Posts

Vilja flytja kýr í flugvélum

Ögmundur Jónasson skrifar

Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin vilji gera kýr að flugvélafarþegum. Hún vill senda heilar hjarðir í heimsreisur. Og ekki bara nautgripi heldur líka kjúklinga og svín. Að vísu ekki lifandi, heldur dauð. Steindauð, tilbúin á steikarfatið. Heimsreisur? Mér er sagt að ódýrustu kjúklingar á markaði í Evrópu séu komnir alla leið frá Austur-Asíu, Kína og Taílandi.

Þetta er inntakið í samningi Íslands við Evrópusambandið um að örva viðskipti með kjöt milli Evrópumarkaðar og Íslands. Samningurinn hefur að vísu enn ekki verið staðfestur og verður það vonandi ekki.

Ýmsir hafa fundið að þessum samningi á margvíslegum forsendum. Ég er í þeim hópi og hef nefnt ýmsa þætti. Í þessum línum vil ég benda sérstaklega á einn þessara þátta, umhverfisþáttinn. Og ég spyr: Vilja menn virkilega ekki reyna að stuðla að því að samfélög verði sem best sjálfbær um framleiðslu á mat í nærumhverfi sínu?

Aukin ferðamennska í heiminum er jákvæð þróun

Það er skemmtilegt og eftirsóknarvert að heimsækja fjarlægar slóðir. Það finnst okkur flestum og ef vel er á haldið getur af ferðamennskunni spunnist spennandi nýsköpun í atvinnurekstri og gert okkur betur meðvituð um stórkostlegan margbreytileika heimsins í náttúrufari og menningu. Þennan margbreytileika á að leggja rækt við. Þar hafa Íslendingar margt fram að færa, og viti menn, ekki síst í matvælaframleiðslu!

En ferðamennskan á sér takmörk, enda hóf á öllu best. Hún setur þannig aukið álag á umhverfið, mengandi flugumferð er að margfaldast og hin risastóru skemmtiferðaskip eru sögð mikill mengunarskaðvaldur.

Og ofan á þetta allt vilja menn nú senda naut, þúsundum saman, hænur og svín, í flugferðir heimshorna á milli.

Er þetta skynsamleg stefna? Tökum afstöðu í þessu máli, sem á sér hliðar sem kunna að reynast afdrifaríkari en margan grunar. Látum síðan framtíðinni eftir að greina afstöðu okkar, hver reyndust vera framsýn og hver afturhald.

Vilja menn virkilega ekki reyna að stuðla að því að samfélög verði sem best sjálfbær um framleiðslu á mat í nærumhverfi sínu?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júní.

Geir ekki bænheyrður

Frægt varð þegar Geir H. Haarde bað almættið að blessa Ísland í þann veginn sem Hrunið var að bresta á. Margt fór vissulega á betri veg en á horfðist þessa haustdaga árið 2008. Íslendingar lögðust á árarnar og saman komumst við á  lygnari sjó. Eða það héldum við, ekki vitandi að forsætisráðherrann þáverandi var ekki bænheyrður – alla vega ekki til langs tíma.

Eftir allar rannsóknar skýrslurnar og allar heitstrengingarnar kemur nú í ljós að 800 aflandsfélög tengjast Íslendingum sem fyrir bragðið verða að viðundri á heimsvísu. Í ljós kemur að forsætisráðherra og fjármálaráðherra tengjast félögum í paradísum peninganna og vafasömum fjármálagerningum sem þaðan er stýrt. Minni fréttir voru að Landsbankinn skuli hafa haft leiðandi hlutverk í gjörningum þessa siðlausa fjármálaheims. Það höfðum við vitað lengi enda yfirlýst stefna hans frá því fyrir hrun að þjóna stóreignafólki til að koma eignum sínum í felur.

Nú þarf tvennt að gerast.
1) Skipta þarf um ríkisstjórn í landinu þegar í stað.
2) Stokka þarf upp bankakerfið, stofna samfélagsbanka og banna viðskiptabönkum að fást við fjárfestingastarfsemi.

Þetta gæti verið byrjunin. En byrjun verðum við að fá. Svona gengur þetta ekki lengur.

Rangt. Svo kolrangt

Samband íslenskra sveitarfélaga skilaði síðasta haust umsögn um fjárlagafrumvarp ársins 2016. Í því segir m.a. að sambandið vilji að af hálfu ríkisins verði lögð áhersla á að „draga úr bóta- og skattsvikum“ sem er auðvitað alveg rétt ábending hjá sambandinu.
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga heitir Halldór Halldórsson. Hann er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Einn borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins hefur viðurkennt að geyma fjármuni sína í skattskjóli á Panama. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir ekki athugasemdir við það. Segir að það sé einkamál borgarfulltrúans hvar hann geymir peningana sína.
Þetta er rangt. Kolrangt.

Það er ekki einkamál borgarfulltrúans, fjármálaráðherransforsætisráðherrans ,innanríkisráðherrans, gjaldkerans, framkvæmdastjórans eða nokkurs annars sem kýs að lauma peningunum sínum úr landi í erlend skattaskjól. Það snertir okkur öll og kemur niður á lífsgæðum okkar allra þegar fólk með vísvitandi hætti kemur peningunum sínum undan og það grefur undan efnahagslegu sjálfstæði landsins, þ.m.t. sveitarfélaga.

Ætli stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sé sammála afstöðu formannsins til skattaskjóls landa?
Eða er áhugi þeirra takmarkaður við meint bótasvik öryrkja og skattsvik almennings sem ekki á aurana sína geymda í Tortólum þessa heims?
Því á ég bágt með að trúa.

Nú er komið nóg

Ástæða þess að fólk ákveður að geyma peningana sína á Tortóla, Seychell-eyjum eða sambærilegum stöðum er einfaldur. Fólk vill koma peningunum sínum í skjól frá yfirvöldum í heimalöndum þess. Þar njóta eignir þeirra verndar og leynd hvílir yfir því hverjir eiga félögin og hvers eðlis þau eru að öðru leyti.
Með því að koma peningum sínum í slíkt skjól grafa eigendur þeirra vísvitandi undan efnahag og velferð í heimlöndum sínum.

Þrír ráðherrar ríkisstjórnar Íslands hafa orðið uppvísir að því að eiga eða hafa átt slík félög. Fjármálaráðherra, forsætisráðherra og innanríkisráðherra.
Innanríkisráðherrann sem er ráðherra dómsmála.
Fjármálaráðherrann sem hefur það hlutverk að efla og treysta efnahag landsins.
Forsætisráðherrann sem fer með forystu ríkisstjórnarinnar.

Öll hljóta þau að segja af sér á næstu dögum.
Ef ekki, þá verður að koma þeim frá völdum.

Blússandi ójöfnuður eða blússandi góðæri?

Í upphafi árs lítum við yfir farinn veg og stígum á stokk og heitum á okkur sjálf að ná árangri í þeim verkefnum sem við erum að kljást við hverju sinni. Á Alþingi eru það fjárlögin sem endurspegla stefnu hverrar ríkisstjórnar og stjórnarandstaðan glímir við að ná fram breytingum á í takt við stefnu sinna flokka. Stjórnarandstaðan lagðist öll á eitt við að ná fram leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja en það fór sem fór ríkisstjórnin sýndi enn og aftur sitt rétta andlit og sannaði það að hún þjónar fyrst og fremst efnafólki í landinu og vildi ekki koma til móts við kröfur aldraðra og öryrkja og hafi hún skömm fyrir !

Heilu málaflokkarnir fjársveltir

Það er nú ekki eins og þarna séu á ferðinni fjárlög sem hægt er að hrópa húrra fyrir. Við vitum að núverandi ríkisstjórn býr við allt aðrar aðstæður en fyrrverandi ríkisstjórn sem tók við afleiðingum efnahagshrunsins og lagði grunninn að þeim efnahagsbata sem nú er að skila sér. Nú hefði verið möguleiki á að vera með mikla innspýtingu í marga málaflokka sem þurftu því miður að taka á sig skerðingar á síðasta kjörtímabili. Það er löngu kominn tími á innviðauppbyggingu í samfélaginu og að tekið sé virkilega vel á í eflingu velferðarkerfisins. En því er ekki fyrir að fara. Heilu málaflokkarnir eru fjársveltir, s.s. heilbrigðis og samgöngumál, byggða- og sóknaráætlanir,stuðningur við brothættar byggðir minnkar, aðför er gerð að menntun á landsbyggðinni með takmörkun á aðgengi að námi 25 ára og eldri í framhaldsskóla og dregið er úr jöfnun námskostnaðar . Auknir fjármunir voru þó settir á lokametrunum í uppbyggingu háhraðatenginga á landsbyggðinni utan markaðssvæða og er það vel en betur má ef duga skal ef þessu verkefni á að ljúka innan fárra ára sem verður að gerast. Aðförin af Rúv heldur áfram og þó tekist hafi að fá skilyrta leiðréttingu á elleftu stundu þá dylst engum að það er verið að mylja undan stofnuninni sem á erfitt með að sinna  menningar og lýðræðislegu hlutverki sínu.

Vandræðagangur og óleyst verkefni

Það vantar  enn mikið upp á að búið sé að jafna orkukostnað í landinu. Mikill vandræðagangur er með að fjármagna það verkefni að fullu þó að vissulega hafi verið settir fjármunir í jöfnun húshitunar og í dreifingu á raforku þá er enn langt í land að íbúar landsins sitji þar við sama borð en það vantar enn að minnsta kosti 200–300 millj. kr. á ári til þess að hægt sé að tala um jöfnuð.  Í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða  eru settir alltof litlir fjármunir miðað við þá miklu fjölgun ferðamanna sem orðið hefur undanfarin ár og verður áfram og kallar á mikla innviðauppbyggingu til að verja landið ágangi . Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig mæta eigi þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við, sérstaklega hjá ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill oft gleymast að margir staðir á landsbyggðinni glíma líka við húsnæðisskort. Víða er það vandamál að fólk sem vill setjast að úti á landi fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér til þess að byggja því að eignin er verðfelld um leið og fasteignamat liggur fyrir. Í þeim málaflokki liggja ekki fyrir neinar heildarlausnir. Nú er rúmlega hálfnað þriðja ár þessarar ríkisstjórnar og það eru allt of litlir fjármunir sýnilegir í þessi brýnu verkefni.

Árás á kjör barnafólks og þeirra efnaminni

Vaxtabæturnar eru skornar niður um 1,5 milljarða og barnabætur fylgja ekki verðlagi. Fæðingarorlofssjóður er sveltur. En ríkisstjórnin heldur áfram að gefa á garðann hjá þeim efnameiri og lækka á þá skatta. Þá spyr maður sig : Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og aðstæður ?  Það er verið að vinna gegn þrepaskiptu skattkerfi og leggja það niður í áföngum, fleiri skattþrep eru miklu sanngjarnari gagnvart þeim tekjuminni. Eflaust hefði mátt endurskoða eitthvað prósentutöluna í því þrepaskipta skattkerfi sem komið var á á síðasta kjörtímabili og einnig bilið á milli þrepa. En fækkun þrepa þýðir bara eitt; það eru lægri skattar á þá efnameiri.

Ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu ríka fólksins

Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við völdum afsalað sér tekjum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auðlegðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda og tolla sem taka eiga gildi nú um næstu áramót í tveimur áföngum. En við skulum heldur ekki gleyma því að þessi ríkisstjórn hækkaði matarskattinn svo um munaði, úr 7% í 11% og lagði þar með þungar álögur á almenning. Ýmiss konar beinn kostnaður hjá almenningi er aukinn, bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lágum sköttum en íþyngja svo almenningi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekjuminni. Tryggingagjaldið er lækkað sáralítið, en lækkun þess hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi. Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa tekjum sínum sjálft og að skattar séu af hinu vonda. En ég tel að fólkið í landinu geri kröfu til jöfnuðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og góðra fjarskipta. Til þess þarf fjármuni. Einnig þarf fjármuni til að forgangsraða í þágu elli- og örorkulífeyrisþega svo að þeim séu tryggð mannsæmandi lífskjör. Ef það á að ganga eftir verða allir að leggja sitt af mörkum í sameiginlega sjóði og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni, sem eru orðin æði mörg og bíða úrlausnar.

Fjármunir sem hefðu nýst í brýn verkefni

Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórnin hefur afsalað sér í tekjum frá því að hún tók við árið 2013.  Þar má nefna uppbyggingu Landspítalans og önnur þjóðþrifamál, eins og bætt kjör elli- og örorkulífeyrisþega og innviðauppbyggingu samfélagsins. En þessi ríkisstjórn hefur valið að vinna fyrst og fremst með þeim efnameiri en skilja eftir þá sem minna mega sín. Þeir sitja eftir og það er bara staðreynd. Ójöfnuður í landinu er að aukast hratt og margar vísbendingar eru til þess að við séum að kynda upp í sömu atburðarrás og olli Hruninu fyrir 8 árum og að sömu flokkarnir beri þar megin ábyrgð á með aukinni misskiptingu og vondri efnahagsstjórn. Alltof stórir hópar eru að festast í fátæktargildru, veruleiki sem við sem rík þjóð eigum ekki að láta viðgangast. Allt tal um að nú sé skollið á blússandi góðæri  sker í eyrun þar sem það nær bara til þeirra útvöldu en þorri landsmanna stendur í þeim sporum að berjast við það að ná endum saman um hver mánaðarmót. Það hefur alla tíð verið ákveðin list stjórnvalda að blekkja með tölum og svara því til að af meðaltali hafi menn það bara fjári gott. Við skulum ætíð muna það að á bak við lágar tekjur og tölur og línurit og alls konar mælikvarða í excel-skjölum er fólk sem hefur sömu þarfir og þeir sem hafa miklar tekjur.

Stundaglas þessarar ríkisstjórnar er að tæmast

Þó tíminn þjóti framhjá alltof hratt þá er það þó bót í máli að lífdagar þessarar ríkisstjórnar  eru brátt á enda. Þetta hefur verið verklaus ríkisstjórn sem betur fer af því leiti að henni hefur þá ekki tekist að skemma meira en orðið er í velferðarkerfinu. Hún ætlaði að skattleggja kröfuhafa bankanna um mörg hundruð milljarða en það breyttist í miklu lægra stöðugleikaframlag á forsendum kröfuhafanna þar sem þeir eru nú lausir allra mála en enginn veit hvenær almenningur og fyrirtækin losna úr gjaldeyrishöftum og hvernig ríkinu gengur að breyta stöðugleikaframlaginu í fjármuni.  Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar  verður að vera að auka jöfnuð og velferð í landinu. Landsbyggðin má ekki verða einhver afgangsstærð þar liggja ótal möguleikar ef skatttekjur fá að skila sér þangað aftur í innviðauppbyggingu. Ég vil sjá nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, nýja stjórnarskrá með auðlindarákvæði,rétt til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu,umhverfisákvæði og fullveldisákvæði. Ég vil sjá jöfn tækifæri til menntunar og aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í sátt við umhverfið og að sjálfbærnisjónarmið séu höfð að leiðarljósi.

Er þetta ekki ágætur forgangslisti sem hægt er að framkvæma innan ramma ábyrgrar efnahagsstjórnar. Við íslendingar eigum að sjálfsögðu að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna í loftslagsmálum og þeim mikla flóttamannavanda sem blasir við þar skiptir okkar afstaða máli.

Ég óska landsmönnum gleðilegs árs og að nýtt ár megi verða okkur öllum gæfuríkt.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Verkin tala, eða hvað?

Nokkra athygli hefur vakið að undanförnu hversu lítið gengur undan ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Af einum 120 stjórnarþingmálum samkvæmt málalista ríkisstjórnarinnar fyrir jól hafa aðeins milli 20 og 30 sést ennþá. Frægt varð þegar ríkisstjórnin tók sér lengsta sumarfrí sem sögur fara af á lýðveldistímanum og felldi með öllu niður fundi í vel á annan mánuð. Formenn stjórnarflokkanna virðast vera á góðri leið með að ganga af stjórnarskrármálinu dauðu með seinagangi og undanbrögðum. Þeir leggja sjálfir til að formenn allra stjórnmálaflokka hittist áður en stjórnarskrárnefnd ljúki störfum, en boða svo ekki slíkan fund og voru reyndar báðir erlendis út þá viku sem þeir fóru að bera nauðsyn slíks fundar fyrir sig.

Nú getur margt verra hent en það að menn komi litlu í verk, einkum ef mönnum eru mislagðar hendur. Eða, eins og einn orðhagur frændi minn fyrir norðan sagði: „Það er vont ef hroðvirkir menn eru duglegir því þá gera þeir svo mikið illa.“ Vandinn er hins vegar sá að verkefnin blasa alls staðar við, bæði þau sem tengjast úrvinnslumálum eftir Hrun, viðfangsefni líðandi stundar og margvíslegur undirbúningur undir framtíðina. Landflóttinn, húsnæðismálin, fæðingarorlofið, styrking velferðarkerfisins og fjárfesting í innviðum samfélagsins í þágu betri framtíðar sem hvetji ungt fólk til framtíðarbúsetu hér. Af nógu er að taka.

Þá er athyglisverður listi þar sem ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar hafa einfaldlega gefist upp, jafnvel um eða fyrir mitt kjörtímabil. Örfá dæmi:

  • Sjávarútvegsráðherra gafst upp við breytingar á kvótakerfinu.
  • Iðnaðarráðherra gafst upp með náttúrupassann (sem betur fer vissulega), en upplausn ríkir í staðinn.
  • Utanríkisráðherra gafst upp með formlega afturköllun ESB-umsóknar.
  • Innanríkisráðherra virðist hafa gefist upp með sam­gönguáætlun (engin áætlun allt kjörtímabilið).
  • Félags- og húsnæðismálaráðherra virðist vera að gefast upp með húsnæðisfrumvörpin og Framsókn með afnám verðtryggingar (loforðið mikla). Fjármálaráðherra kennt um.

Verkin tala, eða hvað?

Katrín kalla eftir útspili ríkisstjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna spurði heilbrigðisráðherra um stöðu heilbrigðisstofnana eftir nýsett lög á verkföll hjúkrunarfræðinga og Bandalag háskólamanna. Katrín benti þær miklu uppsagnir sem framundan eru meðal hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og vísaði til orða heilbrigðisráðherra um að heilbrigðisstofnanir þyrftu að takast á við þennan veruleika. „Það er ekki hægt að vísa allri ábyrgð á því að takast á við þennan vanda, sem núna blasir við, yfir á stofnanirnar.“ sagði Katrín og spurði ráðherra að lokum: „Hvert verður framlag stjórnvalda til að leysa þennan brýna vanda heilbrigðisstofnana?“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagðist í svari sínu ekki hafa yfirsýn yfir þann vanda sem við blasti að öðru leyti en því að vandinn væri „klárlega vaxandi“. Ráðherra sagðist ekki sjá fram á lausn á vandanum á næstu vikum eða mánuðum enda legðust sumarleyfi starfsmanna ofan á vandann sem nú væri að skapast.

Í seinni ræðu sagði Katrín að brýn þörf væri á útspili stjórnvalda: „Ég get ekki annað en tekið mark á þeim forystumönnum innan heilbrigðisþjónustunnar sem hafa sagt að það þurfi að koma eitthvert nýtt útspil inn í þessa umræðu, inn í kjaraviðræður, til að skapa sátt,“ og tók undir orð Landlæknis um að skapa þyrfti viðvarandi vinnufrið innan heilbrigðiskerfisins. Ráðherra kynnti hins vegar ekkert nýtt útspil frá ríkisstjórninni til að bregðast við uppsögnum en talaði um að þörf væri á endurskipulagningu.

Áramótahugleiðing

Árið 2014 var gjöfult ár fyrir Ísland frá náttúrunnar hendi bæði til sjávar og sveita og einnig streymdu ferðamenn til landsins sem aldrei fyrr. Ef við sætum ekki uppi með þessa „Guðsvoluðu ríkisstjórn“ þá værum við sem þjóð í góðum málum og værum að komast út úr kreppunni byggja upp innviði samfélagsins og auka jöfnuð í landinu. Við værum að læra af biturri reynslu þess sem orsakaði Hrunið og snúa af leið græðgi,misskiptingar og einkavæðingar sameiginlegra auðlinda. En við erum þess í stað leidd aftur til slátrunar á altari mammons komin í sömu hringekjuna og við krössuðum í í Hruninu og vitum ekki hvar þessi ósköp enda.

Nú þurfum við sem þjóð í upphafi nýs árs að hrista af okkur slenið og láta ekki teyma okkur aftur á asnaeyrum út í fenið. Við þurfum að losa okkur við þessa óláns ríkisstjórn sem fyrst áður en henni tekst að eyðileggja velferðar og menntakerfið og innviði samfélagsins meir en komið er og koma hér á stjórn sem setur jöfnuð, réttlæti og sjálfbærni í forgang. Ég er að boða Byltingu! Því hún byrjar ávallt í hjarta og huga hvers og eins og með samtakamætti getur þjóðin snúið af sér þá niðurrifsstefnu sem birtist í síðustu fjárlögum þar sem þungar byrðar eru lagðar á þá sem minnst mega sín og hlaðið er undir valda og fjármagnseigendur landsins.

Við stöndum á krossgötum sem þjóð við höfum öll tækifæri á að búa vel að öllum íbúum landsins hvort sem þeir búa á Kópaskeri eða í Reykjavík við höfum efni á að reka gott heilbrigðiskerfi,efla menntun ,jafna kjör almennings óháð búsetu og bæta samgöngur og vernda náttúru landsins. Núverandi stjórnvöld eru búin að sýna á spilin og þau eru að stefna í allt aðra átt með sinni grjóthörðu hægristefnu þar sem ójöfnuður eykst og allt er falt fyrir peninga hvort sem það er náttúra landsins eða fiskurinn í sjónum. Þjóðin er svo sannarlega búin að fá nasaþefinn af því fyrir hverja þessi ríkisstjórn er að vinna og það er ekki almenningur í landinu sem er þar efstur á blaði heldur auðvaldið. Nú þurfum við að snúa bökum saman og losa þjóðina við þessa gæfulausu ríkisstjórn sem fyrst og koma hér á vinstri félagshyggjustjórn. Þegar það tekst þá eigum við að geta horft fram á betri tíma fyrir alla en ekki bara fyrir suma eins og nú er.

Með góðri nýárskveðju.
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Ráðalaus ríkisstjórn!

Allt virðist ætla að verða þessari ríkisstjórn að ógæfu. Það er eins og að hún sé ekkert í tengslum við almenning í landinu og ákvarðanatökur hennar lýsa skilngsleysi og skeitingarleysi á kjörum þess hluta þjóðarinnar sem þarf að hafa sig allan við til að ná endum saman. Auðveldara reynist henni að sýna samstöðu með þeim efnameiri og stórútgerðarfyrirtækjum landsins sem vafin eru í bómul og hlíft við samfélagslegri ábyrgð með því að greiða ekki sjálfsagða skatta og auðlindarrentu. Samráð virðist ekki vera til í hennar orðabók hvorki við stjórnarandstöðu,sveitarfélög né aðila vinnumarkaðarins.

Hvað skyldi nú vera innlegg ríkisstjórnarinnar í kjarasamningsviðræður sem framundan eru á almenna vinnumarkaðnum ? Jú það er hækkun á virðisaukaskatti á matvæli en láglaunafólk ver stórum hluta tekna sinna í matarinnkaup. Þá er það hækkun virðisaukaskatts á rafmagn og heitt vatn sem leggst þungt á svokölluð köld svæði sem oftar en ekki eru láglaunasvæði.

Bótatímabil atvinnuleysisbóta er stytt úr 3 árum í 2,5 ár og stórlega dregið úr framlögum til vinnumarkaðsmála og nokkrum útibúum Vinnumálastofnunar er lokað út um land. Hvert á þetta fólk að fara segja sig á sveitina ? Framlög til framhalds og vinnumarkaðsfræðslu í gegnum Vinnustaðanámssjóð eru skorin niður sem og námstækifæri fyrir atvinnuleitendur.

Framhaldsskólunum er ekki gert kleift að taka við eldri nemendum sem hafa hafið nám að nýju í gegnum ýmis úrræði eins og „Nám er vinnandi vegur“. Möguleikar fólks á vinnumarkaði til að sækja nám í framhaldsskólum eru þar með skertir mikið og framlag til framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun er skert mikið. Símenntunarstöðvar eru skornar niður við trog. Er það ekki þjóðfélagslega hagkvæmt að fólk hafi tækifæri til að afla sér menntunar á öllum aldri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðnum í framhaldinu ? Ég hefði haldið það.

Áfram eru boðaðar álögur á sjúklinga með mikilli hækkun á lyfja og lækniskostnaði. Ekkert bólar á byggingu nýs Landspítala þó þörfin sé brýn og uppsagnir og flótti heilbrigðisstétta haldi áfram ef ekkert verður aðgert.

Tillögur Vinstri grænna um að fjármagna byggingu nýs Landspítala með auðlegðarskatti liggja fyrir og ríkisstjórnin hefur það í hendi sér hvort þjóðin fái nýjan Landspítala sem þjónar nútímakröfum um hátækni og góða aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrgði lífeyrissjóða er skert um 20 % á ári næstu fimm árum. Þetta mun koma mjög illa við þá sjóði sem hafa mikla örorkubyrgði og mun skerða lífeyrisréttindi þessara sjóðfélaga mikið til framtíðar.

Stjórnvöld ákveða einhliða án nokkurs samráðs að falla frá þríhliða samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um fjármögnun á Virk starfsendurhæfingarsjóði sem skerða mun möguleika fólks sem lent hefur í alvarlegum slysum eða veikindum á að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ekki er gert ráð fyrir neinum auknum fjármunum til að mæta mikilli þörf fyrir úrbætur í húsnæðismálum, hvorki í almenna húsnæðiskerfinu eða félagslega kerfinu.

Einhverjum þætti þessi listi Ríkisstjórnarinnar sem innlegg inn í komandi kjarasamningsviðræður vera mikill eldiviður í harðar deilur á vinnumarkaðnum .

Samt er þetta ekki tæmandi listi í þeirri aðför að launafólki sem birtist í fjárlögum fyrir árið 2015.
Á sama tíma velur hún að lækka skatta á eigna og hátekjufólk og afsala sér tekjum af stórútgerðinni í veiðigjöldum.

Hvað gengur Ríkisstjórninni til vill hún rífa í sundur alla sátt í landinu um að eftir erfiðan niðurskurð í kjölfar Hrunsins eigi viðsnúningur í efnahags og atvinnulífi þjóðarinnar að sjálfsögðu að koma almennu launafólki til góða og nýtast til uppbyggingar í heilbrigðis,velferðar og menntakerfinu.

Þessi Ríkisstjórn er á hættulegri vegferð og við Vinstri græn munum beita okkur að fullum krafti við að koma í veg fyrir þá eyðileggingar starfsemi sem hér er á ferðinni.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþimgismaður VG