Posts

17. júní. Jón Sigurðsson

Ávarp Sóleyjar Tómasdóttur sem var flutt við leiði Jóns Sigurðssonar á 17. júní 2016.

Hér erum við samankomin til að votta Jóni Sigurðssyni virðingu okkar og þakklæti fyrir þá baráttu sem hann og samferðafólk hans háði fyrir frelsi okkar, sjálfstæði og lýðræðislegu réttindum.

Lýðveldið Ísland er friðsælt 330þúsund manna samfélag á fallegri eyju sem er rík af náttúruauðlindum. Samfélag sem öðlaðist sjálfstæði án stríðs eða blóðsúthellinga og hefur allt til alls þrátt fyrir að vera landfræðilega afskekkt. Samfélag sem er auðvitað ekki fullkomið – heldur samfélag sem okkur ber að halda áfram að þróa og bæta. Við verðum stöðugt að stuðla að auknu jafnrétti, meiri sanngirni og bættum hag okkar allra. Það er sameiginlegt verkefni okkar, skylda okkar gagnvart sögunni og komandi kynslóðum.

Okkur ber að standa vörð um auðlindirnar, söguna og menningararfinn í anda Jóns og samferðafólks hans.

En okkur ber að gera meira en það.

Þó samfélagið okkar sé landfræðilega afskekkt, þá er það hluti af stærra samhengi. Ísland er hluti af samfélagi þjóða. VIÐ erum hluti af samfélagi þjóða og við berum ábyrgð sem slík.

Það hafa ekki allar þjóðir öðlast sjálfstæði án blóðsúthellinga. Það búa svo sannarlega ekki allir á friðsælum eyjum sem eru ríkar af náttúruauðlindum. Ísland, þetta litla og alls ekki fullkomna samfélag, er samfélag sem allt of margt fólk getur bara látið sig dreyma um að tilheyra.

Tugmilljónir fólks er á flótta í heiminum, fólk eins og við, fólk eins og Jón. Fólk sem flýr harðstjórn og ofríki, stríð og ofbeldi, þurrka og hungursneyð. Frelsi, sjálfstæði og lýðræðisleg réttindi eru sannarlega ekki sjálfsögð og það eru ekki allir svo heppnir að geta vottað 18. aldar manni virðingu sína og þakklæti með kransi.

Frelsi okkar, sjálfstæði og lýðræðislegu réttindi eru ekki takmörkuð auðlind. Þvert á móti. Þeim mun fleiri sem fá notið þeirra, þeim mun betra.

Ég þykist þess fullviss að væri Jón á lífi í dag, væri hann ákafur baráttumaður fyrir sanngjarnari heimi. Að fleiri fengju að njóta þeirra forréttinda sem við höfum hér á Íslandi.

Á sama tíma og við stöndum vörð um auðlindirnar, söguna og menningararfinn, skulum við standa vörð um sanngirni og réttlæti. Það þýðir að við verðum að axla ábyrgð og leyfa fleirum að njóta alls þess góða sem okkar ágæta samfélag hefur uppá að bjóða. Við verðum að á móti þeim sem hingað leita – og gera það vel. Hjápa fólki í neyð. Svo einfalt er það.

Um leið og við vottum Jóni virðingu okkar skulum við hugsa til allra  þeirra sem aðeins geta látið sig dreyma. Þökkum Jóni fyrir hans framlag – en heitum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fleiri fái notið þess sem lýðveldið Ísland hefur uppá að bjóða.

Gleðilega þjóðhátíð.

ekkirusl.is

Yfirstandandi breytingar á sorphirðu í Reykjavík eru til þess gerðar að auðvelda borgarbúum að flokka sorp, auka endurnotkun og endurvinnslu og draga úr myndun úrgangs. Markmiðið er minni neysla, minni sóun og umhverfisvænni borg.

Mikið hugarfarsbreyting hefur átt sér stað á undanförnum árum og sorpflokkun hefur aukist. Blandaður heimilisúrgangur hefur minnkað um 31% frá árinu 2005, var þá 229 kg á íbúa á móti 149 kg árið 2014. Tilkoma bláu tunnunnar árið 2009 breytti miklu en hlutfall pappírsefna fór þá úr 27% af blönduðum heimilisúrgangi í 11% árið 2014. Notkun grenndargáma og endurvinnslustöðva hefur aukist til muna á sama tíma. Borgarbúar hafa tekið vel við sér, en betur má ef duga skal.

Breytt, bætt og sveigjanlegri þjónusta

Til að ná markmiðum um vistvænni neysluhætti hefur þjónustu borgarinnar nú verið breytt, boðið er upp á sorphirðu á þremur flokkum við heimili og fleiri valkostir standa borgarbúum til boða þegar kemur að sorphirðuílátum. Til viðbótar við gráar tunnur í tveimur stærðum geta borgarbúar fengið bláa tunnu undir pappír og græna tunnu undir plast.

Samsetning og ákvörðun um þjónustustig er alfarið í höndum borgarbúa, hvert heimili getur valið allt frá einni lítilli grárri tunnu yfir í margar tunnur af öllum sortum. Kostnaður vegna þjónustunnar er mishár – en augljóslega minnstur hjá þeim heimilum sem mest flokka og nýta sér grenndarstöðvar sem mest.

Hagrænn og heilsusamlegur ávinningur af regluglegum gönguferðum á grenndarstöðvar getur verið umtalsverður. Í Reykjavík eru reknar 57 grenndarstöðvar, staðsettar í innan við 500 metra fjarlægð við 85% heimila í Reykjavík. Vegalengdin er jafnvel styttri á grenndarstöð en í matvöruverslun, þar sem borgarbúar sækja stóran hluta þess varnings sem síðar myndar úrganginn.

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem býður upp á þennan sveigjanleika, eina sveitarfélagið sem gerir íbúum kleift að velja hversu mikil þjónustan á að vera – og greiða í samræmi við notkun.

Framtíðin

Aðgerðaráætlun borgarinnar í úrgangsmálum gerir ráð fyrir að 80% af öllum pappa, 60% af öllu plasti og allur lífrænn úrgangur verði endurnýttur árið 2020. Stefnt er að því að taka á móti gleri, steinefnum og málmum á grenndarstöðvum strax á þessu ári.

Í aðgerðaráætluninni er lögð rík áhersla á frekari vitundarvakningu og breytta neysluhætti og hafa margar hugmyndir komið fram í þeim efnum. Nýta mætti húsnæði borgarinnar undir skiptimarkaði, t.a.m. útifataskipti í grunnskólum, hjólaskipti í frístundamiðstöðvum eða almenna skiptimarkaði í Ráðhúsinu þar sem hvers kyns fatnaður, leikföng, húsbúnaður og/eða raftæki skipta um eigendur útgjaldalaust.

Sömuleiðis getur borgin stuðlað að bættri nýtingu lífræns úrgangs við heimili með námskeiðum í moltugerð á meðan ekki er tekið á móti honum á grenndarstöðvum. Þannig eru umhverfisleg áhrif úrgangsins og endurvinnslunnar minnst, ef endurvinnslan fer fram við heimilin í sem mestum mæli án bílferða milli staða.

Um val og skyldur

Við hljótum öll að vera sammála um mikilvægi vistvænni lifnaðarhátta. Þó hafa heyrst gagnrýnisraddir gagnvart þeim mikilvægu skrefum sem nú eru stigin í átt að umhverfisvænni höfuðborg. Þar hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks farið fremst í flokki en jafnframt örlaði á gagnrýni í leiðara Fanneyjar Birnu Jónsdóttur hér í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni Villandi val. Þar var fullyrt að verið væri að skerða þjónustuna og rukka meira. Það er undarleg túlkun á breytingum þar sem fleiri flokkar eru sóttir heim og fólki er gert kleift að spara umtalsverðar upphæðir.

Um hitt getum við verið sammála, ég, Fanney Birna og vonandi allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins: Aukin sorpflokkun er ekki val. Okkur ber öllum að leggja okkur fram um að draga úr neyslu og sóun, auka endurvinnslu og endurnýtingu og ábyrgari lifnaðarhætti. Þær skyldur höfum við gagnvart jörðinni og framtíðinni og þær þurfum við að rækja í sameiningu, borgarbúar, fjölmiðlafólk og borgaryfirvöld.

Til hamingju með daginn!

Í dag hafa konur haft kosningarétt á Íslandi í 100 ár. Kvenfrelsisbaráttan er enn eldri. Hún hefur skilað okkur mikilvægum lýðræðislegum réttindum og samfélagi þar sem konur og karlar hafa sama rétt og sömu skyldur. Að minnsta kosti að forminu til.

Jafnrétti á heimsmælikvarða

Hvergi mælist meira jafnrétti en á Íslandi. Það er vissulega fagnaðarefni, þó enn sé langt í land. Á Íslandi er kynbundinn launamunur, það hallar á konur í stjórnmálum, í fjölmiðlum og í atvinnulífi og kynbundið ofbeldi er daglegt brauð. Þessu verður að breyta.

Áhrif kvenna

Kvennabaráttan hefur verið háð frá örófi alda með ólíkum aðferðum og vegna ólíkra mála. Kosningarétturinn var stórt og þýðingarmikið skref, en konur hafa í gegnum tíðina haft margslungin áhrif á samfélagið og samfélagsgerðina. Heilbrigðiskerfið væri ekki eins og það er í dag án vaskrar framgöngu kvenna sem á sínum tíma beittu sér fyrir byggingu spítala. Fæðingarorlof væri ekki eins og það er í dag. Fóstureyðingalöggjöfin væri varla til, ekki frekar en leikskólar svo einhver dæmi séu nefnd. Með auknum áhrifum kvenna hafa áherslur samfélagsins breyst – okkur öllum til góða.

Samtíminn

Enn er margt ógert og það getur reynt á þolinmæðina. Í dag er þó fullt tilefni til bjartsýni. Ungir og kraftmiklir femínistar stíga fram um þessar mundir og breyta og bylta á áhrifaríkan hátt. Í vetur hafa þær hafnað skilgreiningum klámvæðingarinnar á líkömum kvenna, þær hafa afhjúpað og mótmælt hversdagslegu misrétti og þær hafa talað upphátt og opinskátt um reynslu sína af kynbundnu ofbeldi. Þessi barátta er eðlilegt framhald af baráttu formæðra okkar fyrir kosningaréttinum og baráttu rauðsokkanna, kvennaframboðs og kvennalista undir lok síðustu aldar.

Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg mun fagna árunum 100 með 100 viðburðum. Markmiðið er að fagna þeim árangri sem náðst hefur með fjölbreyttum hætti, en hvetja á sama tíma til frekari framfara. Þannig leggjum við okkar af mörkum til að gera fjölbreytileika kvenna og verka þeirra sýnilegri í samfélaginu.

Afmælisdagurinn

Í dag verður afmælinu fagnað með fjölbreyttum hætti í miðborginni. Framlag Reykjavíkurborgar verður í anda þess sem hér hefur verið rakið, til heiðurs formæðrum okkar en með áherslu á frekari framfarir.

Samkvæmt hefð verður blómsveigur frá Reykvíkingum lagður á leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og í eftirmiðdaginn verður opnuð vegleg sýning á Kjarvalsstöðum í tilefni dagsins. Dagskráin í Ráðhúsinu verður þó alfarið í höndum ungra femínista sem hafa hannað og skipulagt dagskrána í anda málefna líðandi stundar. Þannig heiðrum við formæður okkar og lýðræðis- og frelsishetjur framtíðar á sama tíma. Til hamingju með daginn. Áfram stelpur!

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Vinstri grænna í Reykjavík

Stækkum griðasvæði hvala

Langflestir ferðamenn koma hingað til lands til að skoða og upplifa íslenska náttúru. Flestir koma við í Reykjavík til lengri eða skemmri tíma, enda má hér njóta fjölbreyttra menningarviðburða, skoða söfn og byggingar, kaupa íslenska hönnun og borða á fyrsta flokks veitingastöðum. Þess utan er skammt í stórkostlega náttúru, fjöll og fjöru og sjóinn sjálfan. Reykjavík er eina höfuðborg heims sem býður upp á hvalaskoðunarferðir.

Hvalaskoðunin hefur verið að vaxa og dafna í gömlu höfninni í Reykjavík. Hún er gríðarmikilvæg fyrir borgarlífið, höfnina og miðborgina, þar sem erlendir ferðamenn staldra lengur við en áður, þar er meira líf og fjölbreyttari viðskipti. Hvalaskoðun er ein vinsælasta afþreying erlendra ferðamanna hér á landi, aðeins Bláa lónið er stærra á landsvísu.

Það er bagalegt að á sama stað og þessi blómlega þjónusta er starfrækt séu hvalveiðibátar á hrefnuveiðum og það yfir mesta ferðamannatímann. Rúmlega 500 hrefnur hafa verið veiddar á Faxaflóa frá því hvalveiðar hófust á ný við Íslandsstrendur, í umtalsverðri andstöðu við náttúru- og dýraverndunarsamtök.

Hvalveiðar og hvalaskoðun fer illa saman. Forsvarsfólk hvalaskoðunarfyrirtækja segir æ erfiðara að nálgast hrefnuna, hún sé styggari og minna af henni á svæðinu en áður. Hrefnuveiðimenn hafa tekið undir þetta, þótt þeir kenni öðru en veiðum um.
Reykjavík hefur einsett sér að taka vel á móti ferðamönnum sem hingað koma. Við reynum að styrkja innviði og skapa grunn fyrir blómlega þjónustu, menningu og fjölbreytt mannlíf. Fulltrúar allra flokka hafa ítrekað lýst yfir eindregnum vilja til stækkunar griðasvæðis hvala á Faxaflóa, nú síðast með sameiginlegri ályktun sem samþykkt var í borgarstjórn í desember sl. þar sem skorað var á ríkisstjórnina að stækka griðasvæðið.

Griðasvæði hafa sýnt sig vera áhrifaríka leið til að tryggja vöxt og viðgang ábyrgrar hvalaskoðunar og hafa veitt hvölum og höfrungum mikilvæga vernd um allan heim frá því það fyrsta var sett á laggirnar í Glacier-flóa í Alaska árið 1925. Fleiri slík svæði hafa reynst vel, s.s. Ligurian-svæðið í Miðjarðarhafinu sem stofnað var árið 1994.

Nú þegar hvalveiðitímabilið er að hefjast, á sama tíma og ferðamönnum fjölgar ört, er brýnt að árétta þessa ályktun borgarstjórnar. Ég hvet atvinnuvegaráðherra til að stækka griðasvæðið og taka þannig tillit til hvalaskoðunarinnar sem og þeirra sáttmála sem Ísland á aðild að til að tryggja dýravernd og dýravelferð. Þar fara hagsmunir hvala og manna saman.

Hátíðarfundur kvenna í borgarstjórn

Það er sannarlega hátíðlegt að taka þátt í þessum kvennafundi hér í ráðhúsinu og gaman að hér komi saman skeleggir fulltrúar allra flokka til að fagna sigrum formæðra okkar.

Það er undarlegt til þess að hugsa að fyrir 100 árum hafi karlar setið einir að ákvarðanatöku fyrir hönd lands og þjóðar og að það hafi í raun verið ákvörðun karla að veita konum kosningarétt.

Á þessum 100 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar. Sem betur fer. Konur búa við allt annan veruleika, þær taka virkan þátt í stjórnmálum og atvinnulífi, þær hafa yfirráð yfir eigin líkama, mennta sig og gera það sem þeim sýnist. Breytingarnar hafa verið jákvæðar fyrir allt samfélagið, ekki síst karla sem hafa öðlast tækifæri og rétt til að taka þátt í umönnun barna sinna, sýna tilfinningar og gera það sem þeim sýnist.

Upp að vissu marki. Við búum ekki í fullkomnum heimi, ekki einu sinni fullkomnu landi, þó hér ríki mesta jafnrétti í heimi samkvæmt alþjóðlegum mælingum.

Allir þessir sigrar eru sterkum konum og samstöðu þeirra að þakka. Kvennaframboð hið fyrra, Kvenréttindafélagið, Kvenfélög, Rauðsokkur, Kvennaframoð hið síðara, Kvennalistinn, Femínistafélagið, kvennahreyfingar stjórnmálaflokka og femínistafélög grunn-, framhalds- og háskóla hafa sprottið upp, bylt og breytt. Hvert með sínum hætti.

Þessar hreyfingar hafa verið viðbragð við misrétti og meinsemdum í samfélaginu, þær haf beitt ólíkum aðferðum og tekist á við ólík verkefni en eiga það allar sameiginlegt að hafa fært okkur samtímakonunum þau réttindi sem við búum við í dag.

Femínismi er dáldið eins og náttúruafl og byltingar femínismans dáldið eins og eldgos. Kvennahreyfingin getur legið í dvala um tíma, stundum stutt og stundum lengi, en hún sprettur reglulega upp og hefur þá umtalsverð áhrif.

Í dag fögnum við og þökkum fyrir kosningaréttinn. Baráttan fyrir honum var löng og ströng. Svolítið eins og Kröflueldar. Áratuga gos með hléum sem á endanum leiddi til þess að konur öðluðust sömu lýðræðislegu réttindi og karlar.

Við gleðjumst auðvitað og fögnum öllum þeim réttindum sem hafa áunnist en gleymum ekki því sem enn er ógert. Það er okkar að halda áfram að útrýma kynbundnu ofbeldi, kynbundnum launamun og stuðla að raunverulega jöfnum tækifærum karla og kvenna. Við heiðrum formæður okkar og baráttukonur fyrri alda best með áframhaldandi baráttu, áframhaldandi samstöðu og áframhaldandi krafti.

Og þar er aldeilis af nógu að taka eins og atburðir undanfarinna daga gefa berlega til kynna.

Í raun má segja að við séum í miðri byltingu. Enn einni byltingunni. Eldgosi sem er nýhafið eftir umtalsverða ólgu sem hefur kraumað í samfélaginu í allnokkurn tíma.

Við höfum allar – eða öll, orðið vör við hefndarklám, hrelliklám eða rafrænt kynferðisofbeldi. Sú ógn hefur steðjað að íslenskum konum í síauknum mæli, klámvæðingin hefur sótt fram af áður óþekktu afli með tilkomu tækniframara og snjalltækja þannig að mörgum hafa fallist hendur.

Í anda þess náttúruafls sem kvennabaráttan er gat ólgan auðvitað ekki endað með öðrum hætti en einum. Byltingu. Brjóstabyltingin er hafin hún er ný en krafturinn er ótvíræður.

Hvernig brjóstabyltingin endar með að verða, hvort hér er um stutt sprengigos að ræða eða langvarandi ástand er ekki alveg komið í ljós en hvort heldur sem verður mun það hafa sín áhrif. Það er ég viss um.

Í dag er ég þakklát. Ég er þakklát formæðrum mínum og afkomendum á sama tíma. Ég er þakklát fyrir byltingar í fortíð og framtíð og sérstaklega þá sem nú er í gangi. Ég er þakklát öllum þeim konum sem hafa þorað, getað, viljað og bylt.

Það er sérstök staða að vera í, að fagna aldarafmæli í miðjum tilfinningarússíbana sem fylgir nýhafinni byltingu gegn klámvæðingu og hlutgervingu kvenna.

Sú bylting er okkar allra og hún er í þágu okkar allra. Hún er í þágu samfélagsins alls en ekki síst kvenna af öllum gerðum og á öllum aldri. Þetta er líka byltingin okkar sem ekki höfum berað á okkur brjóstin, líka okkar sem erum nógu gamlar til að búa ekki við stöðuga ógn rafræns ofbeldis.

Þessi bylting er í þágu samfélagsins, enda snýst femínismi alltaf um samfélagið í heild sinni.

Ég er ekki femínisti fyrir mig heldur af því ég vil breyta samfélaginu. Ég er á hærri launum en margir karlar í kringum mig, ég er í góðri stöðu og mér hefur ekki verið nauðgað. Það eru ekki til myndir af brjóstunum á mér á internetinu. Samt eru mín helstu baráttumál þau að útrýma kynbundnum launamun, auka tækifæri kvenna til áhrifa og útrýma kynbundnu ofbeldi – ekki síst því rafræna.

Og þetta segi ég ekki til að upphefja sjálfa mig. Og ég er ekki að halda því fram að ég sé svo æðislega góð. Ég er það ekki neitt. Kynjamisrétti er bara óbærilegt og það hefur auðvitað bein og óbein áhrif á mig eins og okkur öll. Ég vil ekki búa í samfélagi misréttis frekar en aðrir. Samfélag misréttis er vont samfélag.

Þess vegna skiptir femínisminn svo miklu máli. Hugmyndafræði sem lýtur að því að uppræta allar birtingamyndir kynjamisréttis til að við getum öll verið frjáls. Karlar og konur, ung og gömul. En til þess verðum við að standa saman og hjálpast að. Það krefst þess að við setjum okkur í spor hvers annars og reynum að skilja.

Það er ekkert sem feðraveldinu hugnast betur en erjur og innbyrðis deilur kvenna. Það var feðraveldið sem bjó til mýtuna um að konur séu konum verstar og það reynir að viðhalda henni með ráðum og dáð. Af því að feðraveldið veit sem er að samtakamáttur kvenna getur leitt til byltinga, að byltingar geta frelsað konur og að byltingar geta brotið feðraveldið á bak aftur.

Á meðan ungar konur afmá skilgreiningarvald klámvæðingarinnar á eigin líkömum með aðgerðum í opinberu rými og á samfélagsmiðlum taka miðaldra borgarfulltrúar næstu skref innan kerfisins til að stuðla að frekari framgangi kvenna og auknu jafnrétti.

Konur ákveða sjálfar hvar og hvenær þær klæða sig. Þær eru ekki til sýnis, þær eru ekki neysluvara og þær eru ekki söluvara. Ekki á samfélagsmiðlum og ekki á framboðslistum. Konur eru klárar, þær eru sterkar, þær taka sér pláss og hafa áhrif. Hér í borgarstjórn, í framhaldsskólunum, persónulega og pólitískt, heima og heiman. Konur stjórna, konur breyta og konur bylta. Innan kerfis sem utan.

Hér í dag erum við saman komnar til að samþykkja þrjár tillögur sem við höfum unnið saman á þverpólitískum vettvangi. Þessar þrjár tillögur eru í anda þess sem lagt var upp með í hátíðarhöldum borgarinnar, að fagna þeim réttindum sem áunnist hafa en hvetja til framfara á sama tíma.

Afrekasýning kvenna á Íslandi er til þess fallin að fagna öllu því sem áunnist hefur en er á sama tíma bæði hvetjandi og valdeflandi. Ofbeldisvarnarnefnd mun tala beint inn í baráttumál kvennanna sem fyrst tóku þátt í stjórnmálum, hún er til þess fallin að stuðla að öruggu og hraustu samfélagi og taka á þeim heilbrigðisvanda sem ofbeldi er. Málþing um þátttöku og áhrif kvenna í stjórnmálum ætti sömuleiðis að vera bæði til þess fallið að rifja upp og læra en ekki síst til að hvetja okkur til frekari verka.

Ég vil enda á að taka undir með öðrum borgarfulltrúum um gleðina og hátíðleikann hér í dag. Kvennasamstaðan hér skiptir sannarlega máli. Ég er ekki síst þakklát ykkur öllum sem hér sitjið, konum sem hafið unnið innan ykkar flokka eða hreyfinga og með ykkar hætti og ykkar áherslum að því að styðja og styrkja stöðu kvenna.

Ég hlakka til að samþykkja þessar tillögur með ykkur og ekki síður að sjá þær í framkvæmd af því að ég er sannfærð um að það verður samfélaginu til góðs. Áfram stelpur!

Ræðan var flutt á hátíðarfundi kvenna í borgarstjórn, 31. mars 2015.

Takk!

Hinsegin dögum er nýlokið. Þeir voru haldnir í sextánda sinn, og gengu sem fyrr út á að draga fram fjölbreytileikann, fagna honum og þeim réttindum sem áunnist hafa. Gleðigangan var stórkostleg að vanda og talið er að um 90 þúsund manns hafi safnast saman í miðborginni.

Hinsegin dagar hafa líka annað og alvarlegra hlutverk. Að minna á þau réttindi sem ekki hafa náðst og óréttlætið sem viðgengst bæði hér á Íslandi og úti í heimi, en ekki síður að uppræta fordóma og fáfræði gagnvart fjölbreytileika mannlífsins. Hinsegin dagar þjónuðu þessu markmiði vel í ár, m.a. með mikilvægri fræðslu um þann fjölbreytta hóp sem rúmast undir hinsegin regnhlífinni.

Hin nýstofnuðu samtök Intersex Ísland hafa vakið verðskuldaða athygli. Intersex fólk fellur ekki undir hefðbundna skilgreiningu á kynjunum af líffræðilegum ástæðum. Intersex hefur alltaf verið til, en það er ekki fyrr en nú þegar talsvert er liðið á 21. öldina að farið er að tala um réttindi og stöðu intersex fólks á opinberum vettvangi á Íslandi.
Staða intersex fólks sýnir okkur hversu mikla áherslu við sem samfélag leggjum á að flokka fólk eftir kyni. Kyn barns er það fyrsta sem spurt er um eftir fæðingu þess, nafngift er háð kyni, opinberar skrár gera ráð fyrir tveimur kynjum og svona mætti lengi telja. En það er ekki nóg. Enn eru framkvæmdar skurðaðgerðir á heilbrigðum kynfærum nýfæddra barna til að aðlaga þau stöðluðum hugmyndum um útlit typpis eða píku. Intersex fólk krefst nú viðurkenningar á tilvist sinni og sjálfsákvörðunarréttar yfir eigin líkama. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa.

Hinsegin dagar hafa sett brýn og grafalvarleg mál á dagskrá, enn eina ferðina, í bland við gleði og fagnaðarlæti. Til að hægt sé að fagna fjölbreytileikanum er mikilvægt að þekkja hann og skilja. Hinsegin fólk og hinsegin dagar hafa breytt miklu hvað það varðar. Fyrir það ber að þakka. Takk.

Sóley Tómasdóttir, forseti Borgarstjórnar

Nýr meirihluti í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu, Sigurður Björn Blöndal, Bjartri Framtíð, Sóley Tómasdóttir, Vinstri Grænum og Halldór Auðar Svansson, Pírötum kynntu samstarfssáttmálann sem flokkarnir hafa gert með sér fyrir komandi kjörtímabil.

Farið var yfir helstu atriði samstarfssáttmála flokkanna. Í upphafsorðum sáttmálans segir:
„Við sem myndum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur komum úr ólíkum áttum en stefnum nú að sama markmiði. Með hreinskilni og heiðarleika að leiðarljósi ætlum við að læra hvert af öðru og mynda heild sem er auðugri en summa okkar samanlögð.“

Þá var greint frá verkaskiptingu og formennsku í helstu ráðum og nefndum:

Borgarstjóri: Dagur B. Eggertsson
Formaður borgarráðs: S. Björn Blöndal
Forseti borgarstjórnar: Sóley Tómasdóttir
Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisnefndar: Halldór Auðar Svansson

Formennska í öðrum helstu nefndum skiptist þannig:

Skóla- og frístundaráð: Skúli Helgason
Velferðarráð: Björk Vilhelmsdóttir fyrsta árið og Ilmur Kristjánsdóttir tekur við að ári liðnu.
Umhverfis- og skipulagsráð: Hjálmar Sveinsson
Mannréttindaráð: Líf Magneudóttir
Menningar- og ferðamálaráð: Elsa Yeoman
Íþrótta- og tómstundaráð: Þórgnýr Thoroddsen
Hér má nálgast málefnasamning nýs meirihluta

,

Lykilstaðan á vellinum

Í síðustu borgarstjórnarkosningum sópaði Besti flokkurinn til sín fylgi og aðrir flokkar fóru halloka, allir sem einn. Sóley Tómasdóttir, komst ein frambjóðenda VG í borgarstjórn og það var ekki auðvelt hlutskipti. En hún lét ekki deigan síga og hefur svo sannarlega sýnt hvað í henni býr. Sóley tryggði VG þann hlut sem þurfti í nefndum og ráðum borgarinnar og stóð sjálf stífa vakt um ótal réttlætismál og stefnumið, oftar en ekki í góðri samvinnu við meirihlutann en stundum líka, þegar þörf krafði og það átti við, í bullandi ágreiningi. Hún er í lykilhlutverki og leikur í borgarstjórn mikilvægustu stöðuna á vellinum, stendur þá vaktina sem mestu skiptir frá sjónarhorni félagshyggju, jöfnuðar, kvenfrelsis og umhverfisverndar.

Sóley ávann sér virðingu annarra borgarfulltrúa, hefur átt mjög gott samstarf við meirihlutann og veitt honum bæði öruggan stuðning og beitt aðhald. Margt af því sem meirihlutinn gerði best á kjörtímabilinu hefði haft á sér annan svip og leitað í aðra farvegi ef ekki væri fyrir krafta Sóleyjar, áhrif í nefndum og ráðum og sjónarmið VG. Margir eru í hjarta sínu sammála þeim sjónarmiðum og flestum finnst þeir geta gengið að rödd VG vísri í þjóðmálaumræðunni en til þess að hún fái notið sín og hafi tilætluð áhrif þarf að veita stuðning og kjósa þá sem þar ganga undir merkjum. Flóknara er það nú ekki.

Félagshyggja er ekki spurning um smekk fyrir fólki eða stemmningu í aðdraganda kosninga heldur snýst hún um gallharða pólitík og raunverulega baráttu gegn peningaöflum sem aldrei taka sér hvíld. Nú eins og áður er verkefnið að berjast gegn fátækt, létta barnafólki róðurinn með gjaldfrjálsri grunnþjónustu og draga úr húsnæðiseklu, hugsa um aldraða og standa með sjúkum, berjast fyrir jafnrétti, efla skólastarf á alla kanta, leggja rækt við menningu, gæta að náttúrunni og gæðum í skipulagi. Sóley hefur barist af alefli fyrir þessum málum og nýtur virðingar allra sem til þekkja.

Um borgarstjóra að kosningum loknum þarf ekki að velta vöngum, stóra spurningin er hvort tekst að veita honum og miðjusæknu fólki, sem oft vill rása yfir á hægra vænginn, þann stuðning og það aðhald frá vinstri sem það þarf á að halda. Karlar verða í forystu og þurfa viðnám frá forystukonu. Náttúran þarf sárlega sína talsmenn. Og svo þarf að veita kynþáttahatrinu sem kann að spretta upp úr kjörkössunum öflugt viðnám. Til þessara verka þarf öfluga konu á vinstri vængnum, Sóleyju Tómasdóttur og allt það góða fólk sem henni fylgir að málum. Notum atkvæðið vel!

,

Réttlát Reykjavík

Kæru félagar.

Það eru þrír dagar til kosninga. Við erum komin á lokasprettinn og staðan er að skýrast. Valið stendur á milli átta framboða – Vinstri grænna og sjö annarra.

Fjölmiðlar hafa sýnt kosningunum lítinn áhuga. Þeir birta gjarnan myndir frá veislum og hátíðarhöldum, þeir standa fyrir róðrarkeppni og birta heilu opnurnar með hinni hlið oddvitanna þar sem spurt er um fyrsta kossinn og mestu eftirsjána. Minna fer fyrir stefnunni og hugmyndafræðinni. Fyrir því sem borgarbúar eru raunverulega að kjósa um.

Þessar kosningar eru auðvitað grafalvarlegt mál og þær skipta mjög miklu máli.

Við erum að kjósa um kjör borgarbúa, um það hvernig grunnþjónustunni verður háttað – og hver veitir hana. Við erum að kjósa um menntun og uppeldi, þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk, velferðarkerfið, húsnæði og fjárhagsaðstoð, samgönguhætti, umhverfi, auðlindir, neysluvatn, andrúmsloft og veðurfar.

Við erum að kjósa um hvernig samfélagi við viljum búa í og hvernig við viljum að það þróist. Og þá er bara einn skýr valkostur.

Vinstri græn bjóða nú fram í þriðja skipti undir eigin merkjum í Rekjavík. Við bjóðum fram sömu stefnu og byggjum á sömu hugmyndafræði og í hin skiptin og erum blessunarlega laus við að þurfa að endurskoða og yfirfara stefnumál okkar með tilliti til tíðarfars eða vinsælda.

Stefnan byggir nú sem fyrr á friðsamlegri nálgun, kvenfrelsi, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti. Þessar grunnstoðir fléttast saman í stefnu sem miðar í raun að réttlátari borg, réttlátara samfélagi og réttlátari heimi.

Og það er ekki vanþörf á. Um þessar mundir kemur út hver skýrslan á fætur annarri um vaxandi fátækt á Íslandi. Á sama tíma og hagvöxtur og velmegun eykst í samfélaginu verður fátæktin raunverulegra og stærra vandamál og misskiptingin vindur uppá sig.

Skýrsluhöfundar lýsa eðlilega yfir áhyggjum vegna málsins og taka fram að alvarlegast sé ástandið hjá barnafjölskyldum. Fátæktin bitnar verst á börnum, þau verða af nauðsynlegri þjónustu og einangrast félagslega.

Í þessu felst félagslegur arfur fátæktarinnar. Fátæktin skerðir möguleika barnanna til að spjara sig á fullorðinsárum. Fátæktin er þannig bæði mein í núinu þar sem börn líða fyrir efnahag foreldra sinna en líka til framtíðar, þar sem börn hafa ekki sömu tækifæri til virkni, þátttöku og góðs lífs í samfélaginu.

Við þessu verður að bregðast með aðgerðum sem tryggja aukið réttlæti og jafnari möguleika barna og fullorðinna. Með samfélagslega ábyrgri nálgun og forgangsröðun getum við tryggt börnum og fullorðnum svo miklu sanngjarnari lífsskilyrði.

Þess vegna viljum við afnema gjaldskrár fyrir leikskóla, skólamáltíðir og frístundahiemili. Afnámið snýst ekki bara um ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna, heldur tryggir aðgerðin okkur sanngjarnara samfélag á svo mörgum sviðum:

Í réttlátu samfélagi geta öll börn stundað leikskóla, fengið heitan mat í skólanum og tekið þátt í starfi frístundaheimilanna
Í réttlátu samfélagi er börnum ekki mismunað eftir efnahag foreldra sinna
Í réttlátu samfélagi eru barnafjölskyldur ekki rukkaðar um hundruði þúsunda fyrir sjálfsagða þjónustu við börn
Í réttlátu samfélagi er leikskólinn raunverulega viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og það sama gildir um hann og grunnskólann
Í réttlátu samfélagi er skóladagur barna ekki bútaður niður í menntun, máltíðir og frístundir – hann er ein samfelld heild
Í réttlátu samfélagi líða börn ekki fyrri fjárhag foreldra sinna. Réttlátt samfélag tryggir öllum börnum gott atlæti og góða menntun og greiðir fyrir það úr sameiginlegum sjóðum.

Og það er ekki allt. Í réttlátu samfélagi eru kennslu- og uppeldisstéttir ekki lægstlaunaða starfsfólk landsins. Það verður að stórbæta kjör kennara á báðum skólastigum, skapa svigrúm og aðstæður til skólaþróunar.

En fleira þarf til. Það verður að mæta vanda fólks þar sem það er og fátæktina sjálfa. Fjárhagsaðstoð í Reykjavík er skammarlega lág, félagslegar íbúðir eru allt of fáar og félagsráðgjöf og barnavernd búa við mjög þröngan kost. Velferðarkerfið sem á að grípa og styðja við fólk í vanda er illa í stakk búið til að þjóna hlutverki sínu. Þar verðum við að gera svo miklu miklu betur.

Fátækt og misskipting er afleiðing þess að stjórnvöld hafa fríað sig samfélagslegri ábyrgð. Stjórnvöld hafa einfaldlega ekki staðið sig í að tryggja jöfn tækifæri og gott velferðarkerfi, heldur er tilhneiging til að líta á hið opinbera sem þjónustuaðila eða fyrirtæki sem þarf að fá greitt fyrir það sem innt er af hendi.

Og því miður sér ekki fyrir endann á því. Alvarlegasta afleiðing þeirrar hugmyndafræði er markaðsvæðing grunnþjónustunnar, útvistun og einkavæðing. Þar sem einkaaðilum er falið að sjá um samfélagsleg verkefni með gróðasjónarmið að leiðarljósi.

Í réttlátu samfélagi getur efnameira fólk ekki keypt betri eða öðruvísi menntun fyrir börnin sín
Í réttlátu samfélagi er ekki hægt að braska með innborganir eldra fólks í þjónustuíbúðum
Í réttlátu samfélagi eru orku- og veitufyrirtæki ekki seld einkaaðilum
Í réttlátu samfélagi er ferðaþjónusta fatlaðs fólks ekki unnin af einkaaðilum
Í réttlátu samfélagi er trúarsöfnuðum ekki falið að reka gistiskýli fyrir utangarðsfólk
Í réttlátu samfélagi er grunnþjónustan ekki féþúfa. Réttlátt samfélag innheimtir tekjur eftir getu fólks og veitir þjónustu í samræmi við þarfir fólks.

Og talandi um ábyrgð. Ég sagði í upphafi að við værum að kjósa um veðrið. Það er ekkert djók. Árið 1979 þótti Sólskinsflokkurinn agalega fyndið framboð. Þau lofuðu betra veðri á Íslandi. Í dag vitum við að mannfólkið hefur raunveruleg áhrif á veðurfar. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta ógn sem steðjar að mannkyninu. Og þær eru ekki síður réttlætismál en það sem ég hef rakið hér á undan.

Sumir fá glýju í augun þegar þeir hugsa til tækifæranna sem loftslagsbreytingar kunna að hafa í för með sér fyrir Íslendinga. Ekki ég. Og ekki við Vinstri græn. Loftslagsbreytingarnar munu hafa hrikaleg áhrif á lífsgæði fólks um allan heim. Þær munu valda hungursneyð og örbyrgð og auka á misskiptingu ríkra og fátækra landa.

Loftslagsbreytingarnar munu ennfremur vinna gegn sjálfsögðu jafnrétti kynslóðanna. Ef fram heldur sem horfir munu lífsgæði barna okkar og barnabarna verða mun verri en okkar sem nú lifum.

Það er skylda okkar að bregðast við. Sem einstaklinga, sem hreyfingar, sem borgar og sem lands.

Margt gott hefur gerst í Reykjavík í þessum efnum, ekki síst fyrir tilstuðlan Vinstri grænna. Miklar umbætur hafa orðið á hjólastígakerfi borgarinnar, almennignssamgöngur eru í stöðugri þróun og aðförin að einkabílnum er ekki lengur bara áhugamál kreddufullra vinstrimanna og umhverfishippa heldur sjálfsagt viðfangsefni allra stjórnmálaflokka.

En betur má ef duga skal og þar á krafan um réttlátari Reykjavík aldeilis við. Enn virðist enginn annar stjórnmálaflokkur vera reiðubúinn að horfast af alvöru í augu við vandann sem við blasir á Hellisheiði, þar sem Orkuveitan hefur gengið allt of hart fram gagnvart jarðhitauðlindinni á Hengilssvæðinu og enn eru uppi hugmyndir um frekari virkjanir. Brennisteinsmengun leggur yfir svæðið og niðurdæling affallsvatns veldur jarðskjálftum.

Í réttlátu samfélagi ganga menn ekki fram af náttúrunni
Í réttlátu samfélagi er náttúran látin njóta vafans
Í réttlátu samfélagi er fjármunum almennings ekki varið í tilraunastarfsemi í þágu mengandi stóriðju
Í réttlátu samfélagi er borin virðing fyrir lýðheilsu og eignum fólks umfram möguleg gróðasjónarmið orkufyrirtækja
Það verður að stíga varlega til jarðar. Við verðum að staldra við og bíða, draga lærdóm af öllum þeim stórfenglegu mistökum sem gerð hafa verið og vinda ofanaf gerræðislegum samningum um frekari orkuöflun til stóriðju.

Kæru félagar.

Þau verkefni sem ég hef farið hér í kvöld mun enginn vinna nema Vinstrihreyfingin grænt framboð. Það er ekkert framboð með jafn skýra sýn og jafn heildstæða stefnu um réttlátara samfélag.

Ekkert annað framboð er reiðubúið til að afnema efnahagslegar hindranir til menntunar – m.a.s. Jafnaðarmannaflokkur Íslands telur kostnaðarþátttöku foreldra mikilvæga fyrir þjónustu hins opinbera og enginn fer í grafgötur með afstöðu, aðgerðir eða fyrirætlanir hægriflokkanna.

Ekkert annað framboð er tilbúið til að standa vörð um grunnþjónustu og samfélagsleg fyrirtæki. Samfylking og Björt framtíð hafa aldeilis sýnt vilja í verki á kjörtímabilinu, farið í viðræður við lífeyrissjóði vegna verkefna Orkuveitu Reykjavíkur, boðið út ferðaþjónustu fatlaðra og selt hlut okkar Reykvíkinga í HS-Veitum. Og aftur þarf ekkert að segja ykkur frá afstöðu, aðgerðum eða fyrirætlunum hægriflokkanna.

Ekkert annað framboð hefur talað fyrir ábyrgri auðlindanýtingu, gegn stóriðjustefnunni og með almannahagsmunum, umhverfi, náttúru og komandi kynslóðum. Fagurt Ísland Samfylkingarinnar er dregið fram fyrir kosningar, Besti flokkurinn syngur í karaókí fyrir auðlindir á meðan fjölmiðlar veita því athygli – en því miður er ekki stólandi á þessa flokka þegar á reynir. Og enn eina ferðina þarf ég ekki að segja ykkur frá afstöðu, aðgerðum eða fyrirætlunum hægriflokkanna.

Það er alveg ljóst – að Vinstrihreyfingin grænt framboð er eini raunverulegi valkosturinn ef við viljum samfélag félagslegs réttlætis með öllu því sem slíkt samfélag inniber – umhverfisvernd, frið og kvenfrelsi.

Kæru félagar.

Ég ætla að enda þetta á að ræða stöðu stjórnmálanna í dag – akkúarat í dag, þremur dögum fyrir kosningar. Eftir afdrifaríkar kosningar í Evrópu þar sem öfgahægri og rasismi vann stórsigur virðist ógnvekjandi alda vera að flytjast með ofsahraða til Íslands.

Könnunin í dag og þróun kannana undanfarna daga bendir til þess að Framsóknarflokknum takist jafnvel að ná inn manni í borgarstjórn með fordæmalausum og fordómafullum málflutningi á kostnað minnihlutahópa og mannréttinda. Tilhugsunin er óbærileg. Ekki bara tilhugsunin um stjórnmál þar sem leyfilegt er að valta yfir grundvallarmannréttindi – heldur ekki síður um að borgarbúar séu mögulega reiðubúnir að velja þessi sjónarmið framyfir önnur.

Framsóknarflokkurinn bauð fram og tók sér strax pláss sem gamaldags, heiftúðugt niðurrifsafl. Ekki bara gamaldags íhald, heldur reglulega harðsnúið öllu því sem gert hefur verið eða boðað til framfara. Þegar svo við bættist boðskapur sem elur á fordómum og rasisma keyrði um þverbak.

Eitt er þó verra en tilhugsunin um borgarstjórn með Framsóknarmönnum. Það er tilhugsunin um borgarstjórn með Framsóknarmönnum án Vinstri grænna. Könnunin í dag og þróunin undanfarna daga gefur okkur tilefni til að óttast það að rödd Vinstri grænna hverfi úr borgarstjórnarsalnum. Það má ekki gerast.

Nú reynir á – af alvöru.

Ástandið í samfélaginu kallar á skýra, sterka og háværa vinstrirödd. Vinstrið er mótvægið við öfgarnar – mótvægið við misréttið – mótvægið við fordómana.

Við erum vinstrið kæru félagar. Það er okkar að tryggja að rödd Vinstri grænna hljómi áfram á vettvangi borgarstjórnar, að áfram verði barist með kjafti og klóm gegn misrétti – gegn arðráni – gegn rányrkju – með réttlæti – með ábyrgð og sanngirni.

Við trúum á málstaðinn. Við stöndum með honum. Við höfum kjark og kraft til að berjast. Látum það gerast. Tökum öll þátt.

Ég vona svo sannarlega kæru félagar að ég sé að gera úlfalda úr mýflugu. Að vondu kannanirnar séu rangar og góðu kannanirnar réttar. En það gefur ekki síður tilefni til þess að við leggjum allt undir næstu daga. Því ef bestu kannanir reynast réttar og við leggjum samt allt undir – þá tryggjum við ekki bara rödd Vinstri grænna – heldur helmingi sterkari rödd. Þá náum við því markmiði sem við höfum stefnt að í allt vor og munum ekki gefa upp á bátinn – að ná Líf Magneudóttur inn í borgarstjórn.

Á laugardaginn eigum við í alvörunni möguleika á að tryggja líf í borgarstjórn. Gerum það á þeim þremur dögum sem eftir eru. Setjum undir okkur hausinn og sannfærum borgarbúa.

Áfram við!

Sóley Tómasdóttir

Ræðan var flutt á skemmtikvöldi Vinstri grænna í Reykjavík 28. maí 2014.