Posts

Ræða Katrínar á landsfundi

Hér má lesa ræðuna sen Katrín Jakobsdóttir flutti við setningu landsfundar 2015. Upptökur frá fundinum verða gerðar aðgengilegar á vg.is á næstu dögum

Kæru félagar.

Þegar ég var í Menntaskólanum við Sund lásum við Sölku Völku, eftir Halldór Kiljan Laxness. Hluti af vinnunni var hópverkefni um túlkun á bókinni. Þar sátum við nokkur í hóp, og ræddum um hvað þessi bók væri. Talið barst að stórkapítalistanum Jóhanni Bogesen. Ég var ekki í stjórnmálaflokki þá en vissi þó sitthvað um kerfislægt arðrán auðvaldisins á alþýðunni og lagði fram þá túlkun að Jóhann Bogesen væri tákngervingur þessa arðráns. Ein besta vinkona mín horfði á mig stórum augum og sagði: Hvað ertu að kvarta yfir Jóhanni Bogesen? Gaf hann ekki Sölku Völku kjól?

Með hjálp bókmennta og annars í umhverfinu rennur upp fyrir manni að kerfið getur verið ranglátt þó að fólk sé ekki vont. Að við getum fundið til samúðar gagnvart öðrum einstaklingi en samt viðhaldið ranglátu kerfi. Og að það er mikilvægt að við nýtum þessar tilfinningar til að breyta kerfinu – ekki til að horfa fram hjá eða viðhalda ranglátu kerfi, friðþægja eigin samvisku og gefa Sölku Völku kjól.

Um þetta snýst pólitík meðal annars. Það er vinsælt um þessar mundir að segja að pólitík sé þreytandi og leiðinleg. Jú, stundum er hún það vissulega en þarf hún það endilega? Ég var spurð í gær: Hefurðu enn gaman af þessu? Og svarið; jú pólitík eins og allt annað getur verið leiðinleg og skemmtileg en það skiptir einfaldlega ekki mestu máli. Pólitískt starf skiptir máli því við viljum flest bæta samfélagið þannig að það verði réttlátt samfélag fyrir alla, gott samfélag fyrir alla. Og það hlýtur þegar öllu er á botninn hvolft að fela einnig í sér skemmtilegheit.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum nýtt tímann frá síðasta landsfundi. Við höfum í senn verið öflug stjórnarandstaða og farið yfir okkar stefnu til að undirbúa okkur fyrir framhaldið. Það eru blikur á lofti í heiminum og því miður virðast vandamálin vera hin sömu og fyrr. Stóru viðfangsefnin snúast meðal annars um misskiptingu auðs og hnattræna hlýnun sem bitnar fyrst og fremst á fátækum löndum og fátæku fólki alls staðar, stríðsátök sem tengjast fyrst og fremst um yfirráðum yfir auðmagni, ójöfnuð af ýmsum toga bæði milli heimshluta og innan ríkja, undirokun kvenna víða um heim og rasisma og útlendingaandúð. .

Allt tengist þetta og verður drifkrafturinn í pólitískri hugsun okkar, þetta gerir það að verkum að við brennum áfram fyrir því að berjast fyrir réttlátu samfélagi. Þetta eru einmitt málin sem þessi hreyfing snýst um: Félagslegt réttlæti, umhverfisvernd, kvenfrelsi og friðarstefnu Allt er þetta samofið í einn vefnað félagshyggju, vinstristefnu.

Kæru félagar.

Margt stefnir í rétta átt á Íslandi. Það hefur verið efnahagslegur uppgangur, ekki síst vegna vaxtar í ferðaþjónustu, og smám saman þokast landið upp alþjóðlega lista yfir auðlegð þjóða. Þrátt fyrir þetta er margt sem vekur áhyggjur.Þróun búferlaflutninga virðist aftur orðin neikvæð. Við lesum viðtöl við ungt fólk sem flytur úr landi. Af hverju? Ýmsar ástæður er settar fram en margar snúast um kjör og lífsgæði. Hér er langur vinnudagur, lyf og læknisþjónusta kostar sitt, skólar og frístundir kosta sitt, það er erfitt að kaupa sér húsnæði og leigumarkaðurinn er erfiður. Grunnþjónustan er ekki gjaldfrjáls, húsnæðismarkaðurinn er ómögulegur og framtíðarsýnin er óljós. Það er vissulega ekki ókeypis að reka gott samfélag en það er ekki það sem fólki svíður, það sem fólki svíður er ranglæti og ójöfnuður í samfélaginu. Ungt fólk horfir upp á að opinber störf eru ekki auglýst, bankar selja sjálfum sér risavaxnar eignir án þess að þær séu auglýstar, sumir fá að kaupa hlutabréf í Símanum á betra gengi en aðrir. Þetta er ekki samfélag jafnræðis. Þetta er ekki samfélag gagnsæis. Og í ofanálag er litið á kjarabaráttu láglaunastétta sem sérstakt tilræði við ríkjandi ástand sem stjórnvöld kjósa að kalla stöðugleika en er í raun ekkert annað en varðstaða um ríkjandi ástand, um að hinir efnameiri eigi að spila á öðrum leikvelli en við hin. Við tölum um norrænt vinnumarkaðslíkan en lítið sem ekkert um norræna samfélagsgerð. Það virðist ekki henta þeim sem með völdin fara.

Þrátt fyrir að bæði fyrri ríkisstjórn og sú sem nú situr hafi gert sitt til að stuðla hér að efnahagslegum bata þá hefur núverandi ríkisstjórn í flestum sínum gerðum að forgangsraðað í þágu hinna ríku.

Það gerði hún með því að afnema auðlegðarskatt, lækka skatta á alla nema hina tekjulægstu og svo taka forkólfar ríkisstjórnarinnar upp orðaleppa Repúblíkanaflokksins bandaríska um að hinir tekjulágu borgi nú bara alls engan skatt því að þeirra skattttekjur renni allar í útsvar sveitarfélaganna.

Það gerði ríkisstjórnin með því að afnema orkuskatt og ívilna þannig alþjóðlegum stóriðjufyrirtækjum, lækka veiðigjöldin á stórútgerðina sem síðan hefur notað hvert tækifæri til að borga eigendum sínum ríkulegan arð, arðinn af auðlindinni sem fólkið í landinu á.

Það gerði ríkisstjórnin með því að veikja með markvissum hætti alla tekjur ríkisins, tekjur okkar, og skera fremur niður hjá hinu opinbera til að skerða almannaþjónustu, okkar þjónustu.

Það gerir ríkisstjórnin með því að eiga í leynilegum fríverslunarumræðum á alþjóðavettvangi en leyniskjöl sem þaðan hafa lekið út benda til þess að færa eigi meira vald frá almenningi yfir til auðmagnsins, gera stórfyrirtæki jafnrétthá lýðræðislegum stofnunum í almannaþágu.

Það gerir ríkisstjórnin þegar hún fárast yfir of miklu eftirliti og talar fyrir því að endurtaka afregluvæðingu fyrirhrunsáranna í viðskiptalífinu sem hún kallar einföldun.

Kæru félagar, efnahagsbatinn sem ríkisstjórninni er svo tíðrætt um skilar sér ekki með réttlátum hætti til allra. Með markvissum aðgerðum má tryggja að vöxturinn nýtist fyrst og fremst hinum ríku og svo má afsaka sig með brauðmolakenningunni um að velgengnin muni líka skila sér til hinna fátæku á endanum – hvenær sem hann nú kemur. En sú brauðmolakenning er í öndunarvél. Raunar er þegar búið að úrskurða hana látna af OECD og fleiri íhaldsstofnunum á sviði efnahagsmála en ríkisstjórn Íslands tók á móti henni, líklega eina pólitíska flóttamanninum, sem hún vill hleypa inn í landið, og notfærir sér hana til að rökstyðja stefnu sína – sem byggist fyrst og fremst á trúarsetningu en minna á skynsemi eða reynslu.

Ef við viljum að ungt fólk kjósi búsetu á Íslandi þá skiptir máli að samfélagið breytist til batnaðar. Og það skiptir ekki aðeins máli fyrir unga fólkið. Það skiptir máli fyrir mig, fyrir okkur öll. Jafnaðarsamfélög þessa heims eru almennt þau samfélög þar sem hagsæld er mest og farsæld borgaranna mest. Þar ríkir stöðugleiki sem snýst um að tryggja öllum mannsæmandi kjör og mannsæmandi líf. Líka öryrkjum og öldruðum sem enn einu sinni sitja eftir og geta með engu móti náð endum saman með þá framfærslu sem þeim er skömmtuð. Líka láglaunafólki sem hefur barist fyrir sjálfsögðum hækkunum lágmarkslauna og verið sakað um aðför að stöðugleikanum.

Við Vinstri græn viljum samfélag þar sem við öll, ung og gömul, getum lifað með reisn. Til þess að það gerist þarf að dreifa byrðunum með réttlátum hætti og það þarf að jafna kjörin. Það þarf að tryggja að arðurinn af auðlindunum renni til fólksins í landinu, hvort sem um er að ræða fiskinn í sjónum eða raforkuna okkar.

Þetta eru engin geimvísindi. Þetta er félagshyggja og það hefur aldrei verið meiri þörf fyrir hana en einmitt nú, á 21. öldinni, þegar reynslan sýnir að kapítalískt hagkerfi leysir ekki öll vandamál mannlegs lífs. Verkefnið, erindi okkar, er að byggja mannúðlegt samfélag, réttlátt samfélag, jafnaðarsamfélag, félagshyggjusamfélag.

Við þurfum lýðræðissamfélag, samfélag þar sem almenningur getur treyst því að sömu leikreglur gildi fyrir alla en ekki aðeins suma, þar sem upplýsingar eru aðgengilegar og leikreglur virka. Þar sem lýðræði snýst ekki einungis um að kjósa á fjögurra ára fresti og þess á milli geti meirihlutinn farið sínu fram. Þar sem almenningur hefur sjálfur skýrar leiðir til að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál eins og gert er ráð fyrir í tillögum starfandi stjórnarskrárnefndar sem byggja á fyrri tillögum, og þarf ekki að leggja fram bænaskjal til forseta Íslands til að fá það fram, þar sem hægt er að treysta því að stjórnsýslan virki. Þar sem við sitjum öll við sama borð.

Gagnsæi er lykilatriði þegar stórar ákvarðanir eru teknar sem varða almenning. Snemmsumars kynntu stjórnvöld hugmyndir um hvaða aðgerðir þyrfti til að hér væri hægt að aflétta gjaldeyrishöftum. Sú leið sem fékk mestan þunga í kynningu stjórnvalda var stöðugleikaskattur svokallaður og rímaði það raunar vel við það sem við Vinstri-græn sögðum fyrir síðustu kosningar. Einnig var kynnt, nánast í framhjáhlaupi, önnur leið, það er stöðugleikaframlög. Það er sú leið sem stjórnvöld virðast veðja á eftir viðræður við kröfuhafa sem stjórnvöld vilja samt ekki viðurkenna að hafi átt sér stað af ótta við að einhver rifji upp öll þeirra stóru orð um samtöl síðustu ríkisstjórnar við erlenda kröfuhafa.

Hálfpínlegur feluleikur hefur staðið yfir um þessar viðræður þar sem öll önnur orð eru notuð, ábendingar, athugasemdir og fleira, til að breiða yfir að einhverjir hafa talað saman einhvers staðar. Við greiddum götu þessara lagafrumvarpa en höfum gert þá skýlausu kröfu frá upphafi að verði farin leið nauðasamninga þurfi að ríkja um þá gagnsæi því hér eru miklir hagsmunir undir, þ.e, að losun þessara eigna úr hagkerfinu hafi ekki neikvæð áhrif á kjör og hagi almennings.

Skattlagningarleiðin er gagnsæ, hún er hrein og bein. Nauðasamningaleiðin kann að þjóna sömu markmiðum og skattlagningarleiðin en hún er ekki gagnsæ – og þar hafa stjórnvöld það í hendi sér hvernig samið er. Og því hlótum við að spyrja: Eru þessi viðmið fyrir stöðugleikaframlögin of lág til að uppfylla þau markmið að losun gjaldeyrishafta raski ekki högum almennings? Er verið að gefa of mikinn afslátt? Hefði ekki verið hreinlegra og gagnsærra að fara skattlagningarleiðina í stað þess að vera með þetta möndl sem ekki má kalla viðræður?

Verði þetta niðurstaðan hins vegar getur það skapað tækifæri til að stokka upp spilin í bankakerfinu. Aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Ákveða að ríkið eigi einn banka sem verði rekinn með öðrum hætti en sú bankastarfsemi sem við þekkjum hér á landi – með umhverfis- og samfélagssjónarmið að leiðarljósi eins og eru fordæmi fyrir annars staðar á Norðurlöndum. Hættan er að núverandi stjórnvöld muni ekki feta þá leið. Saga stjórnarflokkanna í einkavæðingu banka er harmleikur sem ég leyfi mér að segja að mjög fáir vilja endurtaka. Sporin hræða.

Kæru félagar.

Um daginn var einn sona minna að lesa bók eftir einn frumkvöðul íslenskra vinstrimanna, bókina Enn af Jóni Oddi og Jóni Bjarna eftir Guðrúnu Helgadóttur. Þar má finna söguna af því þegar söguhetjurnar heimsóttu leikfangabúðina ÆVINTÝRAHEIMUR BARNANNA þar sem letrað var á veggina GLEÐJIÐ BÖRNIN UM JÓLIN. Mamma Jóns Odds og Jóns Bjarna bað drengina að skoða sig um en þá lenda þeir í reiðum búðamanni:

Látiði allt vera, hrópaði hann. Hvað eruð þið að gera hér? Við erum bara að skoða, sagði Jón Bjarni og þrýsti hönd bróður síns fastar. Þið megið ekki vera einir hér, sagði kaupmaðurinn æstur. Ég vil enga krakka hér. Það er engin leið að hafa ykkur hér. Svo fer að búðarmaðurinn reynir að henda bræðrunum út og snýr upp á eyrað á Jóni Bjarna sem þrjóskast við og segir: Við förum ekki neitt. Þetta er búð fyrir börn.

Á endanum kemur mamma og bregst hin reiðasta við og segir búðamanninum til syndanna: Þér eruð dónalegur við börn eins og reyndar flestir aðrir. Þess vegna eru flest börn dónaleg. Þau læra það af fólki eins og yður. Þér skuluð hafa yðar ævintýraland í friði fyrir okkur. Það eina sem þér hugsið um er að græða á þessu rándýra drasli yðar. Strákarnir voru farnir að háskæla. Kaupmaðurinn baðaði út höndunum og mamma strunsaði út. Fólkið horfði á mömmu eins og hún væri karlinn í tunglinu. Eða eins og hún væri kommúnisti. Strákarnir höfðu svosem fengið að heyra það í skólanum að mamma þeirra væri kommúnisti. En strákunum fannst ótrúlegt að það gæti verið neitt ljótt, því að mamma var svo góð.

Núorðið eru fjölmiðlahetjur, ekki síst til hægri, farnir að tala mikið um hið svokallaða góða fólk. Þessu hugtaki virðist, meðal sumra, ætlað að gera lítið úr hugmyndum um félagslegan jöfnuð og réttlæti og þeim sem fyrir þeim vilja berjast. Þegar Íslendingar buðu sig unnvörpum fram til að taka á móti flóttafólki með alls kyns framlögum, íslenskukennslu, gistingu og svo mætti lengi telja mátti heyra umræðuna vakna um góða fólkið sem alltaf þættist vera siðferðilega betri en aðrir. En er þetta fólk að setja sig á háan hest eða er það einfaldlega að reyna taka þátt í mannúðlegu samfélagi, í mannúðlegum heimi? Á áttunda áratugnum mátti vera góður eins og sést á mömmu Jóns Odds og Jóns Bjarna. Mannúð er ekki meðvirkni eða upphafning á eigin gæsku. Mannúð snýst um að reyna að breyta rétt. Reyna að vera manneskja í hörðum heimi þar sem við sjáum drukknandi fólk á flótta og síðan er að kappkostað að segja okkur að ekkert sé hægt að gera.

Þegar við samþykkjum að verja tveimur milljörðum í að styðja við flóttamenn þá eigum við ekki að senda öðru fólki, öðrum fjölskyldum bréf og segja þeim að það sé ekki velkomið. Fjölskyldur sem hingað eru komnar og hafa fengið stuðning frá venjulegum Íslendingum. Sem vilja koma sér fyrir, vinna fyrir sér, verða hluti af samfélaginu. En þá fá þær bréf. Og þá erum við orðin eins og búðamaðurinn sem rak Jón Odd og Jón Bjarna út úr ævintýraheimi barnanna. Þá erum við ekki að breyta rétt.

Áskoranir dagsins eru stórar og miklar. Tugir milljóna manna streyma í okkar heimsálfu frá stríðshrjáðum svæðum. Ég ætla ekki að láta eins og úrlausnarefnið sé einfalt, það er það ekki. En reglurnar okkar eru mannanna verk. Og við verðum að hafa hugrekki til að breyta þessum reglum í samræmi við breyttan veruleika. Við erum aflögufær þjóð og við verðum að sýna það í verki. Ekki af því að við þykjumst vera góð heldur af því að það er rétt. Og við eigum ekki að láta óttann við hið ókunna stjórna okkur í þeim efnum. Og rétt eins og í Sölku Völku þá skiptir mestu að samfélagsgerðin sjálf byggist á réttlæti en ekki að mannúðin og góðmennskan séu einkamál einstaklinga.

Kæru félagar.

Flóttafólkið okkar sprettur ekki úr engu. Ástandið í miðausturlöndum hefur þróast með uggvænlegum hætti. Þar bera Vesturlönd ríka ábyrgð. Eða eigum við að rifja upp Afganistan 2001? Írak 2003? O.s.frv. o.s.frv? Hver hefur þróunin orðið í þessum ríkjum? Jú í stað lýðræðisins sem lofað var býr fólk við ógn og skelfingu endalausra stríðsátaka, innviðir þessara landa hafa verið hlutaðir upp, afhentir vestrænum alþjóðafyrirtækjum, réttindi fólks verið skert fremur en aukin og stöðugt stríðsástand ríkir. Það er ekki tími til að fara ítarlega yfir ástand alþjóðamála hér en við skulum ekki halda að staðan nú verði til í sögulegu tómi. Allt frá 19. öld hafa Vesturveldin reynt að tryggja stöðu sína og ítök á þessum slóðum. Aukin hernaðarhyggja og vígvæðing eru svo sannarlega ekki lausnin – lærdómur sögunnar ætti að vera sá að varast aukna vígvæðingu í stað þess að stofnanavæða hana í hernaðarbandalögum sem koma í veg fyrir allar umbætur.

Kæru félagar.

Við höfum í ár haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Ef það er eitthvað sem við konur höfum verið rækilega minntar á á þessu afmælisári er það að sú barátta var ekki sársaukalaus fremur en önnur barátta fyrir mannréttindum. Íhaldsöflin sem lögðust gegn því að konur fengju kosningarétt, rétt sem flestum þykir sjálfsagður nú, vildu ekki gefa eftir sín forréttindi því um það snýst baráttan. Um leið og vald kvenna jókst dró úr forréttindum þeirra sem réðu. Og slík barátta getur aldrei verið sársaukalaus, getur aldrei orðið samkvæmt dagskrá ráðamanna á hverjum tíma. Það sama á við um þær byltingar sem hafa orðið í átt til kvenfrelsis núna á þessu afmælisári; brjóstabyltinguna og svokallaða Beauty tips-byltingu, þar sem konur stigu fram og sögðu sögur sínar. Þær eru ekki samkvæmt dagskrá ráðandi afla en þær skipta máli því að með þeim taka konur í eigin hendur sína eigin sögu. Ég hlustaði á Guðrúnu Jónsdóttur, okkar góða félaga, í þættinum „Höfundar eigin lífs“, þar sem hún lýsti einmitt mikilvægi þess að konur sem hefðu orðið fyrir ofbeldi fengju að segja sögu sína og hvernig það breytti allri umræðu um þennan málaflokk. Og baráttan um hver segir söguna – hún er eilíf og hana heyja ungar konur samtímans. Fyrir það skulum við vera þakklát..

Kæru félagar.

Fyrir réttri viku sat ég í troðfullum sal og hlustaði á François Hollande, forseta Frakklands, tala um loftslagsmál. Hann talaði af innlifun um þetta stærsta viðfangsefni mannkyns um þessar mundir, maður fann það að hann leggur allt undir til að loftslagsráðstefnan í París beri árangur. Hollande var hér í boði forseta Íslands og flutti þessa ræðu á ráðstefnunni Arctic Circle. Og hann var ómyrkur í máli. Það breytir engu þó að einhverjir geti grætt á loftslagsbreytingum, grætt á því að nýta auðlindir Norðurskautsins, grætt á nýjum siglingaleiðum. Við eigum ekki að græða á því sem veldur eymd annarra, sem skaðar náttúruna. Um það snýst raunveruleg mannúð.

Það misskildi enginn François Hollande í Hörpu. Samt talaði hann frönsku. Orð hans þurftu engra útskýringa við. Og ég fylltist meira að segja bjartsýni. Sú aðferðafræði sem hefur verið beitt hefur ekki gefist sem skyldi. Reynt hefur verið að beita lögmálum markaðarins til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda, til dæmis með því að koma á viðskiptakerfi með losunarheimildir, og fara ýmsar hvataleiðir til að ná því markmiði að hlýnunin verði undir tveimur gráðum. En við þurfum að horfast í augu við að það þarf miklu róttækari aðgerðir og það þarf að hafa það leiðarljós sem Hollande setti fram: Það á enginn að hagnast á þessum skaða. Þetta verkefni snýst um mennskuna. Að tryggja mannúðlegan heim fyrir fólk um allan heim. Hvort sem það á heima hér á Íslandi eða á Tuvalu-eyjum. Þess vegna verður mannúðin að vera okkar leiðarljós í loftslagsbreytingum og við eigum að vera stolt af framlagi Íslendinga til þessa málaflokks, ekki með því að reyna að telja okkur sjálfum og öðrum trú um að hér sé allt best og horfast ekki í augu við þá stórfelldu aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda sem hér hefur orðið fyrst og fremst af völdum stóriðju. Heldur með því að raunverulega gera betur og vera stolt af því.

Þar getum við Íslendingar sett okkur framsækin markmið. Við höfum raunverulega möguleika á því að verða kolefnishlutlaust land. Við getum sagt: Olíuvinnsla er ekki valkostur miðað við stöðuna og við ætlum að hverfa frá henni. Við getum nýtt okkar endurnýjanlegu orku til að ráðast í orkuskipti í samgöngum, að rafvæðast að mestu eða öllu leyti. Og við getum sagt: Við ætlum að draga úr losun frá stóriðju óháð kvótakerfum með losunarheimildir. Okkar markmið á ekki að snúast um að nota okkur endurnýjanlegu orku til að knýja fleiri iðjuver heldur einmitt um orkuskipti, breytingar sem geta skipt máli fyrir heiminn þó að um litla þjóð sé að ræða. Og þetta á ekki aðeins að vera verkefni einstaklinganna eins og stundum er gefið í skyn. Stjórnvöld og samfélagið bera þessa ábyrgð og geta ekki vikist undan henni! Hins vegar getum við öll lagt okkar af mörkum í þessu risastóra verkefni.

Því að verkefnið er knýjandi. Og það snýst um börn okkar og barnabörn, hvernig við ætlum að búa að þeim, hvaða möguleika þau munu hafa til að byggja sér gott samfélag. Ábyrgð okkar er rík gagnvart komandi kynslóðum og í desember munu verða teknar örlagaríkar ákvarðanir fyrir okkur sem nú lifum en fyrst og fremst fyrir þau sem á eftir koma. Ég vona kæru félagar að þar verði það mannúðin sem ráði för en ekki sérhagsmunir eða gróðavon.

Góðir félagar. Ef það er eitthvað sem ég hef sannfærst um undanfarin tvö og hálft ár, þá er það að þessi hreyfing á sér skýran kjarna. Við eigum hann saman og þá skiptir ekki öllu máli hver talar hverju sinni. Þessi kjarni er ástæðan fyrir því að við erum hér og að við ætlum að nýta þessa daga til að stilla saman stengi, skerpa á okkar stefnu og vinna saman að tryggja réttlátt samfélag fyrir okkur öll. Það er okkar kjarni, okkar brýna erindi.

Aldrei aftur Hiroshima, aldrei aftur Nagasaki

Hér er ræða Steinunnar Þóru, þingmanns Vinstri grænna, sem flutt var við kertafleytingu SHA 6. ágúst 2015.

Ágæta samkoma,

Í kvöld fleytum við kertum hér á Reykjavíkurtjörn til að minnast þeirra sem létu lífið eða örkumluðust 6. og 9. ágúst 1945, þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum yfir Japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki.

Yfir 200 þúsund óbreyttir borgarar létu lífið í þessum árásunum. Tugir þúsunda strax við sprengingarnar, aðrir dagana og vikurnar á eftir. Að auki hefur fjöldi fólks í áranna rás misst heilsuna eða látist úr sjúkdómum eins og krabbameini, geislaveiki eða genagöllum sem má rekja beint til sprengjanna – og fólk er enn að deyja – eins og við vorum svo átakanlega minnt á í sjónvarpsfréttum í vikunni.

Þó svo að við minnumst þess nú í kvöld að 70 ár eru liðin frá þessum voðaverkum og fögnum því auðvitað að kjarnorkuvopnum hafi ekki aftur verið beitt í hernaði, fer því fjarri að kjarnorkuógnin sé úr sögunni.

Vissulega var jákvæður og sögulegur samningur gerður við Írani fyrir aðeins nokkrum vikum um að Íran muni ekki þróa kjarnorku til nota í hernaðarlegum tilgangi. Því ber að fagna.

Og sem betur fer hafa lang flestar þjóðir heimsins engin áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Þannig hafa 113 ríki hvatt til þess á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að kjarnorkuvopn verði bönnuð og þeim eytt. Því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki kosið að skipa sér í þann hóp.

Í dag eru ríkin sem búa yfir kjarnorkusprengjum 9 og áætlað að sprengjurnar séu 16 þúsund talsins. Það eru vissulega færri sprengjur en þegar verst lét á tímum kalda stríðsins – en er eftir sem áður miklu meira en nægjanlegt til að eyða öllu lífi á jörðinni mörgum sinnum. Obbann af þessum sprengjum eiga Rússar og Bandaríkjamenn.

Vandinn er hinsvegar sá að í stað þess að keppast um að eiga sem flestar kjarnorkusprengjur gengur kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup samtímans út á það að eiga bestu kjarnorkusprengjurnar.

Þess vegna hafa annarsvegar verið þróaðar sprengjur sem eru mörgum sinnum öflugri en þær sem varpað var yfir Hiroshima og Nagasaki. Í nýlegri skýrslu alþjóðlega Rauða krossins var bent á það að ef slík sprengja væri sprengd yrðu afleiðingarnar ekkert í líkingu við þær sem urðu fyrir 70 árum – heldur margfallt meiri og verri.

Hinsvegar er verið að búa til svokölluð strategísk kjarnorkuvopn – sem herstjórnendur telja að hægt verði að nota með staðbundnari eyðileggingarmætti, þar sem geislavirkni komi einungis til með að ná til takmarkaðs svæðis.

– Og það er nákvæmlega þar sem ein helsta kjarnorkuvá samtímans liggur. Í því að stjórnmálamenn og herstjórnendur telji í lagi að beita þesskonar kjarnorkuvopnum – því skaðinn verði einungis staðbundinn.

Sjálfsblekkingin verður varla meiri eða hættulegri.

Og raunar er þessi skelfilega vegferð þegar hafin, þar sem geislavirk efni eru notuð í vopn til að auka eyðileggingarmáttinn. Sprengjur með auðguðu úrani hafa nefnilega verið notaðar í mörgum af styrjöldum liðinna ára, þar á meðal í Írak. Heilbrigðisstarfsmenn hafa bent á hörmulegar afleiðingar þessara vopna og sýnt fram á hvernig tíðni alvarlegra fæðingargalla og fósturskemmda er margfaldur á þeim svæðum þar sem þau hafa verið notuð. Geislavirkni er því bætt ofan á þær hörmunar sem stríð leiða yfir almenna borgara.

Við Íslendingar státum okkur oft af því að vera herlaus þjóð. Til að geta hinsvegar staðið undir nafni sem raunveruleg friðelskandi þjóð verðum við að krefjast þess af ráðamönnum okkar að þeir tali máli friðar og afvopnunar á meðal þjóða heimsins. Og þá ekki hvað síst kjarnorkuafvopnunar.

Raunin er hins vegar sú að Íslendingar eru aðilar að hernaðarbandalagi sem byggir tilveru sína að miklu leyti á kjarnorkuvopnum. Kjarnorkuvígbúnaður er hornsteinn í stefnu NATÓ og bandalagið áskilur sér rétt til notkunar kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Það er vegna aðildarinnar að Nató sem Ísland hefur ítrekað setið hjá eða greitt atkvæði gegn tillögum sem miða að útrýmingu kjarnorkuvopna. Við erum hluti af vandanum en ekki lausninni.

Við verðum að víkja af þessari braut. Við verðum að hafna kjarnorkubandalögum, hvaða nafni sem þau nefnast. Og við verðum að krefjast þess að öll þau ríki sem hafi yfir þessum vítisvélum að ráða hætti tafarlaust þróun og framleiðslu þessara vopna og eyði þeim sem fyrir eru. Við verðum að berjast fyrir stofnun og stækkun kjarnorkuvopnalausra svæða og að þeir afvopnunarsáttmálar sem þegar eru við lýði sé virtir.

Aðeins þannig getum við tryggt að það verði aldrei aftur annað Hiroshima. Að það verði aldrei aftur annað Nagasaki. Að kjarnorkuvopnum verði aldrei aftur beitt.

Takk fyrir mig.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi

Kæru félagar!

Ég mun ekki lengja mál mitt í dag enda dagskráin þétt. Mig langar þó að deila með ykkur nokkrum hugsunum um orð og mikilvægi þeirra.

Þegar ég var kjörin varaformaður þessarar hreyfingar árið 2003 sagði ég aðspurð að mig langaði mest til að breyta orðræðunni og vafalaust kímdu einhverjir yfir þessari stelpu sem talaði um orð á meðan karlar í krapinu ætluðu að reisa hér verksmiðjur. Ég er enn á því að það sé fátt mikilvægara en að einmitt þetta. Meðal þeirra áskorana sem við, Vinstri-græn, þurftum að takast á við þá var að teljast vera „fúl á móti“-flokkurinn, nánast á móti öllu sem þá var ofarlega á baugi: nánast þráhyggjukenndri markaðsvæðingu allra hluta og algjöru skeytingarleysi um umhverfismál. Önnur áskorun var að við værum „ekki stjórntæk“ eins og það var kallað því að við féllumst ekki á allar forsendur nútímalegs markaðssamfélags og því myndum líklega setja allt á hausinn um leið og við kæmum nærri stjórn samfélagsins.

Báðir þessir frasar (fúl á móti og ekki stjórntæk) þóttu mér ósanngjarnir. Við höfðum gert ýmislegt til að sporna gegn á móti-stimplinum, meðal annas hannað heila auglýsingaherferð sem hét MEÐ alls konar góðum málum; MEÐ náttúruvernd, friði og velferð. Og það er mín trú að þessi barátta við orðin hafi hægt og bítandi skilað sér með þeim árangri að í kosningum 2007 uppskárum við rúm 14% úr kjörkössunum sem fyrir litlum átta árum þótti mjög mikið fylgi fyrir róttækan vinstriflokk.

Hvað varðar það að vera stjórntæk þá skipti nú kannski mestu að við fengum að spreyta okkur á því vandasama verkefni að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi og reyna á flokkinn undir erfiðum kringumstæðum sem var bæði lærdómsríkt en líka skilaði það miklum árangri. Og það var nú raunar vegna þess að aðrir flokkar höfðu sett allt á hausinn fyrst.

En baráttan hættir aldrei þó að viðfangsefnin breytist. Nú þegar við Vinstri-græn erum orðin stjórntæk erum við líka orðin hluti af kerfinu í hugum margra og margir þeirra sem vilja kjósa gegn kerfinu líta ekki lengur á okkur sem valkost.

Annar frasi sem ég veit að mörgum þykir erfiður er að þrátt fyrir óteljandi mál, frumvörp, tillögur og fyrirspurnir á þingi, þrátt fyrir öflugan málflutning og andstöðu við mál sem við teljum ganga gegn jöfnuði, sjálfbærni, kvenfrelsi, friði og öðrum af okkar grunngildum, þá klifa álitsgjafar á því að stjórnarandstaðan sé ekki nægjanlega öflug eða ekki nægilega sýnileg. Því er til að svara að í fyrsta lagi þá erum við í stjórnmálum til að berjast fyrir okkar hugsjón en ekki aðeins til að vera í andstöðu. Í öðru lagi ákváðum við, þingmenn Vinstri-grænna, að við hefðum engan áhuga á að líkjast þeirri ómálefnalegu stjórnarandstöðu sem fulltrúar núverandi stjórnarflokka héldu uppi á síðasta kjörtímabili og litar raunar enn þeirra málflutning svo mjög að stundum held ég að forsætisráðherra sé enn í stjórnarandstöðu við Steingrím og Jóhönnu og gleymi stundum að hann er kominn í aðra vinnu. Og við lítum á það sem okkar hlutskipti, ásamt hinum flokkunum í minnihlutanum, að breyta umræðunni aftur til batnaðar og tileinka okkur ekki fúkyrðaflauminn. Enda ætlum við okkur ekki hlutskipti stjórnarandstöðu til langframa! Það er gott að vera sýnilegur en okkur þarf samt ekki að langa til að vera sýnileg á svipuðum forsendum og þáverandi stjórnarandstaða var á seinasta kjörtímabili.

Enn eru það átök um orð og hugtök.

Mig langar sérstaklega að nefna nokkur orð sem er mikilvægt að við Vinstri-græn tökum upp á okkar arma og hafa of lengi verið í gíslingu hægri-aflanna. Góðir félagar, við þurfum að fóstra þessi orð og setja þau í okkar verkfærakistu.

Svo ég nefni nokkur þessara orða: frelsi – stöðugleiki – öryggi.

Frelsi einstaklingsins hefur lengi verið frasi í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem líka talaði um stétt með stétt og ætlaði að vinna fyrir háa jafnt sem lága. Flokknum tókst svo vel að eigna sér þetta orð í pólitískri umræðu á Íslandi að margar aðrar stjórnmálahreyfingar veigruðu sér við að tala um frelsi, rétt eins og það væri einkamál Sjálfstæðisflokksins. En það er ekki svo.

Frelsi Sjálfstæðisflokksins hefur þróast út í að vera aðeins frelsi hinna fáu efnamiklu til að maka krókinn, iðulega með sérstakri ríkisaðstoð á kostnað frelsis fjöldans.

Hvað verður þá um frelsið til að sækja sér menntun og heilbrigðisþjónustu við hæfi eða frelsi fólks er að búa í samfélagi þar sem dagvinnulaun duga fyrir mannsæmandi lífi? Þegar skorið er niður þannig að þjónusta hins opinbera við almenning rýrnar, aðgangur 25 ára og eldri er takmarkaður að framhaldsskólamenntun, gjöld fyrir læknisþjónustu eru hækkuð, fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun eru skornar niður þannig að framtíðartækifærum á landinu okkar fækkar, þá er verið að skerða frelsi fólks. Frelsi fólks til að lifa góðu lífi..

Og kjörin eru það sem brennur á okkur í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði um þessar mundir. Á vef Hagstofunnar má finna upplýsingar um hlutfall þeirra sem teljast undir lágtekjumörkum. Nýjustu tölur, sem eru frá 2013, sýna að lágtekjumörk fyrir einstakling eru kr. 170.600 og fyrir fjölskyldu tveggja fullorðinna með tvö börn kr. 358.400. Samkvæmt félagsvísum Velferðarvaktarinnar voru 9,3% landsmanna undir lágtekjumörkum árið 2013. Einhleypir einstaklingar eru stærsti hópurinn undir lágtekjumörkum á síðustu 10 árum en árið 2013 voru þeir 32,1% hópsins. Næst stærsti hópurinn sem er undir lágtekjumörkum á sama tímabili eru einstæðir foreldrar, sem eru 27,1% hópsins. Félagsvísar mæla einnig ójöfnuð í samfélaginu samkvæmt hinum svokallaða Gini stuðli. Samkvæmt honum er ójöfnuður minni nú en fyrir efnahagshrunið. Ójöfnuður mældist mestur árið 2008 (skömmu fyrir hrun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið í stjórn í 17 ár) og var þá 29,61 en hefur verið í kringum 24–26 frá þeim tíma. Hann mældist 24,0 árið 2013.

Þegar við hugsum um frelsi þá eigum við að hugsa um frelsi launamannsins til að geta átt nóg í matinn og til að leita hamingjunnar og njóta lífsins. Það má minna á að rétturinn til að leita hamingjunnar er nefndur í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna – ég sæi í anda þá sem mestu hafa ráðið um örlög íslensku stjórnarskrárinnar ef þetta rataði þar inn!

En ævinlega þegar lágtekjuhópar krefjast bættra kjara birtist annað orð: Stöðugleiki. Honum er ógnað í hvert sinn sem skúringafólk vill kjarabætur. En um hvað snýst þessi stöðugleiki?
Er það sá stöðugleiki að þeir sem eigi mest haldi áfram að eiga meir og meir? Því þannig er staðan á Íslandi að ríkustu 10% eiga 70% alls auðs. Verra er það víða annars staðar en ekki er þetta samt viðunandi. En kannski snýst skattastefna núverandi stjórnvalda einmitt um að halda þessu ástandi stöðugu því ekki leiða þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í til aukins jafnaðar. Lækkun veiðigjalda, afnám auðlegðarskatts, hækkun matarskatts og nú síðast talar fjármálaráðherra um að hverfa frá hinu þrepaskipta skattkerfi í áföngum. Allar stuðla þessar breytingar að aukinni misskiptingu. Þetta er ekki stöðugleiki sem nýtist hinum kúguðu og undirokuðu. Engin þessara nýlegu breytinga bætir kjör lægst launuðu hópanna. Engin þeirra stuðlar að minni fátækt í samfélaginu. Og engin þeirra eykur öryggi okkar.
Sem er enn eitt orðið sem hægrimenn hafa gert að sínu og láta eins og snúist um að lögreglan eigi nógu margar byssur til að geta brugðist við því ef það verður „attack“ eins og einn þingmaður kallar það. Sú hugmynd að öryggi verði varðveitt best með sem flestum sprengjum setti sannarlega svip sinn á 20. öldina og ekki síður þá 21. Og ekki jók hún nú öryggið í heiminum eins og allir muna sem lifðu Kúbudeiluna og enn má sjá á ástandinu í Mið-Austurlöndum. Hér er á ferð orð sem hefur verið afskræmt og snúið í andstæðu sína. Og er ekki kominn tími til að orðinu verði aftur ljáð skynsamleg merking? Þegar rýnt er í hugmyndina um öryggi þá hlýtur niðurstaðan að verða sú að það snúist miklu frekar um það að við byggjum upp gott samfélag, friðsamt jafnaðarsamfélag, þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi, með aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, og öðrum mikilvægum þáttum fyrir lífshamingju okkar, eða þak yfir höfuðið sem er það sem unga kynslóðin núna sér ekki fram á – öryggi hefur ekkert með skotvopn eða forvirkar rannsóknarheimildir að gera, og við höfnum slíkri hugmyndafræði.

Kæru félagar,
ég get að lokum ekki látið hjá líða að nefna hér rammaáætlun. Þar koma fleiri orð við sögu en kannski er rétt að nefna bara tvö: Hjól atvinnulífsins. Því er gjarnan haldið fram af sjálfskipuðum vinum atvinnulífsins að nú þurfi að virkja og virkja og virkja til að knýja hjól atvinnulífsins. Ekki veit ég hvernig nákvæmlega þessir virkjanavinir geta skýrt þá staðreynd að atvinnuleysi minnkaði jafnt og þétt í tíð síðustu ríkisstjórnar án þess að sú sæi ástæðu til að ganga fram hjá lögbundnu og faglegu ferli rammaáætlunar eða velja eftir eigin geðþótta virkjanakosti sem eftir er að fjalla um og skella þeim í nýtingarflokk án þess að hafa fyrir þvi nein rök önnur en hin margfrægu hjól atvinnulífsins. Þetta eru réttnefndar stórkalla-lausnir sem einkenndu atvinnustefnuna fyrir hrun og skildu samfélagið eftir í sárum, í raun og veru eins langt frá einstaklingsframtaki (svo að ég nefni enn eitt orðið sem engin ástæða er að leyfa öðrum að eigna sér) og hugsast getur á sama tíma og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki fá ekki áheyrn stjórnvalda og flýja land.
Umhverfismálin verða ekki rædd án þess að við ræðum atvinnumálin; við stóðum fyrir fjárfestingu í rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, fjárfestingu sem snýst um að leyfa einstaklingsframtakinu að njóta sín, og þær greinar sköpuðu um leið verðmæti. Fjölbreytni í atvinnulífi þar sem ekki er gengið um of á auðlindir landsins er okkar markmið, ekki þráhyggjukennd trú á stóriðju og virkjanir sem þolir engar mótbárur og enga skoðun þannig að til að þjóna þessari köllun þurfa menn að ganga framhjá öllum faglegum ferlum. Eru þetta ekki hinar einu raunverulegu öfgar í íslenskum stjórnmálum? Og ekki aðeins er slíka trúboða að finna í hópi stjórnmálamanna sem vilja komast sveigja og beygja lög um rammaáætlun því eins og kunnugt er hefur Orkustofnun nú skotið upp kolli með hina sakleysislegu Kjalölduveitu – sem reynist svo vera Norðlingaölduveita með nýju nafni! Mikið hefur þeim fundist þeir vera snjallir þegar þeir fundu upp á þessum glænýja merkimiða.

En kæru félagar…
Orð geta verið kúgunartæki eða öflugt vopn í baráttu fyrir friði, frelsi og jöfnuði. Við þurfum að hafa sjálfstraust andspænis orðunum sem spunameistarar vilja gjarnan nota til að berja á andstæðingum sínum. Frelsi, öryggi og stöðugleiki eiga að vera á okkar stefnuskrá en á okkar forsendum, frelsi almennings, öryggi almennings og stöðugleiki í þágu almennings en ekki aðeins hinna auðugu eða forréttindahópanna.

Ræða varaformanns á flokksráðsfundi

Minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, sem mynduð var í ársbyrjun 2009, var varin vantrausti af framsóknarflokknum eins og allir muna. Framsóknarmenn höfðu þá nýlega valið nýjan formann eftir  nokkuð ör formannsskipti árin þar á undan. Nýi formaðurinn, sem þá sat utan þings og var ungur nýliði í stjórnmálum, virtist bæði kraftmikill og áhugasamur og tilbúinn verka. Verkefnin á þessum tíma voru ærin eins og flestir muna og auðvelt að finna kröftum ungra eldhuga farveg ef því var að skipta.

Formanninum unga og framsóknarflokknum stóð þá til boða bein og/eða óbein aðild að minnihlutastjórninni og þar með að leggjast á árarnar í þeim lífróðri sem róinn var fyrir íslenskt samfélag á þessum tíma.

En hann baðst undan því. Hann vildi ekki að framsóknarflokkurinn kæmi að þeim ákvörðunum sem þurfti að taka í kjölfar Hrunsins. Hann baðst svo sjálfur að lokum undan því að vera upplýstur um gang einstakra mála eins og hann gerði þó kröfu um í fyrstu. Hann virtist, ólíkt mörgum öðrum, gera sér þá grein fyrir  hversu erfiðleikarnir voru miklir og hvað lítið það yrði til vinsælda vaxið að takast á við þá. Því bakkaði hann út og leitaði skjóls.

Í stuttu máli baðst hann undan ábyrgð og hrökklaðist undan þegar honum stóð til boða að láta á sjálfan sig og framsóknarflokkinn reyna.

Það má fullyrða að fá dæmi eru ef nokkur um jafn óábyrga afstöðu stjórnmálamanns og í þessu tilfelli. Í þeirri stöðu sem Ísland og íslenskt samfélag var í ársbyrjun 2009 verður það að teljast meiriháttar pólitískur ræfilsskapur að skjóta sér undan ábyrgð með þeim hætti sem formaður framsóknarflokksins gerði í ársbyrjun 2009.

Nú situr framsóknarformaðurinn ungi í forsætisráðuneytinu sem leiðtogi í ríkisstjórn hægriflokkanna tveggja ef hægt er að tala um tvo flokka í þessu sambandi, svo líkir sem þeir eru að innræti.

Helstu verkefni og markmið ríkisstjórnar framsóknarflokksins eru að afmá öll þau spor sem vinstristjórnin setti á íslenskt samfélag kjörtímabilið eftir Hrun.

Það sjáum við í minnkandi vægi umhverfismála, breytingum á skattkerfinu, niðurskurði í velferðarmálum og almennu viðhorfi til samborgaranna, sérstaklega þó opinberra starfsmanna. Þar hafa framsóknarmenn gengið lengra en sjálfstæðismenn hafi látið sig dreyma um, jafnvel í sínum villtustu draumum. Hafi þó báðir flokkar jafna skömm fyrir.

Ríkisstjórn hægriflokkanna undir forystu framsóknarflokksins er mögulega versta ríkisstjórn sem setið hefur á Íslandi. Ríkisstjórnin og þinglið hennar hefur notfært sér erfiða fjárhagsstöðu ríkisins til að keyra harðlínustefnu í efnahagsmálum og velferðar- og menntamálum. Í skjóli erfiðleikanna hafa stjórnvöld skorið niður langt umfram þörf til samneyslunnar á sama tíma og tekjum frá efnameiri einstaklingum, auðmönnum og fyrirtækjum er hafnað. Samanlagt munu skattbreytingar ríkisstjórnarflokkanna leiða til tekjutaps ríkissjóðs upp á um 100 mia.kr. á kjórtímabilinu, hið minnsta.

Á sama tíma á að greiða úr ríkissjóði um tugi milljarða króna inn á verðtryggð útlán fjármálastofnana í gegnum sk. leiðréttingu. Þannig munu fjármálastofnanir fá allt sitt greitt upp í topp, vexti, dráttarvexti, vanskil og söfnunarreikinga úr ríkissjóði á meðan blóðugum niðurskurði er beitt í velferðar -og menntamálum. Fjármálastofnanir fá jafnvel í gegnum þessa stóru millifærslu greidd útlán sem þau höfðu áður fallist á að afskrifa, beint úr ríkissjóði. Enda mala þessir aðilar við fætur húsbænda sinna, saddir og sælir.

Áhrif efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafa heldur ekki látið á sér standa. Einkaneysla eykst langt umfram spár og verðmæti útflutnings stendur ekki undir innflutningi. Við vitum öll að það er ekki verst setti hópur samfélagsins sem eykur neyslu sína nú eða gengur á gjaldeyrisforða landsins. Það er annar hópur. Það er markhópur hægristjórnarinnar, hópurinn sem fær stærsta hluta millifærslunnar úr ríkissjóði og mest þó þeir sem tróna á toppi tekju- og eignalistans, þeir sem fá auðlegðarskattinn felldan niður upp á marga milljarða króna.

Á sama tíma á svo að hækka matarreikninginn hjá almenningi ásamt öðru sem fólk þarf til að geta átt eðlilegt líf.

Allar aðgerðir ríkisstjórnar framsóknar og sjálfstæðisflokks miða því fyrst og síðast að því að auka velsæld þeirra sem best standa.

Það eina sem almenningi er ætlað, fjölskyldunum í landinu, eru mótvægisaðgerðir, t.d. með því að lækka gjöld af sjónvörpum, ísskápum og Lexusum.

Reyndar er það merkilegt hvað mikið af aðgerðum ríkisstjórnarinnar kallar á miklar og stundum nær óskiljanlegar mótvægisaðgerðir. Það er eins og allt sem þau geri hafi svo neikvæð áhrif að það þurfi mótefni við því rétt eins og um einhvers konar sjálfsofnæmi sé að ræða.

Auðvitað á þessi ríkisstjórn að fara frá. Hún er rúin öllu trausti. Allar hennar aðgerðir eru dæmdar til að mistakast og fá háðulega og vonda útreið svo til allra umsagnaraðila, almennings og fjölmiðla – utan Morgunblaðsins að sjálfsögðu.

En hefur þá allt verið unnið fyrir gýg? Hefur þeim þá tekist að gera að engu það sem áður hafði áunnist? Auðvitað ekki.

Það góða er að nú hafa verið dregnar skýrari línur á milli vinstri og hægri í íslenskum stjórnmálum. Kjósendum hefur verið boðið upp á val um leiðir.

Það  vekur einnig athygli að allt það versta sem hægriflokkarnir hafa séð í verkum vinstristjórnarinnar er meira og minna verkefni og áherslur okkar Vinstri grænna.

Í því sambandi nægir að benda á umhverfismálin sem í dag snúast nær eingöngu um að afturkalla allt það sem við stóðum fyrir. Skattamálin, sem ég hef áður nefnt, og síðast en ekki síst menntamál sem eru komin í algjört uppnám.

Glórulausar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um styttingu náms á framhaldsskólastigi og takmörkun á aðgengi að námi er mesta aðför sem gerð hefur verið að skólakerfinu á Íslandi. Í einu vetfangi  á að fækka nemendum á framhaldsskólastigi um fjórðung og takmarka aðgang annarra að námi. Þetta mun ekki gerast án pólitískra átaka enda um gríðarlega samfélagslega breytingu að ræða langt inn í framtíðina.

Ég vakti athygli á því í umræðum um frumvarp til laga um opinber fjármál sem unnið var á síðasta kjörtímabili og núverandi fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi að þar er áfram gert ráð fyrir því að innleiða kynjaða hagstjórn við fjárlagagerðina. Það er verkefni sem við lögðum upp með fyrir fimm árum og hefur vaxið með hverju árinu. Það er rétt að hrósa fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins fyrir að halda áfram með þetta verkefni, enda er árangurinn af því farinn að koma í ljós, þó margir hafi orðið til þess að hæðast að þessu í upphafi.

Enda verður nú að segjast eins og er að það er þó þrátt fyrir allt af og til hægt að halda uppi málefnalegri rökræðu við formann sjálfstæðiflokksins á meðan það virðist ekki vera nokkur lífsins vegur við aðra.

Þessi mikla sveifla á milli þess sem við í vinstristjórninni lögðum áherslu á og þess sem hægrimenn keyra nú áfram, á að gefa okkur vígstöðu til að takast á við hægri öflin um leiðir og sömuleiðis færi á að rökræða við kjósendur, almenning í landinu, um hvers konar samfélagsgerð við viljum skapa.

Hulda Þórsisdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum, flutti athyglisvert erindi um vinstri og hægri stjórnmál á flokksráðsfundi okkar sl. sumar. Erindi hennar byggðist á íslenskri kosningarannsókn um afstöðu kjósenda til flokka og flokkanna til þeirra sjálfra, ef svo má segja.

Í stórum dráttum var niðurstaða þessarar rannsóknar sú að átakalínur vinstri og hægri í íslenskum stjórnmálum hverfast um umhverfismál, einkarekstur og efnahagslegan jöfnuð. Það var í því síðastnefnda, þ.e. efnahagslegum jöfnuði sem Vinstri græn skoruðu hæst allra flokka og sjálfstæðisflokkurinn naut minnst trausts. Þetta kom mörgum á óvart en má að mínu mati að stórum hluta rekja til árangurs sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili þar sem við gegndum lykilhlutverki. Þrátt fyrir erfiðleika og lífskjaraskerðingu í kjölfar Hrunsins áttuðu flestir sig á því að aðgerðir okkar voru til þess ætlaðar að auka jöfnuð og færa þyngri byrðar á herðar þeirra sem gátu borið þær af hinum sem veikari voru.

Það vakti marga einnig til umhugsunar að samkvæmt þessari sömu rannsókn höfðu Vinstri græn tapað stöðu sinni í umhverfismálum yfir til Bjartrar framtíðar sem þó hefur ekki verið sérstaklega áberandi í þeim málaflokki á stuttum líftíma sínum heldur siglt lygnan sjó.

Ég nefni þetta tvennt hér úr erindi Huldu sem dæmi um að skilin á milli vinstri og hægri eru enn skýr þótt margir vilji halda öðru fram en einnig að trúverðugleiki flokka í einstökum málum getur sveiflast til eftir því hvernig á málum er haldið. Skiljanlega.

Ég er þeirrar skoðunar að við í Vinstri grænum verðum stöðugt að leita nýrra leiða við að hafa áhrif á samfélagið og jafnvel að breyta um áherslur varðandi afstöðu okkar til einstakra mála í þeim tilgangi að hafa áhrif. Þá er ég ekki endilega að tala um pólitíska afstöðu, enda höfum við haft góðan málstað fram að færa, heldur varðandi aðferðafræði við að vinna málum okkar fylgis.

Það er stundum sagt að við vinstrimenn séum prinsippfastari en fólk á hinum væng stjórnmálanna. Því lendum við oft í því að einstök afmörkuð mál, stór sem smá, yfirtaka önnur og skyggja á heildarmyndina. Það má vel vera eitthvað til í því. Við höfum tekist á um nokkur slík mál á síðustu árum og varpað með því skugga á heildarmyndina, stóru myndina um samfélagsgerðina sem við viljum öll á endanum ná fram. Við höfum einnig átt í erfiðleikum með að koma málum okkar á framfæri, tengja þau saman í eina órofa heild –þó færi til þess séu svo sannarlega fyrir hendi eins og fram kom hjá Huldu Þórisdóttur.

Þetta þurfum við að taka til skoðunar.

Á morgun verður haldið málþing um olíuleit og vinnslu í lögsögu Íslands. Vinstri græn tóku ríkan þátt í mótun leikreglna og samningagerðar um olíuleit á sk. Drekasvæði sem aðili að ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Með því náðum við að setja mark okkar á þá undirbúningsvinnu sem annars hefði kannski ekki orðið. Með sama hætti var undir okkar forystu í ríkisstjórn gert samkomulag um byggingu iðjuvers við Húsavík þar sem horfið var frá stefnu fyrri stjórnvalda um byggingu risaálvers með óheyrilegum kostnaði fyrir ríkissjóð í formi ríkisframlaga og lágs orkuverðs.

Í báðum þessum tilfellum er í grunninn um að ræða mál sem hafa mætt talsverðri andstöðu innan flokksins á liðnum árum, annars vegar olíuleit og hins vegar bygging iðjuvera.

Hér verðum við, eins og í öllum öðrum málum, annars vegar að móta afstöfðu okkar og stefnu og hins vegar hvernig við getum haft sem mest áhrif á framgang mála og endanlega niðurstöðu.

Ágætu félagar.

Það eru næg verkefni fyrir okkur á pólitíska sviðinu nú sem endranær eins og ég hef nefnt. Það er því mikilvægt að við þéttum hópinn eins vel og við getum og verðum virk í starfi flokksins um land allt. Það er að öllu leyti skiljanlegt að almenningur sé fráhverfur stjórnmálum eins og fram hefur komið í kosningaþátttöku sem og í félagsstarfi allra flokka. Það má hins vegar ekki leiða til þess að stjórnmálin verði eingöngu vettvangur stjórnmálamanna, þingmanna eða sveitarstjórnarmanna. Það er því mikilvægt að við virkjum okkur sjálf og tökum aðra með okkur í því markmiði að efla flokksstarfið og þátttöku í pólitískri umræðu. Það verður eitt af okkar stærstu verkefnum næstu misserin. Stjórnmál mega ekki bara fyrir þá sem lifa og hrærast í þeim frá degi til dags heldur fyrst og fremst og miklu frekar eiga stjórnmálin að vera vettvangur okkar allra, hvaða störfum sem við gegnum og hvar sem við erum stödd á lífsleiðinni.

,

Réttlát Reykjavík

Kæru félagar.

Það eru þrír dagar til kosninga. Við erum komin á lokasprettinn og staðan er að skýrast. Valið stendur á milli átta framboða – Vinstri grænna og sjö annarra.

Fjölmiðlar hafa sýnt kosningunum lítinn áhuga. Þeir birta gjarnan myndir frá veislum og hátíðarhöldum, þeir standa fyrir róðrarkeppni og birta heilu opnurnar með hinni hlið oddvitanna þar sem spurt er um fyrsta kossinn og mestu eftirsjána. Minna fer fyrir stefnunni og hugmyndafræðinni. Fyrir því sem borgarbúar eru raunverulega að kjósa um.

Þessar kosningar eru auðvitað grafalvarlegt mál og þær skipta mjög miklu máli.

Við erum að kjósa um kjör borgarbúa, um það hvernig grunnþjónustunni verður háttað – og hver veitir hana. Við erum að kjósa um menntun og uppeldi, þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk, velferðarkerfið, húsnæði og fjárhagsaðstoð, samgönguhætti, umhverfi, auðlindir, neysluvatn, andrúmsloft og veðurfar.

Við erum að kjósa um hvernig samfélagi við viljum búa í og hvernig við viljum að það þróist. Og þá er bara einn skýr valkostur.

Vinstri græn bjóða nú fram í þriðja skipti undir eigin merkjum í Rekjavík. Við bjóðum fram sömu stefnu og byggjum á sömu hugmyndafræði og í hin skiptin og erum blessunarlega laus við að þurfa að endurskoða og yfirfara stefnumál okkar með tilliti til tíðarfars eða vinsælda.

Stefnan byggir nú sem fyrr á friðsamlegri nálgun, kvenfrelsi, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti. Þessar grunnstoðir fléttast saman í stefnu sem miðar í raun að réttlátari borg, réttlátara samfélagi og réttlátari heimi.

Og það er ekki vanþörf á. Um þessar mundir kemur út hver skýrslan á fætur annarri um vaxandi fátækt á Íslandi. Á sama tíma og hagvöxtur og velmegun eykst í samfélaginu verður fátæktin raunverulegra og stærra vandamál og misskiptingin vindur uppá sig.

Skýrsluhöfundar lýsa eðlilega yfir áhyggjum vegna málsins og taka fram að alvarlegast sé ástandið hjá barnafjölskyldum. Fátæktin bitnar verst á börnum, þau verða af nauðsynlegri þjónustu og einangrast félagslega.

Í þessu felst félagslegur arfur fátæktarinnar. Fátæktin skerðir möguleika barnanna til að spjara sig á fullorðinsárum. Fátæktin er þannig bæði mein í núinu þar sem börn líða fyrir efnahag foreldra sinna en líka til framtíðar, þar sem börn hafa ekki sömu tækifæri til virkni, þátttöku og góðs lífs í samfélaginu.

Við þessu verður að bregðast með aðgerðum sem tryggja aukið réttlæti og jafnari möguleika barna og fullorðinna. Með samfélagslega ábyrgri nálgun og forgangsröðun getum við tryggt börnum og fullorðnum svo miklu sanngjarnari lífsskilyrði.

Þess vegna viljum við afnema gjaldskrár fyrir leikskóla, skólamáltíðir og frístundahiemili. Afnámið snýst ekki bara um ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna, heldur tryggir aðgerðin okkur sanngjarnara samfélag á svo mörgum sviðum:

Í réttlátu samfélagi geta öll börn stundað leikskóla, fengið heitan mat í skólanum og tekið þátt í starfi frístundaheimilanna
Í réttlátu samfélagi er börnum ekki mismunað eftir efnahag foreldra sinna
Í réttlátu samfélagi eru barnafjölskyldur ekki rukkaðar um hundruði þúsunda fyrir sjálfsagða þjónustu við börn
Í réttlátu samfélagi er leikskólinn raunverulega viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og það sama gildir um hann og grunnskólann
Í réttlátu samfélagi er skóladagur barna ekki bútaður niður í menntun, máltíðir og frístundir – hann er ein samfelld heild
Í réttlátu samfélagi líða börn ekki fyrri fjárhag foreldra sinna. Réttlátt samfélag tryggir öllum börnum gott atlæti og góða menntun og greiðir fyrir það úr sameiginlegum sjóðum.

Og það er ekki allt. Í réttlátu samfélagi eru kennslu- og uppeldisstéttir ekki lægstlaunaða starfsfólk landsins. Það verður að stórbæta kjör kennara á báðum skólastigum, skapa svigrúm og aðstæður til skólaþróunar.

En fleira þarf til. Það verður að mæta vanda fólks þar sem það er og fátæktina sjálfa. Fjárhagsaðstoð í Reykjavík er skammarlega lág, félagslegar íbúðir eru allt of fáar og félagsráðgjöf og barnavernd búa við mjög þröngan kost. Velferðarkerfið sem á að grípa og styðja við fólk í vanda er illa í stakk búið til að þjóna hlutverki sínu. Þar verðum við að gera svo miklu miklu betur.

Fátækt og misskipting er afleiðing þess að stjórnvöld hafa fríað sig samfélagslegri ábyrgð. Stjórnvöld hafa einfaldlega ekki staðið sig í að tryggja jöfn tækifæri og gott velferðarkerfi, heldur er tilhneiging til að líta á hið opinbera sem þjónustuaðila eða fyrirtæki sem þarf að fá greitt fyrir það sem innt er af hendi.

Og því miður sér ekki fyrir endann á því. Alvarlegasta afleiðing þeirrar hugmyndafræði er markaðsvæðing grunnþjónustunnar, útvistun og einkavæðing. Þar sem einkaaðilum er falið að sjá um samfélagsleg verkefni með gróðasjónarmið að leiðarljósi.

Í réttlátu samfélagi getur efnameira fólk ekki keypt betri eða öðruvísi menntun fyrir börnin sín
Í réttlátu samfélagi er ekki hægt að braska með innborganir eldra fólks í þjónustuíbúðum
Í réttlátu samfélagi eru orku- og veitufyrirtæki ekki seld einkaaðilum
Í réttlátu samfélagi er ferðaþjónusta fatlaðs fólks ekki unnin af einkaaðilum
Í réttlátu samfélagi er trúarsöfnuðum ekki falið að reka gistiskýli fyrir utangarðsfólk
Í réttlátu samfélagi er grunnþjónustan ekki féþúfa. Réttlátt samfélag innheimtir tekjur eftir getu fólks og veitir þjónustu í samræmi við þarfir fólks.

Og talandi um ábyrgð. Ég sagði í upphafi að við værum að kjósa um veðrið. Það er ekkert djók. Árið 1979 þótti Sólskinsflokkurinn agalega fyndið framboð. Þau lofuðu betra veðri á Íslandi. Í dag vitum við að mannfólkið hefur raunveruleg áhrif á veðurfar. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta ógn sem steðjar að mannkyninu. Og þær eru ekki síður réttlætismál en það sem ég hef rakið hér á undan.

Sumir fá glýju í augun þegar þeir hugsa til tækifæranna sem loftslagsbreytingar kunna að hafa í för með sér fyrir Íslendinga. Ekki ég. Og ekki við Vinstri græn. Loftslagsbreytingarnar munu hafa hrikaleg áhrif á lífsgæði fólks um allan heim. Þær munu valda hungursneyð og örbyrgð og auka á misskiptingu ríkra og fátækra landa.

Loftslagsbreytingarnar munu ennfremur vinna gegn sjálfsögðu jafnrétti kynslóðanna. Ef fram heldur sem horfir munu lífsgæði barna okkar og barnabarna verða mun verri en okkar sem nú lifum.

Það er skylda okkar að bregðast við. Sem einstaklinga, sem hreyfingar, sem borgar og sem lands.

Margt gott hefur gerst í Reykjavík í þessum efnum, ekki síst fyrir tilstuðlan Vinstri grænna. Miklar umbætur hafa orðið á hjólastígakerfi borgarinnar, almennignssamgöngur eru í stöðugri þróun og aðförin að einkabílnum er ekki lengur bara áhugamál kreddufullra vinstrimanna og umhverfishippa heldur sjálfsagt viðfangsefni allra stjórnmálaflokka.

En betur má ef duga skal og þar á krafan um réttlátari Reykjavík aldeilis við. Enn virðist enginn annar stjórnmálaflokkur vera reiðubúinn að horfast af alvöru í augu við vandann sem við blasir á Hellisheiði, þar sem Orkuveitan hefur gengið allt of hart fram gagnvart jarðhitauðlindinni á Hengilssvæðinu og enn eru uppi hugmyndir um frekari virkjanir. Brennisteinsmengun leggur yfir svæðið og niðurdæling affallsvatns veldur jarðskjálftum.

Í réttlátu samfélagi ganga menn ekki fram af náttúrunni
Í réttlátu samfélagi er náttúran látin njóta vafans
Í réttlátu samfélagi er fjármunum almennings ekki varið í tilraunastarfsemi í þágu mengandi stóriðju
Í réttlátu samfélagi er borin virðing fyrir lýðheilsu og eignum fólks umfram möguleg gróðasjónarmið orkufyrirtækja
Það verður að stíga varlega til jarðar. Við verðum að staldra við og bíða, draga lærdóm af öllum þeim stórfenglegu mistökum sem gerð hafa verið og vinda ofanaf gerræðislegum samningum um frekari orkuöflun til stóriðju.

Kæru félagar.

Þau verkefni sem ég hef farið hér í kvöld mun enginn vinna nema Vinstrihreyfingin grænt framboð. Það er ekkert framboð með jafn skýra sýn og jafn heildstæða stefnu um réttlátara samfélag.

Ekkert annað framboð er reiðubúið til að afnema efnahagslegar hindranir til menntunar – m.a.s. Jafnaðarmannaflokkur Íslands telur kostnaðarþátttöku foreldra mikilvæga fyrir þjónustu hins opinbera og enginn fer í grafgötur með afstöðu, aðgerðir eða fyrirætlanir hægriflokkanna.

Ekkert annað framboð er tilbúið til að standa vörð um grunnþjónustu og samfélagsleg fyrirtæki. Samfylking og Björt framtíð hafa aldeilis sýnt vilja í verki á kjörtímabilinu, farið í viðræður við lífeyrissjóði vegna verkefna Orkuveitu Reykjavíkur, boðið út ferðaþjónustu fatlaðra og selt hlut okkar Reykvíkinga í HS-Veitum. Og aftur þarf ekkert að segja ykkur frá afstöðu, aðgerðum eða fyrirætlunum hægriflokkanna.

Ekkert annað framboð hefur talað fyrir ábyrgri auðlindanýtingu, gegn stóriðjustefnunni og með almannahagsmunum, umhverfi, náttúru og komandi kynslóðum. Fagurt Ísland Samfylkingarinnar er dregið fram fyrir kosningar, Besti flokkurinn syngur í karaókí fyrir auðlindir á meðan fjölmiðlar veita því athygli – en því miður er ekki stólandi á þessa flokka þegar á reynir. Og enn eina ferðina þarf ég ekki að segja ykkur frá afstöðu, aðgerðum eða fyrirætlunum hægriflokkanna.

Það er alveg ljóst – að Vinstrihreyfingin grænt framboð er eini raunverulegi valkosturinn ef við viljum samfélag félagslegs réttlætis með öllu því sem slíkt samfélag inniber – umhverfisvernd, frið og kvenfrelsi.

Kæru félagar.

Ég ætla að enda þetta á að ræða stöðu stjórnmálanna í dag – akkúarat í dag, þremur dögum fyrir kosningar. Eftir afdrifaríkar kosningar í Evrópu þar sem öfgahægri og rasismi vann stórsigur virðist ógnvekjandi alda vera að flytjast með ofsahraða til Íslands.

Könnunin í dag og þróun kannana undanfarna daga bendir til þess að Framsóknarflokknum takist jafnvel að ná inn manni í borgarstjórn með fordæmalausum og fordómafullum málflutningi á kostnað minnihlutahópa og mannréttinda. Tilhugsunin er óbærileg. Ekki bara tilhugsunin um stjórnmál þar sem leyfilegt er að valta yfir grundvallarmannréttindi – heldur ekki síður um að borgarbúar séu mögulega reiðubúnir að velja þessi sjónarmið framyfir önnur.

Framsóknarflokkurinn bauð fram og tók sér strax pláss sem gamaldags, heiftúðugt niðurrifsafl. Ekki bara gamaldags íhald, heldur reglulega harðsnúið öllu því sem gert hefur verið eða boðað til framfara. Þegar svo við bættist boðskapur sem elur á fordómum og rasisma keyrði um þverbak.

Eitt er þó verra en tilhugsunin um borgarstjórn með Framsóknarmönnum. Það er tilhugsunin um borgarstjórn með Framsóknarmönnum án Vinstri grænna. Könnunin í dag og þróunin undanfarna daga gefur okkur tilefni til að óttast það að rödd Vinstri grænna hverfi úr borgarstjórnarsalnum. Það má ekki gerast.

Nú reynir á – af alvöru.

Ástandið í samfélaginu kallar á skýra, sterka og háværa vinstrirödd. Vinstrið er mótvægið við öfgarnar – mótvægið við misréttið – mótvægið við fordómana.

Við erum vinstrið kæru félagar. Það er okkar að tryggja að rödd Vinstri grænna hljómi áfram á vettvangi borgarstjórnar, að áfram verði barist með kjafti og klóm gegn misrétti – gegn arðráni – gegn rányrkju – með réttlæti – með ábyrgð og sanngirni.

Við trúum á málstaðinn. Við stöndum með honum. Við höfum kjark og kraft til að berjast. Látum það gerast. Tökum öll þátt.

Ég vona svo sannarlega kæru félagar að ég sé að gera úlfalda úr mýflugu. Að vondu kannanirnar séu rangar og góðu kannanirnar réttar. En það gefur ekki síður tilefni til þess að við leggjum allt undir næstu daga. Því ef bestu kannanir reynast réttar og við leggjum samt allt undir – þá tryggjum við ekki bara rödd Vinstri grænna – heldur helmingi sterkari rödd. Þá náum við því markmiði sem við höfum stefnt að í allt vor og munum ekki gefa upp á bátinn – að ná Líf Magneudóttur inn í borgarstjórn.

Á laugardaginn eigum við í alvörunni möguleika á að tryggja líf í borgarstjórn. Gerum það á þeim þremur dögum sem eftir eru. Setjum undir okkur hausinn og sannfærum borgarbúa.

Áfram við!

Sóley Tómasdóttir

Ræðan var flutt á skemmtikvöldi Vinstri grænna í Reykjavík 28. maí 2014.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á eldhúsdegi

Virðulegi forseti, góðir landsmenn,

„Réttlæti er höfuðkostur á stofnunum samfélags, eins og sannleikurinn er á kenningum. Það er sama hversu fögur og nýtileg kenning er: ef hún er ósönn verður að breyta henni eða hafna. Eins er um stjórnarskrár og stofnanir. Það er sama hversu haganlega þeim er fyrir komið, og hversu gagnlegar þær eru: ef þær eru ranglátar verður að breyta þeim eða bylta.“

Þetta sagði hinn áhrifamikli stjórnmálaheimspekingur John Rawls í kenningu sinni um réttlæti. Við þingmenn veltum ef til vill ekki réttlæti og ranglæti fyrir okkur í daglegu tali hér á þinginu en þó efast ég ekki um að þeir sem halda út á veg stjórnmálanna geri það einmitt af því að þeir vilja veg réttlætisins sem mestan. En er það alltaf réttlæti sem ræður för hér á Alþingi? Er það ævinlega réttlæti sem ræður för þegar stofnanir samfélagsins eru að störfum? Er réttlæti ávallt haft að leiðarljósi þegar lög eru sett, fjármunum er úthlutað, ákvarðanir eru teknar?

Að þessu hljótum við að spyrja okkur þegar við tökum ákvarðanir ríkisstjórnarinnar þennan fyrsta vetur til skoðunar á eldhúsdegi og setjum í samhengi við þær pólitísku áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á 21. öldinni.

Var það réttlætið sem réð för þegar ákveðið var að lækka veiðigjöld á útgerðina um átta og hálfan milljarð á ársgrundvelli? Var það réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að lækka gjöld á áfengi og tóbak en hækka komugjöld á heilsugæslu? Var það réttlæti sem réð för þegar ákveðið var að hækka álögur á námsmenn í háskólum sem runnu beint til þess að niðurgreiða niðurskurð á háskólana? Er það réttlæti sem ræður för þegar ríkisstjórnin ákveður að framlengja ekki auðlegðarskatt sem lagður var á stóreignafólk þessa lands þegar reisa þurfti samfélagið við eftir efnahagshrun? Er það réttlæti sem ræður för þegar við tökum á móti hælisleitendum og innflytjendum og sendum suma til baka og stíum þar jafnvel í sundur fjölskyldum? Eru þetta réttlátar aðgerðir sem skila réttlátara samfélagi? Nei –ríkisstjórnin hefur ekki staðist réttlætisprófið.

En nú kynni einhver að svara því til að réttlæti sé aðeins ein breyta. Þegar komi til dæmis að því hvernig eigi að fjármagna samfélagið og um hvað það samfélag eigi að snúast séu margir aðrir þættir sem þurfi að taka tillit til, tæknileg úrlausnarefni sem lúti ekki endilega réttlætisrökum heldur skynsemis- eða hagkvæmnisrökum. En er það svo? Nei, þar er svar mitt aftur nei. Það er ekki tæknileg spurning hvernig við ákveðum að fjármagna samfélagið heldur siðferðileg og pólitísk. Hvernig leitað er til ólíkra hópa samfélagsins þegar kemur að fjármögnun þess og þá þarf að velta því upp hvort rétt sé að leita þá aftur til tekjulægri hópanna – sem ekki fengu neina skattalækkun hjá þessari ríkisstjórn – eða leggja fremur byrðar á breiðu bökin; stórútgerðir sem fá að nýta sameiginlegar auðlindir okkar og greiddu sér út tugmilljarða í arð til að halda upp á það þegar ríkisstjórnin lækkaði veiðigjöldin hið fyrra sinni, eða þau heimili í landinu sem eiga mestar eignirnar. Er það ekki fremur réttlátt að deila byrðunum þannig að við sem deilum kjörum hér á þessari eyju gerum það í raun; byggjum saman upp samfélag?

Og dæmin eru því miður fleiri en svo að ég geti rætt þau öll hér. Eða er það réttlát hugmyndafræði sem býr að baki skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar – leifunum af því heimsmetsloforði sem Framsóknarflokkurinn var kjörinn út á fyrir rúmu ári? Er það réttlátt að í svokallaðri „almennri aðgerð“ fyrir heimilin í landinu sé þriðjungur heimila; þ.e. fjölskyldur á leigumarkaði; fólkið sem aldrei hefur verið haft með þegar talað er um „heimilin“, undanskilinn? Er það réttlátt að sama stóreignafólk og horfir fram á að fá létt af sér auðlegðarskatti fái líka niðurfelld verðtryggð íbúðalán sem eykur auð þeirra enn frekar? Fram hefur komið að 230 íslenskar fjölskyldur sem eiga rétt á lækkun húsnæðislána eiga að meðaltali 177 milljónir í hreinni eign. Heildareignir þeirra umfram skuldir eru rúmir 44 milljarðar króna. Er það réttlátt að styrkja það sama fólk til að greiða fyrir húsnæði sitt á sama tíma og ungt fólk sér ekki fram á að geta nokkurn tíma komið sér eigin þaki yfir höfuðið? Nei, ég fæ ekki séð hvernig það eigi að vera réttlátt.

Góðir landsmenn

Réttlæti er mikilvægt í sjálfu sér en það er líka mikilvægt samfélagslegt markmið til að búa öllum sem best samfélag. Það er ranglátt ef aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu eða menntun ræðst af efnahag svo dæmi sé tekið. Þar af leiðir að jöfnuður, efnahagslegur og samfélagslegur, hlýtur að vera eitt einkenni réttláts samfélags.

Við Vinstri græn höfum lagt á það áherslu að forgangsraða fjármunum í að styrkja innviðina. Þar teljum við val ríkisstjórnarinnar – að dreifa umtalsverðum fjármunum í að fella niður skuldir óháð tekjum og eignastöðu fólks en hækka á sama tíma komugjöld á heilsugæslustöðvar og gjöld á stúdenta – ekki vera þann kost sem skilar mestum jöfnuði eða réttlátastri niðurstöðu. Við teljum líka skynsamlegra að styrkja innviðina, reisa nýjan Landspítala; styrkja menntakerfið, bæta kjör, hefja niðurgreiðslu skulda til framtíðar. Við teljum líka eðlilegt að styðja við þá sem verst fóru út úr hruninu hvað varðar verðtryggð íbúðalán. Það hefur verið sýnt fram á það að það er sá hópur sem tók íbúðalán á árunum 2005 til 2008, einkum þeir sem keyptu fyrstu eign á þessum tíma. Það væri eðlilegt að skoða slíkar aðgerðir með réttlætissjónarmið að leiðarljósi. Á sama tíma þarf að styðja betur við leigumarkaðinn en þar glittir nú í hugmyndir af hálfu stjórnvalda sem mér finnst jákvætt skref og fagna því að þar hefur að einhverju leyti verið tekið undir hugmyndir sem við Vinstri-græn höfum talað fyrir lengi.

Réttlátt samfélag er fyrir alla. Ef við viljum slíkt samfélag hlýtur það að vera kappsmál okkar allra að tryggja jöfnuð sem er ekki aðeins réttlætismál heldur líka einkenni skynsamlegs samfélags en um allan heim hafa menn áhyggjur af vaxandi ójöfnuði, hann er nú talinn helsta ógn við frið og stöðugleika í heiminum. Rannsóknir sýna að ójöfnuður er ógn við samfélagslega samheldni – og þau lönd þar sem mestur jöfnuður hefur ríkt í sögulegu samhengi eru þau sem hefur vegnað best á öðrum sviðum, efnahagslega og félagslega, þ.e. Norðurlönd.

Til að tryggja jöfnuð er hægt að beita ýmsum úrræðum. Þar er skattlagning á fjármagn mjög mikilvæg – til þess að hún beri árangur þarf að tryggja aukið gagnsæi. Þar verður æ ríkari krafa um aukna alþjóðlega samvinnu, til að tryggja að stjórnvöld hafi nauðsynlegt aðgengi að réttum upplýsingum þannig að unnt sé að skattleggja fjármagnið með réttlátum hætti. Þess vegna vakna hjá mér spurningar þegar kemur fram í fréttum að íslenskum stjórnvöldum standi til boða að kaupa í samstarfi við önnur ríki upplýsingar um fjármagn sem Íslendingar komu fyrir í skattaskjólum fyrir hrun. Hví hafa íslensk stjórnvöld ekki gripið það tækifæri – eins og gert hefur verið t.d. í Þýskalandi og fleiri ríkjum – er ekki þörf á slíkum upplýsingum ef við ætlum að tryggja réttláta skattbyrði en láta ekki auðmönnum það eftir að ákvarða sína eigin skattprósentu?

Menntun er líka gríðarlega mikilvæg til að tryggja jöfnuð og það er brýnt viðfangsefni að tryggja aðgengi allra til dæmis að framhalds- og háskólamenntun til þess að jafna tækifærin.

Og réttlátt samfélag snýst ekki aðeins um jöfnuð þeirra sem hér búa nú um stundir. Það snýst líka um jöfnuð kynslóðanna; að við búum þannig í haginn fyrir komandi kynslóðir að þær njóti sömu tækifæra og við sem hér erum nú. Því miður sést ekki enn á verkum þessarar ríkisstjórnar að hún skilji að umhverfismálin eru eitt stærsta viðfangsefni samtímans. Þar skiptir máli að Ísland taki ábyrga afstöðu og setji sér raunhæf markmið um hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég vonast til að allir flokkar geti náð saman um að við breytum stjórnarskrá okkar á þann veg að við setjum þar inn meginreglur umhverfisréttar, að við tryggjum fjölbreytni lands og lífs og skilgreinum auðlindanýtingu þannig að hún miðist við hagsmuni komandi kynslóða.

Nú í vor ganga landsmenn enn og aftur til kosninga; að þessu sinni í sveitarstjórnum. Þar eru viðfangsefnin þau sömu í raun og hér á þinginu. Þar skiptir máli að auka jöfnuð og það er hægt að gera með því að létta gjöldum af fólki – til að mynda af grunnþjónustu við barnafjölskyldur sem er eitt af höfuðatriðum í málflutningi okkar Vinstri grænna fyrir þessar kosningar en þannig stuðlum við í senn að jöfnum rétti allra barna auk þess sem við bætum verulega hag barnafjölskyldna. Þar skiptir líka máli að sveitarfélögin taki hraustlega á umhverfismálum og setji sér í senn markmið til að draga úr loftslagsbreytingum og viðbragðsáætlanir um hvernig megi bregðast við þeim.

Góðir landsmenn

Í allri stjórnmálaumræðu er mikilvægt að réttlætissjónarmið séu höfð að leiðarljósi; að kjörnir fulltrúar geti tekið sem bestar og réttlátastar ákvarðanir í þágu allra landsmanna. Margir telja að nýir tímar kalli á ný pólitísk hugtök; orðin hægri og vinstri séu orðin merkingarlaus í hugum almennings sem sé þreyttur á svokölluðum hefðbundnum stjórnmálum. Miðað við áskoranir nýrrar aldar tel ég að réttlæti, jöfnuður og sjálfbærni hafi aldrei verið mikilvægari markmið; einmitt til að tryggja samfélag fyrir alla; og það tel ég vera hlutverk og skyldu okkar vinstrimanna í samtímanum. Í mínum huga er réttlæti ekki pólitísk klisja sem dó á síðustu öld. Réttlæti er eina leiðin til að lifa af á nýrri öld.