Posts

Alvarleg staða í íslenskum stjórnmálum

Komin er upp mjög alvarleg staða í íslenskum stjórnmálum. Forsætisráðherra hefur orðið uppvís að því að hafa, ásamt konu sinni, flutt mikla fjármuni úr landi árið 2008  nokkrum mánuðum fyrir Hrun. Það gerðu þau með því að kaupa félagið Wintris Inc. af Landsbanka Íslands en félagið var og er skráð á Tortóla sem þekkt er meðal auðmanna sem skjól undan sköttum í heimalöndum þeirra. Ríflega ári síðar flutti forsætisráðherra eign sína í félaginu yfir á konu sína sem þar með var ein skráður eigandi félagsins samkvæmt upplýsingum sem hún hefur gefið fjölmiðlum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá eiginkonu forsætisráðherra.
Félagið Wintris Inc. varð síðar kröfuhafi í alla íslensku bankana upp á ríflega 500 milljónir króna.

Ekkert af þessu er ólöglegt. Um það hefur enginn efast, mér vitanlega. Enginn þingmaður hefur kallað eftir því að ræða fjármál eiginkonu forsætisráðherra en óskað hefur verið eftir því að ráðherrann útskýri sín mál fyrir þinginu. Eðlilega.

Það sem er alvarlegt við þetta er að forsætisráðherra hefur leynt þing og þjóð þessum upplýsingum. Hann hefur engum sagt frá hagsmunatengslum sínum við peningafélag í eigu hans og eiginkonu sinnar (síðar alfarið í eigu konunnar), skráðu á Tortóla og að það hafi verið meðal kröfuhafa í bankana. Hann segir sjálfur að það hafi hvarflað að honum  að upplýsa allt þetta fyrir kosningarnar 2013 en hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að gera það ekki og halda þessu áfram leyndu.
Það hefur einnig komið í ljós að hann upplýsti ekki sinn nánasta pólitíska samstarfsaðila, fjármálaráðherra og formann sjálfstæðisflokksins um málið. Í þau þrjú ár sem þeir hafa setið saman í ríkisstjórn vissi fjármálaráðherra því aldrei um hagsmunatengsl forsætisráðherra (link is external) við kröfuhafa í bankana. Á þeim þremur árum hafði forsætisráðherra allar upplýsingar sem varðaði íslenska ríkið varðandi samninga við kröfuhafa og sumar þeirra líklega beint frá fjármálaráðherra. Forsætisráðherra hefur meðvitað í tæp 7 ár haldið þessu leyndu og hafði ekki í hyggju að segja frá. Það var ekki fyrr en fjölmiðlar fóru að spyrjast fyrir að ekki varð lengur undan því vikist að upplýsa um það sem spurt var eftir.

Það er alvarlegt mál þegar forsætisráðherra þjóðarinnar fer á bak við þing og þjóð með framangreindum hætti. Það er alvarlegt mál þegar forsætisráðherra ákveður að færa persónulegar eignir úr landi í þekkt skjól auðmanna á Tortóla. Það er ekki ólöglegt. Það er ekki bannað. Þetta má.
En það er grafalvarlegt þegar forsætisráherra á í hlut og ber að taka því þannig. Og það er alvarlegt þegar forsætisráðherra neitar að gera Alþingi grein fyrir þessum málum sínum.
Af framangreindum ástæðum og mörgum fleirum er komin upp grafalvarleg staða í íslenskum stjórnmálum sem verður að leysa úr.

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG og varaþingmaður

Frumvarp um glufur í skattalöggjöfinni fast í ráðuneyti

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um skattaundanskot á Alþingi í dag.

Katrín benti á að hún hefði lagt fram frumvarp á síðasta þingi til að loka glufum í skattalöggjöf en þar er tekið á svokallaðri þunnri eiginfjármögnun. Í þunnri eiginfjármögnun felst að fyrirtæki láni tengdum félögum, s.s. dótturfélagi, í þeim tilgangi að komast hjá því að greiða skatta af hagnaði í því landi sem dótturfélagið starfar í. „Þetta er eitthvað sem mörg ríki heims hafa verið að taka á, OECD hefur verið að benda á að þarna þurfi ríki heimsins að samræma sína löggjöf, og það sama hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gert hér á landi.“ Efnahags- og viðskiptanefnd tók öll undir meginefni frumvarpsins á síðasta ári en Katrín benti á að „þetta mál væri hvergi á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þó að málinu hafi verið vísað til ríkisstjórnarinnar“. Katrín spurði forsætisráðherra hvort hann teldi ekki rétt að málinu yrði lokið og það lagt fram í vor.

Í ræðu sinni sagði forsætisráðherra mikilvægt að hámarka skatttekjur af starfsemi hér á landi en svaraði forsætisráðherra því hins vegar ekki hvort til stæði að leggja frumvarpið fram á vorþinginu. Katrín ítrekaði spurningu sína um hvað forsætisráðherra fyndist um að mál hennar um þunna eiginfjármögnun sæti fast í fjármálaráðuneytinu „í ljósi þess að ég hefði talið að hér ætti að ríkja þverpólitísk sátt um að það væri forgangsatriði að búa okkar skattkerfi þannig úr garði að þar leggi allir sitt af mörkum.“ Forsætisráðherra sagðist sammála þessari meginhugsun en gaf ekki frekari svör.

Katrín spyr um forgangsröðun vegna skuldaniðurfellingar

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði forsætisráðherra um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar vegna skuldaniðurfellingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Katrín benti á að ákveðið hafi verið að flýta skuldaniðurfellingunni vegna bættrar afkomu ríkissjóðs. „Og þá hljóta auðvitað að vakna spurningar um forgangsröðun,“ sagði Katrín og bætti við: „Á sama tíma og þessi aðgerð er kynnt er lagt fram fjáraukalagafrumvarp þar sem ekki er gert ráð fyrir aukafé í rekstur Landspítalans sem ég hef þó ekki heyrt annað en að fulltrúar allra flokka hafi talað hér um sem algjört forgangsmál.“ Katrín sagði að áhyggjur almennings af heilbrigðiskerfinu fari vaxandi og spurði að lokum hvers vegna bætt afkoma ríkissjóðs sé ekki nýtt til að horfa sérstaklega til heilbrigðisþjónustunnar.

Í svari sínu tók forsætisráðherra undir að margir hafi áhyggjur af stöðu heilbrigðiskerfisins en gagnrýndi niðurskurð á síðasta kjörtímabili. Katrín gerði þessi ummæli ráðherra að umtalsefni í seinni ræðu sinni: „Hæstvirtur forsætisráðherra hóf mál sitt í stjórnarandstöðu eins og hans er siður hér í þinginu og ég reikna með því hins vegar að þegar kjörtímabilið er hálfnað fari forsætisráðherra í ríkisstjórn.“ Að lokum spurði Katrín hvort forsætisráðherra vildi skapa víðtækari sátt um uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu en því svaraði forsætisráðherra ekki í seinna svari sínu.

Katrín Jakobsdóttir hefur einnig lagt fram fyrirspurn í 15 liðum um skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar, m.a. um hvernig heildarupphæðin skiptist milli mismunandi tekju- og aldurshópa og milli frádráttarliða og höfuðstólslækkun.

Misræmi í loftslagsmálum

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vakti athygli á misræmi í orðum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum undir liðnum Störf þingsins á Alþingi í dag. Katrín benti á að forsætisráðherra hefði á lýst yfir stuðningi við yfirlýsinguna „Verðleggjum kolefni“ (e. „Putting a Price on Carbon“) en þar segir að stjórnvöld heiti því að vinna að því að styrkja gjaldtöku af losun kolefnis og fylgja henni betur eftir.

Katrín benti á að þetta samrýmist ekki aðgerðum ríkisstjórnarinnar: „Þetta er mjög athyglisverð og mikilvæg yfirlýsing í ljósi þess að ríkisstjórnin lækkaði kolefnisgjöld hér síðastliðið vor, og reyndar stendur líka til að lækka losunargjald vegna gjaldskyldrar losunar á gróðurhúsalofttegundum ef marka má frumvarp um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga,“ sagði Katrín og bætti við: „Ekki nóg með það heldur er líka kveðið á um að Loftslagssjóður, sem á að fjármagna rannsóknir í loftslagsmálum, fái ekki lengur helming þessa losunargjalds en það hefur hingað til verið eina fjármögnunarleið sjóðsins og því allsendis óvíst um hvernig sjóðurinn á að fjármagna sig.“

Katrín sagðist búast við breytingum á fjárlagafrumvarpinu í takt við nýjar yfirlýsingar forsætisráðherra: „Ég túlka yfirlýsingu forsætisráðherra sem svo að hún marki algjöra stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og fagna því að forsætisráðherra hefur lagt þarna nýja línu,“ sagði Katrín og bætti við: „Gjaldtaka af losun kolefnis er ein leið til að sporna gegn loftslagsbreytingum sem eru stærsta og mikilvægasta mál okkar samtíðar eins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur bent á. Ég treysti því að við munum sjá miklar breytingar á fjárlagafrumvarpinu og styrkingu kolefnisgjaldtökunnar sem forsætisráðherra hefur lýst yfir stuðningi við.“

Kemur fjárlagafrumvarpið betur út fyrir alla hópa?

„Telur hæstvirtur forsætisráðherra að sú umræða sem þegar hefur farið fram bendi til þess að þetta frumvarp komi virkilega betur út fyrir alla hópa samfélagsins?,“ spurði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Í inngangi að spurningu sinni rifjaði Katrín upp að fram hafi komið að þingflokkur Framsóknarflokkssins hafi sett almenna fyrirvara við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í svari sínu sagði Sigmundur Davíð að hinn almenni fyrirvari Framsóknarflokksin við fjárlagafrumvarpið lúti að því að frumvarpið nái þeim markmiðum að auka ráðstöfunartekjur allra hópa og lækka verðlag í landinu.

„Við fáum hér yfirlýsingu frá Alþýðusambandi Íslands sem lýsir þessu frumvarpi sem aðför að launafólki og tekur að einhverju leyti undir áhyggjur hæstvirts forsætisráðherra frá því fyrir nokkrum árum,“ sagði Katrín. „En við erum líka að sjá margar ályktanir frá félögum Framsóknarflokksins um land allt, félagsmenn í þessum flokki lýsa yfir áhyggjum af þeim fyriráætlunum að hækka eigi matarskatt“. Síðan spurði Katrín: „Telur hæstvirtur forsætisráðherra að sú umræða sem þegar hefur farið fram bendi til þess að þetta frumvarp komi virkilega betur út fyrir alla hópa samfélagsins?“

Virkja meira er svar ríkisstjórnarinnar

[vc_row][vc_column width=”1/1″][vc_column_text]Katrín Jakobsdóttir spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Alþingi í dag um sýn hans á niðurstöðu skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna og stefnu ríkisstjórninnar í málinu.

Katrín spurði Sigmund síðan hvort hann deildi þeim þungu áhyggjum sem flestir hefðu af hinum hnattræna vanda sem stafar af loftslagsbreytingum. „Ég hef mikinn áhuga á að heyra sýn hæstvirts forsætisráðherra á þær breytingar sem nú er í raun og veru verið að staðfesta með hverri skýrslunni á fætur annarri“, sagði Katrín og bætti við: „Og þá einmitt hvað hann sér fyrir sér að geti verið framlag Íslands til að draga úr þessum breytingum á heimsvísu?“ Katrín spurði einnig hvort ekki þyrfti að draga úr orkunotkun og neyslu og benti í því samhengi á að ef allir jarðarbúar hefðu sömu lifnaðarhætti og Íslendingar, þyrfti margar jarðir til að standa undir því.

Myndband væntanlegt

Sigmundur sagði að hann vildi að íslensk stjórnvöld legðu sitt lóð á vogaskálarnar með því að framleiða meira af því sem hann kallaði „umhverfisvæna orku“. Hann sagði mikilvægt að draga úr orkunotkun, en þó sérstaklega í þeim löndum sem framleiða orku á mengandi hátt. „Og þar geta Íslendingar auðvitað hjálpað til líka eins og við erum að gera með því að aðstoða önnur lönd við að nýta sjálfbæra orkugjafa,“ sagði Sigmundur. Í umræðunum kom hann hins vegar ekkert inn á þau auknu tækifæri til olíu og gasvinnslu sem hann sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær felast í loftslagsbreytingum.[/vc_column_text][/vc_column][/vc_row][vc_row bg_image_repeat=””][vc_column width=”1/1″][vc_facebook type=”standard”][/vc_column][/vc_row][vc_row][vc_column width=”1/1″][vc_tweetmeme type=”horizontal”][/vc_column][/vc_row][vc_row][vc_column width=”1/1″][vc_googleplus type=”” annotation=”inline”][/vc_column][/vc_row]

Óboðleg framkoma forsætisráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var gagnrýndur á Alþingi í dag fyrir óboðlega framkomu í samskiptum við Alþingi. Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna var meðal þeirra sem gagnrýndu hann og sagði hún að tónn forsætisráðherra í garð þingsins einkenndist á köflum af lítilsvirðingu og boðaði að hún myndi taka málið upp á vettvangi þingflokksformanna.

Einföld samskipti ráðherra um megn

Svandís kvað sér hljóðs í umræðum um störf þingsins til þess að ræða samskipti þingsins og framkvæmdavaldsins. „Mig langar í fyrsta lagi nefna ellefu daga hlé á fundum þingsins þar sem forsætisráðherra fékk það einfalda verkefni að ræða við forystumenn stjórnmálaflokkanna og það varð honum um megn. Og undir þrýstingi hér eftir að þingfundur hófst þá fékkst hann til þess að halda þann fund,“ sagði hún.

Vill ekki ræða SMS-styrki

Svandís gagnrýndi eins og fleiri þingmenn hversu illa gengi að fá forsætisráðherra til að taka þátt í sérstökum umræðum á þinginu sem hann vörðuðu. Sérstaklega var nefnt sem nýlegt dæmi þar um að hann hafi ekki orðið við beiðni um að taka þátt sérstökum umræðum um fjölda styrkja sem hann hefur veitt til verkefna á sviði menningarmála, svokallaðra “SMS-styrkja“.

„Nú er það svo að frá síðustu kosningum þá hafa verið allt að 45 sérstakar umræður og ein af þeim er umræða þar sem hæstvirtur forsætisráðherra hefur látið svo lítið að eiga við þingmenn,“ sagði Svandís og bætti við: „Það er ekki eins og ekki hafi verið tilefni til því mér sýnist að flestir þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafi lagt inn beiðni um sérstaka umræðu á hæstvirtan forsætisráðherra sem að viðkomandi hefur síðan eftir drjúga bið dregið til baka.“

Hæðir, spottar og lítilsvirðir þingið

„Þetta er fullkomlega óviðunandi að því er varðar samskipti framkvæmdarvaldsins við þingið,“ sagði Svandís og bætti við: „Og í samhengi við það hvernig tóninn er oftar en ekki af hendi forsætisráðherra í garð þingsins, sem er stundum spott og stundum háð, stundum lítilsvirðing, oft svarað úr og í, að þá finnst mér ástæða til þess virðurlegur forseti að við stöldrum við þetta í samskiptum þingsins við framkvæmdarvaldið“. Hún boðaði að lokum að hún myndi taka málið upp sérstaklega á vettvangi þingflokksformanna.