Posts

VG er á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúruna

Ræða Lilju Rafneyjar flutt í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi, eldhúsdegi, 30. maí 2016

Virðulegi forseti, góðir landsmenn .

Þjóðinni var algjörlega misboðið þegar upplýst var í Panamaskjölunum um tengsl og fjármuni íslenskra ráðherra,efnafólks og fyrirtækja með aflandsfélög í skattaskjólum.

Ég átti spjall við portúgalskan verkamann þegar ég beið eftir flugi vestur á Ísafjörð , hann var á leið til Akureyrar og þaðan til vinnu á Þeystareyki. Hann sagði að kjör almennings í Portúgal væru erfið og mikil spilling væri í landinu.

„Þið íslendingar eruð bara eins og ein stór fjölskylda og deilið kjörum og enginn er merkilegri en annar“ sagði hann.
„En svo kemur í ljós að æðstu ráðamenn ykkar eru í Panamaskjölunum og litla Ísland er ekki eins saklaust og ætla mætti heldur hefur spillingin, græðgin og vont siðferði náð að grassera hér eins og heima í Portugal sem leitt hefur til misskiptingar í samfélaginu. „Þá var kallað út í flug til Ísafjarðar svo þannig endaði þetta samtal sem var sláandi.

Það var eins og köld vatnsgusa yfir þjóðina þegar upp komst að það eru langt í frá allir að róa í sömu átt – það er sá hluti þjóðarinnar sem er á fyrsta farrými og felur fé sitt í skattaskjólum og svo eru það þeir sem eru í lestinni og halda þjóðarskútunni á floti og standa undir samfélagslegri ábyrgð.

Mælikvarði á heilbrigt og gott samfélag er hvernig búið er að unga fólkinu,öldruðum og öryrkjum. Þessir hópar hafa ekki verið að njóta þess efnahagslega ábata sem orðið hefur með auknum hagvexti allt frá árinu 2010.

Skattkerfisbreytingarnar miðast fyrst og fremst við það að hlífa þeim sem betur mega sín en draga úr stuðningi við þá efnaminni. Aldraðir og öryrkjar fá ekki sambærilegar hækkanir og aðrir og lægstu laun á vinnumarkaði og þeir lægst launuðu greiða allt of hátt skatthlutfall af tekjum sínum.

Það reynist ungu fólki erfitt að leigja eða eignast húsnæði, mennta sig og stofna heimili við þau kjör sem ungu barnafólki eru búin í dag.

Vinstri græn vilja stóraukin stuðning í húsnæðismálum við ungt og efnaminna fólk,lengja fæðingarorlofið og hækka fæðingarorlofsþakið og að leikskólar verði gjaldfrjálsir.

Landsbyggðarstefna þessarar ríkisstjórnar fær algjöra falleinkunn. Samgönguáætlun lýsir algjöru metnaðarleysi. Eina ljósið er að loksins á að bjóða út Dýrafjarðargöngin sem byrjað hefði verið á fyrir 2 árum ef áætlun fyrri ríkisstjórnar hefði verið framfylgt. Samgönguinnviðir í landinu eru látnir drabbast niður og vegakerfi landsins er víða orðið stórhættulegt með aukinni umferð.

Stórátak þarf að gera í samgöngumálum ef ekki á illa að fara.

Fjarskiptamál skipta landsbyggðina jafn miklu máli og samgöngubætur og það skiptir sköpum fyrir búsetu að gott netsamband sé tryggt um land allt .

Sveitafélögunum var att út í samkeppni um þá litlu fjármuni sem til skiptana voru í útboði og þau verst settu sátu eftir með sárt ennið. Þarna þurfa að koma til miklu meiri fjármunir því ljúka þarf ljósleiðaravæðingu og háhraðatengingum um land allt sem fyrst því það verkefni þolir enga bið.

Aðgengi að menntun er lykilatriði fyrir allar framfarir og ég tel að það sé aðför að jöfnum tækifærum til menntunar þegar stjórnvöld hefta aðgengi að framhaldsskólum landsins og fjársvelta skólana og nýjasta útspilið um LÍN virðist stefna í að draga úr möguleikum efnaminna fólks til náms. Litlu háskólarnir berjast fyrir tilveru sinni og niðurskurður til menntamála og takmarkað aðgengi að námi eftir efnahag og búsetu er óásættanlegt og verður ekki liðið.

Heilbrigðiskerfið er fjársvelt þrátt fyrir góða stöðu ríkissjóðs og ákalli þjóðarinnar um aukna fjármuni til heilbrigðismála er ekki mætt. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu hefur verið aukinn og mikill arður er tekinn út úr einkarekstri sem bitnar á opinberri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og dregur úr aðgengi þeirra efnaminni að heilbrigðisþjónustu.

Mikilvægt er að bregðast strax við þeirri miklu þörf sem er t.d. á aukinni geðheilbrigðisþjónustu í landinu.

Vinstri græn vilja stórauka fjármagn til opinbera heilbrigðiskerfisins og gera það gjaldfrjálst og tryggja gott aðgengi óháð efnahag og búsetu.

Ferðaþjónustan skapar orðið mestar gjaldeyristekjur í landinu en ekkert bólar á fjármagni til innviðauppbyggingar. Mikilvægt er að ferðaþjónustan eflist um allt land og létta þannig á álagi á fjölförnustu stöðunum. Við Vinstri græn leggjum til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verði fjármagnaður með komugjöldum á flugfarseðla til landsins og gistináttagjaldi sem renni að hluta til sveitarfélaganna til uppbyggingar heima fyrir.

Það eru víða brothættar byggðir til sjávar og sveita í landsbyggðunum. Við vitum vel hvernig kvótakerfið hefur leikið mörg sjávarpláss og sá búvörusamningur sem nú liggur fyrir og tollasamningur með stórauknum innflutningi landbúnaðarvara stefnir sauðfjárrækt í jaðarbyggðum í tvísýnu og hefðbundnum fjölskyldubúum í hættu.

Vinstri græn vilja efla byggðahlutverk landbúnaðarins og efla þar nýsköpun og sjálfbærni og að stuðningur við landbúnað skili sér í sameiginlegum hagsmunum innlendra framleiðanda og neytanda með heilnæmri vöru á góðu verði þar sem horft er til matvæla öryggis og umhverfissjónarmiða.

Ríkisstjórnin hefur viðhaldið óbreyttu kvótakerfi og lækkað veiðigjöld á stórútgerðina sem er í bullandi hagnaði og greiðir sér mikinn arð meðan staða margra minni útgerða er erfið. Erfiðleikar og vandi íbúa brothættra sjávarbyggða er óleystur og krefst þess að verða leystur varanlega með byggðatengdum aflaheimildum en ekki endalausum smáskammtalækningum.

Vinstri græn vilja rótæka endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu sem tryggir stöðugleika og atvinnu í sjávarbyggðunum, eflir nýliðun og aðgengi að öflugum leigupotti ríkisins með aflaheimildir.
Strandveiðarnar hafa verið sá vaxtarbroddur sem hleypt hefur lífi í sjávarbyggðirnar og þær verður efla.

Við viljum að þjóðin fari með óskorað eignarhald á öllum auðlindum til lands og sjávar og að auðlindarentan nýtist til uppbyggingar um land allt.
Sérstaða Vinstri grænna hefur m.a. falist í friðarmálum,umhverfismálum og kvenfrelsismálum. Í þessum málaflokkum höfum við skyldur á alþjóðavísu og eigum að vera leiðandi afl og til fyrirmyndar þó fámenn þjóð séum.

Vinstri græn vilja að framtíðin byggist á jöfnum tækifærum öllum til handa sem byggjast á sjálfbærni,jöfnuði og félagslegu réttlæti.
Vinstri græn eru á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúru landsins.
Við treystum á stuðning ykkar góðir landsmenn í kosningunum í haust því ný ríkisstjórn verður að hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi.

Við þurfum að axla okkar ábyrgð á flóttamannavandanum og eigum að tala fyrir friðsamlegum lausnum á alþjóðavettvangi og setja markið hátt í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda sem er stærsta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins fyrir komandi kynslóðir.

Kvenfrelsi er ekki sjálfgefið og stöðugt þarf að vera á varðbergi svo að sá árangur sem náðst hefur varðveitist og við höldum áfram á réttri braut til hagsbóta fyrir bæði kynin.

Portúgalski verkamaðurinn sem ég hitti á Reykjavíkurflugvelli um daginn minnti mig svo sannarlega á að baráttan fyrir réttlátu samfélagi líkur aldrei og hættan á aukinni misskiptingu og spillingu er stöðugt til staðar jafnt hér heima sem annarsstaðar ef við sofnum á verðinum.

Vinstri græn vilja að framtíðin byggist á jöfnum tækifærum öllum til handa sem byggjast á sjálfbærni,jöfnuði og félagslegu réttlæti.
Vinstri græn eru á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúru landsins.

Við treystum á stuðning ykkar góðir landsmenn í kosningunum í haust því ný ríkisstjórn verður að hafi réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi.

Ráðherrahrókering bjargar engu

Ræða Lilju Rafneyjar um nýja ríkisstjórn

Herra forseti. Góðir landsmenn. Sú ríkisstjórn sem nú hefur verið sett á koppinn getur aldrei orðið annað en málamyndagjörningur. Það er skýlaus krafa almennings í landinu að þing verði rofið strax og að fram fari lýðræðislegar kosningar. Núverandi stjórnarmeirihluti er rúinn öllu trausti og atburðarás liðinna daga sýnir betur en nokkuð annað að vanhæfni ráðamanna núverandi stjórnarflokka við að takast á við framgöngu og gjörðir stjórnmálamanna úr eigin röðum, sem haft hafa fjármuni í skattaskjólum og haldið því leyndu gagnvart þingi og þjóð, er algjör.

Siðferðislega er þetta kolrangt en gengur einnig þvert á hagsmuni almennings í landinu og opinberar mikla tvöfeldni gagnvart kjörum almennings í landinu og samfélagslegri ábyrgð og hefur valdið algjörum trúnaðarbresti gagnvart þingi og þjóð. Engin auðmýkt eða afsökunarbeiðni hefur komið fram hjá ráðherrum eða stjórnarliðum, þvert á móti hafa þeir sem hafa tjáð sig um eignir ráðamanna í aflandsfélögum varið það með öllum ráðum fram á síðustu stundu. Eftir afsögn fráfarandi forsætisráðherra hefur engum þótt ástæða til að sýna iðrun og viðurkenna að eitthvað væri athugavert við að fara með fjármuni í skattaskjól og taka ekki þátt í samfélagslegri uppbyggingu.

Allar þjóðir berjast gegn skattaskjólum en íslenskir ráðamenn stinga hausnum í sandinn og finnst ekkert athugavert við lágskattasvæði og skattaskjól því að einhvers staðar verða peningarnir að vera, eins og núverandi hæstv. forsætisráðherra komst svo smekklega að orði á dögunum.

Vegna rannsóknarblaðamennsku og uppljóstrana um félög í skattaskjólum og í kjölfar mikilla mótmæla og þrýstings frá almenningi, stjórnarandstöðunni og alheimspressunni voru ráðamenn þvingaðir til að fórna forsætisráðherra en halda nú að með ráðherraskiptum sé allt orðið hvítþvegið og að áfram sé hægt að halda um valdataumana eins og ekkert hafi skeð og keyra sín mál í gegn með traustum meiri hluta eins og endurtekið hefur verið hér oft. Ja, hvílíkur hroki kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra hér áðan. Það var ekki eins og hann væri að kalla eftir einhverri samstöðu með stjórnarandstöðunni í málunum sem eru fram undan ef marka má orð hans um hvort yfir höfuð eigi að verða kosningar í haust.

Nei, hlutirnir ganga ekki svona fyrir sig á eyrinni. Það ríkir mikið vantraust til allrar ríkisstjórnarinnar sem of seint er að lappa upp á og fleiri ráðherrar hafa verið með félög í skattaskjólum eins og alþjóð veit. Í hinni ótrúlegu atburðarás undanfarna daga og vikur sést hve miklu máli góðir rannsóknarblaðamenn, eins og Jóhannes Kristjánsson, skipta fyrir lýðræðisumræðu í þjóðfélaginu. RÚV, rannsóknarblaðamenn innlendir sem erlendir og aðrir fjölmiðlar sem komið hafa að því að fletta ofan af eignarhaldsfélögum í skattaskjólum eiga heiður skilinn. Sýnir þetta mál vel hve mikilvægt er að styrkja og efla sjálfstæði fréttastofu Ríkisútvarpsins og rannsóknarblaðamennsku almennt vegna lýðræðis og almannahagsmuna í landinu.

Ríkisstjórnin telur sig vera ómissandi og að hún þurfi að ljúka svo brýnum verkefnum að hún geti alls ekki farið frá strax, í fyrsta lagi einhvern tímann í haust ef stjórnarandstaðan verður samstarfsfús við að klára málefnaskrá hennar — ja, hérna, málefnaskrá hennar sem er ansi skrautleg. Það er líka furðulegt að hún hafi á þessum þrem árum ekki komið meiru í verk en raun ber vitni. Nú ætlar hún undir þessum aðstæðum að skrúfa allt í gegn og hafa stjórnarandstöðuna í þumalskrúfu og allir eiga að vera kátir og glaðir af því að þetta sé svo frábær ríkisstjórn — eða hitt þó heldur. Ég held að menn ættu að skammast sín fyrir slíkan hroka gagnvart þjóð sinni á þessum örlagatímum.

Eins og ég segi er langhreinlegast að ganga til kosninga núna og að ný stjórn með endurnýjað umboð kjósenda takist á við þau verkefni sem fram undan eru sem vissulega eru mörg og brýn. Vinnan við afnám hafta, sem hófst á síðasta kjörtímabili, er í góðum farvegi og enginn sem situr á þingi ætlar að vinna gegn þeirri vinnu sem þar er farin í gang. Það mun ekki skaðast þó að það verði ríkisstjórnarskipti. Þessi nýja ríkisstjórn dugar ekki til neinna verka. Orðspor Íslands og trúverðugleiki innan lands sem erlendis hefur stórskaðast og eingöngu lýðræðislegar kosningar geta unnið gegn þeim skaða.

Erlenda pressan segir að fólk vilji losna við ríkisstjórnarflokkana og að þeir hafi misst traust almennings. Það er hárrétt mat og engin ráðherrahrókering bjargar því. Öflug mótmæli og réttlætiskennd almennings sýnir að hann vill eitthvað annað og allt annað. Þessi ríkisstjórn er ekki á sumar setjandi yfir höfuð, hennar tími er liðinn og engin eftirspurn er eftir henni nema hjá valdaþyrstum stjórnmálamönnum sem þekkja ekki sinn vitjunartíma. Ríkisstjórnin á að fara frá strax.

Áfram er dregið úr þjónustu á landsbyggðinni!

Íslandspóstur hf. ætlar að fækka dreifingardögum í dreifbýli í annan hvern dag og fækka landpóstum og er sú ákvörðun byggð á heimild í nýrri reglugerð innanríkisráðuneytisins.

Ég tók þessi mál upp í fyrirspurnartíma Alþingis þar sem innanríkisráðherra var til svara og lýsti því yfir að mér þætti þetta vera aðför að dreifðum byggðum.

Ráðherra taldi að ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af þessum breytingum, þjónustan yrði til staðar áfram, gegn gjaldi „nota bene“, og þjónustukönnun sýndi að ekki væri almenn andstaða við sveigjanleika í dreifingu póstsins og póstsamskipti hefðu færst mikið yfir á netið. Ég vil benda á að aukin þjónusta og verslun á netinu nær ekki til allra dreifðra byggða og enn er langt í land að tryggð sé háhraðanettenging til allra landsmanna.

Mótmæli frá fulltrúum landsbyggðarinnar

Margar sveitastjórnir í dreifbýli hafa eðlilega mótmælt þessum áformum harðlega og benda á máli sínu til stuðnings að þarna sé um afturför og veikingu á búsetuskilyrðum að ræða. Lítið samráð hefur verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtökin í þessu máli og ýmsar athugasemdir hafa komið við það af þeirra hálfu. Íbúar í dreifbýli hafa nú þegar mátt þola fækkun afgreiðslustöðva Póstsins á undanförnum árum þrátt fyrir að þurfa að reiða sig á póstþjónustuna þar sem þeir eru fjarri fjölbreyttri þjónustu og markaðssvæðum. Þessi ákvörðun kemur líka ofan á ýmsa aðra þjónustuskerðingu af hálfu opinberra- og einkaaðila að undanförnu.

Góð fimm daga þjónusta Póstsins hefur skipt dreifðar byggðir miklu máli og má þar m.a. nefna lyfjasendingar fyrir fólk og búfé og ýmiss konar birgða og varahlutaþjónustu.

Íslandspóstur hf. talar um að póstinum verði að lágmarki dreift annan hvern dag og að í dreifbýli verði boðið upp á heimsendingu gegn greiðslu alla virka daga eftir því sem óskað verður eftir. Sem sagt, enn einn landsbyggðarskatturinn á ferðinni þar sem þjónustan verður verðlögð sérstaklega umfram dreifingu annan hvern dag. Með þessum áformum ætlar Pósturinn að spara um 200 m.kr í boði veikustu byggðanna í landinu. Ég hef sagt að ef sú ákvörðun verður tekin af yfirvöldum að það sé ekki þörf fyrir dreifingu á pósti nema annan hvern dag þá hljóti það að gilda jafnt um alla landsmenn. Mín skoðun er eftir sem áður sú að Íslandspóstur hf. eigi áfram að halda uppi 5 daga góðri alþjónustu fyrir alla landsmenn. Ég bind vonir við að ákvörðun Íslandspósts hf. um skerðingu á þjónustu verði endurskoðuð og reglugerð innanríkisráðherra sem heimilar þessa þjónustuskerðingu verði dregin til baka. Landsbyggðarþingmenn hljóta að standa saman gegn þessum áformum og ég bind í það minnsta vonir við að samstaða náist um að allir landsmenn sitji við sama borð og njóti alþjónustu Íslandspósts hf. áfram fimm daga vikunnar.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður VG í Norðvesturkjördæmi

Blússandi ójöfnuður eða blússandi góðæri?

Í upphafi árs lítum við yfir farinn veg og stígum á stokk og heitum á okkur sjálf að ná árangri í þeim verkefnum sem við erum að kljást við hverju sinni. Á Alþingi eru það fjárlögin sem endurspegla stefnu hverrar ríkisstjórnar og stjórnarandstaðan glímir við að ná fram breytingum á í takt við stefnu sinna flokka. Stjórnarandstaðan lagðist öll á eitt við að ná fram leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja en það fór sem fór ríkisstjórnin sýndi enn og aftur sitt rétta andlit og sannaði það að hún þjónar fyrst og fremst efnafólki í landinu og vildi ekki koma til móts við kröfur aldraðra og öryrkja og hafi hún skömm fyrir !

Heilu málaflokkarnir fjársveltir

Það er nú ekki eins og þarna séu á ferðinni fjárlög sem hægt er að hrópa húrra fyrir. Við vitum að núverandi ríkisstjórn býr við allt aðrar aðstæður en fyrrverandi ríkisstjórn sem tók við afleiðingum efnahagshrunsins og lagði grunninn að þeim efnahagsbata sem nú er að skila sér. Nú hefði verið möguleiki á að vera með mikla innspýtingu í marga málaflokka sem þurftu því miður að taka á sig skerðingar á síðasta kjörtímabili. Það er löngu kominn tími á innviðauppbyggingu í samfélaginu og að tekið sé virkilega vel á í eflingu velferðarkerfisins. En því er ekki fyrir að fara. Heilu málaflokkarnir eru fjársveltir, s.s. heilbrigðis og samgöngumál, byggða- og sóknaráætlanir,stuðningur við brothættar byggðir minnkar, aðför er gerð að menntun á landsbyggðinni með takmörkun á aðgengi að námi 25 ára og eldri í framhaldsskóla og dregið er úr jöfnun námskostnaðar . Auknir fjármunir voru þó settir á lokametrunum í uppbyggingu háhraðatenginga á landsbyggðinni utan markaðssvæða og er það vel en betur má ef duga skal ef þessu verkefni á að ljúka innan fárra ára sem verður að gerast. Aðförin af Rúv heldur áfram og þó tekist hafi að fá skilyrta leiðréttingu á elleftu stundu þá dylst engum að það er verið að mylja undan stofnuninni sem á erfitt með að sinna  menningar og lýðræðislegu hlutverki sínu.

Vandræðagangur og óleyst verkefni

Það vantar  enn mikið upp á að búið sé að jafna orkukostnað í landinu. Mikill vandræðagangur er með að fjármagna það verkefni að fullu þó að vissulega hafi verið settir fjármunir í jöfnun húshitunar og í dreifingu á raforku þá er enn langt í land að íbúar landsins sitji þar við sama borð en það vantar enn að minnsta kosti 200–300 millj. kr. á ári til þess að hægt sé að tala um jöfnuð.  Í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða  eru settir alltof litlir fjármunir miðað við þá miklu fjölgun ferðamanna sem orðið hefur undanfarin ár og verður áfram og kallar á mikla innviðauppbyggingu til að verja landið ágangi . Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig mæta eigi þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við, sérstaklega hjá ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill oft gleymast að margir staðir á landsbyggðinni glíma líka við húsnæðisskort. Víða er það vandamál að fólk sem vill setjast að úti á landi fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér til þess að byggja því að eignin er verðfelld um leið og fasteignamat liggur fyrir. Í þeim málaflokki liggja ekki fyrir neinar heildarlausnir. Nú er rúmlega hálfnað þriðja ár þessarar ríkisstjórnar og það eru allt of litlir fjármunir sýnilegir í þessi brýnu verkefni.

Árás á kjör barnafólks og þeirra efnaminni

Vaxtabæturnar eru skornar niður um 1,5 milljarða og barnabætur fylgja ekki verðlagi. Fæðingarorlofssjóður er sveltur. En ríkisstjórnin heldur áfram að gefa á garðann hjá þeim efnameiri og lækka á þá skatta. Þá spyr maður sig : Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og aðstæður ?  Það er verið að vinna gegn þrepaskiptu skattkerfi og leggja það niður í áföngum, fleiri skattþrep eru miklu sanngjarnari gagnvart þeim tekjuminni. Eflaust hefði mátt endurskoða eitthvað prósentutöluna í því þrepaskipta skattkerfi sem komið var á á síðasta kjörtímabili og einnig bilið á milli þrepa. En fækkun þrepa þýðir bara eitt; það eru lægri skattar á þá efnameiri.

Ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu ríka fólksins

Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við völdum afsalað sér tekjum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auðlegðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda og tolla sem taka eiga gildi nú um næstu áramót í tveimur áföngum. En við skulum heldur ekki gleyma því að þessi ríkisstjórn hækkaði matarskattinn svo um munaði, úr 7% í 11% og lagði þar með þungar álögur á almenning. Ýmiss konar beinn kostnaður hjá almenningi er aukinn, bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lágum sköttum en íþyngja svo almenningi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekjuminni. Tryggingagjaldið er lækkað sáralítið, en lækkun þess hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi. Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa tekjum sínum sjálft og að skattar séu af hinu vonda. En ég tel að fólkið í landinu geri kröfu til jöfnuðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og góðra fjarskipta. Til þess þarf fjármuni. Einnig þarf fjármuni til að forgangsraða í þágu elli- og örorkulífeyrisþega svo að þeim séu tryggð mannsæmandi lífskjör. Ef það á að ganga eftir verða allir að leggja sitt af mörkum í sameiginlega sjóði og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni, sem eru orðin æði mörg og bíða úrlausnar.

Fjármunir sem hefðu nýst í brýn verkefni

Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórnin hefur afsalað sér í tekjum frá því að hún tók við árið 2013.  Þar má nefna uppbyggingu Landspítalans og önnur þjóðþrifamál, eins og bætt kjör elli- og örorkulífeyrisþega og innviðauppbyggingu samfélagsins. En þessi ríkisstjórn hefur valið að vinna fyrst og fremst með þeim efnameiri en skilja eftir þá sem minna mega sín. Þeir sitja eftir og það er bara staðreynd. Ójöfnuður í landinu er að aukast hratt og margar vísbendingar eru til þess að við séum að kynda upp í sömu atburðarrás og olli Hruninu fyrir 8 árum og að sömu flokkarnir beri þar megin ábyrgð á með aukinni misskiptingu og vondri efnahagsstjórn. Alltof stórir hópar eru að festast í fátæktargildru, veruleiki sem við sem rík þjóð eigum ekki að láta viðgangast. Allt tal um að nú sé skollið á blússandi góðæri  sker í eyrun þar sem það nær bara til þeirra útvöldu en þorri landsmanna stendur í þeim sporum að berjast við það að ná endum saman um hver mánaðarmót. Það hefur alla tíð verið ákveðin list stjórnvalda að blekkja með tölum og svara því til að af meðaltali hafi menn það bara fjári gott. Við skulum ætíð muna það að á bak við lágar tekjur og tölur og línurit og alls konar mælikvarða í excel-skjölum er fólk sem hefur sömu þarfir og þeir sem hafa miklar tekjur.

Stundaglas þessarar ríkisstjórnar er að tæmast

Þó tíminn þjóti framhjá alltof hratt þá er það þó bót í máli að lífdagar þessarar ríkisstjórnar  eru brátt á enda. Þetta hefur verið verklaus ríkisstjórn sem betur fer af því leiti að henni hefur þá ekki tekist að skemma meira en orðið er í velferðarkerfinu. Hún ætlaði að skattleggja kröfuhafa bankanna um mörg hundruð milljarða en það breyttist í miklu lægra stöðugleikaframlag á forsendum kröfuhafanna þar sem þeir eru nú lausir allra mála en enginn veit hvenær almenningur og fyrirtækin losna úr gjaldeyrishöftum og hvernig ríkinu gengur að breyta stöðugleikaframlaginu í fjármuni.  Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar  verður að vera að auka jöfnuð og velferð í landinu. Landsbyggðin má ekki verða einhver afgangsstærð þar liggja ótal möguleikar ef skatttekjur fá að skila sér þangað aftur í innviðauppbyggingu. Ég vil sjá nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, nýja stjórnarskrá með auðlindarákvæði,rétt til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu,umhverfisákvæði og fullveldisákvæði. Ég vil sjá jöfn tækifæri til menntunar og aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í sátt við umhverfið og að sjálfbærnisjónarmið séu höfð að leiðarljósi.

Er þetta ekki ágætur forgangslisti sem hægt er að framkvæma innan ramma ábyrgrar efnahagsstjórnar. Við íslendingar eigum að sjálfsögðu að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna í loftslagsmálum og þeim mikla flóttamannavanda sem blasir við þar skiptir okkar afstaða máli.

Ég óska landsmönnum gleðilegs árs og að nýtt ár megi verða okkur öllum gæfuríkt.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Aðför að menntun í landinu

Skorið af námstækifærum

Það verður að segjast að hinar hrikalegu tölur um fækkun nemenda í framhaldsskólum landsins á milli áranna 2014 og 2015 koma ekki á óvart. Þessi óheillaþróun stafar af þeirri ákvörðun menntamálaráðherra á síðasta ári að meina fólki yfir 25 ára aldur að gerast bóknámsnemendur í framhaldsskólanum í sinni heimabyggð. Eins og vænta mátti var þessi ákvörðun menntamálaráðherra andmælt harðlega, bæði af okkur í stjórnarandstöðunni á Alþingi og einnig af skólastjórnendum. Ráðherra hélt þó sínu striki og nú blasa afleiðingar ráðstafana hans við.
Frá því að breytingin gekk í gildi hefur nemendum 25 ára og eldri fækkað um 742 í framhaldsskólum sem starfræktir eru af hinu opinbera. Þar af eru 447 bóknámsnemendur en afgangurinn nemendur í verknámi. Breytingin snertir auðvitað bæði einstaklingana sem hafa verið sviptir námsmöguleikum sínum og rekstur framhaldsskólanna. Í erindum sínum til þingmanna hafa skólastjórnendur lýst þungum áhyggjum sínum vegna hinnar umdeildu ákvörðunar menntamálaráðherra um að loka framhaldsskólunum fyrir fólki yfir 25 ára aldur sem kom til framkvæmda samhliða ákvörðun hans um að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár. Í sameiningu hafa þessar ráðstafanir orðið til að valda gagngerum breytingum á rekstrarumhverfi framhaldsskólanna en lítið svigrúm gefið til aðlögunar.

Skólar í uppnámi, fólk í vanda

Meðal þess sem skólastjórnendur hafa áhyggjur af er að fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum þýði minna námsframboð og einsleitari skóla. Einnig telja þeir óljóst um afdrif þróunarstarfs í skólunum og álíta að samstarf milli skóla um dreif- og fjarnám kunni að vera í hættu. Hið síðarnefnda snertir sérstaklega skólastarf á landsbyggðinni þar sem nemendur í dreif- og fjarnámi hafa verið framhaldsskólunum þar mjög hagstæðir og stutt við námsframboð og betri nýtingu fjármuna.
Framhaldsdeildir sem hafa verið að byggjast upp víða um land gjalda líka fyrir hina gerræðislegu ákvörðun menntamálaráðherra um fækkun nemendaígilda og 25 ára reglunnar. Niðurskurðurinn bítur líka þarna og framhaldsdeildirnar standa frammi fyrir því að þurfa að skera starfsemi sína niður. Skólastjórnendur lenda í þeirri ömurlegu stöðu að þurfa að hafna umsóknum um skólavist og afleiðingar þess fyrir einstaklingana sem fyrir því verða og samfélag þeirra eru hörmulegar. Fólk á ekki annarra kosta völ en að gefa áform sín um nám upp á bátinn eða leita út fyrir sínar heimaslóðir. Þetta er þeim mun nöturlegra þegar haft er í huga að skólarnir sem líða fyrir hið nýja skipulag eru ekki síst þeir sem staðsettir eru á svæðum sem eiga í vök að verjast með tilliti til menntunar- og atvinnumöguleika

Stjórnendur margra framhaldsskóla standa í eilífum barningi við að ná endum saman og bjóða upp á nægilegt námsframboð til að skólarnir sem þeir stýra verði samkeppnishæfir og laði til sín nemendur. Fjárheimildir miðast við þá nemendur sem ljúka námi og rekstur verknámsbrauta er tiltölulega kostnaðarsamur þannig að ekki er unnt að halda þeim úti nema með ákveðnum lágmarksfjölda nemenda. Þessi staða þýðir að huga þarf sérstaklega að því að tryggja minni framhaldsskólunum nægilegt fjármagn á hverju ári til að reka grunndeildir verknáms og tvær bóknámsbrautir að lágmarki. Lágmarksfjárveiting til rekstur framhaldsskóla – gólfið svokallað – verður að miðast við þetta.

Skólinn í samfélaginu og samfélagið í skólanum

Flestum er ljóst hve mikilvægt öflugt starf framhaldsskóla er. Þar er einstaklingunum veittur nauðsynlegur undirbúningur til að takast á við atvinnulífið og þær áskoranir sem fylgja því að búa og starfa í flókinni og tæknivæddri nútímaveröld. Skólastarfið er nauðsynlegur og mikilvægur þáttur í þjóðlífinu og gildir þá einu hvort mat er lagt á þá út frá forsendum þéttbýlis eða dreifbýlis. Framhaldsskólarnir eru einfaldlega meðal mikilvægustu stoða samfélagsins og þegar þær stoðir eru veiktar eða fjarlægðar stendur samfélagið einfaldlega veikara eftir. Mikilvægi góðs aðgengis að menntun ætti að vera flestum ljóst og það getur engum dulist að framhaldsskólarnir eiga ríkan þátt í byggðaþróun og framförum þar sem þeir eru starfræktir. Með ákvörðunum sínum um að skerða starfsemi framhaldsskólanna hefur menntamálaráðherra vegið að hlutverki þeirra og tilverugrundvelli. Afleiðingarnar eru margvíslegar en ljóst er þeirra verður mikið vart á landsbyggðinni þar sem þær koma fram í veikari stöðu byggðanna og fráhvarfi efnaminna fólks frá námi. Ráðstafanir menntamálaráherra hafa þannig breytt stöðu skólanna í samfélaginu og einnig samfélaginu innan vébanda þeirra.
Framhaldsskólarnir á landsbyggðinni hafa gefið fjölda nemenda tækifæri til að ljúka framhaldsskólanámi. Sumir hafa notið þar möguleika á að taka til við nám að nýju eftir námshlé eða hafið nám eftir að vera komið af æskuskeiði. Í mörgum tilvikum hefur fólk síðan getað aflað sér framhaldsmenntunar í fjarnámi og án þess að þurfa að flytja brott af sínum heimaslóðum. Með þessu móti verður samhljómur milli skóla og samfélags þar sem einstaklingarnir mennta sig beinlínis til að takast á við sérhæfð störf í heimabyggð, mennta sig svo að segja inn í nærsamfélagið. Þessu er nú öllu stefnt í uppnám.

Mennt er ekki munaður

Það er engan veginn boðlegur kostur að rýra starfsgrundvöll framhaldsskólanna eins og gert hefur verið og takmarka aðgengi að þeim. Fólk ætti ekki að þurfa að sæta því að verða að flytjast búferlum til að eiga kost á námi á framhaldsskólastig og vera jafnvel gert að stunda það í einkaskólum með tilheyrandi kostnaði. Samfélag okkar kallar eftir menntuðu fólki og ekki síst fólki með haldgóða iðn- og tæknimenntun. Þessu kalli verður að svara með öflugum verknámsbrautum á framhaldsskólastigi um allt land.

Það verður að koma í veg fyrir að stjórnvöld með menntamálaráðherra í broddi fylkingar eyðileggi metnaðarfulla uppbyggingu skólastarfs í framhaldsskólum landsins. Honum má ekki haldast uppi að ráðast þannig gegn hagsmunum landsbyggðarinnar. Mennt er nauðsyn, ekki munaður, og þegar gerðar eru ráðstafanir sem veikja eða jafnvel buga skólastarf á landsbyggðinni og skerða tækifæri efnaminna fólks til að afla sér menntunar er vægast sagt farið að syrta í álinn með stjórnarhætti í landinu.
Niðurrifsstefna menntamálaráðherra má ekki verða ofan á. Hún verðskuldar að bíða skipbrot og það sem fyrst. Í stað hennar ætti að koma uppbyggingarstefna sem styrkir framhaldsskólastarf hvarvetna í landinu en ekki síst á landsbyggðinni og eflir símenntunarstöðvarnar sem víða búa nú við þröngan kost.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna í NV-kjördæmi

Öryggismál sjómanna í forgang!

Þessi grein er skrifuð 11. nóvember sl.

Öryggismál sjómanna hafa mikið verið í umræðunni í ljósi hörmulegs sjóslyss sem varð í sumar þegar Jón Hákon BA 60 sökk út af Aðalvík og einn maður fórst en þrír komust lífs af þegar nálægur bátur kom þeim til bjargar á ögurstundu.

Myndir úr neðansjávarmyndavél sýna að sjálfvirkur sleppibúnaður virkaði ekki og björgunarbátar opnuðust ekki þegar á reyndi.

Það sama gerðist nú á dögunum þegar sanddæluskipið Perlan sökk í Reykjavíkurhöfn og sleppigálgi virkaði ekki sem skyldi og björgunarbátar sem eru einn mikilvægasti öryggisþáttur  sem sjómenn reiða sig á opnast ekki.

Rannsóknarstjóri sjóslysanefndar segir af þessu tilefni að það komi til greina að endurskoða verklags og öryggisreglur.Já þó fyrr hefði verið !

Allt frá því að Jón Hákon BA 60 sökk sl.sumar hafa komið fram fjölmargar áskoranir frá sjómannasamtökum,félagasamtökum ,sveitarfélögum og almenningi í landinu um að skipsflakið verði sótt á hafsbotn svo rannsaka megi til fullnustu orsakir þess að öryggiabúnaðu virkaði ekki þegar slysið varð. Allt verður að gera til þess að rannsaka hvað veldur því að endurtekið er sjálfvirkur öryggisbúnaður ekki að virka þegar á reynir.

Ég hef tekið þessi mál upp í þinginu ítrekað og reynt að hreyfa við rannsókn málsins eins og mögulegt er þó vísað hafi verið til þess að Ransóknarnefnd samgönguslysa sé sjálfstætt starfandi þá tel ég það vera skyldu okkar þingmanna að sinna eftirlitshlutverki bæði hvað varðar það að tryggja að eftirlit með öryggisbúnaði sé tryggt og að nægar fjárveitingar séu til rannsókna sjóslysa eins og það að ná skipsflakinu af Jóni Hákoni BA 60 upp af hafsbotni í þágu rannsóknarinnar.

Til þess að fara yfir þessi mál hef ég fengið til fundar við Atvinnuveganefnd á tveim fundum í liðnum október mánuði fjölda gesta sem málið varðar s.s. Ransóknarnefnd samgönguslysa, fulltrúa sjómannasamtaka, SFS, LS,eftirlitsaðila ,fulltrúa framleiðenda öryggisbúnaðar um borð í bátum og skipum ,fulltrúa úr Innanríkisráðuneytinu og forstjóra Samgöngustofu.

Þessir fundir hafa verið mjög upplýsandi og til góðs þar sem þessir aðilar hafa farið yfir verkferla ,hvar ábyrgð hvers og eins liggur og um mikilvægi þess að með ítarlegri rannsókn sjóslysa sé mögulega hægt að forða að slíkt endurtaki sig og draga megi þar með úr líkum á dauðsföllum og slysum til sjós í framtíðinni.

Það fer ekki á milli mála að við íslendingar höfum verið mjög framarlega hvað varðar öryggi sjófaranda og tilkoma  Slysavarnarskóla sjómanna hefur skipt sköpum í þeim efnum ásamt því að hér á landi hefur verið þróaður ýmis björgunarbúnaður sem hefur bjargað fjölda mannslífa bæði á bátum og skipum.

Því vekur það mikinn óhug að ekki sé hægt að leggja traust sitt á þann sjálfvirka öryggisbúnað sem um ræðir og á meðan upplifa sjómenn sig búa við falskt öryggi og aðstandendur þeirra eru áhyggjufullir.

Það er því brýnt að allir þeir sem koma að öryggis og slysavörnum sjómanna taki höndum saman um að komast til botns í því hversvegna sjálfvirkur björgunarbúnaður virkaði ekki.

Það hvílir einnig mikil ábyrgð á höndum Samgöngustofu,Rannsóknarnefndar samgönguslysa og þeirra einkaaðila sem sjá um efirlit með öryggisbúnaði.  Það á ekki að vera tilgangurinn með rannsókninni sérstaklega hverjum sé um að kenna heldur fyrst og fremst hvað fór úrskeiðis og hvernig má koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Rannsóknir á sjóslysum við Ísland eiga að vera í fremstu röð og unnar faglega og þar mega fjármunir ekki vera nein fyrirstaða  því mannslíf eru þar í húfi.

“ Tryggja verður öryggi sjófarenda og hraða rannsókn sjóslyssins á Jóni Hákoni BA 60 og til þess að svo megi verða verður að ná skipsflakinu upp af hafsbotni strax í ljósi rannsóknarhagsmuna „

Tek ég þar enn og aftur undir með kröfum sjómanna og annara þeirra sem láta sig öryggismál sjómanna varða.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna og varaformaður Atvinnuveganefndar.

Samþjöppun í mjólkurframleiðslu

Mikil þróun og framfarir hafa verið í kúabúskap og mjólkurframleiðslu undanfarin ár. Búin hafa stækkað og tækniframfarir orðið miklar og mörg bú hafa tekið róbóta í sína þjónustu og er það ánægjulegt og mikilvægt að greinin geti þróast og vaxið svo hún geti orðið sem best samkeppnisfær við aukinn innflutning og aukið vöruúrval og þjónað neytendum sem best. Sá hluti búvörusamningsins sem snýr að mjólkurframleiðslunni rennur út í lok næsta árs og undirbúningur að gerð nýs samnings er hafinn. Í því ljósi vakna ýmsar spurningar um hvernig stuðningi við greinina verði háttað í nýjum búvörusamningi þar sem miklar breytingar hafa verið í greininni undanfarin ár.

Dæmi eru um mikla samþjöppun í mjólkurframleiðslu og í raun eru orðin til verksmiðjubú, t.d. í Flatey á Mýrum þar sem einkahlutafélagið Selbakki í eigu útgerðarfélagsins Skinneyjar–Þinganess á Höfn er að reisa stærsta fjós landsins með rými fyrir 300 kýr. Ætlunin er að tvöfalda mjólkurframleiðsluna úr 1 millj. lítra í 2 millj. lítra á ári. Ég spyr: Er eðlilegt að stórir útgerðarrisar og fjárfestar komi með mikið fjármagn inn í mjólkurframleiðsluna og fái síðan beingreiðslur til jafns við aðra? Er réttlætanlegt að ríkisstuðningur renni til eins stærsta útgerðarfélags landsins? Varla getur það fallið undir eitt af markmiðum búvörusamningsins.

Í sjávarútvegi mega fyrirtæki ekki vera nema með 12% af heildarúthlutuðum afla. Er ekki eðlilegt að sömu sjónarmið gildi um mjólkurframleiðslu og að girðingar verði settar til að koma í veg fyrir mikla samþjöppun í greininni? Stuðningur ríkisins við mjólkurframleiðslu í ljósi aukinnar samþjöppunar í greininni og aðkomu stórra fjárfesta á móti hefðbundnum fjölskyldubúsrekstri hlýtur að kalla á endurskoðun á beingreiðslum og að þær gangi til jafns til verksmiðjubúa og annarra framleiðenda. Í dag eru svokallaðar gripagreiðslur misháar í búvörusamningi og sýna fram á að það er hægt að skerða og mismuna í ríkisstyrk. Mikilvægt er að greinin hafi færi á að vaxa og dafna og geti nýtt sér sem best tækninýjungar og að bændur geti bætt vinnuaðstöðu sína og aðbúnað gripanna. Margir bændur hafa lagt í gífurlegar fjárfestingar undanfarin ár og í byggingu nútímafjósa þar sem fjárfest hefur verið í dýrum búnaði sem getur lagst á allt að 120 millj. kr. í verðmæti. Til þess að standa undir slíkri fjárfestingu verður framleiðslan að vera, er mér sagt, um 800 þús. lítrar miðaði við til dæmis tvo róbóta.

Það sem er mikið áhyggjuefni í dag eru kynslóðaskiptin í greininni og hve erfitt reynist fyrir unga bændur að fóta sig í greininni þar sem gífurlega dýrt er að fjárfesta í greiðslumarki og byggja sig upp og bankarnir bjóða okurvexti og halda mönnum í raun í skuldafjötrum um ókomin ár. Það sýnir enn og aftur að þörf er á því að ríkisbanki eins og Landsbankinn sé gerður að samfélagsbanka sem sinni samfélagslegu og félagslegu hlutverki um land allt. Ég tel að það þurfi að horfa til þess með hvaða hætti stuðningur við greinina nýtist best til kynslóðaskipta í greininni og til að búskapur haldist áfram á góðum bújörðum.
Það er líka mikilvægt að horfa sé til þess að halda landinu í byggð og hvað geti gerst ef svo mikil og óheft samþjöppun verður í mjólkuriðnaði að búum fækkar kannski úr ca. 700 í 200. Það yrði gífurleg búsetubreyting hér um allt land og það hefði gífurlega miklar samfélagslegar afleiðingar.

Við höfum horft upp á hvernig kvótakerfið í sjávarútvegi hefur farið með byggðirnar. Ætlum við að horfa upp á að það sama gerist í sveitum landsins án þess að bregðast við meðan tími er til? Ég tel að mikil ábyrgð hvíli á herðum hæstv. landbúnaðarráðherra og Alþingi í þessum efnum og það verði að skoða þetta í því ljósi hver heildaráhrifin verða í framtíðinni á mjólkurbúskap og fjölskyldubúrekstrar í landinu. Byggðastofnun ætti í samstarfi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri að gera úttekt og greiningu á áhrifum og afleiðingum samþjöppunnar í mjólkurframleiðslu í landinu hvað varðar byggðaþróun og möguleika til kynslóðaskipta í greininni.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna í Norðvestur kjördæmi.

Banki allra landsmanna?

Landsbankinn hefur viljað kalla sig banka allra landsmanna en því er nú ekki fyrir að fara í ljósi framgöngu hans.
Harkalegar aðgerðir bankans á Vestfjörðum bera þess ekki vitni að þar fari þjóðarbanki í eigu ríkisins sem vilji þjónusta alla landsmenn.

Vestfirðir hafa sérstaklega goldið fyrir harkalegar aðgerð bankans gagnvart viðskiptavinum sínum en þar hefur bankinn lokað útibúum einu af öðru og nú síðast skellt í lás á Þingeyri,Suðureyri og í Bolungarvík þar sem 11 störf eru undir.
Við þessar ákvarðanir bankans í skjóli hagræðingar hafa því tapast fjöldi starfa og einnig hefur þessi ákvörðun haft áhrif á þjónustu Íslandspósts þar sem hann hefur verið með starfsemi sína í samrekstri með útibúunum.
Landsbankinn hefur ekki sýnt neinn vilja til þess að endurskoða starfsemina og styrkja hana með t.d. verkefnum í fjarvinnslu frá miðlægri starfsemi bankans.
Heldur er viðskiptavinum ,fyrirtækjum og almenningi boðið að sækja þjónustu áfram um langan veg eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Í Aðgerðarlista Landsbankans frá 2011 er talað um Siðasáttmál og bætta þjónustu og þar er líka talað um „ Samfélagslega ábyrgð“
Og segir : Við ætlum að kynna nýja og heilsteypta stefnu um samfélagslega ábyrgð fyrir 1. maí það ár.
Er þetta samfélagslega ábyrgðin gagnvart landsbyggðinni í verki að öll starfsemi sem skilar ekki hámarksarði sé skorin af í skjóli sömu græðgi og olli bankahruninu 2008.
Hvar eru nú framsóknarmennirnir sem samþykktu á Flokksþingi sínu að við ættum að gera Landsbankann að samfélagsbanka í eigu ríkisins
Ætla þeir stinga hausnum undir væng og láta Sjálfstæðisflokkinn stjórna ferðinni og selja Landsbankann í hlutum eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.

Vestfirðingar kalla nú eftir afstöðu og aðgerða þingmanna sinna til þessara harkalegu og hrokafullu aðgerða Landsbankans gagnvart viðskiptavinum sínum og stefna í að færa viðskipti sín annað ef bankinn stendur við þessa ákvörðun sína.
Landsbankinn hefur verið í viðræðum í við bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar og skoðað hugmynd um þjónustumiðstöð þar sem bankinn biði lágmarksþjónustu við viðskiptavinu. Á þá ekki það sama við um þjónustu á Suðureyri og á Þingeyri og á Flateyri og á þeim stöðum sem bankinn hefur lokað að fara í samstarf við sveitarfélögin um bankaþjónustu.
Vestfirðingar eru búnir að fá sig fullsadda á skerðingu á þjónustu opinberra sem og einkaaðila og við verðum að berjast gegn aðför að búsetuskilyrðum okkar.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna.

Landsbyggðargleraugun og þjóðarkakan

Fjárlögin liggja nú fyrir, fyrsta umræða hefur farið fram og frumvarpið komið til fjárlaganefndar. Nú þegar afrakstur erfiðra aðgerða sem gerðar voru vegna efnahagshrunsins er að skila ríkissjóði góðum tekjuafgangi mætti ætla að fjárlögin bæru þess vitni og veruleg innspýting væri í málaflokka sem höfðu tekið á sig skerðingar og nú væri komið að því að setja verulega fjármuni í innviðauppbyggingu samfélagsins.

Nei, því er nú ekki fyrir að fara heldur eru málaflokkar eins og samgöngumál svelt, fjarskiptaáætlun og fyrirætlanir um ljósleiðaratengingu til dreifðra byggða vanfjármögnuð, framhaldsskólarnir skornir niður í nemendaígildum, skorið er niður til byggða og sóknaráætlana og stuðningur til brothættra byggða felldur niður.

Þessar áherslur bera þess ekki merki að hagsmunir landsbyggðarinnar séu ofarlega á blaði hjá þessari ríkisstjórn.

En áfram skal haldið og dregið er úr jöfnun námskostnaðar. Enn vantar mikið uppá að jöfnun orkukostnaðar sé komin í höfn og enn er sami vandræðagangurinn með fjármögnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og í hann settir alltof litlir fjármunir miðað við þá gífurlegu aukningu ferðamanna sem streyma til landsins.

Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig eigi að mæta þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við og þá sérstaklega gagnvart ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill gleymast að margir staðir á landsbyggðinni glíma við húsnæðisskort og víða er það vandamál að fólk sem vill setjast þar að fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér í að byggja því eignin er verðfelld um leið og fasteignamatið liggur fyrir. Í þessum málaflokki liggja engar heildarlausnir fyrir og alltof litlum fjármunum er varið í væntanlegar úrbætur. Vaxtabætur eru skornar niður um 1.5 milljarð og barnabætur fylgja ekki verðlagi og fæðingarorlofssjóður er sveltur.

Ríkisstjórnin gefur á garðinn áfram til þeirra efnameiri og lækkar á þá skatta eins og enginn sé morgundagurinn. Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og aðstæður? Verið er að leggja af þrepaskipta skattakerfið sem er miklu sanngjarnara gagnvart þeim tekjuminni ,eflaust hefði mátt endurskoða prósentutöluna og bilið á milli þrepa en fækkun þrepa þýðir bara eitt, þ.e. lægri skatta á þá efnameiri.

Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við aflétt sköttum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auðlegðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda og tolla sem hún hampar nú svo mjög. En gleymum ekki því að hún hækkaði matarskattinn svo um munaði og aukinn kostnaður er í ýmiss konar beinum kostnaði fyrir almenning í heilbrigðis og menntakerfinu.

Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lágum sköttum en íþyngja svo almenningi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekjuminni. Tryggingagjaldið er lækkað sáralítið en það hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi. Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa sínum tekjum sjálft og skattar séu af hinu vonda. En fólkið í landinu gerir kröfur til jöfnuðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og fjarskipta. Einnig að laun elli- og örorkulífeyrisþega fylgi launaþróun svo hægt sé að lifa sómasamlegu lífi og að þeim sé tryggt öruggt ævikvöld. Ef þetta á að ganga eftir þá verða allir að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra sjóða og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni sem eru orðin æði mörg og bíða úrlausnar. Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórnin hefur kosið að afsala sér í tekjum frá þeim best settu og nýtt t.d. í uppbyggingu Landspítalans og annarra þjóðþrifamála sem ég hef nefnt hér að ofan

En veldur hver á heldur og ég gef þessari ríkisstjórn ekki háa einkunn fyrir stjórn landsins en það kemur kannski ekki á óvart af hægri stjórn að vera sem mylur undir þá sem nóg eiga fyrir!

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður VG í Norðvesturkjördæmi