Posts

Með jöfnuð að leiðarljósi

Síðastliðið ár var viðburðaríkt á alþjóðavísu. Nægir þar að nefna flóttamannastrauminn og loftslagsbreytingar sem við sjáum þegar merki um í veðurfari og umræðu um þessi risavöxnu viðfangsefni.

Ójöfnuður er iðulega ein undirrót stríðsátaka sem valda því að fólk flýr heimili sín og leitar að friðsamlegra umhverfi. Öll gögn sýna að gríðarlegur ójöfnuður er milli heimshluta en líka innan einstakra landa. Ójöfnuðurinn veldur átökum og valdabaráttu.

Ójöfnuður kemur líka við sögu þegar rætt er um loftslagsbreytingar en fátækari þjóðir hafa mun síðri möguleika en ríkari svæði á að takast á við afleiðingar þeirra. Eigi að síður er það svo að fátækustu þjóðirnar bera einna minnsta ábyrgð á loftslagsbreytingum þótt afleiðingarnar skelli á þeim af fullum þunga.

Alþjóðastofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa um nokkurra ára skeið bent á ójöfnuð sem vaxandi vandamál. Íhaldssamar stofnanir benda einnig á þau hagrænu vandamál sem fylgja ójöfnuði. OECD sendi til dæmis frá sér skýrslu í desember 2014 þar sem aðildarríki voru hvött til að endurskoða skattkerfi sín út frá sjónarmiðum jafnaðar þar sem aukinn jöfnuður hefði jákvæð áhrif á hagsæld.

Jöfnuður snýst um það hvernig við skiptum þeim gæðum sem við höfum úr að spila. Með skynsamlegri og sjálfbærri atvinnustefnu getum við gert sem mest úr þeim gæðum án þess að skaða umhverfið. Síðan er hægt að skipta þeim með jöfnuð og sanngirni að leiðarljósi og beita skattkerfi og velferðarkerfi til að tryggja ákveðinn jöfnuð í samfélaginu. Hversu langt er gengið er hápólitísk spurning og snýst um hægri og vinstri.

Margir stjórnmálamenn vilja hvorki skilgreina sig til hægri né vinstri. Þá er hættan sú að þeir skili auðu þegar kemur að stóru úrlausnarefnunum framundan þar sem baráttan um auðlindir mun harðna og skipting gæðanna verður æ stærra viðfangsefni. Víða erlendis má sjá nýja strauma í stjórnmálum og þeir liggja ekki á miðjunni. Einnig á Íslandi er mikilvægt að stjórnmálaöflin taki skýra afstöðu til þessara mikilvægustu spurningu samtímans. Þörfin er rík fyrir skýra vinstristefnu.

Katrín Jakobsdóttir

Frelsi og farsæld

Frelsishugmyndin er flókin og margþætt. Í íslenskri stjórnmálaumræðu hefur frelsið oft verið skilgreint með þröngum hætti, út frá hagsmunum fárra en ekki endilega út frá hagsmunum fjöldans. Stóru átakamálin í stjórnmálum liðins árs snúast hins vegar ekki síst um frelsi allra. Ekki um verslunar- og viðskiptafrelsi heldur frelsi í víðtækari skilningi þess orðs, frelsi fólks í hnattvæddum heimi. Frelsi fólks snýst meðal annars frelsi almennings á Íslandi til að búa við mannsæmandi kjör. Það  snýst um hvernig við ætlum að skipta þeim gæðum sem við eigum. Það snýst um aldraða og öryrkja, láglaunafólk og allt það fólk sem á erfitt með að ná endum saman hver einustu mánaðamót. Það snýst um langa biðlista á opinberum heilbrigðisstofnunum og vaxandi greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu á sama tíma og einkaaðilar eru teknir að fjárfesta í hvers kyns heilbrigðisþjónustu, væntanlega vegna arðsemi hennar. Það frelsi snýst um lága grunnframfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna og um aðgengi eldra fólks að framhaldsskólum landsins.

Þetta frelsi snýst ekki um frelsi í þröngum skilningi  heldur frelsi fólks til að fá að þroska hæfileika sína og lifa eins farsælu lífi og mögulegt er. Og atburðir liðins árs hafa svo sannarlega minnt okkur á að frelsi og farsæld er misskipt, í heiminum öllum en líka á okkar góða landi.

Þjóðflutningar

Þjóðflutningar hafa sett svip sinn á allt árið. Þar olli straumhvörfum fréttaljósmynd af litlum dreng, Alyan Kurdi. Hann var einn þeirra Sýrlendinga sem flúðu heimaland sitt á árinu og lagði ásamt fjölskyldu sinni í óvissuferð yfir Miðjarðarhafið. Hann komst aldrei á leiðarenda. Myndin var kölluð Skipbrot mennskunnar víða í erlendum miðlum..
Þá strax upphófust raddir um að ekki mætti einungis hugsa um þá sem birtast á fréttamyndum. En fólkið á myndunum er fólk eins og aðrir. Veruleiki þess er lýsandi fyrir veruleika margra. Og þó að það sé óþægilegt að sjá svona beint framan í vanda fólks í fjarlægum löndum þá megum við ekki brynja okkur fyrir slíkum myndum heldur fáum við tækifæri til að sýna samkennd í verki. Annars er hættan sú að við glötum mennskunni.

En þjóðflutningarnir sem nú standa yfir snúast ekki einungis um mennsku eða skort á henni. Þeir snúast um kerfislægt misrétti sem hefur valdið því að frelsi sumra er minna en frelsi annarra. Þeir snúast um þá staðreynd að Vesturlönd bera sína ábyrgð á stöðunni nú í Mið-Austurlöndum og sú ábyrgð leggur okkur enn ríkari skyldur á herðar en ella. Við getum gert betur og eigum að taka á móti miklu fleira fólki í neyð.

Það hefur hins vegar verið ánægjulegt að upplifa samstöðu Íslendinga um að taka á móti fleira fólki og skemmst er að minnast netátaksins Kæra Eygló þar sem alls konar venjulegt fólk bauð fram aðstoð sína við að taka á móti flóttafólki. Þetta minnir okkur á að samstaða skilar árangri inn í stjórnmálin og stjórnmálamenn eiga að hlusta á raddir almennings.

Til lengri tíma er hins vegar mikilvægt að huga að því hvernig við getum stuðlað að auknum jöfnuði milli heimshluta. Gæðunum er misskipt milli heimshluta og þau stríð sem háð hafa verið á undanförnum árum og áratugum í Mið-Austurlöndum hafa fæst snúist um að byggja upp lýðræði (þó að því hafi stundum verið haldið fram) heldur um yfirráð yfir auðlindum. Þannig hafa íbúar þessara landa verið sviptir því frelsi að fá að nýta sínar eigin auðlindir og öðrum, alþjóðlegum stórfyrirtækjum, hefur verið afhent það frelsi.

Voðaverkin í París

Hryðjuverkin í París voru skelfileg birtingarmynd þeirra átaka sem hafa staðið undanfarin ár og áratugi og glæpasamtökin Íslamska ríkið eða Daesh hafa nýtt sér til að sölsa undir sig völd og áhrif. Voðaverkin voru ógn við frelsi okkar allra en um leið vöktu viðbrögð fransks almennings athygli. Ungur maður missti konuna sína en tilkynnti heiminum og glæpamönnunum að þeim myndi ekki takast að vekja í honum hatur. Þannig voru viðbrögð fransks almennings að þessir atburðir myndu ekki breyta lífi venjulegs fólks, það myndi ekki gefa sig hatrinu á vald. Það eru mikilvæg skilaboð frá almenningi til stjórnvalda sem eiga að hlusta eftir slíkum skilaboðum – um að fórna ekki frelsinu fyrir ótta og hatur

Ný von í loftslagsmálum

Þjóðflutningarnir kalla á nýja hugsun í alþjóðamálum og sama má segja um hitt stóra viðfangsefnið sem hefur verið áberandi á árinu. Á loftslagsfundinum í París náðist ákveðið samkomulag þjóða heims um hvað þurfi að gera til að halda loftslagsbreytingum í skefjum. Fundurinn vakti von um að alþjóðlegt samstarf geti skilað árangri og hann skilar okkur vonbetri inn í nýtt ár gagnvart þessu risavaxna verkefni.
Björninn er þó ekki unninn. Núna þurfa stjórnvöld í hverju ríki að vinna úr þessu samkomulagi, gera raunhæfar aðgerðaáætlanir um hvernig dregið verði úr losun og hvernig ríki heims muni laga sig að þeim loftslagsbreytingum sem líklega munu verða. Einn vandi er sá að eyríki í Kyrrahafinu hverfi undir vatn sökum hækkandi sjávarborðs – og þar með þurfi þær þjóðir að flytja sig um set án þess að hafa átt mikinn þátt í þessum breytingum. Hegðun annarra og ríkari þjóða hefur orðið til að skerða frelsi þessa fólks.

Til að ná árangri þarf að vinna bæði heima við en líka í alþjóðlegu samstarfi. Þar hvílir mikil ábyrgð á stjórnvöldum, þingmönnum og almenningi til að tryggja að samkomulagið í París beri ávöxt og tryggi þannig frelsi og farsæld fólks um allan heim. Þar hafa raddir almennings haft gríðarleg áhrif á stjórnmálin.

Byltingar í kvenréttindabaráttu

Á árinu 2015 fögnuðum við hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna og var þess minnst með ýmsum viðburðum sem ber að þakka fyrir. Hins vegar bar hæst þær kvenréttindabyltingar sem urðu á netinu á árinu, annars vegar hina svokölluðu brjóstabyltingu sem snerist um að afklámvæða brjóst kvenna og hins vegar var Beauty tips-byltingin þar sem konur stigu fram og rufu múr þöggunar um kynbundið ofbeldi. Báðar þessar byltingar sýna að baráttunni gegn misrétti karla og kvenna, sem heimspekingurinn John Stuart Mill taldi um miðja 19. öld hvað rótgrónast alls ójafnréttis, er hvergi nærri lokið en líka að þarna skilar samstaðan árangri og breytingum í átt til aukins frelsis beggja kynja

Aukinn jöfnuður forsenda raunverulegs frelsis

Árinu lauk með hörðum átökum á þingi þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar sameinuðust um að gera tillögur um kjarabætur fyrir öryrkja og aldraða sambærilegar þeim sem náðst höfðu á vinnumarkaði og að þeir skyldu verða afturvirkar. Þessar tillögur sameinaðrar stjórnarandstöðu endurspegluðu kröfur öryrkja og aldraðra en hópar þeirra stóðu og mótmæltu við þingið hvern dag þegar þingi var að ljúka. Því miður voru tillögur stjórnarandstöðunnar felldar og aldraðar og öryrkjar sitja eftir. Það er ljóst að ýmsir í þessum hópi búa við mjög bág kjör, þurfa jafnvel að lifa á undir tvö hundruð þúsund krónum á mánuði. Það ætti að vera metnaðarmál okkar á nýju ári að tryggja þeim  það frelsi að geta lifað af sínum ráðstöfunartekjum. Það er vonandi að samstaða náist um það og eins um að tryggja grunnþjónustu fyrir samfélagið allt. Það verður ekki gert með því að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og draga úr tækifærum fólks til menntunar eins og raunin hefur orðið á þessu ári.

Lærdómur allra stjórnmálamanna ætti að vera að hlusta og skynja þá samstöðu sem oft skapast  með almenningi í ólíkum löndum. Samstöðu um réttlátar breytingar og viðbrögð við flóknum kringumstæðum. Kerfið má aldrei verða mennskunni yfirsterkara þannig að stjórnmálamenn hugsi störf sín fyrst og fremst í kringum kerfi sem einhvern tíma var smíðað af mennskum höndum. Kerfið á að þjóna fólkinu og þar þurfa stjórnmálamenn að hlusta eftir röddum almennings. Þær segja okkur að fólk vill breytingar, í átt til réttlátara og betra samfélags þar sem öllum er tryggt frelsi og farsæld. Þær segja okkur að aukinn jöfnuður sé forsenda raunverulegs frelsis. Hlustum á þær á nýju ári.

Katrín Jakobsdóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2015

Stöðugleiki byggður á jöfnuði

Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins eru komnar í hnút og gæti stefnt í verkfall á vormánuðum. Þetta hlýtur að vera öllum áhyggjuefni og snúin staða að vera í sporum viðsemjenda en ekki síður stjórnvalda.
Við ríkisstjórnarborðið eru menn hins vegar ekki á eitt sáttir um hvert hlutverk stjórnvalda á að vera til að tryggja frið á vinnumarkaði. Þar hefur fjármálaráðherra sagt í viðræðum á Alþingi að hann líti á þetta sem verkefni aðila vinnumarkaðarins en forsætisráðherra hefur talað fyrir því að það sé sérstakt markmið kjarasamninga að bæta kjör lág og millitekjuhópa án þess að útfæra það nánar.

Aðgerðir stjórnvalda það sem af er þessu kjörtímabili hafa hins vegar ekki greitt fyrir kjarasamningum sem snúast fyrst og fremst um það að lágtekjuhópar fái raunverulegar umbætur á sínum kjörum. Aðgerðir stjórnvalda hafa nefnilega einmitt snúist um að hossa undir afturendann á hátekjufólki en forgangsverkefni þeirra hafa verið að lækka veiðigjöld (á sama tíma og stórútgerðir greiða sér út milljarða í arð), afnema auðlegðarskatt sem lagður var á þá sem mestar eignir eiga, hækka matarskatt sem kemur mun verr við lág- og millitekjuhópa en þá sem hærri tekjur hafa og nú hefur ráðherra fjármála kynnt fyrirætlanir um að fækka skattþrepum á einstaklinga en þrepaskipt skattkerfi (sem tekið var upp í tíð síðustu ríkisstjórnar) er mikilvægt tæki til tekjujöfnunar ólíkt því flata skattkerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn kom á á árunum fyrir hrun. Skattastefnan hefur nefnilega líka áhrif á kjörin og í þeim efnum hafa önnur Norðurlönd ekki hikað við að skattleggja hæstu tekjur sem meðal annars útskýrir þá staðreynd að íslenskir stjórnendur eru tekjuhærri en norrænir kollegar þeirra.

Allar þessar aðgerðir styrkja stöðu hátekjuhópanna og fleira mætti raunar tína til. Því skal engan undra að Starfsgreinasambandið berji nú í borðið og geri kröfu um að lægstu taxtar fari ekki undir þrjú hundruð þúsund krónur á mánuði. Og að sjálfsögðu er holur hljómur í þeim svörum að hér verði að varðveita stöðugleika þegar á sama tíma birtast ný gögn um misskiptingu eigna í samfélaginu þar sem ríkustu tíu prósentin eiga 70% alls auðs. Og að á sama tíma séu tíu prósent landsmanna séu undir lágtekjumörkum. Viljum við varðveita þann stöðugleika? Ég svara því neitandi.
Við hljótum að gera þá kröfu til stjórnvalda að þær breytingar sem ráðist er í ýti undir jöfnuð en fari ekki beina leið í hina áttina, í átt til aukinnar misskiptingar. Það er sú krafa sem við hljótum að gera og það er það markmið sem við ættum að fylkja okkur á bak við. Því miður hafa aðgerðir stjórnvalda ekki snúist um það – ég hef þegar nefnt skattabreytingar í þágu hátekju- og eignafólks en fleira mætti telja til; sívaxandi greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu, takmarkað aðgengi eldri nemenda að menntun, aðgerðir í húsnæðismálum sem einungis gagnast íbúðareigendum en ekki leigjendum og svo framvegis.

Raunverulegur stöðugleiki verður að snúast um mannsæmandi kjör alls almennings í landinu. Hann má ekki snúast um að varðveita misskiptingu í samfélaginu. Gegn henni eigum við að berjast og styðja kröfu lágtekjuhópanna um að hægt verði að lifa af dagvinnulaunum í landinu.

Katrín Jakobsdóttir

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu – fyrir hvern?

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur verið sérstakt áhugamál hægrimanna um langt skeið, að minnsta kosti frá tímum Margrétar Thatcher og annarra forgöngumanna nýfrjálshyggjunnar. Það kom því ekki sérstaklega á óvart að sjá að í yfirlýsingu milli ríkisstjórnarinnar og Læknafélags Íslands vegna nýfenginna kjarasamninga hafði verið laumað inn setningu um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem nú þegar er einkarekið að nokkru leyti. Einkavæðingin kallast reyndar „fjölbreytt rekstrarform“ í þessari yfirlýsingu en það er sama hugtak og iðulega er notað þegar kynna á einkavæðinguna til leiks undir rós. En til hvers og fyrir hvern er verið að leggja til aukna einkavæðingu í heilbriðgiskerfinu? Hver ætli hagnist á því?

Dýrara fyrir skattgreiðendur
Undanfarnir áratugir hafa veitt okkur mikla reynslu af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem ýmislegt fróðlegt hefur komið í ljós. Við vitum til dæmis að Bandaríkin eru með langdýrasta heilbrigðiskerfi í heimi, en þar er kerfið í heild sinni einkavætt eins og kunnugt er. Kostaðurinn skýrist að miklu leyti af því að óhemju miklum fjármunum er varið í yfirbyggingu á sjúkrahúsum og sjúkratryggingarfélögum, auk þess sem tvíverknaður er mikill og hagkvæmni lítil. Svipaða sögu er að segja af einkavæðingu sem ráðist hefur verið í í öðrum löndum: einkavædd heilbrigðisþjónusta er almennt séð dýrari, þótt einstaka sjúkrahús sem sinni fyrst og fremst heilbrigðustu sjúklingunum geti að sjálfsögðu verið ódýrari en sum opinber sjúkrahús. Það er því ljóst að enginn ávinningur er af einkavæðingu fyrir íslenska skattgreiðendur – þvert á móti bendir flest til þess að einkavætt heilbrigðiskerfi sé dýrara en opinbert.

Verri þjónusta fyrir sjúklinga
Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu þjónar heldur ekki markmiðum um bætta þjónustu fyrir sjúklinga – notendur þjónustunnar. Í þeim löndum þar sem opinber heilbrigðisþjónusta hefur verið einkavædd er gengur aðferðafræðin iðulega út á að einkavæða „hagkvæmustu“ einingarnar og skilja hið opinbera eftir með erfiðustu og viðkvæmustu þjónustuna. Í einkavæddu þjónustunni er svo allt gert til þess að draga úr kostnaði og fara framhjá þeim reglum og viðmiðum sem hið opinbera setur um hvaða þjónustu beri að veita og með hvaða hætti. Á það hefur margoft verið bent að engin leið er til að skilgreina nákvæmlega í samningum hins opinbera við einkafyrirtæki hvernig þjónustu veri að veita og því koma reglulega upp hneykslismál þar sem hinar einkavæddu stofnanir hafa með einum eða öðrum hætti komist upp með að veita miklu verri þjónustu en sú sem veitt var af hinu opinbera áður.

Meiri ójöfnuður hjá starfsfólki
Því er stundum haldið fram að laun séu hærri í einkavæddum heilbrigðiskerfum en opinberum. Í þessari fullyrðingu er ákveðið sannleikskorn að því leyti að laun stjórnenda og allskonar millistjórnenda – sem iðulega fjölgar við einkavæðingu – eru miklum mun hærri í einkavæddum heilbrigðisstofnunum en opinberum. Hinir fjölmörgu stjórnendur í einkavæddum heilbrigðiskerfum keyra iðulega um á rándýrum sportbílum og lúxusjeppum, sem fjármagnaðir eru með skattfé eða gjöldum á sjúklinga. Almennt starfsfólk – hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ræstitæknar, og svo framvegis – þurfa hins vegar jafnan að sætta sig við talsvert lægri laun og – sem oft gleymist – skerðingar á réttindum og starfsöryggi.

… en eigendur græða
Af ofansögðu er ljóst að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er hvorki til hagsbóta fyrir skattgreiðendur, sjúklinga né almennt starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Hverjir eru það þá sem eru að þrýsta á um aukna einkavæðingu? Einn er sá hópur sem augljóslega telur sig geta hagnast á einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, en það eru væntanlegir eigendur. Eðli málsins samkvæmt gera eigendur sér vonir um að geta tekið hagnað út úr þeim heilbrigðisstofnunum sem þeir myndu eignast við einkavæðingu, og raunar eru víða til svimandi tölur um hagnað einkavæddra heilbrigðisstofnana og ótrúlegar arðgreiðslur til eigenda. Mörg dæmi hafa litið dagsins ljós, t.d. frá Svíþjóð, þar sem opinbert fé sem varið hefur verið til einkavæddra heilbrigðisstofnana hefur að stórum hluta farið í arðgreiðslur til eigenda. Stóru spurningarnar sem við Íslendingar þurfum að svara eru því þessar: Er rétt að heilbrigðiskerfið sé leið til að græða — sé leið til að hagnast? Er verjandi að gera sjúkdóma og veikindi að féþúfu?

Áramótahugleiðing

Árið 2014 var gjöfult ár fyrir Ísland frá náttúrunnar hendi bæði til sjávar og sveita og einnig streymdu ferðamenn til landsins sem aldrei fyrr. Ef við sætum ekki uppi með þessa „Guðsvoluðu ríkisstjórn“ þá værum við sem þjóð í góðum málum og værum að komast út úr kreppunni byggja upp innviði samfélagsins og auka jöfnuð í landinu. Við værum að læra af biturri reynslu þess sem orsakaði Hrunið og snúa af leið græðgi,misskiptingar og einkavæðingar sameiginlegra auðlinda. En við erum þess í stað leidd aftur til slátrunar á altari mammons komin í sömu hringekjuna og við krössuðum í í Hruninu og vitum ekki hvar þessi ósköp enda.

Nú þurfum við sem þjóð í upphafi nýs árs að hrista af okkur slenið og láta ekki teyma okkur aftur á asnaeyrum út í fenið. Við þurfum að losa okkur við þessa óláns ríkisstjórn sem fyrst áður en henni tekst að eyðileggja velferðar og menntakerfið og innviði samfélagsins meir en komið er og koma hér á stjórn sem setur jöfnuð, réttlæti og sjálfbærni í forgang. Ég er að boða Byltingu! Því hún byrjar ávallt í hjarta og huga hvers og eins og með samtakamætti getur þjóðin snúið af sér þá niðurrifsstefnu sem birtist í síðustu fjárlögum þar sem þungar byrðar eru lagðar á þá sem minnst mega sín og hlaðið er undir valda og fjármagnseigendur landsins.

Við stöndum á krossgötum sem þjóð við höfum öll tækifæri á að búa vel að öllum íbúum landsins hvort sem þeir búa á Kópaskeri eða í Reykjavík við höfum efni á að reka gott heilbrigðiskerfi,efla menntun ,jafna kjör almennings óháð búsetu og bæta samgöngur og vernda náttúru landsins. Núverandi stjórnvöld eru búin að sýna á spilin og þau eru að stefna í allt aðra átt með sinni grjóthörðu hægristefnu þar sem ójöfnuður eykst og allt er falt fyrir peninga hvort sem það er náttúra landsins eða fiskurinn í sjónum. Þjóðin er svo sannarlega búin að fá nasaþefinn af því fyrir hverja þessi ríkisstjórn er að vinna og það er ekki almenningur í landinu sem er þar efstur á blaði heldur auðvaldið. Nú þurfum við að snúa bökum saman og losa þjóðina við þessa gæfulausu ríkisstjórn sem fyrst og koma hér á vinstri félagshyggjustjórn. Þegar það tekst þá eigum við að geta horft fram á betri tíma fyrir alla en ekki bara fyrir suma eins og nú er.

Með góðri nýárskveðju.
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Stjórnmál framtíðarinnar

Við áramót gefst gott færi til að líta yfir hið stóra svið stjórnmálanna og rifja upp hvernig allt hið hversdagslega streð skiptir máli í hinu stóra samhengi; litlar ákvarðanir í litlu landi geta skipt miklu fyrir marga einstaklinga og hópa, og jafnvel haft áhrif langt út fyrir landsteinana. Stjórnmálamenn bera ríkar skyldur, gagnvart umheiminum, Íslendingum öllum og framtíðinni.

Skyldur gagnvart umheiminum

Fyrst ber að nefna þá sem búa við fátækt í öðrum löndum. Það vill gleymast að þrátt fyrir erfið ár hér á Íslandi eftir bankahrunið þá erum við enn rík þjóð í alþjóðlegum samanburði. Þannig skipum við ellefta sæti á lista OECD yfir lífsgæði þjóða og erum þar einu sæti fyrir ofan Bretland. Í fyrra ákvað Bretland að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um lágmarksframlag þróaðra ríkja til þróunarsamvinnu og setja 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum í þróunarsamvinnu. Meðal annarra þjóða sem hafa uppfyllt þetta markmið eru Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg, Danmörk og Holland (sem datt nýlega niður í 0,67%). Þessi hlutfallstala hefur verið talin lágmarksframlag, Sameinuðu þjóðirnar mæla með því að hlutfallið sé að minnsta kosti 1% og hafa Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg náð því markmiði.
En hvar með Ísland þar sem lífsgæðin eru að meðaltali betri en hjá Bretum? Framlög Íslands liggja nú í 0,22% og verða óbreytt á næsta ári samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi, langt undir 0,7% markinu og enn fjær 1% sem Sameinuðu þjóðirnar mælast til þess að þjóðir eins og Ísland verji til þróunarsamvinnu. Þetta er líka talsvert minna en áætlað var í þingsályktun um aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2013 með öllum greiddum atkvæðum nema einu.
Samkvæmt þessari áætlun áttu framlög Íslands að nema 0,35% af þjóðartekjum árið 2015. Það vantar því um tvo og hálfan milljarða króna upp á að ríkisstjórnin fylgi samþykktri áætlun Alþingis í þróunarsamvinnumálum og rúmlega 9 milljarða upp á að hún nái settu markmiði. Markmiðið hefur verið skilgreint svo að Ísland uppfylli „pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna“. Við erum fjarri því að uppfylla þær skyldur en vaxandi ójöfnuður milli heimshluta hefur verið og verður áfram stærsta ógnin við frið og öryggi í heiminum. Ísland má ekki skorast undan því að vera hér þjóð meðal þjóða og sýna gott fordæmi.

Skyldur gagnvart okkur sjálfum

Það má til sanns vegar færa að einn besti mælikvarði á gæði samfélags sé hvernig þar er hlúð að þeim sem standa höllum fæti. Stjórnspekingurinn John Rawls færði fyrir því rök að réttlætt samfélag væri skipulagt með það að markmiði að bæta hag þeirra sem verst eru settir. Því miður vantar töluvert upp á að ná því markmiði í íslensku samfélagi, enda ljóst að stórir hópar fólks hafa markvisst orðið útundan undanfarin misseri.
Fátækt brennur á mörgum í samfélaginu – meðal annars sumum öryrkjum og öldruðum – og margir hafa haft samband við þingmenn og lýst óviðunandi stöðu sinni. Húsnæðismarkaðurinn er ansi erfiður á ekki stærra landi, stórir hópar eiga enga möguleika á að kaupa húsnæði og ekki er nægt framboð af boðlegu húsnæði á sanngjörnu verði á leigumarkaði. Örorkubætur og almannatryggingar duga ekki til að tryggja viðunandi framfærslu og ofan á þetta bætist sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að hækka álögur á mat sem bitnar ekki síst á tekjulágum hópum.
Nefna má fátækt meðal barna og foreldra þeirra. Samkvæmt skýrslu Barnaheilla frá apríl á þessu ári búa 16% íslenskra barna við hættu á fátækt eða félagslegri einangrun og hefur aukist frá hruni. Eins og bent er á í skýrslunni er menntun ein helsta leið barna út úr fátækt og einangrun og því mikilvægt að efla menntakerfið til að sporna gegn þessum vanda og tryggja gjaldfrelsi þess á sem flestum skólastigum. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að samkvæmt nýlegri skýrslu Hagstofunnar frá síðastliðnum júní er skortur á efnislegum gæðum, en það er ný mæling á lífskjaravanda, langtum mestur meðal einstæðra foreldra.
Stundum tala stjórnmálamenn eins og það sé náttúrulögmál að hluti þjóðarinnar búi við fátækt. Ég hafna því með öllu. Ísland er ríkt land, með miklar náttúruauðlindir í sjó og á landi, og hér býr vel menntað fólk sem skapar mikil verðmæti. Sé gæðum þjóðarinnar skipt jafnar er ekkert því til fyrirstöðu að útrýma því sem næst efnislegri fátækt. Til þess að svo verði þarf hins vegar að nýta markvisst þau tæki sem til staðar eru til að jafna kjör og aðstæður fólks. Það er brýnt að tryggja aðgang allra að menntun og velferðarþjónustu um leið og nýta má skattkerfið til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.
Það er líka rétt að nefna í þessu samhengi að það er engin tilviljun að þau ríki þar sem jöfnuður hefur verið mestur í sögulegu samhengi (og þar má nefna Norðurlönd) hefur líka vegnað best þegar kemur að almennri velsæld borgaranna og hagsæld samfélaga. Samkvæmt nýrri skýrslu OECD dregur ójöfnuður beinlínis úr hagvexti, m.a. vegna þess að hann takmarkar aðgengi að menntun og þar með verðmætasköpun í samfélaginu. Einnig er bent á að samkvæmt greiningu OECD hafa tekjujöfnunaraðgerðir ekki slæm áhrif á hagvöxt, heldur geta þær þvert á móti ýtt undir hagvöxt þegar vel er að verki staðið.

Skyldur gagnvart framtíðinni

Að lokum vil ég nefna annan hóp sem oft gleymist í opinberri umræðu en ákvarðanir okkar hafa þó gríðarleg áhrif á. Það eru þeir sem koma til með að byggja þessa jörð og þetta land þegar við erum fallin frá – komandi kynslóðir. Vegna loftslagsbreytinga og annarra óafturkræfra náttúruspjalla er hætt við að afkomendur okkar muni taka við heimi þar sem matar- og vatnsskortur er viðvarandi, hamfarastormar daglegt brauð og yfirborð sjávar hefur jafnvel drekkt heilu borgunum og stórum hluta ræktarlands. Jörðin gæti vel orðið næstum óbyggileg ef ekki er spyrnt við í loftslagsmálum.
Samkvæmt þeim vísindamönnum sem best þekkja til höfum við aðeins örfáa áratugi til viðbótar til að snúa þróuninni við. Hækki hitastig jarðar jafn verulega og hætta er á losast koldíoxíð sem nú er bundið í náttúrunni sjálfri út í andrúmsloftið án þess að við fáum rönd við reist. Það er því ótvíræð skylda þeirra kynslóða sem nú eru uppi að sporna gegn loftslagsbreytingum og tryggja afkomendum okkar lífsskilyrði sem jafnast á við það sem við höfum notið.
Hvað er þá hægt að gera? Lausnirnar eru í sjálfu sér ekki flóknar og þar gegnir hið opinbera lykilhlutverki, því forsenda þess að sporna við öfugþróuninni er að það verði hagkvæmara fyrir einstaklinga að notfæra sér umhverfisvænar lausnir í stað þeirra sem menga. Slíkar aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum eru stærsta úrlausnarefni okkar samtíðar og jafnframt réttlætismál gagnvart komandi kynslóðum.

Jöfnuður og sjálfbærni í þágu almennings eru stóru viðfangsefnin á sviði stjórnmálanna. Þar getum við Íslendingar gert betur á komandi árum. Ég óska landsmönnum öllum farsæls komandi árs.

Katrín Jakobsdóttir