Posts

Valdið til fólksins

Þinghaldi fyrir jól er nú nýlokið, með samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár og annarra fjárlagatengdra mála. Margt má segja um forgangsröðun fjárlaganna, þar sem skattar eru hækkaðir á mat og menningu, skorið er niður hjá Ríkisútvarpinu og aðgangur að framhaldsskólum takmarkaður þannig að 25 ára og eldri eru útilokaðir frá námi. Þá er aukinn kostnaður lagður á herðar sjúklinga, t.d. með aukinni greiðsluþátttöku í sérhæfðum lyfjum. Á sama tíma er byrðum létt af tekjuhærri hópum, t.d. með afnámi auðlegðarskatts. Meðal annars vegna þessara mála hefur myndast gjá milli þings og þjóðar á undanförnum mánuðum, eins og fram kemur í skoðanakönnunum á fylgi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Rökræða í stað árása

Raunar held ég að sú gjá skýrist einnig af því hvernig forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað til þeirra sem eru ósammála þeim síðan þeir tóku við völdum. Fyrir nokkru greip forsætisráðherra til þess bellibragðs að saka stjórnarandstöðuna fyrirfram um að koma til með að segja ósatt í þinginu. Það gefur auga leið að slíkur málflutningur bætir ekki umræðuhefðina á Alþingi. Sömuleiðis er það áhyggjuefni að formaður fjárlaganefndar og þingflokksformaður Framsóknarflokksins skuli leynt og ljóst tengja niðurskurð á framlögum til RÚV við meinta ósanngjarna umfjöllun um flokkinn sinn.
Verst af öllu er þó hvernig ríkisstjórnin hefur talað til þjóðarinnar sjálfrar. Þeir sem gagnrýna ríkisstjórnina eru sagðir taka þátt í „loftárásum“ eða byggja skoðanir sínar á „misskilningi“. Í stað rökræðu um forgangsröðun og grunngildi samfélags okkar er fólki ítrekað stillt upp í lið – „við“ og „hinir“ – þar sem öll gagnrýni er gerð tortryggileg og þeim sem hafa aðra skoðun gerðar upp annarlegar hvatir.

Lýðræði á tímamótum

Framferði ríkisstjórnarinnar í þessum efnum veldur ekki aðeins eðlilegri gremju meðal þjóðarinnar heldur grefur það undan lýðræðinu. Það er forsenda lýðræðislegrar ákvarðanatöku að upplýsingar séu fyrir hendi og almenningur geti tekið þátt í opinberri umræðu án þess að vera átalið af valdafólki. Lýðræði þarf líka á því að halda að til séu óháðir fjölmiðlar sem miðla upplýsingum til fólksins með aðgengilegum hætti. Í fámennu samfélagi hefur almannaútvarpið þar feykimikilvægu hlutverki að gegna og því sérstakt áhyggjuefni að framlög þess séu skert.
En til framtíðar eigum við líka að huga að annars konar lýðræðisumbótum. Mikilvægt er að efla þjóðþingið gagnvart framkvæmdavaldinu og styrkja þannig fulltrúalýðræðið. Samhliða því er líka brýnt að setja sem fyrst ákvæði í stjórnarskrá um að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu Þannig hefði til dæmis mátt knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lækkun veiðigjalda en 35 þúsund Íslendingar skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja þeim lögum samþykktar. Því miður voru lögin hins vegar samþykkt, og það þó að skoðanakannanir hafi sýnt að 70% þjóðarinnar væru þeim andsnúin.

Þátttökulýðræði

Þó að mikilvægt sé að setja skýr ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur er einnig rétt að huga að því að lýðræði snýst ekki einungis um atkvæðagreiðslur. Okkur hættir til að hugsa um lýðræði sem eitthvað sem gerist í kjörklefanum en í reynd snýst það að sjálfsögðu um að almenningur – „lýðurinn“ – taki þátt í að móta samfélag sitt. Undanfarin ár hafa ýmsar athyglisverðar tilraunir verið gerðar til að auka þátttöku almennings í opinberri stefnumótun og þar með styrkja stoðir lýðræðisins.
Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu. Lýðræðistilraunir af þessu hafa verið settar af stað í ótal löndum, þar á meðal í Danmörku, Bandaríkjunum, Brasilíu og Japan. Reyndar höfum við Íslendingar einnig verið framarlega á þessu sviði, því sú vinna sem fram fór í tíð síðustu ríkisstjórnar við gerð nýrrar stjórnarskrár – með þjóðfundi, stjórnlagaráði og þjóðaratkvæðagreiðslu – hefur vakið athygli erlendis. Við þurfum að halda áfram á þessa leið á næstu árum og styrkja þannig stoðir lýðræðisins. Þannig getum við tekið betri og lýðræðislegar ákvarðanir.
Að lokum óska ég landsmönnum öllum gleðilegra jóla og friðar yfir hátíðirnar, með von um að við sjáum frekari lýðræðisumbætur á komandi ári.

Katrín Jakobsdóttir

Í sýnd og reynd

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að vandað sé til verka í fjárlagavinnu hvers árs, enda ákvarða fjárlögin í raun meginstefnu stjórnvalda í öllum helstu málaflokkum. Fjárlögin hljóta að eiga að byggjast á vandaðri stefnumótun og löggjöf Alþingis í ólíkum málaflokkum. Því miður hefur skort talsvert upp á þetta í fjárlagavinnu þessa árs.

Munur á sýnd og reynd

Í ýmsum veigamiklum málum liggur fyrir yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar en henni er því miður ekki fylgt eftir með fjárveitingum á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Sama má segja um gildandi löggjöf þar sem fjárveitingar fylgja ekki lögbundnum skyldum. Ekki er greitt með fimm hundruð nemendaígildum í Háskóla Íslands á næsta ári þó að engin stefna hafi verið mörkuð um annað en að skólinn eigi að taka á móti öllum sem uppfylla inntökuskilyrði. Landspítala-Háskólasjúkrahúsi er gert að henda út verkefnum því að sjúkrahúsið fær ekki nægilegt fé til að sinna öllu því sem honum er ætlað að sinna. Ríkisútvarpið fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín og getur því ekki sinnt því hlutverki sem því er markað á nýlegri löggjöf frá 2013.

Þá má nefna að ríkisstjórnin starfar eftir svokallaðri aðgerðaáætlun um loftslagsmál, sem er mikilvægt tæki til að takast á við eitt mikilvægasta úrlausnarefni okkar samtíðar. Í áætluninni er meðal annars kveðið á um að efla skuli almenningssamgöngur en samt eru þær skornar niður í fjárlagafrumvarpinu. Í þróunarsamvinnuáætlun sem samþykkt var á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum nema einu en samkvæmt henni áttu framlög Íslands að nema 0,35% af VÞT árið 2015, en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta hlutfalli lækki og verði aðeins 0,22%. Þetta er ekki heldur í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem sagt er að lögð verði áhersla á þróunarsamvinnu í utanríkismálum.

Innviðir grotna niður

Það er líka sérstakt áhyggjuefni hvernig fjárlagafrumvarpið grefur undan áætlun um uppbyggingu innviða samfélagsins sem almenn samstaða hefur verið um. Síðastliðið vor var lögð fram á Alþingi samgönguáætlun til fjögurra ára en hún er skorin niður um rúma þrjá milljarða króna í fjárlagafrumvarpinu. Fram hefur komið í fréttum að af þessum sökum telji vegamálastjóri að engin ný stór verkefni verði boðin út í vegagerð á næsta ári. Enn alvarlegra er að ekkert bólar á fjármunum til að byggja nýjan Landspítala, en þingsályktun þess efnis var samþykkt á Alþingi síðastliðið vor með öllum greiddum atkvæðum. Eins og flestir vita þolir endurnýjun húsnæðis LSH enga bið.

Matarskattsleikrit

Að lokum verður að nefna matarskattsleikritið sem almenningur fær núna að fylgjast með og minnir einmitt á einhvers konar sýndarveruleika. Í fjárlagafrumvarpinu sem dreift var í upphafi vetrar er kveðið á um að virðisaukaskattur á mat og menningu verði hækkaður úr 7% í 11%. Í glærukynningu fjármálaráðuneytisins um sama efni var síðari talan hins vegar sögð vera 12% í stað 11%. Gefin var út yfirlýsing í framhaldinu þar sem glærusýningin var sögð gilda en ekki þær upplýsingar sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Nú í gær bárust hins vegar þær fregnir að virðisaukaskatturinn yrði eftir allt hækkaður í 11% en ekki tólf.

Ef þetta verður raunin hlýtur maður að spyrja hvort hér hafi verið sett á svið leikrit til að ríkisstjórnarflokkarnir geti stært sig af því að hafa komið til móts við kröfur almennings í landinu þegar raunin er að gert var ráð fyrir hækkun í 11% allt frá upphafi. Að þessu spurði ég í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra nú í september og það væri nú dapurlegt ef rétt reyndist. Það er að minnsta kosti ekki til marks um traust vinnubrögð í þessu stærsta máli hverrar ríkisstjórnar, fremur en önnur þau dæmi sem ég hef hér nefnt.

Katrín Jakobsdóttir

Katrín þrýsti á um aðgerðir til fjölmiðlafrelsis

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og fyrrverandi menntamálaráðherra, tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi til að ræða úttekt Fréttamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi á Íslandi þar sem lýst er áhyggjum af stöðu upplýsingafrelsis á Íslandi. „Nefnd eru dæmi þar sem stjórnmálamenn, þ. á m. háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar hafa gagnrýnt Ríkisútvarpið fyrir að vera of hallt undir Evrópusambandið og vinstristefnu, neitað að veita viðtöl nema með skilyrðum og sett þetta í samhengi við fjárveitingar til stofnunarinnar,“ sagði Katrín og bætti við að búið væri að skera verulega niður til stofnunarinnar undanfarin ár með skerðingu á útvarpsgjaldinu. „Tekið er sérstaklega fram að dregið hafi umtalsvert úr upplýsingafrelsi á síðustu tveimur árum – nokkurn veginn síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum.“

Katrín spurði menntamálaráðherra um viðbrögð hans við úttektinni „og hvort hann telji ástæðu til þess í fyrsta lagi að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins sem enn og aftur fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín?“ Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra svaraði því til að verið sé að skoða fjármögnun Ríkisútvapsins „og væntanlega mun þá það birtast hér í meðförum þingsins á fjárlagafrumvarpinu“.

Katrín spurði einnig „hvort hæstvirtur ráðherra telji ekki að styrkja þurfi stöðu fjölmiðlanefndar sem núverandi stjórnarmeirihluti skar svo rækilega niður í síðustu fjárlögum að hún hefur engan veginn bolmagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem skilgreint er í fjölmiðlalögum?“ Menntamálaráðherra sagðist ekki hafa neinar tillögur um að auka aftur fjármagn til fjölmiðlanefndar.

Í seinni ræðu seinni spurði Katrín hvort ekki væri ástæða til að fara vel yfir fjölmiðlaumhverfi á Íslandi í ljósi stöðunnar sem uppi er, m.a. út frá nýlegum dómi mannréttindadómstóls Evrópu í máli Erlu Hlynsdóttur. Menntamálaráðherra svaraði ekki fyrirspurninni en benti þess í stað aftur á bágu fjárhagsstöðu Rúv sem hann sagði að „hlyti að kalla á endurskoðun“.

Katrín Jakobsdóttir lagði á dögunum fram frumvarp sem kvað á um að útvarpsgjald skyldi renna óskipt til Ríkisútvarpsins og ekki skerðast ár frá ári eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum sem sett voru í tíð núverandi ríkisstjórnar.

RÚV fái óskert útvarpsgjald

Katrín Jakobsdóttir hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að útvarpsgjald renni óskert til Ríkisútvarpsins eins og gert var ráð fyrir í lögum sem sett voru í tíð hennar sem menntamálaráðherra. Meðflutningsmenn á frumvarpinu eru Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson og Birgitta Jónsdóttir.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur útvarpsstjóri bent á að bág rekstrarstaða RÚV á rætur að rekja til þess að útvarpsgjaldið sem ætti að renna til RÚV hefur á undanförnum árum ekki farið óskipt til stofnunarinnar. Auk þess hefur núverandi ríkisstjórn áform um að lækka útvarpsgjaldið í áföngum og ljóst að Ríkisútvarpið hefur ekki burði til að standa undir slíkum niðurskurði ef það á að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem almannaútvarp.

Í greinargerð frumvarpsins er einnig bent á að mikilvægt sé fyrir almannafjölmiðil eins og Ríkisútvarpið að vera fjárhagslega óháður hinu pólitíska og efnahagslega valdi. Þar segir meðal annars: „Verði sjálfstæði Ríkisútvarpsins ekki tryggt er vegið að getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu sem á að vera fær um að veita nauðsynlegt aðhald stjórnvöldum á hverjum tíma, vera vettvangur skoðanaskipta, vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða öðrum aðilum mislíkar.“ Með því að tryggja í lögum að útvarpsgjaldið skuli renna óskipt til RÚV sé þannig stuðlað að því að stofnunin geti sinnt sínu lýðræðislega hlutverki af fullum krafti.