Posts

Katrín kalla eftir útspili ríkisstjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna spurði heilbrigðisráðherra um stöðu heilbrigðisstofnana eftir nýsett lög á verkföll hjúkrunarfræðinga og Bandalag háskólamanna. Katrín benti þær miklu uppsagnir sem framundan eru meðal hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og vísaði til orða heilbrigðisráðherra um að heilbrigðisstofnanir þyrftu að takast á við þennan veruleika. „Það er ekki hægt að vísa allri ábyrgð á því að takast á við þennan vanda, sem núna blasir við, yfir á stofnanirnar.“ sagði Katrín og spurði ráðherra að lokum: „Hvert verður framlag stjórnvalda til að leysa þennan brýna vanda heilbrigðisstofnana?“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagðist í svari sínu ekki hafa yfirsýn yfir þann vanda sem við blasti að öðru leyti en því að vandinn væri „klárlega vaxandi“. Ráðherra sagðist ekki sjá fram á lausn á vandanum á næstu vikum eða mánuðum enda legðust sumarleyfi starfsmanna ofan á vandann sem nú væri að skapast.

Í seinni ræðu sagði Katrín að brýn þörf væri á útspili stjórnvalda: „Ég get ekki annað en tekið mark á þeim forystumönnum innan heilbrigðisþjónustunnar sem hafa sagt að það þurfi að koma eitthvert nýtt útspil inn í þessa umræðu, inn í kjaraviðræður, til að skapa sátt,“ og tók undir orð Landlæknis um að skapa þyrfti viðvarandi vinnufrið innan heilbrigðiskerfisins. Ráðherra kynnti hins vegar ekkert nýtt útspil frá ríkisstjórninni til að bregðast við uppsögnum en talaði um að þörf væri á endurskipulagningu.

Efling heilbrigðiskerfisins með áframhaldandi sykurgjaldi

Þingflokkar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, auk Birgittu Jónsdóttur þingmanns Pírata,  munu leggja fram sameiginlega breytingartillögu við þriðju umræðu á tekjuöflunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagafrumvarpið, sem nú stendur yfir. Tillagan gerir ráð fyrir að gjald á sykraðar vörur verði ekki afnumið um áramótin heldur haldist óbreytt og nefnist héðan í frá „sykurgjald“.

Lagt er til að tekjur sem hlýst af áframhaldandi gjaldi á sykraðar vörur, um 3 milljarðar króna, verði nýttir í uppbygging í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Tekjur af gjaldinu verði einnig nýttar til að sporna gegn þeim auknum lyfjakostnaði sjúklinga í S-merktum lyfjum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Engar lausnir í læknadeilunni

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, beindi fyrirspurn til fjármálaráðherra um kjaradeilu lækna á Alþingi í dag.

Katrín gerði að umtalsefni orð fjármálaráðherra um að lausn deilunnar mætti ekki valda óstöðugleika annars staðar. „En hvar er óstöðugleikinn í dag? Jú, við erum að horfa upp á gríðarlegan óstöðugleika í heilbrigðisþjónustunni. Við erum að horfa upp á það að 500 aðgerðir á biðlistum hafa verið felldar niður, það er búið að fresta ótal rannsóknir, yfir 2000 dag- og göngudeildarkomum á Landspítalanum hefur verið frestað.“ Katrín spurði svo ráðherra um mat hans á deilunni og hvort ásættanlegt sé að deilan haldi áfram eftir áramót.

Í svari sínu sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að úr mjög vöndu væri að ráða og að bætta kjör stétta geti haft keðjuverkandi áhrif á aðrar stéttir. Katrín svaraði því til að stöðugleiki sé ekki einungis mældur í efnahagslegum stærðum. „Það er gríðarlegur óstöðugleiki í því að heilbrigðiskerfið riði hér hreinlega til falls,“ sagði Katrín.

Bjarni Benediktsson kom ekki með tillögur að lausn á kjaradeilu lækna en gagnrýndi í staðinn fyrri ríkisstjórn fyrir að hafa komið á þrepaskipt skattkerfi. Virtist ráðherra telja það geta leyst kjaradeiluna að einhverju marki að afnema hæsta skattþrepið í ljósi þess að sumir læknar greiða slíkan skatt af hluta tekna sinna. Þingheimur varð mjög undrandi á þessum málflutningi ráðherrans og þurfti forseti að hringja bjöllu sinni í framhaldinu, enda ljóst að skatttekjur af þrepaskiptu skattkerfi fjármagnar heilbrigðiskerfið, og þar með laun lækna, að miklu leyti.

Ríkisstjórn í afneitun?

Steingrímur J. Sigfússon vakti athygli á sinnuleysi ríkisstjórnarinnar varðandi verkfallsaðgerðir lækna undir liðnum ,,störf þingsins” á Alþingi í dag.

,,Í verkfallinu er ný hrina aðgerða að hefjast og vandræðin þar af leiðandi að aukast og tjónið þar með. Áhyggjur þeirra sem gerst þekkja til vaxa dag frá degi. Það er alveg ljóst að nú verður frestað rannsóknum og aðgerðum og ýmiss konar meðhöndlun í svo stórum stíl að biðlistar munu verða óviðráðanlega langir og kerfið er svo lestað fyrir að jafnvel þótt semdist á morgun eru möguleikarnir til að vinna þetta upp afar takmarkaðir í undirmönnuðu kerfi sem er undir miklu álagi.”

Steingrímur velti því fyrir sér hvar forustumenn ríkisstjórnarinnar væru: ,,Ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver afneitun í gangi hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, samanber það hvernig hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, og ekki síður hæstvirtur forsætisráðherra hafa talað í þessum efnum og reynt að henda boltanum í allar aðrar áttir en til síns sjálfs hvað það varðar að aðrir eigi að bera ábyrgð á því að ekki semst við lækna.”

,,Að lokum er það auðvitað þannig að íslenska ríkið verður sem launagreiðandi að vera samkeppnisfært og geta boðið þannig kjör að þessi verðmæti starfshópur fáist til að starfa á Íslandi, svo einfalt er það mál.” sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Heilbrigðisráðherra vill ekki samstarf um Landspítalann

Katrín Jakobsdóttir beindi óundirbúinni fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um húsnæðismál Landspítalans. Katrín benti á að staðan í húsnæðismálum er óviðunandi: „Ekki aðeins er spítalinn rekinn á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Katrín, „heldur erum við að horfa upp á stöðugar slæmar fréttir frá spítalanum, hvort sem það er sveppasýking í skrifstofum, mygla, faraómaurar sem nú er verið að berjast við“.

Þá kallaði Katrín eftir samráði um fjármögnun nýs spítala: „Er ekki rétt að ríkisstjórn reyni að efna til þjóðarsáttar um þetta mál og kalla alla að borðinu — þar með talið stjórnarandstöðuna, þar með talið þá sem vinna á spítalanum, þar með talið þá sem þurfa að leita þangað eftir þjónustu – ekki bara um það hvernig spítalinn eigi að vera heldur hvernig eigi að fjármagna hann.

Kristján Þór sagðist í svari sínu ekki telja að fara þurfi fram samráð um spítalann og fjármögnun hans. „Ég tel alveg ástæðulaust, bara svo ég segi það alveg hreint út, að ríkisstjórnin þurfi einhverja sérstaka aðstoð við það að finna þá þriðju leið sem eftir er að skoða varðandi fjármögnun. Ég tel ríkisstjórnina fullkomlega treystandi til þess.“ Í seinni ræðu sinni sagðist Katrín telja málið vera svo stórt að það kalli á samráð. „Við erum reiðibúin til samstarfs“, sagði Katrín að lokum.

Ráðalaus ríkisstjórn!

Allt virðist ætla að verða þessari ríkisstjórn að ógæfu. Það er eins og að hún sé ekkert í tengslum við almenning í landinu og ákvarðanatökur hennar lýsa skilngsleysi og skeitingarleysi á kjörum þess hluta þjóðarinnar sem þarf að hafa sig allan við til að ná endum saman. Auðveldara reynist henni að sýna samstöðu með þeim efnameiri og stórútgerðarfyrirtækjum landsins sem vafin eru í bómul og hlíft við samfélagslegri ábyrgð með því að greiða ekki sjálfsagða skatta og auðlindarrentu. Samráð virðist ekki vera til í hennar orðabók hvorki við stjórnarandstöðu,sveitarfélög né aðila vinnumarkaðarins.

Hvað skyldi nú vera innlegg ríkisstjórnarinnar í kjarasamningsviðræður sem framundan eru á almenna vinnumarkaðnum ? Jú það er hækkun á virðisaukaskatti á matvæli en láglaunafólk ver stórum hluta tekna sinna í matarinnkaup. Þá er það hækkun virðisaukaskatts á rafmagn og heitt vatn sem leggst þungt á svokölluð köld svæði sem oftar en ekki eru láglaunasvæði.

Bótatímabil atvinnuleysisbóta er stytt úr 3 árum í 2,5 ár og stórlega dregið úr framlögum til vinnumarkaðsmála og nokkrum útibúum Vinnumálastofnunar er lokað út um land. Hvert á þetta fólk að fara segja sig á sveitina ? Framlög til framhalds og vinnumarkaðsfræðslu í gegnum Vinnustaðanámssjóð eru skorin niður sem og námstækifæri fyrir atvinnuleitendur.

Framhaldsskólunum er ekki gert kleift að taka við eldri nemendum sem hafa hafið nám að nýju í gegnum ýmis úrræði eins og „Nám er vinnandi vegur“. Möguleikar fólks á vinnumarkaði til að sækja nám í framhaldsskólum eru þar með skertir mikið og framlag til framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun er skert mikið. Símenntunarstöðvar eru skornar niður við trog. Er það ekki þjóðfélagslega hagkvæmt að fólk hafi tækifæri til að afla sér menntunar á öllum aldri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðnum í framhaldinu ? Ég hefði haldið það.

Áfram eru boðaðar álögur á sjúklinga með mikilli hækkun á lyfja og lækniskostnaði. Ekkert bólar á byggingu nýs Landspítala þó þörfin sé brýn og uppsagnir og flótti heilbrigðisstétta haldi áfram ef ekkert verður aðgert.

Tillögur Vinstri grænna um að fjármagna byggingu nýs Landspítala með auðlegðarskatti liggja fyrir og ríkisstjórnin hefur það í hendi sér hvort þjóðin fái nýjan Landspítala sem þjónar nútímakröfum um hátækni og góða aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrgði lífeyrissjóða er skert um 20 % á ári næstu fimm árum. Þetta mun koma mjög illa við þá sjóði sem hafa mikla örorkubyrgði og mun skerða lífeyrisréttindi þessara sjóðfélaga mikið til framtíðar.

Stjórnvöld ákveða einhliða án nokkurs samráðs að falla frá þríhliða samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um fjármögnun á Virk starfsendurhæfingarsjóði sem skerða mun möguleika fólks sem lent hefur í alvarlegum slysum eða veikindum á að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ekki er gert ráð fyrir neinum auknum fjármunum til að mæta mikilli þörf fyrir úrbætur í húsnæðismálum, hvorki í almenna húsnæðiskerfinu eða félagslega kerfinu.

Einhverjum þætti þessi listi Ríkisstjórnarinnar sem innlegg inn í komandi kjarasamningsviðræður vera mikill eldiviður í harðar deilur á vinnumarkaðnum .

Samt er þetta ekki tæmandi listi í þeirri aðför að launafólki sem birtist í fjárlögum fyrir árið 2015.
Á sama tíma velur hún að lækka skatta á eigna og hátekjufólk og afsala sér tekjum af stórútgerðinni í veiðigjöldum.

Hvað gengur Ríkisstjórninni til vill hún rífa í sundur alla sátt í landinu um að eftir erfiðan niðurskurð í kjölfar Hrunsins eigi viðsnúningur í efnahags og atvinnulífi þjóðarinnar að sjálfsögðu að koma almennu launafólki til góða og nýtast til uppbyggingar í heilbrigðis,velferðar og menntakerfinu.

Þessi Ríkisstjórn er á hættulegri vegferð og við Vinstri græn munum beita okkur að fullum krafti við að koma í veg fyrir þá eyðileggingar starfsemi sem hér er á ferðinni.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþimgismaður VG

Frumvarp um Byggingarsjóð Landspítala

Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Byggingarsjóð Landspítala. Frumvarpið felur í sér að nýbyggingar fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús verði fjármagnaðar með því að leggja á tímabundinn auðlegðarskatt sem renni í sérstakan Byggingarsjóð Landspítala. Gert er ráð fyrir að auðlegðarskatturinn verði lagður á í fimm ár, 2016-2020, og má ætla að það fé safnast með þessu móti dugi til spítalabyggingar í samræmi við þau áform sem nú eru uppi.

Þessi lausn á fjármögnun nauðsynlegrar uppbyggingar á þjóðarsjúkrahúsi Íslendinga felur það í sér að kostnaður vegna hennar leggst af meiri þunga á efnameiri Íslendinga heldur en þá sem minna hafa af efnalegum gæðum. Fyrri álagning auðlegðarskatts mætti gagnrýni fyrir það að vera full íþyngjandi fyrir þá af greiðendum hans sem áttu stóran hluta þeirrar eignar sem myndaði skattstofninn í formi íbúðarhúsnæðis til eigin nota en höfðu ef til vill aðeins takmarkaðar tekjur. Við þessu er nú brugðist með því að sett er inn frímark vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að grípa til markvissra aðgerða til að fjármagna uppbyggingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss, enda ljóst að í óefni er komið með fjármögnun þess. Frumvarp um Byggingarsjóð Landspítala er ætlað að högga á þennan hnút með því að nýta skatttökuleið sem mikill stuðningur er við í samfélaginu.