Posts

Hví ekki að nota skattkerfið – frekar en að stofna nýtt?

Í margumræddu náttúrupassafrumvarpi er boðuð afar óheppileg leið til að afla fjár til verndunar og viðhalds ferðamannastaða. Nær væri að nýta til þess núverandi skatta og gjöld frekar en stofna nýtt, flókið og dýrt kerfi.

Rökstuðningur:

1. Hér er boðaður nýr skattur sem flókið verður að innheimta og framfylgja. Undarlegt að ríkisstjórn sem segist vilja einfalda skattkerfið skuli velja þessa leið. Þó kemur ekki á óvart að hún vilji frekar flatan skatt á almenna notendur en að skattleggja tekjur fyrirtækja.

2. Ferðamálastofa yrði að eins konar skattstofu með sérstakri skattrannsóknadeild með eftirlitsmenn (eins konar stöðumælaverði) um land allt til að skrifa út sektarmiða á þá sem ekki hafa þetta sérstaka vegabréf. Þar þarf að bæta við mörgum opinberum störfum ef ekki á að draga úr annarri þjónustu og umsýslu Ferðamálastofu. Með þessu nýja skattkerfi vonast menn til að ná inn 3 milljörðum á ári. Ég leyfi mér að giska á að fjórðungur þess sem inn kemur fari í beinan og óbeinan kostnað við kerfið. Hvers vegna í ósköpunum þarf að setja á nýtt gjaldheimtukerfi til að ná inn rúmlega 2 milljörðum króna á ári nettó? Hví ekki gera það með núverandi skattkerfi?

3. Í frumvarpinu ásamt langri greinargerð er ekki skoðaður sá möguleiki að fjármagna viðhald og vernd náttúru á ferðamannastöðum af almennu skattfé. Nú greiða ferðamenn og ferðaþjónustuaðilar virðisaukaskatt (vsk) af vörum og þjónustu, flugvallarskatt, hafnargjöld, vegagjöld (bensínskatt) og fleiri gjöld til hins opinbera og nýbúið er að hækka vsk af mat og veitingum úr 7 í 11%. Ef bara ein króna af hverjum eldsneytislítra væri eyrnamerkt viðhaldi og verndun ferðamannastaða gæti það eitt skilað 300 milljónum á ári. Svo greiðir vaxandi fjöldi starfsfólks skatt af sínum launum. Nærri 80% erlendra gesta koma til landsins aðallega vegna náttúrunnar – hví má ekki nýta til náttúruverndar brot af sköttunum sem þeir og þjónustuaðilar þeirra greiða? Vilji landsmenn auka tekjur af ferðamönnum er besta leiðin að auka og bæta þjónustu við þá, þ.e. þróa atvinnugreinina. Öll greiðum við glöð fyrir góða þjónustu!

4. Hér er um óvenjulegt fyrirkomulag að ræða og hætta á neikvæðri ímynd. Flestir sem ferðast um Ísland hafa farið víða og sjaldan ef nokkru sinni þurft að sýna passa til að fá að vera úti í náttúrunni. Hætt er við að náttúrupassafyrirkomulagið verði uppspretta leiðinda, auk þess að vera dýrt í rekstri. Fólki í sumarleyfisferð mun leiðast að vera undir smásjá sérstakra gjaldheimtumanna. Svo er hér vegið að ævafornum rétti fólks til að fara frjálst um villta náttúru. Gert er ráð fyrir að Íslendingum nægi að sýna almenn skilríki eða þylja kennitöluna, en munu erlendir ferðamenn muna eftir að bera á sér þennan nýstárlega passa?

5. Í frumvarpinu er talað um uppbyggingu, viðhald og verndun ferðamannastaða. Mér stendur stuggur af orðinu uppbygging þegar um náttúru á ferðamannastöðum er að ræða, sé fyrir mér stórkarlaleg mannvirki sem spilla ásýnd. Mér fellur betur að tala um viðhald og vernd.

Ég fagna hins vegar frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Þar er boðuð bráðnauðsynleg skráning, stefnumörkun og framkvæmdaáætlun og hvergi minnst á náttúrupassa. Hins vegar tekið fram að ferðamannaleiðir og staðir sem njóta greiðsluþátttöku úr ríkissjóði af því að þau eru í landsáætlun skuli vera opin gjaldfrjálsri umferð almennings. Vonandi ber Alþingi gæfu til að stöðva náttúrupassafrumvarpið en klára hitt frumvarpið og mætti skjóta þar inn grein um að nauðsynlegar framkvæmdir á ferðamannastöðum verði fjármagnaðar af skattfé sem ríkið almennt innheimtir af ferðamönnum sem öðrum.

Þorvaldur Örn Árnason er  formaður Sjálfboðaliðasamtaka um náttúruvernd og flokksráðsfulltrúi Vinstri grænna.

Nýja leið í stað náttúrupassa

Það stefnir í mikil átök um hinn alræmda náttúrupassa og umræðan hefur verið afvegaleidd frá upphafi. Stjórnarmeirihlutinn hefur kosið að flytja þann boðskap af furðulegri nauðhyggju að passinn sé eina leiðin til að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu á náttúruverndarsvæðum og vinsælum ferðamannastöðum.

Það er dapurlegt að málið hafi farið í þennan átakafarveg, enda eru flestir á einu máli um mikilvægi uppbyggingar í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur skipt sköpum fyrir þjóðarbúið á undanförnum árum, meðal annars vegna þess að gjaldeyristekjur hafa aukist jafnt og þétt með sívaxandi fjölgun ferðamanna. Því miður hefur uppbygging innviða ekki náð að fylgja eftir þessari fjögun og þörfin því brýn til að finna leið til að fjármagna aukna uppbyggingu.

Vandi er sannarlega á ferð en á hinn bóginn er náttúrupassinn ekki eina lausnin og raunar ótvírætt versta lausnin. Fara mætti blandaða leið þar sem bæði ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki legðu sitt af mörkum, til dæmis með því að þróa áfram gistináttagjaldið sem er innheimt hvarvetna í Evrópu en hefur verið mjög lágt hér á landi. Þá mætti rukka fyrir ýmsa sértæka þjónustu, til að mynda bílastæði, enda ekki óeðlilegt að ferðamenn greiði fyrir slíkt. Einnig mætti athuga að leggja á einhvers konar komugjald á farseðla, til að mynda yfir hásumartímann. Þessar fjölbreyttu leiðir gætu skilað jafn miklum fjármunum og náttúrupassinn án þess að fótum troða grundvallarrétt almennings til frjálsrar farar um landið.

Hér er nefnilega rætt um grundvallaratriði. Vel væri hægt að ná sátt um leiðir til fjáröflunar án þess að takmarka ferðafrelsi með þeim hætti sem náttúrupassinn gerir. Almannarétturinn, rétturinn til frjálsrar farar um landið, hefur verið hluti af íslenskri löggjöf allt frá Jónsbók. Þær reglur eru ekki séríslenskar. Þær hafa endurspeglast í rétti vestrænna ríkja allt frá því að almannaréttur var skilgreindur í Rómaveldi hinu forna. Með nefskatti á borð við náttúrupassann, þó að upphæðin sé í fyrstu ekki há, er verið að skerða ferðafrelsi.

Ráðherra ferðamála segir að þeir eigi að borga sem njóta. Ég er því ósammála. Þó að auðlindagjöld séu mikilvæg og eðlileg vekur það upp ýmsar siðferðilegar spurningar að rukka eigi fyrir aðgang að náttúrunni sjálfri. Er réttmætt að færa lögmál markaðarins með þessum hætti upp á náttúrugæði sem ekki fela í sér neinn efnislegan ágóða fyrir ferðamanninn? Því þeir sem ferðast hagnast ekki efnislega á því. Þeir njóta þessara sameiginlegu gæða okkar allra, ekki aðeins Íslendinga heldur okkar allra, án þess að þau séu þeim gróðalind. Þessi grundvallaratriði eru algjörlega vanreifuð í frumvarpinu og því sætir engri furðu að margir séu gáttaðir á þessari hugsun.

Svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn sé ekki einhuga um málið, auk þess sem mikil andstaða er við málið hjá stjórnarandstöðunni og öllum almenningi. Ráðherra væri nær að skipta nú hressilega um stefnu og ná samkomulagi um blandaða leið með þingmönnum allra flokka og gefa náttúrupassanum reisupassann.

Katrín Jakobsdóttir

Á að skerða ferðafrelsi?

Á næstu dögum hyggst iðnaðarráðherra leggja fram margboðað frumvarp um náttúrupassa. Samkvæmt fréttum á hver Íslendingur að kaupa passa á 1500 krónur til að fá að horfa á Dettifoss, Gullfoss og hinar náttúruperlurnar sem hingað til hafa verið álitnar sameign þjóðarinnar.

Samtök helstu ferðaþjónustuaðila hafa lýst því yfir að þau leggist gegn þessum hugmyndum þar sem nýtt gjald á ferðamenn og eftirlit með þeirri gjaldtöku geti haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Bent hefur verið á að áhrifin af því að selja inn á helstu náttúruperlur Íslands grafi undan þeirri ímynd Íslands sem ósnortið land sem mörgum áratugum hefur verið eytt í að byggja upp. Þá hefur verið gagnrýnt að náttúrupassafyrirkomulagið geri ráð fyrir því að lögreglan eða aðrir aðilar stundi eftirlit við náttúruvætti. Niðurstaða samtaka ferðaþjónustuaðila er að heillavænlegra sé að hækka gistináttaskatt.

En þessi rök ferðaþjónustunnar eru ekki einu rökin gegn þessum hugmyndum ráðherrans sem eru mjög á skjön við þær leiðir sem aðrar þjóðir hafa valið til að vernda viðkvæm svæði. Langflestar þjóðir hafa valið að sækja fé í gegnum hið almenna skattkerfi, með farseðlasköttum eða gistináttagjöldum. Náttúrupassinn verður líklega sýnidæmi um séríslenskar „lausnir“, þó ekki endilega til mikils sóma. Mestu máli skiptir þó að þetta sérstaka gjaldtökukerfi, sem mun kosta sitt, mun stangast á við almannarétt sem hefur verið tryggður í íslenskum lögum allt frá Jónsbók og þyrfti að afnema með lagabreytingu ef náttúrupassinn á að verða að veruleika.

Með náttúrupassanum hyggst Sjálfstæðisflokkurinn, sem eitt sinn þóttist vera boðberi frelsis, beinlínis skerða ferðafrelsi íslensks almennings, rukka alla fyrir að fara um landið og byggja upp bákn til að hafa eftirlit með skattheimtunni. Þvert á almannarétt hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkt að skerða ferðafrelsi almennings til að geta rukkað fólk um skatt, í raun lagt auðlindagjald á almenning í landinu. Það er því holur hljómur í öllu frelsistali Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að í þessum efnum mun það koma í hlut okkar hinna að verja einstaklingsfrelsið sem Sjálfstæðisflokkurinn þykist standa vörð um.

Katrín Jakobsdóttir

Iðnaðarráðherra eins og á hugarflugsfundi

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, efndi til sérstakrar umræðu um náttúrupassann og innviði ferðaþjónustunnar á Alþingi í dag. Katrín benti á að bæta þurfi innviði ferðaþjónustunnar en að óvissa ríki um fjármögnun þess af hálfu hins opinbera í ljósi þess að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er skorinn niður og boðaðar hugmyndir um „náttúrupassa“ hafa enn ekki litið dagsins ljós.

„Við vitum enn ekki hvaða leið á að velja til að tryggja hér tekjur fyrir ferðaþjónustuna,“sagði Katrín og bætti við: “Náttúrupassaleiðin hefur fléttast saman við þá hræðilegu vonda stöðu að einstakir aðilar hafa farið í gjaldtöku á ferðamannastöðum.“ Katrín gagnrýndi aðgerðaleysi ráðherra og sagði m.a.: „Við erum komin með einskonar villta vesturs-ástand í gjaldtöku sem stenst væntanlega ekki einu sinni lög.“

Í svari sínu reifaði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra ýmsar hugmyndir um fjármögnun ferðaþjónustuinnviða en gaf engin skýr svör um hvaða útfærsla verði fyrir valinu. Þetta gagnrýndi Katrín í seinni ræðu sinni og sagði að sér liði „eins og við værum á hugarflugsfundi þar sem ráðherra setti upp ýmsa gula miða“. Katrín sagði jafnframt að brýnt sé að ekki sé brotið á almannaréttinum í þeirri leið sem fyrir valinu verður. „Ég brýni hæstvirtan ráðherra til að nýta þann vilja sem hér kemur fram til samráðs án þess að gengið sé gegn þessum grundvallarréttindum,“ sagði Katrín að lokum.

Umhverfisráðherra segir að náttúrupassi geti þrengt að almannarétti

Katrín Jakobsdóttir þingkona Vinstri grænna stóð fyrir sérstökum umræðum um hvaða áhrif hugmyndir um náttúrupassa gætu haft á almannarétt á Alþingi í dag. Til svara var Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra og sagði hann að náttúrupassi í því formi sem Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra hefur kynnt þrengi að rétti almennings og að mörgum spurningum væri ósvarað í því máli.

Almannaréttur bundinn í lög

Katrín rifjaði upp að almannaréttur sem lýtur að frjálsri för um landið ætti sér djúpar rætur í lögum og menningu vestrænna ríkja og sagðist efast um að hugmyndir iðnaðarráðherra um náttúrupassa samrýmist honum. „Og við sjáum það þegar skyggnst er undir yfirborðið að þessi leið sem er í skoðun hjá stjórnvöldum núna hún er ekki byggð á neinu fordæmi neins staðar frá,“ sagði Katrín. Hún sagðist telja að allir væru sammála um að tryggja þurfi fjármuni til uppbyggingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum, það væri hins vergar spurning um hvernig fara ætti að því. Að lokum spurði hún Sigurð Inga meðal annars um hvernig hann teldi hugmyndir um náttúrupassa samrýmast lögum og reglum um almannarétt og hvort hann teldi náttúrupassan einu leiðini til að tryggja fjármagn til uppbyggingar.

Umhverfisráðherra efast um náttúrpassa iðnaðarráðherra

„Náttúrupassaleiðin í því formi sem hún hefur verið kynnt getur þrengt að réttindum almennings. Það er gjaldtaka á ákveðnum stöðum gegn því að þeir sömu staðir fái aðgang að fjármunum til uppbyggingar í þágu ferðaþjónustu að viðlögðum sektum ef viðkomandi greiðir ekki aðgangseyrir,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við: „Náttúrupassinn útilokar því ekki í þessu formi að landeigendur geti tekið upp sína eigin gjaldtökuleið eins og dæmin hafa sannað og ekki viljum við að gjaldtökuleiðin verði til þess að skapa gjá og togstreitu á milli ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og almennings í landinu.“

Sigurður Ingi sagði rétt almennings til frjálsrar fara um landið vera lögbundinn rétt borgaranna og eitt af einkennum íslensks samfélags og tengsla Íslendinga við landið. „Þann rétt hygg ég að flestir Íslendingar vilji standa að baki og verja,“ sagði hann og bætti við: „Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt að undanförnu og ferðamönnum fjölgað með tilheyrandi ágangi á landið og vaxtarverkjum. Því er brýnt að til sé stefnumótun og útfærsla á framkvæmdum og forgangsröðun fjármuna til einstakra verkefna. Enn er mörgum spurningum ósvarað þar að lútandi.“

Samhljómur á meðal þingmanna

Aðrir þingmenn sem tóku til máls, þar á meðal Sigrún Magnúsdóttir þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tóku undir með þeim Katrínu og Sigurði Inga að mikilvægt væri að verja almannaréttinn, eðlilegt væri því að skoða aðrar leiðir en þá sem iðnaðarráðherra hefur teflt fram til að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaðaða og friðlýstra svæða. Þá var samhljómur um að mikilvægt væri að vanda vel til verka og að góð sátt næðist um málið.