Posts

Vilja flytja kýr í flugvélum

Ögmundur Jónasson skrifar

Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin vilji gera kýr að flugvélafarþegum. Hún vill senda heilar hjarðir í heimsreisur. Og ekki bara nautgripi heldur líka kjúklinga og svín. Að vísu ekki lifandi, heldur dauð. Steindauð, tilbúin á steikarfatið. Heimsreisur? Mér er sagt að ódýrustu kjúklingar á markaði í Evrópu séu komnir alla leið frá Austur-Asíu, Kína og Taílandi.

Þetta er inntakið í samningi Íslands við Evrópusambandið um að örva viðskipti með kjöt milli Evrópumarkaðar og Íslands. Samningurinn hefur að vísu enn ekki verið staðfestur og verður það vonandi ekki.

Ýmsir hafa fundið að þessum samningi á margvíslegum forsendum. Ég er í þeim hópi og hef nefnt ýmsa þætti. Í þessum línum vil ég benda sérstaklega á einn þessara þátta, umhverfisþáttinn. Og ég spyr: Vilja menn virkilega ekki reyna að stuðla að því að samfélög verði sem best sjálfbær um framleiðslu á mat í nærumhverfi sínu?

Aukin ferðamennska í heiminum er jákvæð þróun

Það er skemmtilegt og eftirsóknarvert að heimsækja fjarlægar slóðir. Það finnst okkur flestum og ef vel er á haldið getur af ferðamennskunni spunnist spennandi nýsköpun í atvinnurekstri og gert okkur betur meðvituð um stórkostlegan margbreytileika heimsins í náttúrufari og menningu. Þennan margbreytileika á að leggja rækt við. Þar hafa Íslendingar margt fram að færa, og viti menn, ekki síst í matvælaframleiðslu!

En ferðamennskan á sér takmörk, enda hóf á öllu best. Hún setur þannig aukið álag á umhverfið, mengandi flugumferð er að margfaldast og hin risastóru skemmtiferðaskip eru sögð mikill mengunarskaðvaldur.

Og ofan á þetta allt vilja menn nú senda naut, þúsundum saman, hænur og svín, í flugferðir heimshorna á milli.

Er þetta skynsamleg stefna? Tökum afstöðu í þessu máli, sem á sér hliðar sem kunna að reynast afdrifaríkari en margan grunar. Látum síðan framtíðinni eftir að greina afstöðu okkar, hver reyndust vera framsýn og hver afturhald.

Vilja menn virkilega ekki reyna að stuðla að því að samfélög verði sem best sjálfbær um framleiðslu á mat í nærumhverfi sínu?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní.

„Hér vantar meiri vinstripólitík“

Á þeim mínútum sem ég hef til ráðstöfunar langar mig fyrst og fremst að segja að það þarf meiri pólitík í þennan sal. Meiri vinstri pólitík.

Ef verkefni stjórnarandstöðu væri einvörðungu að streitast gegn ríkjandi stjórnvöldum þá höfum við náttúrlega óska ríkisstjón. Á fyrsta degi lækkaði hún veiðgjöldin, á öðrum degi slátraði hún auðlegðarskattinum og tók samhliða að daðra við einkavæðingu og síðan kom þetta allt, koll af kolli, á færibandi.

En þetta er að sjálfsögðu engin óskastaða og upp í hugann kemur viðtal við ritstjóra breska ádeilu-tímaritsins Private Eye eftir nýafstaðnar kosningar Bretlandi einhvern tímann í kringum 1970 en þá hafði Íhaldsflokkurinn unnið mikinn sigur. Ritstjórinn kvað niðurstöður kosniganna vera himnasendingu fyrir tímarit sitt, nú yrði úr nógu að moða, en bætti því svo við að sem þjóðfélagsþegn væri hann að sjálfsögðu miður mín.

Auðvitað vildum við helst að inn í þennan þingsal væru aðeins borin mál sem við öll teldum vera þjóðþrifamál og sanngirnismál; mál sem við værum sátt við sem þjóðfélagsþegnar. Og vissulega á þetta við um mörg verkefni Alþingis. Ég hef sagt í gamni og kannski líka alvöru að ef úr heilaforriti sérhvers þingmanns væri tekin vitneskjan um hvaða flokki hann eða hún tilheyrði þá yrði margt auðleystara enda létu menn þá eigin dómgreind og kannski líka sanngirni oftar ráða. Flokksböndin geta nefnilega verið hamlandi.

En lífið er ekki alveg svo einfalt hér utandyra og þannig getur það heldur varla átt að vera í þessum sal. Í samfélaginu, ekki bara hér, heldur í heiminum öllum, er tekist á um hagsmuni. Hópar, stéttir og ríki takst á, og sumir vilja orða það svo að neysluhyggja mannsins takist á við hagsmuni móður jarðar.

Þessi hagsmunabarátta er háð undir pólitískum merkimiðum, peningafrjálshyggju, félagshyggju, þ.e. hægri stefnu og vinstri stefnu. Þetta er ekki úrelt skipting einsog sumir þeirra halda fram sem telja að stjórnmál eigi bara að snúast um spjall yfir kaffibolla.
Vissulega eru málefnalegar samræður nauðsynlegar – og þess vegna yfir kaffibolla – en kjósendur verða að fá að vita hver eru raunveruleg áform stjórnmálasamtaka. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þannig í kosningum iðulega fengið stuðning margra þeirra sem vilja ekki markaðsvæðingu heilbriðgiskerfisns því flokkurinn hefur vísvitandi talað óskýrt um þetta óvinsæla málefni fyrir kosningar.

Vilja stjórnmálamenn selja alla bankana eða vilja þeir samfélagsbanka og er alvara þar á bakvið, hvað með kvótakerfið varla verður gefist upp við að breyta því kerfi, og hvað með heilbrigðiskerfið. Þar takast raunverulegir hagsmunir á.

Það er í alvöru byrjað að dæla út arðgreiðslum í heilbrigðiskerfinu. Við borgum þetta allt að sjálfsögðu, annað hvort sem skattgreiðendur eða sem sjúklingar. Sum okkar munu geta borgað, önnur ekki. Og þannig verður það: Kerfi sem mismunar. Vilja menn markaðshyggju í heilbrigðiskerfinu eða vilja menn félagshyggju, vilja menn hægri eða vilja menn vinstri?

Ágætur maður skrifaði mér eftir að ég birti pistil í helgarblaði Morgunblaðsins nú um helgina um tollasamningana sem opna fyrir stóraukinn innflutning á kjötvöru. Ég vísaði þar á yfirlýsingar verkalýðsfélagsins Framsýnar, sem varar við afleiðingum fyrir íslenskan matvælaiðnað. Bréfritari sagði að ég yrði að gá að því að Framsýn væru hagsmunatengd samtök.

Það er að sjálfsögðu rétt. Störf eru hagsmunir og það eru líka hagsmunir að verja þá auðlind sem sjúkdómafríir bústofnar og heilnæm innlend matvælafrmaleiðsla er. Og einhvers staðar inn í þennan hagsmunaslag koma stóru verslunarkeðjurnar, þær sömu og vilja láta þennan þingsal banna með lögum að aðrir en einkaaðilar fái að selja áfengi í verslunum sínum. Og halda menn að það séu ekki hagsmunir einhverra að draga úr byggingakröfum, aðgengi og sólarljósi, fyrir fátækan leigumarkað?

Auðvitað koma hagsmunir þarna alls staðar við sögu. Pólitík er nefnilega að uppistöðu til hagsmunabarátta – annað eru viðfangsefni fagfólks. Um leið og við vísum pólitískri baráttu úr þessum sal þá eigum við ekki lengur erindi hingað.

Og ég spyr, vill fólk vera í samkrulli með Donald Trump sem gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna eða Hillary Clinton sem er harðlínuhaukur í utanríkismálum? Þetta eru næstu leiðtogar í NATÓ, hernaðarbandalaginu sem Alþingi samþykkti nýlega, illu heilli, að verði áfram hornsteinn íslenskrar öryggisstefnu. Ég fullyrði að NATÓ er hættulegra öryggi Íslands en nokkru sinni en samt hótar núverandi ríkisstjón því að binda okkur enn fastari böndum þessu bandalagi. Þetta eitt nægir mér til að vilja nýja ríkisstjórn að afloknum kosningum.

Auðvitað fagna ég því alltaf þegar samstaða næst í þessum sal um málefni sem við ættum að geta sameinast um. Við þurfum að vera sameinuð í baráttunni fyrir Ísland og viðkvæma og fágæta náttúru þess. Hér þekkjum við öll hvað við er átt og er þar vissulega ágreiningur um sitthvað.
En nú spyr ég í lokin: Eigum við ekki að sameinast um að tryggja sameiginlegt eignarhald okkar á Jökulsárlóni og Grímsstöðm á Fjöllum og verða þaning við áskorðunum fólks úr öllum stjórnamálaflokkum, öllum starfsstéttum og öllum aldurshópum? Þessi áskorun er raunveruleg, hún er til svört á hvítu. Það er okkar að verða við henni.

Gleðilegt sumar!

Hverjum vill Rio Tinto koma á hnén?

Verkalýðsfélögin í álverinu í Straumsvík hafa löngum fengið orð fyrir að halda vel utan um sín mál. Það hafa þau gert með því að stuðla að sem mestum kjarabótum fyrir félagsfólk sitt bæði í kaupi og réttindum og  þá einnig í öryggi og aðbúnaði. Og það sem meira er, verkalýðsfélögin hafa reynt að tryggja að ákveðið réttlæti ríkti í launadreifingunni. Þetta hefur þeim tekist bærilega í langan tíma með samstilltu félagslegu átaki, samstöðu manna innan skiplegra samtaka. Þetta fyrirkomulag hafa stjórnendur í Straumsvík almennt viðurkennt fram til þessa enda hefur ríkt um það þokkaleg sátt á Íslandi fram á þennan dag.

Vilja geta skammtað kjör og réttindi

Spuring er hvort við séum nú að verða vitni að tilraunum til að rjúfa þá sátt. Ekki af hálfu íslenskra atvinnurekenda, heldur erlendra eigenda álversins í Straumsvík. Það er nú í eigu Rio Tinto Alcan, sem kunnugt er. Á þeim bænum er lítil hrifning á tilvist verkalýðsfélaga almennt og þykir ákjósanlegra fyrirkomulag að mæta launamanninum einum á báti fremur en í félagi við aðra. Ferill fyrirtækisins erlendis ber þessu viðhorfi vott.
Veik verkalýðshreyfing þýðir launadreifing á forsendum atvinnurekandans, auk þess sem veikur mótherji leitar síður upp á dekk með ágreiningsmál. Verktökufyrirkomulag sem Rio Tinto krefst að verði innleitt í ríkari mæli en verið hefur, þýðir þannig aukin völd atvinnurekandans. Líki honum ekki verktakinn er auðvelt að losa sig við hann. Það er erfiðara að eiga við jaxla í broddi stórrar fylkingar.

Verkalýðsfélögunum vorkunn

Fyrir skömmu sótti ég upplýsingafund forsvarsmanna verkalýðsfélaganna í álverinu í Straumsvík um stöðu kjaradeilunnar þar. Á fundinum kom fram að forsvarsmennirnir höfðu áhyggjur enda umhugað um að tryggja framtíð vinnustaðarins. Þeim er vissulega vorkunn því nú glíma þeir við atvinnurekanda sem stöðugt hefur í hótunum að loka vinnustaðnum og svipta starfsfólkið þar með vinnunni, verði ekki samið einsog honum best líkar.

SA vorkunn líka

Samtök íslenskra atvinnurekenda hafa ekki alltaf verið mér að skapi, en þau mega eiga það að vilja almennt stuðla að félagslegu kjaraumhverfi. Að vísu á þetta umhverfi ekki að taka til þeirra sjálfra en látum það liggja á milli hluta að sinni. Þegar á heildina er litið hefur verið vilji af hálfu atvinnurekenda hér á landi að semja um kaup og kjör á félagslegum grunni. Þessi afstaða hefur verið mikils virði. Það þekkja þeir sem kynnst hafa raunverulegum frumskógarlögmálum einstaklingsbundinna samskipta atvinnurekenda og launafólks.
En jafnvel þótt SA hafi skilning á félagslegum samningum, á það ekki við um þann aðila sem þau starfa í umboði fyrir í Straumsvík. Ég get mér til um að símtölin frá honum hafi ekki alltaf verið auðveld fremur en við aðra þá sem kunna að skipa fyrir en ekki að hlusta. Að þessu leyti er SA því vorkunn.

Hvað er í húfi?

Þótt verkalýðsfélögunum kunni að vera vorkunn biðja þau ekki um vorkunnsemi. Aðeins skilning á því hvað það hefur í för með sér að brjóta niður félagslega aðkomu launafólks að kjarasamningum. Þann rétt eru félögin staðföst að verja og líkar mér vel sá baráttuandi sem einkennir afstöðu þeirra. Þarna eru þau að standa vaktina fyrir íslenskt samfélag í heild sinni! Sama þyrftum við að geta sagt um Samtök atvinnulífsins, að þau sýni vilja til að standa  vörð um samskiptaform á vinnnumarkaði sem reynst hefur farsælt.

Raforkuverðið

Annars hef ég grunsemdir um að hótanir um lokun beinist að fleirum en skipulagðri verkalýðshreyfingu. Afkoma álversins ræðst af markaðsverði á áli, rekstrakostnaði og síðast en ekki síst af raforkuverði.
Gæti verið að þegar allt kemur til alls þá sé það ekki bara verkalýðshreyfingunni og samtökum atvinnurekenda sem Rio Tinto vilji koma á hnén? Getur verið að á endanum sé það einn aðili til viðbótar sem ætlast sé til að knékrjúpi? Þar er ég að sjálfsögðu að tala um seljanda orkunnar, íslenska ríkið.
Það má aldrei verða að deilan verði leyst með því að stjórnvöld knékrjúpi með því að taka upp samninga um raforkuverð.
Þörf er á breiðri samstöðu í þjóðfélaginu til varnar miklum sameiginlegum félagslegum og fjárhagslegum hagsmunum. Þetta er ekki mál álversmanna einna!

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG

Greinin birtist fyrst í DV

Hvað segja eigendur Símans um skammarverðlaunin?

Um áramótin veitti Viðskiptablað Fréttablaðsins verðlaun fyrir viðskiptaafrek liðins árs og að sama skapi voru tilnefnd verstu viðskipti ársins.

Ríkisstjórnin fékk hin jákvæðu verðlaun fyrir samkomulag við kröfuhafa þrotabúa bankanna en Arion banki og Síminn ehf., skammarútnefningu fyrir sölu á hlutabréfum í Símanum þar sem bæði bankinn og Síminn féllu á siðgæðisprófi.
Hin fyrri verðlaun læt ég að sinni liggja á milli hluta að öðru leyti en því að áhöld þykja mér vera um það hvort ekki hefði verið nær að sæma hrægammana verðlaunum fyrir hagstæðustu viðskipti ársins fremur en ríkisstjórnina.

Það er hins vegar skammarútnefningin sem ég staðnæmist við. Í stað þess að Arion banki léti hlutabréf sín á opinn markað var byrjað á því, að hætti 2007, að heimila nákomnum og vildarvinum að komast yfir bréf á lægra verði en sýnt var að öðrum myndi bjóðast á markaði. Sú varð og raunin. Á opnum markaði var gengið orðið hærra og þar með virði bréfanna. Hinir nákomnu þurfa ekki lengi að sitja á feng sínum því fljótlega geta þeir selt á markaði og hagnast vel.

Dæmafá óskammfeilni

Af Símans hálfu vakti athygli að stjórnendur þar á bæ voru í hópi kaupenda. Þar ber ekki síst að horfa til stjórnenda Mílu, sem á að vera fyrirtæki aðskilið Símanum þótt hann sé undir sömu regnhlíf. Með sölunni var Síminn hins vegar nú kominn að hluta til í persónulega eign stjórnenda Mílu! Þessu var að vísu snúið til baka enda dæmafá óskammfeilni. Eftir stendur að í fjárfestingahópi í kringum forstjóra Símans högnuðust menn persónulega á braskinu.

Fjármálaráðherra lýsti því opinberlega að hann teldi þessa sölu hafa verið „klúður“ og einn dómnefndarmaður Viðskiptablaðsins spurði „hvort hægt væri að klúðra málum meira“. Og bætti við, að „helstu leikendur virðast ætla að sleppa vel frá þessum ótrúlega gjörningi en líklega verður einhver skúringakonan rekin enda verður alltaf einhver að axla ábyrgð.“

Spurning er hvort hugtakið klúður sé ekki heldur kurteist hugtak yfir þetta ferli sem fyrst og fremst skrifast náttúrlega á Arion banka sem stjórnaði sölunni.

En fram hjá ábyrgð stjórnenda Símans verður ekki litið og þar með eigenda hans. Lífeyrissjóðirnir eru langstærstu eigendur Símans og fara þar með vald sem lögbundinn sparnaðar launafólks hefur fært þeim í hendur.

Ekki hef ég orðið var við að stjórn Símans hafi verið krafin sagna um þetta mál. Enda ekki skúringakona.

Hitt þykir mér sýnt að lífeyrissjóðirnir þurfa að taka upp gagnrýna umræðu um hvernig farið er með það vald sem eitt hundrað milljarða fjárfestingargeta á ári veitir.

Almennt tel ég að lífeyrissjóðirnir hafi farið vel með vald sitt. En er svo í öllum tilvikum? Þetta mál þyrfti að verða tilefni til gagnrýninnar umræðu um það hvort svo er. Þeir sem vilja lífeyrissjóðunum vel hljóta að verða hvatamenn að slíkri umræðu.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður Vinstri grænna

Þingfréttir – 40% misskilningur, flygildi og brennivín

Gleðilegan laugardag kæru félagar,

Vikan í þinginu hófst á því að Katrín spurði forsætisráðherra um yfirlýsingu hans á leiðtogafundi SÞ um markmið Íslands í losun gróðurhúsalofttegunda um 40%. Drógu bæði aðstoðarmaður og umhverfisráðherra síðar í land með yfirlýsingu Sigmundar. Katrín lagði því áherslu á mikilvægi þess að forsætisráðherra segði frá því með skýrum hætti hvernig þessi fyrirætlan væri hugsuð.

Sama dag spurði Katrín innanríkisráðherra um hvort setja eigi almenna löggjöf eða reglur um notkun dróna, eða flygilda eins og þetta tænkiundur er nefnt, hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum í atvinnulífinu. Vísaði Katrín til Frakklands, Þýskalands og Svíþjóðar þar sem skýrar reglur eru um noktun flygilda.

Svandís sendi inn fyrirspurn til munnlegs svars til sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra um dýravernd og verður fyrirspurnin tekin fyrir vonandi sem fyrst.

Umræða um hæfnispróf í framhaldsskólum fór einnig fram í vikunni að frumkvæði Svandísar sem hafði sent til menntamálaráðherra fyrirspurn til munnlegs svars um málið.

Í störfum þingsins á þriðjudag vakti Lilja Rafney athygli á umdeildri ákvörðun Rannsóknarnefndar sjóslysa vegna hörmulegs sjóslyss í sumar þegar báturinn Jón Hákon BA sökk. Rannsóknarnefndin hefur ákveðið að ná ekki bátnum upp af hafsbotni en samtök sjómanna hafa harmað ákvörðunina. Undir þá gagnrýni tekur Lilja Rafney.

Stöðugleikaframlögin voru rædd á þinginu í gær þegar forsætisráðherra skundaði í þinghús og í óundirbúnar fyrirspurnir með stuttum fyrirvara. Katrín notaði tækifærið og benti á að stöðugleikaframlögin virðast minnka með hverjum degi skv. fréttum. Upphaflegu 450-500 milljarðarnir sem boðaðir voru séu komnir niður í um það bil 300 milljarða. Erfitt reynist að fá fullnægjandi upplýsingar í efnahags- og viðskiptanefnd og því þurfi forsætisráðherra að fara yfir stöðuna enda um gríðarstórt hagsmunamál almennings sé að ræða.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að mikið hefur verið rætt um brennivín síðustu daga, enda lagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, loks fram frumvarp sitt í gær um brennivínssölu í verslanir og fór fyrsta umræða fram á þinginu í kjölfarið. Framsóknarfólk er á móti frumvarpinu sem og okkar fólk og aðrir stjórnarandstöðuliðar. Ögmundur vakti athygli á lýðheilsusjónarmiðunum, samþykktum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem leggst gegn smásölu á áfengi og umsögnum landlæknisembættisins og samtaka um vímuefnamál og æsklýðsmál um frumvarpið. Ögmundur kallaði líka réttilega eftir viðveru og skoðun heilbrigðisráðherra og samflokksmanns Vilhjálms í málinu

Ögmundur tókst svo á við Vilhjálm um málið í Síðdegisútvarpi Bylgjunnar á fimmtudag

Það gerði Bjarkey líka í Morgunvakt Ríkisútvarpsins klukkan hálfátta á föstudegi

Bjarkey sendi líka inn fyrirspurn á Illuga Gunnarsson um fjárhagsleg tengsl hans við Orku Energy. Spurningar hennar eru kristalskýrar og ættu að hjálpa ráðherranum að gera almennilega grein fyrir þessum tengslum. Vonast er til að hann svari Bjarkey ekki í Fréttablaðinu heldur í þingsal.

Steinunn Þóra fékk svör í vikunni við fyrirspurn sinni til félags og húsnæðismálaráðherra um endurgreiðslukröfurkröfur

Fæðingarorlofssjóð  og spurðist líka fyrir um aðgengisstefnu ríkisins að opinberum byggingum

Hún vippaði sér svo í Harmageddon á X-inu og lét þar gamminn geisa um að prestar hætti að fá leyfi til að gifta fólk og flutt til borgaralegra starfsmanna.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður, settist í fyrsta sinn á þing í vikunni í fjarveru Steingríms. Ingibjörg talaði m.a. um nauðsyn þess að jafna fluggjaldakostnað á landinu og kynjafræðslu á öllum skólastigum. Ingibjörg situr áfram á þinginu næstu viku.

Góða helgi !

Afturhaldið í áfengismálum

Alþingismenn sem ákafast berjast fyrir því að koma áfengi inn í almennar matvöruverslanir telja sumir hverjir að þeir séu eins konar kyndilberar framfara. Þetta er mikill misskilningur. Nánast alls staðar í heiminum eru heilbrigðisyfirvöld, forvarnar- og lýðheilsustofnanir og almannasamtök að vísa inn í framtíðina í gagnstæða átt. Öllum þessum aðilum ber saman um að það fyrirkomulag sem Íslendingar búa við sé heillavænlegt og líklegra til að skapa grundvöll að árangursríku forvarnarstarfi en frekari markaðsvæðing áfengis.

Hins vegar gera allir sér grein fyrir því að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi, sérstaklega fyrir stóru verslunarkeðjurnar, að komast yfir áfengissöluna. Bæði gefur hún möguleika á gróða og er auk þess talin geta örvað önnur viðskipti. Ömurlegt er til þess að hugsa að hópur alþingismanna skuli vera reiðubúinn að ganga erinda þessara hagsmuna og vinna þannig að því að við verðum skrúfuð í afturhaldsátt á þessu sviði.

Ljóst er að breytt sölufyrirkomulag myndi leiða til kostnaðarsamari dreifingar og þar með hærra vöruverðs og skal því hér haldið til haga að álagning ÁTVR er lág en ekki há. Hátt verð á áfengi er hins vegar vegna skattaálaga ríkisins, óháð söluaðila. Við afnám ÁTVR myndi og draga úr vöruúrvali, einkum í smáum verslunum á landsbyggðinni, en ÁTVR tryggir að lágmarki 150 til 190 tegundir á jafnvel smæstu sölustöðum.

Það er von að menn beini spurningum til flutningsmanna áfengisfrumvarpsins á þingi og vilji vita í þágu hverra þeir starfi þar sem þeir leggja til breytingar á kostnað heilbrigðissjónarmiða; breytingar sem hefðu í för með sér tap fyrir ríkissjóð og þar með skattgreiðendur þessa lands, minna úrval og hærra verð!

Og síðast en alls ekki síst, hvernig er hægt að réttlæta það að hunsa ráðleggingar og ákall nánast allra forvarnar- og ungmennasamtaka, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, Landlæknisembættisins að ógleymdri ríkisstjórn Íslands sem samþykkt hefur forvarnarstefnu sem hafnar markmiðum frumvarpsins?!

Aukið lýðræði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Tillögu til þingsályktunar um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna, sem Ögmundur Jónasson hefur lagt fram á Alþingi, fylgir áskorun alþjóðlegra samtaka þessa efnis. Ástæða þess að þingmenn, ýmis félagasamtök, fræðimenn og stjórnmálaleiðtogar víða um heim hafa léð þeim málstað fylgi sitt að stofna beri þing kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna er ofurvald stórveldanna sem deila þar og drottna eftir sínum hentugleikum.

Stjórnarhættir gerðir lýðræðislegri

Þetta skipulag, sem varð til og mótaðist í andrúmi nýafstaðinnar heimsstyrjaldar, endurspeglar að margra mati um of trú á hernaðarmátt og efnahagslega yfirburði. Röddum hinna fáu, stóru og sterku, er leyft að hljóma og yfirgnæfa raddir hinna mörgu smáu. Þing kjörinna fulltrúa yrði til þess að gera stjórnarhætti Sameinuðu þjóðanna lýðræðislegri og því fylgir ávallt, ef rétt er á málum haldið, að fleiri raddir heyrast, fleiri sjónarmið komast að og ákvarðanir og stefnumörkun miðast ekki einungis við hagsmuni hinna stóru og aflmiklu.

Betri eru biðlaun en starfslokasamningar

Verði frumvarp Ögmundar Jónassonar, þingmanns VG, um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að lögum mun réttur starfsmanna ríkisins til biðlauna verða endurvakinn en starfslokasamningar lagðir af.

Frá 1954 og fram til 1996 að núgildandi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 70/1996 tóku gildi nutu opinberir starfsmenn biðlaunaréttar við starfsmissi þegar störf voru lögð niður. Afnám þessara mikilvægu réttinda varð tilefni til harðra andmæla heildarsamtaka opinberra samtaka á sínum tíma og sú þróun sem orðið hefur frá 1996 sýnir að þau áttu fyllilega rétt á sér. Í stað lögbundins og vel skilgreinds biðlaunaréttar hafa verið teknir upp starfslokasamningar sem eru þeim annmörkum háðir að þar ræður geðþóttaákvörðun atvinnurekandans því í raun hver kjör starfsmannsins verða. Þetta losaralega fyrirkomulag á viðskilnaði starfsmanns við vinnustað sinn eykur líkur á misrétti og ójöfnuði. Gert er vel við suma starfsmenn en öðrum nánast vísað á dyr án nokkurrar aðstoðar við aðlögun að rýrari kjörum sem eru að jafnaði afleiðingar starfsmissis.

Fyrrnefnt frumvarp miðar að því að treysta og jafna rétt opinberra starfsmanna til sómasamlegra starfsloka og innleiða festu og jafnræði í meðferð slíkra mála í stað óvissu og mismununar sem nú ríkir.

Viðskiptaráð vill reyna aftur

Á tíunda áratug síðustu aldar og upphafsárum nýrrar aldar var Viðskiptaráð og forveri þess, Verslunarráðið, óhemju duglegt. Þetta var í aðdraganda hrunsins. Ætli nokkur stofnun, nema ef vera skyldi Samtök banka og fjármálafyrirtækja, hafi verið eins dugleg í baráttunni fyrir „einfaldara Íslandi“ einsog það hét þegar talað var fyrir afnámi alls þess sem þótti setja markaðsviðskiptum hömlur. Fluttir voru inn trúboðar sem kenndu aðferðafræði einkavæðingar og minnist ég sérstaklega dr. Pieris í því sambandi en hann setti ráðleggingar sínar einmitt fram að hætti trúboða. Verslunarráðið sló upp í málgagni sínu: 10 boðorð dr. Pieris!

Þá var hamast á því að „framleiðni“ væri ekki næg í opinbera geiranum, sem náttúrlega þýddi það eitt að fækka þyrfti þar fólki. Starfsfólki sjúkrahúsa, skóla, lögreglu og umönnunarstofnana kom þetta alltaf nokkuð spánskt fyrir sjónir þótt öllum bæri saman um að stöðugt ætti að reyna að finna nýjar leiðir til að hagnýta fjármagn sem best með nýrri tækni og markvissara vinnufyrirkomulagi.

Og svo var það sala eigna ríkis og sveitarfélaga. Hún skyldi sett í forgang! Þetta var framlag Verslunar-/Viðskiptaráðs í aðdraganda hrunsins.

Varnarorðum ekki sinnt

Ekki verður sagt að talað hafi verið fyrir daufum eyrum. Hafist var handa um lagabreytingar í framangreindum anda, reynt var að skerða réttindi opinberra starfsmanna þannig að kostnaðarminna yrði að reka þá og síðast en ekki síst var farið að selja/gefa ríkiseignir, banka og orkustofnanir því allt átti að verða betra á markaði en hjá hinu opinbera. Meira að segja varð það bannorð að ríki og sveitarfélög ættu húsnæðið undir starfsemi sína heldur bæri að selja það og leigja síðan af nýjum eigendum. Samkvæmt forskriftinni átti þetta að verða miklu betra.

Varnaðarorðum var engu sinnt. Ekki einu sinni að ríkið ætti í okkar agnarsmáa hagkerfi að hafa einn banka á sinni hendi til að tryggja nægilega kjölfestu í fjármálakerfinu.

Fróðlegt er að skoða afleiðingar þessarar stefnu. Nýlega fengum við fréttir af 28,5 milljarða gjaldþroti Geysi GreenEnergy orkufyrirtækisins, bankarnir urðu taumlausri græðgi eigenda og stjórnenda að bráð, Reykjanesbær sem lengst gekk í sölu eigna sinna varð nánast gjaldþrota, einkaframkvæmd reyndist skattborgurum dýrkeypt og engin deilir lengur um að mannfækkun á umönnunarstofnunum, „aukin framleiðni“ þar, hefur reynst dýrkeypt.

En nú stígur Viðskiptaráðið aftur fram eins og ekkert hafi í skorist með glænýrri áskorun en um leið svo gamalkunnri: Ríki og sveitarfélög eiga að selja eignir fyrir 800 milljarða, hefja á sölu Landsvirkjunar og Landsbankans, eina ríkisbankans, auka þarf framleiðni í umönnunargeiranum og hjá lögreglunni. Skyldum við eiga von á dr. Pieri með vorinu?