Posts

Stjórnmálaskóli VG – Lýðræði

Fjórði og síðasti tími í stjórnmálaskóla VG var haldinn í gær, 17. maí, í kjallaranum á Hallveigarstöðum. Jón Ólafsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé fluttur erindi sem má nálgast hér að neðan.

Erindi Jóns

Erindi Rósu

Erindi Kolbeins

Minningarathöfn um lýðræðið

Ung Vinstri Græn kveðja lýðræðið við stjórnarráðið 16.40

UVG halda minningarathöfn fyrir lýðræði á Íslandi við stjórnarráðið klukkan 16:40 í dag 7.apríl. en það var tekið af lífi við óformlega athöfn í Alþingishúsinu seint í gærkvöldi. Þeir sem vilja minnast Lýðræðisins eru hvattir til að mæta. Að athöfn lokinni verður gengið að Alþingishúsinu til áframhaldandi mótmæla þar sem reynt verður að stofna til lýðræðis á íslandi að nýju.

Rósir til að leggja á leiði lýðræðisins munu standa útfaragestum til boða.

Gildi lýðræðisríkja í hættu

Tugir milljóna fólks eru á flótta í heiminum um þessar mundir. Í Evrópu er fátt um annað talað en hvernig megi leysa vandann sameiginlega en því miður virðast afleiðingarnar vera þær að ólík ríki keppast við að loka landamærum sínum. Meira að segja á Norðurlöndunum hafa sterkustu stoðir norræns samstarfs, frjáls för og vegabréfafrelsi, riðað til falls. Áhrif öfga hægriflokka í norrænum ríkisstjórnum gera flóttamönnum erfiðara að nýta rétt sinn til að sækja um hæli og víða í Evrópu má sjá einstök ríki girða sig af, jafnvel með því að reisa aðskilnaðarmúra.

Nú nýlega komst á viðkvæmt vopnahlé í Sýrlandi og að sjálfsögðu má vona að það leiði af sér varanlegri lausnir, raunverulegt samninga- og friðarferli, til að finna varanlega pólitíska lausn á þeim átökunum. Hins vegar er full ástæða til að hafa áhyggjur í ljósi þess að stríðið í Sýrlandi hefur staðið síðan 2011 og enginn raunverulegur pólitískur þrýstingur hefur verið á lausn mála. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við stríðinu hafa einkennst af máttleysi og sama má segja um viðbrögð við flóttamannastrauminum.

Um helgina funduðu fulltrúar evrópskra vinstriflokka hér á Íslandi í boði Vinstri-grænna. Fulltrúi Syriza, vinstriflokksins í Grikklandi, var þungorður um stöðuna í Grikklandi og talaði um nauðsyn þess að evrópsk ríki vinni saman að lausn. Hins vegar lítur ástandið ekki vel út núna. Nágrannar Grikkja virðast vera á þeirri vegferð að loka sínum landamærum. Hræðilegar fréttir berast af því hvernig fólki í neyð er bægt frá landamærum. Stjórnmálamenn tala jafnvel fyrir því að flóttamenn séu réttdræpir.

Það er ljóst að vestræn lýðræðissamfélög sem hafa stolt staðið fyrir gildi á borð við lýðræði, mannréttindi og frjálsa för, eru ekki að bregðast við vandanum sem skyldi. Viðbrögð sumra ríkja í Evrópu hafa beinlínis verið þveröfug. Flóttamannastraumurinn kallar einmitt ekki á aðskilnaðarstefnu og einangrun heldur meiri og öflugri samvinnu en nokkru sinni fyrr. Það er nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulag Dyflinnarreglugerðarinnar og skipta ábyrgð milli móttökulanda á sanngjarnan hátt. Svarið getur ekki verið að sitja hjá meðan flóttamannabúðir Grikklandi, Ítalíu og Makedóníu stækka. Svarið getur ekki verið að loka landamærum þannig að flóttamenn lendi í enn meiri hættu en nú er. Nú þegar hverfur fjöldi flóttafólks og lendir í höndum skipulagðra glæpasamtaka, ekki síst konur og börn.

Ef ekki tekst að finna lausn er gildum vestrænna samfélaga ógnað, sjálfri mennskunni er ógnað. Lausnin verður að fela í sér raunverulega pólitíska lausn á átökunum í Sýrlandi.  Í framhaldinu þarf að sameinast um aukna þróunaraðstoð til lengri tíma en líka þurfa ríkari lönd að standa saman að sérstakri neyðaraðstoð ef friðarsamkomulag næst til að byggja upp innviði á þessu svæði. Þar með er ekki sagt að allt verði leyst því víða um heim er ófriðvænlegt og ekki ólíklegt að fólk haldi áfram að vera á flótta víða um heim. En við megum ekki gleyma þeim kjarna sem vestrænt lýðræði byggist á: Að við berum virðingu fyrir manngildinu óháð þjóðerni og það er beinlínis skylda okkar að vinna að lausnum sem samrýmast þeim mannréttindasáttmálum sem við höfum komið okkur saman um á vettvangi alþjóðasamfélagsins.

Katrín Jakobsdóttir

Dagur lýðræðis

Ég hef nú í annað sinn lagt fram þingsályktunartillögu í tilefni þess að í dag er alþjóðlegur dagur lýðræðis. Tillagan var áður lögð fram af fyrrum þingkonu VG, Þuríði Backman.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2007 að 15. september skyldi vera alþjóðlegur lýðræðisdagur til að minnast Lýðræðisyfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) frá september 1997. Fyrsti alþjóðlegi lýðræðisdagurinn var haldinn hátíðlegur 15. september árið 2008.
Skilgreining Sameinuðu þjóðanna vegna þessa dags er, í lauslegri þýðingu:  „Lýðræði er alheimsgildi sem byggir á að fólk hafi frelsi til að tjá vilja sinn um þau pólítísku, efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu kerfi sem það býr við og á fullri þátttöku almennings á öllum sviðum lífsins“.

Alþjóðaþingmannasambandið gaf út yfirlýsingu um alþjóðlegan lýðræðisdag sem leiðsögn fyrir ríkisstjórnir og þing um allan heim til eflingar lýðræði. Lýðræðisyfirlýsingin hefur mikið gildi þegar fjallað er um grundvallarlögmál lýðræðisins, viðmið í starfi lýðræðislegra stjórna og alþjóðlega vídd lýðræðis. Þá er yfirlýsingin viðleitni til að byggja upp og efla lýðræðislega stjórnarhætti hvar sem því verður við komið.

Alþjóðaþingmannasambandið hvetur þjóðþing heims til að halda daginn hátíðlegan. Lagðar eru til mismunandi leiðir til að halda upp á daginn með táknrænum hætti og hafa þjóðþing frjálsar hendur varðandi útfærslu hans.

Hægt væri til dæmis að skipuleggja sérstaka umræðu í þinginu þar sem fulltrúum allra þingflokka væri boðið að taka þátt í umræðum um lýðræði og þróun þess eða að skipuleggja þverpólitíska vinnuhópa innan þingsins sem ályktar um efnið. Þá mætti nota daginn til að vekja athygli á starfi skólaþings Alþingis þar sem nemendur efstu bekkja grunnskóla taka þátt í hlutverkaleik og fylgja í stórum dráttum reglum um starfshætti Alþingis. Þar eiga nemendur að komast að lýðræðislegri niðurstöðu með því að hlusta á og meta rök og álit annarra, tjá eigin skoðun og taka afstöðu. Svo hvet ég þá sem þessa grein lesa til að koma fram með hugmyndir um hvað hægt væri að gera þennan dag.

Hlutverk okkar alþingismanna er að efla fólk á öllum aldri, búa til rödd og farveg með virkri þátttöku fólks til að taka þátt í og móta það samfélag sem það lifir og hrærist í. Lýðræði er ekki bara uppá punt á fjögurra ára fresti þegar kosið er til Alþingis eða sveitarstjórna heldur þarf að ástunda það – alltaf.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Aukið lýðræði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Tillögu til þingsályktunar um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna, sem Ögmundur Jónasson hefur lagt fram á Alþingi, fylgir áskorun alþjóðlegra samtaka þessa efnis. Ástæða þess að þingmenn, ýmis félagasamtök, fræðimenn og stjórnmálaleiðtogar víða um heim hafa léð þeim málstað fylgi sitt að stofna beri þing kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna er ofurvald stórveldanna sem deila þar og drottna eftir sínum hentugleikum.

Stjórnarhættir gerðir lýðræðislegri

Þetta skipulag, sem varð til og mótaðist í andrúmi nýafstaðinnar heimsstyrjaldar, endurspeglar að margra mati um of trú á hernaðarmátt og efnahagslega yfirburði. Röddum hinna fáu, stóru og sterku, er leyft að hljóma og yfirgnæfa raddir hinna mörgu smáu. Þing kjörinna fulltrúa yrði til þess að gera stjórnarhætti Sameinuðu þjóðanna lýðræðislegri og því fylgir ávallt, ef rétt er á málum haldið, að fleiri raddir heyrast, fleiri sjónarmið komast að og ákvarðanir og stefnumörkun miðast ekki einungis við hagsmuni hinna stóru og aflmiklu.

Þróum lýðræðið, aukum áhrif almennings

Á undanförnum árum og áratugum hafa miklar hræringar átt sér stað – í stjórnmálum, meðal almennings, og innan fræðasamfélagsins – hvað varðar leiðir til að auka lýðræðislega þátttöku og aðkomu almennings að opinberum ákvörðunum. Þessar hræringar birtust ekki síst hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 þegar mikil vakning varð meðal almennings um nauðsyn þess fyrir lýðræðið að almenningur tæki virkari þátt í allri ákvarðanatöku.

Lýðræði grundvallast á þeirri hugmynd að almenningur, „lýðurinn“, ráði. Stjórnkerfi lýðræðisríkis verður fyrst og síðast að taka mið af þörfum og afstöðu almennings og þátttökulýðræði miðar að því að auka þessi áhrif almennings. Þátttaka almennings getur verið af ýmsum toga, s.s. að forgangsraða, skilgreina markmið, leggja fram tillögur eða hlutast til um niðurstöðu.

Þátttökulýðræði er mismikið eftir samfélögum og er sjaldan í andstöðu við hefðbundið fulltrúalýðræði á borð við það þingræði sem við lýði er á Íslandi, þvert á það sem margir halda. Réttara er að líta á það sem viðbót eða framlengingu á fulltrúalýðræðinu. Í hefðbundnu fulltrúalýðræði er þátttaka vissulega takmörkuð að jafnaði við kosningar á fjögurra ára fresti, en í þátttökulýðræði bætist við að almenningur getur haft áhrif með ýmsu móti á opinberar ákvarðanir oftar og með virkari hætti.

Svokölluð þátttökuferli gefa fólki færi á að móta eigin afstöðu og koma henni á framfæri og í framkvæmd. Þau veita kjörnum fulltrúum aðhald og mikilvægar upplýsingar um viðhorf og áhuga kjósenda en rökin fyrir beitingu þátttökuferla eru meðal annars að þær upplýsingar sem fást í gegnum kjörklefann á fjögurra ára fresti gefa oft heldur óskýra mynd af valröðun kjósenda í einstökum málum.

Þá snýst þátttökulýðræði ekki einungis um atkvæðagreiðslur heldur einnig um að gera tilraunir með breytt vinnulag á ýmsum sviðum til að auka aðkomu almennings að stefnumótun. Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu.

Einna frægust þessara tilrauna er þátttökuákvarðanaferlið sem komið var á fót í árlegri fjárhagsáætlanagerð brasilísku borgarinnar Porto Alegre árið 1989. 8% borgarbúa taka þátt í ferlinu árlega og hefur reynslan verið afar jákvæð þótt tekið hafi nokkur ár að þróa ferlið. Meðal þeirra breytinga sem áttu sér stað í kjölfar þessara lýðræðisumbóta er að spilling hvarf, enda um opið og gagnsætt ferli að ræða, fjármunir fluttust til fátækari svæða og grasrótarstarf efldist til muna. Tekið skal fram að í borginni býr um ein og hálf milljón, þ.e.a.s. fjórum til fimm sinnum fleiri en á Íslandi öllu, og hefur ferlið gengið vel þrátt fyrir þann mikla fjölda fólks sem kemur að ákvarðanatökunni.

Annað áhugavert dæmi um þátttökulýðræði í verki átti sér stað árin 2004-2005 í Bresku Kólumbíu í Kanada í kjölfar umræðna um breytingar á kosningakerfi fylkisins. Ákveðið var að skipa slembivalsþing þar sem 158 fulltrúar voru valdir af handahófi úr þjóðskrá, en þó þannig að kynjahlutföll voru jöfn, aldursdreifing endurspeglaði aldursdreifingu þjóðarinnar, og jafnmargir fulltrúar komu úr hverju kjördæmi fylkisins. Einnig voru skipaðir á þingið fulltrúar frumbyggja, sem eru minnihlutahópur í Kanada, auk forseta þingsins sem skipaður var sérstaklega. Eftir að hafa fengið ýtarlega fræðslu og tekið þátt í miklum umræðum sín á milli komst yfirgnæfandi meirihluti fulltrúanna að sameiginlegri niðurstöðu um tillögu að breytingum á kosningakerfinu. Tillagan var svo sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaut 57,69% atkvæða en náði þó ekki fram að ganga vegna þess að gerð hafði verið krafa um aukinn meirihluta, eða 60% atkvæða, til að samþykkja breytingar á kosningakerfinu.

Það er knýjandi nauðsyn að reynsla síðustu ára verði nýtt með skipulegum hætti og þátttaka almennings í opinberri stefnumótun verði aukin. Því hef ég ákveðið að leggja til ásamt fleiri þingmönnum frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd um lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun. Markmiðið með vinnu nefndarinnar verði að auka þátttöku og aðkomu almennings í opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði. Það er von mín að þessi tillaga megi hljóta brautargengi á Alþingi Íslendinga og Íslendingar verði í fararbroddi hvað varðar þróun þátttökulýðræðis og aukin áhrif almennings til framtíðar.

 

Tvær þingsályktunartillögur um eflingu lýðræðis

Þingmenn Vinstri grænna munu er þinghald hefst að nýju leggja fram tvö þingmál um eflingu lýðræðis á Íslandi. Katrín Jakobsdóttir leggur ásamt fleiri þingmönnum fram þingsályktunartillögu um þátttökulýðræði og Svandís Svavarsdóttir leggur ásamt fleirum fram þingsályktunartillögu um atvinnulýðræði.

Í þingsályktunartillögu Katrínar Jakobsdóttur og fleiri, sem er fyrsta þingmál sinnar tegundar á Íslandi, er kveðið á um að skipa skuli nefnd um lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun. Markmiðið með vinnu nefndarinnar  verði að auka þátttöku og aðkomu almennings í opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði. Með orðinu „þátttökulýðræði“ er vísað til tegundar lýðræðis þar sem aukin áhersla er lögð á þátttöku almennings í opinberum ákvörðunum.

Slíkar hugmyndir hafa verið áberandi bæði í opinberri og fræðilegri umræðu á undanförnum árum og áratugum og hafa orðið talsverðar hræringar í þeim efnum hér á landi, ekki síst í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Samkvæmt þessum hugmyndum á að auka aðkomu almennings að opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku, en aðkoma almennings getur verið af ýmsum toga, svo sem að forgangsraða, skilgreina markmið, leggja fram tillögur eða hlutast til um niðurstöðu. Með tillögunni er lagt til að áfram verði unnið að lýðræðisumbótum í þessa veru með samvinnu stjórnmálamanna, embættismanna og háskólasamfélagsins.

Í þingsályktunartillögu Svandísar Svavarsdóttur um atvinnulýðræði er lagt til að hefja vinnu við að þróa aðferðir og leiðir til að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja og í skólum landsins. Í víðasta skilningi vísar hugtakið „atvinnulýðræði“ til allra ráðstafana sem gerðar eru til að auka áhrif starfsmanns á ákvarðanir ákvarðana sem tengjast daglegum störfum viðkomandi starfsmanns. Í tillögunni er lagt til að sérstaklega skipuð nefnd geri í samráði við aðila vinnumarkaðarins tillögur að eflingu atvinnulýðræðis í þessum skilningi. Meðal þeirra leiða sem nefndar eru í greinargerð tillögunnar er að starfsfólk hafi rétt á að skipa fulltrúa í stjórn fyrirtækja og stofnana eins og tíðkast víða í Vestur-Evrópu.

Valdið til fólksins

Þinghaldi fyrir jól er nú nýlokið, með samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár og annarra fjárlagatengdra mála. Margt má segja um forgangsröðun fjárlaganna, þar sem skattar eru hækkaðir á mat og menningu, skorið er niður hjá Ríkisútvarpinu og aðgangur að framhaldsskólum takmarkaður þannig að 25 ára og eldri eru útilokaðir frá námi. Þá er aukinn kostnaður lagður á herðar sjúklinga, t.d. með aukinni greiðsluþátttöku í sérhæfðum lyfjum. Á sama tíma er byrðum létt af tekjuhærri hópum, t.d. með afnámi auðlegðarskatts. Meðal annars vegna þessara mála hefur myndast gjá milli þings og þjóðar á undanförnum mánuðum, eins og fram kemur í skoðanakönnunum á fylgi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Rökræða í stað árása

Raunar held ég að sú gjá skýrist einnig af því hvernig forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað til þeirra sem eru ósammála þeim síðan þeir tóku við völdum. Fyrir nokkru greip forsætisráðherra til þess bellibragðs að saka stjórnarandstöðuna fyrirfram um að koma til með að segja ósatt í þinginu. Það gefur auga leið að slíkur málflutningur bætir ekki umræðuhefðina á Alþingi. Sömuleiðis er það áhyggjuefni að formaður fjárlaganefndar og þingflokksformaður Framsóknarflokksins skuli leynt og ljóst tengja niðurskurð á framlögum til RÚV við meinta ósanngjarna umfjöllun um flokkinn sinn.
Verst af öllu er þó hvernig ríkisstjórnin hefur talað til þjóðarinnar sjálfrar. Þeir sem gagnrýna ríkisstjórnina eru sagðir taka þátt í „loftárásum“ eða byggja skoðanir sínar á „misskilningi“. Í stað rökræðu um forgangsröðun og grunngildi samfélags okkar er fólki ítrekað stillt upp í lið – „við“ og „hinir“ – þar sem öll gagnrýni er gerð tortryggileg og þeim sem hafa aðra skoðun gerðar upp annarlegar hvatir.

Lýðræði á tímamótum

Framferði ríkisstjórnarinnar í þessum efnum veldur ekki aðeins eðlilegri gremju meðal þjóðarinnar heldur grefur það undan lýðræðinu. Það er forsenda lýðræðislegrar ákvarðanatöku að upplýsingar séu fyrir hendi og almenningur geti tekið þátt í opinberri umræðu án þess að vera átalið af valdafólki. Lýðræði þarf líka á því að halda að til séu óháðir fjölmiðlar sem miðla upplýsingum til fólksins með aðgengilegum hætti. Í fámennu samfélagi hefur almannaútvarpið þar feykimikilvægu hlutverki að gegna og því sérstakt áhyggjuefni að framlög þess séu skert.
En til framtíðar eigum við líka að huga að annars konar lýðræðisumbótum. Mikilvægt er að efla þjóðþingið gagnvart framkvæmdavaldinu og styrkja þannig fulltrúalýðræðið. Samhliða því er líka brýnt að setja sem fyrst ákvæði í stjórnarskrá um að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu Þannig hefði til dæmis mátt knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lækkun veiðigjalda en 35 þúsund Íslendingar skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja þeim lögum samþykktar. Því miður voru lögin hins vegar samþykkt, og það þó að skoðanakannanir hafi sýnt að 70% þjóðarinnar væru þeim andsnúin.

Þátttökulýðræði

Þó að mikilvægt sé að setja skýr ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur er einnig rétt að huga að því að lýðræði snýst ekki einungis um atkvæðagreiðslur. Okkur hættir til að hugsa um lýðræði sem eitthvað sem gerist í kjörklefanum en í reynd snýst það að sjálfsögðu um að almenningur – „lýðurinn“ – taki þátt í að móta samfélag sitt. Undanfarin ár hafa ýmsar athyglisverðar tilraunir verið gerðar til að auka þátttöku almennings í opinberri stefnumótun og þar með styrkja stoðir lýðræðisins.
Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu. Lýðræðistilraunir af þessu hafa verið settar af stað í ótal löndum, þar á meðal í Danmörku, Bandaríkjunum, Brasilíu og Japan. Reyndar höfum við Íslendingar einnig verið framarlega á þessu sviði, því sú vinna sem fram fór í tíð síðustu ríkisstjórnar við gerð nýrrar stjórnarskrár – með þjóðfundi, stjórnlagaráði og þjóðaratkvæðagreiðslu – hefur vakið athygli erlendis. Við þurfum að halda áfram á þessa leið á næstu árum og styrkja þannig stoðir lýðræðisins. Þannig getum við tekið betri og lýðræðislegar ákvarðanir.
Að lokum óska ég landsmönnum öllum gleðilegra jóla og friðar yfir hátíðirnar, með von um að við sjáum frekari lýðræðisumbætur á komandi ári.

Katrín Jakobsdóttir