Posts

Sátt við hverja?

Nýjasta útspil sjávarútvegsráðherra, að hann treysti sér ekki til að leggja fram nýtt fiskveiðstjórnunarfrumvarp sökum ósamkomulags á milli stjórnarflokkanna, hefur vakið mikla athygli þjóðarinnar og kristallast þar sá mikli ágreiningur sem ríkir um eignarhald og ráðstöfunarrétt á þessari sameiginlegu sjávarauðlind landsmanna.

Þegar byrjað er að ræða um kvótakerfið svokallaða lokast oftar en ekki eyru þeirra sem ekki hafa beina hagsmuni af sjávarútvegi og mörgum þykir málið flókið og illskiljanlegt. Erfitt reynist að keppa við þá miklu áróðursmaskínu sem samtök í sjávarútvegi setja jafnan í gang þegar þeim þykir sínum hagsmunum ógnað og gleymist seint sú herferð og heimsendaspá sem lýst var yfir af LÍÚ á síðasta kjörtímabili þegar reynt var að bylta kvótakerfinu.

Dóttir mín ráðlagði mér að nálgast umræðuna um sjávarútvegsmál á sem auðskiljanlegastan hátt svo ungt fólk gerði sér betur grein fyrir því út á hvað það gengi að breyta kvótakerfinu. Meginatriðin eru að tryggja atvinnurétt og afnot komandi kynslóða af sjávarauðlindinni með sjálfbærum hætti og að arðurinn skili sér til þjóðarinnar.

Nýting fiskimiðanna

Ágreiningur innan stjórnarflokkanna virðist fyrst og fremst snúast um það hver eigi að fara með eignarhald á nýtingu fiskimiðanna – útgerðirnar eða ríkið fyrir hönd þjóðarinnar. Þau drög að nýju fiskveiðistjórnunarfrumvarpi sem kynnt voru fyrir okkur í stjórnarandstöðunni í haust gengu út á það að gerðir yrðu samningar til 23 ára með óbreyttu hlutfalli til byggðaráðstafana, ekkert var þar tekið á meiri möguleikum til nýliðunar með öflugum leigupotti ríkisins né byggðafestu aflaheimilda svo eitthvað sé nefnt. Í rauninni var verið að njörva núverandi kerfi niður óbreytt um aldur og ævi og nýrri ríkisstjórn í raun gert ókleift að gera breytingar á kvótakerfinu þótt hún fengi til þess nægan þingstyrk í næstu kosningum. Þess vegna hef ég sagt það að ég gráti það ekki að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að ná samstöðu um að leggja þetta óláns frumvarp fram og stjórnarandstaðan hefur mér vitanlega ekki fengið nein tækifæri til að hafa áhrif á efni þess.

Stjórnarliðar hafa látið að því liggja að það sé vegna andstöðu stjórnarandstöðunnar sem hætt hafi verið við að leggja frumvarpið fram á þessu vorþingi. Þetta lýsir best vandræðaganginum á stjórnarheimilinu þessa dagana þegar hvert málið á fætur öðru er í uppnámi.

Umræðan um veiðigjöld og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru tvö aðskilin mál að mínu mati.
Það má með sanni segja að það þarf að nálgast það verkefni að ná auðlindarentu út úr sjávarútvegi með jafnræði í huga og með sem gagnsæjustum og skilvirkustum hætti.
Þau veiðigjöld sem urðu að lögum árið 2010 hafa ekki náð tilgangi sínum sem skyldi þar sem ekki hefur tekist að fá þær upplýsingar sem til þurfti til að álagning yrði rétt.

Mismunandi álagning

Ég tel rétt að skoða mismunandi álagningu eftir útgerðarflokkum, einhvers konar þrepaskipta álagningu, þar sem brugðist væri við erfiðleikum minni útgerða við að standa undir þeim veiðigjöldum sem þær búa við í dag. En í mínum huga er það knýjandi réttlætismál að breyta sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu áður en krafan um eignarétt útgerðarinnar verður enn háværari í valdablokkum landsins bæði í fjármálageiranum og hjá stórútgerðinni.

Afleiðingum hagræðingar í sjávarútvegi má skipta í þrjá flokka á landsvísu

1. Þau byggðarlög sem hagnast hafa á samþjöppun í greininni og njóta í núinu mikilla tekna og stöðugrar atvinnu.
2. Þau sjávarpláss þar sem eru minni sjávarútvegs- og fjölskyldufyrirtæki og þar sem ekkert má út af bera svo allt fari ekki á hliðina og atvinnuöryggið fari í uppnám.
3. Hinar svokölluðu „brothættu byggðir“ sem Byggðastofnun hefur verið að vinna með. Þeirra á meðal eru mörg minni sjávarpláss sem eru í gífurlegum vanda eftir að fiskveiðiheimildirnar hafa verið fluttar á brott og lífsbjörgin í raun tekin frá öllum íbúum þessara staða. Þar býr fólk ekki við búsetuöryggi lengur og byggðarlagið hefur verið gjaldfellt á einu bretti.

Ég treysti ekki núverandi ríkisstjórn fyrir ásættanlegum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu en ég geri mér líka fulla grein fyrir því að ef nást eiga fram breytingar á núverandi kerfi verða allir að slá eitthvað af sínum ítrustu kröfum, annars festist núverandi kerfi bara enn frekar í sessi.

Sáttin á ekki bara að ná til hagsmunaaðila í sjávarútvegi heldur líka til fólksins í landinu með tryggara atvinnuöryggi og í eflingu byggða ásamt rétti komandi kynslóða til atvinnufrelsis og að skýrt eignaréttarákvæði á sjávarauðlindinni verði sett í stjórnarskrá.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Áramótahugleiðing

Árið 2014 var gjöfult ár fyrir Ísland frá náttúrunnar hendi bæði til sjávar og sveita og einnig streymdu ferðamenn til landsins sem aldrei fyrr. Ef við sætum ekki uppi með þessa „Guðsvoluðu ríkisstjórn“ þá værum við sem þjóð í góðum málum og værum að komast út úr kreppunni byggja upp innviði samfélagsins og auka jöfnuð í landinu. Við værum að læra af biturri reynslu þess sem orsakaði Hrunið og snúa af leið græðgi,misskiptingar og einkavæðingar sameiginlegra auðlinda. En við erum þess í stað leidd aftur til slátrunar á altari mammons komin í sömu hringekjuna og við krössuðum í í Hruninu og vitum ekki hvar þessi ósköp enda.

Nú þurfum við sem þjóð í upphafi nýs árs að hrista af okkur slenið og láta ekki teyma okkur aftur á asnaeyrum út í fenið. Við þurfum að losa okkur við þessa óláns ríkisstjórn sem fyrst áður en henni tekst að eyðileggja velferðar og menntakerfið og innviði samfélagsins meir en komið er og koma hér á stjórn sem setur jöfnuð, réttlæti og sjálfbærni í forgang. Ég er að boða Byltingu! Því hún byrjar ávallt í hjarta og huga hvers og eins og með samtakamætti getur þjóðin snúið af sér þá niðurrifsstefnu sem birtist í síðustu fjárlögum þar sem þungar byrðar eru lagðar á þá sem minnst mega sín og hlaðið er undir valda og fjármagnseigendur landsins.

Við stöndum á krossgötum sem þjóð við höfum öll tækifæri á að búa vel að öllum íbúum landsins hvort sem þeir búa á Kópaskeri eða í Reykjavík við höfum efni á að reka gott heilbrigðiskerfi,efla menntun ,jafna kjör almennings óháð búsetu og bæta samgöngur og vernda náttúru landsins. Núverandi stjórnvöld eru búin að sýna á spilin og þau eru að stefna í allt aðra átt með sinni grjóthörðu hægristefnu þar sem ójöfnuður eykst og allt er falt fyrir peninga hvort sem það er náttúra landsins eða fiskurinn í sjónum. Þjóðin er svo sannarlega búin að fá nasaþefinn af því fyrir hverja þessi ríkisstjórn er að vinna og það er ekki almenningur í landinu sem er þar efstur á blaði heldur auðvaldið. Nú þurfum við að snúa bökum saman og losa þjóðina við þessa gæfulausu ríkisstjórn sem fyrst og koma hér á vinstri félagshyggjustjórn. Þegar það tekst þá eigum við að geta horft fram á betri tíma fyrir alla en ekki bara fyrir suma eins og nú er.

Með góðri nýárskveðju.
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Atvinnuveganefnd sögð sniðganga Rammaáætlun

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í atvinnuveganefnd, tók til máls í upphafi þingfundar til að vekja athygli á að meirihluti nefndarinnar hyggist sniðganga Rammaáætlun. „Nú bregður svo að meirihluti atvinnuveganefndar ætlar að leggja fram þá breytingartillögu að leggja alla þessa átta kosti sem eru nú í bið í nýtingarflokk og ganga framhjá Rammaáætlun.“ Lilja Rafney benti á að meirihlutinn ætli að gefa þessari breytingu aðeins eina viku í umsagnarferli en til samanburðar var tillaga umhverfisráðherra um að færa einn virkjunarkost (Hvammsvirkjun) í nýtingarflokk gefin 12 vikur í umsagnarferli.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vg, tók einnig til máls og sagði: „Staðreyndin er sú að ef ætlunin er að fara með þetta mál með þessum hætti, virðulegi forseti, þá er verið að gera svo róttækar breytingar á málinu að það er ekki hægt að líta á það sem einfalda breytingartillögu.“ Fjölmargir aðrir þingmenn tóku til máls og mótmæltu framferði ríkisstjórnarmeirihlutans í nefndinni. Þannig sagði Steingrímur J. Sigfússon m.a. að með þessari ákvörðun hefði stríðshanska verið kastað og furðaði hann sig á meirihlutinn skyldi leita að átökum í málinu.

Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, tók undir þetta og sagði: „Það sem er að gerast með þessari málsmeðferð er að allt landið, Ísland frá fjalli til fjöru, er í nýtingarflokki,“ og bætti við að lögin um Rammáætlun séu að engu höfð. Svandís furðaði sig einnig á því að aðeins sé gert ráð fyrir eina viku í umsagnarferli til að fara yfir málið og spurði: „Við hvað eru sjálfstæðismenn hræddir?“

Flutningur fólks eða starfa

Eins ógeðfelldir og mér fundust fyrirhugaðir hreppaflutningar sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis á fólki á milli landshluta þá hugnast mér ekki frekar sú aðferðarfræði stjórnvalda að flytja stofnanir eins og Fiskistofu fyrirvaralaust með manni og mús á milli landshluta. Hvortveggja eru þetta ruddaleg vinnubrögð sem ekki eiga að viðgangast og lýsa vanvirðingu gagnvart starfsfólki og fjölskyldum þeirra.

Aðkoma Alþingis var engin að málinu og engar fjárheimildir lágu fyrir vegna kostnaðar af fyrirhuguðum flutningi þetta er óvönduð stjórnsýsla og setur svartan blett á það aðkallandi verkefni að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins í réttlátara hlutfalli en nú er.

Ég tel það vera mjög brýnt verkefni að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni ekki bara á þéttbýlustu stöðunum heldur ekki síður í fámennari byggðum þar sem því verður við komið að vinna verkefni sem staðsetning þeirra skiptir ekki öllu máli heldur gott starfsfólk og öruggar háhraðatengingar. Reynslan af staðsetningu opinberra starfa út um land hefur fyrir löngu sýnt fram á það að standast kröfur sem gerðar eru til faglegra vinnubragða og gott vinnuumhverfi og traust vinnuafl er þar líka til staðar.

Umfang hins opinbera hefur vaxið mjög á undanförnum 20 til 30 árum og fjölgun opinberra starfa hefur fyrst og fremst orðið á höfuðborgarsvæðinu þó tekist hafa að staðsetja nokkrar opinberar stofnanir úti á landi á liðnum árum þá er það eilíf barátta að halda þeim störfum áfram í heimabyggð. Það þekkja allir landsbyggðarþingmenn í gegnum tíðina þá baráttu sem er við hver fjárlög að verja starfsemi á landsbyggðinni þar sem um er að ræða fámenn stöðugildi sem mega ekki við neinum niðurskurði.

Það hefur verið sýnt fram á það í rannsóknum að mikið misræmi er í opinberum útgjöldum og skattheimtu eftir landsvæðum það hefur eflaust ekki verið markmið í sjálfum sér en landsbyggðin hefur beðið skaða af því en höfuðborgarsvæðið hefur notið þess.
Færð hafa verið rök fyrir því að viðskipti landsbyggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega meiri heldur en viðskipti höfuðborgarsvæðisins á landsbyggðinni. Í þessu samhengi er eðlilegt að líta til frekari flutnings opinberra starfa út á land til að jafna það efnahagslega misræmi sem er staðreynd og hið opinbera ber líka ábyrgð á með stjórnvaldsákvörðunum sínum í gegnum tíðina.

Stjórnvöld verða að vinna eftir skýrt markaðri stefnu í flutningi opinberra starfa út á land og að þar samræmi ráðuneyti og opinberar stofnanir vinnu sýna og gangi í takt. Kynna verður með eðlilegum fyrirvara flutning á starfsemi ríkisins á milli landssvæða og gæta vel að mannlega þættinum og réttindum þeirra starfsmanna sem hlut eiga að máli og líta sérstaklega til nýrra verkefna og starfa sem verða til hjá hinu opinbera. Að sjálfsögðu á að tryggja aðkomu Alþingis að þeirri stefnumótunarvinnu og að fjárlögin endurspegli þann vilja.

Allur undirbúningur þarf að vera vandaður og landið kortlagt hvar störfum,verkefnum og starfsemi er best fyrirkomið og þá tel ég að ekki síst eigi að horfa til þeirra svæða sem átt hafa undir högg að sækja undanfarin ár og þurfa virkilega á fjölbreyttni að halda og þar eru góðar háhraðatengingar lykilatriði.
Það má nefna verkefni sem flust hafa til landsbyggðarinnar í gegnum árin og vel hefur tekist til með eins og Byggðastofnun á Sauðárkróki,Skógræktina á Héraði, Landmælingar Íslands á Akranesi,Greiðslustofu Atvinnuleysistryggingarsjóðs á Skagaströnd og Skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga. En ég get líka nefnt dæmi um verkefni hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga sem sett var niður á Flateyri en gekk ekki upp vegna lélegra háhraðatenginga og var færð yfir á Ísafjörð og það er ekki neitt einsdæmi að skortur á öflugum gagnaflutningi á landsbyggðinni hamli atvinnuuppbyggingu.

Því miður hafa opinberar stofnanir eins og Fiskistofa t.d. verið að hringla með störf í útibúum sínum úti á landi í skjóli breytinga sem orðið hefur til þess að faglært fólk hefur hrakist í burtu. Starfstöð Fiskistofu á Ísafirði hefur verið lokuð frá áramótum en veiðieftirliti stofnunarinnar hafði verið hætt og starfstöð fiskeldis komið í staðin en henni var lokað um áramótin og engin starfsemi er það í gangi nú og óvissa um framhaldið. Þetta er dæmi um hve auðvelt er fyrir pólitíkusa og stjórnvöld að skella í lás þegar um litlar starfstöðvar er að ræða og dæmi um óvönduð vinnubrögð.

Það á ekki að kynda undir elda milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins með óvönduðum vinnubrögðum við flutning starfa og starfsemi út á land heldur vanda vel til verka og sýna það líka í fjárlögum að menn vilji efla opinbera starfsemi út um land en síðustu fjárlög báru þess ekki merki þar sem gífurlegur niðurskurður var í mörgum verkefnum á landsbyggðinni eins og Sóknaráætlun landshlutanna er gleggsta dæmið um.

Landsbyggðin þarf á fjölbreyttari atvinnutækifærum að halda og það eru sameiginlegir hagsmunir allra landsmanna að vel takist til með flutning opinberra starfa og uppbyggingu atvinnustarfsemi á landsbyggðinni því hún er jú einn stærsti viðskiptavinur höfuðborgarsvæðisins.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður

Fjölbreytt útgerðarform er framtíðin

Fjölbreytt útgerðarform er framtíðin.

Á undanförnum áratugum hafa miklar breytingar orðið í sjávarútvegi bæði til góðs og einnig til hins verra.

Sú mikla hagræðing sem greinin hefur gengið í gegnum hefur ekki verið sársaukalaus fyrir sjávarbyggðirnar.  Tæknilegar framfarir , nýsköpun í greininn og öflug markaðssetning á afurðum erlendis hefur drifið greinina áfram og gert íslenskar sjávarafurðir eftirsóttar í helstu viðskiptalöndum okkar og enn eru að opnast nýir markaðir. Ekki má gleyma öllu því starfsfólki sem vinnur við sjávarútveg til lands og sjós því án þeirra væri framlegðin ekki eins góð og hún er í dag en því miður eru laun í landvinnslu alltof lág og ekki í takt við afkomuna.

Ríkisstjórninni tókst ekki að leggja fram á liðnu þingi frumvarp til laga um stjórn fiskveiða eins og til stóð en gerði enn eina breytinguna á lögum um veiðigjöld sem lækka enn frekar veiðigjöldin frá því sem áformað var með setningu laga um veiðigjöld árið 2012.

Rökin fyrir lækkun veiðigjalda hafa aðallega verið sú að koma til móts við minni og meðalstórar útgerðir í landinu, engu að síður er lækkunin flöt og ekki hefur verið komið til móts við tillögur minnihlutans um að koma sérstaklega til móts við minni útgerðir heldur var dregið úr stuðningi við þær með lækkuðu frítekjumarki nú í vor.

Þessar ákvarðanir allar byggja á afar veikum efnisforsendum og eru ekki studdar trúverðugum talnalegum gögnum.

Jákvætt er að brjóta álagningu veiðigjalda betur niður á einstakar fisktegundir enda var alltaf að því stefnt frá því að ný lög um veiðigjöld voru sett að kerfið yrði þróað áfram.

Samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins nemur lækkun ríkisstjórnarinnar á veiðigjöldum  nú samtals 20 milljörðum árin 2013/2014/2015 að meðtaldri  þeirri lækkun sem samþykkt var til  viðbótar nú í þinglok.

Þó afkoman sé eitthvað slakari nú í sjávarútvegi en þegar metafkoma var í greininni árið 2012 þá réttlætir það ekki þessa gífurlegu lækkun veiðigjalda flatt yfir án neinnar greiningar á afkomu mismunandi útgerðarflokka né endanlegrar greiningar á framlegð eftir fisktegundum.

Þær góðu fréttir berast frá sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Brussel á dögunum að afurðarverð á þorski fari hækkandi vegna aukinnar eftirspurnar ekki er því tilefni til að lækka veiðigjöld handahófskennt þó afurðarverð sveiflist eitthvað til innan ársins.

Stjórnarandstaðan náði fram þeim breytingum að um bráðabrigða ráðstöfun er um að ræða fyrir næsta fiskveiðiár.

Mikil vinna er því framundan á Alþingi í glímunni við eina ferðina enn að reyna að ná sátt um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi og að uppfæra lögin um veiðigjöld sem ráðast af hugmyndafræðinni um auðlindarentu til þjóðarinnar sem taki mið af afkomu greinarinnar , mismunandi útgerðarflokkum og framlegð eftir fisktegundum.

Það ætti að vera orðið öllum ljóst að breytingar þarf að gera á stjórn fiskveiða ef sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið eiga ekki að hrynja eins og spilaborgir þegar viðskiptalegar ákvarðanir eru teknar af handhöfum aflaheimilda eins og Útgerðarfélagið Vísir er nærtækasta dæmið um.

Það veit enginn eins og kerfið er byggt upp í dag hver verður næsta fórnarlamb óhefts framsals og hagræðingar og það er ekki mönnum bjóðandi á 21 öldinni að íbúar sjávarbyggðanna búi við stöðuga óvissu um atvinnuöryggi sitt og séu síðan reknir eins og rollur í réttum á milli verstöðva atvinnurekenda sinna. Allt samfélagið verður í uppnámi og veikist , þetta er ekki eitthvað náttúrulögmál heldur mannana verk sem hægt er að hafa áhrif á með réttlátari lögum um stjórn fiskveiða.

Núverandi löggjöf tekur ekkert tillit til réttar íbúa sjávarbyggðanna til afnota af fiskimiðunum og er fyrst og fremst markaðsdrifin á „eignarréttarlegum „forsendum handhafa hverju sinni.

Þessu þarf að breyta ef ekki á illa að fara fyrir fjölda byggða með til heyrandi hörmungum.

Það hefur sýnt sig að til lengri tíma litið er ekki farsælt að hafa eggin öll í sömu körfunni og því er það mikilvægt að fjölbreytt útgerðarmynstur þrífist í landinu . Markaðsstarf erlendis hefur sýnt fram á mikla eftirspurn eftir ferskum fiskafurðum sem eru umhverfisvottaðir og rekjanlegir og þeirri eftirspurn á minni bátaflotinn auðveldara með að mæta. Allt er breytingum háð og nú hefur þróunin verið úr frystitogurum í ísfisktogara og línuútgerðir svo greinin þarf vissulega að hafa þennan sveigjanleika í sér eftir því sem eftirspurn á markaði erlendis kallar á hverju sinni.

Það má samt aldrei gleymast að það er fólk á bak við fyrirtækin sem á sinn rétt og taka þarf  tillit til þess þegar breytingar verða í starfsumhverfi og á mörkuðum erlendis.

Íslenskur sjávarútvegur á framtíðina fyrir sér ef sjálfbærni er höfð að leiðarljósi og saman fer skynsemi og áræðni ,samfélagsleg ábyrgð ,réttlát auðlindarenta til þjóðarinnar,möguleikar til nýliðunnar og byggðafesta aflaheimilda.

Ég læt fylga með óð til sjávarbyggðanna sem heygja sína lífsbaráttu þessa dagana. Kvæðið er eftir Eðvarð Sturluson fyrrum oddvita Suðureyrarhrepps.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður  Suðureyri.
Varaformaður atvinnuveganefndar.

Ég hugfanginn lít yfir heimabyggð alla
Mig heillar fjallanna tign.
Hjalandi lækir í fjöruna falla
of fjörðurinn speglast lygn.
Sólin í skærasta skini
skartar falleg og heit.
Vekur gróður og vaxandi hlyni
er vermandi þessari sveit.

Um æðarnar finn ég orkuna streyma
og ákveðinn strengi þess heit.
Að berjast af einlægri hugsjón hér heima
til heilla fæðingarsveit.
Hér eru ótalin verk að vinna
ef vaxa á æskunnar byggð.
Huga og kraft má farvegi finna
til fullnustu átthagatryggð.

En hvort sem ég er með eða móti
er margt sem ég ræð ekki við.
Á sjávarútveg var settur kvóti
og sóknin bönnuð á mið.
Áður fyrr menn nálægðar nutu
og nægur var fiskur við land.
En stjórnvöld,þorpanna bjargræði brutu
svo byggðirnar hrannast í strand.

Hvað er hugsanlegt helst til ráða
að heimta er kannse létt.
Í landinu forðum var byggð fyrir báða
burgeisa og alþýðustétt.
Því uxu þorpin að sjór var sóttur
og sjálfsagt að allir hefðu þann rétt.
Nú er lamandi þrek og þróttur
en þrifleg sægreifa stétt.

Stríðið er hafið og verkin skal vinna
til verndar búsetu hér.
Togarar ættu að fá miklu minna
og meti það hver sem er.
Smábátar sækja björg í búið
og bæta almennan hag.
Ef til vill sýnist það öfugsnúið
en Ísland er svona í dag.

Ranglætið víki og kvótinn hverfi
þann kaleik ég vil ekki sjá.
Og síðari kynslóðir aldrei erfi
eitthvað sem má ekki fá.
Að uppræta meinið er öllum til bóta
og endurvakin skal fyrri dyggð.
Þá munum við fagnandi friðarins njóta
frjálsir í heimabyggð.
E.S.

 

Frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna

Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarps um lögbindingu lágmarkslauna sem lagt var fram á Alþingi á dögunum. Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður VG og Birgitta Jónsdóttir alþingismaður Pírata eru meðflutningsmenn þingmálsins.
Verði frumvarpið að lögum mun upphæð lægstu launa verða bundin í lögum og fylgir þróun neyslu- og framfærslukostnaðar í landinu með tengingu við neysluviðmið velferðarráðuneytisins, en þau byggjast á mælingum á neyslu Íslendinga og ráðstöfun fjár til helstu útgjaldaflokka einstaklinga og heimila. Sá eiginleiki neysluviðmiðs, að sýna raunveruleg útgjöld vegna framfærslu, er vel til þess fallinn að mæla breytingar á framfærslukostnaði í landinu. Tengsl milli neysluviðmiðs og lægstu launa ættu því að tryggja að lágmarkslaunin fylgi verðlagsþróun.
Vinnumálastofnun er ætlað að hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt og fær í þeim tilgangi aðgang að launaútreikningum atvinnurekenda.

Margt hefur verkalýðshreyfingin vel gert en umbóta er þó þörf

Enda þótt verkalýðshreyfingin hafi gert margt vel á undanförnum árum verður ekki fram hjá því litið að lægstu laun sem heimilt er að greiða hér á landi eru allt of lág og í raun alls ekki sæmandi í okkar þjóðfélagi sem telst vel efnum búið á heimsvísu. Frumvarp okkar þremenninganna miðar vissulega að því að hækka lægstu launin og tryggja þau en því er alls ekki stefnt gegn hlutverki verkalýðsfélaga sem munu hér eftir sem hingað til gegna meginhlutverki í baráttunni fyrir bættum haga almennings og vera helsti málsvari launafólks í samskiptum þess við atvinnurekendur.

Frumvarpi um lögbindingu lágmarkslauna er ekki ætlað að fara fram með yfirboð, heldur taka mið af raunsæjum grunni og ráðstöfununum er ætlað að falla að því félagslega stuðningskerfi sem hér er í landi svo sem vaxtabótum, húsaleigubótum, barnabótum og þrepaskiptu skattkerfi.

Viðhorf til hækkunar lægstu launa og launajöfnuðar

Ósjaldan heyrast háværar raddir gegn hækkunum lægstu launa frá atvinnulífinu einnig frá ríkinu og nú síðast frá Seðlabanka Íslands þegar launafólk á almenna vinnumarkaðnum gerði kröfu til sérstakrar hækkunar á lægstu laun. Láglaunafólki virðist öllum öðrum fremur ætlað að bera ábyrgð á verðbólgu/þenslu og annari efnahagslegri óáran of því heyrist einatt hljóð úr horni ef krafist er hærri launa þeim til handa.

Samanburður launa innan launþegahreyfingarinnar hefur verið ákveðinn dragbítur á verulega hækkun lægstu launa. Nauðsynlegt er að horfast í augu við það.

Þrátt fyrir það að hlutfall Íslendinga undir lágtekjumörkum sé verulega lægra en innan ESB þá er enn mikið verk að vinna hjá aðilum vinnumarkaðarins við að ná launum upp miðað við raunframfærslu fólks, þar sem allir þættir eru teknir inn í myndina þó án neinna lúxusviðmiða.

Vinnumarkaðurinn glímir enn við mikinn kynbundinn launamun og benda má á bág kjör t.d. erlends verkafólks, umönnunarstétta og almenns verkafólks í landinu. Verkakonur voru t.d. með lægstu laun fullvinnandi launamanna hér á landi árið 2012. Lögbundin lágmarkslaun gætu stuðlað að breytingum á þessu.

Lágmarkslaun gegn félagslegum undirboðum

Þeim fullyrðingum hefur verið haldið á lofti að lögbinding lágmarkslauna veiktu verkalýðshreyfinguna og að þeirra væri ekki þörf þar sem sterk verkalýðshreyfing starfar. Ég tel þessa staðhæfingu vera barns síns tíma og veruleikinn er sá að í 21 ríki af 28 ríkjum ESB eru lögbundin lágmarkslaun og í Þýskalandi sem er fjölmennasta ríki ESB er stefnt að lögbindingu lágmarkslauna 1. janúar 2015. Vinstri menn settu þá kröfu fram og börðust fyrir henni. Helsta ástæða þess að lögbinding lágmarkslauna þykir nauðsynleg eru svonefnd félagsleg undirboð sem fylgja flutningum vinnandi fólks milli ólíkra hagsvæða. Fólk sem býr við lág laun í heimalandi sínu er líklegt til að sætta sig við rýrari kjör en almennt eru í boði á efnaðri svæðum og verður þetta til þess að lækka lægstu launin. Ýmsar vísbendingar eru um að hér á landi sé einmitt sótt hart að lægri enda launaskalans.

Í Kanada og í Bandaríkjunum eru lögbundin lágmarkslaun og enn fremur í fjölda annara ríkja sem teljast hafa þróað efnahagskerfi og hefur útbreiðslan aukist frá síðustu aldamótum og ein skýringin á því er talin vera vaxandi undirboð á vinnumarkaði í kjölfar aukins flæðis vinnuafls á milli ríkja.

Þróun undanfarinna ára og áratuga sýnir að þörfin fyrir lögbindingu lágmarkslauna er vissulega til staðar í nútímasamfélagi. Lögbindingunni er ekki ætlað að veikja kjarabaráttuna heldur þvert á móti að bregðast við aðkallandi vandamáli og verða hvatning til þess að ná fram betri árangri til handa launafólki.

Samfélagið ber ábyrgð á því fólki sem býr við lökust kjörin og því er það líka á ábyrgð löggjafans ekki síður en aðila vinnumarkaðarins að fólki séu tryggð mannsæmandi kjör.

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Portfolio Items