Posts

Efnt til ófriðar um rammaáætlun

Um fá mál á Alþingi virðist vera djúpstæðari ágreiningur en þau sem snúast um náttúruvernd annars vegar og nýtingu náttúruauðlinda hinsd vegar. Margir töldu að átökin um Kárahnjúkavirkjun hefðu orðið til þess að menn hefðu lært að ekki gengi að valta yfir fólk og firnindi í krafti meirihluta; mikilvægt væri að leiða þessi mál í einhvers konar sáttaferli.Það virtist hafa náðst þegar lög um rammaáætlun voru samþykkt á sínum tíma með atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum árið 2011. Í kjölfarið var ný rammaáætlun samþykkt á þingi.

Hún var hins vegar ekki samþykkt af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gagnrýni þeirra snerist einkum um að þrjár virkjanir í neðri Þjórsá hefðu verið færðar úr nýtingu í bið – og létu þessir þingmenn það sem vind um eyru þjóta að það var gert að loknu lögbundnu umsagnarferli þar sem á þriðja hundrað athugasemda barst vegna þessara virkjana. Þeir sem samþykktu rammaáætlun voru hins vegar hreint ekkert allir að samþykkja einhverja draumaáætlun. En þeir litu svo á að nauðsynlegt væri að breyta umræðunni, leiða djúpstæðan ágreining í sáttaferil og vildu standa við það.

En hvar er þetta mál statt núna? Umhverfisráðherra lagði fram tillögu um að Hvammsvirkjun í Þjórsá yrði færð úr bið í nýtingu. Var það gert að tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Málinu var vísað til atvinnuveganefndar Alþingis en ekki umhverfisnefndar sem vakti strax grunsemdir um að ætlunin væri að rjúfa tengsl verndar og nýtingar sem er hryggjarstykkið í hugmyndafræði rammaáætlunar. Og sá illi grunur reyndist réttur. Meirihluti nefndarinnar hyggst leggja til að fjögur önnur svæði verði færð úr bið í nýtingu (sem vel að merkja er talsvert afdrifaríkari ákvörðun en að færa úr nýtingu í bið) en það eru tvær virkjanir í neðri Þjórsá (Urriðafoss og Holtavirkjun), Hagavatnsvirkjun og Skrokkalda. Af þessum hefur verkefnisstjórn aldrei lokið umfjöllun um Hagavatnsvirkjun og ekki lokið að fjalla að nýju um Skrokköldu, Urriðafoss og Holtavirkjun.

Umfjöllun og vinnubrögð í kringum nýtingarflokk rammaáætlunar er því í uppnámi og stjórnarmeirihlutinn virðist ekki álíta sig bundinn af því ferli sem skilgreint er í lögum um rammaáætlun. Þarna er enn og aftur verið að efna til ófriðar, stríðsöxin grafin upp að óþörfu í blindu ofstæki og trú á gamlar stórkallalausnir í atvinnumálum.

Og hvað er að gerast hinum megin, í verndarflokki rammaáætlunar. Því miður virðist svarið vera: Ekki neitt. Lögum samkvæmt á umhverfisráðherra að friðlýsa þau svæði sem sett eru í verndarflokk rammaáætlunar. Ég lagði fram fyrirspurn til ráðherrans árið 2013 og að nýju árið 2014. Skrifleg svör bárust; hið fyrra 30. október 2013, hið síðara 16. desember 2014. Svörin voru keimlík þó að reynt hafi verið að breyta orðalagi á stöku stað. Í stuttu máli hafði ekkert þokast í friðlýsingum svæða í verndarflokki þó að það sé lögbundin skylda umhverfisráðherra að framkvæma þær. Þegar ég spurði svo ráðherrann hverju sætti var kvartað undan fjárskorti en beinlínis var ákveðið í tíð þessarar ríkisstjórnar að skera niður fé til friðlýsinga. Og svo sagði ráðherrann að kannski væru þetta fullmargar friðlýsingar.

Ef þessi eru viðhorf stjórnarmeirihlutans til laga og samþykkta Alþingis er ekki nema von að almenningur í landinu krefjist róttækra kerfisbreytinga. Það virðist einlægt markmið ríkisstjórnarinnar að kveikja ófriðarbál í kringum verndun og nýtingu náttúruauðlinda líklega vegna þess að ríkisstjórnin hefur enn ekki áttað sig á því að atvinnulíf á Íslandi er breytt; hér er uppgangur í ferðaþjónustu og nýsköpun og það er enginn að biðja um gömlu stórkallalausnirnar. En viðhorf almennings virðast jafn léttvæg fyrir þessum stjórnarmeirihluta og lög og samþykktir Alþingis.

Katrín Jakobsdóttir
Höfundur er formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Geðþótti eða lögleg vinnubrögð

Eftir tíu daga í embætti segir nýr umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, í Kastljósi að nægar rannsóknir liggi fyrir til að leggja til að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun verði settar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þetta vakti athygli og undrun margra.

Aðdragandinn að rammaáætlun – vinnan og framvindan – nær mörg ár aftur í tímann. Á árinu 2011 voru lög um rammaáætlun samþykkt á Alþingi og kveða lögin á um það hvernig skyldi fara með tillögur og ákvarðanir varðandi vernd og nýtingu náttúrusvæða. Þessi lög um verklag og leikreglur voru samþykkt án andstöðu í þinginu og var víða fagnað sem mikilvægu skrefi í átt að því að ná sameiginlegum grundvelli um virkjanir og náttúruvernd á Íslandi.

Það er mikilvægt að halda því til haga að það var þingið sjálft sem samþykkti þessa aðferðafræði og ætti því sjálft að gæta að því að hún sé höfð í heiðri.

Verkefnisstjórnin skal samkvæmt lögunum gera tillögu til ráðherra og ráðherra síðan leggja kostina til við þingið. Eftir þessu var farið þegar verkefnisstjórn rammáaætlunar gerði tillögu um að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk og þingsályktunartillaga í framhaldinu lögð fram á Alþingi um þann virkjunarkost. Verkefnisstjórnin taldi ekki forsendur til þess að gera frekari tillögur um færslu virkjanakosta í nýtingarflokk og því liggur aðeins þessi eina tillaga hjá Alþingi, hvorki fleiri né færri.

Í þessu ljósi er það verulegt álitamál hvort það standist yfirleitt lögin að atvinnuveganefndin ein og sér geri tillögu um sjö virkjunarkosti til viðbótar án þess að verkefnisstjórnin hafi lokið sinni umfjöllun um þá eins og Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, hugðist gera í haust. Auk þess hafa ítrekað komið fram efasemdir um að það í sjálfu sér standist þingsköp að kalla það breytingartillögu við þingsályktunartillögu að breyta einni tillögu í átta. Þannig fengi breytt tillaga í raun bara eina umræðu sem telst tæpast þinglegt.

Það er ekki síður álitamál hvort löglegt sé að ráðherra geri tillögur umfram þær sem umfjöllun verkefnisstjórnarinnar segir til um eins og hún boðaði í Kastljósi. Þetta er ekki síst ámælisvert í ljósi þess að eftirfarandi kemur fram í greinargerð verkefnisstjórnar um tillögu þá sem atvinnuveganefnd hefur á sínu borði:

„Í niðurstöðum sínum leggur verkefnisstjórn til að Hvammsvirkjun verði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk en gerir að öðru leyti ekki tillögu um breytingu á þeirri röðun virkjunarkosta sem fram koma í núgildandi verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013.

Í niðurstöðum verkefnisstjórnar kemur jafnframt fram að hún telji að til þess að hægt verði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þurfi að liggja fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskstofna, eftirlits- og viðbragðsáætlun með lýsingu á viðbrögðum ef markmiðum er ekki náð og skilgreining á því hvaða viðbótarrannsóknir þurfi að gera á búsvæðum laxfiska í Þjórsá, einkum í Þjórsárkvísl neðan við Búða og í Murneyrarkvísl.“

Afstaða verkefnisstjórnarinnar er því afar skýr: Hún telur einmitt að frekari rannsókna sé þörf áður en hægt sé að taka ákvörðun um þessa tvo virkjanakosti. Í ljósi þess að það er einmitt hlutverk verkefnisstjórnarinnar að taka afstöðu til þessara atriða, má spyrja til hvers Sigrún Magnúsdóttir telur verkefnisstjórnina vera?

Eru þetta byrjendamistök hjá ráðherra? Hefur hún ekki kynnt sér lög um rammaáætlun eða telur hún að eigin geðþótti dugi til?

Ekkert afturkall

Ný lög um náttúruvernd voru samþykkt vorið 2013 og var ætlað að taka gildi þann 1. apríl 2014. Lögin fela í sér mikla framför í lagaumhverfi náttúruverndar og eru skólabókardæmi um hvernig á að standa að vandaðri lagasetningu. Þau byggja á vönduðum undirbúningi með aðkomu fræðimanna og fagaðila og síðan ítarlegri umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem komið var til móts við fjölda athugasemda hagsmunaaðila áður en þau voru samþykkt.

Það vakti því reiði og furðu þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði í haust fram frumvarp um að afturkalla þessi nýsamþykktu náttúruverndarlög áður en þau tækju gildi þann 1. apríl 2014. Hefði frumvarp ráðherrans náð fram að ganga hefði fimm ára vinna farið í ruslið og horfið yrði aftur til gildandi náttúruverndarlaga frá 1999 sem eru orðin úrelt þar sem þróun í þessum málaflokki hefur verið hröð.

Afturkallsfrumvarpið fékk afar góða, vandaða og málefnalega umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þar kom í ljós að mun færri og smærri álitamál voru uppi um nýju náttúruverndarlögin en sumir höfðu talið. Ágreiningur um utanvegaakstur og tengd mál reyndist mun minni en látið hafði verið að liggja og skemmra reyndist á milli skoðana á ákvæðum um varúðarreglu og sérstaka vernd en virtist í upphafi.

Þá voru nefndarmenn sammála um mikilvægi almannaréttarins sem almenningur er nú orðinn meðvitaðri um eftir að hugmyndir um gjaldtöku við helstu náttúruperlur þjóðarinnar fóru á flug. Nefndin náði að lokum saman um þá málamiðlun að hafna afturkallinu, fallast á að byggja á heildarhugmyndafræði hinna nýju laga og fresta gildistöku þeirra til 1. júlí 2015 þannig að hægt sé að vinna að úrbótum í samstarfi við ráðherra og skapa varanlega sátt um málið.

Þó að ég hefði helst viljað að ný lög tækju gildi nú 1. apríl er ég sátt við niðurstöðu nefndarinnar. Afturkall umhverfis- og auðlindaráðherra er út af borðinu og stefnt er að því að ný og framsækin náttúruverndarlög taki gildi árið 2015. Það skiptir svo sannarlega máli fyrir íslenska náttúru og íslenska þjóð.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst á Vísi.is

Vegið að rammaáætlun

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, spurði Sigurð Inga Jóhannsson, umhverfisráðherra, um tillögu Orkustofnunar um virkjanakosti sem hún hefur sent til verkefnastjórnar rammaáætlunar. Tillagan snýst um 91 virkjunarkost, þar af 27 nýja, og þar á meðal eru fjölmargir kostir sem þegar hafa verið flokkaðir í verndarflokk rammaáætlunar eða eru á náttúruminjaskrá. Katrín sagði Orkustofnun vega að rammaáætlun með tillögu sinni og lagði áherslu á að þó að stofnuninni væri heimilt að leggja fram slíka tillögu, væri henni það ekki skylt.

„Samkvæmt lögum um rammaáætlun er líka kveðið á um það að umhverfisráðherra hæstvirtum beri að hefja friðlýsingarvinnu við þá kosti sem flokkaðir eru í verndarflokk,“ sagði Katrín og spurði Sigurð Inga hvort hann teldi það samrýmast lögum um rammaáætlun að Orkustofnun gerði þessar tillögur um virkjanakosti sem Alþingi hefði nýlega samþykkt í verndarflokk, í ljósi þess að væntanlega stæði yfir vinna við að friðlýsa þá í ráðuneyti hans eins og lög gera ráð fyrir. Þá spurði hún einnig um það hvort Sigurður Ingi teldi útspil Orkustofnunar til þess fallið að stuðla að sátt um málaflokkinn.

Sigurður svaraði ekki spurningum Katrínar en sagði lögin óskýr og því hægt að túlka þau með ólíkum hætti. Hann sagði reglugerð vera í smíðum í ráðuneytinu sem tæki á því.

Brjálæðislegar tillögur Orkustofnunar

Þau Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon þingmenn Vinstri grænna gerðu tillögu Orkustofnunar um virkjanakosti til verkefnastjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar að umtalsefni á Alþingi í dag. Þau lýstu bæði yfir furðu sinni á tillögunum og spurðu hvernig eigi að vera hægt að ná sátt í þessum málum þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti.

Brjálæðislegar hugmyndir um að fórna náttúruminjum Orkustofnun lagði á dögunum fram tillögu til verkefnisstjórnar rammaáætlunar um vernd- og nýtingu og nýtingu landsvæða. Tillagan var um 91 virkjunarkost, þar af 27 nýja.  Katrín benti á að af hinum sem ekki eru nýjir væri umtalsverður fjöldi kosta sem þegar væri búið að flokka í verndarflokk. „Hvort sem það snýst um Torfajökulssvæðið sem jafnvel stendur til að komist á skrá hjá UNESCO, hvort sem það snýst um Jökulsá á Fjöllum og að veita henni yfir í Jökulsá á Dal, Hofsá í Vopnafirði hefur hér verið nefnd sem er á náttúruminjaskrá. Við getum einnig nefnd jarðvarmasvæði eins og jaðar Torfajökuls sem kemur þarna nýr inn,“ sagði Katrín.

Steingrímur gagnrýndi Orkustofnun og sagði það hneyksli að hún skuli rökstyðja tillögu sína með því að vísa til svokallaðrar hvítbókar um innlendrar orkuauðlindir til vinnslu raforku frá árinu 1994. „Vita menn hvað er í þessari bók?“ spurði Steingrímur og hélt áfram: „Það eru fjórar mismunandi útgáfur t.d. af virkjun Hvítár, með eða án Gullfoss. Þannig er þessi bók. Það eru brjálæðislegar hugmyndir um að tæta niður fjölmargar fallegustu laxveiðiár landsins, t.d. að veita vatni úr fjórum laxveiðiám í Þistilfirði og á Langanesströnd yfir í eina þeirra, þurrka upp sumar þeirra, taka vatn úr Selá og Vesturdalsá og skutla því vestur í Hofsá o.s.frv. Það eru tillögurnar í þeirri bók sem Orkustofnun notar sem röksemdir fyrir því að tína út úr henni ýmsar brjálæðislegar 20 ára gamlar hugmyndir um virkjanir af því tagi.“ Settur rammáætlun í fullkomið uppnám Þau Katrín og Steingrímur áttu erfitt með að leyna vonbrigðum sínum yfir tillögu Orkustofnunar og sögðust bæði óttast að sú vinna sem unnin hefði verið til að ná sátt í málaflokknum væri einskis virði. „Þetta vekur mér spurningar um þau ferli sem við höfum verið að fylgja. Hvernig á að vera hægt að treysta á þau ferli þegar svæði eru ýmist friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eða flokkuð í verndarflokk af faghópum en örfáum mánuðum síðar dúkka þau upp aftur sem nýjir og vænlegir virkjanakostir,“ sagði Katrín.  Steingrímur sagðist vera gersamlega gáttaður: „Ég verð að segja eins og er að ég sé ekki betur en með þessu sé vinnan að rammaáætlun, að viðbættum kröfum orkufyrirtækjanna um að halda til streitu svæðum sem ákveðið hefur verið að flokka í vernd og Alþingi hefur samþykkt að skuli teljast í vernd, sett í fullkomið uppnám.“

Katrín Jakobsdóttir hefur sem fulltrúi Vinstri grænna í umhverfis- og samgöngunefnd óskað eftir því að málið verði tekið upp í nefndinni og að þar verði fulltrúar Orkustofnunar kallaðir á fund.