Posts

Rangt. Svo kolrangt

Samband íslenskra sveitarfélaga skilaði síðasta haust umsögn um fjárlagafrumvarp ársins 2016. Í því segir m.a. að sambandið vilji að af hálfu ríkisins verði lögð áhersla á að „draga úr bóta- og skattsvikum“ sem er auðvitað alveg rétt ábending hjá sambandinu.
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga heitir Halldór Halldórsson. Hann er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Einn borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins hefur viðurkennt að geyma fjármuni sína í skattskjóli á Panama. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir ekki athugasemdir við það. Segir að það sé einkamál borgarfulltrúans hvar hann geymir peningana sína.
Þetta er rangt. Kolrangt.

Það er ekki einkamál borgarfulltrúans, fjármálaráðherransforsætisráðherrans ,innanríkisráðherrans, gjaldkerans, framkvæmdastjórans eða nokkurs annars sem kýs að lauma peningunum sínum úr landi í erlend skattaskjól. Það snertir okkur öll og kemur niður á lífsgæðum okkar allra þegar fólk með vísvitandi hætti kemur peningunum sínum undan og það grefur undan efnahagslegu sjálfstæði landsins, þ.m.t. sveitarfélaga.

Ætli stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sé sammála afstöðu formannsins til skattaskjóls landa?
Eða er áhugi þeirra takmarkaður við meint bótasvik öryrkja og skattsvik almennings sem ekki á aurana sína geymda í Tortólum þessa heims?
Því á ég bágt með að trúa.

Forsætisráðherrahjón í skattaskjólum

Virðulegi forseti. Það má margt um ríkisstjórn hægri flokkanna að segja og þinglið þeirra. En eitt gott er þó að þeir sjá okkur fyrir ágætu umræðuefni frá degi til dags. Það sem var ferskt og fínt í umræðu í gær er orðið úrelt og gamalt í dag, því miður.

Nú er komið í ljós að forsætisráðherrahjónin eru í gegnum peningafélag sitt skráð á Tortóla meðal kröfuhafa í alla íslensku bankana upp á mörg hundruð milljónir króna. Á meðan íslenskur almenningur, fjölskyldur og heimili, þurftu í gegnum hrunið og í kjölfar þess að berjast frá degi til dags til að halda heimili sínu gangandi innan gjaldeyrishafta og fallinnar krónu og reyna að standa í skilum með skuldbindingar sínar voru forsætisráðherrahjónin að höndla með fjölskylduauðinn í erlendum skattaskjólum.

Á sama tíma og forsætisráðherrann krafðist þess ítrekað úr þessum ræðustól á síðasta kjörtímabili að fá að vita hverjir væru raunverulegir eigendur bankanna, hverjir kröfuhafarnir væru, hrægammarnir, var hann einn af þeim. Þetta setur slagorð Framsóknarflokksins um heimilin í landinu í allt annan og óskemmtilegri búning en hingað til.

Það er allt rangt við þetta mál, virðulegi forseti, og það stenst á engan hátt réttmætar lágmarkskröfur sem gerðar eru til stjórnmálamanna. Það er því fullkomlega eðlileg ósk að þessum þingfundi verði nú frestað og forsætisráðherra verði gert kleift að útskýra mál sín fyrir Alþingi. Jafnframt er eðlilegt að gera kröfu til annarra ráðherra og þingmanna sem enn hafa ekki upplýst um sambærileg mál, ef einhver eru, að þeir fái tækifæri til þess sömuleiðis. Það væri farsakennt, virðulegi forseti, að (Forseti hringir.) halda þessum þingfundi áfram án þess.

Ég ítreka þá ósk mína að þingfundi verði frestað og forsætisráðherra útskýri mál sín fyrir Alþingi.

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG

Þingfréttir – 40% misskilningur, flygildi og brennivín

Gleðilegan laugardag kæru félagar,

Vikan í þinginu hófst á því að Katrín spurði forsætisráðherra um yfirlýsingu hans á leiðtogafundi SÞ um markmið Íslands í losun gróðurhúsalofttegunda um 40%. Drógu bæði aðstoðarmaður og umhverfisráðherra síðar í land með yfirlýsingu Sigmundar. Katrín lagði því áherslu á mikilvægi þess að forsætisráðherra segði frá því með skýrum hætti hvernig þessi fyrirætlan væri hugsuð.

Sama dag spurði Katrín innanríkisráðherra um hvort setja eigi almenna löggjöf eða reglur um notkun dróna, eða flygilda eins og þetta tænkiundur er nefnt, hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum í atvinnulífinu. Vísaði Katrín til Frakklands, Þýskalands og Svíþjóðar þar sem skýrar reglur eru um noktun flygilda.

Svandís sendi inn fyrirspurn til munnlegs svars til sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra um dýravernd og verður fyrirspurnin tekin fyrir vonandi sem fyrst.

Umræða um hæfnispróf í framhaldsskólum fór einnig fram í vikunni að frumkvæði Svandísar sem hafði sent til menntamálaráðherra fyrirspurn til munnlegs svars um málið.

Í störfum þingsins á þriðjudag vakti Lilja Rafney athygli á umdeildri ákvörðun Rannsóknarnefndar sjóslysa vegna hörmulegs sjóslyss í sumar þegar báturinn Jón Hákon BA sökk. Rannsóknarnefndin hefur ákveðið að ná ekki bátnum upp af hafsbotni en samtök sjómanna hafa harmað ákvörðunina. Undir þá gagnrýni tekur Lilja Rafney.

Stöðugleikaframlögin voru rædd á þinginu í gær þegar forsætisráðherra skundaði í þinghús og í óundirbúnar fyrirspurnir með stuttum fyrirvara. Katrín notaði tækifærið og benti á að stöðugleikaframlögin virðast minnka með hverjum degi skv. fréttum. Upphaflegu 450-500 milljarðarnir sem boðaðir voru séu komnir niður í um það bil 300 milljarða. Erfitt reynist að fá fullnægjandi upplýsingar í efnahags- og viðskiptanefnd og því þurfi forsætisráðherra að fara yfir stöðuna enda um gríðarstórt hagsmunamál almennings sé að ræða.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að mikið hefur verið rætt um brennivín síðustu daga, enda lagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, loks fram frumvarp sitt í gær um brennivínssölu í verslanir og fór fyrsta umræða fram á þinginu í kjölfarið. Framsóknarfólk er á móti frumvarpinu sem og okkar fólk og aðrir stjórnarandstöðuliðar. Ögmundur vakti athygli á lýðheilsusjónarmiðunum, samþykktum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem leggst gegn smásölu á áfengi og umsögnum landlæknisembættisins og samtaka um vímuefnamál og æsklýðsmál um frumvarpið. Ögmundur kallaði líka réttilega eftir viðveru og skoðun heilbrigðisráðherra og samflokksmanns Vilhjálms í málinu

Ögmundur tókst svo á við Vilhjálm um málið í Síðdegisútvarpi Bylgjunnar á fimmtudag

Það gerði Bjarkey líka í Morgunvakt Ríkisútvarpsins klukkan hálfátta á föstudegi

Bjarkey sendi líka inn fyrirspurn á Illuga Gunnarsson um fjárhagsleg tengsl hans við Orku Energy. Spurningar hennar eru kristalskýrar og ættu að hjálpa ráðherranum að gera almennilega grein fyrir þessum tengslum. Vonast er til að hann svari Bjarkey ekki í Fréttablaðinu heldur í þingsal.

Steinunn Þóra fékk svör í vikunni við fyrirspurn sinni til félags og húsnæðismálaráðherra um endurgreiðslukröfurkröfur

Fæðingarorlofssjóð  og spurðist líka fyrir um aðgengisstefnu ríkisins að opinberum byggingum

Hún vippaði sér svo í Harmageddon á X-inu og lét þar gamminn geisa um að prestar hætti að fá leyfi til að gifta fólk og flutt til borgaralegra starfsmanna.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður, settist í fyrsta sinn á þing í vikunni í fjarveru Steingríms. Ingibjörg talaði m.a. um nauðsyn þess að jafna fluggjaldakostnað á landinu og kynjafræðslu á öllum skólastigum. Ingibjörg situr áfram á þinginu næstu viku.

Góða helgi !

Ræða Katrínar

Kæru landsmenn.

Stjórnmálamenn eru stundum sakaðir um skammtímahugsun: að hagsmunir augnabliksins ráði meiru um gjörðir þeirra en hagsmunir almennings til lengri tíma. Þetta er kunnuglegt stef í opinberri umræðu sem og sú krafa almennings að langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi.

Mörgum finnst að hrunið hafi ekki kennt okkur neitt en ég held að það hafi kennt okkur margt. Meðal annars það að stjórnmálamenn geta ekki lengur hunsað eðlilega kröfu íslensks almennings um að við höfum langtímasjónarmið að leiðarljósi í öllum okkar störfum.

Sú hefur því miður ekki orðið raunin á þessu kjörtímabili. Núverandi ríkisstjórn hefur lagt ofurkapp á að snúa öllu við sem sú síðasta gjörði án neinnar hugsunar um langtímasjónarmið. Ef síðasta ríkisstjórn gerði eitthvað þá hlýtur það að vera vont. Svo rammt kveður að þessu að ekki mátti greina annað á hæstvirtum forsætisráðherra í ræðu hans hér áðan en að íslenskt tímatal hefði í raun hafist þegar ríkisstjórn hans tók við. Hér var aðeins ginnungagap vorið 2013, en síðan þá hefur allt gengið mjög vel, ef marka má hæstvirtan ráðherra.

Ég held að það séu margir orðnir leiðir á því þegar stjórnmálamenn tala eins og þeir séu upphaf og endir alls og kannski er það skýringin á bágu gengi sitjandi ríkisstjórnar sem og flestra flokka í stjórnarandstöðunni. Við hljótum flest að geta viðurkennt að frá hruni hafa flestir lagst á árarnar við að byggja hér upp efnahag og samfélag og líklega hefði það aldrei tekist nema vegna þessa samstillta átaks. Það er slík samstaða sem skilar árangri en ekki þau kollsteypustjórnmál sem hæstvirtur forsætisráðherra virðist aðhyllast.

Kæru landsmenn.

Ég heimsótti fámennasta sveitarfélag landsins, Árneshrepp, á dögunum. Meðal annars heimsótti ég Finnbogastaðaskóla þar sem nemendur sögðu frá hugðarefnum sínum. Einn nemandi á unglingsaldri dró fram gamla útgáfu af Íslendingasögunum inni á þröngu bókasafni og sagði mér að hann langaði ekkert annað en að rannsaka Íslandssögu og bókmenntir síðar meir.

Öll eigum við okkur drauma og væntingar. Sonur minn sagði mér um daginn að hann vildi helst af öllu verða ráðuneytisstarfsmaður þegar hann yrði stór. Sjálf ætlaði ég mér að verða poppstjarna en til vara skurðlæknir. Þó að hvorugur draumurinn hafi ræst þá var það ekki vegna þess að ég fengi ekki tækifæri.

Nú á dögum horfum við daglega á börn og fullorðna sem aldrei munu fá tækifæri til að láta drauma sína rætast. Það er enginn munur á börnunum í Reykjavík, Árneshreppi eða Sýrlandi að því leyti að þau langar að lifa og gleðjast og þroskast. En tækifærin eru ekki þau sömu. Nægur er aðstöðumunurinn milli Reykjavikur og Árneshrepps þar sem íbúar eru oft innilokaðir heilu mánuðina vegna lokaðra vega og illrar veðráttu. Og mikill er munurinn á tækifærum í Reykjavík þar sem sum börn hafa efni á að stunda tónlistarnám eða íþróttir og aðrar tómstundir og vita hvar þau munu búa næstu mánuði en önnur búa við þær aðstæður að fjölskyldan nær ekki endum saman um mánaðamót þó að engu sé eytt nema í brýnustu nauðsynjar.

Og hvað getum við þá sagt um aðstæður barnanna sem nú hafa flúið heimaland sitt Sýrland. Sem leggja af stað yfir Miðjarðarhafið á litlum kænum, oft í höndum óprúttinna smyglara, og komist þau á leiðarenda bíða þeirra oftroðnar flóttamannabúðir og fullkomin óvissa. Sum komast aldrei þangað.

Sumra bíður að drukkna á leiðinni og reka upp í fjöru eins og Alyan Kurdi. Hann var þriggja ára. Kannski dreymdi hann einungis um að geta haldið áfram að vakna á morgnana í faðmi fjölskyldu sinnar og fá að lifa lífi sem mörg okkar ganga að vísu.

Einhverjir afgreiða þetta mál þannig að ekki megi einungis hugsa um þá sem birtast á fréttamyndum. En fólkið á myndunum er fólk af holdi og blóði. Veruleiki þess er lýsandi fyrir veruleika margra. Við eigum ekki að brynja okkur fyrir slíkum myndum heldur að sýna samkennd í verki. Við megum ekki líta undan.

Ef við viljum að meðbræður okkar fái að láta drauma sína rætast verðum við að hugsa stöðu okkar í samfélagi þjóðanna, beita okkur fyrir friðsamlegum lausnum hvar sem því verður við komið og reyna að tryggja þannig að sem fæstir þurfi að leggja á flótta. Munum að enginn leggur á flótta að gamni sínu. Gleymum því ekki að Vesturlönd bera sína ábyrgð á stöðunni nú í Mið-Austurlöndum og sú ábyrgð leggur okkur ríkar skyldur á herðar. Við getum gert betur og eigum að taka á móti miklu fleira fólki í neyð.

Virðulegi forseti.

Staðreyndin er sú að ekki hafa allir sömu tækifæri til að láta drauma sína rætast. Við búum við ójöfnuð hér á þessari jörð. Ójöfnuð innan okkar litla samfélags milli stétta og landshluta. Enn meiri ójöfnuð milli heimshluta. Því að á sama tíma og þetta gerist sjáum við að það eru peningar og tækifæri til.

Tímamótaverki franska hagfræðingsins Thomas Piketty sem hefur verið mjög til umræðu seinustu misserin lýkur á orðunum að allir borgarar ættu að kynna sér peninga, hvaða mælikvarðar séu nýttir á peninga og hvaða staðreyndir tengist peningum og sögu þeirra. Sagan sýni að þeir sem eigi mikla peninga bregðist aldrei í því að verja hagsmuni sína. Að neita að eiga við tölurnar þjóni hins vegar sjaldnast hagsmunum hinna tekjuminni. Og tölurnar þarf að setja í samhengi en samkvæmt Piketty á ríkasta 0,1% prósentið um það bil 20% af öllu auðmagni í heiminum og auðugasta eina prósentið á um 50% af öllum auði heimsins.

Ef það á að hafa einhverja merkingu að allir eigi rétt á jöfnum tækifærum þá ber okkur að grípa til aðgerða til að tryggja þau tækifæri. Það þarf að endurskoða það hvernig við skiptum kökunni. Til þess þarf róttækar aðgerðir og breytta hugsun. Við þurfum að átta okkur á því að fjármálakerfið er mannanna verk og lýtur ekki náttúrulögmálum. Þetta kerfi á að þjóna fólkinu en ekki sjálfu sér. Þess vegna þarf breytta hugsun, til dæmis hjá ráðandi öflum innan Evrópusambandsins. Þau hafa lagt ofuráherslu á að Grikkir borgi skuldir sínar á meðan meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur viðurkennt að sumar skuldir er ekki hægt að greiða án þess að fórnarkostnaðurinn verði of mikill fyrir fólkið, fyrir almenning.

Virðulegi forseti.

Tilfinning margra vinstrimanna er sú að hægriöflunum hafi leyfst að stjórna umræðunni um efnahagsmál, einkum seinustu þrjá, fjóra áratugina. Til þess er engin ástæða. Leiðarljós okkar á að vera að kerfið þjóni fólkinu en ekki öfugt. Ég tel að Íslendingar vilji breytingar á þessu sviði og sú krafa endurspeglast ekki síst í kröfunni um lýðræðisumbætur. Eins og kunnugt er var unnin mikil vinna á síðasta kjörtímabili til að Íslendingar gætu fengið nýja stjórnarskrá. En því miður lauk þeirri vinnu ekki eins og mörg okkar vonuðumst eftir. Ég vona að á þessu þingi náist samstaða um ákvæði um að auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar, samþykkt verði nýtt umhverfis- og náttúruverndarákvæði, og einnig að tiltekinn hluti þjóðar og þings geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál og betur verði búið um framsal valdheimilda ríkisins.

Ég tel að ef slík ákvæði yrðu samþykkt hefði unnist mikilvægur áfangasigur. Þar með er breytingum ekki lokið á stjórnarskrá því að okkur ber að vinna samkvæmt vilja þjóðarinnar eins og hann hefur þegar birst í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við getum unnið að honum í áföngum ef það er það sem þarf fremur en að leggja allt málið að veði fyrir árangur sem reynist ekki varanlegur. Ef ekki næst hins vegar samstaða um neinar breytingar þá ættu línurnar að liggja skýrar fyrir næstu kosningar milli þeirra sem vilja fylgja þjóðarinnar í þessum málum og hinna sem leggja allt kapp á að hagga ekki valdajafnvæginu í landinu. Stjórnarskrármálið hefur frá upphafi snúist um völdin og hver haldi um þau völd.

Það vakti athygli mína að forsætisráðherra hæstvirtur minntist ekki á eitt stærsta viðfangsefni samtímans sem eru loftslagsmál þó að hann léti að því liggja að alræmdar hugmyndir um fleiri virkjanir sem sigldu í strand hér í vor snerust eingöngu um orkuskipti í samgöngum en ekki ný kísilver. Hæstvirtur ráðherra veit betur og ætti fremur að efna til samstöðu um að við Íslendingar nýtum orku okkar til að Ísland geti orðið í fararbroddi í loftslagsmálum og orðið kolefnishlutlaust land fyrir árið 2050. Það ættu að vera skilaboð Íslendinga á loftslagsfundinum í París í desember sem kann að ráða úrslitum um framtíð okkar allra og barnanna okkar.

Kæru landsmenn.

Draumar barna um allan heim kalla á að við hugsum til lengri tíma en næstu missera þegar við tökum ákvarðanir. Draumar barna um allan heim kalla á að Íslendingar flani ekki áfram í blindni þegar teknar eru ákvarðanir sem geta tekið toll af náttúru landsins með óafturkræfum hætti til allrar framtíðar. Draumar barna um allan heim kalla á að fólkið í landinu fái meira vald yfir eigin örlögum, að við styrkjum beint lýðræði en líka fulltrúalýðræðið þannig að samfélagi okkar sé stjórnað með gagnsæjum og lýðræðislegum hætti og raddir allra heyrist. Draumar barna um allan heim kalla á að við þorum að grípa til róttækra aðgerða til að endurskoða skiptingu kökunnar. Það er ekki sjálfgefið að þeir sem eiga mest fyrir hafi mest tækifæri til að safna sér enn meiri auði. Það eru engin náttúrulögmál á bak við það fyrirkomulag þó að talsmenn óbreytts ástands tali stundum þannig. Þetta erumannanna verk sem mennirnir geta breytt.

Það er undirstaða lýðræðis og góðs samfélags að við fjárfestum í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Leyfum skólum að þróast þannig að fjölbreytnin verði sem mest og sem flestir geti nýtt hæfileika sína til að þroskast og vaxa og verða öflugir borgarar í öflugu samfélagi.

Fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun mun skila aukinni hagsæld fyrir almenning allan. Það er undirstaða góðs samfélags að við fjárfestum í innviðum, samgöngum og fjarskiptum, þannig að óháð búsetu geti sem flestir nýtt hugmyndir og þor til að láta drauma sína verða að veruleika, hvort sem það er að byggja upp framúrskarandi sushi-stað á Seyðisfirði eða ferðaþjónustu í Djúpavík.

Fjárfestum í heilbrigðisþjónustu þannig að fólk um land allt geti notið öryggis og velferðar – geti lifað góðu lífi. Umfram allt er okkar auður í fólki og þess vegna á að tryggja öllum grunnframfærslu, þar með talið öryrkjum og eldri borgurum sem hafa setið eftir þó að þeir eigi allan rétt á sömu tækifærum og aðrir. Þar skiptir líka miklu að tryggja gjaldfrjálsa grunnþjónustu á sem flestum sviðum.

Góðir Íslendingar.

Með auknum jöfnuði, nýrri hugsun í atvinnu- og umhverfismálum, auknu lýðræði og þeirri skýru sýn að arðurinn okkar, arðurinn af auðlindunum okkar, arðurinn af eigum okkar, eigi heima hjá fólkinu, getur framtíðin orðið frábær. Þá skiptir máli að stjórnmálamenn horfi til lengri tíma en miði ekki allt við sjálfa sig og sinn skamma líftíma. Það er langtímahugsun sem skilar árangri, hvort sem er í knattspyrnu, listum eða stjórnmálum. Tími kollsteypustjórnmála þar sem skammtímahagsmunir hinna fáu ráða á kostnað langtímahagsmuna hinna mörgu er liðinn. Því fyrr sem við hér í þessum sal áttum okkur á því, því betra.

Siðareglur og hagsmunaskráning enn haft til hliðsjónar í stjórnarráðinu

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði forsætisráðherra um siðareglur og hagsmunaskráningu ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag. „Fréttir undanfarna daga leiða hugann að mikilvægi siðareglna,“ sagði Svandís og rifjaði upp að í tengslum við lekamálið hafi forsætisráðherra verið spurður um siðareglur ráðherra og gefið til kynna að siðareglur frá fyrri ríkisstjórn ættu enn við.

Í svari sínu staðfesti forsætisráðherra að siðareglur fyrri ríkisstjórnar hafi verið „hafðar til hliðsjónar“ í tíð nýrrar ríkisstjórnar og kynntar nýjum ráðherrum. Svandís spurði aftur út í þetta atriði í seinni ræðu sinni: „Það kom fram í svari forsætisráðherra að farið hafi verið yfir siðareglurnar með núverandi ríkisstjórn og þess vegna vil ég spyrja sérstaklega í ljósi stöðu og tíðinda dagsins: Var þá sérstaklega farið yfir reglur um hagsmunaskráningu ráðherra?“ spurði Svandís og bætti við að „svo virðist að verulega vanhöld hafi verið á hagsmunarskráningu ráðherra.“ Forsætisráðherra tók ekki undir þetta og fullyrti að farið hafi verið eftir reglum um hagsmunaskráningu ráðherra og sagði að ekki sé fjallað um „hverjir séu leigusalar“ í siðareglunum.

Í ljósi þessa er rétt að taka fram að í umræddum siðareglum segir orðrétt: „Ráðherra upplýsir um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slíkt tensla sem valdið geta hagsmunaárekstrum.“

Katrín spyr um forgangsröðun vegna skuldaniðurfellingar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði forsætisráðherra um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar vegna skuldaniðurfellingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Katrín benti á að ákveðið hafi verið að flýta skuldaniðurfellingunni vegna bættrar afkomu ríkissjóðs. „Og þá hljóta auðvitað að vakna spurningar um forgangsröðun,“ sagði Katrín og bætti við: „Á sama tíma og þessi aðgerð er kynnt er lagt fram fjáraukalagafrumvarp þar sem ekki er gert ráð fyrir aukafé í rekstur Landspítalans sem ég hef þó ekki heyrt annað en að fulltrúar allra flokka hafi talað hér um sem algjört forgangsmál.“ Katrín sagði að áhyggjur almennings af heilbrigðiskerfinu fari vaxandi og spurði að lokum hvers vegna bætt afkoma ríkissjóðs sé ekki nýtt til að horfa sérstaklega til heilbrigðisþjónustunnar.

Í svari sínu tók forsætisráðherra undir að margir hafi áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins en gagnrýndi niðurskurð á síðasta kjörtímabili. Katrín gerði þessi ummæli ráðherra að umtalsefni í seinni ræðu sinni: „Hæstvirtur forsætisráðherra hóf mál sitt í stjórnarandstöðu eins og hans er siður hér í þinginu og ég reikna með því hins vegar að þegar kjörtímabilið er hálfnað fari forsætisráðherra í ríkisstjórn.“ Að lokum spurði Katrín hvort forsætisráðherra vildi skapa víðtækari sátt um uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu en því svaraði forsætisráðherra ekki í seinna svari sínu.

Katrín Jakobsdóttir hefur einnig lagt fram fyrirspurn í 15 liðum um skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar, m.a. um hvernig heildarupphæðin skiptist milli mismunandi tekju- og aldurshópa og milli frádráttarliða og höfuðstólslækkun.

SMS-styrkir ræddir á Alþingi

Katrín Jakobsdóttir og Bjarkey Gunnarsdóttir tóku þátt í sérstakri umræðu sem Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hóf í dag um úthlutun forsætisráðherra á menningarstyrkjum sem var mjög til umræðu fyrr á þessu ári.

Forsætisráðherra var til svara og gagnrýndi það að verið væri að ræða gömul mál en Katrín gagnrýndi hann á móti fyrir að vera enn í hlutverki stjórnarandstöðu og eyða mun meiri tíma í að ræða um fyrri ríkisstjórn en að standa fyrir sinni eigin ríkisstjórn. „Það virðist hafa verið algjör reiðareksstefna í forsætisráðuneytinu þegar kemur að úthlutun þessara styrkja,“ sagði Katrín. Bjarkey benti á að málið snerist um að forsætisráðuneytið setti ofan í við Ríkisendurskoðun, sem á að vera hinn óháði aðili yfir framkvæmdavaldinu.

Bjarkey og Katrín fóru báðar upp um fundarstjórn forseta að umræðunni lokinni til að gera athugasemd við framkomu forsætisráðherra í umræðinni. Þar sagði Bjarkey meðal annars að forsætisráðherra svaraði fyrirspyrjendum „með hálfgerðum dónaskap“ og bætti við að „hann teldi að málið væri komið í þann farveg að það þyrfti ekki að ræða það neitt frekar.“

Kemur fjárlagafrumvarpið betur út fyrir alla hópa?

„Telur hæstvirtur forsætisráðherra að sú umræða sem þegar hefur farið fram bendi til þess að þetta frumvarp komi virkilega betur út fyrir alla hópa samfélagsins?,“ spurði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Í inngangi að spurningu sinni rifjaði Katrín upp að fram hafi komið að þingflokkur Framsóknarflokkssins hafi sett almenna fyrirvara við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í svari sínu sagði Sigmundur Davíð að hinn almenni fyrirvari Framsóknarflokksin við fjárlagafrumvarpið lúti að því að frumvarpið nái þeim markmiðum að auka ráðstöfunartekjur allra hópa og lækka verðlag í landinu.

„Við fáum hér yfirlýsingu frá Alþýðusambandi Íslands sem lýsir þessu frumvarpi sem aðför að launafólki og tekur að einhverju leyti undir áhyggjur hæstvirts forsætisráðherra frá því fyrir nokkrum árum,“ sagði Katrín. „En við erum líka að sjá margar ályktanir frá félögum Framsóknarflokksins um land allt, félagsmenn í þessum flokki lýsa yfir áhyggjum af þeim fyriráætlunum að hækka eigi matarskatt“. Síðan spurði Katrín: „Telur hæstvirtur forsætisráðherra að sú umræða sem þegar hefur farið fram bendi til þess að þetta frumvarp komi virkilega betur út fyrir alla hópa samfélagsins?“

Óboðleg framkoma forsætisráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var gagnrýndur á Alþingi í dag fyrir óboðlega framkomu í samskiptum við Alþingi. Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna var meðal þeirra sem gagnrýndu hann og sagði hún að tónn forsætisráðherra í garð þingsins einkenndist á köflum af lítilsvirðingu og boðaði að hún myndi taka málið upp á vettvangi þingflokksformanna.

Einföld samskipti ráðherra um megn

Svandís kvað sér hljóðs í umræðum um störf þingsins til þess að ræða samskipti þingsins og framkvæmdavaldsins. „Mig langar í fyrsta lagi nefna ellefu daga hlé á fundum þingsins þar sem forsætisráðherra fékk það einfalda verkefni að ræða við forystumenn stjórnmálaflokkanna og það varð honum um megn. Og undir þrýstingi hér eftir að þingfundur hófst þá fékkst hann til þess að halda þann fund,“ sagði hún.

Vill ekki ræða SMS-styrki

Svandís gagnrýndi eins og fleiri þingmenn hversu illa gengi að fá forsætisráðherra til að taka þátt í sérstökum umræðum á þinginu sem hann vörðuðu. Sérstaklega var nefnt sem nýlegt dæmi þar um að hann hafi ekki orðið við beiðni um að taka þátt sérstökum umræðum um fjölda styrkja sem hann hefur veitt til verkefna á sviði menningarmála, svokallaðra “SMS-styrkja“.

„Nú er það svo að frá síðustu kosningum þá hafa verið allt að 45 sérstakar umræður og ein af þeim er umræða þar sem hæstvirtur forsætisráðherra hefur látið svo lítið að eiga við þingmenn,“ sagði Svandís og bætti við: „Það er ekki eins og ekki hafi verið tilefni til því mér sýnist að flestir þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafi lagt inn beiðni um sérstaka umræðu á hæstvirtan forsætisráðherra sem að viðkomandi hefur síðan eftir drjúga bið dregið til baka.“

Hæðir, spottar og lítilsvirðir þingið

„Þetta er fullkomlega óviðunandi að því er varðar samskipti framkvæmdarvaldsins við þingið,“ sagði Svandís og bætti við: „Og í samhengi við það hvernig tóninn er oftar en ekki af hendi forsætisráðherra í garð þingsins, sem er stundum spott og stundum háð, stundum lítilsvirðing, oft svarað úr og í, að þá finnst mér ástæða til þess virðurlegur forseti að við stöldrum við þetta í samskiptum þingsins við framkvæmdarvaldið“. Hún boðaði að lokum að hún myndi taka málið upp sérstaklega á vettvangi þingflokksformanna.