Posts

Róttækni og kjarkur í loftslagsmálum

Þjóðir heims standa nú frammi fyrir einu stærsta verkefni sögunnar á stórum fundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í París þessa dagana. Til þess að stemma stigu við aukinni losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr henni svo um munar þarf stórtækar aðgerðir í öllum geirum samfélagsins í öllum samfélögum. Líka á Íslandi.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna lífi á jörðinni. Gríðarlegar breytingar á veðri, hitastigi og yfirborði sjávar munu hafa mikil áhrif á daglegt líf einstaklinga, samfélaga og heilu þjóðanna. Óveður, stórflóð og uppskerubrestir eru orðin daglegt brauð í fréttum víða um heim. Minna hefur farið fyrir umræðunni um fækkun tegundanna sem stendur í beinum tengslum við loftslagsbreytingar. Maðurinn, sem er partur af vistkerfi jarðar, verður fyrir áhrifum af slíkum breytingum eins og allt annað líf á jörðinni. Náttúran getur nefnilega verið án mannsins en maðurinn ekki án náttúrunnar.

Aðeins ein jörð

Hið opinbera markmið er að hlýnunin verði ekki meira en tvær gráður á selsíus en samt verður um að ræða gríðarlegar breytingar af því tagi sem áður er nefnt. Líkurnar á því að takist að ná þessum markmiðum minnka hins vegar með ári hverju. Ef hlýnunin verður meiri verður vandinn stærri og skaðinn á jörðinni óafturkræfur. Við eigum ekki aðra jörð og framtíð hennar er í húfi.

Stærsti vandi mannkyns er græðgisvæðingin, kapítalisminn og ágeng nýting náttúruauðlinda. Trúin á að hagvöxtur sé allra meina bót sama hvaðan hann kemur er villuljós sem er ein helsta ástæðan fyrir stöðu mála í þessum stóru og aðkallandi verkefnum. Viðfangsefni aldarinnar er að tryggja jöfnuð, frið og velsæld í heiminum án ágengs vaxtar og yfirgangs á fólk og náttúru. Til þess þarf nýja og betri mælikvarða en hagvöxt eða þjóðarframleiðslu og meiri áherslu á raunveruleg og varanleg lífsgæði í sátt við náttúru og umhverfi.

Alvöru markmið

En hvað getur Ísland gert? Náttúruverndarsamtök Íslands lögðu fram þrjár kröfur á dögunum að því er varðar framlag Íslands til loftslagsumræðunnar. Í fyrsta lagi að Ísland leggi fram sjálfstæð markmið um að draga úr losun um 40% fyrir 2030, í öðru lagi að stefna að kolefnishlutlausu Íslandi 2050 og loks að hverfa frá öllum áformum um olíuvinnslu á Íslandsmiðum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur tekið undir öll þessi markmið og sér þess stað bæði í ályktunum landsfundar nú í haust og í sérstökum þingmálum sem endurspegla stefnuna. Umhverfisráðherrann hefur verið spurður um afstöðu ríkisstjórnar Íslands í þessum málum og er skemmst frá því að segja að hún gat ekki tekið undir nein þessara markmiða.

Ríkisstjórn Íslands hefur lagt fram sóknaráætlun í loftslagsmálum sem er listi yfir 16 verkefni. Áætlunin er ótímasett, án mælanlegra markmiða, samansafn af kunnuglegum verkefnum en engin heildarsýn. Svo virðist sem ekki liggi fyrir hvernig standi til að fylgja áætluninni eftir, meta framgang hennar eða hvernig hún spilar saman við aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem þegar liggur fyrir samkvæmt lögum frá 2010.

Það þarf meira en verkefnalista og góðar óskir í loftslagsmálum. Það þarf að tala skýrt, hafa metnaðarfull markmið og leggja fé og krafta til rannsókna og þróunar í þágu loftslagsvænni tækni og atvinnustarfsemi. Það þarf stórhug í loftslagsmálum, róttækni og kjark. Við svo stórt verkefni dugar ekkert minna.

Svandís Svavarsdóttir

Nýja stefnu, nýja von

Katrín Jakobsdóttir skrifar

Nú í desember verður haldin loftslagsráðstefna í París. Sumir hafa kallað þennan fund mikilvægasta fund mannkynssögunnar enda er viðfangsefnið risavaxið, að tryggja að hlýnun verði haldið innan marka og jörðin verði áfram byggileg fyrir komandi kynslóðir.

Undanfarin ár hafa margar skýrslur verið lagðar fram um áhrif loftslagsbreytinga af manna völdum. Fáir afneita lengur loftslagsbreytingum en það er líka ljóst samkvæmt nýjum rannsóknum að fólki reynist erfitt að hugsa fram í tímann og takast á við svo stórt verkefni. Það er ekki hægt að leggja ábyrgðina á þessu verkefni á herðar einstaklinga þó að hver og einn geti lagt sitt af mörkum. Þetta er verkefni af slíkri stærðargráðu að stjórnvöld þurfa að taka afgerandi forystu og ráðast í róttækar aðgerðir. Þær leiðir sem hingað til hafa verið reyndar, á borð við viðskiptakerfi með losunarheimildir, hafa því miður ekki skilað nægjanlegum árangri. En hvað er þá til ráða?

Nýlega ályktaði landsfundur Vinstri-grænna að Ísland ætti að setja stefnuna á að verða kolefnishlutlaust árið 2050. Það þýðir að Ísland ætti að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og beita sér líka fyrir bindingu kolefnis. Til þessa eru ýmsar leiðir. Meðal annars þarf að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum og iðnaði, það þarf að setja öll frekari áform um mengandi orkufreka stóriðju af borðinu og hverfa frá áformum um olíuvinnslu. Það þarf ennfremur að binda kolefni, til dæmis með aukinni votlendisendurheimt. Skipuleggja þarf þéttbýli þannig að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir. Skoða á nýja möguleika í almenningssamgöngum, til dæmis léttlestir. Beita þarf enn frekari skattalegum hvötum til að græn samgöngutæki verði hagkvæmasti kosturinn fyrir almenning.

Þá er mikilvægt að Ísland geri sitt til að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og stuðli með beinum styrkjum og skattalegum hvötum að auknum framförum á því sviði. Ísland getur þar orðið frumkvöðull í alþjóðasamfélaginu. Síðast en ekki síst á Ísland að beita sér gegn olíu- og gasvinnslu á Norðurslóðum en æ fleiri stjórnmálamenn stíga nú fram og lýsa því yfir að þeir standi gegn slíkum áformum, bæði vegna loftslagsbreytinga en líka vegna hugsanlegra áhrifa á hið viðkvæma vistkerfi Norðurslóða.

François Hollanda, forseti Frakklands, sótti Ísland heim á dögunum og ávarpaði ráðstefnuna Arctic Circle. Þar sagði hann að það breytti engu þó að einhverjir gætu grætt á loftslagsbreytingum, grætt á því að nýta auðlindir Norðurskautsins, grætt á nýjum siglingaleiðum. Við ættum ekki að græða á því sem ylli eymd annarra, sem skaðaði náttúruna. Um það snerist raunveruleg mannúð og þetta verkefni snerist um mennskuna og að tryggja mannúðlegan heim fyrir fólk um allan heim.

Ísland getur orðið fyrirmyndarland í þessum málum. Ekki með því að tala um að hér sé nú ansi gott ástand heldur með því að gera miklu betur. Þar geta stjórnvöld tekið forystuna, tekið nýja stefnu í atvinnuuppbyggingu, farið í aðgerðir til að flýta orkuskiptum í samgöngum, gefið yfirlýsingu um að Ísland muni beita sér fyrir því að vistkerfi Norðurslóða verði ekki ógnað með ágengri auðlindanýtingu. Því þó að Ísland sé ekki stórt land þá getur það haft áhrif. Og ef ekki er þörf á því núna þá veit ég ekki hvenær er þörf á slíku frumkvæði. Það er algjört lykilatriði að fundurinn í París skili okkur nýrri stefnu og nýrri von. Við getum lagt okkar af mörkum til þess.

Vill metnaðarfull loftslagsmarkmið Íslands

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, beindi óundirbúinni fyrirspurn um loftslagsmarkmið Íslands til umhverfisráðherra á Alþingi í morgun.

„Hér á Alþingi ræðum við mörg mál en að mínu viti verjum við ekki nægilegum tíma í að ræða stærsta viðfangsefni samtímans, sem eru loftslagsbreytingar.“ Katrín spurði umhverfisráðherra út í loftslagsmarkmið Íslands fyrir fyrirhugaða loftslagsráðstefnu í París á þessu ári. Hún benti á að Evrópusambandið væri búið að setja sér sín markmið og að Noregur hefði sett fram markmið um að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030. Markmið Íslands væru hins vegar ekki komin fram. „Enn bólar ekkert á þessum markmiðum“, sagði Katrín og spurði: „Hvar eru markmiðin, hvenær koma þau og hver verða þau?“

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra svaraði því til að verið væri að vinna markmið Íslands og að þau yrðu lögð fram í ríkisstjórn „áður en þing fer heim í næstu viku“. Umhverfisráðherra sagði einnig „mjög líklegt, svo ég segi það, að við munum fylgja Noregi og Evrópu.“

Í seinni ræðu sinni lagði Katrín áherslu á að nefndir þingsins fengu kynningu á loftslagsmarkmiðum Íslands á sama tíma og ríkisstjórnin. Katrín ítrekaði að loftslagsvandinn veyrði ekki leystur „nema ríkisstjórnir heimsins komi sér saman um róttækar aðgerðir.“ Að lokum sagði Katrín: „Ef við ætlum að taka mark á þeim vísbendingum sem koma fram hér árlega þá hvet ég hæstvirtan ráðherra til þess að þau markmið sem verði hér kynnt í næstu viku verði róttæk þannig að við getum átt von á að þau skili einhverjum árangri.“

Stjórnmál framtíðarinnar

Við áramót gefst gott færi til að líta yfir hið stóra svið stjórnmálanna og rifja upp hvernig allt hið hversdagslega streð skiptir máli í hinu stóra samhengi; litlar ákvarðanir í litlu landi geta skipt miklu fyrir marga einstaklinga og hópa, og jafnvel haft áhrif langt út fyrir landsteinana. Stjórnmálamenn bera ríkar skyldur, gagnvart umheiminum, Íslendingum öllum og framtíðinni.

Skyldur gagnvart umheiminum

Fyrst ber að nefna þá sem búa við fátækt í öðrum löndum. Það vill gleymast að þrátt fyrir erfið ár hér á Íslandi eftir bankahrunið þá erum við enn rík þjóð í alþjóðlegum samanburði. Þannig skipum við ellefta sæti á lista OECD yfir lífsgæði þjóða og erum þar einu sæti fyrir ofan Bretland. Í fyrra ákvað Bretland að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um lágmarksframlag þróaðra ríkja til þróunarsamvinnu og setja 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum í þróunarsamvinnu. Meðal annarra þjóða sem hafa uppfyllt þetta markmið eru Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg, Danmörk og Holland (sem datt nýlega niður í 0,67%). Þessi hlutfallstala hefur verið talin lágmarksframlag, Sameinuðu þjóðirnar mæla með því að hlutfallið sé að minnsta kosti 1% og hafa Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg náð því markmiði.
En hvar með Ísland þar sem lífsgæðin eru að meðaltali betri en hjá Bretum? Framlög Íslands liggja nú í 0,22% og verða óbreytt á næsta ári samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi, langt undir 0,7% markinu og enn fjær 1% sem Sameinuðu þjóðirnar mælast til þess að þjóðir eins og Ísland verji til þróunarsamvinnu. Þetta er líka talsvert minna en áætlað var í þingsályktun um aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2013 með öllum greiddum atkvæðum nema einu.
Samkvæmt þessari áætlun áttu framlög Íslands að nema 0,35% af þjóðartekjum árið 2015. Það vantar því um tvo og hálfan milljarða króna upp á að ríkisstjórnin fylgi samþykktri áætlun Alþingis í þróunarsamvinnumálum og rúmlega 9 milljarða upp á að hún nái settu markmiði. Markmiðið hefur verið skilgreint svo að Ísland uppfylli „pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna“. Við erum fjarri því að uppfylla þær skyldur en vaxandi ójöfnuður milli heimshluta hefur verið og verður áfram stærsta ógnin við frið og öryggi í heiminum. Ísland má ekki skorast undan því að vera hér þjóð meðal þjóða og sýna gott fordæmi.

Skyldur gagnvart okkur sjálfum

Það má til sanns vegar færa að einn besti mælikvarði á gæði samfélags sé hvernig þar er hlúð að þeim sem standa höllum fæti. Stjórnspekingurinn John Rawls færði fyrir því rök að réttlætt samfélag væri skipulagt með það að markmiði að bæta hag þeirra sem verst eru settir. Því miður vantar töluvert upp á að ná því markmiði í íslensku samfélagi, enda ljóst að stórir hópar fólks hafa markvisst orðið útundan undanfarin misseri.
Fátækt brennur á mörgum í samfélaginu – meðal annars sumum öryrkjum og öldruðum – og margir hafa haft samband við þingmenn og lýst óviðunandi stöðu sinni. Húsnæðismarkaðurinn er ansi erfiður á ekki stærra landi, stórir hópar eiga enga möguleika á að kaupa húsnæði og ekki er nægt framboð af boðlegu húsnæði á sanngjörnu verði á leigumarkaði. Örorkubætur og almannatryggingar duga ekki til að tryggja viðunandi framfærslu og ofan á þetta bætist sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að hækka álögur á mat sem bitnar ekki síst á tekjulágum hópum.
Nefna má fátækt meðal barna og foreldra þeirra. Samkvæmt skýrslu Barnaheilla frá apríl á þessu ári búa 16% íslenskra barna við hættu á fátækt eða félagslegri einangrun og hefur aukist frá hruni. Eins og bent er á í skýrslunni er menntun ein helsta leið barna út úr fátækt og einangrun og því mikilvægt að efla menntakerfið til að sporna gegn þessum vanda og tryggja gjaldfrelsi þess á sem flestum skólastigum. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að samkvæmt nýlegri skýrslu Hagstofunnar frá síðastliðnum júní er skortur á efnislegum gæðum, en það er ný mæling á lífskjaravanda, langtum mestur meðal einstæðra foreldra.
Stundum tala stjórnmálamenn eins og það sé náttúrulögmál að hluti þjóðarinnar búi við fátækt. Ég hafna því með öllu. Ísland er ríkt land, með miklar náttúruauðlindir í sjó og á landi, og hér býr vel menntað fólk sem skapar mikil verðmæti. Sé gæðum þjóðarinnar skipt jafnar er ekkert því til fyrirstöðu að útrýma því sem næst efnislegri fátækt. Til þess að svo verði þarf hins vegar að nýta markvisst þau tæki sem til staðar eru til að jafna kjör og aðstæður fólks. Það er brýnt að tryggja aðgang allra að menntun og velferðarþjónustu um leið og nýta má skattkerfið til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.
Það er líka rétt að nefna í þessu samhengi að það er engin tilviljun að þau ríki þar sem jöfnuður hefur verið mestur í sögulegu samhengi (og þar má nefna Norðurlönd) hefur líka vegnað best þegar kemur að almennri velsæld borgaranna og hagsæld samfélaga. Samkvæmt nýrri skýrslu OECD dregur ójöfnuður beinlínis úr hagvexti, m.a. vegna þess að hann takmarkar aðgengi að menntun og þar með verðmætasköpun í samfélaginu. Einnig er bent á að samkvæmt greiningu OECD hafa tekjujöfnunaraðgerðir ekki slæm áhrif á hagvöxt, heldur geta þær þvert á móti ýtt undir hagvöxt þegar vel er að verki staðið.

Skyldur gagnvart framtíðinni

Að lokum vil ég nefna annan hóp sem oft gleymist í opinberri umræðu en ákvarðanir okkar hafa þó gríðarleg áhrif á. Það eru þeir sem koma til með að byggja þessa jörð og þetta land þegar við erum fallin frá – komandi kynslóðir. Vegna loftslagsbreytinga og annarra óafturkræfra náttúruspjalla er hætt við að afkomendur okkar muni taka við heimi þar sem matar- og vatnsskortur er viðvarandi, hamfarastormar daglegt brauð og yfirborð sjávar hefur jafnvel drekkt heilu borgunum og stórum hluta ræktarlands. Jörðin gæti vel orðið næstum óbyggileg ef ekki er spyrnt við í loftslagsmálum.
Samkvæmt þeim vísindamönnum sem best þekkja til höfum við aðeins örfáa áratugi til viðbótar til að snúa þróuninni við. Hækki hitastig jarðar jafn verulega og hætta er á losast koldíoxíð sem nú er bundið í náttúrunni sjálfri út í andrúmsloftið án þess að við fáum rönd við reist. Það er því ótvíræð skylda þeirra kynslóða sem nú eru uppi að sporna gegn loftslagsbreytingum og tryggja afkomendum okkar lífsskilyrði sem jafnast á við það sem við höfum notið.
Hvað er þá hægt að gera? Lausnirnar eru í sjálfu sér ekki flóknar og þar gegnir hið opinbera lykilhlutverki, því forsenda þess að sporna við öfugþróuninni er að það verði hagkvæmara fyrir einstaklinga að notfæra sér umhverfisvænar lausnir í stað þeirra sem menga. Slíkar aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum eru stærsta úrlausnarefni okkar samtíðar og jafnframt réttlætismál gagnvart komandi kynslóðum.

Jöfnuður og sjálfbærni í þágu almennings eru stóru viðfangsefnin á sviði stjórnmálanna. Þar getum við Íslendingar gert betur á komandi árum. Ég óska landsmönnum öllum farsæls komandi árs.

Katrín Jakobsdóttir

Málþing um olíuleit og loftslagsmál

Í framhaldi af flokksráðsfundi Vinstri grænna 17.-18. október stóð hreyfingin fyrir málþingi um olíuleit og loftslagsbreytingar þar sem þrír sérfræðingar á þessu sviði voru fengnir til að flytja erindi og sitja fyrir svörum.

Stefán Gíslason hjá Environice kynnti skýrslu um olíuleit á Drekasvæðinu. Stefán varaði við afleiðingum olíuvinnslu og benti meðal annars á að loftslagsmarkmið krefjist þess að meirihluti af þekktum jarðefnaeldsneytislindum sé ekki nýttur. Raunar telst Drekasvæðið ekki til slíkra linda og því sé ljóst að Ísland getur ekki lagt sitt af mörkum til að draga úr gróðurhúsalofttegundum ef farið verður í olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Halldór Björnsson loftslagssérfræðingur fjallaði um loftslagsmálin í víðu samhengi og rannsóknirnar sem búa þar að baki. Í erindi sínu benti Halldór meðal annars á að losun koldíoxíðs heldur áfram að aukast þrátt fyrir Kyoto-samninginn. Halldór fór einnig yfir áhrif losunar á súrnun sjávar, sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar á lífríki sjávar, og vísaði til rannsókna sem sýna að súrnun sjávar mun halda áfram svo lengi sem losun koldíoxíðs eykst.

Loks fjallaði Birna Sigrún Hallsdóttir umhverfisverkfræðingur um viðskiptakerfi með losunarheimildir sem Ísland gerðist aðili í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hún benti meðal annars á að íslensk orkufyrirtæki selji svokallaðar upprunaheimildir með þeim afleiðingum að orka sem keypt er af íslenskum orkuveitum teljist í mörgum tilvikum ekki endurnýjanleg.

Misræmi í loftslagsmálum

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vakti athygli á misræmi í orðum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum undir liðnum Störf þingsins á Alþingi í dag. Katrín benti á að forsætisráðherra hefði á lýst yfir stuðningi við yfirlýsinguna „Verðleggjum kolefni“ (e. „Putting a Price on Carbon“) en þar segir að stjórnvöld heiti því að vinna að því að styrkja gjaldtöku af losun kolefnis og fylgja henni betur eftir.

Katrín benti á að þetta samrýmist ekki aðgerðum ríkisstjórnarinnar: „Þetta er mjög athyglisverð og mikilvæg yfirlýsing í ljósi þess að ríkisstjórnin lækkaði kolefnisgjöld hér síðastliðið vor, og reyndar stendur líka til að lækka losunargjald vegna gjaldskyldrar losunar á gróðurhúsalofttegundum ef marka má frumvarp um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga,“ sagði Katrín og bætti við: „Ekki nóg með það heldur er líka kveðið á um að Loftslagssjóður, sem á að fjármagna rannsóknir í loftslagsmálum, fái ekki lengur helming þessa losunargjalds en það hefur hingað til verið eina fjármögnunarleið sjóðsins og því allsendis óvíst um hvernig sjóðurinn á að fjármagna sig.“

Katrín sagðist búast við breytingum á fjárlagafrumvarpinu í takt við nýjar yfirlýsingar forsætisráðherra: „Ég túlka yfirlýsingu forsætisráðherra sem svo að hún marki algjöra stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og fagna því að forsætisráðherra hefur lagt þarna nýja línu,“ sagði Katrín og bætti við: „Gjaldtaka af losun kolefnis er ein leið til að sporna gegn loftslagsbreytingum sem eru stærsta og mikilvægasta mál okkar samtíðar eins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur bent á. Ég treysti því að við munum sjá miklar breytingar á fjárlagafrumvarpinu og styrkingu kolefnisgjaldtökunnar sem forsætisráðherra hefur lýst yfir stuðningi við.“