Posts

Áfram er dregið úr þjónustu á landsbyggðinni!

Íslandspóstur hf. ætlar að fækka dreifingardögum í dreifbýli í annan hvern dag og fækka landpóstum og er sú ákvörðun byggð á heimild í nýrri reglugerð innanríkisráðuneytisins.

Ég tók þessi mál upp í fyrirspurnartíma Alþingis þar sem innanríkisráðherra var til svara og lýsti því yfir að mér þætti þetta vera aðför að dreifðum byggðum.

Ráðherra taldi að ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af þessum breytingum, þjónustan yrði til staðar áfram, gegn gjaldi „nota bene“, og þjónustukönnun sýndi að ekki væri almenn andstaða við sveigjanleika í dreifingu póstsins og póstsamskipti hefðu færst mikið yfir á netið. Ég vil benda á að aukin þjónusta og verslun á netinu nær ekki til allra dreifðra byggða og enn er langt í land að tryggð sé háhraðanettenging til allra landsmanna.

Mótmæli frá fulltrúum landsbyggðarinnar

Margar sveitastjórnir í dreifbýli hafa eðlilega mótmælt þessum áformum harðlega og benda á máli sínu til stuðnings að þarna sé um afturför og veikingu á búsetuskilyrðum að ræða. Lítið samráð hefur verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtökin í þessu máli og ýmsar athugasemdir hafa komið við það af þeirra hálfu. Íbúar í dreifbýli hafa nú þegar mátt þola fækkun afgreiðslustöðva Póstsins á undanförnum árum þrátt fyrir að þurfa að reiða sig á póstþjónustuna þar sem þeir eru fjarri fjölbreyttri þjónustu og markaðssvæðum. Þessi ákvörðun kemur líka ofan á ýmsa aðra þjónustuskerðingu af hálfu opinberra- og einkaaðila að undanförnu.

Góð fimm daga þjónusta Póstsins hefur skipt dreifðar byggðir miklu máli og má þar m.a. nefna lyfjasendingar fyrir fólk og búfé og ýmiss konar birgða og varahlutaþjónustu.

Íslandspóstur hf. talar um að póstinum verði að lágmarki dreift annan hvern dag og að í dreifbýli verði boðið upp á heimsendingu gegn greiðslu alla virka daga eftir því sem óskað verður eftir. Sem sagt, enn einn landsbyggðarskatturinn á ferðinni þar sem þjónustan verður verðlögð sérstaklega umfram dreifingu annan hvern dag. Með þessum áformum ætlar Pósturinn að spara um 200 m.kr í boði veikustu byggðanna í landinu. Ég hef sagt að ef sú ákvörðun verður tekin af yfirvöldum að það sé ekki þörf fyrir dreifingu á pósti nema annan hvern dag þá hljóti það að gilda jafnt um alla landsmenn. Mín skoðun er eftir sem áður sú að Íslandspóstur hf. eigi áfram að halda uppi 5 daga góðri alþjónustu fyrir alla landsmenn. Ég bind vonir við að ákvörðun Íslandspósts hf. um skerðingu á þjónustu verði endurskoðuð og reglugerð innanríkisráðherra sem heimilar þessa þjónustuskerðingu verði dregin til baka. Landsbyggðarþingmenn hljóta að standa saman gegn þessum áformum og ég bind í það minnsta vonir við að samstaða náist um að allir landsmenn sitji við sama borð og njóti alþjónustu Íslandspósts hf. áfram fimm daga vikunnar.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður VG í Norðvesturkjördæmi

Landsbyggðin fjársvelt?

Þingmenn VG voru á fleygiferð í liðinni viku, kjördæmaviku, og sátu fundi með sveitastjórnarfólki og forsvarsfólki helstu stofnanna. Þingmenn hittu íbúa og góða félaga um land allt ásamt því að sitja kraftmikla fundi bænda og samtaka sveitafélaga og heimsóttu stofnanir á borð við Skaftfell – miðstöð myndlistar á Austurlandi –  Háskóla Íslands, Lýðháskólann LungA og Mími símenntun.

Þrátt fyrir góða og upplýsandi fundi má fullyrða að sveitastjórnarfólk hvar sem er á landinu hafi viðrað sömu áhyggjur sínar við þingmenn. Þær áhyggjur snúast um að þrátt fyrir batnandi stöðu ríkissjóðs er mikill skortur á nauðsynlegu fjárframlagi ríkisins til innviða samfélaga á landsbyggðinni, uppbyggingu samfélagsþjónustu og almenns viðhalds á grunnþjónustu við íbúa.

Lilja Rafney orðar það svo eftir fundi sína og heimsóknir í Norðvesturkjördæmi;

„Mikil óánægja var meðal sveitastjórnarfólks að í fyrirliggjandi fjárlögum er landsbyggðin fjársvelt í allri innviðauppbyggingu s.s, samgöngum, framhaldsskólunum og heilbrigðismálum. Einnig var rætt við okkur að hægt gangi að fjármagna háhraðatengingar og að jafna orkukostnað. Segja má að það sem brann á sveitastjórnarmönnum í ferðum okkar vorum miklar áhyggjur af vanfjármögnun á málefnum fatlaðra. Fólk var líka áhyggjufullt yfir þróuninni í almenningssamgöngum þar sem einkaaðilar eru að fara inn á sérleyfi strætó. Mikil óánægja var með lokanir útibúa Landsbankans og mikla fækkun opinberra starfa í kjördæminu. Hávær krafa var gerð á að stjórnvöld kæmu með innspýtingu inn í grunngerð samfélaganna, sem mörg hver væru orðin brothættar byggðir og að stjórnvöld sýndu í verki en ekki bara í fögrum fyrirheitum að efnahagsbatinn skila sér út á landsbyggðina sem ekki er að njóta þenslunnar á höfuðborgarsvæðinu.“

Í sama streng tekur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir eftir ferðalög og fundi þingmanna með sveitastjórnarfólki  í Norðausturkjördæmi;

„Það sem stendur uppúr eftir kjördæmaviku eru áhyggjur fólks af samgöngumálum og  ljósleiðaratengingu, tekjuskipting sveitarfélaga og ríkisins og áhyggjur af brölti Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, með framhaldsskólana.“

Landsbyggðargleraugun og þjóðarkakan

Fjárlögin liggja nú fyrir, fyrsta umræða hefur farið fram og frumvarpið komið til fjárlaganefndar. Nú þegar afrakstur erfiðra aðgerða sem gerðar voru vegna efnahagshrunsins er að skila ríkissjóði góðum tekjuafgangi mætti ætla að fjárlögin bæru þess vitni og veruleg innspýting væri í málaflokka sem höfðu tekið á sig skerðingar og nú væri komið að því að setja verulega fjármuni í innviðauppbyggingu samfélagsins.

Nei, því er nú ekki fyrir að fara heldur eru málaflokkar eins og samgöngumál svelt, fjarskiptaáætlun og fyrirætlanir um ljósleiðaratengingu til dreifðra byggða vanfjármögnuð, framhaldsskólarnir skornir niður í nemendaígildum, skorið er niður til byggða og sóknaráætlana og stuðningur til brothættra byggða felldur niður.

Þessar áherslur bera þess ekki merki að hagsmunir landsbyggðarinnar séu ofarlega á blaði hjá þessari ríkisstjórn.

En áfram skal haldið og dregið er úr jöfnun námskostnaðar. Enn vantar mikið uppá að jöfnun orkukostnaðar sé komin í höfn og enn er sami vandræðagangurinn með fjármögnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og í hann settir alltof litlir fjármunir miðað við þá gífurlegu aukningu ferðamanna sem streyma til landsins.

Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig eigi að mæta þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við og þá sérstaklega gagnvart ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill gleymast að margir staðir á landsbyggðinni glíma við húsnæðisskort og víða er það vandamál að fólk sem vill setjast þar að fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér í að byggja því eignin er verðfelld um leið og fasteignamatið liggur fyrir. Í þessum málaflokki liggja engar heildarlausnir fyrir og alltof litlum fjármunum er varið í væntanlegar úrbætur. Vaxtabætur eru skornar niður um 1.5 milljarð og barnabætur fylgja ekki verðlagi og fæðingarorlofssjóður er sveltur.

Ríkisstjórnin gefur á garðinn áfram til þeirra efnameiri og lækkar á þá skatta eins og enginn sé morgundagurinn. Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og aðstæður? Verið er að leggja af þrepaskipta skattakerfið sem er miklu sanngjarnara gagnvart þeim tekjuminni ,eflaust hefði mátt endurskoða prósentutöluna og bilið á milli þrepa en fækkun þrepa þýðir bara eitt, þ.e. lægri skatta á þá efnameiri.

Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við aflétt sköttum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auðlegðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda og tolla sem hún hampar nú svo mjög. En gleymum ekki því að hún hækkaði matarskattinn svo um munaði og aukinn kostnaður er í ýmiss konar beinum kostnaði fyrir almenning í heilbrigðis og menntakerfinu.

Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lágum sköttum en íþyngja svo almenningi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekjuminni. Tryggingagjaldið er lækkað sáralítið en það hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi. Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa sínum tekjum sjálft og skattar séu af hinu vonda. En fólkið í landinu gerir kröfur til jöfnuðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og fjarskipta. Einnig að laun elli- og örorkulífeyrisþega fylgi launaþróun svo hægt sé að lifa sómasamlegu lífi og að þeim sé tryggt öruggt ævikvöld. Ef þetta á að ganga eftir þá verða allir að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra sjóða og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni sem eru orðin æði mörg og bíða úrlausnar. Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórnin hefur kosið að afsala sér í tekjum frá þeim best settu og nýtt t.d. í uppbyggingu Landspítalans og annarra þjóðþrifamála sem ég hef nefnt hér að ofan

En veldur hver á heldur og ég gef þessari ríkisstjórn ekki háa einkunn fyrir stjórn landsins en það kemur kannski ekki á óvart af hægri stjórn að vera sem mylur undir þá sem nóg eiga fyrir!

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður VG í Norðvesturkjördæmi

Eflum landsbyggðirnar

Lilja Rafney Magnúsdóttir stóð fyrir sérstakri umræðu um vanda veikra byggða í dag. Til svara var Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra. Til grundvallar umræðunni var þingsályktunartillaga sem Lilja Rafney, Steingrímur og Steinunn Þóra hafa lagt fram og er um eflingu brothættra byggða og byggðafestu aflaheimilda.

Tillagan eykur vöxt byggðanna

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að ráðherra verði falið að vinna að framtíðarstefnumörkun um eflingu brothættra byggða í samráði við Byggðastofnun og aðra hagsmunaaðila. Gagnvart sjávarbyggðunum verði m.a. lögð til grundvallar byggðafesta aflaheimilda ásamt því að skoða hvaða stuðningsúrræði dugi best svo auka megi vöxt og stöðugleika í veikum byggðum þar sem landbúnaður, matvælaframleiðsla eða ferðaþjónusta er grunnur byggðar.

Eina sem þarf er vilji

Lilja Rafney lagði áherslu á að aðgerðir í þágu þessa byggða þyldi enga bið og byggðafesta aflaheimilda væri leið sem myndi skila sér strax til að treysta grundvöll sjávarbyggðanna og atvinnuöryggi fólks. Þessar byggðir vilja engar ölmusugjafir heldur vilja þau lifa á landsins gæðum og geta framfleytt sér með sjálfbærum hætti og njóta sömu grunnþjónustu og aðrir landsmenn.
Lilja Rafney sagði jafnframt að vilji sé allt sem þarf, og að sú þingsályktunartillaga sem þingmenn Vinstri grænna hafa flutt sé mál sem allir flokkar ættu að geta sameinast um og sýna þar með viljann í verki.

Vandi brothættra byggða

Þriðjudaginn 3. mars 2015, lögðu VG-þingmennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Steinunn Þóra Árnadóttir fram tillögu til þingsályktunar um eflingu brothættra byggða og byggðafestu veiðiheimilda. Þetta þingmál miðar að því að gerð verði gangskör að því að tryggja tilveru svonefndra brothættra sjávarbyggða með því að byggðafesta þar veiðiheimildir en í þeim byggðum þar sem sú ráðstöfun getur ekki orðið að notum verði beitt aðferðum sem mótast hafa í samvinnuverkefni Byggðastofnunar og heimamanna í svonefndum brothættum byggðum. Þarna hefur verið farið inn á nýjar brautir í byggðamálum þar sem þekking, viðhorf og væntingar heimafólks eru mikils ráðandi um skipulag og framkvæmd aðgerða.

Þessu tengt er að næstkomandi fimmtudag, kl. 11, fer fram á Alþingi sérstök umræða þar sem Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ræða um vanda brothætta byggða og þær leiðir sem unnt er að fara til að tryggja framtíð þeirra.

Þorpin okkar

Það eiga margir rætur sínar að rekja til sjávarþorpanna vítt og breitt um landið, þorp sem kúra undir fjallshlíðum eða eru við víkur og voga. Þau hafa orðið til og byggst upp vegna hagstæðrar legu sinnar við sjó og góðs aðgengis að gjöfulum fiskimiðum og í framhaldinu hefur byggst upp góð hafnaraðstaða til að sinna sjávarútvegnum ásamt vöru og þjónustuviðskiptum.

Þessi sjávarþorp eiga sér mikla sögu og þar hefur lífið ekki bara verið saltfiskur, þar hefur menning og nýsköpun blómstrað og margir andansmenn vaxið úr grasi , lifað og starfað
m.a.rithöfundar,tónlistarmenn,leikarar,frumkvöðlar, vísindamenn,læknar , skólafólk og stjórnmálamenn hafa talið sér það til tekna að hafa vaxið úr grasi og þroskast í sjávarþorpi.

Hin seinni ár hefur byggð í mörgum sjávarþorpum farið hnignandi og greinir mönnum á hverju er um að kenna , er það eingöngu hinn mikli sogkraftur til þéttbýlisins sem ræður för eða eru það fleiri þættir og mannana verk sem vegur þar þyngst. Ég er ekki í nokkrum vafa um það sem þorpari sjálf að þetta hvortveggja hefur mikið að segja og margir samspilandi þættir eru orsakavaldar. Stærsti orsakavaldurinn er hið niðurnjörfaða kvótakerfi sem lýtur eingöngu lögmálum markaðarins að því leyti að hinir stóru og sterku gleypa hina minni í greininni með tímanum og samfélagsleg sjónarmið ,frumbyggjarétturinn og starfsöryggi íbúa þorpanna er haft að engu og kastað út í hafsauga.

Einn góðan veðurdag er staðan sú að sjávarþorpin sem iðuðu af mannlífi og nægri atvinnu standa frammi fyrir því að þau megi ekki stunda sjósókn lengur, fiskvinnsla leggst af og þjónustuaðilar hverfa og önnur opinber starfsemi fjarar út smátt og smátt. Búið er að mergsjúga allt fjármagn í burtu svo að þeir sem eftir sitja hafa ekkert fjármagn né lánstraust til þess að skapa sér atvinnu eða gera eitthvað annað. Þannig birtist hinn kaldi veruleiki einu þorpi í dag og öðru á morgun og enginn veit hver verður næstur.

Er þetta sú byggðaþróun sem við viljum sem þjóð að sjávarþorpin okkar hringin í kringum landið standi frammi fyrir að þau dagi uppi með sýna menningu, fjölbreytt mannlíf og menningararf og sögu. Ég segi Nei ! Það getur ekki verið að við séum svo skammsýn að við ætlum að kasta fyrir róða öllum þeim mannauði og verðmætum sem skapast hafa í hverju sjávarþorpi það væri glapræði. En tíminn er naumur og byggðastefna liðinna ára hefur verið ómarkviss og handahófskennd og birtst í skammtímalækningum og plástrum hér og þar í stað þess að þora eða vilja taka á meininu sjálfu sem er að tryggja undirstöður þorpanna með aðgengi að fiskimiðunum og binda aflaheimildir varanlega við byggðirnar. Ég vil umbylta kvótakerfinu öllu en byggðafesta aflaheimilda við þessi þorp er aðgerð sem á strax að taka út fyrir sviga og fólk úr öllum flokkum á að sammælast um að framkvæma. Vilji er allt sem þarf ! Önnur brýn byggðamál eins og samgöngur,jöfnun búsetuskilyrða , góð heilbrigðis og menntunarskilyrði óháð búsetu verður áfram að berjast fyrir en undirstaðan verður að vera til staðar svo hægt verði að auka fjölbreytni í atvinnulífinu með góðri háhraðatengingu og ótal tækifærum í ferðaþjónustu og annari nýsköpun s.s. þjónustu við sjávarútveginn.

Sá mikli vandi sem íbúar Þingeyrar og Flateyrar standa nú frammi fyrir í atvinnumálum og glímt er við að leysa er ekkert einsdæmi og ekki fólkinu þar að kenna heldur ranglátu fiskveiðistjórnarkerfi sem stjórnmálamenn bera ábyrgð á og verða að gangast við og viðurkenna og grípa til varanlegra aðgerða ekki í formi ölmusu eða styrkja heldur að færa aftur réttinn til byggðanna til að sækja sjó og bjarga sé á eigin forsendum. Frumbyggjarétt þessara byggða á að virða og atvinnuréttindi íbúanna. Núverandi kynslóð skuldar líka forfeðrum sýnum sem byggðu upp þessi þorp með dugnaði og framsýni að skila aftur því sem frá sjávarbyggðunum hefur verið tekið með ákvörðun Alþingis það er „Lífsbjörginni“ !

Lilja Rafney Magnúsdótir alþingismaður Vinstri grænna Norðvesturkjördæmi.

Ráðherra verji frekar störf Fiskistofu sem þegar eru á landsbyggðinni

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók til máls á Alþingi í dag til að ræða flutning á störfum Fiskistofu.

Lilja Rafney benti á að starfsemi á starfsstöð Fiskistofu á Ísafirði hefur legið niðri frá áramótum og annað starfið þar auglýst laust til umsóknar. „Starfið er að vísu ekki hjá Fiskistofu og því síður á Ísafirði heldur er það hjá Matvælastofnun á Selfossi,“ sagði Lilja Rafney og bætti við að sjávarútvegsráðherra hafi verið búinn að lýsa því yfir að starfsstöðin á Ísafirði yrði að fá önnur verkefni ef önnur hyrfi. „Ekkert bólar á þeim verkefnum enn.“

„Hæstvirtur ráðherra telur rétt að flytja Fiskistofu með manni og mús til Akureyrar,“ og benti á að Umboðsmaður Alþingis hefur ákveðið að taka málið til skoðunar. „Á hvaða vegferð er hæstivirtur ráðherra? Ef hann vill landsbyggðinni svona vel og vill halda utan um starfsemi Fiskistofu úti á landi, af hverju ver hann þá ekki þau störf sem eru til staðar úti á landi?“ spurði Lilja Rafney og bætti svo við að ráðherra kysi í staðinn að „ryðjast áfram með eitthvað sem ekki er víst að sé lagagrundvöllur fyrir eins og flutning Fiskistofu til Akureyrar.“

Störf tapast í fjársveltum framhaldsskólum á landsbyggðinni

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók til máls á Alþingi í dag til að ræða niðurskurð í framhaldsskólum á landsbyggðinni.

Bjarkey benti á að á sama tíma og verið sé að ræða flutning heillar stofnunar út á land „sker Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður m.a. í framhaldsskólum landsins og fækkar þar með störfum.“ Bjarkey bætti við: „Þetta hefur mikil samfélagsleg áhrif þar sem skólanir á landsbyggðinni þurfa að hafa mikið fyrir tilvist sinni. Þeir halda nemendum í heimabyggð, það blómstrar menningarlífið, verslun og þjónusta styrkist og störfin verða til fyrir háskólamenntað fólk.“

„Landsbyggðarframhaldsskólarnir hafa líka haft þá sérstæðu að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið námstækifæri aftur,“ sagði Bjarkey og bætti við: „stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám t.d. með því að flytja í burtu eða fara í fjarnám.“ Bjarkey velti því líka upp hvernig stæði á þessum harkalega niðurskurði til landsbyggðarframhaldsskólanna: „Er undirrótin kannski sá að gera þessa litlu skóla smám saman óstarfhæfa til að það þurfi að sameina þá eða leggja þá af? Er það byggðastefna Sjálfstæðisflokksins?“

Flutningur fólks eða starfa

Eins ógeðfelldir og mér fundust fyrirhugaðir hreppaflutningar sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis á fólki á milli landshluta þá hugnast mér ekki frekar sú aðferðarfræði stjórnvalda að flytja stofnanir eins og Fiskistofu fyrirvaralaust með manni og mús á milli landshluta. Hvortveggja eru þetta ruddaleg vinnubrögð sem ekki eiga að viðgangast og lýsa vanvirðingu gagnvart starfsfólki og fjölskyldum þeirra.

Aðkoma Alþingis var engin að málinu og engar fjárheimildir lágu fyrir vegna kostnaðar af fyrirhuguðum flutningi þetta er óvönduð stjórnsýsla og setur svartan blett á það aðkallandi verkefni að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins í réttlátara hlutfalli en nú er.

Ég tel það vera mjög brýnt verkefni að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni ekki bara á þéttbýlustu stöðunum heldur ekki síður í fámennari byggðum þar sem því verður við komið að vinna verkefni sem staðsetning þeirra skiptir ekki öllu máli heldur gott starfsfólk og öruggar háhraðatengingar. Reynslan af staðsetningu opinberra starfa út um land hefur fyrir löngu sýnt fram á það að standast kröfur sem gerðar eru til faglegra vinnubragða og gott vinnuumhverfi og traust vinnuafl er þar líka til staðar.

Umfang hins opinbera hefur vaxið mjög á undanförnum 20 til 30 árum og fjölgun opinberra starfa hefur fyrst og fremst orðið á höfuðborgarsvæðinu þó tekist hafa að staðsetja nokkrar opinberar stofnanir úti á landi á liðnum árum þá er það eilíf barátta að halda þeim störfum áfram í heimabyggð. Það þekkja allir landsbyggðarþingmenn í gegnum tíðina þá baráttu sem er við hver fjárlög að verja starfsemi á landsbyggðinni þar sem um er að ræða fámenn stöðugildi sem mega ekki við neinum niðurskurði.

Það hefur verið sýnt fram á það í rannsóknum að mikið misræmi er í opinberum útgjöldum og skattheimtu eftir landsvæðum það hefur eflaust ekki verið markmið í sjálfum sér en landsbyggðin hefur beðið skaða af því en höfuðborgarsvæðið hefur notið þess.
Færð hafa verið rök fyrir því að viðskipti landsbyggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega meiri heldur en viðskipti höfuðborgarsvæðisins á landsbyggðinni. Í þessu samhengi er eðlilegt að líta til frekari flutnings opinberra starfa út á land til að jafna það efnahagslega misræmi sem er staðreynd og hið opinbera ber líka ábyrgð á með stjórnvaldsákvörðunum sínum í gegnum tíðina.

Stjórnvöld verða að vinna eftir skýrt markaðri stefnu í flutningi opinberra starfa út á land og að þar samræmi ráðuneyti og opinberar stofnanir vinnu sýna og gangi í takt. Kynna verður með eðlilegum fyrirvara flutning á starfsemi ríkisins á milli landssvæða og gæta vel að mannlega þættinum og réttindum þeirra starfsmanna sem hlut eiga að máli og líta sérstaklega til nýrra verkefna og starfa sem verða til hjá hinu opinbera. Að sjálfsögðu á að tryggja aðkomu Alþingis að þeirri stefnumótunarvinnu og að fjárlögin endurspegli þann vilja.

Allur undirbúningur þarf að vera vandaður og landið kortlagt hvar störfum,verkefnum og starfsemi er best fyrirkomið og þá tel ég að ekki síst eigi að horfa til þeirra svæða sem átt hafa undir högg að sækja undanfarin ár og þurfa virkilega á fjölbreyttni að halda og þar eru góðar háhraðatengingar lykilatriði.
Það má nefna verkefni sem flust hafa til landsbyggðarinnar í gegnum árin og vel hefur tekist til með eins og Byggðastofnun á Sauðárkróki,Skógræktina á Héraði, Landmælingar Íslands á Akranesi,Greiðslustofu Atvinnuleysistryggingarsjóðs á Skagaströnd og Skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga. En ég get líka nefnt dæmi um verkefni hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga sem sett var niður á Flateyri en gekk ekki upp vegna lélegra háhraðatenginga og var færð yfir á Ísafjörð og það er ekki neitt einsdæmi að skortur á öflugum gagnaflutningi á landsbyggðinni hamli atvinnuuppbyggingu.

Því miður hafa opinberar stofnanir eins og Fiskistofa t.d. verið að hringla með störf í útibúum sínum úti á landi í skjóli breytinga sem orðið hefur til þess að faglært fólk hefur hrakist í burtu. Starfstöð Fiskistofu á Ísafirði hefur verið lokuð frá áramótum en veiðieftirliti stofnunarinnar hafði verið hætt og starfstöð fiskeldis komið í staðin en henni var lokað um áramótin og engin starfsemi er það í gangi nú og óvissa um framhaldið. Þetta er dæmi um hve auðvelt er fyrir pólitíkusa og stjórnvöld að skella í lás þegar um litlar starfstöðvar er að ræða og dæmi um óvönduð vinnubrögð.

Það á ekki að kynda undir elda milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins með óvönduðum vinnubrögðum við flutning starfa og starfsemi út á land heldur vanda vel til verka og sýna það líka í fjárlögum að menn vilji efla opinbera starfsemi út um land en síðustu fjárlög báru þess ekki merki þar sem gífurlegur niðurskurður var í mörgum verkefnum á landsbyggðinni eins og Sóknaráætlun landshlutanna er gleggsta dæmið um.

Landsbyggðin þarf á fjölbreyttari atvinnutækifærum að halda og það eru sameiginlegir hagsmunir allra landsmanna að vel takist til með flutning opinberra starfa og uppbyggingu atvinnustarfsemi á landsbyggðinni því hún er jú einn stærsti viðskiptavinur höfuðborgarsvæðisins.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður