Posts

Svandís spyr um rammaáætlun

Svandis Svavarsdottir_1Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur lagt fram fyrirspurn til umhverfis-og auðlindaráðherra er varðar endurskoðun starfsreglna verkefnisstjórnar um rammaáætlun.

  1. Hefur verið lagt á það lögfræðilegt mat hvort auglýst drög að breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar eigi sér nægilega stoð í lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, eða hvort þær kunni á einhvern hátt að ganga í berhögg við lögin?
  2.  Hver er lagastoð þeirrar reglu sem lögð er til í 2. mgr. 8. gr. í drögunum, þ.e. að verkefnisstjórn skuli taka virkjunarkost til nýrrar umfjöllunar hafi hann tekið breytingum? Er breytingin lögð til svo að endurmeta skuli Norðlingaölduveitu sem flokkuð var í verndarflokk, sbr. 6. gr. laganna, í verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var af Alþingi í janúar 2013?
  3.  Átti Landsvirkjun, Suðurorka eða aðrir hagsmunaaðilar einhverja aðkomu að gerð þeirra breytingartillagna sem birtar eru í drögunum?
  4.  Hver telur ráðherra að sé verndarstaða svæðis sem sett hefur verið í verndarflokk ef friðlýsingu er ekki lokið? Telur ráðherra að endurmeta skuli slíka virkjunarkosti, sbr. 2. mgr. 8. gr. draga að breyttum starfsreglum verkefnisstjórnarinnar?
  5.  Hvert er tilefni þess að sérstaklega er vikið að hæfi fulltrúa í verkefnisstjórn og faghópum, sbr. breytingu í d-lið 5. gr., og af hverju eru gerðar strangari kröfur til þess að fulltrúar í verkefnisstjórn víki sæti við afgreiðslu mála en almennt mundi leiða af hæfisreglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eða almennum hæfisviðmiðum sem gilda í stjórnsýslurétti þar sem gildissviði hæfisreglna stjórnsýslulaga sleppir, sérstaklega í ljósi þess að fulltrúar í verkefnisstjórn taka ekki stjórnvaldsákvarðanir?

Skriflegt svar óskast.
Greinargerð.

Samkvæmt 8. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun skipar ráðherra sex manna verkefnisstjórn um rammaáætlun til fjögurra ára í senn er vera skal ráðherra til ráðgjafar við undirbúning að gerð tillagna að áætluninni. Til fyllingar reglum laganna um störf verkefnisstjórnar skal ráðherra setja henni starfsreglur, sbr. 6. mgr. 10. gr. laganna. Samkvæmt því er starfsreglum verkefnisstjórnar ekki ætlað að setja ný viðmið eða nýjar efnisreglur um það með hvaða hætti stjórnin skuli starfa heldur aðeins að tryggja samræmi og vandaða stjórnsýslu.

Ríkisstjórnin ræðst á rammaáætlun

Rammaáætlun var rædd í fjölmennu flokksráði Vinstri grænna í dag og eftirfarandi ályktun samþykkt einróma.

Fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem auglýstar er eru á vef umhverfisráðuneytisins eru augljóslega settar fram í því skyni að hafa að engu niðurstöðu rammaáætlunar 2. Þannig verður með breytingunum hægt að meta að nýju svæði í verndarflokki sem ekki hafa enn verið friðlýst. Núverandi ríkisstjórn hefur enga áherslu lagt á friðlýsingar þannig að sú vinna hefur legið niðri allt kjörtímabilið. Þótt ráðherra sé skylt samkvæmt lögum um rammaáætlun að hefja friðlýsingar á öllum svæðum í verndarflokki hefur engin áhersla verið lögð á þau verkefni. Með breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar verður unnt að meta öll þessi svæði að nýju með það að markmiði að færa einhver þeirra í nýtingarflokk. Áform Landsvirkjunar um að virkja í Norðlingaöldu sem er í verndarflokki með því að kalla svæðið Kjalölduveitu og breyta lítillega útmörkum svæðisins liggja greinilega meðal annars til grundvallar tillögum ráðuneytisins.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir þessi vinnubrögð umhverfisráðuneytisins og ráðherra umhverfismála og telur þau fara í berhögg við lög um rammaáætlun. Ljóst er að verndarsjónarmið eru að engu höfð og mæta afgangi í öllum verkum núverandi ríkisstjórnar.

Rammaáætlun, ferðaþjónusta og framtíðin

Í umræðum um hina forkastanlegu breytingatillögu meirihluta atvinnumálanefndar (Jón Gunnarsson og Co) við tillögu umhverfisráðherra um Rammaáætlun hefur afhjúpast að hjá sumum hefur klukkan staðið kyrr í 30 til 40 ár. Gamla dólga-stóriðjustefnan lifir enn góðu lífi í hugum sumra stjórnmálamanna og jafnvel heilla flokka. Í þágu hennar á að henda á haugana allri viðleitni til að sætta sjónarmið nýtingar í þágu orkuframleiðslu og verndar eða annars konar nýtingar. Lögbundið ferli Rammaáætlunar og fagleg vinnubrögð skulu víkja í þágu þess að áfram verði hægt að hafa opið hús fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar.

Þetta er þeim mun merkilegra þar sem ekki linnir fréttum af áframhaldandi og örum vexti ferðaþjónustunnar, stærstu gjaldeyrisöflunargreinar íslenska þjóðarbúsins. Óumdeilt er að sterkasta aðdráttarafl erlendra ferðamanna til landsins er íslensk náttúra. Margendurteknar rannsóknir sýna að að minnsta kosti 70 til 80 prósent erlendra ferðamanna sem landið sækja heim nefna íslenska náttúru sem fyrstu eða meginástæðu þess að þeir kjósa Ísland sem áfangastað. Engu að síður er talað og aðhafst eins og hagsmunir þeirrar greinar séu hrein afgangsstærð þegar kemur að álitamálum um verndun íslenskrar náttúru. Gildir þá einu hvort í hlut á framganga stjórnarmeirihlutans í atvinnuveganefnd eða áform Landsnets um risavaxna háspennulínu þvert yfir og í gegnum miðhálendi Íslands, helst með Vegagerðina í eftirdragi með uppbyggðan veg. Lítum nú aðeins nánar á þjóðhagslegt samhengi þessara hluta.

Hreinar gjaldeyristekjur

Áætlað er að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafi farið yfir 300 milljarða króna á síðasta ári. Ef vöxtur greinarinnar í ár verður eitthvað nálægt því yfir árið eins og verið hefur á fyrstu fjórum mánuðunum (35 prósent í janúar, 35 prósent í febrúar, 27 prósent í mars og 21 prósent í apríl) þá er varlega áætlað að gjaldeyristekjurnar verði 350 milljarðar króna í ár. Nálgæt 80 prósetn af veltu greinarinnar verður eftir í íslenska hagkerfinu. Með öðrum orðum, hreinar, nettó, gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu stefna í nálægt 280 milljarða króna.

Í öðru sæti kemur sjávarútvegurinn og við skulum áætla að útflutnings- eða gjaldeyristekjur hans verði ívið meiri en í fyrra eða um 280 milljarðar. Nota má svipuð hlutföll um það sem eftir verður í innlenda hagkerfinu í tilviki sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar eða 80 prósent. Auðvitað er það eitthvað breytilegt milli ára, lægra hlutfall þegar mikið er samtímis flutt inn af skipum og/eða olíuverð er hátt, en hærra þegar svo er ekki. Þar með má áætla að hreinar gjaldeyristekjur frá sjávarútvegi verði um 225 milljarðar.

Og þá að orkufrekri stóriðju. Ef við ætlum henni sömuleiðis að gera ívið betur í ár en í fyrra gætu gjaldeyristekjurnar orðið um 230 milljarðar. En þá ber svo við að skilahlutfallið til þjóðarbúsins, það sem endar innan hagkerfis landsins, er allt annað og lægra en í fyrri tilvikunum tveimur. Nálægt 35 prósent af veltu stóriðjunnar endar hér og það gerir hreinar gjaldeyristekjur uppá nálægt 80 milljarða.

Samanburðurinn leiðir þá þetta í ljós: Ferðaþjónustan skilar hreinum gjaldeyristekjum upp á 280 milljarða, sjávarútvegurinn 225 og stóriðjan 80.

Framtíðin

Í hverju liggja þá okkar framtíðarhagsmunir skoðað í þessu þjóðhagslega samhengi? Að bregðast gæsluhlutverki okkar gagnvart landinu og náttúrunni og fórna hagsmunum ferðaþjónustunnar á altari stóriðjunnar sem skilar þjóðarbúinu minna en þriðjungi þess gjaldeyris sem ferðaþjónustan gerir? Tæplega getur það talist skynsamleg áhersla fyrir land sem á fjárhagslega afkomu sína undir því að afla gjaldeyristekna og viðhalda jákvæðum greiðslujöfnuði næstu árin og væntanlega langt inn í framtíðina. Eða um hvað snýst hinn þjóðhagslegi vandi samfara afnámi hafta?

Með þessu er alls ekki sagt að hófsamleg uppbygging fjölbreyttrar orkukrefjandi starfsemi, gjarnan í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, geti ekki áfram orðið hluti af okkar atvinnuuppbyggingu. En, þjóðhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi blindri, dólga-stóriðjustefnu eru einfaldlega horfnar með öllu og voru nú raunar aldrei beysnar.

Það er svo efni í næstu grein að ræða þennan öra vöxt ferðaþjónustunnar og þau umhverfislegu og þjóðhagslegu álitaefni sem honum tengjast. Þar þarf vissulega einnig að stíga yfirvegað til jarðar og viðamikilla innviðafjárfestinga og fyrirbyggjandi aðgerða er þörf.

Efnt til ófriðar um rammaáætlun

Um fá mál á Alþingi virðist vera djúpstæðari ágreiningur en þau sem snúast um náttúruvernd annars vegar og nýtingu náttúruauðlinda hinsd vegar. Margir töldu að átökin um Kárahnjúkavirkjun hefðu orðið til þess að menn hefðu lært að ekki gengi að valta yfir fólk og firnindi í krafti meirihluta; mikilvægt væri að leiða þessi mál í einhvers konar sáttaferli.Það virtist hafa náðst þegar lög um rammaáætlun voru samþykkt á sínum tíma með atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum árið 2011. Í kjölfarið var ný rammaáætlun samþykkt á þingi.

Hún var hins vegar ekki samþykkt af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gagnrýni þeirra snerist einkum um að þrjár virkjanir í neðri Þjórsá hefðu verið færðar úr nýtingu í bið – og létu þessir þingmenn það sem vind um eyru þjóta að það var gert að loknu lögbundnu umsagnarferli þar sem á þriðja hundrað athugasemda barst vegna þessara virkjana. Þeir sem samþykktu rammaáætlun voru hins vegar hreint ekkert allir að samþykkja einhverja draumaáætlun. En þeir litu svo á að nauðsynlegt væri að breyta umræðunni, leiða djúpstæðan ágreining í sáttaferil og vildu standa við það.

En hvar er þetta mál statt núna? Umhverfisráðherra lagði fram tillögu um að Hvammsvirkjun í Þjórsá yrði færð úr bið í nýtingu. Var það gert að tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Málinu var vísað til atvinnuveganefndar Alþingis en ekki umhverfisnefndar sem vakti strax grunsemdir um að ætlunin væri að rjúfa tengsl verndar og nýtingar sem er hryggjarstykkið í hugmyndafræði rammaáætlunar. Og sá illi grunur reyndist réttur. Meirihluti nefndarinnar hyggst leggja til að fjögur önnur svæði verði færð úr bið í nýtingu (sem vel að merkja er talsvert afdrifaríkari ákvörðun en að færa úr nýtingu í bið) en það eru tvær virkjanir í neðri Þjórsá (Urriðafoss og Holtavirkjun), Hagavatnsvirkjun og Skrokkalda. Af þessum hefur verkefnisstjórn aldrei lokið umfjöllun um Hagavatnsvirkjun og ekki lokið að fjalla að nýju um Skrokköldu, Urriðafoss og Holtavirkjun.

Umfjöllun og vinnubrögð í kringum nýtingarflokk rammaáætlunar er því í uppnámi og stjórnarmeirihlutinn virðist ekki álíta sig bundinn af því ferli sem skilgreint er í lögum um rammaáætlun. Þarna er enn og aftur verið að efna til ófriðar, stríðsöxin grafin upp að óþörfu í blindu ofstæki og trú á gamlar stórkallalausnir í atvinnumálum.

Og hvað er að gerast hinum megin, í verndarflokki rammaáætlunar. Því miður virðist svarið vera: Ekki neitt. Lögum samkvæmt á umhverfisráðherra að friðlýsa þau svæði sem sett eru í verndarflokk rammaáætlunar. Ég lagði fram fyrirspurn til ráðherrans árið 2013 og að nýju árið 2014. Skrifleg svör bárust; hið fyrra 30. október 2013, hið síðara 16. desember 2014. Svörin voru keimlík þó að reynt hafi verið að breyta orðalagi á stöku stað. Í stuttu máli hafði ekkert þokast í friðlýsingum svæða í verndarflokki þó að það sé lögbundin skylda umhverfisráðherra að framkvæma þær. Þegar ég spurði svo ráðherrann hverju sætti var kvartað undan fjárskorti en beinlínis var ákveðið í tíð þessarar ríkisstjórnar að skera niður fé til friðlýsinga. Og svo sagði ráðherrann að kannski væru þetta fullmargar friðlýsingar.

Ef þessi eru viðhorf stjórnarmeirihlutans til laga og samþykkta Alþingis er ekki nema von að almenningur í landinu krefjist róttækra kerfisbreytinga. Það virðist einlægt markmið ríkisstjórnarinnar að kveikja ófriðarbál í kringum verndun og nýtingu náttúruauðlinda líklega vegna þess að ríkisstjórnin hefur enn ekki áttað sig á því að atvinnulíf á Íslandi er breytt; hér er uppgangur í ferðaþjónustu og nýsköpun og það er enginn að biðja um gömlu stórkallalausnirnar. En viðhorf almennings virðast jafn léttvæg fyrir þessum stjórnarmeirihluta og lög og samþykktir Alþingis.

Katrín Jakobsdóttir
Höfundur er formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Ekkert gengur að friðlýsa svæði í verndarflokki

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, spurði í dag Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfisráðherra, um það hverju sætti að á þeim tveimur árum sem liðin eru frá samþykkt Rammaáætlunar hafi ekkert gengið að ljúka friðlýsingu þeirra svæða sem samþykkt voru í verndarflokk Rammaáætlunar 2013.

Ráðherra svaraði því til að friðlýsingar væru „fullmargar“ og ekki væri nægjanlegt fjármagn til að ljúka friðlýsingum og reka friðlýst svæði. Katrín benti þá á að þetta væri ekki mál ráðherra að ákveða, þingið hefði þegar samþykkt að setja umrædd svæði í verndarflokk og ráðherra bæri að fara að samþykktum þingsins. Ennfremur að lítið þýddi að bera við ónógu fjármagni þar sem það væri einmitt núverandi stjórnarmeirihluti sem hefði staðið fyrir umfangsmiklum niðurskurði í þessum málaflokki árið 2014.

Umræðunni lauk með því að ráðherra „þakkaði fyrir brýninguna“.

 

Geðþótti eða lögleg vinnubrögð

Eftir tíu daga í embætti segir nýr umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, í Kastljósi að nægar rannsóknir liggi fyrir til að leggja til að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun verði settar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þetta vakti athygli og undrun margra.

Aðdragandinn að rammaáætlun – vinnan og framvindan – nær mörg ár aftur í tímann. Á árinu 2011 voru lög um rammaáætlun samþykkt á Alþingi og kveða lögin á um það hvernig skyldi fara með tillögur og ákvarðanir varðandi vernd og nýtingu náttúrusvæða. Þessi lög um verklag og leikreglur voru samþykkt án andstöðu í þinginu og var víða fagnað sem mikilvægu skrefi í átt að því að ná sameiginlegum grundvelli um virkjanir og náttúruvernd á Íslandi.

Það er mikilvægt að halda því til haga að það var þingið sjálft sem samþykkti þessa aðferðafræði og ætti því sjálft að gæta að því að hún sé höfð í heiðri.

Verkefnisstjórnin skal samkvæmt lögunum gera tillögu til ráðherra og ráðherra síðan leggja kostina til við þingið. Eftir þessu var farið þegar verkefnisstjórn rammáaætlunar gerði tillögu um að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk og þingsályktunartillaga í framhaldinu lögð fram á Alþingi um þann virkjunarkost. Verkefnisstjórnin taldi ekki forsendur til þess að gera frekari tillögur um færslu virkjanakosta í nýtingarflokk og því liggur aðeins þessi eina tillaga hjá Alþingi, hvorki fleiri né færri.

Í þessu ljósi er það verulegt álitamál hvort það standist yfirleitt lögin að atvinnuveganefndin ein og sér geri tillögu um sjö virkjunarkosti til viðbótar án þess að verkefnisstjórnin hafi lokið sinni umfjöllun um þá eins og Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, hugðist gera í haust. Auk þess hafa ítrekað komið fram efasemdir um að það í sjálfu sér standist þingsköp að kalla það breytingartillögu við þingsályktunartillögu að breyta einni tillögu í átta. Þannig fengi breytt tillaga í raun bara eina umræðu sem telst tæpast þinglegt.

Það er ekki síður álitamál hvort löglegt sé að ráðherra geri tillögur umfram þær sem umfjöllun verkefnisstjórnarinnar segir til um eins og hún boðaði í Kastljósi. Þetta er ekki síst ámælisvert í ljósi þess að eftirfarandi kemur fram í greinargerð verkefnisstjórnar um tillögu þá sem atvinnuveganefnd hefur á sínu borði:

„Í niðurstöðum sínum leggur verkefnisstjórn til að Hvammsvirkjun verði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk en gerir að öðru leyti ekki tillögu um breytingu á þeirri röðun virkjunarkosta sem fram koma í núgildandi verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013.

Í niðurstöðum verkefnisstjórnar kemur jafnframt fram að hún telji að til þess að hægt verði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þurfi að liggja fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskstofna, eftirlits- og viðbragðsáætlun með lýsingu á viðbrögðum ef markmiðum er ekki náð og skilgreining á því hvaða viðbótarrannsóknir þurfi að gera á búsvæðum laxfiska í Þjórsá, einkum í Þjórsárkvísl neðan við Búða og í Murneyrarkvísl.“

Afstaða verkefnisstjórnarinnar er því afar skýr: Hún telur einmitt að frekari rannsókna sé þörf áður en hægt sé að taka ákvörðun um þessa tvo virkjanakosti. Í ljósi þess að það er einmitt hlutverk verkefnisstjórnarinnar að taka afstöðu til þessara atriða, má spyrja til hvers Sigrún Magnúsdóttir telur verkefnisstjórnina vera?

Eru þetta byrjendamistök hjá ráðherra? Hefur hún ekki kynnt sér lög um rammaáætlun eða telur hún að eigin geðþótti dugi til?

Sáttin rofin!

Stundum trúir maður ekki einhverju fyrr en maður tekur á því. Það átti við um mig sem er 1. varaformaður atvinnuveganefndar en nefndin hefur verið með til umfjöllunar þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu landsvæða ,tillögu verkefnastjórnar 3.áfanga rammaáætlunar um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk.

Um þá tillögu ríkir langt í frá sátt en hún hefur þó farið í gegnum þá faglegu ferla sem lög um Rammaáætlun kveða á um og er nú í umsagnarferli og í meðferð atvinnuveganefndar.
Formaður atvinnuveganefndar hefur ekki farið dult með áhuga sinn á því að kippa með í leiðinni 7 virkjanarkostum en 5 þeirra hafa ekki fengið þá málsmeðferð sem lög mæla fyrir um og 2 kostir voru ekki tilbúnir til ákvarðanartöku hjá verkefnastjórn þar sem faghópar höfðu ekki skilað af sér.

Þegar formaður nefndarinnar var farinn að kalla fyrir nefndina aðila til að fjalla um aðra virkjanarkosti en Hvammsvirkun sem var þar til umfjöllunar þá fór vissulega að renna á mann tvær grímur um að honum væri full alvara með að taka með í leiðinni aðra virkjanarkosti sem ég tel að við höfum ekkert umboð til að gera miðað við málsmeðferðarreglur laga um rammaáætlun.

Hvað gengur mönnum til með slíkum vinnubrögðum sem kalla á að allt rammaáætlunarferlið verður í uppnámi og sú mikla samstaða sem náðist á Alþingi á síðasta kjörtímabili með samþykkt löggjafar um rammaáætlun er hent fyrir róða.
Það er eðlilegt að mönnum greini á um vernd og nýtingu landsvæða en mikilvægt er að virða þá verkferla og leikreglur sem við höfum sett okkur sjálf og okkur er treyst til að vinna eftir.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki farið í grafgötur með áhuga sinn á áframhaldandi uppbyggingu stóriðju í landinu sem kallar á auknar virkjanaframkvæmdir og hefur hún ekki látið náttúruverndarsjónarmið trufla sig mikið hingað til.

Það er umhugsunarvert að í dag fer 80 % raforkuframleiðslu í landinu til stóriðju 15 % til annara fyrirtækja og aðeins 5 % til heimila landsins. Og á Suðurlandi þar sem stærstur hluti raforkuframleiðsu í landinu fer fram fer langstærstur hluti hennar til stórnotenda utan Suðurlands. Við eigum næga orku fyrir landsmenn til langrar framtíðar í dag og í þeim virkjanarkostum sem nú þegar eru í nýtingarflokki en það er spurning í hvaða starfsemi við viljum að orkan fari.
Það er því ekki skrýtið að íbúar á Suðurlandi spyrji sig hvort nýta megi náttúruauðlindir landshlutans með annað í huga en áframhaldandi uppbyggingu stóriðju.

Ferðaþjónustan hefur verið á mikilli siglingu uppávið undanfarin ár og ferðaþjónustuaðilar óttast að ef gengið er hart fram í virkjanaráformum á kostnað umhverfissjónarmiða muni það koma í bakið á okkur síðar meir og tek ég undir þær áhyggjur.
Við verðum að fara að venja okkur á að hugsa til lengri tíma í einu en ekki aðeins til eins kjörtímabils í senn og að hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi en ekki stundar græðgi eins og núverandi stjórnarflokkar eru þekktir fyrir.
Hvernig ætlum við að skila landinu til næstu kynslóðar ? Ætlum við að vera búin að ráðstafa stærstum hluta auðlinda okkar varanlega óafturkræft svo komandi kynslóðir hafi ekkert val ?

Hvað með umhverfisvæna orkugjafa til þess að nýta á skipa og bílaflota landsmanna, hvað með þá staðreynd að nær allir ferðamenn sem koma til landsins koma hingað vegna náttúru landsins, hvað með samfélagsleg áhrif vegna umdeildra virkjanaframkvæmda og nýtingu orkunnar, hvað með hugmyndir um sæstreng til Evrópu og hærra orkuverð til landsmanna í kjölfarið ,hvað með hugmyndir um raflínur yfir Sprengisand sem spilla ósnortnu hálendi landsins ! Allt eru þetta spurningar sem við sem samfélag þurfum að komast að niðurstöðu um og fara eftir þeim leikreglum sem við höfum sett okkur og ástunda fagleg vinnubrögð.

Síðasta útspil formanns atvinnuveganefndar er ekki spor í átt til sáttar né faglegra vinnubragða því miður.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG og 1. Varaformaður atvinnuveganefndar.

Atvinnuveganefnd sögð sniðganga Rammaáætlun

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í atvinnuveganefnd, tók til máls í upphafi þingfundar til að vekja athygli á að meirihluti nefndarinnar hyggist sniðganga Rammaáætlun. „Nú bregður svo að meirihluti atvinnuveganefndar ætlar að leggja fram þá breytingartillögu að leggja alla þessa átta kosti sem eru nú í bið í nýtingarflokk og ganga framhjá Rammaáætlun.“ Lilja Rafney benti á að meirihlutinn ætli að gefa þessari breytingu aðeins eina viku í umsagnarferli en til samanburðar var tillaga umhverfisráðherra um að færa einn virkjunarkost (Hvammsvirkjun) í nýtingarflokk gefin 12 vikur í umsagnarferli.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vg, tók einnig til máls og sagði: „Staðreyndin er sú að ef ætlunin er að fara með þetta mál með þessum hætti, virðulegi forseti, þá er verið að gera svo róttækar breytingar á málinu að það er ekki hægt að líta á það sem einfalda breytingartillögu.“ Fjölmargir aðrir þingmenn tóku til máls og mótmæltu framferði ríkisstjórnarmeirihlutans í nefndinni. Þannig sagði Steingrímur J. Sigfússon m.a. að með þessari ákvörðun hefði stríðshanska verið kastað og furðaði hann sig á meirihlutinn skyldi leita að átökum í málinu.

Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, tók undir þetta og sagði: „Það sem er að gerast með þessari málsmeðferð er að allt landið, Ísland frá fjalli til fjöru, er í nýtingarflokki,“ og bætti við að lögin um Rammáætlun séu að engu höfð. Svandís furðaði sig einnig á því að aðeins sé gert ráð fyrir eina viku í umsagnarferli til að fara yfir málið og spurði: „Við hvað eru sjálfstæðismenn hræddir?“

Hvammsvirkjun ekki til umhverfisnefndar

Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var til umræðu á Alþingi í dag en umhverfis- og auðlindaráðherra leggur nú til að Hvammsvirkjun fari úr biðflokki yfir í nýtingarflokk. Þetta er gert þrátt fyrir verulega óvissu um áhrif slíkrar virkjunar á laxagengd, óvissu um hver áhrif mótvægisaðgerða vegna laxagengdar verða á arðsemi slíkrar virkjunar og þá staðreynd að samfélagsleg áhrif slíkrar virkjunar hafa í raun ekki verið metin.

Mestum usla olli þó tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra að vísa tillögunni til atvinnuveganefndar en ekki umhverfis- og samgöngunefndar þó að málið sé á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra og hafi áður verið hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Með þessari tilhögun er nýtingin rifin úr samhengi við verndun nattúru og umhverfis og þannig gengið þvert á hugmyndafræði rammaáætlunar sjálfrar. Þetta sýnir skýrt hvaða augum núverandi stjórnvöld líta rammaáætlun og náttúruverndarmálin í heild sinni.