Posts

Um endurheimtur

Steingrímur J. Sigfússon skrifar

Hag­fræði­dokt­or­arn­ir Ás­geir Jóns­son og Hersir Sig­ur­geirs­son hafa unnið áhuga­verða skýrslu fyr­ir­ fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið um end­ur­heimtur kostn­aðar rík­is­sjóðs vegna ­falls bank­anna. Heild­ar­nið­ur­staðan er sú að rík­is­sjóður hefur þegar end­ur­heimt í arð­greiðsl­um, vaxta­tekjum og eignum allan útlagðan kostnað vegna falls fjár­mála­kerf­is­ins og gott bet­ur. Þar með er að sjálf­sögðu ekki sagt að ­rík­is­sjóður hafi fengið end­ur­heimtur vegna alls tjóns­ins sem á hann féll, bein­t og óbeint, vegna hruns­ins. Svo er ekki og það taka höf­undar skýrsl­unnar skýrt fram og má í því sam­bandi minna á beinan rekstr­ar­halla rík­is­sjóðs og skulda­söfnun frá hruni fram til árs­ins 2013 að jafn­vægi var náð.

Rík­is­sjóð­ur­ kemur vel út úr upp­gjör­inu

Í umræddri skýrslu er fjallað um fjár­mögnun nýju bank­anna og er sá þáttur sér­stak­lega for­vitni­leg­ur. Þar eru í bak­grunni nið­ur­stöður samn­inga um upp­gjör eigna milli gömlu bank­anna og þeirra nýju sem fram fóru til að gera nýju bönk­unum kleift að mæta skuld­bind­ingum sínum við inni­stæðu­eig­endur en sam­kvæmt neyð­ar­lög­unum sem sett voru haustið 2008 öðl­uð­ust kröfur þeirra for­gang.

Ýmsir aðil­ar, sem hér verður ekki hirt um að til­greina, hafa freistað þess af mik­illi áfergju að láta líta svo út sem afar illa hafi tekist til við eigna­upp­gjör­ið. Efni og nið­ur­stöður skýrslu hag­fræð­ing­anna leiða ann­að í ljós en í henni er sýnt fram á að sam­an­lagðar vaxta­tekj­ur, arð­greiðslur og hluta­fjár­eign rík­is­sjóðs eru tæpum 138 millj­örðum króna (á verð­lagi hvers árs) hærri en vaxta­gjöld og útistand­andi skuldir í skulda­bréfum sem gefin voru út ­vegna fjár­mögn­unar nýju bank­anna (RIKH 18). Þetta merkir ein­fald­lega að rík­ið kemur út með 138 millj­arða í plús vegna ráð­staf­ana sem gerðar voru til að fjár­magna nýju bank­ana og nemur sú upp­hæð um 5,5% af VLF. Þótt dreg­inn séu frá­ lið­lega 20 millj­arðar króna kostn­aður vegna spari­sjóða sem kom til vegna lof­orða til íslenskra inni­stæðu­eig­enda um að tryggja allar inni­stæð­ur, í Spari­sjóði Kefla­víkur jafnt sem ann­ars stað­ar, er ríkið samt sem áður vel yfir­ 100 millj­örðum í plús.

Mál er að l­inni svika­brigslum og níði

Nið­ur­staða skýrslu hag­fræð­ing­anna er vita­skuld einkar ánægju­leg fyrir alla lands­menn. Það góða ­fólk sem lagði nótt við dag árið 2009 við að end­ur­reisa og fjár­magna fall­ið ­banka­kerfi Íslands, sem kall­aði á óhemju flókna og viða­mikla samn­inga milli­ ­föllnu fjár­mála­stofn­an­anna og þeirra nýju, ætti nú ekki lengur að þurfa að sitja undir linnu­lausum og til­hæfu­lausum sam­sær­is­kenn­ingum og brigslum um svik­sam­leg­t ­at­hæfi eða jafn­vel land­ráð.

Ónýt samgönguáætlun

Steingrímur J. Sigfússon skrifar

Á borðum okkar þingmanna liggur þessa dagana enn ein vanmáttug tilraun ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til þess að uppfylla lagaskyldu sína um að unnið sé samkvæmt gildri samgönguáætlun. Skemmst er frá því að segja að hvað innihaldið varðar er verr af stað farið en heima setið. Plaggið er ónýtt.

Hörmungarsaga fyrri tilrauna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum verður ekki rakin hér. Niðurstaðan er að stjórn sem nú hefur þegar að mestu leyti lifað lífi sínu, samanber að vísu óljós loforð um kosningar í haust, hefur enga samgönguáætlun afgreitt. Verst er auðvitað að málaflokkurinn hefur verið vanræktur og sveltur þannig að til stórtjóns horfir. Ákvörðunarvaldið um skiptingu vegafjár hefur í tvígang verið tekið úr hinum lögbundna farvegi samgönguáætlunar samþykktri af Alþingi og yfir á ríkisstjórnarborðið þar sem smávægilegum aukafjárveitingum hefur verið skipt af ríkisstjórn en ekki Alþingi. Vinnubrögðin og frammistaðan fá því falleinkunn hvernig sem á málin er litið.

Samgönguinnviðirnir að hrynja

En víkjum þá að því sem mestu skiptir að ræða. Það er hvar við erum á vegi stödd með okkar samgöngukerfi, hvaða fjármunum við erum að verja til viðhalds og uppbyggingar samanborið við þörf og í þjóðhagslegu samhengi. Niðurstaðan af slíkri skoðun er hrollvekjandi. Tímans og plássins vegna verður hér látið duga að ræða f.o.f. vegamálin, en staðan er síst betri þegar litið er til hafna og flugvalla.

Vinnubrögðin við úrbætur í fjarskiptamálum eru svo kapítuli út af fyrir sig en þar hefur sveitarfélögunum verið att saman í kapphlaup um allt of litla fjármuni til ljósleiðaravæðingar í strjálbýli og í minni þéttbýliskjörnum.

Sagan kennir okkur að ríkið þarf að meðaltali að verja a.m.k. 2% af vergri landsframleiðslu til fjárfestinga þannig að samgönguinnviðir, húsakostur og annað það sem ríkið þarf að byggja upp til að mæta kröfum hvers tíma séu í sæmilegu lagi. Verg landsframleiðsla, VLF, er um þessar mundir nálægt 2.200 milljarðar króna. Fjárfestingar ríkisins ættu samkvæmt því að vera um 45 milljarðar á ári og stærsti einstaki fjárfestingaliðurinn hefur jafnan verið á sviði vegamála. Fjarri fer að við séum á þeim stað. Samanlagðar fjárfestingar hins opinbera, þ.e. að sveitarfélögunum meðtöldum, og þó viðhaldi sé bætt við, gera varla betur en ná ofangreindu viðmiði. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur, þrátt fyrir batnandi árferði, samfelldan hagvöxt frá síðari hluta árs 2010 og ríkisfjármál í jafnvægi frá árinu 2013, hlutir sem hún tók í arf, sáralítið aukið fjárfestingar að nafnvirði og alls ekki sem hlutfall af VLF. Málaflokkurinn er síst betur staddur hvað fjárveitingar snertir en á erfiðustu árunum eftir hrun.

Hvað vegina snertir hefur þetta grafalvarlegar afleiðingar. Þrátt fyrir umtalsvert aukna umferð landsmanna sjálfra á nýjan leik og stóraukinn ferðamannastraum, færumst við fjær því en ekki nær að halda í horfinu hvað viðhald snertir og núverandi vegakerfi beinlínis liggur undir skemmdum. Til nýbygginga samtals á svo aðeins að verja 10–13 milljörðum króna árlega samkvæmt hinni nýframlögðu samgönguáætlun. Áætlunin horfir reyndar að hluta aftur í tímann, sbr. árin 2015–2018, sem hún tekur til. Það segir auðvitað sitt um frammistöðuna að nú er lögð fram afturvirk samgönguáætlun.

Norðausturkjördæmi

Ekki er annað hægt en nefna útkomu Norðausturkjördæmis hvað vegaframkvæmdir snertir, óljúft sem það þó er greinarhöfundi að fara út í slíkt. Ég hef á langri pólitískri æfi sem þingmaður og ráðherra glaðst af hjarta yfir öllum mikilvægum samgöngubótum hvar í landinu sem þær verða. En nú er svo að hagsmunum Norðausturkjördæmis vegið að ekki verður um það þagað. Margt af því sem hér verður rakið á meira og minna við um önnur svæði landsins, svo sem óviðunandi ástand tengi- og héraðsvega. Helst eru það Vestfirðingar sem hafa yfir einhverju að gleðjast þar sem hillir undir Dýrafjarðargöng og byrjunarframkvæmdir á Dynjandisheiði í lok áætlunartímans.

Skemmst er frá því að segja að þegar Norðfjarðargöngum lýkur á næsta ári, framkvæmd sem sett var af stað á grundvelli fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili, þá þorna að mestu upp nýframkvæmdir á sviði vegamála í Norðausturkjördæmi. Á Norðursvæði er nánast engum fjármunum varið til framkvæmda seinni tvö árin, 2017 og 2018, eða 50–100 milljónum að slepptum almennum undirbúningi. En hér koma helstu staðreyndir um útkomu Norðausturkjördæmis:

Mesta fuðu vekur að samkvæmt samgönguáætlun á að láta staðar numið við Dettifossveg þegar núverandi framkvæmdum neðan frá Ásbyrgi og upp í Vesturdal lýkur á þessu ári. Engar fjárveitingar eru í framhaldið, haftið frá Vesturdal og upp að Dettifossi, árin 2017 og 2018. Dettifossvegur var annar tveggja meiri háttar ferðaþjónustuvega sem kom inn í áætlun á sínum tíma. Hin framkvæmdin var Suðurstrandarvegur frá Þorlákshöfn til Grindavíkur en þeirri framkvæmd er lokið eins og kunnugt er. Tæpast er hægt að kalla það neitt annað en svik við íbúa og ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi að ljúka nú ekki með samfelldum framkvæmdum því sem eftir er af Dettifossvegi vestan ár. Ekki er heldur hægt að fá botn í þá hagfræði sem að baki liggur. Þ.e. að ljúka ekki framkvæmd sem nú þegar er búið að leggja svo mikla fjármuni í sem raun ber vitni þannig að hún nýtist til fulls og þær vonir sem við hana hafa verið bundnar varðandi stóraukna heilsársferðamennsku geti ræst.

Framkvæmdir í Berufjarðar­botni, sem beðið hafa á áætlun undanfarin ár og tafist vegna ágreinings um vegstæði og skipulagsmál, á að teygja til 2018 ef ekki lengur miðað við fullnaðaruppgjör.

Áframhaldið inn Skrið­dal og upp að vegamótum við Breiðdalsheiði og Öxi er komið aftast í áætlunina (2018).

Rétt er látið glitta í áframhaldandi úrbætur fyrir Borgarfjörð eystri og veginn á Langanesströnd milli Bakkafjarðar og Þórshafnar á síðasta ári (2018) með smávægilegum fjármunum.

Brú á Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði er horfin út og nú fjallað sameiginlega í texta um brú á Skjálfandafljót í Kinn og Jökulsá á Fjöllum einhvern tímann inn í framtíðinni með smávægilegum undirbúningsfjárveitingum.

Þar með er það í aðalatriðum upp talið, lesendur góðir. Annað er svo smávægilegt að það tekur naumast að nefna það. Ekki vottar fyrir því brýna átaki sem löngu er orðið knýjandi í endurnýjun og uppbyggingu tengi- og héraðsvega. Ekkert svæði á eins mikið undir í því og norðan- og austanvert landið en þar er lengsta vegakerfi, samanstandandi af óburðugum malarvegum, sem fyrirfinnst.

Lokaorð

Niðurstaðan er skýr. Samgöngu­áætlunin er ónýtt plagg og útkoma Norðausturkjördæmis er sérstaklega hrakleg. Bak kosningum verður ný ríkisstjórn og nýr þingmeirihluti að gerbreyta um áherslur og setja uppbyggingu og eflingu samgönguinnviða aftur í öndvegi. Að óbreyttu er verið að mynda risavaxna skuld við framtíðina og hefta eðlilega framþróun mannlífs, atvinnulífs og byggðar langt umfram það sem efni standa til og nokkur skynsemi er í. Það sárgrætilega er að ef núverandi ríkisstjórn hefði ekki gert mikið annað en þó það að færa markaða tekjustofna til vegamála upp til verðlags undanfarin ár væri staðan allt önnur og betri. Í greinargerð með samgönguáætlun kemur nefnilega fram að ef það hefði verið gert hefði vegagerðin haft um sjö milljörðum króna meiru úr að moða. Að markaðar tekjur til vegamála skuli ekki hafa verið látnar fylgja verðlagi að undanförnu, nú þegar alveg óvenju lágt olíuverð gerir það miklum mun auðveldara en endranær, er óskiljanlegt. Allt ber að sama brunni, áhugaleysið og metnaðarleysið í þessum málaflokki er algert hjá núverandi ríkisstjórn og á því vandamáli eru kosningar eina lausnin og því fyrr því betra.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu í lok apríl

Kyndararnir í Stjórnarráðinu

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir og afleiðingar bankahrunsins má lesa um hagstjórnarmistökin sem gerð voru sem á færibandi væri á árunum upp úr aldamótum og fram að Hruni. Samandregið fólust þau í eftirfarandi;

– Fjármálastofnanir léku lausum hala. Ekki var gefinn gaumur að ofvexti hinna nýeinkavæddu banka, áhættusamri fjármögnun þeirra og glæfralegum lánveitingum og krosseignatengslum., Þá var eftirliti með fjármálastarfsemi  ábótavant og ekki var skeytt um að treysta innviði og stofnanir samfélagsins sem hefðu getað afstýrt óförunum.

– Stóriðjufjárfestingu, sem nam hátt í 1/3 af vergri landsframleiðslu þess tíma, var dælt nánast með handafli inn í hagkerfið á örfáum misserum svo gríðarleg þensla hlaust af.

– Peningastefnan og máttlitlir tilburðir Seðlabankans til að hemja þenslu vísuðu í vestur en aðgerðir ríkisstjórnar, einkum í skattamálum og húsnæðismálum, í austur. Misvísandi hagstjórnaraðgerðir urðu þannig til að gera illt verra.

– Kosningavíxlar Sjálfstæðisflokks um stórfelldar skattalækkanir hátekjufólks og fjármagnseigenda og Framsóknamanna um hækkað veðsetningnarhlutfall húsnæðislána voru látnir falla á landsmenn þrátt fyrir augljós einkenni ofhitnunar í hagkerfinu. Í kjölfarið ruddust bankarnir inn á íbúðalánamarkaðinn, buðu 100% fjármögnun íbúðakaupa og fljótlega kviknaði í byggingargeiranum.

– Vítahringur vaxtahækkana, styrkingar raungengis og stórfellds viðskiptahalla var látinn haldast órofinn árum saman þótt ljóst væri að allt stefndi í óefni.

– Hagvöxtur var drifinn áfram af síaukinni skuldsetningu heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga og reyndist því tálsýn.

– Ávöxtun á hlutabréfamarkaði byggðist á uppskrúfuðum sýndarverðmætum, froðu og hringferli fjármuna í skuldsettum yfirtökum samtímis því að raunverulegt eigið fé margra fyrrum traustra fyrirtækja var flegið innan úr þeim og sólundað en eftir stóðu galtómar skeljar.

Þannig var það og ískaldar afleiðingarnar birtust í Hruninu.

Aldrei aftur, var það ekki?

Það hefur svo sannarlega kostað fórnir, blóð, svita og tár að komast þangað sem við þó erum komin, Íslendingar. Sem betur fer sneri neikvæða hagsveiflan við undir lok árs 2010 og síðan hefur verið samfelldur hagvöxtur, atvinnuleysi hefur minnkað og stórfelldum hallarekstri ríkissjóðs var snúið í jöfnuð frá og með árinu 2013. Batinn hefur haldið áfram undanfarin tvö ár og nú segja hagfræðingar að slakinn sé horfinn úr þjóðarbúskapnum.

En hvað þýðir það á mannamáli að slaki sé horfinn úr þjóðarbúskapnum? Hvað þýðir það skoðað í ljósi biturrar reynslu af mistökunum, ég vil segja afglöpunum, sem framin voru á Íslandi á árunum fyrir Hrun? Jú, þýðir það ekki að þensla, ójafnvægi og svo ofhitnun geti verið handan við hornið ef við gætum ekki að okkur? Og ætlum við ekki að gera það núna, gæta að okkur það er að segja? Sögðum við ekki, öll sem eitt, á árunum fyrst eftir hrun að ein ríkasta skyldan við okkur sjálf og framtíðina væri að gera allt sem í okkar valdi stæði til að fyrirbyggja að slíkar efnahagslegar og félagslegar hamfarir af manna völdum gætu nokkurn tímann endurtekið sig? Jú, mig minnir það.

Er byrjað að kynda upp?

Í ljósi þess sem að ofan greinir hlýtur það nú að vera skylda okkar að vera vel á verði, spyrja hinna gagnrýnu spurninga og bregðast við áður en það er um seinan. Við sem reyndum að vara við og benda á hætturnar á fyrirhrunsárunum vorum gjarnan afgreidd sem fúl á móti, við sæjum ekki veisluna, við værum á móti framförum og nýjum tímum. Nú vilja ólíklegustu aðilar þá Lilju kveðið hafa, halda því fram að þeir hafi varað við, jafnvel séð hrunið fyrir. Látum það vera, en hvernig munu menn þá taka því nú þegar óhjákvæmilegt er að mæla þessi varnaðarorð:

– Núverandi ríkisstjórn hefur þegar veikt tekjugrunn ríkisins umtalsvert. Þar munar mest um niðurfellingu auðlegðarskatts upp á 11 milljarða, lægri veiðigjöld svo milljörðum nemur, 5-6 milljörðum lægri tekjuskatt vegna lækkunar á miðþrepi, nokkurra milljarða tekjutap í tengslum við niðurfellingu vörugjalda og lækkun efra þreps virðisaukaskatts sem hækkun matarskatts vegur ekki upp, niðurfellingu orkuskatts um næstu áramót upp á 2 milljarða. Þá hefur verið látið undir höfuð leggjast að færa upp til samtímaverðlags ýmis krónutölugjöld (bensíngjald, olíugjald o.s.frv.) með nokkurra milljarða tekjutapi, og er ekki allt upp talið. Þannig ákvað ríkisstjórnin á dögunum að leggja til aukafjárveitingar í fjáraukalögum uppá 2,65 milljarða, vissulega í þörf og brýn verkefni, en það eru útgjöld samt og tekjur til að mæta þeim vantar.

Samtals er tekjugrunnur ríkisins orðinn a.m.k. 30 milljörðum veikari en hann var á árinu 2013 án þess að tekið sé tillit til þess að þessir tekjustofnar gæfu nú meira af sér en fyrr í krafti efnahagsbatans. Og nú á að sögn að bæta a.m.k. 20 milljörðum við þessa tölu til að liðka fyrir kjarasamningum í formi tapaðra skatttekna og aukinna útgjalda. Það hafa því lekið út tekjur og bætst við útgjöld á vakt þessarar ríkisstjórnar sem veikja fjárhagsstöðuna umtalsvert. Enda er ríkisfjármálaáætlun fjármálaráðherra, sem nú liggur fyrir Alþingi, fremur daufleg lesning með afkomu ríkissjóðs rétt við núllið næstu fjögur ár og var það áður en útgjaldapakkinn tengdur kjarasamningum kom fram. Frekari bati í afkomu ríkisins er því að stöðvast og verða að engu í höndum hinna reynslulitlu kyndara í Stjórnarráðinu. Ekki er það góður undirbúningur undir glímu við aukna þenslu né heldur undir raunverulega niðurgreiðslu skulda sem leiða myndi til lægri vaxtakostnaðar ríkissjóðs og þar með aukna getu hans til að standa undir útgjöldum til velferðarmála á komandi árum.

– Umtalsverðar fjárfestingar í meðalstórum iðnfyrirtækjum, hótelum og auknum íbúðarbyggingum eru nú að bætast inn í hagkerfið. Allt er það ánægjulegt en þetta þarf að taka með í reikninginn þegar þanþol hagkerfisins er metið.

-Ekki verður séð af lauslegri þjóðhagsgreiningu að þörf sé á að þvinga með handafli í gang enn fleiri virkjanir og stóriðjufjárfestingar en þegar eru í undirbúningi, en til þess stendur vilji stjórnarmeirihlutans eins og kunnugt er, þó á kostnað vandaðra, faglegra vinnubragða og laga um rammaáætlun sé.

– Seðlabankinn er dæmdur til að hækka vexti við þessar aðstæður sem er nógu bölvað þótt það leiði ekki endilega til óraunhæfrar styrkingar gengis, þökk sé grimmum og sjálfsögðum uppkaupum bankans á gjaldeyri.

– Peningamagn í umferð er enn alltof mikið á Íslandi og gríðarmikil fjárfestingargeta lífeyrissjóðanna safnast upp í hagkerfinu sökum fjármagnshaftanna.

– Fyrstu merki bólumyndunar eru vel sýnileg á fasteignamarkaði, a.m.k. í 101 Reykjavík, og eru þó áhrif hinnar fráleitu skuldaniðurfærslu, sem að allt of stórum hluta skilaði fjármunum úr ríkissjóði til fólks sem var í ágætum efnum fyrir, væntanlega ekki nema að litlu leyti komin fram.

– Vöruskiptajöfnuðurinn hefur verið að veikjast undanfarin misseri og ef ekki kæmi til hinn ævintýralegi vöxtur ferðaþjónustunnar og jákvæður þjónustujöfnuður væri viðskiptajöfnuðurinn í heild ekki beysinn.

Förum varlega með eldinn

Margt fleira mætti tína til sem ástæða er til að hafa gætur á. Niðurstaðan er að jafn innilega og við gleðjumst yfir áframhaldandi bata í þjóðarbúskapnum, hagvexti, minnkandi atvinnuleysi o.s.frv., þá þurfum við að halda vöku okkar og reyna að læra af fyrri og biturri reynslu. Það er ekki kviknað í, en eldsmaturinn er víða, og spurning hvort núverandi ráðamönnum okkar sé treystandi fyrir eldspýtunum. Um það hef ég miklar og vaxandi efasemdir eins og reyndar sístækkandi meirihluti þjóðarinnar ef marka má skoðanakannanir. Það hættulega er að uppsveiflutími þenslu og ofhitnunar virkar eins og þægilegt deyfilyf á gagnrýnislausa svefngengla. Ríkissjóður flýtur um sinn vegna froðutekna af efnahagsumsvifum sem svo reynast ekki innistæður fyrir og þá verður harkalegur samdráttur óumflýjanlegur, en við eigum ekki að þurfa að gera þá tilraun aftur. Við vitum af nýlegri og dýrkeyptri reynslu hvernig hún endar.

Agaður ríkisbúskapur með vaxandi afgangi af ríkissjóði sem þannig styddi við markmið peningastefnunnar um leið og forgangsraðað væri í þágu hinna tekjulægri, velferðarkerfisins og mikilvægustu innviðafjárfestinga er leiðin sem þarf að fara. Kjarasamningar, sem hækka sérstaklega hin smánarlega lágu lægstu laun á Íslandi og væru studdir af samkynja skattalegum aðgerðum, verða samt að rúmast innan þess ramma sem þjóðarbúskapnum eru settir og það myndu þeir gera ef rétt væri spilað á móti meðal annars og ekki síst í ríkisfjármálunum. Aukinn jöfnuður er svarið og er í senn bæði samfélagslím og hagstjórnartæki sem alltof oft er horft framhjá í glímunni við þessi mál. Ójöfnuðurinn er uppdráttarsýki kapítalismans, innanmein hans, sem fyrr en síðar gengur af honum dauðum ef svo heldur sem horfir.

Höfundur er alþingismaður og fyrrverandi fjármálaráðherra

Rammaáætlun, ferðaþjónusta og framtíðin

Í umræðum um hina forkastanlegu breytingatillögu meirihluta atvinnumálanefndar (Jón Gunnarsson og Co) við tillögu umhverfisráðherra um Rammaáætlun hefur afhjúpast að hjá sumum hefur klukkan staðið kyrr í 30 til 40 ár. Gamla dólga-stóriðjustefnan lifir enn góðu lífi í hugum sumra stjórnmálamanna og jafnvel heilla flokka. Í þágu hennar á að henda á haugana allri viðleitni til að sætta sjónarmið nýtingar í þágu orkuframleiðslu og verndar eða annars konar nýtingar. Lögbundið ferli Rammaáætlunar og fagleg vinnubrögð skulu víkja í þágu þess að áfram verði hægt að hafa opið hús fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar.

Þetta er þeim mun merkilegra þar sem ekki linnir fréttum af áframhaldandi og örum vexti ferðaþjónustunnar, stærstu gjaldeyrisöflunargreinar íslenska þjóðarbúsins. Óumdeilt er að sterkasta aðdráttarafl erlendra ferðamanna til landsins er íslensk náttúra. Margendurteknar rannsóknir sýna að að minnsta kosti 70 til 80 prósent erlendra ferðamanna sem landið sækja heim nefna íslenska náttúru sem fyrstu eða meginástæðu þess að þeir kjósa Ísland sem áfangastað. Engu að síður er talað og aðhafst eins og hagsmunir þeirrar greinar séu hrein afgangsstærð þegar kemur að álitamálum um verndun íslenskrar náttúru. Gildir þá einu hvort í hlut á framganga stjórnarmeirihlutans í atvinnuveganefnd eða áform Landsnets um risavaxna háspennulínu þvert yfir og í gegnum miðhálendi Íslands, helst með Vegagerðina í eftirdragi með uppbyggðan veg. Lítum nú aðeins nánar á þjóðhagslegt samhengi þessara hluta.

Hreinar gjaldeyristekjur

Áætlað er að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafi farið yfir 300 milljarða króna á síðasta ári. Ef vöxtur greinarinnar í ár verður eitthvað nálægt því yfir árið eins og verið hefur á fyrstu fjórum mánuðunum (35 prósent í janúar, 35 prósent í febrúar, 27 prósent í mars og 21 prósent í apríl) þá er varlega áætlað að gjaldeyristekjurnar verði 350 milljarðar króna í ár. Nálgæt 80 prósetn af veltu greinarinnar verður eftir í íslenska hagkerfinu. Með öðrum orðum, hreinar, nettó, gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu stefna í nálægt 280 milljarða króna.

Í öðru sæti kemur sjávarútvegurinn og við skulum áætla að útflutnings- eða gjaldeyristekjur hans verði ívið meiri en í fyrra eða um 280 milljarðar. Nota má svipuð hlutföll um það sem eftir verður í innlenda hagkerfinu í tilviki sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar eða 80 prósent. Auðvitað er það eitthvað breytilegt milli ára, lægra hlutfall þegar mikið er samtímis flutt inn af skipum og/eða olíuverð er hátt, en hærra þegar svo er ekki. Þar með má áætla að hreinar gjaldeyristekjur frá sjávarútvegi verði um 225 milljarðar.

Og þá að orkufrekri stóriðju. Ef við ætlum henni sömuleiðis að gera ívið betur í ár en í fyrra gætu gjaldeyristekjurnar orðið um 230 milljarðar. En þá ber svo við að skilahlutfallið til þjóðarbúsins, það sem endar innan hagkerfis landsins, er allt annað og lægra en í fyrri tilvikunum tveimur. Nálægt 35 prósent af veltu stóriðjunnar endar hér og það gerir hreinar gjaldeyristekjur uppá nálægt 80 milljarða.

Samanburðurinn leiðir þá þetta í ljós: Ferðaþjónustan skilar hreinum gjaldeyristekjum upp á 280 milljarða, sjávarútvegurinn 225 og stóriðjan 80.

Framtíðin

Í hverju liggja þá okkar framtíðarhagsmunir skoðað í þessu þjóðhagslega samhengi? Að bregðast gæsluhlutverki okkar gagnvart landinu og náttúrunni og fórna hagsmunum ferðaþjónustunnar á altari stóriðjunnar sem skilar þjóðarbúinu minna en þriðjungi þess gjaldeyris sem ferðaþjónustan gerir? Tæplega getur það talist skynsamleg áhersla fyrir land sem á fjárhagslega afkomu sína undir því að afla gjaldeyristekna og viðhalda jákvæðum greiðslujöfnuði næstu árin og væntanlega langt inn í framtíðina. Eða um hvað snýst hinn þjóðhagslegi vandi samfara afnámi hafta?

Með þessu er alls ekki sagt að hófsamleg uppbygging fjölbreyttrar orkukrefjandi starfsemi, gjarnan í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, geti ekki áfram orðið hluti af okkar atvinnuuppbyggingu. En, þjóðhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi blindri, dólga-stóriðjustefnu eru einfaldlega horfnar með öllu og voru nú raunar aldrei beysnar.

Það er svo efni í næstu grein að ræða þennan öra vöxt ferðaþjónustunnar og þau umhverfislegu og þjóðhagslegu álitaefni sem honum tengjast. Þar þarf vissulega einnig að stíga yfirvegað til jarðar og viðamikilla innviðafjárfestinga og fyrirbyggjandi aðgerða er þörf.

Ríkisstjórn í afneitun?

Steingrímur J. Sigfússon vakti athygli á sinnuleysi ríkisstjórnarinnar varðandi verkfallsaðgerðir lækna undir liðnum ,,störf þingsins” á Alþingi í dag.

,,Í verkfallinu er ný hrina aðgerða að hefjast og vandræðin þar af leiðandi að aukast og tjónið þar með. Áhyggjur þeirra sem gerst þekkja til vaxa dag frá degi. Það er alveg ljóst að nú verður frestað rannsóknum og aðgerðum og ýmiss konar meðhöndlun í svo stórum stíl að biðlistar munu verða óviðráðanlega langir og kerfið er svo lestað fyrir að jafnvel þótt semdist á morgun eru möguleikarnir til að vinna þetta upp afar takmarkaðir í undirmönnuðu kerfi sem er undir miklu álagi.”

Steingrímur velti því fyrir sér hvar forustumenn ríkisstjórnarinnar væru: ,,Ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver afneitun í gangi hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, samanber það hvernig hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, og ekki síður hæstvirtur forsætisráðherra hafa talað í þessum efnum og reynt að henda boltanum í allar aðrar áttir en til síns sjálfs hvað það varðar að aðrir eigi að bera ábyrgð á því að ekki semst við lækna.”

,,Að lokum er það auðvitað þannig að íslenska ríkið verður sem launagreiðandi að vera samkeppnisfært og geta boðið þannig kjör að þessi verðmæti starfshópur fáist til að starfa á Íslandi, svo einfalt er það mál.” sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Frumvarp um Byggingarsjóð Landspítala

Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Byggingarsjóð Landspítala. Frumvarpið felur í sér að nýbyggingar fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús verði fjármagnaðar með því að leggja á tímabundinn auðlegðarskatt sem renni í sérstakan Byggingarsjóð Landspítala. Gert er ráð fyrir að auðlegðarskatturinn verði lagður á í fimm ár, 2016-2020, og má ætla að það fé safnast með þessu móti dugi til spítalabyggingar í samræmi við þau áform sem nú eru uppi.

Þessi lausn á fjármögnun nauðsynlegrar uppbyggingar á þjóðarsjúkrahúsi Íslendinga felur það í sér að kostnaður vegna hennar leggst af meiri þunga á efnameiri Íslendinga heldur en þá sem minna hafa af efnalegum gæðum. Fyrri álagning auðlegðarskatts mætti gagnrýni fyrir það að vera full íþyngjandi fyrir þá af greiðendum hans sem áttu stóran hluta þeirrar eignar sem myndaði skattstofninn í formi íbúðarhúsnæðis til eigin nota en höfðu ef til vill aðeins takmarkaðar tekjur. Við þessu er nú brugðist með því að sett er inn frímark vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að grípa til markvissra aðgerða til að fjármagna uppbyggingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss, enda ljóst að í óefni er komið með fjármögnun þess. Frumvarp um Byggingarsjóð Landspítala er ætlað að högga á þennan hnút með því að nýta skatttökuleið sem mikill stuðningur er við í samfélaginu.

Fúsk og auðmannadekur ríkisstjórnarinnar

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna sagði á Alþingi í dag að sér finnist vera fúskbragur á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum. Steingrímur J. Sigfússon fulltrúi flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd sagði að komið væri í ljós að kostnaðurinn við aðgerðinnar yrði að minnsta kosti 150 milljarðar króna sem er mun meira en ríkisstjórnin hafi gefið upp. Hann benti jafnframt á að um 400 heimili sem greiða auðlegðarskatt muni fá skuldarniðurfellingu frá ríkisstjórninni til viðbótar við niðurfellingu auðlegðarskattsins.

Kappið að bera ríkisstjórnina ofurliði

„Mér finnst einhver fúskbragur á þessu.“ sagði Katrín og bætti við: „Tilfinning mín er að kappsemi manna við að ná þessu máli í gegn dragi úr forsjálninni og menn hafi gleymt því að kapp er best með forsjá.“ Hún nefndi sem dæmi að þegar Ríkisskattstjóri, sem á að framkvæma aðgerðirnar, vari við því að ekki verði hægt að hefja framkvæmdina 15. maí eins og ríkisstjórnin hafi gefið út yppti menn bara öxlum. „Þá stígur bara hæstvirtur forsætisráðherra fram og segir: Jú víst!“ sagði Katrín og bætti við „En á góðum pítsustað eru menn með hráefnin á borðinu áður en þeir byrja að baka og vita um það bil hver niðurstaðan verður.“

Af 150 milljarða kostnaði fara 72 í lækkun skulda

Steingrímur, sem er fulltrúi Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd, sem hefur frumvörp ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar til umfjöllunar sagði að í starfi nefndarinnar hefðu komið fram upplýsingar sem sýndu að kostnaður vegna aðgerðanna yrði mun meiri fyrir ríki og sveitarfélög en látið hefði verið í veðri vaka af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hann sagði ljóst að heildarkostnaðurinn yrði að minnsta kosti 150 milljarðar króna, en þar af myndu aðeins um 72 milljarðar fara í að lækka höfuðstól húsnæðislána.

Steingrímur sagði að samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Íbúðalánasjóði væri ljóst að kostnaður ríkisins vegna tekjutaps yrði allt að 43 milljarðar og sveitarfélaganna allt að 21 milljarður. Viðbótarkostnaður Íbúðalánasjóðs gæti numið allt að 24 milljörðum króna. „Eins og þetta hafi ekki verið nóg. Þá tók meirihlutinn sig til í gær og jók umfang aðgerðanna varðandi séreignarsparnaðinn,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Samt virðist meirihlutinn ætla sér að afgreiða þessi mál án þess að nokkurt nýtt kostnaðarmat verði gert og það held ég að sé ekki boðlegt.“

Ríkasta fólkið fær skuldaniðurfellingu frá ríkisstjórninni

„Svo koma stjórnarliðar og segja að það sé algjör misskilningur að það sé verið að hygla tekjuhærra fólki. Bæði frumvörpin hafa það í eðli sínu að þeim mun hærri tekjur eða meiri skuldir, þeim mun meira fá þeir út úr aðgerðunum.“ sagði Steingrímur og hélt áfram: „Í morgun fengum við gögn frá Ríkisskattstjóra sem sýna að yfir fjögur hundruð einstaklingar sem greiða auðlegðarskatt munu fá niðurfelld lán. Um leið og þeir fá það frá ríkisstjórninni að auðglegðarskatturinn verður felldur niður.“ Steingrímur segir ljóst að aðgerðir hygli og skapi auð hjá ríkasta fólkinu á Íslandi.

Ekki til peningar til að bæta heilbrigðisþjónustu

Katrín velti fyrir sér forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hún benti á að heilbrigðisráðherra hafi í vikunni sagt að ríkið hafi ekki efni á að byggja nýjan Landspítala fyrir 60 milljarða króna. „Nýr spítali sem mun bæði stórbæta heilbrigðisþjónustu allra landsmanna og auka hagræðingu í rekstri spítalans,“ sagði Katrín og bætti við: „Þegar þessum valkostum er stillt upp, þá sannfærist ég enn frekar um að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar stjórnist af kappi frekar en forsjá, stjórnist af skammtímahagsmunum frekar en langtímahagsmunum þjóðarinnar allrar.“

Brjálæðislegar tillögur Orkustofnunar

Þau Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon þingmenn Vinstri grænna gerðu tillögu Orkustofnunar um virkjanakosti til verkefnastjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar að umtalsefni á Alþingi í dag. Þau lýstu bæði yfir furðu sinni á tillögunum og spurðu hvernig eigi að vera hægt að ná sátt í þessum málum þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti.

Brjálæðislegar hugmyndir um að fórna náttúruminjum Orkustofnun lagði á dögunum fram tillögu til verkefnisstjórnar rammaáætlunar um vernd- og nýtingu og nýtingu landsvæða. Tillagan var um 91 virkjunarkost, þar af 27 nýja.  Katrín benti á að af hinum sem ekki eru nýjir væri umtalsverður fjöldi kosta sem þegar væri búið að flokka í verndarflokk. „Hvort sem það snýst um Torfajökulssvæðið sem jafnvel stendur til að komist á skrá hjá UNESCO, hvort sem það snýst um Jökulsá á Fjöllum og að veita henni yfir í Jökulsá á Dal, Hofsá í Vopnafirði hefur hér verið nefnd sem er á náttúruminjaskrá. Við getum einnig nefnd jarðvarmasvæði eins og jaðar Torfajökuls sem kemur þarna nýr inn,“ sagði Katrín.

Steingrímur gagnrýndi Orkustofnun og sagði það hneyksli að hún skuli rökstyðja tillögu sína með því að vísa til svokallaðrar hvítbókar um innlendrar orkuauðlindir til vinnslu raforku frá árinu 1994. „Vita menn hvað er í þessari bók?“ spurði Steingrímur og hélt áfram: „Það eru fjórar mismunandi útgáfur t.d. af virkjun Hvítár, með eða án Gullfoss. Þannig er þessi bók. Það eru brjálæðislegar hugmyndir um að tæta niður fjölmargar fallegustu laxveiðiár landsins, t.d. að veita vatni úr fjórum laxveiðiám í Þistilfirði og á Langanesströnd yfir í eina þeirra, þurrka upp sumar þeirra, taka vatn úr Selá og Vesturdalsá og skutla því vestur í Hofsá o.s.frv. Það eru tillögurnar í þeirri bók sem Orkustofnun notar sem röksemdir fyrir því að tína út úr henni ýmsar brjálæðislegar 20 ára gamlar hugmyndir um virkjanir af því tagi.“ Settur rammáætlun í fullkomið uppnám Þau Katrín og Steingrímur áttu erfitt með að leyna vonbrigðum sínum yfir tillögu Orkustofnunar og sögðust bæði óttast að sú vinna sem unnin hefði verið til að ná sátt í málaflokknum væri einskis virði. „Þetta vekur mér spurningar um þau ferli sem við höfum verið að fylgja. Hvernig á að vera hægt að treysta á þau ferli þegar svæði eru ýmist friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eða flokkuð í verndarflokk af faghópum en örfáum mánuðum síðar dúkka þau upp aftur sem nýjir og vænlegir virkjanakostir,“ sagði Katrín.  Steingrímur sagðist vera gersamlega gáttaður: „Ég verð að segja eins og er að ég sé ekki betur en með þessu sé vinnan að rammaáætlun, að viðbættum kröfum orkufyrirtækjanna um að halda til streitu svæðum sem ákveðið hefur verið að flokka í vernd og Alþingi hefur samþykkt að skuli teljast í vernd, sett í fullkomið uppnám.“

Katrín Jakobsdóttir hefur sem fulltrúi Vinstri grænna í umhverfis- og samgöngunefnd óskað eftir því að málið verði tekið upp í nefndinni og að þar verði fulltrúar Orkustofnunar kallaðir á fund.

Forsætisráðherra lofar árangur vinstristjórnar

Steingrímur Sigfússon þingmaður Vinstri grænna þakkaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra fyrir þau lofsamlegu orð sem hann viðhafði um efnahagsbatann á Íslandi undanfarin misseri á Alþingi í gær. Steingrímur sagði orð forsætisráðherra og nýjar tölur frá Hagstofunni og fjármálaráðuneytinu staðfesta góðan árangur vinstristjórnarinnar við stjórn efnahagsmála undanfarin ár.

„Þar var allt rétt sagt hjá hæstvirtum forsætisráðherra, en kom kannski úr óvæntri átt miðað við málflutning ráðherrans bæði fyrir og eftir kosningar,“ sagði Steingrímur. Hann sagði nýjar tölur Hagstofunnar sýna 3,3% hagvöxt á síðasta ári og 2,5% hagvöxt að meðaltali undanfarin þrjú ár. Þá sagði hann nýjar tölur frá fjármálaráðuneytinu benda til mun betri afkomu ríkissjóðs árið 2013 en gert var ráð fyrir. „Afkoma á rekstrargrunni liggur auðvitað ekki fyrir en þó virðist stefna í að minnsta kosti fjögurra milljarða minni halla en fjáraukalög gerðu ráð fyrir hér fyrir tveimur mánuðum síðan,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Allt eru þetta ánægjulegar fréttir og staðfesta að efnahagsbatinn á Íslandi var á góðu róli og í raun mun betra en menn vildu viðurkenna bæði fyrir og eftir kosningar síðastliðið vor.“