Posts

Velferðin er ekki til sölu!

Af skrifum Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, borgarfulltrúa og fulltrúa sjálfstæðisflokks í Velferðaráði í Morgunblaðið á dögunum, ásamt viðtali við hana í Fréttablaðinu í dag má glöggt sjá að stefna sjálfstæðismanna snýst um það að einkavæða velferðarkerfið og bjóða betri þjónustu til þeirra sem hafa efni á að borga.

Langflestir íslendingar (yfir 90%) eru þeirrar skoðunar að greiða skuli fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustu úr sameiginlegum sjóðum. Í einhverjum tilfellum má velferðarþjónusta vera á hendi styrktar- og eða góðgerðarfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þeir sem fá opinbert fé til að veita slíka þjónustu eiga eðlilega að gera grein fyrir hverri krónu og tryggja verður að opinbert fé fari ekki í arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja.

Það á að vera metnaður okkar allra að tryggja það að ríki og sveitarfélög veiti öllum öfluga heilbrigðis- og velferðarþjónustu, óháð efnahag. Framtíðarsýn sem byggist á því að sumir geti borgað aukalega fyrir betri þjónustu er sýn sem ég deili ekki. Það er skrýtið að líta á það sem forgangsverkefni að veita fé í arðgreiðslna til gróðardrifinna fyrirtækja á markaði, í stað þess að forgangsraða sama fé í þjónustuna sjálfa. Það nýtist nefnilega öllum, líka þeim fátæku. Um þessi áform hef ég aðeins eitt að segja. Velferðin er ekki til sölu.

Elín Oddný Sigurðardóttir er fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar

Valdið til fólksins

Þinghaldi fyrir jól er nú nýlokið, með samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár og annarra fjárlagatengdra mála. Margt má segja um forgangsröðun fjárlaganna, þar sem skattar eru hækkaðir á mat og menningu, skorið er niður hjá Ríkisútvarpinu og aðgangur að framhaldsskólum takmarkaður þannig að 25 ára og eldri eru útilokaðir frá námi. Þá er aukinn kostnaður lagður á herðar sjúklinga, t.d. með aukinni greiðsluþátttöku í sérhæfðum lyfjum. Á sama tíma er byrðum létt af tekjuhærri hópum, t.d. með afnámi auðlegðarskatts. Meðal annars vegna þessara mála hefur myndast gjá milli þings og þjóðar á undanförnum mánuðum, eins og fram kemur í skoðanakönnunum á fylgi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Rökræða í stað árása

Raunar held ég að sú gjá skýrist einnig af því hvernig forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað til þeirra sem eru ósammála þeim síðan þeir tóku við völdum. Fyrir nokkru greip forsætisráðherra til þess bellibragðs að saka stjórnarandstöðuna fyrirfram um að koma til með að segja ósatt í þinginu. Það gefur auga leið að slíkur málflutningur bætir ekki umræðuhefðina á Alþingi. Sömuleiðis er það áhyggjuefni að formaður fjárlaganefndar og þingflokksformaður Framsóknarflokksins skuli leynt og ljóst tengja niðurskurð á framlögum til RÚV við meinta ósanngjarna umfjöllun um flokkinn sinn.
Verst af öllu er þó hvernig ríkisstjórnin hefur talað til þjóðarinnar sjálfrar. Þeir sem gagnrýna ríkisstjórnina eru sagðir taka þátt í „loftárásum“ eða byggja skoðanir sínar á „misskilningi“. Í stað rökræðu um forgangsröðun og grunngildi samfélags okkar er fólki ítrekað stillt upp í lið – „við“ og „hinir“ – þar sem öll gagnrýni er gerð tortryggileg og þeim sem hafa aðra skoðun gerðar upp annarlegar hvatir.

Lýðræði á tímamótum

Framferði ríkisstjórnarinnar í þessum efnum veldur ekki aðeins eðlilegri gremju meðal þjóðarinnar heldur grefur það undan lýðræðinu. Það er forsenda lýðræðislegrar ákvarðanatöku að upplýsingar séu fyrir hendi og almenningur geti tekið þátt í opinberri umræðu án þess að vera átalið af valdafólki. Lýðræði þarf líka á því að halda að til séu óháðir fjölmiðlar sem miðla upplýsingum til fólksins með aðgengilegum hætti. Í fámennu samfélagi hefur almannaútvarpið þar feykimikilvægu hlutverki að gegna og því sérstakt áhyggjuefni að framlög þess séu skert.
En til framtíðar eigum við líka að huga að annars konar lýðræðisumbótum. Mikilvægt er að efla þjóðþingið gagnvart framkvæmdavaldinu og styrkja þannig fulltrúalýðræðið. Samhliða því er líka brýnt að setja sem fyrst ákvæði í stjórnarskrá um að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu Þannig hefði til dæmis mátt knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lækkun veiðigjalda en 35 þúsund Íslendingar skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja þeim lögum samþykktar. Því miður voru lögin hins vegar samþykkt, og það þó að skoðanakannanir hafi sýnt að 70% þjóðarinnar væru þeim andsnúin.

Þátttökulýðræði

Þó að mikilvægt sé að setja skýr ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur er einnig rétt að huga að því að lýðræði snýst ekki einungis um atkvæðagreiðslur. Okkur hættir til að hugsa um lýðræði sem eitthvað sem gerist í kjörklefanum en í reynd snýst það að sjálfsögðu um að almenningur – „lýðurinn“ – taki þátt í að móta samfélag sitt. Undanfarin ár hafa ýmsar athyglisverðar tilraunir verið gerðar til að auka þátttöku almennings í opinberri stefnumótun og þar með styrkja stoðir lýðræðisins.
Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu. Lýðræðistilraunir af þessu hafa verið settar af stað í ótal löndum, þar á meðal í Danmörku, Bandaríkjunum, Brasilíu og Japan. Reyndar höfum við Íslendingar einnig verið framarlega á þessu sviði, því sú vinna sem fram fór í tíð síðustu ríkisstjórnar við gerð nýrrar stjórnarskrár – með þjóðfundi, stjórnlagaráði og þjóðaratkvæðagreiðslu – hefur vakið athygli erlendis. Við þurfum að halda áfram á þessa leið á næstu árum og styrkja þannig stoðir lýðræðisins. Þannig getum við tekið betri og lýðræðislegar ákvarðanir.
Að lokum óska ég landsmönnum öllum gleðilegra jóla og friðar yfir hátíðirnar, með von um að við sjáum frekari lýðræðisumbætur á komandi ári.

Katrín Jakobsdóttir

Á að skerða ferðafrelsi?

Á næstu dögum hyggst iðnaðarráðherra leggja fram margboðað frumvarp um náttúrupassa. Samkvæmt fréttum á hver Íslendingur að kaupa passa á 1500 krónur til að fá að horfa á Dettifoss, Gullfoss og hinar náttúruperlurnar sem hingað til hafa verið álitnar sameign þjóðarinnar.

Samtök helstu ferðaþjónustuaðila hafa lýst því yfir að þau leggist gegn þessum hugmyndum þar sem nýtt gjald á ferðamenn og eftirlit með þeirri gjaldtöku geti haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Bent hefur verið á að áhrifin af því að selja inn á helstu náttúruperlur Íslands grafi undan þeirri ímynd Íslands sem ósnortið land sem mörgum áratugum hefur verið eytt í að byggja upp. Þá hefur verið gagnrýnt að náttúrupassafyrirkomulagið geri ráð fyrir því að lögreglan eða aðrir aðilar stundi eftirlit við náttúruvætti. Niðurstaða samtaka ferðaþjónustuaðila er að heillavænlegra sé að hækka gistináttaskatt.

En þessi rök ferðaþjónustunnar eru ekki einu rökin gegn þessum hugmyndum ráðherrans sem eru mjög á skjön við þær leiðir sem aðrar þjóðir hafa valið til að vernda viðkvæm svæði. Langflestar þjóðir hafa valið að sækja fé í gegnum hið almenna skattkerfi, með farseðlasköttum eða gistináttagjöldum. Náttúrupassinn verður líklega sýnidæmi um séríslenskar „lausnir“, þó ekki endilega til mikils sóma. Mestu máli skiptir þó að þetta sérstaka gjaldtökukerfi, sem mun kosta sitt, mun stangast á við almannarétt sem hefur verið tryggður í íslenskum lögum allt frá Jónsbók og þyrfti að afnema með lagabreytingu ef náttúrupassinn á að verða að veruleika.

Með náttúrupassanum hyggst Sjálfstæðisflokkurinn, sem eitt sinn þóttist vera boðberi frelsis, beinlínis skerða ferðafrelsi íslensks almennings, rukka alla fyrir að fara um landið og byggja upp bákn til að hafa eftirlit með skattheimtunni. Þvert á almannarétt hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkt að skerða ferðafrelsi almennings til að geta rukkað fólk um skatt, í raun lagt auðlindagjald á almenning í landinu. Það er því holur hljómur í öllu frelsistali Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að í þessum efnum mun það koma í hlut okkar hinna að verja einstaklingsfrelsið sem Sjálfstæðisflokkurinn þykist standa vörð um.

Katrín Jakobsdóttir

Varar við flótta lækna til einkageirans

Ögmundur Jónasson efndi til sérstakrar umræðu um verkfall lækna á Alþingi í morgun sem staðið hefur yfir í hálfa aðra viku.

Ögmundur tók undir með þeim sem hafa bent á að kjör lækna þurfi að vera sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu hér á landi. Ögmundur benti einnig á að hætta sé á flótta lækna úr opinbera heilbrigðiskerfinu yfir í einkarekstur í ljósi versnandi kjara lækna hjá hinu opinbera: „Menn geta leitað líka í einkarekstur,“ sagði Ögmundur og bætti við: „Um síðustu áramót var samið við sjálfstætt starfandi lækna og kjör þeirra hækkuð um 20%. Þar með er verið að setja hvata inn í kerfið að fólk úr almennu stofnununum leiti í einkarekstur“.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tók undir að staðan væri alvarleg og að bæta þurfi samkeppnisstöðu íslenskra lækna. Fjölmargir þingmenn tóku til máls og var almenn samstaða um að bæta þurfi kjör lækna. Í seinni ræðu sinni minnti Ögmundur á að pólitískur ágreiningur sé um einkarekstur og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu: „Í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar talaði núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir því að fara í auknum mæli verk út af sjúkrahúsunum út í einkarekstur.“ Þá skoraði Ögmundur á lækna og ríkisvaldið að komast að samkomulagi en minnti jafnframt á að í ljósi þess hvernig hefur verið þrengt að kerfinu á undanförnum árum liggi ábyrgðin fyrst og fremst hjá fjárveitingarvaldinu.

Frelsið orðið að undanþágu

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sent skólameisturum framhaldsskóla bréf um að áhersla verði lögð á að stytta námsbrautir í þrjú ár. Ráðherrann hefur ennfremur látið hafa eftir sér að eitt verði yfir alla að ganga og skólar sem hafa skipulagt nám sitt út frá fjögurra ára námsbrautum fái engar „undanþágur“ enda sé búið að ákveða að framhaldsskólinn verði til þriggja ára.

Þetta gengur þvert á þá stefnu að skólar skuli hafa svigrúm til að móta sér sína sérstöðu en sú stefna var staðfest með lögum árið 2008 í tíð flokkssystur Illuga, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Raunar var lögunum beinlínis fylgt úr hlaði með þeim orðum að hér væri dregið úr miðstýringu, skólarnir myndu sjálfir skipuleggja sínar námsbrautir og skilgreina inntak stúdentsprófs og annarra prófa; enginn einingafjöldi var skilgreindur sem inntak stúdentsprófs og fjölbreytni var fagnað.

Ný aðalnámskrá sem kom út 2011 endurspeglar þetta sjálfstæði skóla. Á svipuðum tíma var sett tiltekið einingalágmark en skólum að öðru leyti falið að útfæra námsbrautir sem þeir hafa síðan gert hver af öðrum.

Nú kveður við nýjan tón. Farin er leið miðstýringar og skyndilega talað um undanþágur – þegar markmið laganna var einmitt fjölbreytni og því aldrei um að ræða að skólar fengju undanþágur heldur að þeir hefðu frelsi til að vera mismunandi. Þannig þyrftu nemendur ekki allir að velja sams konar leiðir.

Frelsið sem hinn nýi Sjálfstæðisflokkur predikar er frelsi fyrir hina fáu. Frelsi hinna fáu til að veiða fiskinn í sjónum, selja áfengi í sínum verslunum eða taka yfir rekstur almannaþjónustu og græða á henni en þegar illa gengur snúa aftur til ríkisins. Það frelsi er ekki frelsi einstaklingsins eða frelsi fagfólks til að byggja upp fjölbreytt skólastarf eins og ætlunin var með lögunum. Þegar til kastanna kemur snýst skólastefna flokksins um miðstýringu og valdboð þar sem engin virðing er borin fyrir gæðum menntunar og góðu skólastarfi um allt land. Kannski ekki að undra að hinn nýi Sjálfstæðisflokkur hafi hrapað í fylgi.

Störf tapast í fjársveltum framhaldsskólum á landsbyggðinni

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók til máls á Alþingi í dag til að ræða niðurskurð í framhaldsskólum á landsbyggðinni.

Bjarkey benti á að á sama tíma og verið sé að ræða flutning heillar stofnunar út á land „sker Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður m.a. í framhaldsskólum landsins og fækkar þar með störfum.“ Bjarkey bætti við: „Þetta hefur mikil samfélagsleg áhrif þar sem skólanir á landsbyggðinni þurfa að hafa mikið fyrir tilvist sinni. Þeir halda nemendum í heimabyggð, það blómstrar menningarlífið, verslun og þjónusta styrkist og störfin verða til fyrir háskólamenntað fólk.“

„Landsbyggðarframhaldsskólarnir hafa líka haft þá sérstæðu að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið námstækifæri aftur,“ sagði Bjarkey og bætti við: „stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám t.d. með því að flytja í burtu eða fara í fjarnám.“ Bjarkey velti því líka upp hvernig stæði á þessum harkalega niðurskurði til landsbyggðarframhaldsskólanna: „Er undirrótin kannski sá að gera þessa litlu skóla smám saman óstarfhæfa til að það þurfi að sameina þá eða leggja þá af? Er það byggðastefna Sjálfstæðisflokksins?“

Framhaldsskólar landsbyggðanna og fjárlögin

Það er ekki að ástæðulausu að ég hef sagt að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vegna ársins 2015 sé landsbyggðarfjandsamlegt. Það er ótal margt sem hægt er að fjalla um í því sambandi og í raun merkilegt að Framsóknarflokkurinn, sem talar mikið um byggðastefnu, ákveður að taka heila stofnun og flytja út á land en á sama tíma sker Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður í framhaldsskólum landsins og fækkar með því störfum.

En hvað þýðir þetta í raun og veru.

Ég hef nærtækt dæmi úr minni heimabyggð þar sem hér er fjögurra ára gamall skóli Menntaskólinn á Tröllaskaga. Það var ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, með Katrínu Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra, sem hafði kjark í miðju Hruni árið 2010 og stofnaði Menntaskólann á Tröllaskaga.
Skólinn starfar eftir nýjum lögum um framhaldsskóla sem gefa aukið svigrúm í námsvali. Námið er metnaðarfullt með fjölbreyttum kennsluháttum sem er til þess fallið að virkja nemendur og auka sjálfstæði þeirra. Skólinn er líka hluti Fjarmenntaskólans sem er samstarf framhaldsskóla um list- og starfsnám. Rós í hnappagatið fékk skólinn á þessu ári þegar hann hlaut titilinn fyrirmyndarstofnun SFR.

Samfélagsleg áhrif

Eins og gefur að skilja breyttist nærsamfélagið mikið með tilkomu skólans og hefur hann vaxið mun hraðar en flestir áttu von á og í dag eru nemendur á þriðja hundraðið. Í stað þess að nemendur á hinum hefðbundna framhaldsskólaaldri hverfi úr samfélaginu eins og áður var, og oft á tíðum fjölskyldur þeirra með, nýtur samfélagið þess að hafa þá heima. Það hefur svo aftur áhrif á m.a. menningarlífið og verslun og þjónusta styrkist. Að ég tali nú ekki um fjölgun háskólamenntaðra starfsmanna sem annars hefðu síður átt hér tækifæri. Skólinn á mikið samstarf við fyrirtæki bæði innan og utan heimabyggðar sem hefur orðið til þess að nemendur sjá fleiri tækifæri til starfa að loknu námi á svæðinu.
En tilkoma Menntaskólans á Tröllaskaga hefur líka haft þau áhrif að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið tækifæri sem þeir annars hefðu ekki haft. Stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám aftur nema að flytja í burtu og það er ekki á allra færi né heldur er vilji til þess.

Niðurskurðarhnífurinn – byggðapólitíkst mál

En nú ætlar menntamálaráðherra að sækja að landsbyggðarskólunum, skera niður fjarnám og vísa eldri nemendum inn í símenntunarmiðstöðvar eða háskólabrýr. Þessi möguleiki hentar bara alls ekki öllum og er í öllu falli miklu kostnaðarsamari og fyrir marga ekki framkvæmanlegur vegna fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæðna.
En með því að taka þessa þætti frá litlu framhaldsskólunum er verið að veikja innviðina svo að námsúrvalið verður takmarkaðra þar sem 5 nemendur til eða frá geta skipt máli um hvort áfangi er kenndur eða ekki. Það þýðir svo fækkun kennara og lægra menntunarstig. Er undirrótin kannski sú að gera litlu skólana smá saman óstarfhæfa þannig að þeir verði lagðir af eða sameinaðir þeim stærri? Er það stefna Sjálfstæðisflokksins?

Látum raddir heyrast

Á sama tíma og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins segir ríkissjóð vera að rétta úr kútnum ákveður hann ásamt menntamálaráðherra að sækja að landsbyggðarskólunum. Er þetta byggðapólitík Sjálfstæðisflokksins?
Ég hvet alla en ekki síst sveitarstjórnarfólk, sérstaklega úr röðum ríkisstjórnarflokkanna, að láta í sér heyra og standa vörð um landsbyggðarskólanna. Þannig höldum við störfum í heimabyggð og nemendum og þeim sköpunarkrafti sem þeim fylgir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Þingmaður VG

,

Röng forgangsröðun í fjárlögum

Það er óneitanlega svolítið skondið að fylgjast með orðræðu stjórnarþingmanna um fjárlögin. Það vakti til dæmis athygli að formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, og fleiri Framsóknarmenn vilja nú hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna. Eins og margir muna lagði fyrri ríkisstjórn einmitt til að farið yrði í slíkar breytingar en þá talaði þáverandi stjórnarandstaða um að það myndi flækja skattkerfið. Það er gott að þau sjá stundum ljósið og spennandi verður að sjá hvernig fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins leggur upp fjárlög næsta árs ef allir þingmenn Framsóknar standa við þær yfirlýsingar sem þeir hafa gefið í opinberum miðlum.

Óréttlátar skattbreytingar

Einnig hefur komið fram, m.a. hjá formanni fjárlaganefndar Vigdísi Hauksdóttur, að hún sé alfarið á móti hækkun matarskattsins. Hún tók líka fram að hún væri mótfallin því að gera á móti breytingar á bótakerfinu og taldi það „flækja“ kerfið. Flokkssystir hennar, Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra, hefur hins vegar sagt að til þess að koma til móts við þá sem minna hafa á milli handanna væri hægt að auka við húsnæðisstuðning og hækka barnabæturm, sem „flækir“ kerfið að mati Vigdísar. En er eitthvað því til fyrirstöðu að halda matarskattinum lágum en bæta við húsnæðisstuðning og barnabætur þrátt fyrir það? Til að skilja það þurfum við að horfa aðeins aftur í tímann. Meðal fyrstu verka þessarar ríkisstjórnar var að lækka veiðigjöldin, framlengja ekki auðlegðarskattinn og hækka gjöld á sjúklingana og þá sem þurfa ýmsa stoðþjónustu. Þessi ríkisstjórn lækkaði líka álögur á brennivín og tóbak sem ég efast um að almenningur hafi fundið sérstaklega fyrir. Gleymum ekki fjölgun ráðherranna og aðstoðarmannanna, en þeim fjölgaði eins og kunnugt er þegar núverandi ríkisstjórn tók við og hugmyndir uppi um enn meiri fjölgun. Þetta kostar allt peninga – peninga sem þarf að finna í fjárlögum þessa árs með einhverjum hætti. Og nú hefur fjármálaráðherra sem sagt afráðið að taka þá peninga út m.a. úr virðisaukaskattskerfinu, með hækkun matarskatts.

Þurfum nýja sókn í heilbrigðismálunum

Eitt stærsta mál fjárlagaumræðunnar verða heilbrigðismálin. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins birti myndir af Landsspítalanum á dögunum þar sem fötur voru út um allt enda mikill vatnsleki sem hefur verið viðvarandi í mörg ár. Ekki hefði þetta átt að koma honum á óvart, enda virðist flokkur hans hafa ákveðið að byggja ekki nýjan spítala. Fram hefur komið hjá heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins að það gæti þurft að hækka gjöldin enn meira á sjúklinga, sem voru þó hækkuð 1. júlí, eða skerða þjónustuna enn frekar við þá þar sem rekstur heilbrigðiskerfisins hafi farið fram úr fjárlögum.

Það er eiginlega merkilegt að ekki sé rætt meira um að spítalinn fái ekki nægt fé til að sinna þeim skyldum sem á hann eru lagðar. Fram hefur komið hjá forstjóra spítalans að hann sé rekinn fyrir umtalsvert minna fjármagn í ár en fyrir sex árum sé miðað við fast verðlag. Formanni fjárlaganefndar er þó tíðrætt um hafa sett aukið fé í Landsspítalann um 4,6 mia. en ætlaði þó í kosningabaráttunni að setja heldur meira. Þegar búið er að taka tillit til m.a. launa- og verðlagsforsendna og ýmissa annarra þátta standa einungis eftir um 1,7 mia. fyrir spítalann að moða úr. Það verður að teljast nokkuð hæpið að það nægi til að hefja þá sókn í heilbrigðismálunum sem augljós þörf er á.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs

Verið að ganga af heilsugæslunni dauðri

Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna kvað sér hljóðs á Alþingi í dag til að vekja athygli á stöðu heilsugæslunnar í landinu. „Ég tel að svo sé komið að ríkisstjórn og Alþingi verði að hlusta af alvöru á varnaðarorð sem berast nú,“ sagði hann.

Ögmundur sagði að undanfarna viku hafi borist alvarleg varnaðarorð úr ranni heilsugæslunnar þar sem þungum áhyggjum hafi verið lýst af þeim niðurskurði sem heilsugæslunni er gert að mæta á þessu ári. Þau hafi meðal annars borist frá stjórnendum heilsugæslunnar, félagi heilsugæslulækna og einstaka starfsmönnum heilsugæslunnar. Vísaði hann meðal annars í opið bréf Más Egilssonar heilsugæslulæknis til ríkisstjórnarinnar þar sem hann segist óttast að verið sé að ganga að heilsugæslunni dauðri. Þá benti Ögmundur einnig á að bráðamóttakan á Landspítalanum teldi sig ekki lengur ráða við álagið sem verður til vegna niðurskurðar í heilsugæslunni.

„Ég hef heyrt þær raddir, sérstaklega frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að ráðið sé að einkavæða.Það er ekkert ráð, við getum tekið þá umræðu. Það vantar meiri fjármuni inni í heilsugæsluna og við eigum að taka þessi aðvörunarorð sem okkur berast og við eigum að bregðast við þeim,“ sagði Ögmundur að lokum.