekki tólf.

Ef þetta verður raunin hlýtur maður að spyrja hvort hér hafi verið sett á svið leikrit til að ríkisstjórnarflokkarnir geti stært sig af því að hafa komið til móts við kröfur almennings í landinu þegar raunin er að gert var ráð fyrir hækkun í 11% allt frá upphafi. Að þessu spurði ég í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra nú í september og það væri nú dapurlegt ef rétt reyndist. Það er að minnsta kosti ekki til marks um traust vinnubrögð í þessu stærsta máli hverrar ríkisstjórnar, fremur en önnur þau dæmi sem ég hef hér nefnt.

Katrín Jakobsdóttir

Óvissa um framtíð Hvanneyrar óþolandi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði menntamálaráðherra út í stöðu mála í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag. Katrín benti á að eftir uppsagnir tíu starfsmanna í vikunni vegna niðurskurðar í fjárlögum séu starfsmenn orðnir helmingi færri en þegar skólinn var sameinaður á sínum tíma. Katrín setti þessa þróun í samhengi við flutning starfa út á land: „Auðvitað stingur það mann í augun að horfa á sama tíma á önnur ráðuneyti lofa hér miklum fjármunum til að flytja störf fyrir háskólamenntaða starfsmenn út á land, á meðan þessi starfsemi virðist ætla að leysast upp.”

Í svari sínu vakti Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, athygli á slæmri fjárhagsstöðu skólans og sagðist hafa „lagt á það ríka kröfu að það yrði staðið við fjárlögin.“ Illugi taldi að það væri ekki pólitískur meirihluti fyrir sameiningu Landbúnaðarháskólans og Háskóla Íslands og vilji meirihlutans birtist í fjárlögum. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa gefið þá hugmynd upp á bátinn. Á móti spurði Katrín hvort pólitískur meirihluti væri fyrir því á Alþingi að starfseminni á Hvanneyri blæddi út. Katrín benti ennfremur á að það væri á ábyrgð Alþingis að standa undir þessum hluta rannsókna- og vísindastarfsemi í landinu.

Samgöngur í uppnámi

Samgöngur á Vestfjörðum eru víða enn óásættanlegar eins og vondur og óuppbyggður vegur við Árneshrepp á Ströndum sýnir og vegir í Barðastrandasýslu og á milli sunnan og norðanverðra Vestfjarða bera glöggt vitni um. Þarna er ekki eingöngu um að ræða byggðamál heldur líka öryggismál fyrir þennan landshluta sem hefur verið í mikilli varnarbaráttu lengi en sókn í atvinnumálum hefur vakið upp vonir um betri tíð og gott vegakerfi er grundvöllur þess að það gangi eftir.

Fjárlög næsta árs eru mikil vonbrigði hvað varðar framlög til samgöngumála. Gert var ráð fyrir 23 milljörðum í samgöngumál í samgönguáætlun en það verða einungis um 20 milljarðar lagðir í þennan málaflokk. 850 mlkr sem áttu að vera nýtt fé í nýframkvæmdir munu fara í viðhald vega vegna þess hve þörfin er mikil þar og ekki var gert ráð fyrir auknu fé í þann þátt. Áfram verður dregið úr styrkjum við innanlandsflugið og erfitt getur reynst að halda úti sama þjónustustigi á ríkisstyrktum leiðum eins og á Bíldudal og á Gjögri. Það vantar um 700 mlkr til þess að fjármagna vetrarþjónustu.

Það kom fram í máli innanríkisráðherra í umræðum um fjárlög á dögunum að þau verkefni sem ekki eru orðin samningsbundin séu í óvissu og þar eru vegaframkvæmdir eins og áframhaldandi uppbygging á þjóðvegi 60 um Gufudalssveit og Dýrafjarðargöngin í óvissu þar sem fjármögnun er ekki tryggð. Seinkað verður útboði á Dýrafjarðargöngum til ársins 2017 en fyrri ríkisstjórn hafði flýtt þeim framkvæmdum og átti þeim að ljúka 2018 sem og uppbyggingu heilsársvegar um Barðastrandasýslu til Vesturbyggðar. Nú sýnist mér að ekki bara staðsetning veglínu næsta áfanga á þjóðvegi 60 í Barðastrandasýslu sé í uppnámi heldur líka öll fjármögnun verksins.

Framkvæmdum á Vestfjarðarvegi 60 á milli Þverár í Kjálkafirði og Eiðis í Vattarfirði fer að ljúka en þetta var umfangsmesta framkvæmd Vegagerðarinnar á síðasta kjörtímabili fyrir utan jarðgöng á milli 3 til 4 milljarðar. Sú samfella sem gert var ráð fyrir í samgönguáætlun að yrði í framkvæmdum á þessu svæði er nú í uppnámi þar sem enn er ekki komin niðurstaða í hvaða leið skuli valin eftir að leiðinni yfir Hjallháls og Ódrjúgsháls var hafnað og samráðsnefnd með heimamönnum valdi að farin skyldi láglendisleið sem uppfyllti nútímakröfur og tryggði öryggi vegfarenda.

Vegagerðin lét hanna nýja veglínu um Teigsskóg sem Skipulagsstofnun hefur nú hafnað með þeim rökum að ekki sé um nýja veglínu að ræða og hefur Vegagerðin ákveðið að kæra þann úrskurð til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur ályktað um að það sé algjörlega óásættanlegt að tefja málið með því að kæra það og beinir því til stjórnvalda að ljúka án frekari tafa undirbúningi og ákvarðanartöku,svo hægt sé að hefja lagningu nýs láglendisvegar um Gufudalssveit. Vegagerðin hefur undanfarið reynt til þrautar að koma vegi um Teigsskóg í gegnum skipulagsferli en Skipulagsstofnun hafnaði á sínum tíma veglínu í gegnum skóginn vegna umhverfisáhrifa.

Ég virði þau sjónarmið sem komið hafa fram um náttúruverndargildi Teigsskógs en ég tel nýja útfærslu sem þýðir 1% rask á gróðurlendi vera ásættanlega niðurstöðu í ljósi brýnna hagsmuna svæðisins. Það er mat Vegagerðarinnar að vegur út norðanverðan Þorskafjörð í gegnum Teigsskóg og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar sé öruggasti vegurinn til að tengja saman Reykhólasveit og Gufudalssveit. Næsti kostur, svokölluð i. leið, væri 3. milljörðum dýrari. Möguleikar eins og þverun Þorskafjarðar milli Staðar á Reykjanesi og Melaness hafa einnig verið skoðaðir og einnig göng undir Hálsana og fleiri vegastæði en þetta eru allt dýrari kostir.

Það hefur komið fram í máli ráðherra að verið sé að skoða 3 möguleika þ.e. endurupptöku málsins og þessa kæruleið og síðan sérlög um veginn. Ég tel það óásættanlegt fyrir þetta svæði að fara með málið í þann farveg sem beinir því í kæruferli og lagþrætur sem gæti farið allt upp í Hæstarétt og gæti þýtt að ekkert gerðist í vegaframkvæmdum á þessu svæði næstu 5 til 6 árin. En allir þessir þrír valkostir ráðherra geta þýtt það hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þrautaganga sunnanverðra Vestfjarða í baráttunni fyrir bættum vegasamgöngum er orðin allt of löng og ábyrgð ríkisvaldsins síðustu 2 áratugi er mikil í þeim efnum.

Nú verða allir að leggjast á eitt um það að koma veglínustæði á þessu svæði á hreint og tryggja framkvæmdafé til verksins. Þetta svæði má ekki búa við það að ekki verði fundin önnur leið strax ef Teigskógarleiðin er ófær vegna þess að það tæki mörg ár að fá niðurstöðu um hana. Menn verða því að sjálfsögðu að velja næsta kost þó hann sé dýrari því það verður að vera samfella í framkvæmdum annars missum við fjármagn burt af svæðinu í annað. Þetta svæði er að byggjast upp og tíminn er peningar og það verður að setja verðmiða á hvað það kostar samfélagið að framkvæmdir dragist von úr viti það gæti reynst samfélaginu dýrt og 3. milljarðar eru ekki stór tala í því samhengi.

Ábyrgð Alþingis er því mikil og auka þarf við fjármagn í samgöngumál í fjárlagafrumvarpi næsta árs og lágmark er að standa við samgönguáætlun í þeim efnum. Vestfirðir eru skilgreindir sem ein af brothættustu byggðum landsins og öruggar samgöngur og fjarskipti er grundvöllur þess að byggðin geti nýtt þau tækifæri og þá vaxtarmöguleika sem heimamenn vinna með.
Því samkeppnishæfni svæðisins ræðst af góðum samgöngum.

Þingsályktunartillaga um eflingu velferðar-og menntastofnana

Katrín Jakobsdóttir mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu um eflingu velferðar- og menntastofnana út frá batnandi stöðu ríkissjóðs. Allur þingflokkur Vinstri grænna flytur málið og setur þannig fram trúverðugan valkost við þær frjálshyggjuáherslur sem birtast í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Samkvæmt tillögunni yrði skipaður starfshópur með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sem fengi það hlutverk að gera þriggja ára áætlun um eflingu velferðar- og menntastofnana sem yrði svo höfð til hliðsjónar við fjárlagavinnu á komandi árum.

Í greinargerðinni með tillögunni er bent á að nokkurt svigrúm komi til með að myndast í ríkisfjármálunum á næstu árum ef tekjumöguleikar ríkisins eru ekki skertir frá því sem nú er:

„Ekki er óvarlegt að áætla að þetta svigrúm geti numið samtals um 50–60 milljörðum kr. á næstu þremur árum sé rétt á málum haldið í ríkisfjármálunum og það þótt gert sé ráð fyrir allverulegri lækkun ríkisskulda á sama tímabili. Tillagan sem hér er lögð fram um að hefja sókn í velferðar- og menntamálum þjóðarinnar er því varfærin og ábyrg.“

Meðal þeirra forgangsverkefna sem tiltekin eru í tillögunni eru:
• Bætt kjör kennara, en bent er á að íslenskir kennarar séu fremur aftarlega á merinni miðað við starfssystkin þeirra í öðrum OECD-löndum.
• Stórefling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu.
• Bætt kjör heilbrigðistétta, en í því sambandi er bent á að síðasta ríkisstjórn setti af stað sérstakt jafnlaunaátak, m.a. til að bæta kjör kvennastétta innan heilbrigðisþjónustunnar.
• Húsnæðismál, en í tillögunni segir að ljóst sé að „uppsafnaðan vanda Íbúðalánasjóðs þarf að leysa samhliða því að fyrirkomulag húsnæðismála verði endurskoðað í því skyni að það verði sem auðveldast fyrir almenning í landinu að tryggja sér þak yfir höfuðið.“

,

Röng forgangsröðun í fjárlögum

Það er óneitanlega svolítið skondið að fylgjast með orðræðu stjórnarþingmanna um fjárlögin. Það vakti til dæmis athygli að formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, og fleiri Framsóknarmenn vilja nú hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna. Eins og margir muna lagði fyrri ríkisstjórn einmitt til að farið yrði í slíkar breytingar en þá talaði þáverandi stjórnarandstaða um að það myndi flækja skattkerfið. Það er gott að þau sjá stundum ljósið og spennandi verður að sjá hvernig fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins leggur upp fjárlög næsta árs ef allir þingmenn Framsóknar standa við þær yfirlýsingar sem þeir hafa gefið í opinberum miðlum.

Óréttlátar skattbreytingar

Einnig hefur komið fram, m.a. hjá formanni fjárlaganefndar Vigdísi Hauksdóttur, að hún sé alfarið á móti hækkun matarskattsins. Hún tók líka fram að hún væri mótfallin því að gera á móti breytingar á bótakerfinu og taldi það „flækja“ kerfið. Flokkssystir hennar, Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra, hefur hins vegar sagt að til þess að koma til móts við þá sem minna hafa á milli handanna væri hægt að auka við húsnæðisstuðning og hækka barnabæturm, sem „flækir“ kerfið að mati Vigdísar. En er eitthvað því til fyrirstöðu að halda matarskattinum lágum en bæta við húsnæðisstuðning og barnabætur þrátt fyrir það? Til að skilja það þurfum við að horfa aðeins aftur í tímann. Meðal fyrstu verka þessarar ríkisstjórnar var að lækka veiðigjöldin, framlengja ekki auðlegðarskattinn og hækka gjöld á sjúklingana og þá sem þurfa ýmsa stoðþjónustu. Þessi ríkisstjórn lækkaði líka álögur á brennivín og tóbak sem ég efast um að almenningur hafi fundið sérstaklega fyrir. Gleymum ekki fjölgun ráðherranna og aðstoðarmannanna, en þeim fjölgaði eins og kunnugt er þegar núverandi ríkisstjórn tók við og hugmyndir uppi um enn meiri fjölgun. Þetta kostar allt peninga – peninga sem þarf að finna í fjárlögum þessa árs með einhverjum hætti. Og nú hefur fjármálaráðherra sem sagt afráðið að taka þá peninga út m.a. úr virðisaukaskattskerfinu, með hækkun matarskatts.

Þurfum nýja sókn í heilbrigðismálunum

Eitt stærsta mál fjárlagaumræðunnar verða heilbrigðismálin. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins birti myndir af Landsspítalanum á dögunum þar sem fötur voru út um allt enda mikill vatnsleki sem hefur verið viðvarandi í mörg ár. Ekki hefði þetta átt að koma honum á óvart, enda virðist flokkur hans hafa ákveðið að byggja ekki nýjan spítala. Fram hefur komið hjá heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins að það gæti þurft að hækka gjöldin enn meira á sjúklinga, sem voru þó hækkuð 1. júlí, eða skerða þjónustuna enn frekar við þá þar sem rekstur heilbrigðiskerfisins hafi farið fram úr fjárlögum.

Það er eiginlega merkilegt að ekki sé rætt meira um að spítalinn fái ekki nægt fé til að sinna þeim skyldum sem á hann eru lagðar. Fram hefur komið hjá forstjóra spítalans að hann sé rekinn fyrir umtalsvert minna fjármagn í ár en fyrir sex árum sé miðað við fast verðlag. Formanni fjárlaganefndar er þó tíðrætt um hafa sett aukið fé í Landsspítalann um 4,6 mia. en ætlaði þó í kosningabaráttunni að setja heldur meira. Þegar búið er að taka tillit til m.a. launa- og verðlagsforsendna og ýmissa annarra þátta standa einungis eftir um 1,7 mia. fyrir spítalann að moða úr. Það verður að teljast nokkuð hæpið að það nægi til að hefja þá sókn í heilbrigðismálunum sem augljós þörf er á.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs