Posts

Illugi hvað ertu eiginlega að hugsa?

Við Vinstri græn höfum mikið rætt á þingi um starfshætti menntamálaráðherra í hinum ýmsu málum. Ég ætla hér í þessum greinarstúf að byrja á umfjöllun um framhaldsskólana en þar hefur stefnumörkun m.a. stytting náms til stúdentsprófs helst farið fram í gegnum fjárlög. Það er ekki nóg að gefa út Hvítbók, ferðast um landið og kynna eigin hugmyndir og halda að þá sé málið útrætt slík stefnumörkun á að sjálfsögðu líka að fara í skólunum og í þinginu.

Framhaldsskólar landsins hafa unnið hörðum höndum að því að skila inn tillögum að 3 ára námsskrám og eitt af því sem vekur mikla undrun hjá mörgum er að íþróttakennsla leggst nánast niður svo lítil á hún að verða. Nú hefur það verið svo að framhaldsskólar hafa keppst við að vera virkir þátttakendur í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem menntamálaráðuneytið stendur að ásamt velferðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra framhaldsskólanemenda. Því hafa fylgt margar góðar breytingar bæði í mötuneytum skólanna og einnig hefur líkams- og heilsurækt nemenda aukist til muna. Rannsóknir sýna að líkamleg virkni eykur einbeitingu og styrkir nemendur í námi. Þetta eru árin sem styðja þarf með öllum ráðum við ungmenni þannig að þau verði meðvituð og ábyrg fyrir eigin heilsu og velferð. Því er það óskiljanlegt að menntamálaráðherra skuli stefna ótrauður að því að skerða líkams- og heilsuræktarkennslu úr 8 einingum í 2. Hver eru faglegu sjónarmiðin þar að baki? Illugi Gunnarsson þarf að svara því að á sama tíma og hann leggur til slíka skerðingu þá leggja alþjóða heilbrigðisstofnanir áherslu á daglega hreyfingu ungmenna.
Aukin kyrrseta ungs fólks eykur líkurnar á lífsstílstengdum sjúkdómum og þegar við hlustum á heilbrigðisráðherra leggja til notkun hreyfiseðla sem meðferðarúrræði þá velti ég því fyrir mér hvort þeir flokksfélagar tali ekki saman um svo mikilvægt mál.

Á bak við tjöldin

En það er fleira sem Illugi menntamálaráðherra stefnir einbeittur að og það eru sameiningar framhaldsskóla. Sem landsbyggðakona þá hef ég af því miklar áhyggjur enda skipta framhaldsskólar miklu máli í hinum dreifðu byggðum að svo mörgu leiti. Þeir skapa störf og auka tækifæri til nýsköpunar og samvinnu við atvinnulífið á stöðunum. Samvinna í málefnum framhaldsskóla virðist ekki hugnast ráðherranum og má þar t.d. nefna Fjarmenntaskólann en þar tóku 12 landsbyggðaskólar sig saman og bjuggu til samstarfsvettvang sem gerir þeim m.a. kleyft að halda úti fleiri áföngum en ella. Þessu fylgir hagræði og sparnaður sem ráðherrann ætti að kynna sér betur. Ég hef miklar áhyggjur af því að skólarnir verði „sveltir“ til hlýðni og ekki verði hlustað á raddir heimamanna og þeirra sem fara fyrir skólunum heldur sameini Illugi eins og hann vill sem óhjákvæmilega yrði til þess að sérstaða þeirra hverfur. Ráðherrann þarf að svara því hreint út hvort og þá hvaða skóla hann hyggst sameina á landsbyggðinni og færa fyrir því fagleg og ásættanleg rök.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
þingmaður Vinstri grænna

Ný háskólamenntuð störf verða til – nýtum tækifærið!

Auglýst hafa verið störf á Starfatorgi vegna ráðgjafar og teymisstjórnunar á vegum Námsmatsstofnunar. Sú stofnun ásamt Námsgagnastofnun er ætlað nýtt hlutverk í Menntamálastofnun sem til umfjöllunar er í þinginu. Óvíst er þó um afdrif þess máls en menntamálaráðherra hefur engu að síður ráðið forstjóra og hafið flutninga á verkefnum og starfsfólki í húsnæði Námsgagnastofnunar í Víkurhvarfi.

Nú á sem sagt að ráða fólk/ráðgjafa til að veita ráðgjöf og stuðning til skóla og sveitarfélaga til að fylgja eftir Hvítbókaráætlun ráðherrans um læsi. Ráðgjöfunum er ætlað að styðja við kennara, foreldra skólastjórnendur og sveitastjórnir um allt land og miðla leiðum til að efla læsi nemenda í leik- og grunnskólum. Umsóknarfresti lýkur 29. júní n.k.

Það sem vekur athygli er að ráðgjafarnir eiga að hafa aðsetur í Námsmatsstofnun en starfa með kennurum og stjórnendum um allt land. Nú er um að ræða 5 ára verkefni og því má spyrja sig að því hvort ekki er upplagt að hluti þessara starfa geti t.d. tengst Háskólanum á Akureyri svona í anda byggðastefnu og lýðræðis.

Ég hvet sveitarstjórnarfólk og landshlutasamtök til að láta í sér heyra þegar tækifæri er til að fjölga háskólamenntuðum störfum á landsbyggðunum.

Sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlagafrumvarpinu

Fyrir aðra umræðu fjárlaga hefur stjórnarandstaðan sameinast um eftirfarandi breytingartillögur á fjárlagafrumvarpinu. Tillögurnar miða að því að sníða helstu vankantana af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og breytingartillögum stjórnarmeirihlutans og eru fjármagnaðar að fullu.

Í þessum tillögum er ekki gert ráð fyrir að teknar séu til baka ýmsar ákvarðanir stjórnarmeirihlutans um útgjöld og tekjur, svo sem fokdýr skuldaniðurfærsla, lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts og nú síðast lækkun sykurskatts sem samtals nema nærri 50 milljörðum króna á ári. Breytingar á þeim ákvörðunum í heild eða hluta getur þannig skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum.

Velferðarmál

Greiðslur sjúklinga hækki ekki

Stjórnarmeirihlutinn mun að óbreyttu hækka greiðslur almennings fyrir heilbrigðisþjónustu um 1.900 milljónir á ári. Lagt er til að þessar hækkanir verði allar dregnar til baka.

Sókn í velferðarmálum

Framlög til viðhalds bygginga Landspítala og til að vinna á biðlistum vegna verkfalls og sérstakt framlag til BUGL. Aukin framlög til lífeyrisþega.

 

Mennta- og menningarmál

Framhaldsskólinn verði opinn fyrir alla

Stjórnarmeirihlutinn mun að óbreyttu loka aðgangi fólks yfir 25 ára aldri að framhaldsskólum. Þessi aðgangstakmörkun er dregin til baka í tillögunum.

Sátt um RÚV og íslenska menningu

Útvarpsgjald verði óbreytt og renni óskert til RÚV í samræmi við tillögu stjórnar RÚV. Aukin framlög í verkefnasjóði skapandi greina og bókasafnssjóð rithöfunda. Framlag til Landssambands æskulýðsfélaga og framlag til að fylgja eftir þingsályktun um stafræna íslensku.

Háskólar fái úrlausn

Opinberir háskólar fái stuðning til að efla samstarf og samvinnu og Listaháskólinn húsnæðisframlag

 

Atvinnumál og innviðir samfélagsins

Stöndum vörð um réttindi á vinnumarkaði

Fallið verði frá styttingu bótatíma atvinnuleitenda úr þremur í 2 ½ ár og aukið fé verði veitt í þjónustu við atvinnuleitendur. Ríkið greiði áfram umsamin framlög til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða.

Uppbygging innviða

Stóraukin framlög í sóknaráætlun, nýframkvæmdir í vegamálum, hafnamálum og í framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Framlög verði veitt á ný veitt í Græna hagkerfið.

 

Ýmis réttlætis- og mannréttindamál

Hætt verði við að fella niður framlag til ríkissaksóknara og lögreglu vegna þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis. Aukið framlag til Útlendingastofnunar til að vinna á biðlistum og stytta málshraða við meðferð hælisumsókna. Framlag til þingsályktunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi (IMMI).

 

Fjármögnun tillagnanna

Á móti auknum útgjöldum er gert ráð fyrir auknum tekjum vegna hækkun veiðigjalda til samræmis við fyrri áform og efldra skattrannsókna, m.a. með tafarlausum kaupum á upplýsingum úr skattaskjólum og auknu framlagi til skattrannsóknarstjóra.

 

Sækja PDF

Frelsið orðið að undanþágu

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sent skólameisturum framhaldsskóla bréf um að áhersla verði lögð á að stytta námsbrautir í þrjú ár. Ráðherrann hefur ennfremur látið hafa eftir sér að eitt verði yfir alla að ganga og skólar sem hafa skipulagt nám sitt út frá fjögurra ára námsbrautum fái engar „undanþágur“ enda sé búið að ákveða að framhaldsskólinn verði til þriggja ára.

Þetta gengur þvert á þá stefnu að skólar skuli hafa svigrúm til að móta sér sína sérstöðu en sú stefna var staðfest með lögum árið 2008 í tíð flokkssystur Illuga, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Raunar var lögunum beinlínis fylgt úr hlaði með þeim orðum að hér væri dregið úr miðstýringu, skólarnir myndu sjálfir skipuleggja sínar námsbrautir og skilgreina inntak stúdentsprófs og annarra prófa; enginn einingafjöldi var skilgreindur sem inntak stúdentsprófs og fjölbreytni var fagnað.

Ný aðalnámskrá sem kom út 2011 endurspeglar þetta sjálfstæði skóla. Á svipuðum tíma var sett tiltekið einingalágmark en skólum að öðru leyti falið að útfæra námsbrautir sem þeir hafa síðan gert hver af öðrum.

Nú kveður við nýjan tón. Farin er leið miðstýringar og skyndilega talað um undanþágur – þegar markmið laganna var einmitt fjölbreytni og því aldrei um að ræða að skólar fengju undanþágur heldur að þeir hefðu frelsi til að vera mismunandi. Þannig þyrftu nemendur ekki allir að velja sams konar leiðir.

Frelsið sem hinn nýi Sjálfstæðisflokkur predikar er frelsi fyrir hina fáu. Frelsi hinna fáu til að veiða fiskinn í sjónum, selja áfengi í sínum verslunum eða taka yfir rekstur almannaþjónustu og græða á henni en þegar illa gengur snúa aftur til ríkisins. Það frelsi er ekki frelsi einstaklingsins eða frelsi fagfólks til að byggja upp fjölbreytt skólastarf eins og ætlunin var með lögunum. Þegar til kastanna kemur snýst skólastefna flokksins um miðstýringu og valdboð þar sem engin virðing er borin fyrir gæðum menntunar og góðu skólastarfi um allt land. Kannski ekki að undra að hinn nýi Sjálfstæðisflokkur hafi hrapað í fylgi.

Framlög til Vinnustaðanámssjóðs falla niður þrátt fyrir fækkun í verknámi

Bjarkey Gunnarsdóttir hóf sérstaka umræðu um stöðu verknáms á Alþingi í dag og gerði sérstaklega að umtalsefni að framlög til Vinnustaðanámssjóðs falla niður samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015.

Í ræðu Bjarkeyjar kom fram að þeim nemendum sem ljúka sveinsprófi hefur fækkað undanfarið og fjöldi nemenda á iðnnámsbrautum í framhaldsskólunum hefur dregist saman. Bjarkey benti á þessu sambandi á mikilvægi Vinnustaðanámssjóðs, en hlutverk þess er að veita styrki til fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms og starfsþjálfunar tengdu framhaldsskólanámi. Þá benti hún á að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fallar niður öll framlög til sjóðsins: „Nú ætlar hæstvirtur ráðherra að leggja þennan sjóð niður og lítur á þetta sem tímabundna aðgerð, en það er alveg ljóst af málinu þegar það var samþykkt að það var ekki hugsað þannig,“ sagði Bjarkey.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra svaraði því ekki hvernig skuli tryggja aðgang að verknámi án framlaga til Vinnustaðanámssjóðs en ítrekaði að ekki stæði til að takmarka aðgang að verknámi. Í seinni ræðu sinni sagði Bjarkey á móti: „Hæstvirtur ráðherra neitar því að einhver þurfi að víkja af því að hann ætlar ekki að takmarka verknámið. Það bara stenst ekki miðað við þær tölur sem fyrir liggja í fjárlagafrumvarpinu.“ Bjarkey endaði ræðu sína á því að hvetja ráðherra til að „setja fjármagn aftur í þennan sjóð því hann styrkir þetta nám sem við öll tölum svo vel um á tyllidögum.“

Frumvarp um heilsugæslu í framhaldsskólum

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fimm þingmenn úr Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Nái frumvarpið samþykki munu framhaldsskólanemar eiga kost á gjaldfrjálsri heilsugæslu í skólum um allt land.

Víða um heim, m.a. á Norðurlöndum, þykir sjálfsagt að ungmenni hafi aðgang að heilsugæslu í skólunum. Hér er þessu öfugt farið þrátt fyrir að sérfræðingar séu flestir á einu máli um mikilvægi gjaldfrjálsrar þjónustu af þessu tagi:

  • Í fyrsta lagi þarf ekki að orðlengja um að framhaldsskólanemum er það mikilvægt að fá bót meina sinna eins fljótt og unnt er. Í skólaheilsugæslu ætti ungt fólk að eiga greiða leið að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu sem miðast við þarfir þeirra. Fátt er betur til þess fallið að auka ná til þeirra sem af einhverjum ástæðum skirrast við að leita sér aðstoðar.
  • Í öðru lagi leggur leggur ungt fólk grunninn að fullorðinsævi sinni á framhaldsskólaárunum og temur sér lífsstíl til framtíðar. Skólaheilsugæsla getur því stuðlað að heilbrigðari lífsstíl til framtíðar fyrir þá sem kjósa að nýta sér þjónustuna.

Heilsugæsla á skólastað stuðlar að hvoru tveggja, skjótri hjálp við sjúkleika og heilsueflingu, og eflir þannig lífsgæði framhaldsskólanema í bráð og lengd.

Samstarf til vinstri

Vinstrihreyfingin – grænt framboð getur að mörgu leyti vel við unað eftir sveitarstjórnarkosningar þar sem hreyfingin stóð vörð um árangur sinn frá 2010 og bauð fram víða um land, bæði undir eigin nafni en einnig með formlegri og óformlegri þátttöku í sameiginlegum framboðum. Hins vegar tel ég ríka ástæðu á næstu misserum til að velta fyrir sér inntaki stefnu okkar. Hana tel ég eiga brýnna erindi en nokkru sinni fyrr á nýrri öld þar sem ójöfnuður og loftslagsbreytingar verða líklega stærstu viðfangsefnin og svörin geta ekki verið önnur en réttlæti og sjálfbærni.

Miklu skiptir líka hvernig fólk sem telur sig til félagshyggjufólks velur að vinna í stjórnmálunum og því er ástæða til að óska Reykvíkingum til hamingju með nýjan borgarstjórnarmeirihluta. Þar sameinast frjálslynt og félagshyggjusinnað fólk með breiða skírskotun og sterkt umboð kjósenda. Hver flokkur hefur að sjálfsögðu sína sérstöðu en um margt erum við sammála. Þar má nefna húsnæðismálin og áform nýs meirihluta um að byggja upp leiguhúsnæði. Þá skiptir miklu máli að nýr meirihluti tekur skýra afstöðu með fjölmenningu og gegn útlendingaandúð sem virðist því miður vera að skjóta rótum hér á landi.

Fyrstu skref í átt að gjaldfrelsi

Það er líka ánægjulegt að sjá að nýr meirihluti í Reykjavík mun stíga fyrstu skrefin í átt að gjaldfrjálsum leikskóla með lækkun leikskólagjalda. Það er mál sem við Vinstri græn settum á dagskrá í kosningabaráttunni – og ágætt dæmi um þá sókn sem við viljum hefja í velferðar- og menntamálum á næstu árum. Nýr meirihluti hefur líka áform um aukið íbúalýðræði sem eru spennandi en vonandi verða líka tekin stór skref til að virkja fólk til þátttöku í þeim lýðræðislegu ferlum sem eru nú þegar til staðar.

Þar sem við Vinstri–græn tökum þátt í meirihlutasamstarfi skiptir miklu að við leggjum inn sjónarmið réttlætis og sjálfbærni og það munum við gera í öllu okkar starfi í sveitarstjórnum, óháð því hverjum við vinnum með í meirihluta og raunar óháð meirihluta og minnihluta. Sérstök ástæða er til að fagna þegar félagshyggjuöfl ná saman um slík málefni því það gefur tilefni til bjartsýni varðandi frekari samvinnu vinstrimanna á öðrum vettvangi.

Katrín Jakobsdóttir

Ráðherra tregur til svara

Katrínu Jakobsdóttur þingkonu Vinstri grænna gekk illa að fá svör frá Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra um málefni framhaldsskóla landsins á Alþingi í dag. Katrín spurði hann um kjaramál framhaldsskólakennara, boðaða stefnumótun ráðherrans og aðkomu kennara að henni.

Þrjár spurningar um menntapólitík

Katrín lýsti yfir áhyggjum af því að næstkomandi mánudag gæti skollið á verkfall framhaldsskólakennara sem hefur áhrif á hátt í tuttuguþúsund framhaldsskólanemendur. Hún sagði hún væri meðvituð um að menntamálaráðherra hefði ekki kjaraviðræðurnar á sínu forræði því vildi hún þess í stað spyrja hann þriggja spurninga er vörðuðu menntapólitík og tengdust kjaraviðræðunum.

„Menntamálaráðherra hefur sagt að í raun sé ekkert í boði umfram almennar launhækkanir á vinnumarkaði, nema framhaldsskólinn verði styttur með kerfisbreytingu,“ sagði Katrín og benti á að efir honum hafi verið haft „að hægt væri að nýta styttinguna til að búa til launahækkunarmöguleika“. Í framhaldi spurði Katrín Illuga, í fyrsta lagi, hvort „launahækkunarmöguleikinn“ fælist í því að fækka kennurum og hækka laun þeirra sem eftir sitja? Í öðru lagi spurði hún hvort hann telji framhaldsskólakennara hafa setið eftir í launaþróun miðað við aðra hópa með sambærilega menntun. Í þriðja lagi spurði Katrín hvort margboðuð stefnumótun ráðherrans í málefnum framhaldsskólans, svonefnd hvítbók, væri tilbúin og hvort fulltrúar Kennarasambandsins hefðu fengið að taka þátt í henni?

Engin eða óljós svör frá ráðherra

Illugi sagðist ekki gæta rætt kjarasamninga í þingsal en tók undir áhyggjur Katrínar af verkfalli. Spurningum hennar svaraði hann hins vegar ekki eða með óskýrum hætti. Katrín ítrekaði þá að hún hefði beðið Illuga um að ræða inntak kjarasamninga og sagði hann hafa komið sér algjörlega hjá því að svara spurningum sínum. „Þó að kjarasamningar séu ekki viðfangsefni hér á Alþingi þá er menntapólitík viðfangsefni. Lagabreytingar á framhaldsskólanum eru viðfangsefni. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að við fáum hér skýr svör frá hæstvirtum ráðherra,“ sagði hún.
Síðari svör Illuga voru litlu skýrari. Hann sagði hvítbókina vera skrifaða að starfsmönnum ráðuneytisins og að samráð færi fram eftir að hún hefur verið kynnt, en af því má ráða að ekkert samráð hafi farið fram við kennara.