Posts

Sameiningaráform verði rædd í þingnefnd

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, óskaði í morgun eftir opnum fundi í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis til að ræða áform menntamálaráðherra um miklar sameiningar framhaldsskóla á Norðurlandi. Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið hefur menntamálaráðherra haft uppi áform um að sameina bæði Verkmenntaskólann á Akureyri og Framhaldsskólann á Laugum og Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Tröllaskaga og Framhaldsskólann á Húsavík.

Óskaði eftir opnum fundi til að ræða sameiningaráform menntamálaráðherra

Bjarkey gerði þessi mál að umtalsefni í störfum þingsins í fyrradag þar sem hún sagði m.a.: „Það er grafalvarlegt mál að hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson leyfi sér að fara þessa leið án þess að ræða það í þinginu eða við allsherjar- og menntamálanefnd,“ og bætti við: „Svona stefnumótandi ákvarðanir verðum við að ræða hér á þingi.“

Störf tapast í fjársveltum framhaldsskólum á landsbyggðinni

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók til máls á Alþingi í dag til að ræða niðurskurð í framhaldsskólum á landsbyggðinni.

Bjarkey benti á að á sama tíma og verið sé að ræða flutning heillar stofnunar út á land „sker Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður m.a. í framhaldsskólum landsins og fækkar þar með störfum.“ Bjarkey bætti við: „Þetta hefur mikil samfélagsleg áhrif þar sem skólanir á landsbyggðinni þurfa að hafa mikið fyrir tilvist sinni. Þeir halda nemendum í heimabyggð, það blómstrar menningarlífið, verslun og þjónusta styrkist og störfin verða til fyrir háskólamenntað fólk.“

„Landsbyggðarframhaldsskólarnir hafa líka haft þá sérstæðu að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið námstækifæri aftur,“ sagði Bjarkey og bætti við: „stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám t.d. með því að flytja í burtu eða fara í fjarnám.“ Bjarkey velti því líka upp hvernig stæði á þessum harkalega niðurskurði til landsbyggðarframhaldsskólanna: „Er undirrótin kannski sá að gera þessa litlu skóla smám saman óstarfhæfa til að það þurfi að sameina þá eða leggja þá af? Er það byggðastefna Sjálfstæðisflokksins?“

Framhaldsskólar landsbyggðanna og fjárlögin

Það er ekki að ástæðulausu að ég hef sagt að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vegna ársins 2015 sé landsbyggðarfjandsamlegt. Það er ótal margt sem hægt er að fjalla um í því sambandi og í raun merkilegt að Framsóknarflokkurinn, sem talar mikið um byggðastefnu, ákveður að taka heila stofnun og flytja út á land en á sama tíma sker Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður í framhaldsskólum landsins og fækkar með því störfum.

En hvað þýðir þetta í raun og veru.

Ég hef nærtækt dæmi úr minni heimabyggð þar sem hér er fjögurra ára gamall skóli Menntaskólinn á Tröllaskaga. Það var ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, með Katrínu Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra, sem hafði kjark í miðju Hruni árið 2010 og stofnaði Menntaskólann á Tröllaskaga.
Skólinn starfar eftir nýjum lögum um framhaldsskóla sem gefa aukið svigrúm í námsvali. Námið er metnaðarfullt með fjölbreyttum kennsluháttum sem er til þess fallið að virkja nemendur og auka sjálfstæði þeirra. Skólinn er líka hluti Fjarmenntaskólans sem er samstarf framhaldsskóla um list- og starfsnám. Rós í hnappagatið fékk skólinn á þessu ári þegar hann hlaut titilinn fyrirmyndarstofnun SFR.

Samfélagsleg áhrif

Eins og gefur að skilja breyttist nærsamfélagið mikið með tilkomu skólans og hefur hann vaxið mun hraðar en flestir áttu von á og í dag eru nemendur á þriðja hundraðið. Í stað þess að nemendur á hinum hefðbundna framhaldsskólaaldri hverfi úr samfélaginu eins og áður var, og oft á tíðum fjölskyldur þeirra með, nýtur samfélagið þess að hafa þá heima. Það hefur svo aftur áhrif á m.a. menningarlífið og verslun og þjónusta styrkist. Að ég tali nú ekki um fjölgun háskólamenntaðra starfsmanna sem annars hefðu síður átt hér tækifæri. Skólinn á mikið samstarf við fyrirtæki bæði innan og utan heimabyggðar sem hefur orðið til þess að nemendur sjá fleiri tækifæri til starfa að loknu námi á svæðinu.
En tilkoma Menntaskólans á Tröllaskaga hefur líka haft þau áhrif að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið tækifæri sem þeir annars hefðu ekki haft. Stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám aftur nema að flytja í burtu og það er ekki á allra færi né heldur er vilji til þess.

Niðurskurðarhnífurinn – byggðapólitíkst mál

En nú ætlar menntamálaráðherra að sækja að landsbyggðarskólunum, skera niður fjarnám og vísa eldri nemendum inn í símenntunarmiðstöðvar eða háskólabrýr. Þessi möguleiki hentar bara alls ekki öllum og er í öllu falli miklu kostnaðarsamari og fyrir marga ekki framkvæmanlegur vegna fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæðna.
En með því að taka þessa þætti frá litlu framhaldsskólunum er verið að veikja innviðina svo að námsúrvalið verður takmarkaðra þar sem 5 nemendur til eða frá geta skipt máli um hvort áfangi er kenndur eða ekki. Það þýðir svo fækkun kennara og lægra menntunarstig. Er undirrótin kannski sú að gera litlu skólana smá saman óstarfhæfa þannig að þeir verði lagðir af eða sameinaðir þeim stærri? Er það stefna Sjálfstæðisflokksins?

Látum raddir heyrast

Á sama tíma og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins segir ríkissjóð vera að rétta úr kútnum ákveður hann ásamt menntamálaráðherra að sækja að landsbyggðarskólunum. Er þetta byggðapólitík Sjálfstæðisflokksins?
Ég hvet alla en ekki síst sveitarstjórnarfólk, sérstaklega úr röðum ríkisstjórnarflokkanna, að láta í sér heyra og standa vörð um landsbyggðarskólanna. Þannig höldum við störfum í heimabyggð og nemendum og þeim sköpunarkrafti sem þeim fylgir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Þingmaður VG

Ráðalaus ríkisstjórn!

Allt virðist ætla að verða þessari ríkisstjórn að ógæfu. Það er eins og að hún sé ekkert í tengslum við almenning í landinu og ákvarðanatökur hennar lýsa skilngsleysi og skeitingarleysi á kjörum þess hluta þjóðarinnar sem þarf að hafa sig allan við til að ná endum saman. Auðveldara reynist henni að sýna samstöðu með þeim efnameiri og stórútgerðarfyrirtækjum landsins sem vafin eru í bómul og hlíft við samfélagslegri ábyrgð með því að greiða ekki sjálfsagða skatta og auðlindarrentu. Samráð virðist ekki vera til í hennar orðabók hvorki við stjórnarandstöðu,sveitarfélög né aðila vinnumarkaðarins.

Hvað skyldi nú vera innlegg ríkisstjórnarinnar í kjarasamningsviðræður sem framundan eru á almenna vinnumarkaðnum ? Jú það er hækkun á virðisaukaskatti á matvæli en láglaunafólk ver stórum hluta tekna sinna í matarinnkaup. Þá er það hækkun virðisaukaskatts á rafmagn og heitt vatn sem leggst þungt á svokölluð köld svæði sem oftar en ekki eru láglaunasvæði.

Bótatímabil atvinnuleysisbóta er stytt úr 3 árum í 2,5 ár og stórlega dregið úr framlögum til vinnumarkaðsmála og nokkrum útibúum Vinnumálastofnunar er lokað út um land. Hvert á þetta fólk að fara segja sig á sveitina ? Framlög til framhalds og vinnumarkaðsfræðslu í gegnum Vinnustaðanámssjóð eru skorin niður sem og námstækifæri fyrir atvinnuleitendur.

Framhaldsskólunum er ekki gert kleift að taka við eldri nemendum sem hafa hafið nám að nýju í gegnum ýmis úrræði eins og „Nám er vinnandi vegur“. Möguleikar fólks á vinnumarkaði til að sækja nám í framhaldsskólum eru þar með skertir mikið og framlag til framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun er skert mikið. Símenntunarstöðvar eru skornar niður við trog. Er það ekki þjóðfélagslega hagkvæmt að fólk hafi tækifæri til að afla sér menntunar á öllum aldri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðnum í framhaldinu ? Ég hefði haldið það.

Áfram eru boðaðar álögur á sjúklinga með mikilli hækkun á lyfja og lækniskostnaði. Ekkert bólar á byggingu nýs Landspítala þó þörfin sé brýn og uppsagnir og flótti heilbrigðisstétta haldi áfram ef ekkert verður aðgert.

Tillögur Vinstri grænna um að fjármagna byggingu nýs Landspítala með auðlegðarskatti liggja fyrir og ríkisstjórnin hefur það í hendi sér hvort þjóðin fái nýjan Landspítala sem þjónar nútímakröfum um hátækni og góða aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrgði lífeyrissjóða er skert um 20 % á ári næstu fimm árum. Þetta mun koma mjög illa við þá sjóði sem hafa mikla örorkubyrgði og mun skerða lífeyrisréttindi þessara sjóðfélaga mikið til framtíðar.

Stjórnvöld ákveða einhliða án nokkurs samráðs að falla frá þríhliða samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um fjármögnun á Virk starfsendurhæfingarsjóði sem skerða mun möguleika fólks sem lent hefur í alvarlegum slysum eða veikindum á að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ekki er gert ráð fyrir neinum auknum fjármunum til að mæta mikilli þörf fyrir úrbætur í húsnæðismálum, hvorki í almenna húsnæðiskerfinu eða félagslega kerfinu.

Einhverjum þætti þessi listi Ríkisstjórnarinnar sem innlegg inn í komandi kjarasamningsviðræður vera mikill eldiviður í harðar deilur á vinnumarkaðnum .

Samt er þetta ekki tæmandi listi í þeirri aðför að launafólki sem birtist í fjárlögum fyrir árið 2015.
Á sama tíma velur hún að lækka skatta á eigna og hátekjufólk og afsala sér tekjum af stórútgerðinni í veiðigjöldum.

Hvað gengur Ríkisstjórninni til vill hún rífa í sundur alla sátt í landinu um að eftir erfiðan niðurskurð í kjölfar Hrunsins eigi viðsnúningur í efnahags og atvinnulífi þjóðarinnar að sjálfsögðu að koma almennu launafólki til góða og nýtast til uppbyggingar í heilbrigðis,velferðar og menntakerfinu.

Þessi Ríkisstjórn er á hættulegri vegferð og við Vinstri græn munum beita okkur að fullum krafti við að koma í veg fyrir þá eyðileggingar starfsemi sem hér er á ferðinni.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþimgismaður VG

Ráðherra tregur til svara

Katrínu Jakobsdóttur þingkonu Vinstri grænna gekk illa að fá svör frá Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra um málefni framhaldsskóla landsins á Alþingi í dag. Katrín spurði hann um kjaramál framhaldsskólakennara, boðaða stefnumótun ráðherrans og aðkomu kennara að henni.

Þrjár spurningar um menntapólitík

Katrín lýsti yfir áhyggjum af því að næstkomandi mánudag gæti skollið á verkfall framhaldsskólakennara sem hefur áhrif á hátt í tuttuguþúsund framhaldsskólanemendur. Hún sagði hún væri meðvituð um að menntamálaráðherra hefði ekki kjaraviðræðurnar á sínu forræði því vildi hún þess í stað spyrja hann þriggja spurninga er vörðuðu menntapólitík og tengdust kjaraviðræðunum.

„Menntamálaráðherra hefur sagt að í raun sé ekkert í boði umfram almennar launhækkanir á vinnumarkaði, nema framhaldsskólinn verði styttur með kerfisbreytingu,“ sagði Katrín og benti á að efir honum hafi verið haft „að hægt væri að nýta styttinguna til að búa til launahækkunarmöguleika“. Í framhaldi spurði Katrín Illuga, í fyrsta lagi, hvort „launahækkunarmöguleikinn“ fælist í því að fækka kennurum og hækka laun þeirra sem eftir sitja? Í öðru lagi spurði hún hvort hann telji framhaldsskólakennara hafa setið eftir í launaþróun miðað við aðra hópa með sambærilega menntun. Í þriðja lagi spurði Katrín hvort margboðuð stefnumótun ráðherrans í málefnum framhaldsskólans, svonefnd hvítbók, væri tilbúin og hvort fulltrúar Kennarasambandsins hefðu fengið að taka þátt í henni?

Engin eða óljós svör frá ráðherra

Illugi sagðist ekki gæta rætt kjarasamninga í þingsal en tók undir áhyggjur Katrínar af verkfalli. Spurningum hennar svaraði hann hins vegar ekki eða með óskýrum hætti. Katrín ítrekaði þá að hún hefði beðið Illuga um að ræða inntak kjarasamninga og sagði hann hafa komið sér algjörlega hjá því að svara spurningum sínum. „Þó að kjarasamningar séu ekki viðfangsefni hér á Alþingi þá er menntapólitík viðfangsefni. Lagabreytingar á framhaldsskólanum eru viðfangsefni. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að við fáum hér skýr svör frá hæstvirtum ráðherra,“ sagði hún.
Síðari svör Illuga voru litlu skýrari. Hann sagði hvítbókina vera skrifaða að starfsmönnum ráðuneytisins og að samráð færi fram eftir að hún hefur verið kynnt, en af því má ráða að ekkert samráð hafi farið fram við kennara.