Posts

Illugi hvað ertu eiginlega að hugsa?

Við Vinstri græn höfum mikið rætt á þingi um starfshætti menntamálaráðherra í hinum ýmsu málum. Ég ætla hér í þessum greinarstúf að byrja á umfjöllun um framhaldsskólana en þar hefur stefnumörkun m.a. stytting náms til stúdentsprófs helst farið fram í gegnum fjárlög. Það er ekki nóg að gefa út Hvítbók, ferðast um landið og kynna eigin hugmyndir og halda að þá sé málið útrætt slík stefnumörkun á að sjálfsögðu líka að fara í skólunum og í þinginu.

Framhaldsskólar landsins hafa unnið hörðum höndum að því að skila inn tillögum að 3 ára námsskrám og eitt af því sem vekur mikla undrun hjá mörgum er að íþróttakennsla leggst nánast niður svo lítil á hún að verða. Nú hefur það verið svo að framhaldsskólar hafa keppst við að vera virkir þátttakendur í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem menntamálaráðuneytið stendur að ásamt velferðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra framhaldsskólanemenda. Því hafa fylgt margar góðar breytingar bæði í mötuneytum skólanna og einnig hefur líkams- og heilsurækt nemenda aukist til muna. Rannsóknir sýna að líkamleg virkni eykur einbeitingu og styrkir nemendur í námi. Þetta eru árin sem styðja þarf með öllum ráðum við ungmenni þannig að þau verði meðvituð og ábyrg fyrir eigin heilsu og velferð. Því er það óskiljanlegt að menntamálaráðherra skuli stefna ótrauður að því að skerða líkams- og heilsuræktarkennslu úr 8 einingum í 2. Hver eru faglegu sjónarmiðin þar að baki? Illugi Gunnarsson þarf að svara því að á sama tíma og hann leggur til slíka skerðingu þá leggja alþjóða heilbrigðisstofnanir áherslu á daglega hreyfingu ungmenna.
Aukin kyrrseta ungs fólks eykur líkurnar á lífsstílstengdum sjúkdómum og þegar við hlustum á heilbrigðisráðherra leggja til notkun hreyfiseðla sem meðferðarúrræði þá velti ég því fyrir mér hvort þeir flokksfélagar tali ekki saman um svo mikilvægt mál.

Á bak við tjöldin

En það er fleira sem Illugi menntamálaráðherra stefnir einbeittur að og það eru sameiningar framhaldsskóla. Sem landsbyggðakona þá hef ég af því miklar áhyggjur enda skipta framhaldsskólar miklu máli í hinum dreifðu byggðum að svo mörgu leiti. Þeir skapa störf og auka tækifæri til nýsköpunar og samvinnu við atvinnulífið á stöðunum. Samvinna í málefnum framhaldsskóla virðist ekki hugnast ráðherranum og má þar t.d. nefna Fjarmenntaskólann en þar tóku 12 landsbyggðaskólar sig saman og bjuggu til samstarfsvettvang sem gerir þeim m.a. kleyft að halda úti fleiri áföngum en ella. Þessu fylgir hagræði og sparnaður sem ráðherrann ætti að kynna sér betur. Ég hef miklar áhyggjur af því að skólarnir verði „sveltir“ til hlýðni og ekki verði hlustað á raddir heimamanna og þeirra sem fara fyrir skólunum heldur sameini Illugi eins og hann vill sem óhjákvæmilega yrði til þess að sérstaða þeirra hverfur. Ráðherrann þarf að svara því hreint út hvort og þá hvaða skóla hann hyggst sameina á landsbyggðinni og færa fyrir því fagleg og ásættanleg rök.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
þingmaður Vinstri grænna

Illugi hvað ertu eiginlega að hugsa?

Við Vinstri græn höfum mikið rætt á þingi um starfshætti menntamálaráðherra í hinum ýmsu málum. Ég ætla hér í þessum greinarstúf að byrja á umfjöllun um framhaldsskólana en þar hefur stefnumörkun m.a. stytting náms til stúdentsprófs helst farið fram í gegnum fjárlög. Það er ekki nóg að gefa út Hvítbók, ferðast um landið og kynna eigin hugmyndir og halda að þá sé málið útrætt slík stefnumörkun á að sjálfsögðu líka að fara í skólunum og í þinginu.

Framhaldsskólar landsins hafa unnið hörðum höndum að því að skila inn tillögum að 3 ára námsskrám og eitt af því sem vekur mikla undrun hjá mörgum er að íþróttakennsla leggst nánast niður svo lítil á hún að verða. Nú hefur það verið svo að framhaldsskólar hafa keppst við að vera virkir þátttakendur í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem menntamálaráðuneytið stendur að ásamt velferðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra framhaldsskólanemenda. Því hafa fylgt margar góðar breytingar bæði í mötuneytum skólanna og einnig hefur líkams- og heilsurækt nemenda aukist til muna. Rannsóknir sýna að líkamleg virkni eykur einbeitingu og styrkir nemendur í námi. Þetta eru árin sem styðja þarf með öllum ráðum við ungmenni þannig að þau verði meðvituð og ábyrg fyrir eigin heilsu og velferð. Því er það óskiljanlegt að menntamálaráðherra skuli stefna ótrauður að því að skerða líkams- og heilsuræktarkennslu úr 8 einingum í 2.

Hver eru faglegu sjónarmiðin þar að baki? Illugi Gunnarsson þarf að svara því að á sama tíma og hann leggur til slíka skerðingu þá leggja alþjóða heilbrigðisstofnanir áherslu á daglega hreyfingu ungmenna.
Aukin kyrrseta ungs fólks eykur líkurnar á lífsstílstengdum sjúkdómum og þegar við hlustum á heilbrigðisráðherra leggja til notkun hreyfiseðla sem meðferðarúrræði þá velti ég því fyrir mér hvort þeir flokksfélagar tali ekki saman um svo mikilvægt mál.

Á bak við tjöldin

En það er fleira sem Illugi menntamálaráðherra stefnir einbeittur að og það eru sameiningar framhaldsskóla. Sem landsbyggðakona þá hef ég af því miklar áhyggjur enda skipta framhaldsskólar miklu máli í hinum dreifðu byggðum að svo mörgu leiti. Þeir skapa störf og auka tækifæri til nýsköpunar og samvinnu við atvinnulífið á stöðunum. Samvinna í málefnum framhaldsskóla virðist ekki hugnast ráðherranum og má þar t.d. nefna Fjarmenntaskólann en þar tóku 12 landsbyggðaskólar sig saman og bjuggu til samstarfsvettvang sem gerir þeim m.a. kleyft að halda úti fleiri áföngum en ella. Þessu fylgir hagræði og sparnaður sem ráðherrann ætti að kynna sér betur. Ég hef miklar áhyggjur af því að skólarnir verði „sveltir“ til hlýðni og ekki verði hlustað á raddir heimamanna og þeirra sem fara fyrir skólunum heldur sameini Illugi eins og hann vill sem óhjákvæmilega yrði til þess að sérstaða þeirra hverfur. Ráðherrann þarf að svara því hreint út hvort og þá hvaða skóla hann hyggst sameina á landsbyggðinni og færa fyrir því fagleg og ásættanleg rök.

Í hverju fólst ráðgjöf Illuga?

Á dögunum var Illugi Gunnarsson á ferð í Kína ásamt fulltrúum fyrirtækisins Orka Energy en svo vill til að hann var einmitt á launum við ráðgjöf hjá því fyrirtæki meðan hann var utan þings á síðasta kjörtímabili. Fyrirtækið vinnur að orkutengdum verkefnum í Asíu og átti fund með ráðherranum meðan á dvöl hans í Kína stóð. Ráðherrann þarf nú að svara því í hverju ráðgjöf hans fólst við fyrirtækið. Hvaða ráð seldi hann Orku Energy? Hvað kostuðu þau ráð og hefur fyrirtækið farið að þeim? Voru þau ráð til umræðu á fundinum með ráðherranum/ráðgjafanum á fundinum í Kína? Hver átti frumkvæði að því að Orka Energy kæmi með í ferðina? Þessum spurningum þarf að svara. Illugi Gunnarsson er í vinnu hjá almenningi sem á rétt á svörum án undanbragða.

Katrín þrýsti á um aðgerðir til fjölmiðlafrelsis

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og fyrrverandi menntamálaráðherra, tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi til að ræða úttekt Fréttamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi á Íslandi þar sem lýst er áhyggjum af stöðu upplýsingafrelsis á Íslandi. „Nefnd eru dæmi þar sem stjórnmálamenn, þ. á m. háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar hafa gagnrýnt Ríkisútvarpið fyrir að vera of hallt undir Evrópusambandið og vinstristefnu, neitað að veita viðtöl nema með skilyrðum og sett þetta í samhengi við fjárveitingar til stofnunarinnar,“ sagði Katrín og bætti við að búið væri að skera verulega niður til stofnunarinnar undanfarin ár með skerðingu á útvarpsgjaldinu. „Tekið er sérstaklega fram að dregið hafi umtalsvert úr upplýsingafrelsi á síðustu tveimur árum – nokkurn veginn síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum.“

Katrín spurði menntamálaráðherra um viðbrögð hans við úttektinni „og hvort hann telji ástæðu til þess í fyrsta lagi að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins sem enn og aftur fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín?“ Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra svaraði því til að verið sé að skoða fjármögnun Ríkisútvapsins „og væntanlega mun þá það birtast hér í meðförum þingsins á fjárlagafrumvarpinu“.

Katrín spurði einnig „hvort hæstvirtur ráðherra telji ekki að styrkja þurfi stöðu fjölmiðlanefndar sem núverandi stjórnarmeirihluti skar svo rækilega niður í síðustu fjárlögum að hún hefur engan veginn bolmagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem skilgreint er í fjölmiðlalögum?“ Menntamálaráðherra sagðist ekki hafa neinar tillögur um að auka aftur fjármagn til fjölmiðlanefndar.

Í seinni ræðu seinni spurði Katrín hvort ekki væri ástæða til að fara vel yfir fjölmiðlaumhverfi á Íslandi í ljósi stöðunnar sem uppi er, m.a. út frá nýlegum dómi mannréttindadómstóls Evrópu í máli Erlu Hlynsdóttur. Menntamálaráðherra svaraði ekki fyrirspurninni en benti þess í stað aftur á bágu fjárhagsstöðu Rúv sem hann sagði að „hlyti að kalla á endurskoðun“.

Katrín Jakobsdóttir lagði á dögunum fram frumvarp sem kvað á um að útvarpsgjald skyldi renna óskipt til Ríkisútvarpsins og ekki skerðast ár frá ári eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum sem sett voru í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Rætt um tónlistarmenntun á Alþingi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og fyrrverandi menntamálaráðherra, hóf í dag sérstaka umræðu um málefni tónlistarmenntunar.

Katrín hóf mál sitt á því að vísa til verkfalls tónlistarkennara og slæmrar fjárhagsstöðu margra tónlistarskóla. „Þegar kemur að stöðu skólanna þá er gjarnan vitnað til samkomulags sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga vorið 2011 þar sem ríkið ákvað eftir langar viðræður að koma að eflingu tónlistarnáms með því að taka þátt í að styrkja tónlistarnám á framhaldsstigi.“ Benti Katrín á að með samkomulaginu hafi komið til 250 milljón króna aukaframlag ríkisins til tónlistarskólanna en að því hafi fylgt loforð um að lagt yrði fram nýtt frumvarp til laga um tónlistarmenntun í framhaldinu. „Fyrstu drögin að þessu frumvarpi var skilað vorið 2013,“ sagði Katrín og spurði ráðherra að lokum: „Hvar stendur vinna við frumvarp til laga um tónlistarnám?“

Eftir að Katrín hafði ítrekað spurningu sína í seinni ræðu sinni sagðist Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra gera sér væntingar um að frumvarp til nýrra laga um tónlistarmenntun kæmi fram á vorþingi. Katrín spurði einnig um hvort efni samkomulagsins um tónlistarmenntun hafi verið endurskoðað en því svaraði menntamálaráðherra neitandi og sagðist Illugi sammála þeirri nálgun fyrri ráðherra um að gerður sé greinarmunur á tónlistarnámi á framhaldsstigi og öðru tónlistarnámi í ljósi þess að nemendur á framhaldsstigi sé að undirbúa starfsferil í tónlist.

Frelsið orðið að undanþágu

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sent skólameisturum framhaldsskóla bréf um að áhersla verði lögð á að stytta námsbrautir í þrjú ár. Ráðherrann hefur ennfremur látið hafa eftir sér að eitt verði yfir alla að ganga og skólar sem hafa skipulagt nám sitt út frá fjögurra ára námsbrautum fái engar „undanþágur“ enda sé búið að ákveða að framhaldsskólinn verði til þriggja ára.

Þetta gengur þvert á þá stefnu að skólar skuli hafa svigrúm til að móta sér sína sérstöðu en sú stefna var staðfest með lögum árið 2008 í tíð flokkssystur Illuga, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Raunar var lögunum beinlínis fylgt úr hlaði með þeim orðum að hér væri dregið úr miðstýringu, skólarnir myndu sjálfir skipuleggja sínar námsbrautir og skilgreina inntak stúdentsprófs og annarra prófa; enginn einingafjöldi var skilgreindur sem inntak stúdentsprófs og fjölbreytni var fagnað.

Ný aðalnámskrá sem kom út 2011 endurspeglar þetta sjálfstæði skóla. Á svipuðum tíma var sett tiltekið einingalágmark en skólum að öðru leyti falið að útfæra námsbrautir sem þeir hafa síðan gert hver af öðrum.

Nú kveður við nýjan tón. Farin er leið miðstýringar og skyndilega talað um undanþágur – þegar markmið laganna var einmitt fjölbreytni og því aldrei um að ræða að skólar fengju undanþágur heldur að þeir hefðu frelsi til að vera mismunandi. Þannig þyrftu nemendur ekki allir að velja sams konar leiðir.

Frelsið sem hinn nýi Sjálfstæðisflokkur predikar er frelsi fyrir hina fáu. Frelsi hinna fáu til að veiða fiskinn í sjónum, selja áfengi í sínum verslunum eða taka yfir rekstur almannaþjónustu og græða á henni en þegar illa gengur snúa aftur til ríkisins. Það frelsi er ekki frelsi einstaklingsins eða frelsi fagfólks til að byggja upp fjölbreytt skólastarf eins og ætlunin var með lögunum. Þegar til kastanna kemur snýst skólastefna flokksins um miðstýringu og valdboð þar sem engin virðing er borin fyrir gæðum menntunar og góðu skólastarfi um allt land. Kannski ekki að undra að hinn nýi Sjálfstæðisflokkur hafi hrapað í fylgi.

Framlög til Vinnustaðanámssjóðs falla niður þrátt fyrir fækkun í verknámi

Bjarkey Gunnarsdóttir hóf sérstaka umræðu um stöðu verknáms á Alþingi í dag og gerði sérstaklega að umtalsefni að framlög til Vinnustaðanámssjóðs falla niður samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015.

Í ræðu Bjarkeyjar kom fram að þeim nemendum sem ljúka sveinsprófi hefur fækkað undanfarið og fjöldi nemenda á iðnnámsbrautum í framhaldsskólunum hefur dregist saman. Bjarkey benti á þessu sambandi á mikilvægi Vinnustaðanámssjóðs, en hlutverk þess er að veita styrki til fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar tengdu framhaldsskólanámi. Þá benti hún á að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fallar niður öll framlög til sjóðsins: „Nú ætlar hæstvirtur ráðherra að leggja þennan sjóð niður og lítur á þetta sem tímabundna aðgerð, en það er alveg ljóst af málinu þegar það var samþykkt að það var ekki hugsað þannig,“ sagði Bjarkey.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra svaraði því ekki hvernig skuli tryggja aðgang að verknámi án framlaga til Vinnustaðanámssjóðs en ítrekaði að ekki stæði til að takmarka aðgang að verknámi. Í seinni ræðu sinni sagði Bjarkey á móti: „Hæstvirtur ráðherra neitar því að einhver þurfi að víkja af því að hann ætlar ekki að takmarka verknámið. Það bara stenst ekki miðað við þær tölur sem fyrir liggja í fjárlagafrumvarpinu.“ Bjarkey endaði ræðu sína á því að hvetja ráðherra til að „setja fjármagn aftur í þennan sjóð því hann styrkir þetta nám sem við öll tölum svo vel um á tyllidögum.“

Óvissa um framtíð Hvanneyrar óþolandi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði menntamálaráðherra út í stöðu mála í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag. Katrín benti á að eftir uppsagnir tíu starfsmanna í vikunni vegna niðurskurðar í fjárlögum séu starfsmenn orðnir helmingi færri en þegar skólinn var sameinaður á sínum tíma. Katrín setti þessa þróun í samhengi við flutning starfa út á land: „Auðvitað stingur það mann í augun að horfa á sama tíma á önnur ráðuneyti lofa hér miklum fjármunum til að flytja störf fyrir háskólamenntaða starfsmenn út á land, á meðan þessi starfsemi virðist ætla að leysast upp.”

Í svari sínu vakti Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, athygli á slæmri fjárhagsstöðu skólans og sagðist hafa „lagt á það ríka kröfu að það yrði staðið við fjárlögin.“ Illugi taldi að það væri ekki pólitískur meirihluti fyrir sameiningu Landbúnaðarháskólans og Háskóla Íslands og vilji meirihlutans birtist í fjárlögum. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa gefið þá hugmynd upp á bátinn. Á móti spurði Katrín hvort pólitískur meirihluti væri fyrir því á Alþingi að starfseminni á Hvanneyri blæddi út. Katrín benti ennfremur á að það væri á ábyrgð Alþingis að standa undir þessum hluta rannsókna- og vísindastarfsemi í landinu.