Posts

Í sýnd og reynd

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að vandað sé til verka í fjárlagavinnu hvers árs, enda ákvarða fjárlögin í raun meginstefnu stjórnvalda í öllum helstu málaflokkum. Fjárlögin hljóta að eiga að byggjast á vandaðri stefnumótun og löggjöf Alþingis í ólíkum málaflokkum. Því miður hefur skort talsvert upp á þetta í fjárlagavinnu þessa árs.

Munur á sýnd og reynd

Í ýmsum veigamiklum málum liggur fyrir yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar en henni er því miður ekki fylgt eftir með fjárveitingum á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Sama má segja um gildandi löggjöf þar sem fjárveitingar fylgja ekki lögbundnum skyldum. Ekki er greitt með fimm hundruð nemendaígildum í Háskóla Íslands á næsta ári þó að engin stefna hafi verið mörkuð um annað en að skólinn eigi að taka á móti öllum sem uppfylla inntökuskilyrði. Landspítala-Háskólasjúkrahúsi er gert að henda út verkefnum því að sjúkrahúsið fær ekki nægilegt fé til að sinna öllu því sem honum er ætlað að sinna. Ríkisútvarpið fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín og getur því ekki sinnt því hlutverki sem því er markað á nýlegri löggjöf frá 2013.

Þá má nefna að ríkisstjórnin starfar eftir svokallaðri aðgerðaáætlun um loftslagsmál, sem er mikilvægt tæki til að takast á við eitt mikilvægasta úrlausnarefni okkar samtíðar. Í áætluninni er meðal annars kveðið á um að efla skuli almenningssamgöngur en samt eru þær skornar niður í fjárlagafrumvarpinu. Í þróunarsamvinnuáætlun sem samþykkt var á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum nema einu en samkvæmt henni áttu framlög Íslands að nema 0,35% af VÞT árið 2015, en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta hlutfalli lækki og verði aðeins 0,22%. Þetta er ekki heldur í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem sagt er að lögð verði áhersla á þróunarsamvinnu í utanríkismálum.

Innviðir grotna niður

Það er líka sérstakt áhyggjuefni hvernig fjárlagafrumvarpið grefur undan áætlun um uppbyggingu innviða samfélagsins sem almenn samstaða hefur verið um. Síðastliðið vor var lögð fram á Alþingi samgönguáætlun til fjögurra ára en hún er skorin niður um rúma þrjá milljarða króna í fjárlagafrumvarpinu. Fram hefur komið í fréttum að af þessum sökum telji vegamálastjóri að engin ný stór verkefni verði boðin út í vegagerð á næsta ári. Enn alvarlegra er að ekkert bólar á fjármunum til að byggja nýjan Landspítala, en þingsályktun þess efnis var samþykkt á Alþingi síðastliðið vor með öllum greiddum atkvæðum. Eins og flestir vita þolir endurnýjun húsnæðis LSH enga bið.

Matarskattsleikrit

Að lokum verður að nefna matarskattsleikritið sem almenningur fær núna að fylgjast með og minnir einmitt á einhvers konar sýndarveruleika. Í fjárlagafrumvarpinu sem dreift var í upphafi vetrar er kveðið á um að virðisaukaskattur á mat og menningu verði hækkaður úr 7% í 11%. Í glærukynningu fjármálaráðuneytisins um sama efni var síðari talan hins vegar sögð vera 12% í stað 11%. Gefin var út yfirlýsing í framhaldinu þar sem glærusýningin var sögð gilda en ekki þær upplýsingar sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Nú í gær bárust hins vegar þær fregnir að virðisaukaskatturinn yrði eftir allt hækkaður í 11% en ekki tólf.

Ef þetta verður raunin hlýtur maður að spyrja hvort hér hafi verið sett á svið leikrit til að ríkisstjórnarflokkarnir geti stært sig af því að hafa komið til móts við kröfur almennings í landinu þegar raunin er að gert var ráð fyrir hækkun í 11% allt frá upphafi. Að þessu spurði ég í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra nú í september og það væri nú dapurlegt ef rétt reyndist. Það er að minnsta kosti ekki til marks um traust vinnubrögð í þessu stærsta máli hverrar ríkisstjórnar, fremur en önnur þau dæmi sem ég hef hér nefnt.

Katrín Jakobsdóttir

Hugmyndir sem ekki standast

Formaður ráðgjafaráðs Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, Ragnar Árnason, birti grein undir yfirskriftinni „Samfélagsleg skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga“ í nýjasta tölublaði Hjálmars, blaðs hagfræðinema við Háskóla Íslands. Hann leggur þar út af þeirri reglu að rétt verð sé lykilatriði innan hagfræðinnar og því eigi að gjalda varhug við opinberum niðurgreiðslum á kostnaði og segir að það skjóti því skökku við „þegar stórkostlegar niðurgreiðslur á heilbrigðisþjónustunni, sem er mjög veigamikill þáttur í framleiðslu og neyslu samfélagsins, eru ekki aðeins látnar með öllu afskiptalausar í þessari baráttu fyrir hagkvæmni heldur gerðar að samfélagslegri dyggð.“ Niðurstaða Ragnars er að „opinberar heilbrigðistryggingar rýra hag meðalmannsins í samfélaginu og þar með samfélagsins í heild“.

Niðurstaða Ragnars að hagur meðalmannsins sé mælikvarði á hag samfélagsins stenst ekki og endurspeglar fyrst og fremst ákveðna pólitíska sýn um að ekki séu til séu almannagæði sem allir eigi tilkall til. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun en ekki hagfræðilegt reikningsdæmi hvort hér sé samfélag þar sem allir, ekki aðeins meðalmenn og hinir efnaðri, geta sótt sér heilbrigðisþjónustu og menntun. Almannagæði eru ekki aðeins náttúruauðlindir heldur líka gæði á borð við heilbrigðisþjónustu og menntakerfi sem samfélagið hefur skapað á þeim grundvelli að allir fái tækifæri til að lifa með reisn.

Ef við samþykkjum að það sé hagur samfélagsins að allir fái slík tækifæri þá skiptir líka máli að kerfið sem við höfum byggt upp hér er félagslegt heilbrigðiskerfi. Kostnaður félagslegra heilbrigðiskerfa er minni en skyldutryggingakerfa eins og t.d. í Frakklandi og Þýskalandi en langdýrust fyrir samfélagið eru einkarekstrarkerfi á borð við hið tvöfalda kerfi Bandaríkjanna. Við þetta bætist að félagsleg heilbrigðiskerfi eru skilvirkust og árangursríkust þegar við metum lýðheilsuárangur á móti kostnaði (og er þá átt við ævilengd, ótímabær dauðsföll, ungbarnadauða o.fl.).

Það er verulegt áhyggjuefni að helsti ráðgjafi fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins boði slíka stefnu dulbúna sem hagfræði og dragi af henni ályktanir sem ekki standast. Ráðherra hefur sjálfur ekki tekið undir þessa speki en í máli hans á Alþingi í gær kom fram að hann væri sérstakur áhugamaður um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þannig að það er ljóst að ríkisstjórnin stefnir í átt til aukinnar einkavæðingar á grunnþjónustu samfélagsins.