Posts

Þingfréttir – 40% misskilningur, flygildi og brennivín

Gleðilegan laugardag kæru félagar,

Vikan í þinginu hófst á því að Katrín spurði forsætisráðherra um yfirlýsingu hans á leiðtogafundi SÞ um markmið Íslands í losun gróðurhúsalofttegunda um 40%. Drógu bæði aðstoðarmaður og umhverfisráðherra síðar í land með yfirlýsingu Sigmundar. Katrín lagði því áherslu á mikilvægi þess að forsætisráðherra segði frá því með skýrum hætti hvernig þessi fyrirætlan væri hugsuð.

Sama dag spurði Katrín innanríkisráðherra um hvort setja eigi almenna löggjöf eða reglur um notkun dróna, eða flygilda eins og þetta tænkiundur er nefnt, hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum í atvinnulífinu. Vísaði Katrín til Frakklands, Þýskalands og Svíþjóðar þar sem skýrar reglur eru um noktun flygilda.

Svandís sendi inn fyrirspurn til munnlegs svars til sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra um dýravernd og verður fyrirspurnin tekin fyrir vonandi sem fyrst.

Umræða um hæfnispróf í framhaldsskólum fór einnig fram í vikunni að frumkvæði Svandísar sem hafði sent til menntamálaráðherra fyrirspurn til munnlegs svars um málið.

Í störfum þingsins á þriðjudag vakti Lilja Rafney athygli á umdeildri ákvörðun Rannsóknarnefndar sjóslysa vegna hörmulegs sjóslyss í sumar þegar báturinn Jón Hákon BA sökk. Rannsóknarnefndin hefur ákveðið að ná ekki bátnum upp af hafsbotni en samtök sjómanna hafa harmað ákvörðunina. Undir þá gagnrýni tekur Lilja Rafney.

Stöðugleikaframlögin voru rædd á þinginu í gær þegar forsætisráðherra skundaði í þinghús og í óundirbúnar fyrirspurnir með stuttum fyrirvara. Katrín notaði tækifærið og benti á að stöðugleikaframlögin virðast minnka með hverjum degi skv. fréttum. Upphaflegu 450-500 milljarðarnir sem boðaðir voru séu komnir niður í um það bil 300 milljarða. Erfitt reynist að fá fullnægjandi upplýsingar í efnahags- og viðskiptanefnd og því þurfi forsætisráðherra að fara yfir stöðuna enda um gríðarstórt hagsmunamál almennings sé að ræða.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að mikið hefur verið rætt um brennivín síðustu daga, enda lagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, loks fram frumvarp sitt í gær um brennivínssölu í verslanir og fór fyrsta umræða fram á þinginu í kjölfarið. Framsóknarfólk er á móti frumvarpinu sem og okkar fólk og aðrir stjórnarandstöðuliðar. Ögmundur vakti athygli á lýðheilsusjónarmiðunum, samþykktum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem leggst gegn smásölu á áfengi og umsögnum landlæknisembættisins og samtaka um vímuefnamál og æsklýðsmál um frumvarpið. Ögmundur kallaði líka réttilega eftir viðveru og skoðun heilbrigðisráðherra og samflokksmanns Vilhjálms í málinu

Ögmundur tókst svo á við Vilhjálm um málið í Síðdegisútvarpi Bylgjunnar á fimmtudag

Það gerði Bjarkey líka í Morgunvakt Ríkisútvarpsins klukkan hálfátta á föstudegi

Bjarkey sendi líka inn fyrirspurn á Illuga Gunnarsson um fjárhagsleg tengsl hans við Orku Energy. Spurningar hennar eru kristalskýrar og ættu að hjálpa ráðherranum að gera almennilega grein fyrir þessum tengslum. Vonast er til að hann svari Bjarkey ekki í Fréttablaðinu heldur í þingsal.

Steinunn Þóra fékk svör í vikunni við fyrirspurn sinni til félags og húsnæðismálaráðherra um endurgreiðslukröfurkröfur

Fæðingarorlofssjóð  og spurðist líka fyrir um aðgengisstefnu ríkisins að opinberum byggingum

Hún vippaði sér svo í Harmageddon á X-inu og lét þar gamminn geisa um að prestar hætti að fá leyfi til að gifta fólk og flutt til borgaralegra starfsmanna.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður, settist í fyrsta sinn á þing í vikunni í fjarveru Steingríms. Ingibjörg talaði m.a. um nauðsyn þess að jafna fluggjaldakostnað á landinu og kynjafræðslu á öllum skólastigum. Ingibjörg situr áfram á þinginu næstu viku.

Góða helgi !

,

Ingibjörg tekur sæti á Alþingi

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, sem tók sæti á Alþingi í gær í fjarveru Steingríms J. Sigfússonar, flutti jómfrúarræðu sína undir störfum þingsins í dag.

„Leiðin að jafnrétti kynjanna hlýtur að liggja í gegnum menntun og fræðslu. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist er enn töluvert í land. Það sjáum við á launamun kynjanna, kynjaskekkju, t.d. í ríkisstjórninni, í Hæstarétti og í stjórnum fyrirtækja og svo mætti lengi telja. Ef við ætlum að ná fram raunverulegu jafnrétti í þessu samfélagi ættum við að vera með markvissa jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og ekki síst í framhaldsskólum.“

Jafnframt skoraði Ingibjörg á menntamálaráðherra að gera kynjafræði að skyldufagi á öllum brautum framhaldsskólanna.

#þIngibjörg