Posts

Framtíðarsýn í skattamálum

Katrín Jakobsdóttir skrifar

Skatt­lagn­ing er sígilt við­fangs­efni stjórn­mál­anna enda er það í senn póli­tískt og heim­speki­legt við­fangs­efni sem snýst um grunn ­sam­fé­lags­gerð­ar­inn­ar.

Meg­in­hlut­verk skatt­kerf­is­ins er ekki ein­ungis að tryggja tekjur til að standa undir sam­neysl­unni eða grunn­þjón­ust­unni og tryggja þannig far­sæld allra. Skatt­kerfið getur líka þjón­að efna­hags­legum mark­miðum og er mik­il­vægt tekju­jöfn­un­ar­tæki, þannig að með ólík­um ­þrepum sé tryggt að hinir tekju- og eigna­meiri leggi hlut­falls­lega meira af ­mörkum en þeir sem minna hafa á milli handa. Þá má nýta skatt­kerfið til að ­stýra verð­lagn­ingu á til­teknum vörum, til dæmis með lágum virð­is­auka­skatti á mat í þágu tekju­lágra sem nýta hærra hlut­fall sinna tekna í mat­væli en hærri virð­is­auka­skatt á aðrar vör­ur. Einnig er hægt að nýta skatt­kerfið til að stuðla að sam­fé­lags­breyt­ing­um, til að mynda með svoköll­uðum grænum sköttum sem styðja við umhverf­is­vænni atvinnu- og sam­göngu­hætti. Síð­ast en ekki síst má segja að breyttir tímar kalli á nýtt hlut­verk skatt­kerf­is­ins að auka gegn­sæi í ljósi þess að um heim­inn eru skatt­stofnar ekki lengur stað­bundnir og upp­bygg­ing fjár­mála­kerf­is­ins hefur skapað ótelj­andi mögu­leika á felu­stöðum fyrir fjár­magn ­sem gerir það að verkum að hefð­bundnir skatt­stofnar end­ur­spegla aðeins hluta af því fé sem er í umferð.

Ég tel að breytt sam­fé­lags­gerð og fjár­mála­kerfi kalli á nýja hugsun í skatta­mál­um. Í fyrsta lagi í ljósi þess að hluti borg­ar­anna fær sínar tekjur með hefð­bundnum hætti í gegnum laun en hlut­i þeirra fær megnið af sínum tekjum af fjár­magni. Þrátt fyrir það er skatt­lagn­ingin ekki skipu­lögð með sama hætti. Eðli­legra væri að tekju­skattur og fjár­magnstekju­skattur fylgdu sömu lög­mál­um, með frí­tekju­marki og þrepa­skipt­u skatt­kerfi þannig að fólki sé ekki mis­munað eftir því hvaðan það hefur tekj­ur sín­ar.

Tekju­jöfn­uð­ur, sem meðal ann­ars er ­mældur með Gini stuðl­in­um, segir hins vegar aðeins hálfa sögu. Mis­kipt­ing auðs er ekki síður alvöru­mál. Á alþjóða­vísu hefur mis­skipt­ing auð­æfa í heim­in­um ­auk­ist hratt und­an­far­ið. Rík­asta pró­sentið á nú meira en hin 99 pró­sentin og auð­æfi þeirra hafa auk­ist langt umfram hag­vöxt í heim­in­um. Á Íslandi eiga rík­ustu tíu ­pró­sentin næstum þrjá fjórðu allra auð­æfa. Þetta kallar á umræðu um að taka upp­ auð­legð­ar­skatt – vita­skuld þarf að ákvarða af kost­gæfni við hvaða mörk hann ætti að vera – sem nauð­syn­lega jöfn­un­ar­að­gerð ef við teljum þessa mis­skipt­ingu óeðli­lega en það tel ég að hún sé.

Það þarf að end­ur­skoða fyr­ir­komu­lag ­trygg­inga­gjalds­ins sem á að standa undir mörgum mik­il­vægum verk­efnum en um leið er uppi krafa um lækkun þess, ekki síst til að bæta starfs­um­hverfi lít­illa og ­með­al­stórra fyr­ir­tækja. Þyrfti þá ef til vill að fara nýjar leiðir við fjár­mögnun mik­il­vægra verk­efna á borð við fæð­ing­ar­or­lof og at­vinnu­leys­is­trygg­ing­ar?

Það verður æ nauð­syn­legra að þjóð­ir heims eigi aukna sam­vinnu um skatta­mál því að þar hafa þær ekki enn náð að ­fylgja hnatt­væð­ing­unni sem ein­kenn­ist af því að fjár­magnið þekkir eng­in landa­mæri. Nú hafa tíu til fimmtán Evr­ópu­ríki sam­mælst um að taka upp skatt á fjár­magns­flutn­inga. Þessi nýi skattur var meðal ann­ars til umræðu á lofts­lags­ráð­stefn­unni í París því að þó að hann sé ekki hár í pró­sentum talið ­getur hann skilað gríð­ar­legum tekjum – til dæmis í hinni alþjóð­legu bar­átt­u ­gegn lofts­lags­breyt­ingum sem krefst alþjóða­sam­starfs.

Skattar eru gjaldið sem við greið­u­m ­fyrir að búa í sið­uðu sam­fé­lagi, sagði banda­ríski hæsta­rétt­ar­dóm­ar­inn Oli­ver Wendell Holmes fyrir rúmri öld. Það er grund­vall­ar­at­riði hvernig við útfærum þetta gjald.

Það þarf ríkisstjórn sem tryggir að allir á Íslandi sitji við sama borð og njóti sömu tækifæra

Ræða Katrínar flutt í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi, eldhúsdegi, 30. maí 2016

Herra forseti, góðir Íslendingar,

Í ár eru tveir áratugir síðan ég ásamt 170 samstúdentum mínum úr Menntaskólanum við Sund gekk út í vorið, fullviss um að framtíðin væri okkar. Bjartsýnin skín út úr stúdentsmyndinni þó að auðvitað hafi örlög okkar orðið með mismunandi hætti og lífið farið mismunandi höndum um fólk. En trúin á framtíðina var svo sannarlega til staðar.
Nýstúdentar nú tuttugu árum síðar lesa hins vegar í fréttum að kjör ungs fólks hafi versnað, bæði samanborið við kjör ungs fólks fyrir áratug og samanborið við kjör annarra hópa í samtímanum. Og það er umhugsunarefni því að í þessu fólki býr framtíðin og það er um framtíðina sem við þurfum að tala hér í kvöld.

Saga Íslands á tuttugustu öldinni er um margt saga mikilla sigra. Samfélag og atvinnulíf byggðust upp á ótrúlega skömmum tíma. Á þessu ári fögnum við hundrað ára afmæli Alþýðusambands Íslands og minnumst um leið þeirra sigra sem íslensk verkalýðshreyfing hefur unnið.

Almannatryggingar.
Stytting vinnutímans.
Samningsréttur.
Svo eitthvað sé nefnt.

Á sama tíma vannst mikið í uppbyggingu velferðarsamfélagsins, heilsugæslu og menntakerfis, konur fengu kosningarétt, komið var á fæðingarorlofi og svo mætti lengi telja.

Ekkert af þessu vannst án baráttu fólks sem vildi vinna fyrir almannaheill. Og alltaf voru nógir til að andmæla umbótunum. Alltaf voru nógir sem engar breytingar vildu. Líf okkar sem nú lifum og störfum á Íslandi er markað af baráttu þeirra kynslóða sem gengu á undan. Við eigum þeim margt að þakka.

Og samfélagið stendur aldrei kyrrt, það er í eilífri þróun. Eftir hraðskreiðar breytingar í upphafi þessarar aldar, einkavæðingu bankanna, einföldun regluverks og uppbyggingu fjármálakerfis sem flestum Íslendingum var eins og hulinn heimur kom hrun 2008 þegar Pótemkíntjöldum gervivelmegunar var svipt frá á einni viku.
Nú átta árum síðar, eftir mikið starf margra, ekki síst almennings sem tók á sig auknar byrðar og erfiðleika, eru bjartari horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar en lengi hefur verið. Það er gott og við Íslendingar getum bæði þakkað okkur sjálfum en líka forsjóninni sem færði okkur bæði makríl og ferðamenn þegar neyðin var mest sem hefur hjálpað okkur upp úr öldudalnum.

Og af hverju eru þá ekki allir glaðir og reifir?

Svarið við því er einfalt því bjartari tímar í efnahagsmálum duga ekki til ef meginþorri almennings í landinu fær ekki að njóta þessara bjartari tíma og reynir á eigin skinni rangláta skiptingu auðs, ranglátt kerfi sem meðhöndlar ekki alla jafnt.

Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa rifjað upp fyrir okkur með áþreifanlegum hætti að fjármálakerfið sem byggt var upp fyrir hrun af nýfrjálshyggjuöflunum, núverandi stjórnarflokkum, lifði hrunið af. Hér á landi er fámennur hópur, þeirra á meðal ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, sem tók þátt í því að nýta sér aflandsfélög í skattaskjólum til að geyma sína peninga. Þessi félög lúta ekki sömu reglum og við setjum okkar eigin viðskiptalífi og samþykkjum hér á Alþingi Íslendinga.

Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa sýnt okkur með áþreifanlegum hætti misskiptinguna í samfélaginu, hvernig sumir hafa fjármagn sem þeir geta nýtt sér til að spila á öðrum leikvelli en okkur hinum er ætlaður. Panamaskjölin hafa afhjúpað að á Íslandi búa tvær þjóðir.

Bjartari tímar í efnahagsmálum duga ekki til ef við þorum ekki að ráðast að rótum þessarar misskiptingar.

Alls staðar í heiminum er fólk að vakna til vitundar um að það er ekki eðlilegt að ríkasta eina prósentið í heiminum eigi meira en hin 99 prósentin. Hér á Íslandi er fólk að vakna til vitundar um það að það er ekki eðlilegt að ríkustu tíu prósentin eigi nærri þrjá fjórðu alls auðs hér á landi.

Því að þessi misskipting byggist ekki á dugnaði og verðleikum hinna ríkustu heldur þeirri staðreynd að á Vesturlöndum hefur verið reist kerfi sem hyglir hinum auðugustu og kemur niður á millitekju- og lágtekjuhópum. Það hefur verið gert með skattbreytingum, auknum gjöldum fyrir grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun, einkarekstri og einkavæðingu almannaþjónustu og breytingum á fjármálakerfinu, breytingum sem oft nást í gegn með þrýstingi fámennra en auðugra hagsmunahópa. Það er þetta kerfi sem skapar misskiptingu á kostnað almannahagsmuna.

Og það er þetta kerfi sem skapar misvægi milli heimshluta, ágenga nýtingu auðlinda, loftslagsvanda og stríðsátök þannig að sumir heimshlutar eru mun viðkvæmari fyrir átökum og áföllum en aðrir. Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að ekki hafa verið fleiri á flótta frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að meira að segja á okkar ríka landi telja um 48% heimila sig eiga í erfiðleikum með að ná endum saman.

Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að meira að segja á okkar ríka landi eru um 6.100 börn sem líða efnislegan skort.

Þessu kerfi getum við breytt ef við viljum og þorum.

En til þess þarf nýja ríkisstjórn sem viðurkennir þá staðreynd að auðlindir okkar eru sameign okkar allra og það er eðlilegt að þeir sem fá leyfi til að nýta þær greiði eðlilegt gjald fyrir þau afnot.
Það þarf ríkisstjórn sem viðurkennir að skattkerfið á að nýta til að jafna kjörin, bæði tekjur af vinnu og fjármagni.
Það þarf ríkisstjórn sem leggur ekki auknar skattbyrðar á lágtekjufólk með því að hækka virðisaukaskatt á matvæli heldur kortleggur hvar fjármagnið er að finna og skattleggur það – fremur en að seilast í vasa launþega á Íslandi.

Og um leið og við jöfnum kjörin þá jöfnum við líka aðstæður fólks því þessar tekjur geta skipt sköpum í okkar sameiginlegu verkefni; nýjan Landspítala, gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, háskóla og rannsóknir, framhaldsskóla fyrir alla, örorkubætur sem uppfylla framfærsluviðmið og mannsæmandi ellilífeyri þannig að fólk geti lifað góðu lífi af sínum tekjum og tekið þátt í vinnumarkaðnum og samfélaginu eins lengi og hugur þess stendur til, samfélaginu og því sjálfu til hagsbóta.

Það þarf ríkisstjórn sem nýtir uppgang og góðæri til uppbyggingar fyrir almannahagsmuni.

Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að niðurskurðarstefnan sem ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar byggist á veldur meiri skaða en ávinningi. Það þarf öfluga grunnþjónustu og aukinn jöfnuð til að tryggja velsæld almennings og almenna hagsæld, Fyrir því eru ekki einungis réttlætisrök heldur líka efnahagsleg rök.

Það þarf ríkisstjórn sem endurskoðar fjármálakerfið, aðskilur fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi og tryggir umhverfi fyrir samfélagsbanka sem hafa önnur markmið en eingöngu gróða fyrir hluthafa, til dæmis umhverfissjónarmið, byggðasjónarmið og kynjasjónarmið.

Það þarf ríkisstjórn sem vill byggja upp háskólastarfsemi og rannsóknir, tryggir öllum menntun við hæfi og gjaldfrjálst opinbert heilbrigðiskerfi þannig að tekjulágt fólk þurfi ekki að fresta því að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórn sem tryggir öllum framfærslu sem stendur undir góðu lífi á Íslandi, sem vinnur að því að uppræta skort og fátækt í samfélaginu.

Það þarf ríkisstjórn sem leggur áherslu á að útrýma mansali og nútíma þrælahaldi, er reiðubúin að berjast gegn kynbundnum launamun hvar sem hann birtist og grípur til raunverulegra aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi með fjármagni og þekkingu.

Það þarf ríkisstjórn sem tryggir aukin völd almennings og horfist í augu við kröfuna um aukna þátttöku almennings í öllum ákvörðunum. Ríkisstjórn sem kemur endurskoðun stjórnarskrárinnar í höfn þannig að hún verði sannanlega stjórnarskrá fólksins.

Það þarf ríkisstjórn sem tryggir að allir á Íslandi sitji við sama borð og njóti sömu tækifæra, og vinnur um leið með alþjóðasamfélaginu að auknum jöfnuði í heiminum öllum og tekst á við alþjóðlegar áskoranir með því að ganga á undan með góðu fordæmi.
Góðir Íslendingar.

Líf kynslóðanna sem á undan okkur komu er saga okkar sem nú lifum. Líf okkar mun verða saga þeirra barna sem nú koma í heiminn. Og þau munu líta um öxl.

Tókst að vernda miðhálendið fyrir komandi kynslóðir? Tókst að tryggja gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu? Var ákveðið að styrkja menntun og rannsóknir fyrir framtíðina? Voru öryrkjum tryggð mannsæmandi kjör eða fannst samfélaginu í lagi að þeir rétt skrimtu? Opnuðum við faðminn fyrir fólki á flótta eða reistum við ósýnilegar girðingar og vísuðum burt fólki sem var tilbúið til að leggja allt í það að byggja hér upp líf sitt í sátt við samfélagið? Var byggt upp samfélag eftir efnahagshrunið þar sem öllum var tryggt að lifa með reisn? Eða var rekin niðurskurðarstefna til að tryggja að hinir auðugustu héldu sem mestu af sínum fjármunum? Var byggt upp samfélag þar sem lýðræðið var aukið til að tryggja að raddir sem flestra hefðu áhrif? Eða var barist gegn öllum kerfisbreytingum til að tryggja að sem fæstir réðu sem mestu? Var fjármálakerfið endurskoðað í þágu samfélags og atvinnulífs? Var gripið til róttækra aðgerða gegn loftslagsbreytingum fyrir komandi kynslóðir? Var unnið að jafnrétti kynjanna þannig að kynið skipti ekki lengur máli fyrir launaumslagið? Var byggt upp auðmannasamfélag eða jafnaðarsamfélag?

Kæru landsmenn. Það er okkar að ákveða hver saga þessara barna verður. Hver saga unga fólksins verður sem nú þarf að taka ákvörðun um það hvort það sætti sig við versnandi kjör þrátt fyrir allt tal um bjartari tíma. Þar er valið skýrt. Saman eigum við að byggja upp heilbrigt samfélag, grænt samfélag, gott samfélag, jafnaðarsamfélag. Um það munu næstu kosningar snúast.

Almannahagsmunir eða sérhagsmunir

Á fimmtu­dag­inn funda nokkrir tugir þjóð­ar­leið­toga í Lund­únum til að ræða að­gerðir gegn spill­ingu. Á dag­skrá verður meðal ann­ars áskorun 300 hag­fræð­inga ­sem hafa ritað þjóð­ar­leið­togum um heim allan og hvatt þá til að við­ur­kenna að engin efna­hags­leg rök séu fyrir því að leyfa áfram­hald­andi til­vist skatta­skjóla. Þeir segja enn­fremur að það verði ekki auð­velt að brjóta nið­ur­ ­kerfi aflands­fé­laga og skatta­skjóla þar sem valda­miklir aðilar hafi mikla hags­muni af því að standa vörð um skatta­skjólin en sé litið til almanna­hags­muna sé ekk­ert gagn í skatta­skjól­um. Því þurfi að grípa til aðgerða, meðal ann­ars að ­fyr­ir­tækjum verði gert að birta yfir­lit yfir skatt­skyld umsvif sín eft­ir lönd­um.

Skatta­skjólin eru að mati hag­fræð­ing­anna hluti af kerfi sem skapar auk­inn ó­jöfnuð og veldur sam­fé­lögum um allan heim ómældum skaða til hags­bóta fyr­ir­ ­fá­mennan hóp auð­manna. Í hópi hag­fræð­ing­anna eru heims­þekktir fræði­menn á borð við Thomas Piketty, Angus Deaton og Ha-Joon Chang. Bent hefur verið á að ef vilji er fyrir hendi hjá þjóð­leið­togum er hægt að gera breyt­ingar á því kerf­i ­sem nú er við lýði. En við skulum ekki halda að þeir sem hagn­ast á kerf­inu mun­i ­gefa það frá sér svo auð­veld­lega.

Áskorun  hag­fræð­ing­anna sýnir glögg­t ­mik­il­vægi Panama­skjal­anna fyrir 99% mann­kyns. Skyndi­lega hefur hul­inn heim­ur orðið sýni­legur öllum almenn­ingi. Það er risa­stórt hags­muna­mál almenn­ings um allan heim að þjóð­ar­leið­togar hlusti á þessa áskorun og ráð­ist í raun­veru­leg­ar að­gerð­ir. Þessi afhjúpun má ekki snú­ast um upp­hróp­anir sem týn­ast svo í glaumi dag­anna uns næsta hneyksli kemur fram.

En enn skortir nokkuð upp á vilj­ann til breyt­inga. Í umræðum á Alþingi um Panama­skjölin hefur það við­horf verið áber­andi að þar sem ekki sé ólög­legt að ­stofna félög í skatta­skjólum sé ekk­ert við það að athuga. En lög geta aldrei verið tæm­andi mæli­kvarði á alla kima sam­fé­lags­ins. Í ljósi þess­ara van­kanta á lög­unum er þeim mun mik­il­væg­ara ræða áhrif skatta­skjól­anna og spyrja hvort þau ­styðji við heil­brigt atvinnu­líf og sam­fé­lag – og svarið þarf að vera skýrt. Mitt svar er nei. Mun lík­legra eru að þau grafi undan heil­brigðu atvinnu­lífi og ­sam­fé­lagi, skekki sam­keppn­is­stöðu og auki ójöfn­uð.

Skatta­skjól snú­ast nefni­lega ekki ein­göngu um skattaund­an­skot þó að þau séu aug­ljós­asta birt­ing­ar­mynd þeirrar mein­semdar sem skatta­skjól eru. Aflands­fé­lög í skatta­skjólum lúta öðrum reglum en inn­lend fyr­ir­tæki, í skatta­skjólum er ­reglu­verk oft lítið sem ekk­ert og hægt að halda leynd yfir starf­semi og eign­um við­kom­andi fyr­ir­tækja.

Þegar kemur að skattsvikum þá hafa á síð­ast­liðnum þremur ára­tugum ver­ið ­gerðar að minnsta kosti fjórar skýrslur eða grein­ar­gerðir um umfang skattsvika á Íslandi. Sú síð­asta kom í nóv­em­ber í fyrra og þar er talið að árleg skattaund­an­skot geti numið um 80 millj­örð­um. Hluti af þessum und­an­skotum fara fram í gegnum aflands­fé­lög en aðeins hluti. Ef þessi áætlun er nærri lagi má ­sjá að hæg­lega mætti byggja nýjan með­ferð­ar­kjarna fyrir Land­spít­ala Íslands á einu ári fyrir þetta fé og fara langt í að gera heil­brigð­is­þjón­ust­una gjald­frjálsa – svo að eitt­hvað sé nefnt.

Það er því til mik­ils að vinna,  bæð­i hér heima og á alþjóða­vísu.

Með því að taka virkan þátt í bar­átt­unni á alþjóða­vett­vangi og taka und­ir­ ­kröfu hag­fræð­ing­anna 300 er hægt að ná fram breyt­ingum á alþjóða­vísu og breyta ­kerf­inu þannig að það þjóni almanna­hags­munum fremur en fámennum hópum auð­manna. Þannig verður unnt að styrkja vel­ferð­ina í hverju sam­fé­lagi fyrir sig og auka jöfn­uð.

Hag­fræð­ing­arnir hafa lík­lega rétt fyrir sér þegar þeir segja að eng­in efna­hags­leg rök séu fyrir því að leyfa áfram­hald­andi til­vist skatta­skjóla. Það ­sem skiptir þó ekki minna máli er að engin sam­fé­lags­leg og póli­tísk rök eru ­fyrir til­vist skatta­skjóla. A.m.k. ef litið er til stjórn­mála þar sem almanna­hags­mun­ir ráða för, ekki sér­hags­mun­ir.

Höf­undur er for­maður Vinstri­hreyf­ing­ar­innar – græns fram­boðs.

Stjórnmálaskóli VG – Jöfnuður

Fyrsti tími í stjórnmálaskóla VG var haldinn í gærkvöldi fyrir fullu húsi á Hallveigarstöðum. Katrín Jakobsdóttir, Indriði H. Þorláksson og Kári Stefánsson fluttu erindi sem má nálgast hér að neðan. Næsti tími verður eftir tæpa viku, næsta þriðjudagskvöld kl. 20 á Hallveigarstöðum.

Erindi Katrínar

Erindi Indriða

Erindi Kára

Vantraust – Katrín Jakobsdóttir

Ræða Katrínar Jakobsdóttur um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

Herra forseti

Við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, leggjum í dag fram tillögu um að Alþingi lýsi vantrausti á ríkisstjórnina og Alþingi samþykki að rjúfa þing og boða til kosninga. Stjórnarandstaðan stendur sameinuð á bak við þessa tillögu og miðað við þau orð sem háttvirtir þingmenn stjórnarflokkanna hafa látið falla undanfarna daga er ljóst að margir þeirra styðja í hjarta sínu að strax verði boðað til kosninga enda er nýja ríkisstjórn gamalt vín, ekki einu sinni á nýjum belgjum.
Hvers vegna leggjum við fram þessa tillögu? Jú, tilefnið er augljóst. Sú vika sem brátt er á enda hefur verið dramatísk og fáránleg á köflum en þar hafa viðbrögð stjórnarflokkanna við stærsta gagnaleka sögunnar verið miðpunkturinn. Sá leki sýnir að Íslendingar eiga einhvers konar í heimsmet þegar kemur að eignum í aflandsfélögum í skattaskjólum. Í ríkjum Vestur-Evrópu eru 332 ráðherrar. Nöfn fjögurra þeirra koma við sögu í Panama-skjölunum. Þrír þeirra voru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Og tveir þeirra sitja enn sem ráðherrar.

Það getur verið margháttaður tilgangur með því að stofna aflandsfélög í skattaskjólum. Ýmist að koma sér hjá skattgreiðslum því að í grunninn eru skattaskjól svæði þar sem ekki eru greiddir skattar og gildir þá einu hvaða tekjurnar koma. Annar tilgangur sá er að það hvílir leynd yfir viðkomandi félagi, ekki eru gefnar upplýsingar um það og skráning er mjög ófullkomin. Þess vegna eru settir leppar í stjórn – það er til að fela raunverulega eigendur og við kynntumst þessum stjórnarmönnum Íslands í Kastljósi sunnudagsins. Þá eru engar kröfur gerðar um að félögin skili ársreikningum eða leggi fram aðrar upplýsingar um starfsemi sína.

Sagt hefur verið að þeir sem geymi eignir sínar í aflandsfélögum séu í raun í þeirri stöðu að velja sér eigin skattaprósentu, ólíkt almenningi, því yfirvöld heimalandsins hafa lítil sem engin tæki til að sannreyna skattgreiðslur af eignum í skattaskjólum enda hafi yfirvöld lítið eftirlit með þessum félögum.
Hér á landi virðist hafa gripið um sig sannkallað aflandsfélaga-æði á árunum fyrir hrun og þau virðast hafa orðið álíka algeng og fótanuddtæki á níunda áratugnum. Það er ef til vill ekki skrýtið í ljósi þeirrar stjórnarstefnu sem þá ríkti sem snerist um að Ísland ætti að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð, og meira að segja skipuð nefnd á vegum forsætisráðuneytis árið 2005, undir formennsku Sigurðar Einarssonar, þáverandi stjórnarformanns Kaupþings, sem átti að gera tillögur um það. Skattar væru lækkaðir fyrir útvalda hópa, ýtt þannig undir aðgreiningu og ójöfnuð og reynt að koma Íslandi út á leikvöll alþjóðlegrar fjármálastarfsemi.

Það er ekki fyrr en 2009 að svokallaðar cfc-reglur eru færðar í lög sem þrengja mjög að möguleikum eigenda aflandsfélaga til að fara framhjá eðlilegri skattheimtu en þá er farið að telja allar tekjur félagsins sem tekjur eigandans sem skuldbindur hann þar með til að telja tekjur sínar fram á eigin skattframtali. Þá var einnig á síðasta kjörtímabili lyft grettistaki í gerð upplýsingaskiptasamninga til þess að tryggja aukið upplýsingaflæði milli ríkja um flæði fjármagnsins. Er það í takt við alþjóðlega stefnumótun, til dæmis á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og OECD.

Nú hefur þessi stærsti gagnaleki sögunnar, Panama-skjölin, afhjúpað tengsl íslenskra ráðamanna við aflandsfélög. Og íslenskur almenningur mátti horfa upp á það að fyrrverandi forsætisráðherra var eini vestræni þjóðarleiðtoginn í þeim hópi stjórnmálaleiðtoga sem eru með tengsl við aflandsfélög. Og ráðherrann reyndi að leyna þessum upplýsingum fram á seinasta dag.

Í hópi núverandi ráðherra og þingmanna stjórnarflokkanna virðast menn hafa sameinast um að þetta sé í versta falli óheppilegt. Menn hafa ekki fordæmt þá staðreynd að íslenskir ráðamenn eigi eða hafi tengsl við aflandsfélög í skattaskjólum. Enginn hefur lýst því yfir að forgangsverkefni núna eigi að vera að rannsaka þessi mál og veita til þess auknum fjármunum, ekki síst til embættis Skattrannsóknastjóra.
Og margir stjórnarliðar virtust telja að afhjúpunin væri á einhvern hátt fjölmiðlum að kenna. Það var ekki reynt að takast á við þá staðreynd að ráðamenn þjóðarinnar eru í fámennum hópi ríkra Íslendinga sem vill spila eftir öðrum reglum en boðið er upp á fyrir íslenskan almenning í gegnum aflandsfélög í skattaskjólum eða reynt að svara þeirri spurningu hvort það sé eðlilegt eða siðferðilega verjandi ekki aðeins að eiga slík félög heldur reyna líka að leyna þeim heldur farið fram gegn fjölmiðlum, þá sérstaklega Ríkisútvarpinu.

Þannig birtu tveir þingmenn Framsóknarflokksins afar svipaðar greinar þar sem Ríkisútvarpið var sakað um að vera í pólitískri herferð gegn forsætisráðherra. Það hefur ekki komið fram hvort BBC, DR, NRK, SVT, Le Monde, Suddeutsche Zeitung, Guardian, Independent og svo mætti lengi telja þá alþjóðlegu fjölmiðla sem fjallað hafa um málið, séu þá þátttakendur í herferðinni eða jafnvel leiksoppar Ríkisútvarpsins en ennþá hef ég engan heyrt úr stjórnarliðinu bera á móti þessu.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að viðbrögð stjórnarflokkanna eru ekki síður alvarleg en málið sjálft og þau eru önnur lykilforsendan fyrir þessu vantrausti. Þau sýna að ríkisstjórn Íslands telur að það sé allt í lagi fyrir kjörna fulltrúa og æðstu embættismenn að eiga eignir í aflandsfélögum í skattaskjólum og að greina ekki frá þeim eignum. Það staðfestu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra með svörum sínum í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær. Það er aðeins óheppilegt ef upp kemst um strákinn Tuma og í raun fjölmiðlunum að kenna. Það er lítil reisn yfir þessum viðbrögðum þó að einstaka þingmönnum stjórnarliðsins blöskri nú og segi að þetta dugi ekki til, að allir ráðherrar með tengsl við aflandsfélög eigi að segja af sér og ganga eigi til kosninga.

Og ég veit það vel að auðvitað eru hér inni þingmenn, þvert á flokkslínur, sem finnst þetta ekki í lagi og vilja ekki svona hegðun. Að minnsta kosti í hjarta sínu.
Í hruninu hrundi jafnframt traust íslensks almennings á stjórnmálum. Það traust hefur ekki byggst upp aftur og atburðir síðustu daga eru ekki fallnir til þess að auka það. Það er alvarleg staða fyrir lýðræðið í landinu og stofnanir samfélagsins.

Ríkisstjórnin sem nú hefur fengið nýjan karl í brúna er stórlega löskuð og áttar sig á því sjálf enda búin að lofa að flýta kosningum. Það verður þó ekki séð að hún geri sér grein fyrir alvarleika málsins. Ráðherrar hennar tönnlast á því að þeir þurfi að fá rými til að ljúka verkum sem krefjast alls ekki þeirra návistar. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar sýnt að henni er ekki treystandi til að takast á við alvarleg mál á borð við þau sem voru afhjúpuð í Kastljósi síðastliðinn sunnudag. Og tilraunir hennar til að sitja áfram munu draga enn meira úr trausti á stofnanir samfélagsins sem mega engan veginn við því, munu draga enn úr trausti á stjórnmálunum sem mega ekki við því og draga úr trausti á lýðræðinu, sem er alvarlegast af öllu.

Herra forseti. Við alþingismenn verðum að horfast í augu við ábyrgð okkar. Við berum ábyrgð á stöðu lýðræðisins í landinu. Við verðum að gera eitthvað sem gefur fólkinu í landinu ástæðu til að treysta okkur fyrir því verkefni. Það er margfalt mikilvægara en líf ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar. Þessi ríkisstjórn nýtur ekki trausts til að grípa til raunverulegra aðgerða til að upplýsa um eignir Íslendinga í skattaskjólum og vinna gegn skattaskjólum enda sitja enn í henni ráðherrar sem voru afhjúpaðir með birtingu Panama-skjalanna.
Þessi ríkisstjórn hefur ekki burði til að byggja upp traust á lýðræðið í þessu landi. Það verkefni er mikilvægara öllum öðrum.

Herra forseti. Ég lýsi yfir vantrausti á þessa ríkisstjórn og legg til að við setjum völdin í hendur íslensks almennings sem þarf að fá tækifæri til að lýsa skoðun sinni og kjósa fulltrúa sem treyst er til mikilvægra verka. Þingrof og kosningar núna.

Katrín Jakobsdóttir við nýja ríkisstjórn

“Herra forseti.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum vorið 2013 kynnti hún stefnuyfirlýsingu þar sem sagði í inngangi: „Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar, eftir að forsætisráðherra hefur stigið til hliðar með 10% traust, er óhætt að segja að þetta markmið hafi ekki tekist. Það má velta fyrir sér hvaða trausts hann – eða Ísland – njóti núna erlendis.

Það má segja að ríkisstjórnin sé orðin eins og party sem hefur staðið of lengi. Partý sem hefði átt að ljúka á miðnætti stendur enn í blokkinni og klukkan er orðin þrjú. Nágrannarnir eru búnir að hringja á lögguna, almenningur er mættur á Austurvöll og biður ríkisstjórnina vinsamlegast að fara og að boðað verði til kosninga. Einstaka gestir í partýinu eru farnir að huga sér til hreyfings, þeir eru búnir að hringja á bíl því þeir átta sig á að gamanið er búið.

Allir ráðherrar með tengsl við aflandsfélög eiga að segja af sér, segir háttvirtur þingmaður Unnur Brá Konráðsdóttir,. Fyrrverandi forsætisráðherra á að segja af sér þingmennsku segir háttvirtur þingmaður Höskuldur Þór Þórhalldsson, háttvoirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugssonsegir að mál hans sé algjörlega sambærilegt við hans eigin mál – við getum dregið þá ályktun að hann telji að hann eigi að stíga til hliðar eins og háttvirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sjálfur gert. Allir sem eru með augun opin vita að partýið er búið. Partýhaldarinn vill hins vegar halda áfram, hann telur eitthvað ógert, hann vill spila Wild Boys einu sinni enn eða jafnvel tvisvar, hann vill selja nokkra banka, afnema verðtrygginguna, klára nokkur mál eins og húsnæðismálin sem stjórnaflokkarnir koma sér ekki einu sinni saman af, afnám hafta sem allir flokkar eiga að geta leyst sameiginlega – það þarf ekki þessa stjórnarflokka til.

Þótt ég óski hæstvirtum forsætisráðherra til hamingju með embættið þá þykir mér leitt að segja honum að partýið er búið.

Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar er kölluð í gamni stigamannastjórnin eftir blaðamannafund þeirra Bjarna Benediktssonar í stiga Alþingis í fyrrakvöld. Hvort sem við köllum hana stigamannastjórnina eða ríkisstjórn ríka fólksins, gildir það einu.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við fékk hún upp í hendurnar samfélag þar sem almenningur hafði sýnt dugnað og fórnfýsi við að koma fótunum undir samfélagið eftir efnahagshrunið og leggja grunninn að bjartari tímum.

Allt var til staðar svo að hefja mætti uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og velferðarkerfisins og síðast en ekki síst endurnýja traust almennings á stjórnmálunum. Traust staða ríkissjóðs, réttlátt skattkerfi og endurlífgað atvinnulíf. Allt var til staðar sem þurfti til að stíga næsta skref í endurreisninni.

Við héldum líka að við hefðum farið í gegnum uppgjör við hrunið.Rannsóknarskýrsla, samþykktir Alþingis um bætt vinnubrögð, þjóðfundur þar sem mikilvægasta gildi þjóðarinnar var heiðarleiki – heiðarleiki sem er forsenda þess að hægt sé að byggja upp traust.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lofaði öllu fögru. Ekki aðeins sagðist hún ætla að starfa í þágu almannahags, virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi og tortryggni, eyða pólitískri óvissu. Hún ætlaði líka að vinna að víðtækri sátt á vinnumarkaði, treysta undirstöður velferðar og hlúa að þeim sem höllum fæti standa svo fátt eitt sé nefnt.

Hvað stendur eftir af þessum markmiðum? Eða, var þetta eingöngu misskilningur eins og svo margt annað? Að minnsta kosti talaði nýr forsætisráðherra nokkrum sinnum um að hann væri misskilinn hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær, alveg eins og sá gamli var stundum misskilinn mörgum sinnum á dag.

Á þessu kjörtímabili hafa verið mestu vinnudeilur sem við höfum séð í marga áratugi. Ríkisstjórnin hefur ítrekað valið að setja lög á vinnudeilur. Yfir 85 þúsund Íslendingar hafa undirritað áskorun um að 11% af landsframleiðslu verði varið til heilbrigðismála. Svar ríkisstjórnarinnar er, þvert á vilja meirihluta almennings, að auka einkarekstur í grunnstoðum heilbrigðiskerfisins.

Í upphafi kjörtímabilsins voru allar forsendur til staðar til að hefja stórsókn að betra samfélagi.

Ríkisstjórnin gerði það hins vegar að sínu forgangsmáli að draga úr getu ríkissjóðs til að ráðast í það mikilvæga verkefni að efla samfélagið og velferðarkerfið. Veiðigjöld, sem tryggðu þjóðinni eðlilegan arð af nýtingu sjávarauðlindarinnar, voru afnumin. Auðlegðarskattur, sem tryggði að auðugasta fólk samfélagsins gæti lagt stærra lóð á vogaskálarnar en aðrir, var ekki framlengdur. Framsækið skattkerfi sem dreifði byrðunum með réttlátum hætti á alla þáttakendur í samfélaginu var sent í tætarann. Orkuskattar á stóriðjuna voru ekki framlengdir.

Hverjum gagnaðist þetta? Almenningi í landinu? Nei! Þetta hefur Ríkissstjórn ríka fólksins gert í þágu stórútgerðarinnar, alþjóðlegra álfyrirtækja, efnaðasta fólksins – í þágu hinna ríku.

Tíðindin sem núna eru mál málanna, að fámennur hópur ríkra Íslendinga eigi eignir í skattaskjólum, og hafi tryggt það að Íslendingar eiga heimsmet í að setja á laggirnar aflandsfélög í skattaskjólum, staðfestir að í þessu landi búa tvær þjóðir. Við sem neyddumst til að takast á við afleiðingar Hrunsins og svo þessi fámenni hópur sem hafði allt sitt í öruggu skjóli, fámennur hópur þar sem finna má auðkýfinga og ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Það hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur milli ráðamanna og almennings í landinu. Ríkisstjórn Íslands hefur glatað einstöku tækifæri til að halda áfram uppbyggingu íslensks samfélags. Og ekki aðeins tækifærinu til að byggja upp traust á milli stjórnmálanna og almennings í landinu – hún hefur gjörsamlega eytt því litla trausti sem þó var til staðar. Líka traustinu sem Ísland hafði þó náð að afla sér erlendis eftir hrun.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fór illa með umboð sitt, við hana voru bundnar væntingar sem hafa reynst vera falskar. Þess vegna þarf almenningur að fá tækifæri til þess að kjósa og gefa alþingismönnum nýtt umboð. Mikilvægasta verkefnið er nefnilega að byggja upp traust á lýðræðið í þessu landi. Það verkefni er mikilvægara öllum öðrum. Og það verkefni mun reynast þessari ríkisstjórn ofviða.”

Hvernig gengur ríkisstjórnarsamstarfið?

Katrín Jakobsdóttir spurði Bjarna Benediktsson aðeins út í ríkisstjórnarsamstarfið og hvernig það raunverulega gengur.

Herra forseti. Það er svo sem ekkert leiðinlegt að vera í stjórnarandstöðu á þessu kjörtímabili. Það er svo margt sem fyrir augu ber sem illkvittnir þingmenn stjórnarandstöðunnar kunna að hafa gaman af.

  • Við getum rifjað upp fyrirvara þingflokks Framsóknarflokksins við heilt fjárlagafrumvarp frá ráðherra.
  • Við getum rifjað upp breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem aldrei komu fram. Við getum rifjað upp húsnæðisfrumvörpin sem voru mjög lengi í fæðingu, og orkustykkin sem félagsmálaráðherra sendi fjármálaráðherra til að reka hana áfram.
  • Við getum talað aðeins um afnám verðtryggingar og kosningaloforð Framsóknarflokksins um það mál.
  • Við getum talað um bankasöluna sem fjármálaráðherra stendur fyrir en Framsóknarflokkurinn er á móti.
  • Við getum talað um tillögur um úrbætur í fæðingarorlofsmálum sem einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala á móti.
  • Við getum talað um búvörusamninga sem einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala líka á móti.
  • Og svo getum við talað svolítið um Landspítalann sem ekki bara einhver þingmaður talar á móti staðsetningu á, staðsetningu sem margákveðin hefur verið á Alþingi, heldur er það sjálfur forsætisráðherra sem er leiðtogi ríkisstjórnarinnar.

Það kann að vera besta skemmtun fyrir einhverja illkvittna þingmenn stjórnarandstöðunnar að rifja það upp, en það er auðvitað ekkert skemmtilegt fyrir þá sem þurfa að vinna undir hæstvirtri ríkisstjórn, til dæmis þá sem eiga að stýra málefnum þjóðarsjúkrahússins.

Mig langar að spyrja fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins: Heilbrigðisráðherra hefur komið fram og sagt að forsætisráðherra sé í raun og veru að bara að tala út í loftið, leiðtogi ríkisstjórnarinnar.

Fylgir ríkisstjórnin þá ekki sínum forsætisráðherra að málum? Er kannski ástæða til þess, ekki fyrir mig eða aðra í stjórnarandstöðunni heldur fyrir þá sem þurfa að vinna undir leiðsögn ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórnin skoði samstarf sitt og stofni kannski sérstaka ráðherranefnd um bætt samstarf?

Gildi lýðræðisríkja í hættu

Tugir milljóna fólks eru á flótta í heiminum um þessar mundir. Í Evrópu er fátt um annað talað en hvernig megi leysa vandann sameiginlega en því miður virðast afleiðingarnar vera þær að ólík ríki keppast við að loka landamærum sínum. Meira að segja á Norðurlöndunum hafa sterkustu stoðir norræns samstarfs, frjáls för og vegabréfafrelsi, riðað til falls. Áhrif öfga hægriflokka í norrænum ríkisstjórnum gera flóttamönnum erfiðara að nýta rétt sinn til að sækja um hæli og víða í Evrópu má sjá einstök ríki girða sig af, jafnvel með því að reisa aðskilnaðarmúra.

Nú nýlega komst á viðkvæmt vopnahlé í Sýrlandi og að sjálfsögðu má vona að það leiði af sér varanlegri lausnir, raunverulegt samninga- og friðarferli, til að finna varanlega pólitíska lausn á þeim átökunum. Hins vegar er full ástæða til að hafa áhyggjur í ljósi þess að stríðið í Sýrlandi hefur staðið síðan 2011 og enginn raunverulegur pólitískur þrýstingur hefur verið á lausn mála. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við stríðinu hafa einkennst af máttleysi og sama má segja um viðbrögð við flóttamannastrauminum.

Um helgina funduðu fulltrúar evrópskra vinstriflokka hér á Íslandi í boði Vinstri-grænna. Fulltrúi Syriza, vinstriflokksins í Grikklandi, var þungorður um stöðuna í Grikklandi og talaði um nauðsyn þess að evrópsk ríki vinni saman að lausn. Hins vegar lítur ástandið ekki vel út núna. Nágrannar Grikkja virðast vera á þeirri vegferð að loka sínum landamærum. Hræðilegar fréttir berast af því hvernig fólki í neyð er bægt frá landamærum. Stjórnmálamenn tala jafnvel fyrir því að flóttamenn séu réttdræpir.

Það er ljóst að vestræn lýðræðissamfélög sem hafa stolt staðið fyrir gildi á borð við lýðræði, mannréttindi og frjálsa för, eru ekki að bregðast við vandanum sem skyldi. Viðbrögð sumra ríkja í Evrópu hafa beinlínis verið þveröfug. Flóttamannastraumurinn kallar einmitt ekki á aðskilnaðarstefnu og einangrun heldur meiri og öflugri samvinnu en nokkru sinni fyrr. Það er nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulag Dyflinnarreglugerðarinnar og skipta ábyrgð milli móttökulanda á sanngjarnan hátt. Svarið getur ekki verið að sitja hjá meðan flóttamannabúðir Grikklandi, Ítalíu og Makedóníu stækka. Svarið getur ekki verið að loka landamærum þannig að flóttamenn lendi í enn meiri hættu en nú er. Nú þegar hverfur fjöldi flóttafólks og lendir í höndum skipulagðra glæpasamtaka, ekki síst konur og börn.

Ef ekki tekst að finna lausn er gildum vestrænna samfélaga ógnað, sjálfri mennskunni er ógnað. Lausnin verður að fela í sér raunverulega pólitíska lausn á átökunum í Sýrlandi.  Í framhaldinu þarf að sameinast um aukna þróunaraðstoð til lengri tíma en líka þurfa ríkari lönd að standa saman að sérstakri neyðaraðstoð ef friðarsamkomulag næst til að byggja upp innviði á þessu svæði. Þar með er ekki sagt að allt verði leyst því víða um heim er ófriðvænlegt og ekki ólíklegt að fólk haldi áfram að vera á flótta víða um heim. En við megum ekki gleyma þeim kjarna sem vestrænt lýðræði byggist á: Að við berum virðingu fyrir manngildinu óháð þjóðerni og það er beinlínis skylda okkar að vinna að lausnum sem samrýmast þeim mannréttindasáttmálum sem við höfum komið okkur saman um á vettvangi alþjóðasamfélagsins.

Katrín Jakobsdóttir

Krafan um aukna velsæld

Meira en fimmtíu þúsund Íslendingar hafa skrifað undir kröfu um endurreisn heilbrigðiskerfisins, þar sem þess er krafist að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið í heilbrigðismál. Ýmsir hafa orðið til þess að gagnrýna að 11% séu nefnd sem viðmið og ýmsir fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa spurt á móti hvaðan eigi að taka peningana og telja að þessi krafa kalli á niðurskurð á öðrum sviðum.

Ég er ósammála þeim málflutningi. Ég tel mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi leggi við eyrun þegar stór hluti landsmanna skrifar undir kröfu sem þessa. Krafan snýst um að styrkja heilbrigðisþjónustuna og snertir því eitt af grundvallaratriðum allrar stjórnmálaumræðu, þ.e. hvert á umfang samneyslunnar að vera og hvernig ætlum við að fjármagna hana.

Staðreyndin er sú að allt frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur hún markvisst gengið fram í því að veikja tekjustofna ríkisins. Þar nægir að minna á að eitt af fyrstu málum ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðigjöld og hefur útgerðin þannig greitt tugmilljörðum minna til þjóðarinnar undanfarin þrjú ár en ella. Þá má nefna að ákveðið var að framlengja ekki auðlegðarskattinn og ekki heldur orkuskattinn. Þá hefur tekjuskattur á einstaklinga verið lækkaður.

Þessi staða hefur leitt til þess að afgangur af ríkissjóði hefur orðið mun minni en ef haldið hefði verið áfram á sömu braut og mörkuð var á síðasta kjörtímabili. Fyrir síðustu kosningar, 2013, lögðum við Vinstri-græn fram ríkisfjármálaáætlun sem miðaðist við að skattar yrðu ekki hækkaðir en haldið yrði óbreyttri stefnu í tekjuöflun og þar með yrði skapað svigrúm til að styrkja innviði samfélagins. Meðal áherslumála okkar voru að efla heilsugæslu og byggja nýjan spítala, fyrir utan aðra uppbyggingu á sviði heilbrigðis, velferðar- og menntamála.

Þegar stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar spyrja þá 50 þúsund Íslendinga hvaðan þeir vilji taka fjármunina til að efla heilbrigðiskerfið er eðlilegt að benda á að allar þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar voru og eru pólitískt val en ekki nauðsyn. Það hefur verið pólitísk stefna stjórnvalda að lækka skatta sem samrýmist svo sem ágætlega þeirri hægristefnu sem hún stendur fyrir; þ.e. að draga úr umfangi velferðarkerfisins og samneyslunnar, draga úr jöfnuði með skattkerfisbreytingum og lækka skatta og gjöld á þá sem mest hafa milli handanna.

Íslendingar virðast vilja efla samneysluna og skoðanakannanir sýna mikinn stuðning landsmanna við öflugt félagslegt heilbrigðiskerfi, öflugt menntakerfi og öfluga velferð. Stjórnmálamenn geta ekki leyft sér annað en að hlusta á þessar kröfur. Og þeir verða að vera reiðubúnir að afla þeirra tekna sem þarf til að tryggja samfélagsinnviði. Ég er raunar fullviss um það að landsmenn eru reiðubúnir til þess að leggja meira af mörkum til að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið og velferðina, ekki síst ef þeirri tekjuöflun er dreift með réttlátum og sanngjarnari hætti þannig að hinir efnameiri leggi meira af mörkum en þeir sem minna hafa. Það er ábyrg stefna sem mun tryggja aukna velsæld landsmanna allra til lengri tíma.

Katrín Jakobsdóttir