Posts

Svo einfalt verður það

Ræða Björns Vals Gíslasonar við upphaf flokksráðsfundar um helgina.

Ágætu flokksráðsfulltrúar og aðrir gestir!
Ég býð ykkur velkomin til fundar flokksráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem ég veit að á eftir að vera okkur gagnlegur. Mest er þó um vert að við gerum þetta á góðum flokksráðsfundi og lítum á þennan fund sem upphaf kosningabaráttu Vinstri grænna vegna Alþingiskosninga sem haldnar verða í síðasta lagi vorið 2017. Vonandi þó fyrr. Það er afar mikilvægt að frá þessum fundi komi skýr pólitískur tónn um að við, Vinstrihreyfingin grænt framboð, munum hér eftir sem hingað til gera uppbyggingu velferðarkerfisins að forgangsmáli við næstu kosningar. Það gerðum við fyrir kosningarnar 2013 og lögðum þá fram skýra stefnu um fjármögnun á uppbyggingu heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfisins og rekstur á innviðum samfélagsins. Þegar sú stefna er skoðuð í dag kemur í ljós, sem við reyndar vissum, að hún stóð fyllilega fyrir sínu og gerir enn og farið hefði betur á því að hrinda henni í framkvæmd en snúa öllu á hvolf, líkt og hægriflokkarnir ákváðu að gera. Það er líka mikilvægt að mínu viti að við í Vinstri grænum bjóðum þeim sem það vilja, stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum, til samstarfs við okkur um þessi meginverkefni að loknum kosningum. Enginn flokkur er betur til þess fallinn að leiða slíkt starf en Vinstri græn og enginn flokkur býr svo vel að hafa í forystu sinni stjórnmálamann sem er betur treystandi í þeim tilgangi og Vinstrihreyfingin grænt framboð.
Við skulum því vera djörf og ákveðin í framgöngu okkar, setja hjartans mál okkar og samfélagsins alls í algjöran forgang og spyrja aðra þess hvort þeir vilji koma með. Það kemur þá í ljós hverjir vilja fylgja okkur í þeim málum og hverjir ekki.
Svo einfalt verður það.

Ályktanir flokksráðs

Ályktanir

Samþykktar á flokksráðsfundi Vinstri grænna, 13. febrúar 2016

Sækja á PDF

Stjórnmálaályktun

Rík og vaxandi krafa er í samfélaginu um aukinn jöfnuð og traust velferðarkerfi. Sú krafa endurspeglast vel í áskorun tugþúsunda til stjórnmálamanna um að tryggja fjármagn til uppbyggingar og reksturs heilbrigðiskerfisins. Það verður aðeins gert með því að afla ríkinu nægjanlegra tekna í gegnum skattkerfið þar sem sanngirni og réttlætissjónarmið verða uppfyllt, þannig að hinir efnameiri leggi meira af mörkum en hinir efnaminni. Tekjuöflun þarf að byggja á verðmætasköpun og fjölbreyttu atvinnulífi á grundvelli loftslagsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna, þar sem ekki er gengið á umhverfi og auðlindir. Fyrir alþingiskosningarnar 2013 lagði Vinstrihreyfingin – grænt framboð fram raunhæfa áætlun um tekjuöflun og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, mennta- og velferðarkerfis. Þar var stefnt að því að halda áfram innheimtu auðlegðarskatts, orkuskatts og auðlindagjalda og nýta þá fjármuni annars vegar til niðurgreiðslu skulda og uppbyggingar innviða. Sú stefna er enn í fullu gildi og aldrei meiri þörf á því að ýta henni í framkvæmd en einmitt nú eftir valdasetu hægriflokkanna. Megin markmið eru að:

  • auka jöfnuð í samfélaginu með sanngjarnri dreifingu skattbyrði og réttlátu velferðarkerfi.
  • byggja upp fjölbreytt atvinnulíf með sjálfbærni og hagsæld að leiðarljósi.
  • tryggja öruggt fé í uppbyggingu og rekstur heilbrigðis- velferðar- og menntakerfis og jafnan aðgang allra.

Vinstri græn lýsa sig tilbúin til að starfa með hverjum þeim stjórnmálaflokki og stjórnmálamanni sem vilja vinna að því að auka jöfnuð og hagsæld, efla og byggja upp velferðarkerfið að norrænni fyrirmynd og auka vægi kvenfrelsis, umhverfissjónarmiða og sjálfbærni í atvinnu- og byggðamálum. Við teljum að þeim stjórnmálaflokkum og þeim stjórnmálamönnum sem eru okkur sammála um þessa forgangsröðun beri skylda til þess að stilla saman strengi og leggja sameiginlegar línur fyrir næstu kosningar þannig að kjósendur hafi skýra hugmynd um það hvaða stjórnmálahreyfingar muni vinna saman og um hvaða málefni að loknum kosningum. Þannig fá kjósendur sem vilja breytta stefnu og betra samfélag skýran valkost.

Gagnsæi við uppstokkun á fjármálakerfi

Ríkisstjórnin hefur ekki farið leynt með áform sín um að einkavæða banka og fjármálastofnanir í almannaeigu. Mikilvægt er að samfélagsleg umræða fari fram við uppstokkun fjármálakerfisins, hlutverk ríkisins í því og framtíðarskipulag enda um hagsmuni almennings að ræða.

Það er með öllu óboðlegt að nú örfáum árum, eftir fall bankakerfisins og án fullnægjandi rannsóknar á einkavæðingu fjármálakerfisins í aðdraganda Hrunsins, skuli stefnt að annarri einkavæðingu fjármálastofnanna í opinberri eigu.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna krefst þess að fram fari rannsókn á einkavæðingu bankakerfisins 2003 eins og samþykkt hefur verið af Alþingi. Borgunarhneykslið sýnir skýrt hversu mikilvægt er að söluferli á bönkum, eignum bankanna og eignarhlutum ríkisins í þeim verði gagnsætt og fyllsta jafnræðis verði gætt við það ferli. Brýnt er að rannsaka Borgunarmálið til hlítar og tekin verði ábyrgð á því sem þar fór úrskeiðis enda um gríðarlega hagsmuni að ræða er varðar almenning.

Flokksráð Vinstri grænna vill að Landsbanki Íslands verði rekinn sem samfélagsbanki í eigu hins opinbera og í þágu fólksins í landinu.

Opnara Ísland – áskorun til stjórnvalda

Vinstrihreyfingin – grænt framboð skorar á stjórnvöld að veita fleira flóttafólki hæli á Íslandi. Fjöldi fólks á flótta í heiminum hefur ekki verið meiri frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Það er skylda Íslands sem öflugs velferðarríkis að gera allt sem í valdi þjóðarinnar stendur til að bjarga mannslífum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fagnar komu hóps frá Sýrlandi og telur mótttöku hans upphafið að frekari aðgerðum í þágu flóttafólks. Vegna legu Íslands og landamærastefnu er nær útilokað fyrir flóttafólk að komast til landsins af eigin rammleik, án viðkomu í öðrum löndum. Rýmka þarf reglur um hælisumsóknir hér á landi.

Brottvísanir með vísan í Dyflinnareglugerðina eiga ekki að koma fyrir. Móttöku hælisleitenda þarf að styrkja verulega, með auknum fjármunum og fleiri úrræðum í þágu hælisleitenda. Mikilvægt er að tryggja að fólk sem er nýkomið til landsins, getið tekið fullan þátt í samfélaginu, styrkja það til náms til dæmis með gjaldfrjálsri íslensku- og samfélagskennslu og hjálpa því að komast í vinnu. Taka þarf af festu á vandanum sem reglulega birtist í afgreiðslu Útlendingastofnunar. Formenn Vinstriflokka á Norðurlöndum lýstu í upphafi árs yfir vilja til Norðurlönd vinni saman í að lausn á neyð flóttamanna með sameiginlegri yfirlýsingu sem birt var í öllum löndunum. Áhrif öfga hægriflokka í norrænum ríkisstjórnum gera hins vegar flóttamönnum erfitt að nýta rétt sinn til að sækja um hæli. Vinstri græn telja að Ísland geti orðið fyrirmynd annarra ríkja í móttöku flóttafólks og krefjast þess að stjórnvöld hefji strax vinnu við að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Herstöðvalaust Ísland

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn þann 13. febrúar 2016 leggst alfarið gegn auknum umsvifum Bandaríkjahers á Íslandi. Gildir þar einu hvort um tímabundna dvöl er að ræða eða til langframa. Aukin hernaðarumsvif á Íslandi eru ekki til þess fallin að draga úr spennu í okkar heimshluta, heldur geta þvert á móti leitt til stigmögnunar.

Umræddar breytingar á flugskýlum á Miðnesheiði kynda undir ófriði og eru glöggt dæmi um þá geigvænlegu sóun sem fylgir hervæðingu og vopnaskaki. Svo dæmi sé tekið er áætlaður breytingakostnaður meira en fimmfalt hærri en ríkisstjórn Íslands tilkynnti á dögunum að varið yrði til neyðaraðstoðar við Sýrland og nágrannaríki þess á árinu 2016 vegna borgarastyrjaldarinnar þar í landi.

Ekki þarf lengi að velta því fyrir sér hvor útgjöldin væru betur til þess fallin að stuðla að friði og öryggi í heiminum.

Vinstri græn árétta friðarstefnu sína og minna á mikilvægi þess að stuðla að pólitískum lausnum í stað þess að stuðla að stigmögnun vígbúnaðar. Til að Ísland geti tekið frumkvæði í því er nauðsynlegt að varnarsamningi við Bandaríkin og aðildinni að NATO verði sagt upp. Höldum Íslandi herlausu og utan hernaðarbandalaga!

Ríkisstjórnin ræðst á rammaáætlun

Fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem auglýstar er eru á vef umhverfisráðuneytisins eru augljóslega settar fram í því skyni að hafa að engu niðurstöðu rammaáætlunar 2. Þannig verður með breytingunum hægt að meta að nýju svæði í verndarflokki sem ekki hafa enn verið friðlýst. Núverandi ríkisstjórn hefur enga áherslu lagt á friðlýsingar þannig að sú vinna hefur legið niðri allt kjörtímabilið. Þótt ráðherra sé skylt samkvæmt lögum um rammaáætlun að hefja friðlýsingar á öllum svæðum í verndarflokki hefur engin áhersla verið lögð á þau verkefni. Með breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar verður unnt að meta öll þessi svæði að nýju með það að markmiði að færa einhver þeirra í nýtingarflokk. Áform Landsvirkjunar um að virkja í Norðlingaöldu sem er í verndarflokki með því að kalla svæðið Kjalölduveitu og breyta lítillega útmörkum svæðisins liggja greinilega meðal annars til grundvallar tillögum ráðuneytisins.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir þessi vinnubrögð umhverfisráðuneytisins og ráðherra umhverfismála og telur þau fara í berhögg við lög um rammaáætlun. Ljóst er að verndarsjónarmið eru að engu höfð og mæta afgangi í öllum verkum núverandi ríkisstjórnar.

Framtíðarsýn í ferðaþjónustu

Vinstri græn telja stórátak þurfa til að byggja upp ferðaþjónustu í sátt við bæði samfélag og náttúru. Stjórnvöldum ber skylda til að stórbæta öryggi ferðamanna, aðgengi að ferðamannastöðum, tryggja vernd viðkvæmrar náttúru og löglega starfsemi allra sem hafa ferðaþjónustu að lifibrauði. Það er hagsmunamál allra að ferðaþjónustuaðilar fari að lögum,  verndi náttúru, umhverfi og samfélag og bjóði starfsfólki sæmandi aðbúnað og laun samkvæmt kjarasamningum. Efla þarf eftirlit, fræðslu, menntun og rannsóknir í ferðaþjónustu.

Gegn matarsóun

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Reykjavík 13. febrúar 2016, skorar á Alþingi að fylgja fordæmi neðri deildar franska þingsins sem lagði bann við óábyrgri sóun matvöruverslana, þar sem gífurlegu magni matvæla, sem kæmu víða að góðum notum, er hent reglulega á meðan margir í heiminum búa við hungur og skort.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi

Kæru félagar!

Ég mun ekki lengja mál mitt í dag enda dagskráin þétt. Mig langar þó að deila með ykkur nokkrum hugsunum um orð og mikilvægi þeirra.

Þegar ég var kjörin varaformaður þessarar hreyfingar árið 2003 sagði ég aðspurð að mig langaði mest til að breyta orðræðunni og vafalaust kímdu einhverjir yfir þessari stelpu sem talaði um orð á meðan karlar í krapinu ætluðu að reisa hér verksmiðjur. Ég er enn á því að það sé fátt mikilvægara en að einmitt þetta. Meðal þeirra áskorana sem við, Vinstri-græn, þurftum að takast á við þá var að teljast vera „fúl á móti“-flokkurinn, nánast á móti öllu sem þá var ofarlega á baugi: nánast þráhyggjukenndri markaðsvæðingu allra hluta og algjöru skeytingarleysi um umhverfismál. Önnur áskorun var að við værum „ekki stjórntæk“ eins og það var kallað því að við féllumst ekki á allar forsendur nútímalegs markaðssamfélags og því myndum líklega setja allt á hausinn um leið og við kæmum nærri stjórn samfélagsins.

Báðir þessir frasar (fúl á móti og ekki stjórntæk) þóttu mér ósanngjarnir. Við höfðum gert ýmislegt til að sporna gegn á móti-stimplinum, meðal annas hannað heila auglýsingaherferð sem hét MEÐ alls konar góðum málum; MEÐ náttúruvernd, friði og velferð. Og það er mín trú að þessi barátta við orðin hafi hægt og bítandi skilað sér með þeim árangri að í kosningum 2007 uppskárum við rúm 14% úr kjörkössunum sem fyrir litlum átta árum þótti mjög mikið fylgi fyrir róttækan vinstriflokk.

Hvað varðar það að vera stjórntæk þá skipti nú kannski mestu að við fengum að spreyta okkur á því vandasama verkefni að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi og reyna á flokkinn undir erfiðum kringumstæðum sem var bæði lærdómsríkt en líka skilaði það miklum árangri. Og það var nú raunar vegna þess að aðrir flokkar höfðu sett allt á hausinn fyrst.

En baráttan hættir aldrei þó að viðfangsefnin breytist. Nú þegar við Vinstri-græn erum orðin stjórntæk erum við líka orðin hluti af kerfinu í hugum margra og margir þeirra sem vilja kjósa gegn kerfinu líta ekki lengur á okkur sem valkost.

Annar frasi sem ég veit að mörgum þykir erfiður er að þrátt fyrir óteljandi mál, frumvörp, tillögur og fyrirspurnir á þingi, þrátt fyrir öflugan málflutning og andstöðu við mál sem við teljum ganga gegn jöfnuði, sjálfbærni, kvenfrelsi, friði og öðrum af okkar grunngildum, þá klifa álitsgjafar á því að stjórnarandstaðan sé ekki nægjanlega öflug eða ekki nægilega sýnileg. Því er til að svara að í fyrsta lagi þá erum við í stjórnmálum til að berjast fyrir okkar hugsjón en ekki aðeins til að vera í andstöðu. Í öðru lagi ákváðum við, þingmenn Vinstri-grænna, að við hefðum engan áhuga á að líkjast þeirri ómálefnalegu stjórnarandstöðu sem fulltrúar núverandi stjórnarflokka héldu uppi á síðasta kjörtímabili og litar raunar enn þeirra málflutning svo mjög að stundum held ég að forsætisráðherra sé enn í stjórnarandstöðu við Steingrím og Jóhönnu og gleymi stundum að hann er kominn í aðra vinnu. Og við lítum á það sem okkar hlutskipti, ásamt hinum flokkunum í minnihlutanum, að breyta umræðunni aftur til batnaðar og tileinka okkur ekki fúkyrðaflauminn. Enda ætlum við okkur ekki hlutskipti stjórnarandstöðu til langframa! Það er gott að vera sýnilegur en okkur þarf samt ekki að langa til að vera sýnileg á svipuðum forsendum og þáverandi stjórnarandstaða var á seinasta kjörtímabili.

Enn eru það átök um orð og hugtök.

Mig langar sérstaklega að nefna nokkur orð sem er mikilvægt að við Vinstri-græn tökum upp á okkar arma og hafa of lengi verið í gíslingu hægri-aflanna. Góðir félagar, við þurfum að fóstra þessi orð og setja þau í okkar verkfærakistu.

Svo ég nefni nokkur þessara orða: frelsi – stöðugleiki – öryggi.

Frelsi einstaklingsins hefur lengi verið frasi í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem líka talaði um stétt með stétt og ætlaði að vinna fyrir háa jafnt sem lága. Flokknum tókst svo vel að eigna sér þetta orð í pólitískri umræðu á Íslandi að margar aðrar stjórnmálahreyfingar veigruðu sér við að tala um frelsi, rétt eins og það væri einkamál Sjálfstæðisflokksins. En það er ekki svo.

Frelsi Sjálfstæðisflokksins hefur þróast út í að vera aðeins frelsi hinna fáu efnamiklu til að maka krókinn, iðulega með sérstakri ríkisaðstoð á kostnað frelsis fjöldans.

Hvað verður þá um frelsið til að sækja sér menntun og heilbrigðisþjónustu við hæfi eða frelsi fólks er að búa í samfélagi þar sem dagvinnulaun duga fyrir mannsæmandi lífi? Þegar skorið er niður þannig að þjónusta hins opinbera við almenning rýrnar, aðgangur 25 ára og eldri er takmarkaður að framhaldsskólamenntun, gjöld fyrir læknisþjónustu eru hækkuð, fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun eru skornar niður þannig að framtíðartækifærum á landinu okkar fækkar, þá er verið að skerða frelsi fólks. Frelsi fólks til að lifa góðu lífi..

Og kjörin eru það sem brennur á okkur í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði um þessar mundir. Á vef Hagstofunnar má finna upplýsingar um hlutfall þeirra sem teljast undir lágtekjumörkum. Nýjustu tölur, sem eru frá 2013, sýna að lágtekjumörk fyrir einstakling eru kr. 170.600 og fyrir fjölskyldu tveggja fullorðinna með tvö börn kr. 358.400. Samkvæmt félagsvísum Velferðarvaktarinnar voru 9,3% landsmanna undir lágtekjumörkum árið 2013. Einhleypir einstaklingar eru stærsti hópurinn undir lágtekjumörkum á síðustu 10 árum en árið 2013 voru þeir 32,1% hópsins. Næst stærsti hópurinn sem er undir lágtekjumörkum á sama tímabili eru einstæðir foreldrar, sem eru 27,1% hópsins. Félagsvísar mæla einnig ójöfnuð í samfélaginu samkvæmt hinum svokallaða Gini stuðli. Samkvæmt honum er ójöfnuður minni nú en fyrir efnahagshrunið. Ójöfnuður mældist mestur árið 2008 (skömmu fyrir hrun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið í stjórn í 17 ár) og var þá 29,61 en hefur verið í kringum 24–26 frá þeim tíma. Hann mældist 24,0 árið 2013.

Þegar við hugsum um frelsi þá eigum við að hugsa um frelsi launamannsins til að geta átt nóg í matinn og til að leita hamingjunnar og njóta lífsins. Það má minna á að rétturinn til að leita hamingjunnar er nefndur í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna – ég sæi í anda þá sem mestu hafa ráðið um örlög íslensku stjórnarskrárinnar ef þetta rataði þar inn!

En ævinlega þegar lágtekjuhópar krefjast bættra kjara birtist annað orð: Stöðugleiki. Honum er ógnað í hvert sinn sem skúringafólk vill kjarabætur. En um hvað snýst þessi stöðugleiki?
Er það sá stöðugleiki að þeir sem eigi mest haldi áfram að eiga meir og meir? Því þannig er staðan á Íslandi að ríkustu 10% eiga 70% alls auðs. Verra er það víða annars staðar en ekki er þetta samt viðunandi. En kannski snýst skattastefna núverandi stjórnvalda einmitt um að halda þessu ástandi stöðugu því ekki leiða þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í til aukins jafnaðar. Lækkun veiðigjalda, afnám auðlegðarskatts, hækkun matarskatts og nú síðast talar fjármálaráðherra um að hverfa frá hinu þrepaskipta skattkerfi í áföngum. Allar stuðla þessar breytingar að aukinni misskiptingu. Þetta er ekki stöðugleiki sem nýtist hinum kúguðu og undirokuðu. Engin þessara nýlegu breytinga bætir kjör lægst launuðu hópanna. Engin þeirra stuðlar að minni fátækt í samfélaginu. Og engin þeirra eykur öryggi okkar.
Sem er enn eitt orðið sem hægrimenn hafa gert að sínu og láta eins og snúist um að lögreglan eigi nógu margar byssur til að geta brugðist við því ef það verður „attack“ eins og einn þingmaður kallar það. Sú hugmynd að öryggi verði varðveitt best með sem flestum sprengjum setti sannarlega svip sinn á 20. öldina og ekki síður þá 21. Og ekki jók hún nú öryggið í heiminum eins og allir muna sem lifðu Kúbudeiluna og enn má sjá á ástandinu í Mið-Austurlöndum. Hér er á ferð orð sem hefur verið afskræmt og snúið í andstæðu sína. Og er ekki kominn tími til að orðinu verði aftur ljáð skynsamleg merking? Þegar rýnt er í hugmyndina um öryggi þá hlýtur niðurstaðan að verða sú að það snúist miklu frekar um það að við byggjum upp gott samfélag, friðsamt jafnaðarsamfélag, þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi, með aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, og öðrum mikilvægum þáttum fyrir lífshamingju okkar, eða þak yfir höfuðið sem er það sem unga kynslóðin núna sér ekki fram á – öryggi hefur ekkert með skotvopn eða forvirkar rannsóknarheimildir að gera, og við höfnum slíkri hugmyndafræði.

Kæru félagar,
ég get að lokum ekki látið hjá líða að nefna hér rammaáætlun. Þar koma fleiri orð við sögu en kannski er rétt að nefna bara tvö: Hjól atvinnulífsins. Því er gjarnan haldið fram af sjálfskipuðum vinum atvinnulífsins að nú þurfi að virkja og virkja og virkja til að knýja hjól atvinnulífsins. Ekki veit ég hvernig nákvæmlega þessir virkjanavinir geta skýrt þá staðreynd að atvinnuleysi minnkaði jafnt og þétt í tíð síðustu ríkisstjórnar án þess að sú sæi ástæðu til að ganga fram hjá lögbundnu og faglegu ferli rammaáætlunar eða velja eftir eigin geðþótta virkjanakosti sem eftir er að fjalla um og skella þeim í nýtingarflokk án þess að hafa fyrir þvi nein rök önnur en hin margfrægu hjól atvinnulífsins. Þetta eru réttnefndar stórkalla-lausnir sem einkenndu atvinnustefnuna fyrir hrun og skildu samfélagið eftir í sárum, í raun og veru eins langt frá einstaklingsframtaki (svo að ég nefni enn eitt orðið sem engin ástæða er að leyfa öðrum að eigna sér) og hugsast getur á sama tíma og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki fá ekki áheyrn stjórnvalda og flýja land.
Umhverfismálin verða ekki rædd án þess að við ræðum atvinnumálin; við stóðum fyrir fjárfestingu í rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, fjárfestingu sem snýst um að leyfa einstaklingsframtakinu að njóta sín, og þær greinar sköpuðu um leið verðmæti. Fjölbreytni í atvinnulífi þar sem ekki er gengið um of á auðlindir landsins er okkar markmið, ekki þráhyggjukennd trú á stóriðju og virkjanir sem þolir engar mótbárur og enga skoðun þannig að til að þjóna þessari köllun þurfa menn að ganga framhjá öllum faglegum ferlum. Eru þetta ekki hinar einu raunverulegu öfgar í íslenskum stjórnmálum? Og ekki aðeins er slíka trúboða að finna í hópi stjórnmálamanna sem vilja komast sveigja og beygja lög um rammaáætlun því eins og kunnugt er hefur Orkustofnun nú skotið upp kolli með hina sakleysislegu Kjalölduveitu – sem reynist svo vera Norðlingaölduveita með nýju nafni! Mikið hefur þeim fundist þeir vera snjallir þegar þeir fundu upp á þessum glænýja merkimiða.

En kæru félagar…
Orð geta verið kúgunartæki eða öflugt vopn í baráttu fyrir friði, frelsi og jöfnuði. Við þurfum að hafa sjálfstraust andspænis orðunum sem spunameistarar vilja gjarnan nota til að berja á andstæðingum sínum. Frelsi, öryggi og stöðugleiki eiga að vera á okkar stefnuskrá en á okkar forsendum, frelsi almennings, öryggi almennings og stöðugleiki í þágu almennings en ekki aðeins hinna auðugu eða forréttindahópanna.

Flokksráðsfundi lokið

Flokksráðsfundi Vinstri grænna lauk síðdegis í dag, en hann var haldinn á Iðnó í Reykjavík. Á fundinn mættu um hundrað flokksráðsfulltrúar, þar á meðal þingmenn, sveitarstjórnarfulltrúar, formenn svæðisfélaga og fulltrúar kjörnir á landsfundi. Tilgangurinn með fundinum var ekki síst að vinna að endurnýjun á stefnu Vinstri grænna sem lögð verður fram á landsfundi næsta haust.

Sex ályktanir voru samþykktar á fundinum. Í ályktuninni Styðjum baráttu launafólks segir m.a.: „Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs styður framkomnar launakröfur verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst réttlátar kröfur um hækkun lægstu taxta, og leggur áherslu á að í góðu samfélagi verður fólk að geta lifað af dagvinnulaunum sínum. Nýjar kannanir ASÍ hafa sýnt að lægstu laun á Íslandi eru um 30% lægri en laun í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Lágmarkslaun dagvinnu á Íslandi duga einfaldlega ekki fyrir brýnustu þörfum.“

Einnig var samþykkt ályktun um einkavæðingu opinberra háskóla: „Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs varar við stefnu menntamálaráðherra um að breyta rekstrarfyrirkomulagi Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) og Háskólans á Hólum og sameina þessa skóla Háskólanum á Bifröst undir hatti einnar sjálfseignarstofnunar. Ekki hafa verið færð nein fagleg rök fyrir þessari sameiningu og í raun virðist hún fyrst og fremst eiga að fækka opinberum stofnunum og einkavæða tvo opinbera háskóla. Landbúnaðarháskóli Íslands er ein af grunnstoðum landbúnaðar í landinu auk þess að hafa á undanförnum áratugum skapað sér sérstöðu með kennslu í umhverfis- og náttúrufræði. Mikilvægt er að stjórn hans og umsýsla sé í höndum ríkisins en ekki einkaaðila. Sömu rök eiga við um Hólaskóla, eina elstu menntastofnun landsins.”

Allar ályktanir má lesa og sækja hér.

Ræða varaformanns á flokksráðsfundi

Minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, sem mynduð var í ársbyrjun 2009, var varin vantrausti af framsóknarflokknum eins og allir muna. Framsóknarmenn höfðu þá nýlega valið nýjan formann eftir  nokkuð ör formannsskipti árin þar á undan. Nýi formaðurinn, sem þá sat utan þings og var ungur nýliði í stjórnmálum, virtist bæði kraftmikill og áhugasamur og tilbúinn verka. Verkefnin á þessum tíma voru ærin eins og flestir muna og auðvelt að finna kröftum ungra eldhuga farveg ef því var að skipta.

Formanninum unga og framsóknarflokknum stóð þá til boða bein og/eða óbein aðild að minnihlutastjórninni og þar með að leggjast á árarnar í þeim lífróðri sem róinn var fyrir íslenskt samfélag á þessum tíma.

En hann baðst undan því. Hann vildi ekki að framsóknarflokkurinn kæmi að þeim ákvörðunum sem þurfti að taka í kjölfar Hrunsins. Hann baðst svo sjálfur að lokum undan því að vera upplýstur um gang einstakra mála eins og hann gerði þó kröfu um í fyrstu. Hann virtist, ólíkt mörgum öðrum, gera sér þá grein fyrir  hversu erfiðleikarnir voru miklir og hvað lítið það yrði til vinsælda vaxið að takast á við þá. Því bakkaði hann út og leitaði skjóls.

Í stuttu máli baðst hann undan ábyrgð og hrökklaðist undan þegar honum stóð til boða að láta á sjálfan sig og framsóknarflokkinn reyna.

Það má fullyrða að fá dæmi eru ef nokkur um jafn óábyrga afstöðu stjórnmálamanns og í þessu tilfelli. Í þeirri stöðu sem Ísland og íslenskt samfélag var í ársbyrjun 2009 verður það að teljast meiriháttar pólitískur ræfilsskapur að skjóta sér undan ábyrgð með þeim hætti sem formaður framsóknarflokksins gerði í ársbyrjun 2009.

Nú situr framsóknarformaðurinn ungi í forsætisráðuneytinu sem leiðtogi í ríkisstjórn hægriflokkanna tveggja ef hægt er að tala um tvo flokka í þessu sambandi, svo líkir sem þeir eru að innræti.

Helstu verkefni og markmið ríkisstjórnar framsóknarflokksins eru að afmá öll þau spor sem vinstristjórnin setti á íslenskt samfélag kjörtímabilið eftir Hrun.

Það sjáum við í minnkandi vægi umhverfismála, breytingum á skattkerfinu, niðurskurði í velferðarmálum og almennu viðhorfi til samborgaranna, sérstaklega þó opinberra starfsmanna. Þar hafa framsóknarmenn gengið lengra en sjálfstæðismenn hafi látið sig dreyma um, jafnvel í sínum villtustu draumum. Hafi þó báðir flokkar jafna skömm fyrir.

Ríkisstjórn hægriflokkanna undir forystu framsóknarflokksins er mögulega versta ríkisstjórn sem setið hefur á Íslandi. Ríkisstjórnin og þinglið hennar hefur notfært sér erfiða fjárhagsstöðu ríkisins til að keyra harðlínustefnu í efnahagsmálum og velferðar- og menntamálum. Í skjóli erfiðleikanna hafa stjórnvöld skorið niður langt umfram þörf til samneyslunnar á sama tíma og tekjum frá efnameiri einstaklingum, auðmönnum og fyrirtækjum er hafnað. Samanlagt munu skattbreytingar ríkisstjórnarflokkanna leiða til tekjutaps ríkissjóðs upp á um 100 mia.kr. á kjórtímabilinu, hið minnsta.

Á sama tíma á að greiða úr ríkissjóði um tugi milljarða króna inn á verðtryggð útlán fjármálastofnana í gegnum sk. leiðréttingu. Þannig munu fjármálastofnanir fá allt sitt greitt upp í topp, vexti, dráttarvexti, vanskil og söfnunarreikinga úr ríkissjóði á meðan blóðugum niðurskurði er beitt í velferðar -og menntamálum. Fjármálastofnanir fá jafnvel í gegnum þessa stóru millifærslu greidd útlán sem þau höfðu áður fallist á að afskrifa, beint úr ríkissjóði. Enda mala þessir aðilar við fætur húsbænda sinna, saddir og sælir.

Áhrif efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafa heldur ekki látið á sér standa. Einkaneysla eykst langt umfram spár og verðmæti útflutnings stendur ekki undir innflutningi. Við vitum öll að það er ekki verst setti hópur samfélagsins sem eykur neyslu sína nú eða gengur á gjaldeyrisforða landsins. Það er annar hópur. Það er markhópur hægristjórnarinnar, hópurinn sem fær stærsta hluta millifærslunnar úr ríkissjóði og mest þó þeir sem tróna á toppi tekju- og eignalistans, þeir sem fá auðlegðarskattinn felldan niður upp á marga milljarða króna.

Á sama tíma á svo að hækka matarreikninginn hjá almenningi ásamt öðru sem fólk þarf til að geta átt eðlilegt líf.

Allar aðgerðir ríkisstjórnar framsóknar og sjálfstæðisflokks miða því fyrst og síðast að því að auka velsæld þeirra sem best standa.

Það eina sem almenningi er ætlað, fjölskyldunum í landinu, eru mótvægisaðgerðir, t.d. með því að lækka gjöld af sjónvörpum, ísskápum og Lexusum.

Reyndar er það merkilegt hvað mikið af aðgerðum ríkisstjórnarinnar kallar á miklar og stundum nær óskiljanlegar mótvægisaðgerðir. Það er eins og allt sem þau geri hafi svo neikvæð áhrif að það þurfi mótefni við því rétt eins og um einhvers konar sjálfsofnæmi sé að ræða.

Auðvitað á þessi ríkisstjórn að fara frá. Hún er rúin öllu trausti. Allar hennar aðgerðir eru dæmdar til að mistakast og fá háðulega og vonda útreið svo til allra umsagnaraðila, almennings og fjölmiðla – utan Morgunblaðsins að sjálfsögðu.

En hefur þá allt verið unnið fyrir gýg? Hefur þeim þá tekist að gera að engu það sem áður hafði áunnist? Auðvitað ekki.

Það góða er að nú hafa verið dregnar skýrari línur á milli vinstri og hægri í íslenskum stjórnmálum. Kjósendum hefur verið boðið upp á val um leiðir.

Það  vekur einnig athygli að allt það versta sem hægriflokkarnir hafa séð í verkum vinstristjórnarinnar er meira og minna verkefni og áherslur okkar Vinstri grænna.

Í því sambandi nægir að benda á umhverfismálin sem í dag snúast nær eingöngu um að afturkalla allt það sem við stóðum fyrir. Skattamálin, sem ég hef áður nefnt, og síðast en ekki síst menntamál sem eru komin í algjört uppnám.

Glórulausar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um styttingu náms á framhaldsskólastigi og takmörkun á aðgengi að námi er mesta aðför sem gerð hefur verið að skólakerfinu á Íslandi. Í einu vetfangi  á að fækka nemendum á framhaldsskólastigi um fjórðung og takmarka aðgang annarra að námi. Þetta mun ekki gerast án pólitískra átaka enda um gríðarlega samfélagslega breytingu að ræða langt inn í framtíðina.

Ég vakti athygli á því í umræðum um frumvarp til laga um opinber fjármál sem unnið var á síðasta kjörtímabili og núverandi fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi að þar er áfram gert ráð fyrir því að innleiða kynjaða hagstjórn við fjárlagagerðina. Það er verkefni sem við lögðum upp með fyrir fimm árum og hefur vaxið með hverju árinu. Það er rétt að hrósa fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins fyrir að halda áfram með þetta verkefni, enda er árangurinn af því farinn að koma í ljós, þó margir hafi orðið til þess að hæðast að þessu í upphafi.

Enda verður nú að segjast eins og er að það er þó þrátt fyrir allt af og til hægt að halda uppi málefnalegri rökræðu við formann sjálfstæðiflokksins á meðan það virðist ekki vera nokkur lífsins vegur við aðra.

Þessi mikla sveifla á milli þess sem við í vinstristjórninni lögðum áherslu á og þess sem hægrimenn keyra nú áfram, á að gefa okkur vígstöðu til að takast á við hægri öflin um leiðir og sömuleiðis færi á að rökræða við kjósendur, almenning í landinu, um hvers konar samfélagsgerð við viljum skapa.

Hulda Þórsisdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum, flutti athyglisvert erindi um vinstri og hægri stjórnmál á flokksráðsfundi okkar sl. sumar. Erindi hennar byggðist á íslenskri kosningarannsókn um afstöðu kjósenda til flokka og flokkanna til þeirra sjálfra, ef svo má segja.

Í stórum dráttum var niðurstaða þessarar rannsóknar sú að átakalínur vinstri og hægri í íslenskum stjórnmálum hverfast um umhverfismál, einkarekstur og efnahagslegan jöfnuð. Það var í því síðastnefnda, þ.e. efnahagslegum jöfnuði sem Vinstri græn skoruðu hæst allra flokka og sjálfstæðisflokkurinn naut minnst trausts. Þetta kom mörgum á óvart en má að mínu mati að stórum hluta rekja til árangurs sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili þar sem við gegndum lykilhlutverki. Þrátt fyrir erfiðleika og lífskjaraskerðingu í kjölfar Hrunsins áttuðu flestir sig á því að aðgerðir okkar voru til þess ætlaðar að auka jöfnuð og færa þyngri byrðar á herðar þeirra sem gátu borið þær af hinum sem veikari voru.

Það vakti marga einnig til umhugsunar að samkvæmt þessari sömu rannsókn höfðu Vinstri græn tapað stöðu sinni í umhverfismálum yfir til Bjartrar framtíðar sem þó hefur ekki verið sérstaklega áberandi í þeim málaflokki á stuttum líftíma sínum heldur siglt lygnan sjó.

Ég nefni þetta tvennt hér úr erindi Huldu sem dæmi um að skilin á milli vinstri og hægri eru enn skýr þótt margir vilji halda öðru fram en einnig að trúverðugleiki flokka í einstökum málum getur sveiflast til eftir því hvernig á málum er haldið. Skiljanlega.

Ég er þeirrar skoðunar að við í Vinstri grænum verðum stöðugt að leita nýrra leiða við að hafa áhrif á samfélagið og jafnvel að breyta um áherslur varðandi afstöðu okkar til einstakra mála í þeim tilgangi að hafa áhrif. Þá er ég ekki endilega að tala um pólitíska afstöðu, enda höfum við haft góðan málstað fram að færa, heldur varðandi aðferðafræði við að vinna málum okkar fylgis.

Það er stundum sagt að við vinstrimenn séum prinsippfastari en fólk á hinum væng stjórnmálanna. Því lendum við oft í því að einstök afmörkuð mál, stór sem smá, yfirtaka önnur og skyggja á heildarmyndina. Það má vel vera eitthvað til í því. Við höfum tekist á um nokkur slík mál á síðustu árum og varpað með því skugga á heildarmyndina, stóru myndina um samfélagsgerðina sem við viljum öll á endanum ná fram. Við höfum einnig átt í erfiðleikum með að koma málum okkar á framfæri, tengja þau saman í eina órofa heild –þó færi til þess séu svo sannarlega fyrir hendi eins og fram kom hjá Huldu Þórisdóttur.

Þetta þurfum við að taka til skoðunar.

Á morgun verður haldið málþing um olíuleit og vinnslu í lögsögu Íslands. Vinstri græn tóku ríkan þátt í mótun leikreglna og samningagerðar um olíuleit á sk. Drekasvæði sem aðili að ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Með því náðum við að setja mark okkar á þá undirbúningsvinnu sem annars hefði kannski ekki orðið. Með sama hætti var undir okkar forystu í ríkisstjórn gert samkomulag um byggingu iðjuvers við Húsavík þar sem horfið var frá stefnu fyrri stjórnvalda um byggingu risaálvers með óheyrilegum kostnaði fyrir ríkissjóð í formi ríkisframlaga og lágs orkuverðs.

Í báðum þessum tilfellum er í grunninn um að ræða mál sem hafa mætt talsverðri andstöðu innan flokksins á liðnum árum, annars vegar olíuleit og hins vegar bygging iðjuvera.

Hér verðum við, eins og í öllum öðrum málum, annars vegar að móta afstöfðu okkar og stefnu og hins vegar hvernig við getum haft sem mest áhrif á framgang mála og endanlega niðurstöðu.

Ágætu félagar.

Það eru næg verkefni fyrir okkur á pólitíska sviðinu nú sem endranær eins og ég hef nefnt. Það er því mikilvægt að við þéttum hópinn eins vel og við getum og verðum virk í starfi flokksins um land allt. Það er að öllu leyti skiljanlegt að almenningur sé fráhverfur stjórnmálum eins og fram hefur komið í kosningaþátttöku sem og í félagsstarfi allra flokka. Það má hins vegar ekki leiða til þess að stjórnmálin verði eingöngu vettvangur stjórnmálamanna, þingmanna eða sveitarstjórnarmanna. Það er því mikilvægt að við virkjum okkur sjálf og tökum aðra með okkur í því markmiði að efla flokksstarfið og þátttöku í pólitískri umræðu. Það verður eitt af okkar stærstu verkefnum næstu misserin. Stjórnmál mega ekki bara fyrir þá sem lifa og hrærast í þeim frá degi til dags heldur fyrst og fremst og miklu frekar eiga stjórnmálin að vera vettvangur okkar allra, hvaða störfum sem við gegnum og hvar sem við erum stödd á lífsleiðinni.

Flokksráðsfundur

Boðað er til flokksráðsfundar laugardaginn 21. júní 2014. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn í sal Fjölbrautaskólans við Ármúla.
Skráning á fundinn: Mikilvægt er að skrá sig á fundinn fyrir miðnætti 18. júní, en það er hægt að gera á hér. Einnig er hægt að hringja í síma 552-8872 (milli kl. 9 og 16 virka daga) eða senda tölvupóst á vg@vg.is. Boðið verður upp á hádegisverð á staðnum fyrir 1.000 kr. Vinsamlegast takið fram við skráningu hvort þið hyggist vera í mat.

Dagskrá flokksráðsfundar
10:00: Björn Valur Gíslason, formaður flokksráðs, setur fund og flytur ávarp.
10:20: Vg í hugum fólks. Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði.
11:00: Sveitarstjórnarkosningar 2014: Örerindi frá frambjóðendum og umræður í sal.
12:00: Hvað gekk best í kosningabaráttunni? Örerindi frá kosningastjórum og umræður í sal.
12:45: Matarhlé.
13:30: Katrín Jakobsdóttir, formaður Vg, ávarpar fundinn og varpar fram spurningum um framtíðina.
14:00: Vinstri græn framtíð: Drög að nýrri sókn!
Hópastarf um framtíðarstefnumótun Vg fyrir landsfund haustið 2015.
16:15: Safnast saman og farið yfir niðurstöður hópastarfs.
17:00: Fundi slitið.

Athugið að þessi flokksráðsfundur er ekki hugsaður sem ályktanafundur heldur vinnufundur og ekki er gert ráð fyrir sérstökum umræðum um ályktanir. Ef flokksráðsfulltrúar vilja skila inn ályktunum þarf að skila þeim inn þremur sólarhringum fyrir fundardag eða í síðasta lagi á miðnætti 18. júní. Skal það gert  hér.