Posts

Þingmenn VG hittu forystu SGS og BHM

Í tilefni af harðnandi kjaradeilum á vinnumarkaði fundaði þingflokkur Vinstri grænna með forystu Starfsgreinasambandsins (SGS) og Bandalag háskólamanna (BHM). Ljóst er að stórir hópar launafólks hafa setið eftir í kjörum undanfarin ár og tímabært að bæta kjör þeirra verulega.

Á fundunum kom fram að sérstaklega þarf að huga að kjör þeirra sem eru með lægstu launin og tryggja að dagvinnulaun standi undantekningarlaust undir framfærslu. Krafa Starfsgreinasambandsins um að lægstu laun verði 300.000 kr. á mánuði innan þriggja ára er raunhæf og hógvær í ljósi þess sem gerist víða annars staðar í samfélaginu. Jafnframt er mikilvægt að menntun og reynsla sé metin til laun eins og Bandalag háskólamanna gerir kröfu um. Margir hópar háskólamenntaðra, svo sem í velferðarkerfinu, hafa setið eftir undanfarin ár og það þarf að leiðrétta.

Mikill baráttuandi er í launafólki og verkföll stórra hópa yfirvofandi ef ekki koma raunhæf tilboð frá viðsemjendum þeirra. Vinstri græn standa heilshugar með launfólki og samtökum þeirra í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum!

Stöðugleiki byggður á jöfnuði

Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins eru komnar í hnút og gæti stefnt í verkfall á vormánuðum. Þetta hlýtur að vera öllum áhyggjuefni og snúin staða að vera í sporum viðsemjenda en ekki síður stjórnvalda.
Við ríkisstjórnarborðið eru menn hins vegar ekki á eitt sáttir um hvert hlutverk stjórnvalda á að vera til að tryggja frið á vinnumarkaði. Þar hefur fjármálaráðherra sagt í viðræðum á Alþingi að hann líti á þetta sem verkefni aðila vinnumarkaðarins en forsætisráðherra hefur talað fyrir því að það sé sérstakt markmið kjarasamninga að bæta kjör lág og millitekjuhópa án þess að útfæra það nánar.

Aðgerðir stjórnvalda það sem af er þessu kjörtímabili hafa hins vegar ekki greitt fyrir kjarasamningum sem snúast fyrst og fremst um það að lágtekjuhópar fái raunverulegar umbætur á sínum kjörum. Aðgerðir stjórnvalda hafa nefnilega einmitt snúist um að hossa undir afturendann á hátekjufólki en forgangsverkefni þeirra hafa verið að lækka veiðigjöld (á sama tíma og stórútgerðir greiða sér út milljarða í arð), afnema auðlegðarskatt sem lagður var á þá sem mestar eignir eiga, hækka matarskatt sem kemur mun verr við lág- og millitekjuhópa en þá sem hærri tekjur hafa og nú hefur ráðherra fjármála kynnt fyrirætlanir um að fækka skattþrepum á einstaklinga en þrepaskipt skattkerfi (sem tekið var upp í tíð síðustu ríkisstjórnar) er mikilvægt tæki til tekjujöfnunar ólíkt því flata skattkerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn kom á á árunum fyrir hrun. Skattastefnan hefur nefnilega líka áhrif á kjörin og í þeim efnum hafa önnur Norðurlönd ekki hikað við að skattleggja hæstu tekjur sem meðal annars útskýrir þá staðreynd að íslenskir stjórnendur eru tekjuhærri en norrænir kollegar þeirra.

Allar þessar aðgerðir styrkja stöðu hátekjuhópanna og fleira mætti raunar tína til. Því skal engan undra að Starfsgreinasambandið berji nú í borðið og geri kröfu um að lægstu taxtar fari ekki undir þrjú hundruð þúsund krónur á mánuði. Og að sjálfsögðu er holur hljómur í þeim svörum að hér verði að varðveita stöðugleika þegar á sama tíma birtast ný gögn um misskiptingu eigna í samfélaginu þar sem ríkustu tíu prósentin eiga 70% alls auðs. Og að á sama tíma séu tíu prósent landsmanna séu undir lágtekjumörkum. Viljum við varðveita þann stöðugleika? Ég svara því neitandi.
Við hljótum að gera þá kröfu til stjórnvalda að þær breytingar sem ráðist er í ýti undir jöfnuð en fari ekki beina leið í hina áttina, í átt til aukinnar misskiptingar. Það er sú krafa sem við hljótum að gera og það er það markmið sem við ættum að fylkja okkur á bak við. Því miður hafa aðgerðir stjórnvalda ekki snúist um það – ég hef þegar nefnt skattabreytingar í þágu hátekju- og eignafólks en fleira mætti telja til; sívaxandi greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu, takmarkað aðgengi eldri nemenda að menntun, aðgerðir í húsnæðismálum sem einungis gagnast íbúðareigendum en ekki leigjendum og svo framvegis.

Raunverulegur stöðugleiki verður að snúast um mannsæmandi kjör alls almennings í landinu. Hann má ekki snúast um að varðveita misskiptingu í samfélaginu. Gegn henni eigum við að berjast og styðja kröfu lágtekjuhópanna um að hægt verði að lifa af dagvinnulaunum í landinu.

Katrín Jakobsdóttir

Sameinumst um að fólk geti lifað af launum sínum

Katrín Jakobsdóttir gerði kröfu Starfsgreinasambandsins um að lægstu taxtar fari ekki undir 300 þúsund krónur að umtalsefni á Alþingi í dag en margir virðast súpa hveljur yfir þeirri kröfu. Hún benti á að miðað við opinber neysluviðmið velferðarráðuneytisins séu dæmigerð útgjöld fimm manna fjölskyldu, tveggja fullorðinna og þriggja barna, án húsnæðiskostnaðar (sem venjulega vegur þungt) um 610 þúsund krónur á mánuði.

Katrín sagði meðal annars að „Við hljótum að gera þá kröfu að fólk geti lifað af launum sínum því þó að mikilvægt sé að varðveita stöðugleika, snýst stöðugleiki ekki aðeins um hagstærðir, hann snýst líka um að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum.“ Hún benti ennfremur á að öll gögn sýndu að það væru mikil verðmæti til í þessu samfélagi, þeim væri hins vegar ekki skipt jafnt.